Hæstiréttur íslands

Mál nr. 575/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. október 2009.

Nr. 575/2009.

A

(Oddgeir Einarsson hdl.)

gegn

Mosfellsbæ

(Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Lögræði.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tólf mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2009, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Þorbjargar I. Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2009.

Með beiðni, sem dagsett er 10. þ.m., hefur sóknaraðili, fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], sem nú dvelur á Kleppsspítala, verði sviptur sjálfræði í allt að eitt ár vegna geðveiki.  Var málið þingfest og tekið til úrskurðar 17. þ.m.  Um aðild sóknaraðila vísast til d- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.  Varnaraðili mótmælir kröfunni.  Krefst hann þess að henni verði synjað en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími en krafist er. 

Í staðfestu vottorði og vætti Tómasar Zoëga yfirlæknis á geðdeild Landspítala kemur fram varnaraðili sé haldin alvarlegum geðklofasjúkdómi sem aldrei hafi verið meðhöndlaður.  Hann hafi mjög takmarkað sjúkdómsinnsæi og þurfi að dveljast á spítala og gangast undir langvarandi meðferð, bæði lyfjameðferð og atferlismeðferð.  Sé varnaraðili ófær um að ráða persónulegum högum sínum.  Í vottorðinu og framburði yfirlæknisins eru tiltekin mörg atriði sem sjúkdómsgreiningin og tillögur um meðferð eru byggðar á, svo sem undarleg og ógnandi hegðun, reiðiköst, ranghugmyndir og hugsanatruflanir.  Varnaraðili hefur mótmælt málavaxtalýsingu í kröfuskjali sóknaraðila.  Í greinargerð hans segir að málavöxtum sé þar ýmist ranglega lýst eða þeir stórlega ýktir og sama máli gegni um læknisvottorðið.  Sé sjúkdómsgreiningin ýmist byggð á ósönnuðum eða röngum staðhæfingum.

Dómarinn álítur alveg vafalaust af vottorði og vætti Tómasar Zoëga yfirlæknis, sem ekki hefur verið hnekkt, að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum.  Þá álítur hann að skilyrði a- liðar 4. gr. lögræðislaga eigi við um varnaraðila og að þörf sé á því að svipta hann sjálfræði.  Ber að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli sviptur sjálfræði í tólf mánuði. 

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þ.m.t. þóknun til talsmanna málsaðila, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl. og Oddgeirs Einarssonar hdl., 80.000 krónur til hvors um sig, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, A, kt. [...], sem nú dvelur á Kleppsspítala, er sviptur sjálfræði í tólf mánuði.

Úr ríkissjóði greiðist allur málskostnaður, þ.m.t. þóknun til talsmanna málsaðila, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl. og Oddgeirs Einarssonar hdl., 80.000 krónur til hvors um sig.