Hæstiréttur íslands

Mál nr. 689/2011


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Frestdagur


Fimmtudaginn 14. júní 2012.

Nr. 689/2011.

Matfugl ehf.

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

þrotabúi Lystar ehf.

(Jóhann H. Hafstein hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Frestdagur.

M ehf. og L ehf. áttu í viðskiptum um árabil. Á tímabilinu 30. október 2009 til 1. júní 2010 voru vörur afhentar til L ehf. gegn greiðslufresti. Bú L ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 9. júlí 2010. Í málinu var krafist riftunar á tilteknum greiðslum L ehf. til M ehf. sem fram höfðu farið eftir frestdag sem talinn var vera 4. nóvember 2009, en þá hafði héraðsdómara fyrst borist beiðni um gjaldþrotaskipti á búi L ehf. Riftunar var krafist óháð því að M ehf. lét L ehf. í té vörur sem ágreiningslaust var að félagið nýtti sér í rekstri sínum. Við lok viðskipta aðila var skuld L ehf. mun hærri en á frestdegi. Í Hæstarétti var því ekki talið að þrotabúið hefði sýnt fram á að M ehf. hefði haft hag af hinum umþrættu greiðslum þannig að unnt væri að rifta þeim hvorki á grundvelli 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 né 141. gr. laganna sem einnig var vísað til og var M ehf. því sýknað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. desember 2011. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Lyst ehf. rak veitingastaðinn McDonalds sem fékk heitið Metro á árinu 2009. Lyst ehf. hafði um árabil verið í viðskiptum við áfrýjanda og keypt af honum kjúklingakjöt sem notað var í máltíðir á umræddum skyndibitastöðum. Á tímabilinu 30. október 2009 til 1. júní 2010 voru viðskipti milli þessara aðila þar sem kjúklingur var afgreiddur til Lystar ehf. gegn greiðslufresti, sem í sumum tilvikum var til fimmtánda dags næsta mánaðar eða í þrjár vikur frá afhendingu. Ágreiningslaust er að 4. nóvember 2009 nam skuld Lystar ehf. við áfrýjanda 161.600 krónum og þann sama dag afhenti áfrýjandi félaginu vörur fyrir 96.710 krónur. Samkvæmt yfirliti 9. febrúar 2010, sem stefndi lagði fram í málinu og sýnir 62 færslur, var skuld Lystar ehf. við áfrýjanda 25. janúar 2010 komin í 2.870.975 krónur og fór eftir það ýmist hækkandi eða lækkandi og var 1. júní sama ár komin í 859.060 krónur. Meðal gagna málsins er reikningur áfrýjanda á hendur Lyst ehf. fyrir vöruúttekt að fjárhæð 153.545 krónur, en reikningurinn kemur einnig fram á yfirliti sem áfrýjandi lagði fram og spannar tímabilið 4. nóvember 2009 til 1. júní 2010. Til samræmis við þetta telur áfrýjandi að lokastaða viðskiptanna á tímabilinu síðastnefndan dag hafi verið 1.012.605 krónur og verður það lagt til grundvallar, enda hreyfði stefndi ekki andmælum gegn þessum reikningi fyrr en við flutning málsins hér fyrir dómi og eru þau því of seint fram komin. Af framangreindu leiðir að skuld Lystar ehf. við áfrýjanda í lok dags 4. nóvember 2009 nam 258.310 krónum, en 1. júní 2010 var hún orðin 1.012.605 krónur.

II

Krafa um gjaldþrotaskipti á búi Lystar ehf. barst héraðsdómi 4. nóvember 2009, en hún var afturkölluð 9. febrúar 2010. Beiðni um gjaldþrotaskipti barst héraðsdómi að nýju 5. mars 2010, en sú beiðni var afturkölluð 4. maí sama ár. Þriðja beiðnin um gjaldþrotaskipti á búi félagsins barst síðan héraðsdómi 1. júní 2010 og var búið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 9. júlí sama ár.

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. telst frestdagur sá dagur sem héraðsdómara barst krafa um gjaldþrotaskipti, þótt krafan hafi verið afturkölluð eða henni verið hafnað, ef honum berst ný krafa um gjaldþrotaskipti innan mánaðar frá því það gerðist. Með hliðsjón af 2. og 3. mgr. sömu lagagreinar eru ekki efni til að skýra umrætt ákvæði á annan veg en þann að frestdag beri að miða við hvenær héraðsdómi barst fyrst krafa um gjaldþrotaskipti, þótt krafan sé afturkölluð, að því gættu að ný krafa hafi borist innan mánaðar frá því afturköllun átti sér stað. Með því að þessu síðastgreinda lagaskilyrði var fullnægt í báðum tilvikum þegar héraðsdómi barst krafa um gjaldþrotaskipti á búi Lystar ehf. telst frestdagur er slík krafa barst héraðsdómi í fyrsta skipti 4. nóvember 2009.

Það er markmið riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991 að tryggja jafnræði kröfuhafa þrotamanns þannig að enginn þeirra hagnist á ráðstöfunum hans í aðdraganda gjaldþrots umfram aðra kröfuhafa. Á frestdegi, 4. nóvember 2009, nam skuld Lystar ehf. við áfrýjanda samkvæmt áðursögðu 258.310 krónum, en við lok viðskiptanna 1. júní 2010 var hún orðin  1.012.605 krónur. Samkvæmt því hækkaði skuld Lystar ehf. við áfrýjanda um 754.295 krónur frá frestdegi til 1. júní 2010. Kröfugerð stefnda á hendur áfrýjanda, sem einkum var reist á 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991, var þannig úr garði gerð í stefnu í héraði að krafist var riftunar á nánar tilgreindum sjö greiðslum félagsins til áfrýjanda eftir frestdag, óháð því að hinn síðarnefndi lét Lyst ehf. í té vörur sem ágreiningslaust er að félagið nýtti í rekstri sínum.

Að þessu virtu hefur stefndi ekki sýnt fram á að áfrýjandi hafi haft hag af hinum umþrættu greiðslum. Verður greiðslum þessum því hvorki rift á grundvelli 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 né 141. gr. laganna sem stefndi vísar einnig til. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfum stefnda í málinu og stefndi dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Matfugl ehf., er sýkn af kröfum stefnda, þrotabús Lystar ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. október sl., var höfðað 9. janúar 2011.

Stefnandi er Þrotabú Lystar ehf., Fákafeni 9, Reykjavík.

Stefndi er Matfugl ehf., Sundagörðum 10, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

Að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum á viðskiptaskuld Lystar ehf. við stefnda, samtals að fjárhæð 3.715.814 krónur.

1. júní 2010

500.000 kr.

17. maí 2010

550.000 kr.

7. maí 2010

317.700 kr.

30. apríl  2010

200.000 kr.

9. mars 2010                            

500.000 kr.

22. febrúar 2010

300.000 kr.

21. janúar 2010

1.348.114 kr.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda bætur að fjárhæð 3.715.814 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.348.114 krónum frá 21. janúar 2010 til 22. febrúar 2010, af 1.648.114 krónum frá þeim degi til 9. mars 2010, af 2.148.114 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2010, af 2.348.114 krónum frá þeim degi til 7. maí 2010, af 2.665.814 krónum frá þeim degi til 17. maí 2010, af 3.215.814 krónum frá þeim degi til 1. júní 2010 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Einnig er þess krafist að stefndi verði  dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar stefnda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Málavextir

Málavextir eru þeir að hinn 3. nóvember 2009 lagði Gildi-lífeyrissjóður fram beiðni um gjaldþrotaskipti á búi Lystar ehf., en sú beiðni var afturkölluð hinn 9. febrúar 2010. Þann 4. mars 2010 lagði Gildi-lífeyrissjóður fram að nýju beiðni um gjaldþrotaskipti á félaginu en sú beiðni var afturkölluð þann 4. maí 2010. Gildi-lífeyrissjóður lagði enn á ný fram beiðni um gjaldþrotaskipti á félaginu með beiðni sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 1. júní 2010. Síðastnefnd beiðni var ekki afturkölluð og var bú Lystar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2010 í máli nr. G-481/2010 og Jóhann H. Hafstein hdl. skipaður skiptastjóri í búinu.

Stefnandi byggir á því að frestdagur í búinu miðist við það þegar upphafleg beiðni Gildi-lífeyrissjóðs barst héraðsdómara eða hinn 4. nóvember 2009, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Við könnun skiptastjóra á fjárhagsmálefnum Lystar ehf. kom í ljós að félagið greiddi stefnda samtals sjö sinnum eftir 4. nóvember 2009, sbr. sundurliðun í kröfugerð, en greiðslurnar voru framkvæmdar með millifærslum af reikningi Lystar ehf. inn á bankareikning stefnda. Um er að ræða greiðslur, samtals að fjárhæð 3.715.814 krónur.

Með ábyrgðarbréfi skipaðs skiptastjóra til stefnda, dags. 19. október 2010, lýsti þrotabúið yfir riftun á ofangreindum millifærslum Lystar ehf. til stefnda eftir frestdag, nánar tiltekið á tímabilinu frá 21. janúar 2010 til 1. júní 2010. Í bréfinu er þess beiðst að samtala millifærslnanna, samtals að fjárhæð 3.715.814 krónur, yrði lögð inn á reikning lögmannsstofu skiptastjóra en að öðrum kosti yrði höfðað dómsmál til að koma fram riftun og til endurgreiðslu auðgunar stefnda. Af hálfu stefnda var þessu bréfi ekki svarað. Stefnandi telur því nauðsynlegt að höfða dómsmál þetta til riftunar á framangreindri ráðstöfun og til endurgreiðslu þeirra fjármuna sem gengu til stefnda.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveður riftunarkröfu sína einkum vera reista á 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem riftun sé heimiluð ef greitt sé eftir frestdag, nema reglur XVII. kafla laganna hefðu leitt til að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti, nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni eða sá sem greiðslu naut hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hafi fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar, til að leita nauðasamnings, eða krafa um gjaldþrotaskipti.

Stefnandi telur ljóst að umræddar greiðslur Lystar ehf. til stefnda, sem framkvæmdar hafi verið með sjö millifærslum á tímabilinu 21. janúar til 1. júní séu riftanlegar með vísan til nefnds lagaákvæðis. Vísað sé til þess að um sé að ræða greiðslu viðskiptaskulda sem séu tilkomnar vegna gamalla vanskila.

Þá vill stefnandi taka fram að engar líkur séu á að krafan hefði greiðst úr þrotabúinu sem almenn krafa. Framlögð kröfuskrá beri með sér að lýstar kröfur í búið séu samtals að fjárhæð 379.221.887 krónur, og þar af séu 220.897.802 krónum lýst sem veðkröfum eða forgangskröfum. Eignir búsins séu yfirveðsettar og því hafi ekki verið tekin afstaða til almennra krafna, enda ljóst að ekkert fáist til greiðslu upp í þær.              Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að engin rök geti verið til þess að líta svo á að greiðslurnar til stefnda hafi verið nauðsynlegar til að komast hjá tjóni.

Einnig telur stefnandi einsýnt að stefndi hafi vitað, eða a.m.k. mátt vita, að komið hafi fram krafa um gjaldþrotaskipti þegar greiðslurnar voru mótteknar. Líkt og áður hafi komið fram hafi Gildi-lífeyrissjóður lagt fram gjaldþrotaskiptabeiðnir, dags. 3. nóvember 2009 og 4. mars 2010, sem báðar hafi verið afturkallaðar. Beiðnir þessar hafi komið fram á vanskilaskrám þar til þær voru afturkallaðar. Áður en greiðslurnar til stefnda áttu sér stað hafi einnig verið á vanskilaskrá upplýsingar um vanskil vegna krafna þriðja aðila á hendur Lyst ehf., sbr. útprentun úr vanskilaskrá.

Þá sé sérstök ástæða til að vekja athygli á því að umrædd greiðsla hafi farið fram með óvenjulegum greiðslueyri og sé að öllu leyti óvenjuleg sé litið til fyrri viðskipta stefnda og stefnanda.  Ef greitt hefði verið fyrir frestdag hefði greiðslan fallið undir 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þar sé sett það skilyrði fyrir riftun að greitt hafi verið 6 mánuðum fyrir frestdag og með óvenjulegum greiðslueyri. Helstu rök þeirrar reglu séu að ákveðnar löglíkur séu fyrir því að slíkum greiðslum sé ætlað að vera einum kröfuhafa til hagsbóta á kostnað hinna. Þá eigi kröfuhafinn að geta gert sér grein fyrir fjárhagslegri stöðu þrotamanns þegar skuld sé greidd með þessum hætti. Það að skuldin hafi verið greidd eftir frestdag getur að mati stefnanda ekki leitt til þess að kröfuhafinn sé betur settur gagnvart riftunarreglum gjaldþrotaskiptalaga.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið eigi framangreindar undantekningar frá meginreglu 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 ekki við um þá aðstöðu sem uppi sé í þessu máli. Þessu til stuðnings vísi stefnandi til þess að í framkvæmd hafi það gilt að túlka beri þröngt þá undantekningu sem fram kemur í niðurlagi nefnds lagaákvæðis, um að greiðslu verði ekki rift hafi móttakandi hennar verið grandlaus. Byggist sú túlkun á því að um undantekningu frá meginreglu sé að ræða en undantekningarreglur beri almennt að túlka þröngt. Sönnunarbyrði um grandleysi hvíli á þeim sem heldur slíku fram. Að mati stefnanda sé ekkert í málinu sem sýni fram á slíkt, þvert á móti sé allt sem bendi til grandsemi stefnda hvað þetta varðar.

Þá styður stefnandi einnig riftunarkröfu sína sjálfstætt við 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991. Samkvæmt þeirri grein megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði það til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.

Stefnandi byggir á því að umræddar millifærslur Lystar ehf. til stefnda, líkt og áður er rakið, hafi verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa, enda hafi þessi ráðstöfun leitt til þess að fjármunirnir sem um ræði hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum við gjaldþrotaskiptin. Greiðslurnar hafi þannig verið til þess fallnar að mismuna kröfuhöfum og því gengið gegn jafnræði kröfuhafa sem reynt sé að gæta í lögum nr. 21/1991. Engar líkur séu á því að krafan hefði greiðst úr þrotabúinu sem almenn krafa líkt og áður hafi komið fram.

Stefnandi byggir á því að það sé fullkomlega ljóst í málinu að stefndi hafi verið grandsamur um riftanleika greiðslnanna og fjárhagslega stöðu Lystar ehf., þ.e. að félagið hafi eigi verið gjaldfært, þegar ráðstafanirnar voru gerðar. Í þessu sambandi vísist til þess sem áður hefur komið fram í umfjöllun um 139. gr. laganna.

Til stuðnings riftunarkröfu stefnanda sé, sem fyrr segi, vísað til XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, aðallega 139. gr. laganna, sbr. 134. gr., en einnig á 141. gr. sömu laga.

Til stuðnings endurgreiðslukröfunni sé vísað til meginreglu gjaldþrotaskipta­réttar um jafnræði kröfuhafa og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, þar sem fram kemur að fari riftun fram samkvæmt 139. eða 141. gr. skuli sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum  reglum. Fjárhæð bótakröfu stefnanda miðist við samtölu þeirra átján millifærslna, samtals 3.715.814 krónur, sem millifærðar hafi verið á bankareikning stefnda, en það samsvari tjóni þrotabúsins.

Krafa um dráttarvexti sé byggð á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Krafa um málskostnað sé gerð með stoð í 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda í heild sinni.

Stefndi bendir á að Lyst ehf. hafi verið í viðskiptum við stefnda um árabil og keypt kjúklingakjöt af stefnda til að nota í máltíðum sínum, en Lyst ehf. hafi rekið Mcdonalds skyndibitastaðina. Á umræddu tímabili hafi verið stöðug viðskipti milli þessara aðila og hafi greiðslurnar í öllum tilvikum komið á móti kjúklingum sem afgreiddir hafi verið til Lystar, sbr. framlagða reikninga. Stefnandi hefi engin gögn lagt fram til staðfestingar á þessum millifærslum eða sýnt fram á að um gamlar skuldir hafi verið að ræða enda augljóst að sú fullyrðing standist ekki nánari skoðun. Með vísan til þessa er því mótmælt að um skuld hafi verið að ræða í skilningi 139. gr. gþl.

Þá sé því mótmælt að stefndi hafi vitað eða mátt vita að krafa um gjaldþrotaskipti hefði komið fram þegar greiðslurnar voru mótteknar. Stefnandi hafi í fyrsta lagi ekki lagt fram nokkur gögn sem sýna fram á meinta grandsemi stefnda. Í öðru lagi sé sérstök athygli vakin á því að stefndi átti í viðskiptum  við stefnanda alveg fram til 1. júní 2010. Á þessum tímapunkti hafi stefndi enn verið að taka við pöntunum og afhenda stefnanda kjúkling og sé þessu til stuðnings vísað til framlagðs reikningsyfirlits. Verði því að telja ólíklegt að stefndi hafi vitað að fram hafi komið beiðni um gjaldþrotaskipti. Með vísan til þessa er því mótmælt að grandsemisskilyrði 139. gr. gþl. sé fullnægt.

Málsástæðum stefnanda, um að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri, sé harðlega mótmælt. Í fyrsta lagi hafi það enga þýðingu þegar 139. gr. gþl. er annars vegar, hvort um óvenjulegan greiðslueyri er að ræða eða ekki. Í öðru lagi sé algjörlega óútskýrt af hálfu stefnanda hvers vegna stefnandi líti á hinar umstefndu greiðslur sem óvenjulegan greiðslueyri, enda óskiljanlegt hvernig það geti talist óvenjulegt af hálfu Lystar ehf. að greiða fyrir kjúkling frá stefnda með peningum. Stefnandi hafi ekki útskýrt það nánar með hvers konar munum hann telur að venjulegt hefði verið að greiða fyrir kjúklinginn.

Auk framangreinds sé byggt á því gagnvart 139. gr. gþl. að Lyst ehf. hafi verið nauðsynlegt að greiða til að komast hjá tjóni, sbr. 139. gr. gþl. Félagið hafi rekið veitingastaði og þurfti nauðsynlega á hráefni að halda til að reka staðina. Hefði ekki verið greitt fyrir kjúklinginn hjá stefnda gefi augaleið að veitingastaðirnir hefðu ekki getað afgreitt viðskiptavini sína og þar af leiðandi hefði félagið orðið af þeim hagnaði sem hlaust af áframhaldandi sölu. Það gefi því augaleið að það hafi verið félaginu til hagsbóta að greiða fyrir vörur frá stefnda til að geta haldið áfram rekstri veitingastaðanna.

Með vísan til alls framangreinds er ljóst að 139. gr. gþl. eigi ekki við í þessu máli og beri að hafna öllum málsástæðum stefnanda byggðum á ákvæðinu.

Stefnandi byggi jafnframt á 141. gr. gþl. til riftunar hinna umstefndu greiðslna. Þessari málsástæðu stefnanda sé harðlega mótmælt, en stefnandi vísi til málsástæðna sinna fyrir 139. gr. í þessu sambandi. Vísi stefndi því jafnframt til þeirra málsástæðna sem að framan séu raktar enda leiði þær til þess að 141. gr. geti ekki átt við um hinar umstefndu greiðslur. Telja verði augljóst að ekki hafi verið um ótilhlýðilegar ráðstafanir að ræða í skilningi ákvæðisins og kröfuhafar hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni við viðskiptin heldur þvert á móti megi ætla að búið hafi hagnast á viðskiptunum.

Stefndi vísar til 139. gr. og 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 kröfum sínum til stuðnings. Þá er um málskostnaðarkröfu vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í greinargerð stefnda er því borið við að engin gögn hafi verið lögð fram til staðfestingar á þeim millifærslum sem áttu sér stað frá Lyst ehf. til stefnda. Stefnandi hefur lagt fram hreyfingalista yfir greiðslur Lystar ehf. til stefnda svo og yfirlit yfir millifærslur á umræddum greiðslum frá Lyst ehf. til stefnda. Telst því sýnt fram á  að umræddar greiðslur hafi átt sér stað.

Kröfu sína um riftun byggir stefnandi aðallega á 139. gr. laga nr. 21/1991um gjaldþrotaskipti o.fl. Í greininni segir að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar ef greitt var eftir frestdag nema reglur XVII. kafla hefðu leitt til að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti, nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni eða sá sem greiðslu naut hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hefði fram krafa um gjaldþrotaskipti.

Fyrir liggur að þær greiðslur sem riftunar er krafist á voru allar greiddar eftir frestdag, 9. nóvember 2009. Eru umræddar greiðslur því riftanlegar nema þau undantekningarákvæði sem tilgreind eru í ákvæðinu eigi við.

Ekki hafa líkur verið að því leiddar að umræddar kröfur hefðu greiðst við gjaldþrotaskipti, sbr. XVII. kafli laganna, og er því heldur ekki haldið fram af hálfu stefnda.

Stefndi byggir á því að Lyst ehf. hafi verið nauðsynlegt að greiða stefnda til þess að firra sig tjóni. Félagið hafi rekið veitingastaði og þurft nauðsynlega á hráefni að halda til þess að reka staðina. Reksturinn hefði hrunið saman um leið og greiðslufall varð því að eftir þann tíma hefði stefndi umsvifalaust hætt öllum vöruafhendingum til Lystar ehf.

Stefndi hefur engin rök fært fram fyrir þessari fullyrðingu sinni og ekkert það hefur komið fram í málinu er styður það að tjóni hafi verið afstýrt með umræddum viðskiptum. Þá liggur fyrir að Lyst ehf. var komin í greiðsluþrot löngu fyrir þessi tilteknu viðskipti, sbr. framlagðar yfirlýsingar forsvarsmanns Lystar ehf. um eignaleysi og greiðsluþrot.

Kemur þá til skoðunar hvort stefndi hafi vitað eða mátt vita að beiðni um gjaldþrotaskipti var fram komin á þeim tíma er umræddar greiðslur fóru fram. Stefndi heldur fram grandleysi sínu varðandi þetta atriði. Ber hann sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi ekki vitað eða mátt vita að beiðni um gjaldþrotaskipti var fram komin.

Viðskipti málsaðila voru ekki staðgreiðsluviðskipti heldur lánsviðskipti. Af framlögðum tölvupóstum milli fyrirsvarsmanns Lystar ehf. og framkvæmdastjóra stefnda verður ráðið að Lyst ehf. hafi haft greiðslufrest til 15. næsta mánaðar eftir úttekt. Framlagður hreyfingalisti yfir viðskiptin ber með sér að greiðslur Lystar ehf. til stefnda voru handahófskenndar og ekki í samræmi við greiðsluskilmála og vanskil töluverð á því tímabili sem hér um ræðir. Af því verður ráðið að stefnda mátti vera ljóst að Lyst ehf. ætti við greiðsluörðugleika að stríða. Liggur og fyrir, samkvæmt fyrrgreindum tölvupóstum, að af hálfu stefnda var þrýst á forsvarsmann Lystar ehf. að greiða gjaldfallna reikninga. Var það því á valdi stefnda að tryggja stöðu sína gagnvart Lyst ehf. og frekari vanskilum af félagsins hálfu. Gat hann gert það með því að afla sér upplýsinga í samræmi við 3. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1991. Þegar það er virt þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi ekki mátt vita um fram komna kröfu um gjaldþrotaskipti á búi Lystar ehf.

Samkvæmt framansögðu telst fullnægt skilyrðum 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 og er fallist á kröfu stefnanda um riftun á tilgreindum greiðslum, samtals að fjárhæð 3.715.814 krónur. Er stefndi því samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina með umkröfðum dráttarvöxtum.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 500.000 krónur

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Rift er eftirfarandi greiðslum á viðskiptaskuld Lystar ehf. við stefnda Matfugl ehf., samtals að fjárhæð 3.715.814 krónur:

Greiðslu 1. júní 2010 að fjárhæð 500.000 krónur, 17. maí 2010 að fjárhæð 550.000 krónur, 7. maí 2010 að fjárhæð 317.700 krónur, 30 apríl 2010 að fjárhæð 200.000 krónur, 9. mars 2010 að fjárhæð 500.000 krónur, 22. febrúar  2010 að fjárhæð 300.000 krónur, 21. janúar 2010 að fjárhæð 1.348.114 krónur.

Stefndi, Matfugl ehf., greiði stefnanda, þrotabúi Lystar ehf. 3.715.814 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 1.348.114 krónum frá 21. janúar 2010 til 22. febrúar 2010, af 1.648.114 krónum frá þeim degi til 9. mars 2010, af 2.148.114 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2010, af 2.348.114 krónum frá þeim degi til 7. maí 2010, af 2.665.814 krónum frá þeim degi til 17. maí 2010, af 3.215.814 krónum frá þeim degi til 1. júní 2010 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.