Hæstiréttur íslands
Mál nr. 556/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Fullnusta refsingar
|
|
Fimmtudaginn 13. október 2011. |
|
Nr. 556/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Reynir Logi Ólafsson hdl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Fullnusta refsingar.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána 300 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem honum hafði verið veitt reynslulausn á, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. október 2011 og bárust kærumálsgögn réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2011, þar sem varnaraðila var gert afplána 300 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem honum hafði verið veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins sem tók gildi 24. desember 2010. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili fékk með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins 23. desember 2010 reynslulausn á 300 daga eftirstöðvum refsingar, sem hann hafði hlotið með þremur refsidómum. Í ákvörðuninni, sem tók gildi degi síðar, eru tilgreind skilyrði reynslulausnarinnar, en þau eru að varnaraðili gerðist ekki ,,sekur um nýtt brot á refsitímanum“ og að hann væri ,,háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar ríkisins.“
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili játað að hafa brotist inn í tvo gáma og stolið þaðan meðal annars miklu magni af sprengiefni og hvellhettum. Varnaraðili hefur vísað lögreglu á hina stolnu muni. Fallist er á að sterkur grunur sé á að varnaraðili hafi framið brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur allt að sex ára fangelsi, og þar með rofið gróflega bæði sérstakt skilyrði sem honum var sett í ákvörðun um reynslulausn og almenn skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána 300 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóma Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-37/2009, Héraðsdóms Suðurlands nr. S-581/2009 og Héraðsdóms Reykjaness nr. S-1089/2010, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 24.12.2010 í tvö ár.
Af hálfu kærða er þess krafist að kröfunni verði hafnað. Vísar verjandi hans einkum til þess að ekki sé líklegt að kærði hljóti 6 ára fangelsisdóm vegna þess brots sem um ræðir og sé því ekki í málinu fullnægt skilyrði 2. mgr. 65. gr. um alvarleika brots.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 30. október 2009 nr. S-37/2009 hafi kærði hlotið 12 mánaða fangelsisdóm fyrir nokkur fíkniefnalagabrot og fjölda ítrekaða umferðarlagabrota. Þá hafi hann hlotið 2 mánaða fangelsisdóm með dómi Héraðsdóms Suðurlands nr. S-581/2009 þann 9. febrúar 2010, sem hafi verið hegningarauki við fyrrnefndan dóm, fyrir þjófnað með innbroti, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands nr. S-129/2010 þann 20. maí 2010 hafi kærða ekki verið gerð sérstök refsing fyrir umferðarlagabrot. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-33/2009 þann 18. febrúar 2010 hafi kærða ekki verið gerð sérstök refsing fyrir hylmingarbrot, fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. S-1089/2010 þann 17. desember 2010 hafi kærði hlotið 6 mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað og margítrekuð umferðarlagabrot. Með ákvörðun Fangelsismálastofnunar þann 23. desember 2010 hafi kærða verið veitt reynslulausn á eftirstöðvum refsingar, 300 daga, háð því skilorði að hann gerðist ekki sekur um nýtt brot á 2 ára reynslutíma og að hann væri háður umsjón og eftirliti stofnunarinnar.
Kærði eigi að baki sakarferil sem sé nær samfelldur frá árinu 1997 fyrir fjölda auðgunarbrota, fíkniefnalagabrota og umferðarlagabrota. Frá árinu 2009 hafi kærði hlotið fjórum sinnum dóma fyrir auðgunarbrot, bæði fyrir þjófnaði og hylmingu. Kærði eigi ennfremur fjölda mála til meðferðar hjá lögreglu, þar á meðal séu hylmingarbrot og aragrúi umferðarlagabrota.
Lögregla hafi nú til rannsóknar þjófnaðarbrot kærða í lögreglumáli nr. 007-2011-60698, þar sem kærði sé grunaður um að hafa brotist inn í tvo gáma í eigu verktakafyrirtækisins Háfells fimmtudaginn 6. október sl. Gámarnir hafi verið staðsettir á vinnusvæði við grjótnámu í Þormóðsdal skammt frá Hafravatni í Mosfellssveit. Kærði sé grunaður um að hafa stolið þar um 250 kg af dínamíti og um 200 stykkjum af rafmagnshvellhettum.
Vísbendingar hafi borist lögreglu um að kærði hafi verið að verki og í kjölfarið hafi verið fengið heimild Héraðsdóms Reykjavíkur með úrskurðum R-427 og 428/2011 til húsleitar á dvalarstað kærða í [...] og geymsluaðstöðu að [...]. Í kjölfarið hafi kærði verið handtekinn í gærkvöldi þann 9. október og vistaður hjá lögreglu.
Kærði hafi vísað lögreglu á dínamítið og hvellhetturnar strax í gærkvöldi þann 9. október og játað við skýrslutöku hjá lögreglu í dag að hafa brotist inn í téða gáma og stolið þessu sprengiefni og hvellhettum. Hann kveðist hafa notað 2,5 kg af dínamítinu til að valda sprengingu á víðavangi við Krýsuvíkurveg en afganginum hafi hann framvísað til lögreglu. Ennfremur hafi hann lýst verknaðaraðferðinni sem notuð hafi verið við innbrotið, þ.e. að logsjóða lásana til að losa þá frá og að dínamítið og hvellhetturnar hafi verið í sitthvorum gámnum.
Brot kærða sé talið varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að öll lagaskilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé fullnægt, enda hafi kærði með ofangreindri háttsemi sinni rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar. Kærði hafi játað sök og vísað lögreglu á hvar efnin hafi verið geymd. Því sé ljóst að kærði hafi fullframið ofangreint brot með mjög hættulegu þjófnaðarandlagi. Þjófnaður þessi geti varðað allt að sex ára fangelsi með vísan til 244. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Að öllu framanrituðu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður að fallast á það með lögreglustjóra að fyrir liggi sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slíkt brot getur varðað allt að 6 ára fangelsi, og rofið þannig gróflega skilyrði reynslulausnar. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, enda vísar umrætt lagaákvæði til þeirrar hámarksrefsingar sem kveðið er á um í viðkomandi refsiákvæði. Eru því ekki efni til annars en að fallast á kröfu ákæruvaldsins um að kærða verði gert að afplána 300 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann fékk reynslulausn af með ákvörðun Fangelsismálastofnunar sem gildi tók 24. desember 2010.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal afplána 300 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem honum var veitt reynslulausn af með ákvörðun Fangelsismálastofnunar sem gildi tók 24. desember 2010.