Hæstiréttur íslands
Mál nr. 559/2002
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamsárás
- Miskabætur
- Lögmannsaðstoð
- Áfrýjunarleyfi
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2003. |
|
Nr. 559/2002. |
Elías Ingi Björgvinsson(Björgvin Þorsteinsson hrl.) gegn Sigurði Frey Péturssyni (Sigurður Jónsson hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamsárás. Miskabætur. Lögmannsaðstoð. Áfrýjunarleyfi.
Í opinberu máli þar sem S var ákærður fyrir líkamsárás á E, krafðist E þess að S yrði dæmdur til að greiða sér skaðabætur vegna vinnutaps, miska og kostnaðar af lögmannsaðstoð. Héraðsdómari vísaði frá dómi þeim hluta kröfu E sem snerti vinnutap, en hafnaði bótum fyrir miska og kostnað af lögmannsaðstoð. E áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms um tvo síðastgreindu liðina til Hæstaréttar. Talið var að fyrir hendi væru skilyrði a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til að dæma S til að greiða miskabætur. Þá var talið að krafa E um greiðslu lögmannskostnaðar væri í hóf stillt og hún því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2002 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 117.350 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 80.000 krónum frá 23. júní 2001 til 5. október sama árs, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 117.350 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir réttinum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms að því er bótakröfu varðar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Með ákæru sýslumannsins í Vestmanneyjum 22. febrúar 2002 var höfðað opinbert mál á hendur stefnda fyrir líkamsárás á áfrýjanda 23. júní 2001 í Vestmannaeyjum og að hafa með því brotið gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Var stefnda og öðrum manni auk þess gefin að sök önnur líkamsárás 8. júlí sama árs. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 5. júlí 2002 var stefndi sakfelldur fyrir líkamsárás í báðum tilvikunum og dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár. Sá hluti héraðsdómsins sætir ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi varð fyrir minni háttar meiðslum við árás stefnda, en þeim er nánar lýst í héraðsdómi. Í máli ákæruvaldsins gegn stefnda krafðist áfrýjandi skaðabóta, sem hann sundurliðaði þannig að fyrir vinnutap greiddi stefndi 9.672 krónur, miska 80.000 krónur og fyrir aðstoð lögmanns við að halda fram kröfu áfrýjanda 37.350 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Samtals nam krafa áfrýjanda því 127.022 krónum. Niðurstaða héraðsdómara varð sú að kröfulið fyrir vinnutap var vísað frá dómi og krafa um bætur fyrir miska var ekki tekið til greina þar eð „ekki eru skilyrði til að beita ákvæðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í málinu.“ Á sama veg fór um kröfu vegna lögmannsaðstoðar þar eð ekki þóttu „efni til að dæma ákærða til að greiða lögmannsþóknun, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991...“. Áfrýjandi unir ekki niðurstöðu héraðsdóms um bótakröfu sína og skaut hann þessum þætti málsins til Hæstaréttar á grundvelli heimildar í 2. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Krefst hann þess að kröfuliðir fyrir miska og lögmannsaðstoð verði dæmdir sér með samtals 117.350 krónum og vöxtum, eins og lýst er í kröfugerð, en upphafstíma dráttarvaxta miðar hann við þann dag er mánuður var liðinn frá dagsetingu kröfubréfs lögmanns hans.
II.
Stefndi ber fyrir sig að skilja beri rökstuðning héraðsdómara um miskabótakröfuna með þeim hætti að dómarinn hafi ekki tekið efnislega afstöðu til hennar, heldur vísað þessum kröfulið frá dómi. Hæstiréttur geti því einungis skorið úr um kröfulið fyrir lögmannsaðstoð, sem beri að hafna með sömu rökum og héraðsdómarinn hafi gert.
Fyrir héraðsdómi reisti áfrýjandi kröfu sína um miskabætur á 26. gr. skaðabótalaga, svo sem henni var breytt með 13. gr. laga nr. 37/1999. Er krafan sótt fyrir Hæstarétti á sama grunni og í héraði. Eru uppfyllt skilyrði samkvæmt a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til að dæma stefnda til að greiða miskabætur, sem að virtum öllum atvikum eru hæfilega ákveðnar 30.000 krónur. Sú viðbára stefnda að kröfunni hafi verið vísað frá héraðsdómi er haldlaus. Fjárhæðin, sem krafist er til að bæta áfrýjanda kostnað af aðstoð lögmanns, 37.350 krónur, er í hóf stillt og verður fallist á þann lið kröfunnar. Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda alls 67.350 krónur með vöxtum, eins og segir í dómsorði.
Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Stefndi, Sigurður Freyr Pétursson, greiði áfrýjanda, Elíasi Inga Björgvinssyni, 67.350 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. október 2001 til greiðsludags.
Stefndi greiði 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. júlí 2002.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 1. júlí sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, dags. 22. febrúar 2002 á hendur:
,,Sigurði Frey Péturssyni, kennitala 291284-2999,
Búhamri 12, Vestmannaeyjum
og
Friðriki Guðmundssyni, kennitala 180184-3219,
Miðstræti 18, Vestmannaeyjum
fyrir eftirtalin brot:
I.
ákærða Sigurði fyrir líkamsárás
með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 23. júní 2001 í Norðursundi (Skvísusundi) í Vestmannaeyjum ráðist á Elías Inga Björgvinsson, kennitala 060481-3779 og slegið hann eitt hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að Elías fékk sár innan á efri vör vinstra megin ásamt bólgu á vörina og eymsli í miðsnesi.
II.
ákærðu báðum fyrir líkamsárás
fyrst ákærði Sigurður með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 8. júlí 2001 við gatnamót Heiðarvegar og Vesturvegar í Vestmannaeyjum ráðist á Árna Jens Valgarðsson, kennitala 020484-2929, þar sem ákærði sló Árna einu sinni með krepptum hnefa í höfuð og lamdi hann tvisvar í höfuðið með plastflösku, en skömmu síðar ákærðu báðir í sameiningu, nokkru neðar við Heiðarveginn við Skvísusund, ráðist á Árna og slegið hann fjölmörg hnefahögg í andlitið þannig að hann féll í götuna, þar sem ákærðu spörkuðu nokkrum sinnum í höfuð, bak og maga hans, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut mar undir hægra auga, blæðingu á hvítu augans og beinbrot í gólfi augntóftar við nef hægra megin og innihald augntóftar féll að nokkru leyti niður í gegnum brotið.
Telst I. ákæruliður varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 1940 sbr. 10. gr. laga nr. 20 frá 1981, en ákæruliður II. telst varða við 1. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20 frá 1981.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Þá hefur Helgi Bragason, héraðsdómslögmaður krafist þess fyrir hönd Árna Jens Valgarðssonar að ákærðu verði dæmdir in solidum til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð krónur 612.458,-, þar með taldar krónur 37.350,-, vegna lögmannsaðstoðar, auk vaxta frá tjónsdegi, sbr. 16. gr. skaðabótalaga og dráttarvexti samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38 frá 2001.
Þá hefur lögmaðurinn og krafist þess fyrir hönd Elíasar Inga Björgvinssonar að ákærði Sigurður Freyr verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð krónur 127.022,-, með vöxtum frá tjónsdegi sbr. 16. gr. skaðabótalaga og dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.”
Ákærði, Sigurður Freyr Pétursson, kom fyrir dóm og játaði þá háttsemi sem honum er gefin að sök í fyrri lið ákæruskjals. Hann mótmælti bótakröfu Elíasar Inga Björgvinssonar.
Hvað síðari ákærulið varðar viðurkenndi ákærði að hafa slegið Árna Jens Valgarðsson einu sinni í hnakkann með plastflösku, en neitaði að hafa slegið hann með krepptum hnefa í höfuðið og neitaði að hafa sparkað í höfuð, bak og maga hans með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Hann mótmælti bótakröfu Árna Jens Valgarðssonar.
Ákærði, Friðrik Guðmundsson, kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir atvikum en neitaði að hafa framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í síðari lið ákæruskjals og krafðist sýknu. Þá hafnaði hann bótakröfu Árna Jens Valgarðssonar.
Með mál þetta var farið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála varðandi fyrri lið ákæruskjals, en aðalmeðferð háð varðandi þá háttsemi er greinir í síðari lið ákæru.
Málsatvik
Fyrri ákæruliður:
Laugardaginn 23. júní 2001, klukkan 03:30, tilkynnti Elías Ingi Björgvinsson lögreglunni í Vestmannaeyjum að Sigurður Freyr Pétursson, ákærði í máli þessu, hefði tilefnislaust slegið sig eitt högg í andlitið þar sem Elías Ingi var við gæslu í Skvísusundi.
Í áverkavottorði Sigurjóns Kristinssonar, yfirlæknis á Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum, dags. 6. júlí 2001, segir að Elías Ingi Björgvinsson hafi komið á Heilsugæslustöðina 25. júní 2001, klukkan 10:00. Orðrétt segir í vottorðinu: „Sár innan á efri vör, vi.megin á móts við augntönn. Væg bólga vi. efri vör. Ekki sár utanverði vörinni. Væg eymsli í miðsnesi eftir höggið. Að sögn Elíasar var hann með höfuðverk og ógleði daginn eftir að átökin áttu sér stað en kastaði ekki upp... Af þessu að dæma er um minniháttar áverka að dæma og ætti ekki að skilja eftir sig varanleg mein.”
Með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við gögn málsins og með vísan til afleiðinga brotsins þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot það sem honum er gefið að sök og réttilega er fært til refsiákvæðis.
Síðari ákæruliður:
Mánudaginn 9. júlí 2001 kom Árni Jens Valgarðsson á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum og kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás á Heiðarvegi, rétt sunnan við Norðursund (Skvísusund) deginum áður. Hann kvaðst hafa verið að ganga frá Skvísusundi og verið kominn á Heiðarveg er fjórir drengir komu hlaupandi á eftir honum og réðust á hann. Hann kvaðst hafa séð einn af árásarmönnunum og hafi það verið ákærði, Sigurður Freyr. Hann kvaðst muna óljóst eftir hnefahöggi frá honum. Hina þrjá árásarmennina þekkti ákærði ekki, en einn þeirra muni vera kallaður ,,Frikki”. Hann kvaðst hafa farið til ákærða, Sigurðar Freys, til að fá skýringar á árásinni, og hafi þá ákærði beðið hann afsökunar. Einnig hafi hann greitt kostnað vegna læknisskoðunar.
Í áverkavottorði Sigríðar Ásu Maack læknanema, Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum, dags. 25. ágúst 2001 segir að vottorðið sé gefið vegna líkamsárásar 8. júlí 2001. Síðan segir orðrétt: ,,Árni kom í skoðun á heilsugæslu um hádegisbilið, hafði fengið flösku í hægra auga um nóttina, þungt högg en flaskan brotnaði ekki. Við komu kvartar hann um mikla verki og tvísýni. Hægra auga er sokkið af bólgu, mar neðan augans og eftir augabrúninni. Mikil þreifieymsli yfir augntóftinni og kinnbeini hægra megin. Blæðing er í hvítunni miðlægt við hornhimnuna. Augnhreyfingar eru eðlilegar en mjög sársaukafullar þegar horft er niður og til hægri, þá er tvísýni líka mest. Sjónskerpa er eðlilega á báðum augum. Augasteinar svara ljósi eðlilega Við komu á stofu þann 9. júlí 2001 er hann enn með mikla verki og tvísýni hefur ekkert lagast. Því er fenginn tími í tölvusneiðmynd af augntóft fyrir hann í Domus Medica samdægurs. Hún sýnir blow out brot í gólfi augntóftar miðlægt. Þá fær hann tíma á HNE deild á Landspítalanum í Fossvogi og fer í aðgerð daginn eftir þar sem sett er plata í gólf augntóftar. Eftir þá aðgerð gapir neðra augnlokið og nær ekki að augnhnettinum og fer hann í aðgerð til að laga það sem tekst ekki sem skyldi og er fyrirhuguð önnur slík aðgerð innan skamms Hann var mjög kvalinn í nokkra daga eftir árásina, svaf ekki í 5 nætur, var nánast rúmfastur fyrstu 2 dagana. Var einnig með töluverðan svima. Telja má að hann hafi verið orðinn vinnufær 5-6 vikum eftir árásina.
Að mínu mati er þetta nokkuð alvarlegur áverki sem hefur haft mikil áhrif á daglegt líf hans síðustu vikurnar.”
Í áverkavottorði Ingu Þórarinsdóttur, deildarlæknis á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, dags. 24. júlí 2001 segir m.a.: ,,Við komu á göngudeild háls-, nef- og eyrnadeildar þann 10. júlí sl. var hann með greinilegt mar undir hægra auga og einnig blæðingu í hvítu augans. Við skoðun á augnhreyfingum eru þær nokkuð góðar en þó er ákveðin skerðing á hreyfingu er hann lítur niður á við hægra megin. Nokkuð mikil tvísýsni er einnig til staðar...Samkvæmt tölvusneiðmynd er greinilegt brot í gólfi augntóttar hæ.megin, nokkuð innarlega, nær nefinu. Einnig sést að innihald augntóttar liggur þar niður að nokkru leyti í gegnum brotið”...
Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Sigurður Freyr Pétursson, kvaðst hafa slegið Árna Jens Valgarðsson í höfuðið með plastflösku, nánar tiltekið í hnakkann. Einum og hálfum til tveimur tímum síðar kvaðst ákærði hafa verið staddur í Skvísusundi og hitt ákærða Friðrik. Ákærði kvaðst hafa séð meðákærða Friðrik kýla Árna Jens tvisvar í andlitið og sparka í hann og hefði Árni Jens rotast við höggin. Ákærði kvaðst hafa staðið nokkrum metrum frá ákærða Friðrik og rifið í hann þegar hann sparkaði í Árna Jens sem þá lá í götunni. Friðrik hefði hins vegar haldið áfram en síðan hlaupið í burtu. Ákærði kvaðst aldrei hafa slegið eða sparkað í Árna Jens.
Ákærði, Friðrik Guðmundsson kvaðst hafa ekki muna eftir atvikum umrædda nótt.
Vitnið Árni Jens Valgarðsson gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvað ákærða Sigurð Frey hafa ráðist á sig og slegið sig nokkrum sinnum hnefahögg í andlitið og einnig slegið sig með plastflösku, líklega í hnakkann. Eftir það kvaðst Árni Jens hafa farið í heimahús og taldi hann afleiðingar árásarinnar ekki hafa verið miklar. Síðar um kvöldið, líklega klukkustund síðar, hefði hann farið í Skvísusund og þar hefðu tveir menn ráðist á sig. Hann kvaðst óljóst muna eftir að sparkað hefði verið í hann þar sem hann lá í götunni. Honum hefði verið sagt að ákærðu Sigurður Freyr og Friðrik hefðu þar verið að verki.
Árni Jens kvaðst hafa starfað sem sjómaður þegar hann varð fyrir árásinni og að skipið sem hann var á hefði verið á veiðum í rúma viku eftir að hann varð óvinnufær eftir árásina. Hann kvaðst hafa þurft að fara í tvær augnaðgerðir enda hefði bein undir augnbotni brotnað. Fram kom hjá vitninu að sjón hans væri í lagi, en hann kvaðst fá krampa af og til í augað. Sérstaklega aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að hafa gengið á símastaur umrædda nótt, en kvaðst hafa verið nokkuð ölvaður.
Sigríður Ósk Jensdóttir gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst hafa átt í sambandi við Árna Jens umrætt sumar. Þá kvaðst hún þekkja báða ákærðu. Í upphafi greindi hún frá því að sú kjaftasaga hefði komist á kreik að Árni Jens hefði nauðgað henni. Umrætt kvöld hefðu ákærðu frétt þetta og þá ráðist á Árna Jens. Árásin hefði fyrst átt sér stað fyrir neðan gatnamót Heiðavegar og Vesturvegar. Hún kvaðst hafa séð að ákærðu voru að ræða við Árna Jens sem hefði gengið í burtu, en ákærðu þá elt hann. Þeir hefðu haldið áfram að ræða við hann, en síðan hefði ákærði Sigurður Freyr slegið Árna Jens í andlitið með flösku. Þá hefði Sigurður Freyr einnig slegið Árna Jens með krepptum hnefa í augað. Fram kom hjá vitninu að Árni Jens hefði verið lítillega rauður undir auganu eftir höggið. Hún kvað ákærða Friðrik ekki hafa slegið Árna Jens, hann hefði einungis rætt við hann og stuggað eitthvað við honum. Eftir þetta kvaðst vitnið hafa farið heim og hefði Árni Jens farið heim með tveimur vinkonum hennar. Hún kvaðst ekki hafa orðið vitni að því sem gerðist eftir það, þ.e. síðari árásinni á Árna Jens.
Vitnið Anna Halldórsdóttir sagði að hún og ákærði hefðu verið á gangi og hefðu þá ákærðu og Hannes Kristinn [Sigurðsson] komið að og hótað að berja Árna Jens. Ákærði Sigurður Freyr hefði verið með plastflösku og hent henni í Árna Jens. Úr árásinni hefði hins vegar ekkert meira orðið. Síðan hefði Árni farið heim með vitninu. Árni Jens hefði verið ofurölvi og átt erfitt með gang og á leiðinni hefði hann m.a. gengið á ljósastaur. Vitnið kvaðst hafa farið aftur niður í bæ, líklega klukkutíma síðar, en Árni Jens hefði farið þangað á undan henni. Þegar hún kom niður í bæ aftur hefðu nokkrir strákar ráðist að Árna Jens. Vitnið kvaðst hafa séð að annar hvor ákærðu kýldi Árna Jens þannig að hann féll í götun. Þá kvaðst vitnið halda að ákærðu hefðu báðir sparkað í Árna Jens þar sem hann lá í götunni, en gat ekki sagt hvar spörkin lentu. Ítrekað aðspurt kvaðst vitnið ekki vera visst um hvor ákærðu sparkaði í Árna Jens og sérstaklega aðspurt kvaðst vitnið minna að ákærði Friðrik hefði ekki sparkað í Árna Jens. Ákærði Friðrik hefði síðan rokið burtu.
Vitnið Styrmir Jóhannsson kvaðst ekki muna vel eftir atvikum, en kvað ákærðu báða hafa ráðist að Árna Jens. Hann kvaðst hafa séð einhver högg og kvaðst halda að ákærðu hefðu báðir veitt honum hnefahögg, en gat ekki sagt til um hvar höggin lentu. Vitnið kvaðst ekki muna hvort báðir ákærðu hefðu átt jafnan þátt í árásinni. Hann kvað Árna Jens hafa fallið við hnefahögg í andlitið sem annar hvor ákærðu veittu honum. Ítrekað aðspurður kvaðst vitnið ekki geta sagt til hvor ákærðu hefði veitt honum það högg. Vitnið kvaðst ekki muna hvað gerðist eftir það. Þó kvaðst hann muna eftir að maður nokkur, Viðar, hefði komið að og stöðvað árásina og rifið ákærða Sigurð Frey í burtu. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvar ákærði Friðrik var þá. Sérstaklega aðspurt sagði vitnið að Sigríður Ósk Jensdóttir hefði verið á vettvangi allan tímann.
Vitnið Kristín Tryggvadóttir kvaðst hafa orðið vitni að því að einhverjir strákar, einn af þeim hefði verið ákærði Friðrik, hefðu ætlað að ráðast á Árna Jens. Friðrik hefði slegið Árna Jens með plastflösku í vangann, en það hefði þó ekki verið eiginleg árás. Ítrekað aðspurð kvaðst hún ekki muna hvor ákærðu, Sigurður Freyr eða Friðrik, hefði slegið Árna Jens í greint skipti. Eftir það hefði Árni farið heim með vitninu og Önnu Halldórsdóttur. Vitnið kvaðst hafa orðið eftir heima að passa systkini sín en Anna hefði farið aftur niður í bæ með Árna Jens. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að Árni Jens hefði gengið á ljósastaur á leiðinni. Eftir að hafa lesið skýrslu sem hún gaf lögreglu símleiðis frá 18. júlí 2000 kvaðst vitnið reikna með það hefði verið ákærði Sigurður Freyr sem hefði slegið Árna Jens með plastflöskunni, en ekki ákærði Friðrik.
Viðar Hjálmarsson kvaðst hafa verið að koma út úr Skvísusundi og litið í átt að Pizza 67 og séð dreng liggja þar í götunni. Í því að vitnið horfði þangað hefði hann séð mann koma hlaupandi niður eftir götunni, sem tekið hefði 2-3 skref og sparkað, að því er vitninu sýndist, í andlit mannsins sem lá á götunni. Hann kvaðst hafa orðið reiður, stokkið til og dregið árásarmanninn niður eftir götunni. Daginn hefði hann komist að nafni árásarmannsins og hefði það verið ákærði, Sigurður Freyr.
Hannes Kristinn Sigurðsson, vinur ákærðu, kom fyrir dóm. Hann kvaðst ekki hafa séð hina meintu árás, en ákærðu hefðu sagt sér að þeir hefðu slegið Árna Jens.
Jens Kristinn Elíasson kvaðst hafa séð þegar ákærði Friðrik kýldi Árna Jens þar sem hann var uppistandandi, að því er vitnið minnti, en kvaðst ekki hafa séð hvar höggið lenti. Þetta hefði gerst í Skvísusundi. Fimm til tíu mínútum síðar kvaðst hann hafa séð ákærða Sigurð Frey taka tilhlaup og sparka í Árna Jens sem hefði legið á götunni. Þá kvaðst hann hafa séð þegar Viðar dró ákærða Sigurð Frey í burtu. Ítrekað aðspurt kvaðst vitnið ekki vera visst um hvor ákærðu var þarna að verki. Þá kom fram að honum hefði verið sagt ýmislegt um atburðinn.
Niðurstaða.
Tjónþoli, Árni Jens, bar fyrir dómi að ákærði, Sigurður Freyr hefði slegið sig hnefahögg í andlit og með plastflösku við gatnamót Heiðarvegar og Vesturvegar.
Ákærði, Sigurður Freyr, viðurkenndi að hafa slegið Árna Jens í höfuðið með plastflösku en neitar að hafa slegið hann hnefahögg í höfuð. Framburður Árna Jens á sér hins vegar stoð í framburði vitnisins Sigríðar Óskar Jensdóttur, sem bar að hún hefði séð ákærða, Sigurð Frey, slá Árna Jens með flösku og krepptum hnefa í andlit. Ber að leggja framburð Árna Jens til grundvallar um árás þessa og þykir sönnuð sú háttsemi sem tilgreind er í ákæru, að því undanskildu að ekki hefur verið sýnt fram á að um tvö högg hafi verið að ræða með flöskunni.
Um það sem síðar gerðist við Skvísusund greinir vitni og ákærðu verulega á um, en ákærði, Sigurður Freyr bar fyrir dómi að meðákærði Friðrik hefði bæði kýlt Árna Jens og sparkað í hann. Ákærði, Friðrik sem og tjónþoli báru við algeru minnisleysi um atburði.
Vitnið Styrmir Jóhannsson bar að ákærðu hefðu báðir slegið Árna Jens sem hafi fallið við höggin og vitnið Jens Kristinn Elíasson bar að hann hafi séð er ákærði Friðrik sló Árna Jens. Þá bar vitnið Viðar Hjálmarsson að hann hafi séð ákærða, Sigurð Frey, taka tilhlaup og sparka í andlit Árna Jens og vitnið Jens Kristinn bar einnig að hann hefði séð ákærða, Sigurð Frey taka tilhlaup og sparka í Árna Jens, sem legið hefði í götunni.
Þótt þáttur hvors ákærða um sig í árásinni sé ekki ljós samkvæmt framburði vitna eða fjöldi högga þeirra og sparka sem Árna Jens voru veitt, þykir með framburði þeirra og ákærða Sigurðar Freys þó sannað að ákærðu hafi í sameiningu ráðist að Árna Jens og slegið hann hnefahögg í andlit og ákærði, Sigurður Freyr, sparkað í hann þar sem hann lá í götunni, allt með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir og raktar eru í læknisvottorðum.
Ákærði, Sigurður Freyr Pétursson, sem var 16 ára þegar atburðir þeir sem ákært er fyrir í máli þessu áttu sér stað, hefur ekki sætt kærum og refsingum svo kunnugt sé.
Við ákvörðun refsingar er horft til þess að ákærði Sigurður Freyr hefur játað brot sitt í fyrri ákærulið greiðlega. Þá ber við ákvörðun refsingar að líta til ungs aldurs hans og að hann hefur ekki áður sætt kærum eða refsingum svo kunnugt sé. Við ákvörðun refsingar ber hins vegar einnig að líta til þess að um samverknað var að ræða og að ljóst er af framburði vitna að hann hafi gengið harðar fram í árásinni en ákærði Friðrik.
Með hliðsjón af framangreindu og vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 4 mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu hennar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Friðrik Guðmundsson var 17 ára þegar atburður sá sem ákært er fyrir í síðari lið ákæruskjals átti sér stað. Samkvæmt sakavottorði var ákæru á hendur honum var frestað skilorðsbundið í 2 ár 8. janúar 2000 vegna brots gegn 217. gr. almennra hegningarlaga.
Við ákvörðun refsingar ber að líta til ungs aldurs hans en hins vegar einnig að líta til þess að um samverknað var að ræða. Þá ber að horfa til 5. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 3 mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu hennar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Bótakröfur
Fyrri ákæruliður:
Helgi Bragason hdl., hefur, f.h. Elíasar Inga Björgvinssonar, krafist bóta fyrir vinnutap, miskabóta og skaðabóta vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfunni. Bótakrafa hans sundurliðast svo:
„Vinnutap kr. 9.672
Miskabætur kr. 80.000
Lögmannsþóknun kr. 30.000
Virðisaukaskattur á þóknun kr. 7.350
Samtals: kr.127.022”
Ákærði hefur mótmælt bótakröfunni, en fylgiskjöl með henni er óundirritað ljósrit yfirlýsingar vinnuveitanda Elíasar. Kröfu um miskabætur styður lögmaðurinn við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Þegar fylgigögn kröfunnar eru virt verður ekki hjá því komist að vísa kröfu um vinnutap frá dómi, en ekki eru skilyrði til að beita ákvæðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í málinu. Þá þykja ekki efni til að dæma ákærða til að greiða lögmannsþóknun, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Síðari ákæruliður:
Helgi Bragason hdl., hefur einnig sett fram bótakröfu f.h. Árna Jens Valgarðssonar á hendur ákærðu báðum auk Hannesar Kristins Sigurðssonar. Hannes Kristinn er ekki ákærður í máli þessu og verður bótakröfu á hendur honum því vísað frá dómi. Bótakrafan sundurliðast svo:
Vinnutap kr. 437.798
Miskabætur kr. 100.000
Þjáningabætur kr. 37.310
Lögmannsþóknun kr. 30.000
Virðisaukaskattur á þóknun kr. 7.350
Samtals kr. 612.458
Ákærðu hafa mótmælt bótakröfunni, en fylgiskjöl með henni er m.a. ljósrit launaseðils tjónþola frá mánuðinum á undan árásinni, en ekkert liggur fyrir í málinu um raunverulegt vinnutap tjónþola. Kröfu um miskabætur styður lögmaðurinn við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Þegar fylgigögn kröfunnar eru virt verður ekki hjá því komist að vísa kröfu um vinnutap frá dómi, en ekki eru skilyrði til að beita ákvæðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í málinu. Þá þykja ekki efni til að dæma ákærða til að greiða lögmannsþóknun, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, en fallist er á að ákærðu beri að greiða tjónþola in solidum þjáningabætur að fjárhæð 37.310 krónur.
Með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála greiði ákærði, Sigurður Freyr, sakarkostnað þann er heyrir undir I. kafla ákæru og skipuðum verjanda sínum, Sigurði Jónssyni hrl., 70.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði, Friðrik, greiði skipuðum verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., 70.000 krónur í málsvarnarlaun.
Sakarkostnað þann er heyrir undir II. kafla ákæru greiði ákærðu in solidum.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Sigurður Freyr Pétursson, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði, Friðrik Guðmundsson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærðu greiði in solidum Árna Jens Valgarðssyni 37.310 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 2. desember 2001 til greiðsludags.
Ákærði, Sigurður Freyr, greiði áfallinn sakarkostnað vegna I. kafla ákæru og skipuðum verjanda sínum, Sigurði Jónssyni hrl., 70.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði, Friðrik Guðmundsson greiði skipuðum verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., 70.000 krónur í málsvarnarlaun.
Annan áfallinn sakarkostnað vegna II. kafla ákæru greiði ákærðu in solidum.