Hæstiréttur íslands

Mál nr. 690/2008


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Endurgreiðslukrafa
  • Samaðild


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. júní 2009.

Nr. 690/2008.

Ólafur Þórarinsson

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Höskuldi H. Höskuldssyni og

Höskuldi Þórðarsyni

(Jón Magnússon hrl.)

 

Lánssamningur. Endurgreiðslukrafa. Samaðild.

Aðila greindi á um það hvort Ó bæri að endurgreiða 2.000.000 krónur, sem L sf., félag í eigu HH og HÞ, hafði greitt inn á reikning hans 1. mars 2004. Ó var á þeim tíma starfsmaður L sf. og kom að máli við HH og tjáði honum að eiginkona hans hefði tapað dómsmáli um ágreining er laut að fasteignakaupum og þyrfti að greiða umtalsverða upphæð. L sf. greiddi einnig 650.000 krónur inn á reikning Ó nokkrum dögum síðar en sú greiðsla var dregin af Ó við uppgjör launa og orlofs til hans við starfslok í desember 2006. Var ágreiningur um þann frádrátt því ekki til umfjöllunar. Aðila greindi á um hvort greiðslan 1. mars 2004 hefði verið peningalán, eins og HH og HÞ héldu fram, eða styrkur, eins og Ó hélt fram. Hæstiréttur taldi að þótt það kynni að hafa staðið L sf. nær að tryggja sönnun um hvers eðlis greiðslur þessar voru, hefði ekki verið grundvöllur fyrir Ó að líta svo á að hann þyrfti ekki að endurgreiða þessi tvö framlög eða semja sérstaklega um að L sf. félli frá rétti sínum til þess að endurkrefja hann um þau. Hlaut Ó að hafa verið ljóst að hann þyrfti að endurgreiða þá fjárhæð sem um var krafin nema um annað semdist. Líta yrði á greiðsluna sem lán frá L sf. til Ó.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. desember 2008. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að málinu verði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar að nýju. Að því frágengnu krefst hann sýknu af kröfu stefndu. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem greinir í héraðsdómi er óumdeilt með aðilum að Lyra sf. greiddi 2.000.000 krónur inn á reikning áfrýjanda 1. mars 2004 og 650.000 krónur 5. sama mánaðar. Ekki er heldur umdeilt að tilefni þessara greiðslna var að áfrýjandi, sem þá hafði starfað hjá Lyru sf. í um átta ár, hafði komið að máli við annan stefndu sem fyrirsvarsmann Lyru sf. og tjáð honum að eiginkona hans hefði tapað dómsmáli um ágreining er laut að fasteignakaupum og þyrfti þess vegna að greiða umtalsverða upphæð. Þá liggur einnig fyrir að Lyra sf. dró síðarnefndu fjárhæðina af áfrýjanda við uppgjör launa og orlofs til hans við starfslok í desember 2006. Telur áfrýjandi að sá frádráttur hafi ekki verið félaginu heimill, en ágreiningur um það er ekki til umfjöllunar í máli þessu. Aðila greinir á um hvort greiðslan 1. mars 2004 hafi verið peningalán, eins og stefndu halda fram, eða styrkur, eins og áfrýjandi heldur fram, en í málatilbúnaði hans er ráðstöfunin þó einnig nefnd örlætisgerningur. Telur áfrýjandi sér óskylt að endurgreiða fjárhæðina 2.000.000 krónur.

Fallist er á með héraðsdómi að stefndu hafi með framlagningu ársreikninga Lyru sf., yfirlýsingu endurskoðanda félagsins og vætti hans fyrir héraðsdómi svo og öðru sem tiltekið er í dóminum nægilega sýnt fram á að þeir hafi litið svo á að um lán til áfrýjanda væri að ræða. Gegn andmælum hans er á hinn bóginn ósannað að stefndu hafi gert honum grein fyrir því að svo væri, enda hvorki með skýrum hætti samið um gjalddaga á endurgreiðslu né önnur lánskjör.

Greiðslur þær er áfrýjandi fékk af framangreindu tilefni frá Lyru sf., samtals 2.650.000 krónur, námu meira en fimmföldum mánaðarlaunum hans, sem þó höfðu hækkað verulega í árslok 2003. Þótt það kunni að hafa staðið Lyru sf. nær að tryggja sönnun um hvers eðlis greiðslur þessar voru, var ekki grundvöllur fyrir áfrýjanda til að líta svo á að hann þyrfti ekki að endurgreiða þessi tvö framlög eða semja sérstaklega um að Lyra sf. félli frá rétti sínum til þess að endurkrefja hann um þau. Hlaut áfrýjanda að vera ljóst að hann þyrfti að endurgreiða þá fjárhæð sem krafið er um í máli þessu, nema um annað semdist. Hann gerði á starfstíma sínum hjá Lyru sf. engan reka að því að semja um að ekki yrði krafið um endurgreiðslu. Af skýrslu hans fyrir héraðsdómi má ráða að hann hefur ekki tilgreint framlagið sem gjöf á skattframtali sínu, svo sem honum bar ef framlagið var óendurkræft. Verður að líta á greiðslu þá, sem hér er til umfjöllunar, sem lán frá Lyru sf. til áfrýjanda. Óumdeilt er að ekki var samið um gjalddaga þess og gildir því sú meginregla kröfuréttar að lánið beri að endurgreiða þegar þess er krafist af hálfu kröfuhafa. Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um vexti og dráttarvexti.

Stefndu, sem voru einu eigendur sameignarfélagsins Lyru, sem var slitið um mitt ár 2007, fengu af því tilefni kröfu þá sem félagið átti samkvæmt framansögðu á hendur áfrýjanda. Verður að líta svo á að þeir eigi kröfuna sameiginlega. Þeim er rétt að haga kröfugerð á hendur stefnda svo sem þeir gera í málinu. Eru því engin efni til að vísa málinu frá héraðsdómi ex officio.

Áfrýjandi hefur krafist þess að málinu verði vísað heim í hérað og rökstutt þá kröfu svo að héraðsdómari hafi ekki tekið afstöðu til málsástæðu hans um tómlæti Lyru sf. með því að gera ekki reka að því að kynna honum að greiðslan hafi verið lán, sem bæri að endurgreiða og hann hafi því mátt treysta því að hann yrði ekki krafinn um endurgreiðslu. Héraðsdómari lýsir þeirri afstöðu sinni í hinum áfrýjaða dómi að meðal þess sem styðji að um lán hafi verið að ræða séu skýrslur annars stefnda og eiginkonu hans um samtal við áfrýjanda þar sem fram hafi komið að svo væri. Þá gerir hann einnig grein fyrir því að hann telji, með vísan til tilgreindra atriða, að þar sem áfrýjandi hafi ekki mátt líta svo á að um örlætisgerning hafi verið að ræða sé niðurstaða hans sú að greiðslan teljist hafa verið lán til áfrýjanda. Með þessum hætti tekur héraðsdómari nægilega afstöðu til framangreindrar málsástæðu og er engin ástæða til heimvísunar málsins.

Með framangreindum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ólafur Þórarinsson, greiði stefndu Höskuldi H. Höskuldssyni og Höskuldi Þórðarsyni sameiginlega 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. október sl., höfðuðu Höskuldur H. Höskuldsson, Bröndukvísl 14, Reykjavík og Höskuldur Þórðarson, Urðarstekk 11, Reykjavík á hendur Ólafi Þórarinssyni, Reykjahvoli 37, Mosfellsbæ með stefnu birtri 12. desember 2007. Gera stefnendur þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum skuld að fjárhæð 2.000.000 króna ásamt almennum vöxtum skv. II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2004 til 11. janúar 2007 en með dráttarvöxtum skv. IV. kafla laganna frá þeim tíma til greiðsludags. Jafnframt krefjast þeir málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi stefnenda að mati dómsins.

Undirritaður dómari þessa máls fékk það til meðferðar í 2. júní sl. eftir að sáttamiðlun hafði verið reynd fyrir dóminum án árangurs.

Málavextir, málsástæður og lagarök aðila.

Stefnendur segja að dómkröfur þeirra megi rekja til þess að stefndi hafi verið starfsmaður hjá sameignarfélagi þeirra, Lyru sf., til margra ára. Hafi stefndi farið fram á það hinn 1. mars 2004, við annan stefnenda, Höskuld H. Höskuldsson, að félagið myndi lána honum peninga vegna fjárhagsvandræða sem hann væri þá í. Hafi hann sagt að hann myndi endurgreiða lánið við fyrsta tækifæri. Hefði Höskuldur fallist á þetta, meðal annars með tilliti til þess að stefndi hefði unnið hjá honum nokkuð lengi og vegna þeirra persónulegu tengsla sem skapast hefðu á milli þeirra vegna smæðar vinnustaðarins. Hefði hann því millifært inn á reikning stefnda, fyrst 2.000.000 króna hinn 1. mars 2004 og 650.000 krónur stuttu síðar. Stefnendur hafi síðan þurft að láta stefnda fara frá fyrirtækinu og hafi hann hætt þar störfum í lok ársins 2006. Hafi stefndi margsinnis lofað að endurgreiða lánið en ekki staðið við það. Við starfslokin, eða í desember 2006, hafi farið fram lokauppgjör launa og kostnaðar, sem liggi fyrir í málinu. Hafi 650.000 króna skuldin fengist endurgreidd en eftir standi 2.000.000 króna skuldin sem nú sé krafist greiðslu á. Hafi stefndi reynt að halda því fram að um launagreiðslur væri að ræða. Fyrir liggi í málinu yfirlit sem sýni að laun stefnda hafi verið lögð inn á reikning hans mánaðarlega. Þá liggi og fyrir rekstrarreikningur Lyru sf. sem sýni að lánið hafi alltaf verið fært sem skammtímaskuld í rekstri þess.

Stefnda hafi verið sent innheimtubréf vegna skuldarinnar hinn 4. janúar 2007 og greiðsluáskorun 18. janúar sama ár. Þá hafi lögmaður stefnenda sent stefnda tölvupóst vegna málsins hinn 11. janúar 2007 svo ljóst mætti vera að búið væri sannanlega að krefja stefnda um greiðslu skuldarinnar. Þar sem ekki hafi verið samið um sérstakan greiðsludag miðist gjalddagi hennar við 11. janúar 2007 en þá hafi stefndi sannanlega verið krafinn um endurgreiðslu lánsins. Fram til þess tíma sé krafist almennra vaxta af fjárhæðinni í samræmi við reglur II. kafla laga nr. 38/2001, enda leiði af eðli lánssamninga að ofan á lánsfjárhæðina bætist vextir auk þess sem slíkt sé venja í lánsviðskiptum. Frá stofndegi kröfunnar fram að gjalddaga skuli vextir því vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu skv. 10. gr. laganna. Stefnendur taki og fram að sameignarfélagið Lyra sf. hafi verið afmáð úr firmaskrá 4. júlí 2007 og sé málið því höfðað af stefnendum sem verið hafi eigendur félagsins.

Um lagarök kveðast stefnendur vísa til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Krafa um dráttarvexti styðjist við III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 og um varnarþing sé vísað til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að hann hafi verið búinn að starfa í um 10 ár hjá Lyru sf. þegar hann hafi hætt þar stöfum vegna ósættis er komið hafi upp milli hans og forstjóra félagsins, Höskuldar Höskuldssonar. Á þessum tíma hafi hann verið framkvæmdastjóri tæknideildar félagsins og unnið sem slíkur náið með Höskuldi. Hafi stefndi séð um sölu og samningagerð er varðað hafi stórar fjárhæðir. Vísi hann í því sambandi til stórs samnings, er varðað hafi sölu á rannsóknartækjum, rekstrarvörum og hugbúnaði til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, og hafi samningurinn verið tugmilljóna virði. Einnig hafi hann komið að stórum samningi varðandi Rannsóknarstofuna í Mjódd fyrir á annan tug milljóna króna. Hafi stefndi oft verið sólarhringum saman við viðgerðir og uppsetningu tækja úti á landi og í Reykjavík, bæði um helgar og á hátíðisdögum. Hafi Lyra sf. aldrei greitt fyrir yfirvinnu eða greitt dagpeninga vegna dvalar úti á landi.

Hinn 19. febrúar 2004 hafi gengið dómur í Hæstarétti í máli þar sem eiginkona stefnda hafi tapað gallamáli vegna fasteignar og hefði það haft í för með sér veruleg fjárútlát fyrir þau hjón. Hafi stefndi vegna þessa gert Höskuldi Höskuldssyni grein fyrir þessum málalyktum. Hafi Höskuldur þá að eigin frumkvæði boðist til að láta Lyru sf. greiða þessa skuld og hafi hann með því viljað styrkja stefnda fyrir hans góða og langa starf fyrir félagið. Ekki hafi verið um lán að ræða og hafi heldur enginn áskilnaður verið gerður um endurgreiðslu fjárhæðarinnar eða ígildi hennar. Hafi Lyra sf. í framhaldi af þessu greitt inn á reikning stefnda 2.000.000 króna hinn 1. mars 2004 og 650.000 króna hinn 5. mars sama ár. Tekur stefndi fram í þessu sambandi að eiginfjárstaða konunnar hafi verið góð á þessum tíma og hún hefði auðveldlega getað sjálf greitt umrædda fjárhæð þó að styrkur Lyru sf. hefði ekki komið til.

Stefndi hafi hætt störfum hjá Lyru sf. 5. september 2006 vegna ósættis er upp hafi komið milli hans og Höskuldar Höskuldssonar. Þegar honum hafi verið greidd laun í uppsagnarfresti vegna desember sama ár hafi verið dregnar af honum 650.000 krónur sem sagðar hafi verið greiddar fyrirfram. Áður hafi hvergi komið fram á launaseðlum að hann hefði fengið þessi meintu fyrirframgreiddu laun. Hafi stefndi mótmælt þessum frádrætti sem ólögmætri sjálftöku fjármuna í hans eigu og hyggist hann endurkrefja þá í sérstöku dómsmáli. Hafi hann fram að fyrrgreindum frádrætti aldrei verið krafinn um endurgreiðslu á þeim fjárhæðum sem lagðar hafi verið inn á reikning hans í mars 2004. Hafi slík krafa fyrst verið gerð með innheimtubréfi og greiðsluáskorun í janúar 2007. Hann hefði hins vegar ekki orðið við þeirri áskorun þar sem hann hefði talið fullvíst að ekki hefði verið um lán að ræða.

Stefndi styðji sýknukröfu sína við þá málsástæðu að um örlætisgerning hafi verið að ræða og slíkur gerningur sé ekki endurkræfur. Hann hafi ekki hvorki fengið né beðið um nein lán hjá Lyru sf. og skuldi því ekki neitt. Hann hafi heldur ekki samið um að fá umræddar greiðslur sem fyrirfram greidd laun. Ef um slíkt hefði verið að ræða hefði verið hægt að draga greiðslur þessar frá launum hans á því tímabili sem liðið hafi þar til honum hafi verið sagt upp störfum. Það hafi hins vegar ekki verið gert sem hljóti að benda til þess að um styrk hafi verið að ræða en ekki lán. Séu enda fleiri dæmi um að Höskuldur Höskuldsson hafi lagt fjármuni inn á reikning annars aðila í þeim tilgangi að styrkja hann. Hafi því til sönnunar verið lögð fram útprentun af vef RÚV um styrkgreiðslur Höskuldar til Frjálslynda flokksins.

Stefndi kveðst vísa til þess að öll skilyrði skorti varðandi skýrleika kröfu svo hægt sé að halda því fram að krafa stefnenda teljist hæf til skuldbindingar. Hljóti alla vega að þurfa að liggja fyrir upplýsingar um aðiljana, um skyldu skuldarans og efndatíma, en um slíkt sé ekki ræða í þessu tilviki. Þannig sé venja við veitingu peningaláns að semja fyrirfram um endurgreiðslu lánsins, vaxtakjör, tryggingar og vanefndaúrræði. Fyrirtæki sem telji sig hafa veitt lán beri að hafa slíka hluti á hreinu og bera allan halla af skorti af sönnun hvað þetta varði. Megi í þessu sambandi nefna til hliðsjónar 5. og 6. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994 þar sem það skilyrði sé sett að lánssamningur sé gerður skriflega. Sé framangreindra formskilyrða ekki gætt við veitingu láns geti komið upp álitamál um eðli láns og hvort um lán hafi verið að ræða. Megi í því sambandi vísa til skilgreiningar í hrd. í máli nr. 181/2007 þar sem fram komi eftirfarandi skilgreining á láni frá félagi: „félag teljist hafa veitt lán í þessum skilningi þegar það hefur greitt til félagsaðila, stjórnanda eða einstaklings nátengdum þeim peningaupphæð eða ígildi hennar eða látið af hendi til þeirra önnur fjárhagsleg verðmæti með áskilnaði um endurgreiðslu peningaupphæðarinnar eða ígildis hennar eða skil á verðmætunum...“.  Í tilviki stefnda hafi ekki verið gerður neinn áskilnaður um endurgreiðslu þegar millifærslan átti sér stað og það skilyrði því ekki uppfyllt. Ekkert hafi verið tilgreint um það á millifærslukvittuninni að um lán væri að ræða sem hefði verið einfalt mál ef það hefði verið ætlunin. Verði stefnendur að bera hallann af þessu. Þá megi hér og benda á að stefnendur, eða Lyra sf., hafi sýnt af sér mikið tómlæti með því að hefjast ekki handa um innheimtu allan þann tíma sem stefndi hafi verið í starfi hjá félaginu. Hljóti það tómlæti að teljast frekari sönnun þess að um styrk hafi verið að ræða en ekki lán.

Stefndi bendi og á að tiltekið sé í 43. og 53. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006 hvernig tilgreina skuli lánveitingar félaga. Fyrir liggi að framangreint ákvæði hafi ekki verið uppfyllt í reikningum Lyru sf. sökum þess að aldrei hafi verið samið um endurgreiðslu, vaxtakjör, tryggingar eða vanefndaúrræði eins og tíðkist við lánveitingar. Þá sé sérstaklega mótmælt þeirri staðhæfingu stefnenda að færsla hins meinta láns í bókhaldi Lyru sf., sem skammtímakröfu á hendur stefnda, hafi hér einhverja þýðingu. Feli slík færsla ekki í sér neina sönnun fyrir því að um hafi verið að ræða lánveitingu í greint sinn. Þá sé í málinu eingöngu lagður fram útdráttur úr reikningum félagsins en forsíðu og áritun endurskoðanda vanti  og séu skjöl þessi því ekki marktæk.

Loks kveðst stefndi byggja sýknukröfu sína á því að telji dómurinn að kröfusamband hafi stofnast séu stefnendur ekki réttir kröfuhafar í málinu þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að þeir hafi eignast hina meintu fjárkröfu Lyru sf. Sé í því sambandi bent á að stofnað hafi verið nýtt félag, Lyra ehf., sem yfirtekið hafi starfsemi Lyru sf., sbr. tilkynningu til ríkisskattstjóra sem undirrituð hafi verið 1. júlí 2007. Beri því þegar af þeirra ástæðu að sýkna stefnda af kröfu stefnenda, sbr. og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Vaxtakröfu stefnenda sé sérstaklega mótmælt, enda séu engar forsendur fyrir slíkri kröfu, hvorki hvað varði almenna vexti né dráttarvexti. Kröfu um málskostnað kveðst stefndi byggja á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Óumdeilt er að Lyra sf. greiddi hinn 1. mars 2004 inn á bankareikning stefnda  þær 2.000.000 króna sem stefndi er nú krafinn endurgreiðslu á. Byggir stefndi á því að umrædd greiðsla hafi verið örlætisgerningur og skýrði hann frá því í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi að Höskuldur H. Höskuldsson hefði að eigin frumkvæði boðist til að láta Lyru sf. greiða framangreinda fjárhæð fyrir hann er stefndi hefði upplýst hann um að eiginkona stefnda hefði tapað dómsmáli vegna meintra galla á fasteign þeirra hjóna. Hefði Höskuldur þá sagt að þetta kæmi til hans sem styrkur, enda væru þeir að „reka þetta fyrirtæki saman“. Gaf stefndi þá viðbótarskýringu á þessu að hann hefði ekki fengið launahækkun hjá fyrirtækinu í nokkur ár og að Höskuldur hefði sagt að hann vildi frekar gera vel við starfsfólkið með þessum hætti. Stefnendur vísa á hinn bóginn til þess að Lyra sf. hafi fallist á að lána stefnda peningana sem hér um ræðir vegna þeirra fjárhagsvandræða sem hann hafi þá verið kominn í. Hafi verið um það talað og alltaf út frá því gengið að stefnandi myndi endurgreiða lánið við fyrsta tækifæri.

Ekkert liggur fyrir um það með skjallegum hætti á hvaða forsendum hin umdeilda greiðsla var innt af hendi til stefnda. Hins vegar hafa stefnendur lagt fram ljósrit af ársreikningum félagsins vegna rekstraráranna 2004 - 2006 og vísað til þess að umrædd greiðsla hafi strax verið færð í bókhaldi Lyru sf. sem krafa félagsins á stefnda. Staðfesti R. Dofri Pétursson, endurskoðandi félagsins, í skýrslu sinni fyrir dómi að þessi ljósrit sýndu reikninga félagsins og að hann hefði haft yfirumsjón með gerð þeirra og skattframtala félagsins. Sagði hann umrædda greiðslu til stefnda hafa, strax í mars 2004, verið færða sem kröfu félagsins á stefnda. Verður að telja að þessi færsla greiðslunnar í bókhaldi félagsins veiti eindregna vísbendingu um að forsvarsmenn þess hafi sjálfir haft þann skilning á umræddu samkomulagi, að minnsta kosti við færslu fjárhæðarinnar í bókhald félagsins í mars 2004, að um lán til stefnda væri að ræða, enda þótt ekkert samkomulag hafi verið gert um kjör þess láns eða endurgreiðslutíma. Þá bar Aðalheiður Ríkharðsdóttir, eiginkona stefnanda Höskuldar H. Höskuldssonar, að hún hefði verið viðstödd og hlustað á samtal milli stefnda og Höskuldar um að félagið myndi lána stefnda vegna óvæntrar fjárkröfu sem hann þyrfti skyndilega að standa skil á. Með hliðsjón af þessu, og þar sem stefndi hefur ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að hann hafi mátt líta svo á um örlætisgerning væri að ræða, verður á það fallist með stefnendum að um lán til stefnda hafi verið að ræða. Þykir engu breyta í því sambandi þótt ekki hafi þá jafnframt verið samið um gjalddaga lánsins og skilmála þess að öðru leyti. Þá verður heldur ekki fallist hér á að ákvæði 53. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga eigi hér við, enda hafði stefndi ekki þá stöðu innan Lyru sf. sem kveðið er á um í greindu ákvæði.

Lyra sf. var afmáð úr firmaskrá 4. júlí 2007. Hefur R. Dofri Pétursson endurskoðandi staðfest að stefnendur, sem sameigendur félagsins, hafi þá yfirtekið hina umdeildu kröfu á stefnda. Þá verður það og ráðið af fyrirliggjandi skattframtölum beggja stefnendanna fyrir árið 2008 að þeir hafi hvor fyrir sig talið fram helming kröfunnar sem sína eign í skattframtölum þess árs. Samkvæmt því verða báðir stefnendur taldir réttir aðilar máls þessa.

Að því virtu sem hér hefur verið rakið verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnendum stefnufjárhæðina, 2.000.000 króna. Þar sem ekkert liggur fyrir um að samið hafi verið um vaxtagreiðslur af fjárhæðinni skv. II. kafla laga nr. 38/2001 verður stefnda einungis gert að greiða af henni dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr., sömu laga, frá þeim tíma þegar liðinn var mánuður frá því stefndi var sannanlega krafinn um greiðslu skuldarinnar. Þykir í því sambandi rétt að miða við 11. janúar 2007, en ómótmælt er að á þeim degi hafi lögmaður stefnda sent lögmanni stefnanda tölvupóst í tilefni af innheimtu skuldarinnar. Verður stefnda því gert að greiða stefnendum dráttarvexti af framangreindri fjárhæð frá 11. febrúar 2007 til greiðsludags.

Að fenginni þessari niðurstöðu verður stefnda gert að greiða stefnendum 300.000 krónur í málskostnað.

Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Ólafur Þórarinsson, greiði stefnendum, Höskuldi H. Höskuldssyni og Höskuldi Þórðarsyni, 2.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. febrúar 2007 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnendum 300.000 krónur í málskostnað.