Hæstiréttur íslands
Mál nr. 224/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
Fimmtudaginn 19. júní 2003. |
|
|
Nr. 224/2003. |
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) gegn M og K (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem barnaverndarnefnd var heimilað að vista A, son M og K, á meðferðarheimili.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2003, þar sem sóknaraðila var heimilað að vista A, son varnaraðilanna, á meðferðarheimili til 21. ágúst 2003. Kæruheimild er í 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að vista áðurnefnt barn utan heimilis varnaraðila allt til 21. janúar 2004.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að sóknaraðila sé heimilt að vista áðurnefndan son varnaraðila á meðferðarheimili til 21. ágúst 2003.
Fyrir héraðsdómi gerðu varnaraðilar meðal annars kröfu um að sóknaraðila yrði gert að greiða sér málskostnað. Til þeirrar kröfu var ekki tekin afstaða með hinum kærða úrskurði. Þrátt fyrir það eru ekki næg efni til að ómerkja úrskurðinn, heldur verður ákvörðun tekin með dómi þessum um málskostnað í héraði. Rétt er að hann falli niður ásamt kærumálskostnaði.
Samkvæmt 61. gr., sbr. 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga áttu varnaraðilar rétt á gjafsókn vegna málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Varnaraðilar gættu þess ekki fyrir héraðsdómi að leita á grundvelli þessarar heimildar eftir því að dómsmálaráðherra veitti þeim gjafsókn eftir almennum reglum XX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem nauðsyn bar til, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 27. september 2001 í máli nr. 102/2001. Úr því hefur á hinn bóginn verið bætt undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti með því að dómsmálaráðherra hefur nú veitt varnaraðilum gjafsókn á báðum dómstigum. Fer um gjafsóknarkostnað varnaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, en þess er að gæta að þau hafa ekki leitað hér fyrir dómi eftir endurskoðun á ákvörðun málflutningsþóknunar lögmannsins, sem fór með málið fyrir þau í héraði.
Í þinghaldi í héraði 2. maí 2003 skipaði héraðsdómari Örn Clausen hæstaréttarlögmann til að gegna starfi talsmanns áðurnefnds sonar varnaraðila undir rekstri málsins. Ekki var stoð í ákvæðum barnaverndarlaga fyrir þessari skipun, sem héraðsdómari studdi í senn við lögjöfnun frá 3. mgr. 25. gr. þeirra laga og 5. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992. Samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns, sem dómari getur skipað barni til að gæta hagsmuna þess við rekstur forsjármáls. Þótt lögjöfnun frá þessum ákvæðum geti ekki réttilega átt við í máli sem þessu, er óhjákvæmilegt úr því sem komið er að kostnaður af starfi talsmannsins verði greiddur úr ríkissjóði, svo sem ráðgert er í áðurnefndri 5. mgr. 34. gr. barnalaga. Verður fjárhæð þóknunarinnar, sem héraðsdómari ákvað handa talsmanninum með hinum kærða úrskurði, látin standa óröskuð, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að því er varðar heimild sóknaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, til að vista A á meðferðarheimili allt til 21. ágúst 2003.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, M og K, í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra fyrir héraðsdómi, 70.000 krónur, og lögmanns þeirra fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur.
Þóknun talsmanns A, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, vegna meðferð málsins fyrir héraðsdómi, 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.