Hæstiréttur íslands

Mál nr. 228/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


                                                        

Föstudaginn 14. maí 2010.

Nr. 228/2010.

A

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Héraðsdómi Reykjaness

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Talið var að lántökur sem A hafi stofnað til hafi verið með þeim hætti að ákvæði 2. og 3. töluliðar 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991 stæðu því í vegi að unnt væri að fallast á kröfu hennar. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson dómstjórar.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að henni yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hennar um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Sóknaraðili hefur í greinargerð til Hæstaréttar upplýst að hún hafi í beiðni um nauðsamning til greiðsluaðlögunar ekki sundurliðað skuldir sínar í annars vegar ógjaldfallnar skuldir og hins vegar gjaldfallnar skuldir af þeirri ástæðu að skuldirnar hafi allar verið gjaldfallnar.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt þrjú verðmöt löggilts fasteignasala þar sem fram kemur áætlað söluverð fasteignar hennar og eiginmanns hennar að [...], ásamt lóðarréttindum. Samkvæmt verðmötum þessum var áætlað söluverð fasteignarinnar 23. september 2005, 58.000.0000 krónur, en 18. maí 2007, 75.000.000 krónur og 18. mars 2008, 83.500.000 krónur. Telur sóknaraðili að þótt rétt sé að veruleg skuldaaukning hafi orðið hjá henni og eiginmanni hennar á árunum 2005 til 2007 hafi verðmæti eigna aukist verulega á sama tíma, svo sem verðmötin sýni. Í beiðni sóknaraðila um nauðasamning til greiðsluaðlögunar tilgreinir hún matsverð sömu fasteignar 47.000.000 krónur, en í lista um eignir og skuldir er það tilgreint 52.000.000 krónur.

Þótt framangreind möt á áætluðu söluverði fasteignarinnar á tilgreindum dögum ættu við rök að styðjast voru lántökur þær sem sóknaraðili stofnaði til á framangreindu tímabili og grein er gerð fyrir í hinum kærða úrskurði þannig að ákvæði 2. og 3. töluliðar 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991 standa því í vegi að unnt sé að fallast á kröfu hennar.

Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2010.

A, kt. [...], [...], [...], hefur farið þess á leit með vísan til ákvæða X. kafla a 3. þáttar laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009 að henni verði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar við lánardrottna sína.

Beiðni skuldara er dagsett 9. október 2009 og var hún móttekin 12. október sl. hjá Héraðsdómi Reykjaness. Nauðsynleg fylgigögn og skýringar sem dómurinn óskaði eftir bárust aftur á móti ekki endanlega fyrr en 2. mars 2010.

Beiðnin er reist á því að skuldari sé um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar.

Í sameiginlegri beiðni skuldara og eiginmanns hennar kemur fram að skuldari sé gift og búi ásamt eiginmanni sínum og fjórum börnum í eigin fasteign. Þrjú barna þeirra hjóna séu undir 18 ára aldri en einnig búi hjá þeim tvítugur sonur þeirra sem sé í námi og því á framfæri þeirra. Í gögnum málsins kemur fram skuldari hafi m.a. starfað sem [...] [...] en því starfi hafi hún gegnt á árunum 1991-1992. Þá hafi hún farið í barnsburðarleyfi en skuldari og eiginmaður hennar hafi eignast sitt annað barn árið 1992. Skuldari hafi flutt ásamt eiginmanni sínum til Bandaríkjanna árið 1994 þar sem hann hafi stundað nám. Á meðan eiginmaður skuldara hafi stundað nám sitt hafi skuldari séð um uppeldi barna þeirra en henni hafi auk þess reynst erfitt að fá vinnu sökum þess að strangar reglur gildi í Bandaríkjunum sem takmarki mjög möguleika útlendinga til að stunda þar atvinnu. Síðar hafi skuldari búið í [...] og í [...] þar sem eiginmaður hennar hafi gegnt ýmsum störfum en þau hafi loks flutt aftur til Íslands árið 2003. Skuldari og eiginmaður hennar hafi selt fasteign sem þau hafi átt í [...] á [...] en af gögnum málsins megi ráða að við heimkomuna hafi þau fest kaup á einbýlishúsi sínu að [...], [...], en það sé 215,4 m2 að stærð. Í beiðni skuldara kemur fram að veðkröfur skuldara sem tryggðar séu með veði í fasteign þeirra að [...] nemi um 47 milljónum króna en fasteignamat eignarinnar sé skv. verðmati um 52 milljónir króna.

Skuldari og eiginmaður hennar hafi þegar hafið atvinnuleit við komuna heim til Íslands. Skuldari hafi án árangurs reynt að finna sér atvinnu við sitt hæfi en lítil eftirspurn hafi virst vera eftir konu, sem ekki hafði verið úti á vinnumarkaðinum í meira en áratug. Ljóst hafi verið að sökum stærðar heimilis skuldara þyrfti skuldari að fá þokkalega vel borgað starf til að áhrifin af því að hún starfaði úti á vinnumarkaðinum yrðu ekki neikvæð peningalega fyrir fjölskylduna. Eiginmaður skuldara hafi m.a. sótt um vinnu hjá ýmsum fjármálastofnum en atvinnuleitin hafi gengið fremur illa sökum þess að meiri eftirspurn hafi verið eftir yngri mönnum í störf. Eiginmaður skuldara hafi haldið atvinnuleit sinni áfram, auk þess sem hann hafi stundað ráðgjöf á eigin vegum eftir megni. Haustið 2004 hafi eiginmaður skuldara fengið starf hjá [...] og vorið 2005, þegar hann hafi fengið launahækkun, hafi þau tekið jeppabifreið á rekstrarleigu hjá Heklu. Mánaðarlegar afborganir hafi þá numið 80.000 krónum á mánuði en skuldara og eiginmanni hennar hafi reynst nauðsynlegt að hafa stóra bifreið til umráða, enda sé fjölskyldan stór. Sumarið 2005 hafi eiginmaður skuldara hins vegar misst starf sitt hjá [...] og hafi því verið án atvinnu haustið 2005. Um áramótin 2005-2006 hafi skuldari og eiginmaður hennar tekið á rekstrarleigu lítinn fólksbíl hjá Heklu, þar sem þeim hafi þótt allt snattið með fjölskylduna á stórum jeppa of kostnaðarsamt og einnig hafi verið mikið hagræði í því að hafa tvo bíla á heimilinu. Mánaðarlegar greiðslur af bílnum hafi verið 40.000 krónur í upphafi.

Í beiðni skuldara kemur fram að hún og eiginmaður hennar hafi ekki litið á sig sem atvinnulaust fólk heldur sem fólk í atvinnuleit. Af þessum ástæðum hafi þau ekki skráð sig atvinnulaus og sótt um atvinnuleysisbætur. Þann tíma sem skuldari og eiginkona hans voru atvinnulaus hafi þau framfleytt sér með lántökum. Aðgengi að lánsfé hafi verið auðvelt á þessum tíma og bankar fúsir til að lána. Bankarnir hafi ráðlagt skuldara lántökur í erlendri mynt til að lækka vaxtakostnað. Skuldari og eiginmaður hennar hafi farið í atvinnuviðtöl og eiginmaður skuldara hafi reynt að afla sér ráðgjafarverkefna, ásamt því að leita sér að vinnu. Skuldari hafi einnig unnið með eiginmanni sínum að ráðgjafarverkefnunum án þess þó að hljóta formlegar greiðslur fyrir. Í mars 2007 hafi einkahlutafélagið [...] í eigu eiginmanns skuldara keypt [...] af stofnanda þess fyrirtækis og hafi eiginmaður skuldara þá gerst framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Samkvæmt skattframtölum skuldara hafi hún einnig starfað við rekstur fyrirtækisins en í beiðni skuldara komi hvergi fram hvaða störfum skuldari sinnti hjá fyrirtækinu. Stofnandinn hafi starfað áfram hjá fyrirtækinu og séð um framleiðslu fyrir það. Reksturinn hafi gengið illa hjá eiginmanni skuldara frá upphafi en forsendur rekstrarins og kaupa fyrirtækisins hafi ekki staðist. Í mars 2008 hafi fyrirtækið loks verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í maí 2008 hafi eiginmaður skuldara hafið störf hjá [...]. Hann hafi misst atvinnu sína þar í nóvember 2008 sökum þess að rekstrargrundvöllur félagsins hafi brostið í kjölfar bankahrunsins sama haust. Skuldari hafi sjálf verið atvinnulaus þá og sé það enn. Hún hafi lagt inn skráningu til Vinnumálastofnunar en verið tjáð að hún uppfyllti ekki skilyrði um þátttöku á vinnumarkaði til að eiga rétt á bótum eða yfirleitt að vera skráð atvinnulaus. Í gögnum málsins komi fram að ástæður þessa megi rekja til „klúðurs“ í starfsemi [...] og það sé einnig ástæða þess að hvorki sé að finna launaseðla fyrir skuldara í gögnum málsins né greiðsluseðla frá Vinnumálastofnun. Skuldari sé því sem standi tekjulaus og heimavinnandi með fjögur börn.

Af gögnum málsins megi þannig ráða að meginorsakir greiðsluerfiðleika skuldara séu langvarandi atvinnuleysi sem og atvinnuleysi eiginmanns hennar, rekstrarerfiðleikar og gjaldþrot fyrirtækis eiginmanns skuldara. Auk þess hafi greiðslubyrði lána hækkað gríðarlega í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 en skuldari og eiginmaður hennar hafi tekið þó nokkur gengistryggð lán. Nú sé svo komið að skuldari sé ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Tillaga skuldara kveði á um að alls 9 milljónir króna af samningskröfum skuldara verði greiddar næstu 5 árin. Jafngildi það um 6% greiðslu samningskrafna.

Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991.

Forsendur og niðurstaða:

Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Því er lýst í beiðni skuldara að hún hafi átt við atvinnuleysi að etja um lengri eða skemmri tíma frá því að hún flutti aftur til Íslands árið 2003. Heildarsamningskröfur skuldara og eiginmanns hennar nema samanlagt um 139 milljónum króna en greiðsluáætlun skuldara er sett fram með þeim hætti að ekki er hægt að sjá hve mikið er gjaldfallið og í vanskilum. Auk þess er óskýrt í skuldayfirliti skuldara hvaða skuldbindingar eru samningskröfur og hvaða skuldbindingar eru tryggðar með veði í fasteign skuldara. Af gögnum málsins má ráða að af heildarfjárhæð samningskrafna skuldara og eiginmanns hennar, þ.e. 139 milljónum króna, séu 10,1 milljón króna skráðar sérstaklega á nafn skuldara, annars vegar skuldabréf hjá Landsbankanum að fjárhæð 3,9 milljónir króna og hins vegar skuld við LÍN að fjárhæð 6,2 milljónir króna. Lán hjá Landsbankanum að fjárhæð 25,8 milljónir króna er einnig skráð á nafn skuldara en gera má ráð fyrir að það sé tryggt með veði í fasteign skuldara og eiginmanns hennar.

Skuldari er nú atvinnulaus eins og fram hefur komið en tekjur eiginmanns skuldara nema um 900.000 krónum á mánuði. Mánaðarleg framfærsla skuldara, eiginmanns hennar og fjölskyldu nemur um 440.000 krónum á mánuði. Greiðslugeta skuldara er samkvæmt þessu engin þar sem skuldari hefur engar tekjur, en greiðslugeta eiginmanns skuldara er jákvæð um 460.000 krónur á mánuði. Í skattframtali skuldara árið 2009, fyrir tekjuárið 2008, kemur fram að skuldari hafi haft 958.665 krónur í árstekjur og í skattframtali 2008, fyrir tekjuárið 2007, kemur fram að skuldari hafi haft um 3,3 milljónir króna í tekjur. Í skattframtali skuldara 2007 fyrir tekjuárið 2006, kemur fram að skuldari hafi engar tekjur haft en hún hafi verið í atvinnuleit á þeim tíma. Í skattframtali skuldara 2006, fyrir tekjuárið 2005 kemur loks fram að skuldari hafi haft 2 milljónir króna í árstekjur.

Helstu samningskröfuhafar skuldara eru Landsbankinn, LÍN og VISA. Í gögnum málsins kemur fram að samningsskuldir skuldara og eiginmanns hennar hækkuðu úr 44.121.075 krónum í skattframtali 2006 í 60.465.128 krónur í skattframtali 2007. Fram hefur komið að bæði skuldari og eiginmaður hennar hafa verið án atvinnu allt árið 2006. Í beiðni skuldara kemur fram að þann tíma sem þau hjón hafa verið án atvinnu en í atvinnuleit, hafi þau framfleytt sér með lántökum. Þau hafi litið á þetta sem millibilsástand og af þeim sökum ekki skráð sig atvinnulaus. Í beiðni skuldara eru þær skýringar helst gefnar á skuldasöfnun skuldara að stór hluti þeirra sé kominn til vegna húsnæðiskaupa, hluti sé til kominn vegna framfærslu skuldara og fjölskyldu hennar, en stærstur hluti þeirra til kominn vegna hruns krónunnar.

Í 2. tl. 63. gr. d laga nr. 21/1991 kemur fram að héraðsdómari geti hafnað beiðni um heimild til að leita nauðsamnings til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingar var stofnað. Í 3. tl. 63. gr. d laga nr. 21/1991 kemur síðan fram að hafna megi beiðni um heimild til að leita nauðsamnings til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Að ofangreindu er ljóst að samningskröfur skuldara og eiginmanns hennar eru samanlagt afar háar og virðist töluverðan hluta skuldasöfnunarinnar mega rekja til ársins 2006. Ef aðeins er litið til þeirra samningsskulda sem skráðar eru á nafn skuldara þá nema þær eins og fyrr segir um 10,1 milljón króna. Samkvæmt gögnum málsins tók skuldari lán 19. mars 2007 að fjárhæð 3,1 milljón króna sem eiginmaður hennar gekkst í ábyrgð fyrir. Það lán stendur núna í 3,9 milljónum króna. Á þessum tíma hafði skuldari verið atvinnulaus að því er virðist í lengri tíma þrátt fyrir að í skattframtali skuldara árið 2006 komi fram að hún hafi starfað hjá [...] á árinu 2005. Ekki kemur þó fram í beiðni skuldara við hvað eða hversu lengi skuldari starfaði þar. Eftir stendur að skuldari var atvinnulaus allt árið 2006 en auk þess hlutaðist skuldari ekki til um skrá sig á atvinnuleysisskrá á þeim tíma, þar sem hún hafi ekki litið á sig sem atvinnulausa.

Þrátt fyrir hið langvarandi atvinnuleysi réðst skuldari í ofangreinda lántöku snemma árs 2007. Telja verður að með þeirri lántöku hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, sbr. 2. tl. 63. gr. d laga nr. 21/1991. Hvorki skuldari né eiginmaður hennar höfðu neinar tekjur það ár heldur framfleyttu sér með lántökum að því er virðist frá haustinu 2005 og fram í mars 2007 og hlutuðust ekki til að skrá sig á atvinnuleysisbætur. Þannig verður einnig að telja að skuldari hafi stofnað til umræddrar skuldbindingar á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. 3. tl. 63. gr. d laga nr. 21/1991. Auk þess uppfyllir greiðsluáætlun skuldara ekki skilyrði 3. tl. 2. mgr. 63. gr. c en þar kemur fram að í greiðsluáætlun skuldara skuli koma fram sundurliðuð fjárhæð þegar gjaldfallinna skulda svo og fjárhæð ógjaldfallinna skulda. Greiðsluáætlun skuldara er sett fram án slíkrar sundurliðunar.

Með vísan til alls þess er að framan greinir ber að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðsamnings til greiðsluaðlögunar með vísan til 2. og 3. tl. 63. gr. d og 3. tl. 2. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991.

Ragnheiður Bragadóttir kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Hafnað er beiðni A, kt. [...], um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.