Hæstiréttur íslands
Mál nr. 363/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæruvald
- Reglugerðarheimild
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 3. september 2007. |
|
Nr. 363/2007. |
Ákæruvaldið(Björn Þorvaldsson, settur saksóknari) gegn X og Y (Hlöðver Kjartansson hrl.) |
Kærumál. Ákæruvald. Reglugerðarheimild. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Með 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1050/2006 um rannsókn og saksókn efnahagsbrota var meðferð „alvarlegra brota” gegn meðal annars 262. gr. almennra hegningarlaga og skattalögum, auk skipulagðra fjármunabrota sem tengjast atvinnurekstri, felld undir verksvið saksóknara efnahagsbrota. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 er ákæruvald í höndum ríkissaksóknara og lögreglustjóra, þar á meðal ríkislögreglustjóra. Ákæruvaldið í máli þessu var lögum samkvæmt í höndum ríkislögreglustjóra. Heimild 4. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 stendur til þess eins að saksóknari, sem skipaður er við embætti ríkislögreglustjóra, höfði og flytji mál í umboði forstöðumanns þess. Ákvæði reglugerðar nr. 1050/2006, þar sem ráðgert er að saksóknari efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra fari sjálfstætt með ákæruvald í þeim málum, sem eiga undir það, en ekki í umboði ríkislögreglustjóra, voru því talin í andstöðu við framangreind ákvæði. Ekki var að finna viðhlítandi lagastoð til að víkja á þennan hátt frá lögbundinni skipun ákæruvaldsins með reglugerð. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkislögreglustjóri skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júlí 2007. Kærumálsgögn bárust réttinum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. júlí 2007, þar sem máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, sem verði hækkuð frá því sem þar var ákveðið.
Mál þetta var höfðað með ákæru 13. mars 2007 á hendur varnaraðilum fyrir að hafa með nánar tilgreindri háttsemi gerst sekir um brot gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og laga nr. 145/1994 um bókhald, svo og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt upphafsorðum ákærunnar höfðaði „saksóknari efnahagsbrota“ málið og var hún gefin út á „skrifstofu Ríkislögreglustjórans“ af Helga Magnúsi Gunnarssyni saksóknara.
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum fara ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri, með ákæruvald. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er dómsmálaráðherra heimilað að skipa saksóknara við einstök embætti lögreglustjóra, þar á meðal ríkislögreglustjóra, til að annast saksókn og málflutning samkvæmt lögunum „í umboði þeirra.“ Þá er í 1. mgr. 28. gr. laganna mælt svo fyrir að lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri, höfði önnur opinber mál en þau, sem ríkissaksóknari höfðar samkvæmt 3. mgr. 27. gr. þeirra. Eftir síðastgreindu lagaákvæði fer ríkissaksóknari ekki með ákæruvald vegna brota af þeim toga, sem að framan er getið, og eiga slík mál því undir lögreglustjóra. Samkvæmt a. lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skal ríkislögreglustjóri starfrækja lögreglurannsóknardeild til að rannsaka skatta- og efnahagsbrot, en um verkaskiptingu milli hans og annarra lögreglustjóra við rannsókn brota á þessu sviði skal mælt fyrir í reglugerð, sbr. 3. mgr. 8. gr. laganna. Ræðst þá af sömu heimild hvernig verkum skuli skipt milli ríkislögreglustjóra og annarra lögreglustjóra að því er ákæruvald varðar, þar á meðal vegna brota gegn lögum nr. 50/1988, 45/1987 og 145/1994, svo og 262. gr. almennra hegningarlaga. Með 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1050/2006 um rannsókn og saksókn efnahagsbrota hefur meðferð „alvarlegra brota“ gegn meðal annars 262. gr. almennra hegningarlaga og skattalögum, auk skipulagðra fjármunabrota sem tengjast atvinnurekstri, verið felld undir verksvið þeirrar lögreglurannsóknardeildar við embætti ríkislögreglustjóra, sem um ræðir í áðurnefndum a. lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga. Brotin, sem varnaraðilum eru gefin að sök, eru þess eðlis að þetta ákvæði reglugerðar nr. 1050/2006 á við um þau. Að lögum fara því hvorki ríkissaksóknari né aðrir lögreglustjórar en ríkislögreglustjóri með ákæruvald vegna þessara ætluðu brota.
Samkvæmt fyrrnefndri 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 er ákæruvald í höndum ríkissaksóknara og lögreglustjóra, þar á meðal ríkislögreglustjóra. Heimildin í 4. mgr. sömu lagagreinar, sem áður er getið, stendur til þess eins að saksóknari, sem skipaður er við embætti ríkislögreglustjóra, höfði og flytji mál í umboði forstöðumanns þess. Ákvæði reglugerðar nr. 1050/2006, þar sem ráðgert er að saksóknari efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra fari sjálfstætt með ákæruvald í þeim málum, sem eiga undir það, en ekki í umboði ríkislögreglustjóra, eru því að þessu leyti í andstöðu við framangreind lagaákvæði. Í 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 8. gr. lögreglulaga, sem vísað er til í 7. gr. reglugerðarinnar sem heimild fyrir setningu hennar, verður ekki fundin viðhlítandi stoð til að víkja á þennan hátt frá lögbundinni skipan ákæruvaldsins. Með því að annmarkar voru að þessu leyti á höfðun málsins og meðferð þess verður hinn kærði úrskurður staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um málsvarnarlaun, enda hafa varnaraðilar ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti til að fá því breytt.
Samkvæmt 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður kærumálskostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Allur kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, Hlöðvers Kjartanssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. júlí 2007.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu ákærða 14. júní sl., er höfðað með ákæru saksóknara efnahagsbrota, útgefinni 13. mars 2007, á hendur X, kt. [...], [...]41, Hafnarfirði og Y., kt. [...], sama stað, „fyrir eftirtalin skatta-, bókhalds- og hegningarlagabrot, framin í rekstri einkahlutafélagsins Y á rekstrarárunum 2003 til 2005.
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Ákærða X er gefið að sök að hafa, sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins, skilað til skattyfirvalda efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum, vegna uppgjörstímabilanna frá og með janúar 2003 til og með febrúar 2005, og hafa með þessu komið félaginu undan því að standa Sýslumanninum í Hafnarfirði skil á virðisaukaskatti, í samræmi við það sem lög áskilja, samtals að fjárhæð kr. 6.379.287 og sundurliðast sem hér greinir:
[...]
Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.
Brot ákærðu Y ehf. telst varða við framangreind ákvæði, sbr. 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988.
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Þá er ákærða X gefið að sök að hafa vantalið á staðgreiðsluskilagreinum einkahlutafélagsins staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna þess, að fjárhæð kr. 233.641 á árinu 2003 og kr. 586.182 á árinu 2004 og hafa eigi staðið skil á skilagreinum staðgreiðslu á lögmæltum tíma vegna mars og apríl 2004 sem hann skilaði síðan með ranglega tilgreindri staðgreiðslu sem 0, auk þess að hafa eigi staðið Sýslumanninum í Hafnarfirði, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á skilaskyldri staðgreiðslu opinberra gjalda samkvæmt innsendum skilagreinum ársins 2004 að fjárhæð kr. 268.932, en samtals nam vangoldin staðgreiðsla framangreindra ára kr. 1.088.755 sem sundurliðast sem hér greinir:
[...]
Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.
Brot ákærðu Y ehf. telst varða við framangreind ákvæði, sbr. 9. mgr. laga nr. 45/1987.
III. Fyrir brot gegn lögum um bókhald.
Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og varðveita bókhaldsgögn að hluta til vegna rekstrarársins 2003 og að öllu leyti vegna rekstrarársins 2004 og janúar og febrúar 2005.
Telst þetta varða við 1. og 2. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995.
Brot ákærðu Y ehf. telst varða við framangreind ákvæði sbr. 40. gr. laga nr. 145/1994.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.“
Í þessum þætti málsins krefst ákærði þess að ákæru verði vísað frá dómi. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnaralauna úr ríkissjóði til handa skipuðum verjanda sínum.
Ákæruvaldið krefst þess að frávísunarkröfu verði hafnað.
Ákærði byggir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að ákæra í málinu sé ekki gefin út af löghæfum handhafa ákæruvalds, í öðru lagi á því að rannsókn málsins sé áfátt og í þriðja lagi að óhæfilegur dráttur hafi orðið á útgáfu ákæru í málinu og hafi ákærði því með réttu mátt telja að málinu væri lokið, enda hafi hann greitt að fullu öll þau gjöld sem um ræði.
Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála segir að með ákæruvald fari ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um að dómsmálaráðherra sé heimilt að skipa saksóknara við einstök embætti lögreglustjóra, þar á meðal embætti ríkislögreglustjóra, til að annast saksókn og málflutning samkvæmt lögum þessum í umboði þeirra. Verður að telja að embætti saksóknara efnahagsbrota hafi verið komið á fót á grundvelli síðastefndrar heimildar dómsmálaráðherra, en um embættið gildir reglugerð nr. 1050/2006 sem tók gildi 1. janúar 2007. Saksóknari efnahagsbrota verður því talinn hafa heimild til að annast saksókn og málflutning samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála í umboði ríkislögreglustjóra. Saksóknari efnahagsbrota fer hins vegar ekki með sjálfstætt ákæruvald og verður ekki með reglugerð falið slíkt vald, að óbreyttum lögum. Brast hann því heimild til að gefa út ákæru í máli þessu í eigin nafni og ber þegar af þessari ástæðu að vísa ákæru í máli þessu frá dómi.
Eftir þessum málsúrslitum og með hliðsjón af 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður allur sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hlöðvers Kjartanssonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.
Halldór Björnsson settur héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hlöðvers Kjartanssonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.