Hæstiréttur íslands

Mál nr. 694/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Stefnubirting
  • Sönnunarfærsla


Mánudaginn 11. nóvember 2013.

Nr. 694/2013.

Karl Emil Wernersson

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

þrotabúi Háttar ehf.

(Jóhann Baldursson hdl., skiptastjóri)

Kærumál. Vitni. Stefnubirting. Sönnunarfærsla.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu K um að leidd yrðu þrjú nafngreind vitni fyrir dóminn til skýrslugjafar í tengslum við frávísunarkröfu K í máli þrotabús H ehf. gegn honum. Með vitnaleiðslunni hugðist K færa sönnur á þá staðhæfingu að stefna hafi ekki verið birt fyrir nánasta samverkamanni sínum og stefnubirting því ekki verið í samræmi við c. lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. fram að við mat á því hvort birt hafi verið fyrir nánasta samverkamanni K í skilningi áðurnefnds ákvæði laga nr. 91/1991 réði ekki úrslitum hvaða starfsmaður teldist nánasti samverkamaður K eða gengi næst honum að völdum heldur vægi þyngst hverjir hafi hist fyrir á vinnustaðnum og hver þeirra hafi mátt ætla að stæði K næst. Með birtingu stefnunnar fyrir A hefði stefnuvottur lagt mat á það, sem honum væri skylt, hver þeirra sem hittist fyrir á vinnustað K mætti ætla að væri nánasti samverkamaður hans, þannig að sem tryggast væri að stefnu yrði komið til hans. Væri vitnaleiðsla sem varpa ætti ljósi á starf þess sem stefna var birt fyrir, starf nánasta samverkamanns K og framkvæmd stefnubirtingar þýðingarlaus. Þegar af þeirri ástæðu var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leidd yrðu þrjú nafngreind vitni fyrir dóminn til skýrslugjafar. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að heimila honum að leiða vitnin fyrir dóm fyrir munnlegan málflutning um frávísunarkröfu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili byggir á því að honum sé nauðsynlegt að leiða þrjú tilgreind vitni fyrir dóm áður en málflutningur um frávísunarkröfu hans í máli varnaraðila gegn honum fari fram. Hann byggir frávísunarkröfu sína á því að ekki hafi verið rétt staðið að birtingu stefnu á hendur sér í samræmi við c. lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 og ,,því hafi sex mánaða frestur gjaldþrotaskiptalaga til að höfða riftunarmál verið útrunninn við höfðun málsins þann 16. apríl 2013, sbr. 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.“ 

Með vitnaleiðslum í tengslum við frávísunarkröfu hyggst sóknaraðili færa sönnur á þá staðhæfingu að stefna hafi ekki verið birt fyrir nánasta samverkamanni hans, með því að varpa ljósi á starf þess sem stefna var birt fyrir, starf nánasta samverkamanns sóknaraðila og framkvæmd stefnubirtingar. Því hefur sóknaraðili krafist þess að vitnin Aðalbjörg Eggertsdóttir og Inga Lára Hauksdóttir beri um starfssamband sitt við sóknaraðila og vitnið Thulin Johansen stefnuvottur um framkvæmd stefnubirtingar. 

Í stefnubirtingarvottorði er tilgreint að birt hafi verið fyrir Aðalbjörgu Eggertsdóttur, ritara sóknaraðila á vinnustað hans. Af hálfu sóknaraðila var því lýst yfir í þinghaldi 11. október 2013 að hún væri ekki nánasti samverkamaður hans, en varnaraðili telur á hinn bóginn að enginn vinni nánar með sóknaraðila. Samkvæmt c. lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991, sem við á þegar stefna er birt á vinnustað stefnda skal birta stefnu fyrir vinnuveitanda, nánasta yfirmanni eða samverkamanni stefnda. Við mat á því hvort stefna hafi verið birt fyrir nánasta samverkamanni sóknaraðila í skilningi ákvæðisins ræður ekki úrslitum hvaða starfsmaður telst nánasti samverkamaður hans eða gengur næst honum að völdum samkvæmt skipulagi fyrirtækis þess sem hann starfar hjá. Þyngst vegur við matið hverjir hafi hist fyrir á vinnustaðnum og hver þeirra hafi mátt ætla að stæði sóknaraðila næst. Óumdeilt er að Aðalbjörg Eggertsdóttir, sem hefur samkvæmt stefnubirtingarvottorði verið kynnt sem ritari sóknaraðila, tók við stefnubirtingu. Með birtingu fyrir henni hefur stefnuvottur lagt mat á það, sem honum er skylt, samkvæmt c. lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991, hver þeirra sem hittist fyrir á vinnustað sóknaraðila mætti ætla að væri nánasti samverkamaður hans, þannig að sem tryggast væri að stefnu væri komið til hans. Í ljósi framangreinds er vitnaleiðsla sem ,,varpa á ljósi á starf þess sem stefna var birt fyrir, starf nánasta samverkamanns sóknaraðila og framkvæmd stefnubirtingar“ þýðingarlaus. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Karl Emil Wernersson, greiði varnaraðila, þrotabúi Háttar ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11.október 2013.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 2. apríl 2013. Stefnandi er þrotabú Háttar ehf., Hlíðasmára 6, Kópavogi, en stefndi er Karl Wernersson, Engihlíð 9, Reykjavík. Við fyrirtöku málsins í dag, 11. október 2013, gerði stefndi kröfu um að þrír nafngreindir aðilar kæmu til dóm til skýrslugjafar áður en að málið yrði flutt um frávísunarkröfu stefndu. Rökstuddi stefndi kröfu sína á þá leið að honum væri nauðsyn þessarar sönnunarfærslu til þess að sýna fram á að stefna hefði ekki verið birt fyrir nánasta samverkamanni, svo sem gerð væri krafa um í c-lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu stefnanda var kröfu stefnda mótmælt og talið að skýrslutaka á þessu stigi málsins væri óheimil en einnig þýðingarlaus með vísan til þess að umrætt ákvæði gerði aðeins kröfu um að birt væri á vinnustað fyrir samverkamanni.

Í máli þessu er ágreiningslaust að að stefna málsins var birt fyrir samverkamanni stefnda á vinnustað hans. Með hliðsjón af langri og alkunnri venju um stefnubirtingar samkvæmt c-lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 verður ákvæðið ekki skýrt á þá leið að gerð sé krafa um að birt sé fyrir nánasta samverkamanni stefnda. Er þannig nægilegt að birt hafi verið fyrir samverkamanni stefnda á vinnustað hans. Liggur þannig fyrir að stefna málsins hefur verið birt í samræmi við ákvæði c-lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 og er sú sönnunarfærsla sem stefndi óskar eftir því bersýnilega þýðingarlaus og andstæð 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Er beiðni stefnda um skýrslutöku því hafnað.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Beiðni stefnda, Karls Wernerssonar, um að þrír nafngreindir aðilar gefi munnlega skýrslu fyrir dómi, er hafnað.