Hæstiréttur íslands

Mál nr. 117/2004


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Veikindalaun


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. október 2004.

Nr. 117/2004.

Magnús Guðmundsson

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Magneli ehf.

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Veikindalaun.

Í kjölfar ákvörðunar Ú hf. um að hætta útgerð skipsins B, tók M ehf. skipið á leigu frá 1. nóvember 2001 til 30. apríl 2002. Í leigusamningnum áskildi Ú hf. sér rétt til að selja skipið á leigutímanum og skyldi uppsagnarfrestur í því tilviki vera þrjár vikur. Á þessum grundvelli samdi M ehf. um einstakar veiðiferðir við áhöfn skipsins. Gerði félagið meðal annars sex samninga við matsveininn M á tímabilinu frá 4. nóvember til 6. febrúar 2002. M veiktist 13. febrúar 2002 og krafðist veikindalauna í tvo mánuði samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 á þeim grundvelli að hann hafi verið fastráðinn. Hæstiréttur taldi efnislegar forsendur hafa legið að baki hinum tímabundnu ráðningarsamningum og að ekki hafi verið sýnt fram á að þeir hafi verið gerðir til málamynda. Þá þóttu heldur ekki skilyrði til að víkja samningunum til hliðar eða breyta þeim á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Var kröfu M því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 610.769 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 428.909 krónum frá 15. apríl 2002 til 15. maí sama árs, en af 610.769 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Áfrýjandi krefst þess jafnframt að viðurkenndur verði sjóveðréttur til tryggingar kröfunni í Breka KE 61, skipaskrárnúmer 1459. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

         Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt varðandi sjúkrasögu áfrýjanda.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi hóf stefndi 1. nóvember 2001 að gera út skipið Breka VE 61. Skipið var í eigu Útgerðarfélags Vestmannaeyja hf., sem hafði gert það út fram til þessa, en í ágústmánuði 2001 var ákveðið að hætta útgerðinni og var áhöfninni sagt upp í framhaldi þess. Að sögn stefnda var Jóhann Magni Jóhannsson, sem verið hafði skipstjóri á skipinu, einn þeirra sem misstu atvinnu sína við þetta. Ákvað hann að taka skipið á leigu og halda áfram útgerð þess og þannig skapa sér og öðrum skipverjum atvinnu. Stofnaði hann einkahlutafélag um reksturinn, sem er stefndi í máli þessu, en félagið tók skipið á leigu með samningi við Útgerðarfélag Vestmannaeyja hf. 1. nóvember 2001 og var leigutími ákveðinn til 30. apríl 2002. Samkvæmt samningnum skyldi leigutaki greiða leigugjald mánaðarlega fyrirfram  meðal annars vegna leigu á aflaheimildum. Aðilum var heimilt að segja samningnum upp með mánaðar fyrirvara, en leigusali áskildi sér jafnframt rétt til að selja skipið á leigutíma og skyldi uppsagnarfrestur undir þeim kringumstæðum vera þrjár vikur. Þá skyldi leigutaki gæta þess að ráðningarsamningar við skipverja stæðu ekki fram yfir leigutíma eða gera neina þá samninga, sem bundið gætu leigusala.

Stefndi gerði skriflega ráðningarsamninga við skipverja og voru samningarnir bundnir við hverja veiðiferð. Var áfrýjandi, sem var matsveinn á skipinu, ráðinn þannig og liggur fyrir að samtals voru gerðir við hann 6 ráðningarsamningar á tímabilinu 4. nóvember 2001 til 6. febrúar 2002. Er gerð grein fyrir þessum samningum og lögskráningu áfrýjanda á skipið í héraðsdómi. Eins og þar kemur einnig fram veiktist áfrýjandi eftir lok síðasta samningsins, eða 13. febrúar 2002, og var hann óvinnufær fram á mitt sumar það ár. Fékk hann greidd laun í eina viku, sem stefndi telur að hafi verið gert fyrir mistök. Áfrýjandi telur sig hins vegar eiga rétt til veikindalauna í tvo mánuði samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en þar segir að verði skipverji óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verði fyrir meðan á ráðningartíma standi, skuli hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær, þó ekki lengur en tvo mánuði.

Áfrýjandi byggir á því að hann hafi verið í föstu ráðningarsambandi við stefnda frá 4. nóvember 2001. Svonefndir tímabundnir ráðningarsamningar sem honum og öðrum skipverjum hafi verið gert að undirrita, hafi einvörðungu verið gerðir til málamynda í því skyni að hafa af þeim lögbundin réttindi í veikinda- og slysaforföllum auk uppsagnarfrests. Því til stuðnings bendir hann á að fram hafi komið hjá fyrirsvarsmanni stefnda við meðferð málsins í héraði, að þess hafi verið vænst að hann kæmi aftur til starfa. Þá byggir áfrýjandi á því að jafnvel þó talið yrði að gerð samfelldra tímabundinna ráðningarsamninga stæðist lög þá sé slík samningsgerð bersýnilega ósanngjörn þar sem raskað sé hagsmunum annars samningsaðilans, áfrýjanda í þessu tilviki, langt umfram það sem hagsmundir gagnaðilans réttlæta. Sé hún því ógildanleg eða breytanleg í samræmi við 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því fyrst og fremst að þegar áfrýjandi veiktist hafi ekki verið vinnuréttarsamband á milli þeirra. Áfrýjandi hafi verið ráðinn tímabundið og hafi ástæða fyrir því verið sú að stefndi var með skipið á leigu og hefði getað þurft að sæta uppsögn leigusamnings með minnst þriggja vikna fyrirvara. Um þetta hafi áhöfn skipsins verið kunnugt enda hafi stefndi tekið skipið á leigu til þess að skipverjar misstu ekki atvinnu sína, þegar eigandi skipsins hætti útgerð þess. Því hafi alls ekki verið um málamyndagerninga að ræða heldur lögmæta tímabundna ráðningarsamninga, sem helguðust af ákvæðum leigusamnings um skipið. Séu slíkir tímabundnir ráðningarsamningar heimilir samkvæmt sjómannalögum. Stefndi mótmælir og að samningum þessum verði vikið til hliðar eða breytt með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Hafi alls ekki verið hallað á áfrýjanda við samningsgerðina enda ríkjandi mikil óvissa um áframhald útgerðar skipsins í hvert sinn sem ráðningarsamningar voru gerðir við áhöfnina og hafi stefndi þar ekki staðið betur að vígi.

Málsástæður og lagarök aðila eru nánar rakin í héraðsdómi.

II.

Af ákvæðum sjómannalaga er ljóst að heimilt er að gera tímabundna ráðningarsamninga við skipverja eða til ákveðinna ferða. Í máli þessu háttar svo til að aðilar gerðu með sér sex samninga er náðu til einstakra veiðiferða nokkuð samfellt á tímabilinu 4. nóvember 2001 til 6. febrúar 2002, en áfrýjandi veiktist eftir þann tíma. Krafa áfrýjanda er sem fyrr segir á því reist að þrátt fyrir ofangreint samningsform hafi verið fast ráðningarsamband milli hans og stefnda og hafi ráðningarsamningarnir verið til málamynda. Við mat á þessari málsástæðu verður að líta til aðdraganda samninganna og hvernig málin horfðu við er þeir voru gerðir. Því hefur ekki verið andmælt af hálfu áfrýjanda að aðkoma stefnda að útgerð Breka VE 61 hafi verið með þeim hætti, sem stefndi hefur lýst og áður er rakið. Um var að ræða tilraun til að tryggja áhöfn skipsins áframhaldandi atvinnu eftir að eigandi þess hafði ákveðið að hætta útgerðinni og sagt skipverjunum upp. Höfðu þeir þannig allir hagsmuna að gæta og er ómótmælt að gerðir voru tímabundnir ráðningarsamningar við þá alla á umræddu tímabili. Sýnt þykir að til útgerðarinnar hafi verið stofnað í talsverðri óvissu og að með skuldbindingum í leigusamningi hafi stefndi tekið nokkra áhættu, sem kallaði á varúð í upphafi rekstrar. Þótt hann hefði möguleika á að segja undirmönnum upp með sjö daga fyrirvara, sbr. 1. mgr. 9. gr. sjómannalaga, eins og bent hefur verið á af hálfu áfrýjanda, var uppsagnarfrestur yfirmanna þrír mánuðir, sbr 2. mgr. sömu greinar. Þá ber að hafa í huga að hér var í heild um tiltölulega stuttan tíma að ræða, en tímabundnir ráðningarsamningar við áfrýjanda náðu yfir um þriggja mánaða tímabil og virðist hafa verið stefnt að því að þetta fyrirkomulag stæði út leigutíma skipsins, eða í sex mánuði. Fram kom undir rekstri málsins að stefndi hefði síðan eignast skipið og í framhaldi þess hafi verið gerðir ótímabundnir ráðningarsamningar við skipverja.

Að öllu þessu virtu verður að líta svo á að efnislegar forsendur hafi legið að baki hinum tímabundnu ráðningarsamningum og verður ekki talið að áfrýjandi hafi sýnt fram á að þessir gagnkvæmu samningar stefnda og hans hafi verið málamyndagerningar. Eins og atvikum öllum var háttað samkvæmt framansögðu þykja heldur ekki skilyrði til að víkja samningunum til hliðar eða breyta þeim á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður á það fallist með stefnda að veikindi áfrýjanda hafi borið að höndum eftir að ráðningartíma hans hjá stefnda var lokið samkvæmt gildum samningi þeirra í milli. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum áfrýjanda og verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

Rétt þykir eftir atvikum að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. desember 2003.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 27. nóvember sl., er höfðað 1. október 2002.

Stefnandi er Magnús Guðmundsson, Heiðnabergi 6, Reykjavík.

Stefndi er Magnel ehf., Áshamri 52, Vestmannaeyjum.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 610.769 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 428.909 krónum frá 15. apríl 2002 til 15. maí 2002 og þá af 610.769 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að sjóveðréttur í Breka VE-61 með skipaskráningarnúmerið 1459 verði staðfestur fyrir tildæmdum fjárhæðum. Loks krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi, Magnel ehf., krefst sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins.

Upphaflega gerði stefnandi kröfu á hendur Útgerðarfélagi Vestmannaeyja hf. til staðfestingar á sjóveðrétti en féll frá kröfunni á hendur þeim aðila.

Málsatvik

Með leigusamningi 1. nóvember 2001 tók stefndi á leigu skipið Breka VE-61 frá Útgerðarfélagi Vestmannaeyja hf. Í 3. gr. leigusamningsins er kveðið á um að leigutími sé frá 1. nóvember 2001 til 30. apríl 2002. Þó var aðilum heimilt að segja samningnum upp með mánaðarfyrirvara. Þá áskildi leigusali sér rétt til þess að selja skipið á leigutíma og var þá heimilt að segja leigusamningi upp með þriggja vikna fyrirvara. Þá sagði í 8. gr. leigusamningsins að leigusali skyldi gæta að því að ráðningarsamningar við skipverja stæðu ekki fram yfir leigutímann og ekki gera neina samninga sem bundið gætu leigusala.

Stefnandi var ráðinn sem matsveinn á skipið Breka VE-61 2. nóvember 2001. Samkvæmt lögskráningarvottorði Sýslumannsins í Vestmannaeyjum var stefnandi lögskráður á skipið 2.-9. nóvember 2001, 12. nóvember til 8. desember 2001, 19.-31. desember 2001, 1. –11. janúar 2002, 16.-22. janúar 2002 og 23. janúar til 6. febrúar 2002.

Í málinu liggja fyrir skriflegir ráðningarsamningar við stefnanda frá 4. nóvember 2001, 11. nóvember 2001, 16. nóvember 2001, 19. desember 2001, 16. janúar 2001 og 23. janúar 2001. Í öllum samningunum var ráðningartímabil takmarkað við eina veiðiferð. Síðustu veiðiferð stefnanda um borð í Breka VE-61 lauk 6. febrúar 2002.  

Stefnandi varð óvinnufær 13. febrúar 2002 fram á mitt sumar 2002, vegna hjartasjúkdóms. Í læknisvottorði Davíðs O. Arnar hjartalæknis, dags. 10. september 2002, segir m.a. : ,,Magnús kom á bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss v/Hringbraut þann 13. febrúar sl…Hjartaþræðing sýndi lokun á vinstri framveggskvísl um miðbik æðarinnar og jafnframt var hægri kransæð lokuð en það mun hafa verið þekkt frá fyrri kransæðaþræðingu…Magnús dvaldi á sjúkrahúsinu í 6 daga til að jafna sig eftir kransæðastífluna. Hann hefur fyrri sögu um kransæðasjúkdóm og var inniliggjandi á Landspítalanum 1988 vegna brjóstverkja. Hjartaþræðing gerð á þeim tíma sýndi lokun á hægri kransæð en einungis væg eymsli í þeirri vinstri…Þegar Magnús kom á bráðamóttökuna í febrúar sl. lýsti hann því að hann hefði verið að fá brjóstverki undanfarnar vikur fyrir komu, þeir verkir höfðu komið við áreynslu og lagast við hvíld. Af þessu má vera ljóst að Magnús hefur haft þekktan kransæðasjúkdóm frá árinu 1988. Hans einkenni virðast hafa verið fátíð þar til síðustu vikur fyrir innlögn í febrúar sl. en þá var hann með kransæðastíflu. Hann náði að jafna sig ágætlega eftir þetta áfall…Ég sá hann á læknastofunni hjá mér þann 15.04. sl., ég gerði þá hjá honum áreynslupróf sem kom algjörlega eðlilega út og fékk hann þá leyfi til að fara að stunda vinnu aftur…”

Stefndi greiddi stefnanda veikindalaun í eina viku.

Stefnandi kom ekki fyrir dóm og engin vitni önnur en Guðbjörg Guðfinnsdóttir, stjórnarmaður í Magnel ehf.

Hún kvað ástæðu þess að gerðir voru tímabundnir ráðningarsamningar við skipverja hafa verið þá að stefndi hafi gert leigusamning við Útgerðarfélag Vestmannaeyja hf. um skipið Breka VE-61 og hafi stefndi verið bundinn af þeim samningi. Samkvæmt leigusamningi hafi verið heimilt að segja honum upp með þriggja vikna fyrirvara. Rætt hafi verið við alla skipverja um skilmála ráðningarsamnings og gerðir skriflegir tímabundnir ráðningarsamningar við þá. Hún kvaðst hafa séð um að greiða stefnanda vikulaun eftir að ráðningartíma lauk og kvað að um mistök hafi verið að ræða af sinni hálfu. Ástæðu þess kvað hún vera reynslu- og þekkingarleysi sitt á réttindum stefnanda.

 Ágreiningur málsins lýtur að því hvort stefnandi eigi rétt á tveggja mánaða launum í veikindum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, þótt hann hafi einungis verið ráðinn til einnar veiðiferðar í senn, sem lauk áður en stefnandi veiktist.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst eiga rétt á tveggja mánaða launum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og byggir kröfu sína á ráðningarsamningi aðila og rétti stefnanda til endurgjalds fyrir vinnu sína í þágu stefnda. Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína svo:

5. veiðiferð 4.-27. mars 2002

Hásetahlutur               kr. 292.304

Aukahlutur                  kr.   73.076

Hlífðarföt                     kr.     2.624

Orlof                             kr.   39.593

Eingr.fæði                    kr.   21.312

Samtals                       kr. 428.909

 

6. veiðiferð 1.-19. apríl 2002

Hásetahlutur               kr. 115.694

Aukahlutur                  kr.   28.924

Hlífðarföt                     kr.     1.847

Orlof                             kr.   16.788

Eingr.fæði                    kr.    16.872

Samtals                       kr.  181.860

 Stefnandi kveðst ekki hafa afsalað sér lögmæltum veikindarétti með undirritun tímabundins ráðningarsamnings sem augljóslega sé gerður í þeim tilgangi að rýra lögbundin lágmarkskjör. Þar sem stefnandi hafi farið í veiðiferðir fyrir stefnda síðan 2. nóvember 2001 eigi að vera til sjálfstæðir tímabundnir samningar fyrir hverja veiðiferð. Margir tímabundnir samningar, sem hver taki við af öðrum, í stað eins ótímabundins ráðningarsamnings gangi gegn almennum sjónarmiðum vinnuréttar og séu þar að auki í andstöðu við ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980, sem kveði á um að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, skuli vera lágmarkskjör og að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar kveði á um skuli vera ógildir. Með tímabundnu ráðningarsamningunum hafi ekki einungis veikindaréttur stefnanda verið gerður rýrari en lög nr. 35/1985 kveði á um heldur einnig uppsagnarréttur stefnanda. Samningurinn sé þar af leiðandi ógildur.

Stefnandi telur að samkvæmt 36. gr. sjómannalaga eigi skipverji sem verði óvinnufær vegna sjúkdóms sem hann verði fyrir meðan á ráðningartíma standi, rétt á launum í tvo mánuði. Hinn tímabundni ráðningarsamningur sé málamyndagerningur og einungis til þess fallinn að koma í veg fyrir réttaráhrif ótímabundinna ráðningarsamninga. Með málamyndagerningi þessum ætli stefndi að komast undan lögmæltum skyldum sínum vegna veikinda stefnanda. Stefnandi telji  slíka gerninga stríða gegn ákvæðum 1. gr. laga nr. 55/1980, 7. gr. laga nr. 80/1938 og 36. gr. laga nr. 7/1936. Um sé að ræða staðlað form á ráðningarsamningnum sem stefndi hafi útbúið. Þar veki sérstaka athygli yfirlýsing skipverja um að þeir séu ekki haldnir neinum sjúkdómi, t.d. bakverkjum eða meiðslum sem hafi í för með sér líkur á fyrirsjáanlegum forföllum á ráðningartíma. Slíkar yfirlýsingar þekkist almennt ekki í ráðningarsamningum og gefi því auga leið að samningurinn í heild hafi það að markmiði að losa útgerðarmenn undan skyldum vegna veikindaréttar sjómanna samkvæmt ákvæði 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Slík takmörkun á rétti sjómanna verði ekki réttlætt með vísan til hagsmuna útgerðarinnar og sé óhóflega íþyngjandi fyrir stefnanda. Þegar af þeirri ástæðu sé samningurinn ógildanlegur, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá hafi verið staðfest að veikindi stefnanda séu ekki af sömu rót runnin og veikindi hans árið 1988. Fráleitt sé að fjórtán ára gömul mein, sem þar að auki séu ekki í neinu samhengi við veikindi hans nú, geti svipt stefnanda rétti til launa í veikindum.

Þótt ráðningarsamningurinn teljist gildur milli málsaðila,  teljist hann ógildur með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, þar sem hann sé bersýnilega ósanngjarn.

Við munnlegan málflutning reifaði lögmaður stefnanda  sjónarmið sín um skýringu íslenskra laga til samræmis við tilskipun Evrópuráðsins um rammasamninginn um tímabundna ráðningarsamninga, sem ETUC, UNICE og CEEP hafa gert.

Stefnandi kveður kröfu sína um orlof byggjast á rétti hans til orlofslauna ofan á laun samkvæmt lögum um orlof nr. 30/1987.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveður stefnanda hafa verið ráðinn til einnar veiðiferðar í senn. Hann hafi verið ráðinn til fyrstu veiðiferðar 2. nóvember 2001 og eftir það tímabundið. Síðasta veiðiferðin hafi byrjað 23. janúar 2002 og hafi henni lokið 6. febrúar 2002, en þá hafi stefnandi verið afskráður af skipinu. Við undirritun ráðningarsamnings hafi stefndi sagt eftir bestu vitund að hann væri ekki haldinn neinum þeim sjúkdómi, t.d. bakverkjum eða meiðslum, sem hefði í för með sér líkur á fyrirsjáanlegum forföllum á ráðningartíma.

Stefndi kveður fyllilega löglegt að gera tímabundna ráðningarsamninga, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. og 4. mgr. 10. gr. og 21. gr. sömu laga. Tímabundnar ráðningar hafi verið hinn almenni háttur sem hafður hafi verið á af hálfu stefnda, Magnels ehf. gagnvart skipverjum. Skipverjum hafi verið vel kunnugt um að stefndi, Magnel ehf., hafi verið leigutaki, en ætti ekki skipið.

Stefnandi hafi verið ráðinn tímabundinni ráðningu sem lokið hafi þegar Breki VE-61 hafi komið til hafnar eða eigi síðar en 6. febrúar 2002. Óvinnufærni stefnanda frá og með 13. febrúar 2002 sé því stefnda með öllu óviðkomandi, enda hafi ráðningarkjörum verið slitið á þeim tíma, sbr. 3. mgr. 10.gr. sjómannalaga. Réttur skipverja til launa í veikindum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga eigi samkvæmt orðanna hljóðan og viðurkenndri dómvenju aðeins við meðan á ráðningartíma hans standi, en að sjálfsögðu ekki eftir að ráðningartíma ljúki. Þegar af þessari ástæðu sé rétt að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Þá mótmælir stefndi því að um málamyndagerning hafi verið að ræða. Í tilviki málsaðila hafi verið um sérstakt samningssamband milli leigusala og leigutaka að ræða og því hafi leigutaki skipsins, þ.e. stefndi, ákveðið að gera skriflega og tímabundna ráðningarsamninga við skipverja sína fyrir hverja veiðiferð. 

Þá sé það sjálfstæð sýknuástæða að stefnandi hafi ekki skýrt stefnda frá því að hann væri hjartveikur þegar ráðningarsamningur var gerður við hann og gæti þurft að hverfa frá störfum af þeim sökum. Í 4. mgr. 36. gr. sjómannalaga sé kveðið á um að skipverji eigi ekki rétt á launum vegna veikinda sem hann leyni vinnuveitanda sinn.

Stefndi mótmælir og fjárhæðum kröfu stefnanda, forsendum kröfunnar og tilgreindum vöxtum.

Niðurstaða.

 Stefndi hefur meðal annars krafist sýknu af kröfum stefnanda á grundvelli þess að stefnandi hafi leynt stefnda veikindum sínum er ráðningarsamningur var gerður við hann.

Í 4. mgr. 36. gr. sjómannalaga er kveðið á um að skipverji eigi ekki rétt á launum fyrir þann tíma sem hann er óstarfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur leynt vísvitandi við ráðningu sína.

Stefnandi lagði fram læknisvottorð Davíðs O. Arnar hjartalæknis, þar sem segir meðal annars að þegar stefnandi hafi komið á bráðamóttöku Landspítala 13. febrúar 2002 hafi hann greint frá því að hann hafi haft brjóstverki vikurnar fyrir komu. Í vottorðinu greinir læknirinn einnig frá því að stefnandi hafi haft þekktan kransæðasjúkdóm frá árinu 1988. Þar sem skilja verður málatilbúnað stefnanda á þann veg að hann telji ráðningarsambandi aðila ekki hafa verið slitið 6. febrúar 2002, er stefnandi var afskráður af skipinu, hefði vitnisburður stefnanda og ofangreinds hjartalæknis meðal annars getað varpað ljósi á hvort stefnandi hafi haft brjóstverki

vegna hjartasjúkdóms við ráðningu 23. janúar 2002, eða fyrir þann tíma, en hvorki stefnandi né læknirinn  komu fyrir dóm. Þá hafa engin gögn verið lögð fram af hálfu stefnanda er hnekkt gætu þeirri staðhæfingu stefnda sem fær og nokkurn stuðning í framangreindu læknisvottorði, að stefnandi hafi við ráðningu haft kransæðasjúkdóm er hann skýrði stefnda ekki frá. Stefnandi verður því að bera hallann af því að algerlega er ósannað að stefnandi hafi ekki verið haldinn hjartasjúkdómi við gerð ráðningarsamnings sem hann leyndi stefnda. Óumdeilt er að stefnandi ritaði undir yfirlýsingu í ráðningarsamningi þess efnis að hann væri ekki haldinn neinum þeim sjúkdómi sem hefðu í för með sér líkur á fyrirsjáanlegum forföllum á ráðningartíma.

Þegar af þessari ástæðu og með vísan til 4. mgr. 36. gr. sjómannalaga ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, en rétt þykir í ljósi atvika málsins að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Ingveldur Einarsdóttir, settur dómstjóri, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Magnel ehf., er sýkn af kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.