Hæstiréttur íslands
Mál nr. 596/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 17. október 2017 klukkan 12. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ákæra á hendur varnaraðila var gefin út 20. júlí 2017, en þar eru honum gefin að sök í 20 liðum ýmis brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og sérrefsilögum. Málið var þingfest 9. ágúst 2017 og dómtekið 20. september sama ár að lokinni aðalmeðferð, sem hófst 6. sama mánaðar.
Með dómum Hæstaréttar 4. maí 2017 í máli nr. 273/2017 og 2. ágúst sama ár í máli nr. 487/2017 var því slegið föstu að fullnægt væri skilyrðum til þess að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með vísan til þessa var gæsluvarðhald varnaraðila framlengt til 19. september 2017 með dómi Hæstaréttar 28. ágúst 2017 í máli nr. 529/2017.
Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp í þinghaldi 19. september 2017 að varnaraðila viðstöddum og dómþingi slitið klukkan 11.50. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 17. október 2017 klukkan 11.50.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 19. september 2017
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í málum hans en eigi lengur en til þriðjudagsins 17. október 2017 kl. 12:00.
Í greinargerð saksóknarfulltrúa kemur fram að ákærði hafi verið handtekinn þann 1. maí sl. en fyrr um daginn hafi lögreglu borist tilkynning um innbrot og þjófnað í nýbyggingu við [...] í Reykjavík. Þar hafði starfsmaður komið að manni vera að bera verkfæri í bifreið sem hafði verið lagt við húsið. Þegar starfsmaðurinn hafi komið að geranda, þá hafi gerandi hlaupið í burtu. Umrædd bifreið sé í eigu ákærða en hafi verið með stolin skráningarnúmer, þ.e. [...]. Ákærði hafi játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu og við þingfestingu málsins.
Auk þessa máls sé ákærði undir rökstuddum grun um eftirfarandi brot framin á undanförnum mánuðum:
[...] – Fjársvik
Þann 11. maí sl. hafi lögreglu borist tilkynning um þjófnað á veski þann 10. apríl sl. en í veskinu hafi m.a. verið greiðslukort. Í kæruskýrslu hafi komið fram að búið hafi verið að taka í heimildarleysi 104.795 kr. út af kortunum og að reynt hafi verið að taka meira út en án árangurs. Ákærði hafi þekkt sjálfan sig á upptökum og viðurkennt að hafa verið með kortin og hafa reynt að taka út af þeim. Við þingfestingu málsins hafi ákærði viðurkennt fjársvikin en neita að hafa stolið veskinu.
[...] – Þjófnaður
Tilkynnt hafi verið um þjófnað á sjónvarpi og farangri gesta á hótelherbergi á Fosshótel Reykjavík. Lögreglumenn hafi þekkt ákærða sem geranda af myndbandsupptökum en ákærði hafi játaði sök í skýrslutöku hjá lögreglu og við þingfestingu málsins.
[...] – Innbrot, þjófnaður
Þann 30. apríl sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að brotist hafi verið inn í bifreiðina [...] við [...] í Reykjavík og þaðan stolið munum. Þá hafi skráningarnúmerum bifreiðarinnar einnig verið stolið. Lögreglumenn hafi talið sig þekkja ákærða sem geranda (mál nr. [...]). Við þingfestingu málsins hafi ákærði játað að hafa stolið skráningarnúmerunum en neitað að hafa brotist inn í umrædda bifreið.
[...] – Hilming
Þann 1. maí sl. hafi ýmsir munir fundist á heimili ákærða sem lögregla ætli að séu þýfi. Í ljós hafi komið að umræddir munir hafi tengst innbroti í húsnæði [...] (mál nr. [...]). Ákærði hafi játað sök við þingfestingu málsins.
[...] – Innbrot, þjófnaður
Tilkynnt hafi verið um innbrot í geymslu þann 28. apríl sl. við [...] í Kópavogi. Teknir hafi verið nokkrir munir úr geymslunni, t.d. Canon filmuvél með linsum, háþrýstidæla, stafrænar myndavélar, fartölva, Ipod, gamlar kvikmyndatökuvélar/upptökuvélar. Ákærði hafi játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu og við þingfestingu málsins.
[...] – Þjófnaður og nytjastuldur ökutækis
Þann 28. apríl sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að farið hafi verið í óleyfi inn á skrifstofu við [...] í Reykjavík og teknir lyklar af bifreiðinni [...], lyklar af fyrirtæki og að heimili tilkynnanda. Þá hafi bifreiðinni [...] einnig verið stolið eða hún tekin í heimildarleysi. Lögreglumenn hafi þekkt ákærða á upptökum og fundið umrædda bifreið við heimili kærustu ákærða. Ákærði hafi játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu og við þingfestingu málsins.
[...] – Þjófnaður
Þann 27. apríl sl. hafi lögreglu borist tilkynning um farið hafi verið inn í skrifstofuhúsnæði við [...] í Reykjavík og þaðan teknir nokkrir munir, þ.á.m. skjávarpi. Lögreglu hafi síðan borist ábending um að ákærði hafi farið þarna inn og tekið umrædda muni. Við leit að ákærða vegna rannsóknar lögreglu á öðru máli, hafi lögregla farið að heimili kærustu ákærða. Þar hafi móðir kærustu ákærða afhent lögreglu meint þýfi sem ákærði hafði komið með inn á heimilið, þ.á.m. umræddan skjávarpa. Ákærði hafi sagðist hafa keypt umræddan skjávarpa af ónafngreindum manni. Ákærði hafi neitað sök við þingfestingu málsins.
[...] – Þjófnaður
Ákærði hafi játað í skýrslutöku hjá lögreglu og við þingfestingu málsins að hafa farið inn á hótelherbergi við Fosshótel og stolið þaðan sjónvarpi, ferðatösku, heyrnatólum, rakvél og hleðslutæki þann 27. apríl sl.
[...] – Nytjastuldur ökutækis
Ákærði hafi viðurkennt í skýrslutöku hjá lögreglu og við þingfestingu málsins að hafa þann 24. apríl sl. tekið bifreiðina [...] í heimildarleysi frá [...] Reykjavíkurvegi og notað hana þar til lögregla hafi haft afskipti af honum sama dag á bifreiðinni.
[...] – Innbrot, þjófnaður
Ákærði sé grunaður um að hafa þann 10. apríl sl. klippt á lás á bílageymsluhúsnæði í fyrirtækinu [...], Kópavogi og stolið kerru með tveimur vélsleðum samtals að verðmæti um 5.000.000 kr. Ákærði hafi viðurkennt sök í skýrslutöku hjá lögreglu en hann hafi sagst einungis hafa ætlað að nota vélsleðana, ekki að selja þá. Ákærði hafi játað sök við þingfestingu málsins.
[...] og [...] – Innbrot, þjófnaður
Þann 3. apríl sl. hafi borist inn í bílageymslu við [...] og þaðan stolið nokkru magni af verkfærum. Lögregla hafði síðan haft afskipti af ákærða daginn eftir við umferðareftirlit og hafi lögreglumenn séð umrædd verkfæri í bifreið ákærða. Ákærði hafi viðurkennt sök í skýrslutöku hjá lögreglu og við þingfestingu málsins.
[...] – Þjófnaður
Kæra hafi borist lögreglu frá Olís vegna þjófnaðar á eldsneyti þann 1. apríl sl. Ákærði hafi viðurkennt að hafa sett eldsneyti á bifreið sína fyrir 5.079 kr. án þess að hafa greitt fyrir það.
[...] – Innbrot, þjófnaður
Þann 12. desember sl. hafi verið tilkynnt um innbrot og þjófnað í fyrirtæki við [...] í Kópavogi og þaðan stolið töluverðu magni af verkfærum. Umrædd verkfæri hafi fundist í geymslu sem ákærði hafi verið með á leigu og hafi hann viðurkennt sök í skýrslutöku hjá lögreglu. Ákærði hafi síðan neitað sök við þingfestingu málsins.
[...] – Rán
Þann 17. október sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í Reykjavík. Tilkynnandi hafi greint frá því að maður hafi ruðst inn í íbúð hans, heimtað að fá hjá honum lyf og hótað því að stinga hann með hníf. Maðurinn hafi slegið tilkynnanda nokkrum sinnum og tekið síma hans. Tilkynnandi hafi verið með sjáanlega áverka í andliti. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi ákærði neitað því að hafa ruðst þarna inn heldur hafi tilkynnandi boðið honum inn. Ákærði hafi neitað að hafa hótað manninum. Ákærði hafi viðurkennt að hafa tekið lyf og síma mannsins og að hann hafi slegið hann eftir að hafa reiðst.
Í greinargerðinni hafi einnig komið fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 2. maí í máli nr. R-129/2017 hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 30. maí sl. en sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 273/2017. Þann 30. maí sl. hafi gæsluvarðhaldið síðan verið framlengt til 27. júní sl. með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-162/2017. Þann 27. júní hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til 25. júlí með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-217/2017. Þá hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt þann 25. júlí til 22. ágúst sl. með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-253/2017 en sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 487/2017. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-277/2017 hafi ákærða síðan verið gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til dagsins í dag en sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 529/2017. Rannsókn ofangreindra mála sé lokið og lögreglustjóri hafi gefið út ákæru þann 20. júlí sl. en málið hafi síðan verið þingfest þann 8. ágúst sl. [...]. Aðalmeðferð málsins hafi hafist 6. september sl. en ráðgert sé að henni verði lokið 20. september nk.
Ákærði eigi að baki nokkurn sakarferil og hafi hlotið dóma fyrir auðgunarbrot. Við rannsókn mála ákærða hjá lögreglu hafi komið í ljós að hann sé í neyslu fíkniefna og megi ætla að hann fjármagni fíkniefnaneyslu sína með afbrotum. Með vísan til brotaferils ákærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna en nauðsynlegt sé að ljúka þeim málum sem séu til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum sem fyrst.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga
Niðurstaða
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ákærði hafi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 2. maí í máli nr. R-129/2017 verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 30. maí sl. á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 en sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 273/2017. Gæsluvarðhald ákærða hafi síðan ítrekað verið framlengt og nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-277/2017 þann 22. ágúst sl. og þá var ákærða gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til dagsins í dag en sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 529/2017.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að rannsókn málanna á hendur ákærða sé lokið og ákæra á hendur hafi verið gefin út 20. júlí sl. og málið verið þingfest þann 8. ágúst sl. [...]. Aðalmeðferð málsins hafi hafist 6. september sl. en ráðgert sé að henni verði lokið 20. september nk. Er því fallist á að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.
Ákærði á nokkurn brotaferil að baki og hefur hann m.a. hlotið dóma vegna auðgunarbrota. Þá kemur fram í greinargerð að fyrir liggi að hann eigi við fíkniefnavanda að etja. Í þessu ljósi og að teknu tilliti til þess fjölda mála sem upp hafa komið allt fram til þess tíma er ákærða var gert að sæta gæsluvarðhaldi. Verður fallist á með lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Þá er og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 529/2017 á það fallist að fullnægt sé skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þess efnis að ætla megi að ákærði muni halda áfram brotum meðan máli hans er ólokið og það er til meðferðar hjá dómstólum. Ekki verður talið að neitt nýtt hafi komið fram sem breyti þessari niðurstöðu þó ákærði hafi ekki neytt fíkniefna í gæsluvarðhaldinu sbr. framlagt dskj. nr. 2.
Verður því samkvæmt framangreindu fallist á kröfu sóknaraðila eins og hún er sett fram og ákærða gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 19. september 2017 kl. 12.00.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Ákærði, X, kt. [...], skal áfram sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í málum hans en eigi lengur en til þriðjudagsins 17. október 2017 kl. 12:00.
Þórður Clausen Þórðarson