Hæstiréttur íslands
Mál nr. 268/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 23. apríl 2014. |
|
Nr. 268/2014. |
B (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn A (Guðmundur Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður
héraðsdóms þar sem B var svipt fjárræði í sex mánuði.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar
Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttur settur
hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar
með kæru 8. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama
mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 4. apríl 2014, þar sem sóknaraðili
var svipt fjárræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga
nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr
gildi og að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða
úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða
úrskurðar verður hann staðfestur um fjárræðissviptingu sóknaraðila og
málskostnað.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga
greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila
vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að
meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er
staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Huldu
Rósar Rúriksdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, og þóknun skipaðs
talsmanns varnaraðila, Guðmundar
Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 4.
apríl 2014.
Með
beiðni, sem barst dóminum 26. mars sl., krafðist sóknaraðili, A , kt, [...], [...], þess að varnaraðili, B, kt. [...], [...], yrði svipt fjárræði með vísan til a- og b-liða 4. gr. lögræðislaga nr.
71/1997. Fyrir þingfestingu málsins barst dóminum breytt krafa sóknaraðila,
dags. 31. mars sl., þar sem þess er krafist að varnaraðili verði svipt lögræði,
þ.e. bæði sjálfræði og fjárræði, á sama lagagrundvelli og áður greinir. Við
munnlegan flutning málsins dró skipaður talsmaður sóknaraðila úr þeirri kröfu
þannig að einungis er krafist tímabundinnar lögræðissviptingar, bæði
sjálfræðis- og fjárræðissviptingar, til 6 mánaða. Þá er þess krafist að
skipuðum talsmanni sóknaraðila verði ákvörðuð þóknun úr ríkissjóði. Um aðild
sóknaraðila er vísað til a-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga, en sóknaraðili er
dóttir varnaraðila.
Af hálfu
varnaraðila er þess krafist að kröfu sóknaraðila um sjálfræðissviptingu verði
vísað frá dómi en ella hafnað og að kröfu um fjárræðissviptingu verði hafnað. Þá
er krafist þóknunar til handa skipuðum verjanda varnaraðila úr ríkissjóði.
Málið var
þingfest 2. apríl sl. og tekið samdægurs til úrskurðar.
I
Í
kröfu sóknaraðila, dags. 31. mars sl., kemur fram að varnaraðili hafi um langt
árabil verið í sambúð með C, sem hafi lokið síðast liðið sumar og sé varnaraðili
nú einhleyp. Auk sóknaraðila eigi varnaraðili fjögur börn með fyrrverandi
sambýlismanni sínum sem talin eru í beiðninni og er tekið fram að þau hafi
verið upplýst um kröfuna.
Ástæða
kröfu sóknaraðila er í beiðninni sögð alvarlegur andlegur heilsubrestur
varnaraðila og fíkniefnaneysla, sem geri hana alls ófæra til að ráða
persónulegum högum sínum, sem og fé sínu.
Í
beiðninni kemur fram að helstu eignir varnaraðila komi fram í óundirrituðum
samningi „vegna fjárskipta við slit á óvígðri sambúð“ milli hennar og nefnds C.
Telji sóknaraðili andlegt ástand varnaraðila vera þannig að hún geti engan
veginn borið og haft fullnægjandi skynbragð og skilning á efni umrædds samnings
og þeim ráðstöfunum öllum sem hann feli í sér.
II
Samkvæmt
gögnum sem dómari aflaði frá innanríkisráðuneytinu samþykkti ráðuneytið hinn
15. mars sl. beiðni sóknaraðila um nauðungarvistun varnaraðila á sjúkrahúsi í
mest 21 sólarhring frá þeim degi að telja, sbr. 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga.
Meðal þeirra gagna er læknisvottorð D geðlæknis vegna beiðni um
nauðungarvistun, dags. 15. mars sl., sem lá til grundvallar ákvörðun
ráðuneytisins. Kemur fram í niðurstöðukafla þess vottorðs að sóknaraðili hafi
greinilega átt við vaxandi andleg veikindi að stríða síðasta árið a.m.k. Hegðun
hennar og framkoma sé mjög breytt og skýr merki séu um geðrofseinkenni. Óvíst
sé af hverjum toga veikindin séu, hugsanlega manískt ástand með
geðrofseinkennum eða geðrof vegna fíkniefnaneyslu. Sóknaraðili sé algerlega
innsæislaus í þetta ástand sitt og vilji, þegar vottorðið er ritað, ekki þiggja
nein ráð eða meðferð.
Undir rekstri málsins var aflað
læknisvottorðs E, sérfræðings í geðlækningum, dags. 26. mars 2014, á geðsviði
Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH). Vottorðið er
ítarlegt og eru þar raktar upplýsingar sem fram kemur að aflað hafi verið frá
bæði aðstandendum og varnaraðila sjálfri, m.a. um kannabisneyslu varnaraðila og
um atvik sem aðstandendur telji sýna fram á óráðsíu hennar í fjármálum. Kemur
fram að þvag-stix sem tekið hafi verið við komu varnaraðila
á geðdeildina hafi gefið til kynna að kannabisefna hafi verið neytt á
undanförnum vikum og að varnaraðili neiti því ekki að hafa verið að nota slík
efni.
Í vottorðinu kemur m.a. fram að varnaraðili
uppfylli greiningarskilmerki fyrir að vera í manísku ástandi með
geðrofseinkenni í formi ranghugmynda, mögulega einnig ofheyrna og
hugsanatruflana. Kemur fram að það sé mat geðlæknisins að varnaraðili sé haldin
alvarlegum geðsjúkdómi, þ.e. geðhvarfasjúkdómi. Í niðurstöðukafla vottorðsins
kemur fram að það sé mat geðlæknisins að varnaraðili sé vegna geðsjúkdóms sem
hún sé haldin ófær um að ráða fjármálum sínum. Styðji geðlæknirinn framkomna
beiðni um að varnaraðili verði svipt lögræði. Standi vonir til þess að meðferð
geti slegið á einkenni varnaraðila og því sé rétt að svipting standi eingöngu í
12 mánuði.
Fyrir dómi staðfesti F geðlæknir
framangreint vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Kom þar fram að í
niðurstöðukafla vottorðsins hafi fallið niður setning þess efnis að varnaraðili
sé að mati geðlæknisins ekki aðeins ófær um að ráða fé sínu, heldur einnig
persónulegum högum, eins og vottorðið beri að öðru leyti með sér. Kvaðst
geðlæknirinn fylgjandi því að fallist yrði á kröfu um lögræðissviptingu, þ.e. bæði
sjálfræðis- og lögræðissviptingu, þó þannig að henni yrði markaður tími. Kvaðst
geðlæknirinn vilja gera þá breytingu á vottorði sínu að 6 mánaða svipting gæti talist
fullnægjandi.
Þar sem fram kom í skýrslu E
fyrir dómi að hún hafi verið fjarverandi frá vinnustað sínum vegna
læknismeðferðar síðan 20. mars sl. og því ekki annast sóknaraðila persónulega
frá þeim tíma, var F geðlæknir og yfirlæknir á geðsviði LSH
einnig kallaður til skýrslugjafar fyrir dómi. Staðfesti hann að hafa komið að
umönnun varnaraðila að undanförnu. Kom fram í framburði hans að varnaraðili
væri róleg og þægileg í allri samvinnu og að hún virtist sátt á geðdeildinni.
Kvað hann það sitt mat að varnaraðili gæti yfirgefið geðdeildina á næstu dögum
eða um það leyti sem 21 dags nauðungarvistun renni út. Kvaðst hann hafa kynnt
sér vottorð E og taka undir álit hennar um sjúkdómsgreiningu og nauðsyn
lyfjameðferðar. Þá kvaðst hann taka undir það að nauðsyn beri til
fjárræðissviptingar og að 6 mánaða svipting ætti að nægja, en ekki taka undir
það að nauðsyn beri til sjálfræðissviptingar.
Varnaraðili
kom fyrir dóminn og gaf þar skýrslu. Kvaðst hún ekki skilja hvers vegna
sóknaraðili hefði uppi þessa kröfu. Kvaðst hún ekki sammála því mati geðlækna
að hún væri haldin geðsjúkdómi, en tók þó fram að hún væri ekki læknisfróð og
að hún treysti mati F geðlæknis. Þá kvaðst hún ekki kannast við að eiga við
fíknivanda að stríða en vék sér undan spurningum um kannabisneyslu að
undanförnu. Hún kvaðst ekki kannast við neina óráðsíu í fjármálum en hafa
styrkt fjárhagslega tvær dætur sínar sem séu í háskólanámi. Hún hafi lengi
verið fjárhagslega vel stæð og geti leyft sér munað eins og þann að kaupa nýja
Porsche bifreið á 18,5 milljónir króna, sem er meðal þeirra atvika sem nefnd
eru í vottorði E, sem dæmi um hugsanlega óráðsíu.
Óumdeilt er og stutt gögnum að
eignir varnaraðila eru umtalsverðar og hefur verið upplýst að varnaraðili og
fyrrverandi sambýlismaður hennar til áratuga, C, séu um þessar mundir að vinna
að fjársskiptasamningi sín á milli vegna
sambúðarslita, með aðstoð lögmanna. Upplýst var af hálfu varnaraðila fyrir dómi
að hún sé þinglýstur eigandi jarðarinnar [...] og að jörðin [...] sé þinglýst
sameign hennar og C. Liggur fyrir í málinu óundirritaður fjárskiptasamningur,
sem varnaraðili kvaðst fyrir dómi hafa í hyggju að undirrita svo fljótt sem
auðið er. Samkvæmt þeim samningi eru sameiginlegar eignir varnaraðila og C
jörðin [...] að verðmæti 20 milljónir króna, 2/3 hluti íbúðarhúss og
vélageymsla á jörðinni [...], að verðmæti 13 milljónir króna, tvær bifreiðir,
önnur að verðmæti 1,5 milljónir króna og hin að verðmæti 18,5 milljónir króna
og loks rekstur [...], sem samkvæmt framlögðu verðmati og fylgiskjölum þess er
nú metinn á ríflega 83 milljónir króna.
Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir því að jörðin [...] og rekstur [...]
komi í hlut C og að hann muni greiða varnaraðila tæpar 35 milljónir króna við
fjárskiptin, auk þess sem í hennar hlut komi bifreiðir og fasteignir að
verðmæti 33 milljónir króna.
Þá
liggja fyrir reikningsyfirlit tveggja bankareikninga varnaraðila sem sýna
færslur fyrir árið 2013, frá ársbyrjun og fram til októbermánaðar. Virðast þau
yfirlit sýna að varnaraðili hafi látið umtalsverða fjármuni renna til nokkurra
af börnum sínum, þar á meðal til sóknaraðila.
III
Niðurstaða:
Hér verður fyrst vikið að þeirri
kröfu sóknaraðila að varnaraðili verði svipt sjálfræði.
Samkvæmt 1. mgr. 8. gr.
lögræðislaga nr. 71/1997 skal krafa um lögræðissviptingu vera skrifleg og þar
skulu koma fram atriði sem talin eru í stafliðum a til i. Samkvæmt c-lið skal í
hinni skriflegri kröfu tilgreina hvort krafist er sviptingar sjálfræðis,
fjárræðis eða hvors tveggja.
Eins og rakið var í upphafi var
í upphaflegri kröfu sóknaraðila, dags. 25. mars sl., sem barst dóminum 26.
s.m., einungis höfð uppi sú krafa að varnaraðili yrði svipt fjárræði sínu, en
fyrir þingfestingu málsins barst dóminum breytt kröfugerð sóknaraðila, dags.
31. mars sl., þar sem farið var fram á að varnaraðili yrði svipt sjálfræði auk
fjárræðis.
Ekki er tekið fram í lögræðislögum
að breyta megi kröfu um lögræðissviptingu undir rekstri máls, þótt hana megi
afturkalla á hvaða stigi máls sem er, sbr. 7. mgr. 10. gr. laganna. Samkvæmt 1.
mgr. sömu lagagreinar sæta máls til sviptingar lögræðis almennri meðferð
einkamála með þeim frávikum sem í lögunum greinir. Verður af framangreindu
dregin sú ályktun að sé kröfugerð í upphafi takmörkuð við fjárræðissviptingu,
eins og háttar til í máli þessu, sé dómari af því bundinn og verði ekki aukið
við kröfuna með þeim hætti sem sóknaraðili krefst. Vísast hér til hliðsjónar
til dóms Hæstaréttar frá 26. febrúar 2013 í máli nr. 113/2012, þar sem fjallað
var um ákvæði d-liðar 1. mgr. 8. gr. lögræðislaga og því hafnað að sóknaraðili
gæti breytt kröfu sinni undir rekstri máls úr kröfu um tímabundna
lögræðissviptingu í ótímabundna sviptingu. Þegar af framangreindri ástæðu
verður að hafna kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði svipt sjálfræði sínu,
en engin réttarfarsleg nauðsyn ber til þess að vísa kröfunni frá dómi líkt og
sóknaraðili krefst.
Verður þá vikið að þeirri kröfu sóknaraðila
sem eftir stendur, að varnaraðili verði svipt fjárræði tímabundið í 6 mánuði.
Varnaraðili krefst þess að þeirri kröfu verði hafnað og byggir einkum á því að
engin hlutlæg gögn hafi verið lögð fram sem sýni fram á vanhæfni hennar til að
ráða fé sínu þannig að nauðsyn beri til fjárræðissviptingar. Var af hálfu
varnaraðila vísað í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar frá 30. nóvember 2004 í
máli nr. 468/2004. Ekki voru hins vegar við munnlegan málflutning af hálfu
varnaraðila bornar sérstakar brigður á þá niðurstöðu geðlækna að varnaraðili sé
haldin geðsjúkdómi.
Samkvæmt vottorði E geðlæknis,
sem hún staðfesti fyrir dómi og gaf nánari skýringar á, er það álit
geðlæknisins að varnaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, geðhvarfasjúkdómi,
og sé vegna sjúkdómsins ekki fær um að ráða fé sínu. Er í vottorði geðlæknisins
tekið undir það með sóknaraðila að nauðsyn beri til tímabundinnar fjárræðissviptingar
og kom fram við skýrslugjöf hennar fyrir dómi að hún teldi 6 mánaða sviptingu
nægja. F yfirlæknir tók fyrir dómi undir þetta álit E, bæði hvað
sjúkdómsgreiningu og nauðsyn fjárræðissviptingar varðar. Þá verður að telja
vottorð D geðlæknis, dags. 15. mars sl., sem lá til grundvallar nauðungarvistun
varnaraðila, samræmast og styðja við álit framangreindra tveggja geðlækna.
Ekkert þykir fram komið í málinu
sem hnekkir því áliti geðlæknanna E og F að varnaraðili sé haldin alvarlegum
geðsjúkdómi og sé af þeim sökum ófær um að ráða fé sínu.
Eins og að framan er rakið eru eignir
varnaraðila umtalsverðar og gangi undirritun þess fjárskiptasamnings eftir sem
fyrir liggur mun varnaraðili fá í hendur umtalsvert reiðufé. Þótt ekki þyki í
ljós leitt neitt óeðlilegt við ráðstafanir varnaraðila á umtalsverðum fjármunum
til barna sinna að undanförnu, bætist þar við sú ráðstöfun sem viðurkennd er af
hálfu varnaraðila að festa kaup á Porsche bifreið, sem telja verður dýra,
jafnvel miðað við fjárhag hennar. Að framangreindu virtu þykir nægjanlega sýnt
fram á þörf fjárræðissviptingar, en aðstæðum í máli þessu þykir ekki verða
jafnað til þeirra aðstæðna sem uppi voru í þeim dómi Hæstaréttar sem vísað er
til af hálfu varnaraðila. Jafnframt verður að telja að það þjóni hagsmunum
varnaraðila sjálfrar að verða tímabundið svipt fjárræði, á meðan þess er
freistað, í samvinnu við hana sjálfa, að vinna bug á geðsjúkdómi hennar með
lyfjameðferð. Er í almennum athugasemdum við II. kafla frumvarps þess er varð
að lögræðislögum nr. 71/1997 lögð áhersla á það grundvallarsjónarmið að
svipting og skipun lögráðamanns eigi að vera hinum svipta til farsældar og
vernda hagsmuni hans.
Með vísan til framanritaðs verður
fallist á það með sóknaraðila að skilyrði séu uppfyllt til þess að svipta
varnaraðila fjárræði tímabundið með vísan til a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr.
71/1997, sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga. Þótt vísbendingar séu fyrir hendi um
kannabisneyslu varnaraðila og hugsanlega fíknivanda þykja fyrirliggjandi gögn
ekki fullnægjandi til að reisa úrskurð í málinu á b-lið 4. gr. sömu laga.
Samkvæmt framanrituðu verður því
orðið við kröfu sóknaraðila um tímabundna fjárræðissviptingu varnaraðila í 6
mánuði, sem er lágmarkstími sviptingar skv. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, og
miðast réttaráhrif úrskurðarins gagnvart varnaraðila sjálfri við uppkvaðningu
úrskurðarins, sbr. 2. mgr. 13. gr. sömu laga.
Samkvæmt
1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði, þar meðtalin
þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og þóknun skipaðs verjanda varnaraðila.
Þykir þóknun til handa hvors þeirra um sig hæfilega ákveðin með þeim fjárhæðum
sem nánar greinir í úrskurðarorði og er virðisaukaskattur þar meðtalinn. Þá ber
að greiða úr ríkissjóði kostnað vegna öflunar læknisvottorðs, en reikningur
vegna þess kostnaðar hefur enn ekki borist dóminum.
Hildur Briem héraðsdómari kveður
upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili,
B, er svipt fjárræði í 6 mánuði.
Málskostnaður
greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila,
Guðmundar Kristjánssonar hrl., 125.500 krónur og þóknun skipaðs verjanda varnaraðila,
Huldu Rósar Rúriksdóttur hrl., 125.500 krónur.