- Gjaldþrotaskipti
- Skiptakostnaður
|
Þriðjudaginn 19. apríl 2011. |
Nr. 577/2010. |
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði (Óskar Thorarensen hrl.) gegn þrotabúi Melhóls ehf. (Hlöðver Kjartansson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Skiptakostnaður.
Bú M ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og var H skipaður skiptastjóri þess. Skiptabeiðandi, S, lagði fram tryggingu fyrir skiptakostnaði, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í málinu krafði H skiptabeiðanda um greiðslu skiptakostnaðar, sem féll til umfram tryggingu. H hélt því fram að fé þrotabúsins hefði ekki dugað fyrir kostnaðinum þar sem það væri nær eignalaust, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991, og að verk hans við skiptin hefðu öll verið nauðsynleg, sbr. 1. mgr. 155. gr. laganna. S taldi á hinn bóginn að H hefði borið að afla samþykkis hans sem skiptabeiðanda áður en stofnað var til frekari útgjalda við skiptameðferð, þegar ljóst var að tryggingin nægði ekki til að ljúka skiptum, sbr. 155. gr. sömu laga. Hæstiréttur rakti ákvæði 1. mgr. 155. gr. laga nr. 21/1991 og samspil þess við ákvæði 2. mgr. 67. gr. sömu laga. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að S hefði ekki bent á aðgerðir skiptastjóra sem honum hefði hvorki verið að lögum skylt að vinna né teldust til nauðsynlegra og venjulegra aðgerða við skipti bús sem lokið væri samkvæmt 1. mgr. 155. gr. laganna. Þá hefði S heldur ekki fært fram rök fyrir því að þannig hefði verið að verki staðið við skipti búsins að efni væru til að lækka kröfu H. Var krafa H því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefnda og þess að málskostnaður falli niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að skiptastjóra stefnda hafi borið að afla samþykki hans sem skiptabeiðanda áður en stofnað var til frekari útgjalda við skiptameðferð stefnda þegar ljóst mátti vera að trygging sú, sem lögð hafði verið fram samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., nægði ekki til að ljúka mætti skiptum, sbr. ákvæði 155. gr. sömu laga. Verði áfrýjandi þannig ekki krafinn um frekari greiðslur vegna skiptakostnaðar þar sem hann hafi ekki samþykkt þær sérstaklega áður en til kostnaðarins var stofnað. Þá vísar áfrýjandi til liðar 5.0 í verklagsreglum tollstjóra, 2. útgáfu frá maí 2007, en þar segir meðal annars að komi í ljós að fyrirsjáanlegt sé að skiptatrygging hrökkvi ekki fyrir skiptakostnaði sé skiptastjóra skylt að tilkynna kröfuhöfum það. Til vara krefst áfrýjandi lækkunar á kröfu stefnda þar sem ekki hafi verið nauðsyn á öllum þeim aðgerðum sem hann hafi unnið að eftir 25. apríl 2007.
Stefndi byggir kröfu sína á því að áfrýjandi sé ábyrgur fyrir greiðslu kostnaðar af meðferð kröfu hans og af gjaldþrotaskiptum stefnda þar sem kostnaðurinn hafi ekki greiðst af fé þrotabúsins enda væri það nær eignalaust, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi þau verk sem unnin hafi verið við skiptin öll verið nauðsynleg til að ljúka mætti skiptum búsins samkvæmt 1. mgr. 155. gr. laga nr. 21/1991.
II
Í 2. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 er tekið fram að sá, sem hefur krafist gjaldþrotaskipta, ábyrgist greiðslu kostnaðar af meðferð kröfu sinnar og af gjaldþrotaskiptum ef krafa hans er tekin til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé þrotabúsins. Þetta gildir einnig þótt hann hafi ekki verið krafinn um tryggingu skv. 2. mgr. 67. gr. laganna.
Ef fram kemur eftir lok kröfulýsingarfrests að þrotabú eigi ekki eignir umfram það sem þarf til að efna kröfur samkvæmt 109. gr. og 1. og 2. tölulið 110. gr. laga 21/1991 skal skiptum lokið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 155. gr. sömu laga. Þegar svo er ástatt þarf skiptastjóri að öðru jöfnu ekki sérstakt samþykki þess, sem krafist hefur gjaldþrotaskipta, til þess að inna lögmæltar athafnir af hendi svo og aðrar nauðsynlegar og venjulegar aðgerðir til að ljúka skiptum í samræmi við ákvæði 1. mgr. 155. gr. laganna, enda þótt kostnaður af þeim fari fram úr tryggingu sem lögð hefur verið fram samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laganna. Eftir að slíkum aðgerðum er lokið getur skiptastjóri á hinn bóginn aðeins ákveðið að skiptum verði fram haldið ef hann telur að þrotabúið geti unnið til frekari réttinda með málshöfðun eða öðrum aðgerðum og sá sem ber ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar eða annar lánardrottinn í hans stað lýsir sig reiðubúinn til að bera kostnað af frekari aðgerðum og leggur eftir atvikum fram tryggingu fyrir honum, sbr. 155. gr. sömu laga.
Þar sem verklagsreglur tollstjóra frá maí 2007, sem áfrýjandi hefur vísað til, hafa hvorki verið birtar né styðjast við skýra lagaheimild, hafa þær enga þýðingu við úrlausn á því hvaða skyldur hvíli á skiptastjóra stefnda í máli þessu.
Stefndi hefur lagt fram ítarlega skrá yfir unnin verk og tíma skiptastjóra í þágu þrotabúsins. Áfrýjandi hefur ekki bent á neinar aðgerðir skiptastjóra stefnda sem hvorki var að lögum skylt að vinna né teljast til nauðsynlegra og venjulegra aðgerða við skipti þrotabús sem lokið er samkvæmt 1. mgr. 155. gr. laga nr. 21/1991. Þá hefur áfrýjandi heldur ekki fært fram rök fyrir því að þannig hafi verið að verkið staðið við skipti búsins að efni séu til að lækka kröfu stefnda. Verður krafa stefnda því tekin til greina og niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjandi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, sýslumaðurinn í Hafnarfirði, greiði stefnda, þrotabúi Melhóls ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. júní sl., var höfðað með birtingu stefnu fyrir lögmanni stefnda þann 23. júní 2009 og var málið þingfest þann 24. júní 2009.
Stefnandi er Þrotabú Melhóls ehf., kt. 700402-5920, Bæjarhrauni 8, Hafnarfirði, en stefndi er sýslumaðurinn í Hafnarfirði, kt. 490169-5559, Bæjarhrauni 8, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 844.621 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. september 2008 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndi sótti þing við þingfestingu málsins og fékk frest til framlagningar greinargerðar til 30. september 2009. Krefst stefndi þess aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður. Var aðalmeðferð ákveðin 23. febrúar 2010 en frestað utan réttar að ósk stefnanda. Aðalmeðferð fór fram þann 16. júní sl., og var málið dómtekið að málflutningi loknum.
Málsatvik.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 21. september 2006, var bú Melhóls ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var Hlöðver Kjartansson hrl. skipaður skiptastjóri í búinu. Skiptabeiðandi var sýslumaðurinn í Hafnarfirði og lagði hann fram tryggingu fyrir skiptakostnaði, 250.000 krónur, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991. Var þrotabúið eignalaust en samkvæmt skiptastjóra varð að leggja mikla vinnu í skoðun á því hvort líkur væru á endurheimtum verðmæta í búinu, sérstaklega vegna skorts á bókhaldi og bókhaldsgögnum. Lýstar kröfur í búið námu samtals 100.556.204 krónum. Þar af voru forgangskröfur samtals 32.975.193 krónur skv. 112. gr. gjaldþrotalaga en þegar við upphaf gjaldþrotaskiptanna hafði fjöldi dómsmála verið höfðaður gegn félaginu vegna launa skipverja á skipi félagsins. Í stefnu segir að skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til lýstra almennra krafna í þrotabúið á grundvelli 119. gr. laganna en ekki komist hjá því að taka afstöðu til forgangskrafna vegna launa skipverja á skipi Melhóls ehf. á gagnrýninn hátt með tilheyrandi umtalsverðri vinnu. Stefnandi kveður búið hafa verið eignalaust og skiptastjóra hafa fengið bókhald búsins í slitrum. Forgangskröfur í búið hafi numið um þrjátíu og sjö milljónum króna en endað í tuttugu og fimm milljónum eftir að skiptastjóri hafði tekið afstöðu til þeirra.
Þann 15. desember 2006 var haldinn skiptafundur í búinu þar sem kröfulýsingaskrá var lögð fram. Þann 19. febrúar 2007 var tekin skýrsla af Hafsteini Aðalsteinssyni, skipstjóra hjá félaginu. Þann 25. apríl 2007 lá endanleg kröfuskrá fyrir og með bréfi sama dag sendi skiptastjóri bréf til Ábyrgðarsjóðs launa þar sem tilgreindar voru forgangskröfur í búið vegna launa starfsmanna. Þann 10. maí 2007 var tekin skýrsla af stjórnarmanni félagsins, Sigurði Aðalsteinssyni. Þann 11. ágúst 2008 sendi skiptastjóri tölvupóst til skiptabeiðanda ásamt tímaskýrslu og krafði hann um ógreiddan skiptakostnað umfram skiptatrygginguna. Þann 12. ágúst 2008 sendi skiptastjóri tilkynningu til ríkislögreglustjóra þar sem vaknað höfðu grunsemdir um refsivert athæfi forsvarsmanna félagsins. Með bréfi þann 2. september 2008 hafnaði stefndi því að greiða aukinn skiptakostnað og benti stefnanda á kæruheimild til fjármálaráðuneytisins. Með kæru þann 19. september 2008 kærði stefnandi ákvörðun stefnda til fjármálaráðuneytisins og krafðist þess að ákvörðun sýslumannsins yrði felld úr gildi. Með bréfi þann 6. janúar 2009 kærði stefnandi til fjármálaráðuneytisins þann drátt sem var orðinn á afgreiðslu kæru hans frá 19. september 2008 til ráðuneytisins. Með bréfi ráðuneytisins til stefnanda upplýsir ráðuneytið að erindi hans frá 19. september hafi verið svarað með bréfi þann 23. október 2008 sem var sent stefnanda. Hafnaði ráðuneytið kröfu stefnanda um að fella niður ákvörðun stefnda um greiðslu aukins skiptakostnaðar. Þann 23. júní 2009 höfðaði stefnandi mál þetta með birtingu stefnu fyrir lögmanni stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að hann hafi verið skipaður skiptastjóri í búi Melhóls ehf. þann 21. september 2006. Hafi skiptatrygging er stefndi lagði fram, 250.000 krónur, til greiðslu á kostnaði skiptastjóra engan veginn dugað til að greiða fyrir lögbundna og nauðsynlega vinnu skiptastjóra. Kveður stefnandi að engar eignir hafi fundist í þrotabúinu og skoðun skiptastjóra hafi ekki leitt til þess að líkur væru á endurheimtu verðmæti í búinu samkvæmt riftunarreglum XX. kafla gjaldþrotalaganna eða með öðrum hætti. Leggja hefði þurft nokkuð mikla vinnu í þá skoðun, sérstaklega vegna skorts á bókhaldi og bókhaldsgögnum. Á grundvelli þeirrar vinnu hafi ríkislögreglustjóra verið sent bréf með ýmsum ábendingum um atriði er kynnu að varða fyrrum forsvarsmenn félagsins refsiábyrgð. Lýstar kröfur í þrotabúið hafi verið samtals að fjárhæð 100.556.204 krónur, þar af hafi forgangskröfur verið að fjárhæð 32.975.193 krónur. Þegar við upphaf gjaldþrotaskiptanna hafði fjöldi dómsmála verið höfðaður gegn félaginu vegna launa skipverja á skipi félagsins. Skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til lýstra almennra krafna í þrotabúið en ekki hafi verið komist hjá því, í samræmi við starfsskyldur skiptastjóra, að taka afstöðu til forgangskrafna vegna launa skipverja á skipi Melhóls ehf., á gagnrýninn hátt með tilheyrandi vinnu. Hafi skiptatryggingin vegna framangreinds engan veginn nægt til greiðslu þeirrar vinnu og eftir standi stefnufjárhæðin. Stefndi hafi hafnað beiðni stefnanda um greiðslu þessa aukna skiptakostnaðar þann 2. september 2008. Í framhaldi hefði stefnandi kært þá ákvörðun stefnda til fjármálaráðuneytisins með vísan til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi stefnandi krafist þess að ráðuneytið felldi ákvörðun stefnda úr gildi en ráðuneytið hafnað kröfu stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að samkvæmt 2. mgr. 66. gr. gjaldþrotalaga ábyrgist sá sem krefst gjaldþrotaskipta greiðslu kostnaðar af meðferð kröfu hans og af gjaldþrotaskiptunum sé krafa hans tekin til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé búsins. Gildi það einnig þó svo að skiptabeiðandi hafi ekki verið krafinn um tryggingu skv. 2. mgr. 67. gr. laganna. Stefnandi kveður útilokað að unnt hafi verið að ljúka starfsskyldum skiptastjóra fyrir fyrsta skiptafund og skiptum á fyrsta skiptafundi þann 15. desember 2006 í samræmi við ákvæði 1. málsliðar 1. mgr. 155. gr. laganna. Ekki hafi verið hjá því komist að taka afstöðu til forgangskrafna og ljúka þeim dómsmálum sem þegar höfðu verið höfðuð og senda umsögn um þær til Ábyrgðarsjóðs launa. Vísar stefnandi því til stuðnings til dóms Hæstaréttar Íslands frá 12. febrúar 2002 í málinu nr. 47/2002. Þá kveður stefnandi þá skyldu hvíla á skiptastjóra að láta Ábyrgðarsjóði launa í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í búið sem til álita komi að njóti ábyrgðar sjóðsins og skuli umsögnin fela í sér afstöðu hans til réttmætis kröfunnar og forgangsréttar hennar án tillits til eignastöðu búsins. Umræddir kröfuhafar hefðu haft lögvarða hagsmuni af því að afstaða yrði tekin til lýstra launakrafna þeirra. Kvað stefnandi mörg dómsmál hafa verið rekin fyrir dómstólum þegar búið var tekið til gjaldþrotaskipta. Sum þeirra mála hafi verið felld niður og dómsátt gerð í öðrum. Þeim kröfum hafi síðan verið lýst í búið. Þá hefði skiptastjóri ekki náð til Sigurðar Aðalsteinssonar, fyrrum stjórnarmanns félagsins, til skýrslugjafar fyrr en 10. maí 2007 þar sem hann hefði dvalist erlendis. Hefði skýrslutaka af honum verið nauðsynleg í þeim tilgangi að hann upplýsti skiptastjóra um þær miklu fjármálalegu ráðstafanir sem félagið hafði staðið í skömmu fyrir gjaldþrotið og getið var í bréfi skiptastjóra til ríkislögreglustjóra þann 12. ágúst 2008, enda kynnu þær að geta leitt til þess að endurheimta mætti verðmæti inn í búið, svo sem vegna þeirra rúmlega fjörutíu og níu milljóna króna sem greitt hafði verið inn á reikning félagsins til greiðslu þeirrar frestuðu tekjuskattsskuldbindinga sem á félaginu, Melhóli ehf., hvíldi. Hafi vinna skiptastjóra miðað að því einu að gæta hagsmuna kröfuhafa svo sem kostur var og efni stóðu til.. Stefnandi hafnar þeirri málsástæðu stefnda að skiptabeiðandi hafi þegar lagt fram þá tryggingu sem af honum verði krafin, sbr. 67. gr. gjaldþrotaskiptalaga og því að kostnaður umfram þá tryggingu geti ekki fallið á skiptabeiðanda án skýrlega fyrirframgefins samþykkis hans, sbr. 155. gr. laganna.
Skiptastjóra hafi verið skylt að taka afstöðu til lýstra krafna, sbr. 1. mgr. 119. gr. gjaldþrotalaga, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 47/2002 frá 12. febrúar 2002, en vegna umfangs lýstra launakrafna hefði framlögð skiptatrygging engan veginn dugað fyrir kostnaði skiptastjóra. Sökum þessa hefði skiptastjóri sent stefnda sem skiptabeiðanda yfirlit yfir skiptakostnað með tölvubréfi 11. ágúst 2009 og óskað eftir greiðslu á 844.621 krónu og jafnframt spurt hvort frekari upplýsingar þyrfti frá skiptastjóra til þess, en engar frekari upplýsinga eða gagna hafi verið óskað af hálfu stefnda. Greiðslubeiðni hefði stefndi hafnað með bréfi, dagsettu 2. september 2008, en vakið athygli á heimild til að kæra þá ákvörðun til fjármálaráðuneytis, sbr. 26. gr. laga nr. 37/1993. Kvaðst stefnandi hafa gert það með bréfi, dagsettu 19. september 2009, enda talið rétt að tæma kæruleiðir stjórnsýsluréttar. Krafðist hann að fyrrnefnd höfnun/ákvörðun skiptabeiðanda yrði felld úr gildi og breytt á þá leið að stefnda væri skylt að greiða áðurgreindan ógreiddan skiptakostnað umfram framlagða skiptatryggingu hans. Hafi fjármálaráðuneytið fellt úrskurð um þessa kröfu þann 23. október 2008 og hafnað henni.
Stefnandi kveður skiptabeiðanda bera ábyrgð á kostnaði við skiptin, sbr. 2. mgr. 66. gr. gjaldþrotalaga, og gildi það þrátt fyrir að skiptabeiðandi hafi ekki verið krafinn um tryggingu. Þó svo að skiptabeiðanda hafi verið gert af hálfu dómara að leggja fram 250.000 krónur til tryggingar skiptakostnaðar þá beri skiptabeiðandi ábyrgð á þeim kostnaði sem fer umfram það, séu ekki eignir í búinu til greiðslu skiptakostnaðar.
Stefnandi vísar auk framangreindra laga til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. varðandi málskostnaðarkröfu sína.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefst hann þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað að mati dómsins en til vara að hann verði felldur niður.
Stefndi kveðst frá árinu 1992 hafa lagt fram mörg hundruð gjaldþrotaskiptabeiðnir og í öllum tilfellum hafi sú trygging sem skiptabeiðanda var gert að leggja fram, verið talin nægjanleg af skiptastjórum til að standa undir öllum venjulegum frágangi þrotabúa, stórra sem smárra. Í einstaka tilfellum hafi skiptastjórar talið að þeir þyrftu frekari tryggingu frá skiptabeiðanda eða öðrum kröfuhöfum vegna sérstakrar meðferðar sem þrotabúið hafi þurft að grípa til, t.d. riftunarmála fyrir dómstólum. Í þeim tilfellum hafi skiptastjórar alltaf lagt slíka beiðni fyrir á skiptafundi eða lagt fyrir skiptabeiðendur ósk með öðrum hætti um frekari tryggingar í samræmi við 155. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Stefnandi hefði ekki heimild til að samþykkja aukinn skiptakostnað undir neinum kringumstæðum. Hafi skiptastjórar farið fram á við stefnda að fá aukna tryggingu fyrir skiptakostnaði þá hafi sú beiðni í öllum tilfellum verið send þjónustudeild Tollstjórans í Reykjavík með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beiðni stefnanda vegna þessa máls hafi verið send Tollstjóranum í Reykjavík með tölvubréfi og beiðninni verið hafnað með svarbréfi þann 2. september 2008. Að mati stefnda verði texti 1. mgr. 155. gr. gjaldþrotalaga ekki túlkaður með öðrum hætti en þeim að þegar fyrirséð er að þrotabú eigi ekki eignir umfram það sem þurfi til að efna kröfur skv. 109. og 110. gr. laganna beri skiptastjóra að ljúka skiptum. Þá telur stefndi að ef skiptastjóri telji hins vegar að ástæða sé til að skiptum verði fram haldið þurfi hann að afla sér fyrirfram samþykkis skiptabeiðanda sem lýst geti sig reiðubúinn til þess að bera kostnað af frekari aðgerðum og leggi því eftir atvikum fram tyggingu fyrir honum. Skiptabeiðandi eða annar lánardrottinn verði því ekki krafinn um frekari skiptakostnað nema þeir samþykki hann sérstaklega áður en til hans verði stofnað. Mikil óvissa myndi ríkja ef lagaákvæðið yrði túlkað á þann hátt að skiptastjórum væri í sjálfsvald sett hversu mikla vinnu þeir legðu í þrotabúin og gætu án nokkurs fyrirliggjandi samþykkis sent skiptabeiðendum reikning vegna skiptakostnaðar sem væri ákveðinn einhliða af þeim sjálfum. Því hafi stefnanda í máli þessu borið að afla sér fyrirfram samþykkis skiptabeiðanda og annarra kröfuhafa í búinu þegar fyrirséð var að trygging skiptabeiðanda myndi ekki standa til fullnustu skiptakostnaðar. Fyrir liggi að skiptabeiðandi lagði fram 250.000 krónur sem tryggingu fyrir skiptakostnaði. Tilgangur þess að krefja skiptabeiðanda um tryggingu tiltekinnar fjárhæðar skv. 2. mgr. 67. gr. gjaldþrotalaga væri harla lítill ef skiptastjóri gæti eftir sem áður og án fyrirfram samþykkis farið fram yfir þá upphæð og átt þar með kröfu á hendur skiptabeiðanda vegna umframkostnaðar. Þá vísar stefndi til verklagsreglna tollstjóra um það hvenær skuli krefjast gjaldþrotaskipta á búi einstaklinga og lögaðila, 3. útgáfu frá janúar 2009 en þar segi: „Komi í ljós að fyrirsjáanlegt er að skiptatrygging hrökkvi ekki til fyrir skiptakostnaði er skiptastjóra skylt að tilkynna kröfuhöfum það. Ef ástæða er til að ætla að hagsmunum ríkissjóðs sé þjónað með því að samþykkja ábyrgð á auknum skiptakostnaði skal fá samþykki innheimtusviðs Tollstjóra fyrir slíkri ábyrgð.“ Tollstjóra hafi aldrei borist beiðni frá skiptastjóra fyrir auknum kostnaði. Þá kveður stefndi að skiptastjóra hafi verið óskylt að leita eftir vitneskju um atvik sem hann telji geta gefið tilefni til rökstudds gruns um að þrotamaðurinn eða aðrir kunni að hafa gerst rekir um refsivert athæfi umfram það sem leiði af upplýsingaöflun hans, starfa sinna vegna. Stefndi kveður að þrátt fyrir ákvæði í 119. gr. gjaldþrotaskiptalaga, þar sem kveðið er á um skyldu skiptastjóra um að taka afstöðu til innsendra krafna, eigi það ekki við þegar ljóst sé að ekkert fáist upp í kröfuna. Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar nr. 47/2002, verði skiptastjóri ávallt að afla sér fyrirfram samþykkis skiptabeiðanda og annarra kröfuhafa í búið ef kostnaður af aðferðum muni verða umfram útlagða skiptatryggingu skv. 155. gr. laganna. Sé byggt á því að stefnanda hafi borið að afla sér fyrirfram samþykkis skiptabeiðanda og annarra kröfuhafa í búið þegar fyrirséð var að tryggingin myndi ekki standa til fullnustu skiptakostnaðar. Stefndi mótmælir málsástæðum stefnanda og telur túlkun hans á 2. mgr. 66. gr. laganna allt of víðtæka og skiptabeiðanda verði aldrei gert að greiða meira en sem nemi skiptatryggingu og að hún geti aldrei náð lengra en sú trygging sem skiptabeiðanda var gert að leggja fram. Þá telur stefndi fullyrðingu stefnanda um að útilokað hafi verið að skiptastjóra væri unnt að ljúka starfsskyldum sínum fyrir fyrsta skiptafund ósannaða og einnig sé ósannað að framlögð skiptatrygging hafi ekki nægt til að ljúka skiptum í þrotabúinu á síðari tímamarki. Vísar stefndi til 155. gr. gjaldþrotaskiptalaga þar sem skýrt sé kveðið á um að skiptastjóra beri að afla samþykkis fyrir auknum skiptakostnaði fyrirfram.
Stefndi kveður það rangt hjá stefnanda að enginn ágreiningur sé efnislega um vinnuframlag hans, á því hafi ekki verið tekið í bréfi stefnda við stjórnsýslukæru stefnanda. Þá byggir stefndi varakröfu sína á því að lækka eigi kröfu stefnanda þar sem krafa stefnanda sé vanreifuð í stefnu. Upplýsingar um þau verkefni sem unnin hafi verið og nauðsyn þeirra séu ekki nákvæmar og mótmælir stefndi kostnaðaryfirliti sem of háu. Fyrir dóminum kvaðst stefndi ekki rengja þann tíma sem fór í vinnu stefnanda en efaðist um nauðsyn vinnunnar. Þá telur stefndi að dráttarvexti beri ekki að reikna fyrr en frá þingfestingardegi málsins.
Auk framangreindra lagaákvæða vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um málskostnað.
Niðurstöður:
Í máli þessu krefst skipaður skiptastjóri þrotabús Melhóls ehf. fyrir hönd félagsins að stefndi, sem var skiptabeiðandi í umræddu þrotabúi, greiði stefnanda aukinn skiptakostnað þar sem framlögð skiptatrygging að fjárhæð 250.000 krónur hafi ekki dugað til greiðslu á auknum kostnaði vegna nauðsynlegrar vinnu fyrir þrotabúið. Stefndi mótmælir þeirri kröfu og krefst sýknu þar sem stefnandi hafi ekki aflað sér samþykkis fyrir auknum kostnaði á ábyrgð skiptabeiðanda fyrirfram.
Í 2. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 segir að sá sem krefjist gjaldþrotaskipta ábyrgist greiðslu kostnaðar af meðferð kröfu sinnar og af gjaldþrotaskiptunum ef krafa hans er tekin til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé þrotabúsins. Þetta gildi einnig þótt skiptabeiðandi hafi ekki verið krafinn um tryggingu skv. 2. mgr. 67. gr. laganna. Ekki er ágreiningur í máli þessu um að lýstar kröfur í búið hafi numið rúmlega hundrað milljónum og að forgangskröfur hafi verið samtals tuttugu og ein. Þá er ekki ágreiningur um að skiptastjóri tók afstöðu til lýstra forgangskrafna sem allar voru launakröfur, samtals að fjárhæð 37.266.007, en eftir að skiptastjóri tók afstöðu til þeirra, 25.045.421 króna Ekki var tekin afstaða til annarra lýstra krafna. Þá er ekki ágreiningur um að tuttugu dómsmál höfðu þegar verið höfðuð gegn Melhól ehf., við upphaf gjaldþrotaskipta, sbr. dskj. 5. Tók þrotabúið við aðild þeirra mála við upphaf skipta en þeim lauk ýmist með niðurfellingu eða dómsátt og eitt með dómi. Með bréfi þann 25. apríl 2007 sendi skiptastjóri yfirlit yfir þær kröfur sem samþykktar höfðu verið sem forgangskröfur í búið, sbr. 13. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðarsjóð launa.
Þá hefur því ekki verið hnekkt að skiptastjóri gat ekki tekið skýrslu af forsvarsmanni þrotabúsins, Sigurði Aðalsteinssyni, fyrr en 10. maí 2007, sbr. fundargerð þar um, dskj. nr. 7. Hafði skiptastjóri eftir þá skýrslutöku fulla ástæðu til að kanna frekar um riftanleika ráðstafana þrotabúsins en þar var um verulegar fjárhæðir að ræða til hagsbóta fyrir kröfuhafa. Með bréfi þann 12. ágúst 2008 sendi skiptastjóri upplýsingar um fjárreiður þrotabúsins og annarra aðila til ríkislögreglustjóra, sbr. 84. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 26/1998.
Deilt er um það í máli þessu hvort skiptastjóri geti skuldbundið skiptabeiðanda til greiðslu skiptakostnaðar án þess að fá samþykki hans fyrirfram svo og kröfuhafa.
Stefnandi byggir á því að honum hafi verið skylt að taka afstöðu til lýstra forgangskrafna í búið. Þá hafi honum verið skylt að taka skýrslu af forsvarsmanni félagsins svo og að tilkynna ríkislögreglustjóra um grun um ólögmætt misferli, hafi sá grunur vaknað við störf hans sem skiptastjóra.
Stefndi mótmælir málsástæðum stefnanda og kveður honum óheimilt að stofna til kostnaðar við búið án þess að hafa fengið samþykki skiptabeiðanda fyrirfram fyrir þeim kostnaði. Þá sé sýslumanninum í Hafnarfirði, sem sé skiptabeiðandi í máli þessu, óheimilt að samþykkja aukinn skiptakostnað þar sem það brjóti gegn verklagsreglum er Tollstjórinn í Reykjavík hafi sett í janúar 2009. Þær reglur leystu af hólmi fyrri verklagsreglur Tollstjórans frá 14. maí 2008.
Í 2. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. segir að sá sem krafist hefur gjaldþrotaskipta ábyrgist greiðslu kostnaðar af meðferð kröfu sinnar og af gjaldþrotaskiptunum ef krafa hans er tekin til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé þrotabúsins. Gildi þetta einnig þótt hann hafi ekki verið krafinn um tryggingu skv. 2. mgr. 67. gr. Í 2. mgr. 67. gr. laganna segir að ef framkomin gögn taki ekki af tvímæli um að eignir skuldarans muni nægja fyrir greiðslu skiptakostnaðar, ef krafan yrði tekin til greina, skuli héraðsdómari krefja þann, sem hafi gert kröfuna, um tryggingu tiltekinnar fjárhæðar fyrir kostnaðinum áður en krafan verður tekin fyrir. Fjárhæð þeirrar tryggingar sem skiptabeiðendur hafa verið krafðir um, hefur verið áætluð af dómstólunum sjálfum og ákveðin með það fyrir augum að hún eigi að duga fyrir vinnu skiptastjóra við einföld eða eignalaus þrotabú. Ljóst er að sú fjárhæð getur ýmist verið rífleg, ef um eignalaus bú er að ræða, eða vanáætluð, ef um umfangsmikil bú er að ræða þrátt fyrir að þau séu eignalaus. Verður 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991 ekki túlkuð svo að sú fjárhæð sem skiptabeiðanda er gert að leggja fram sem tryggingu fyrir skiptakostnaði, með beiðni sinni, sé endanleg fjárhæð fyrir skiptakostnaði. Í máli þessu var um eignalaust bú að ræða en þó nokkrar eignayfirfærslur höfðu átt sér stað af hálfu félagsins stuttu fyrir gjaldþrot auk þess sem fjöldi dómsmála vegna launakrafna voru rekin fyrir héraðsdómi við upphaf skipta.
Samkvæmt 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1191 ber skiptastjóra að taka afstöðu til lýstra krafna, sem lýst er í bú innan kröfulýsingarfrests. Er þetta meginregla. Frá þessu má víkja ef telja megi fullvíst að ekki geti komið til greiðslu kröfunnar að neinu leyti við skiptin. Þessa heimild verður þó að skýra með tilliti til þess að með henni er vikið frá meginreglunni í þeim tilgangi að einfalda skiptastjóra störf þegar engir lögvarðir hagsmunir gætu tengst því að hann leggi mat á einstakar kröfur. Í máli þessu var tuttugu og einni launakröfu skv. 112. gr. laganna lýst í þrotabúið innan kröfulýsingarfrests, samtals að fjárhæð 37.266.007 krónur, auk krafna skv. 111. gr., samtals að fjárhæð 2.113.768 krónur, og 113. gr. að fjárhæð 65.467.243 krónur.
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 88/2003 segir að skiptastjóri í búi vinnuveitanda skuli svo fljótt sem auðið er láta Ábyrgðarsjóði launa í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í búið sem til álita kemur að njóti ábyrgðar sjóðsins samkvæmt lögunum. Þá segir að umsögn skiptastjóra skuli fela í sér afstöðu hans til réttmætis kröfunnar og forgangsréttar hennar án tillits til eignastöðu búsins. Af þessu verður ekki annað ráðið en að skiptastjóra í máli þessu hafi borið skylda til að taka afstöðu til lýstra launakrafna í þrotabúið, sbr. 3. mgr. 13. gr. og 18. gr. reglugerðar nr. 462/2003 um Ábyrgðarsjóð launa. Verður að taka undir þá málsástæðu stefnanda að honum hafi borið að gera það hvort sem skiptabeiðandi eða aðrir kröfuhafar hafi samþykkt þá vinnu fyrirfram eða ekki en sú niðurstaða fær einnig stoð í 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Í lokamálslið 1. mgr. segir að skiptastjóra sé óskylt að taka afstöðu til kröfu ef telja megi fullvíst að ekki geti komið til greiðslu hennar að neinu leyti við skiptin eins og áður sagði. Verður að líta svo á að það ráðist af afstöðu skiptastjóra hvort launakröfur fáist greiddar í kjölfar skiptanna eða ekki. Því eigi lokamálsliður 1. mgr. 119. gr. ekki við í þessu tilviki. Höfðu kröfuhafar lögvarða hagsmuni af því að tekin yrði afstaða til krafna þeirra er áttu undir 112. gr. laganna.
Ekki er tekið undir þau rök stefnda að stefnanda sé óheimilt að greiða aukna skiptatryggingu vegna verklagsreglna Tollstjórans í Reykjavík. Í fyrsta lagi voru þær verklagsreglur settar eftir að ofangreint bú var tekið til gjaldþrotaskipta og skiptastjóri skipaður við búið og í öðru lagi geta verklagsreglurnar aldrei vikið til hliðar lögbundnum lagaákvæðum um meðferð krafna og störf skiptastjóra við þrotabú nema það sé ákveðið í lögum.
Þá verður að telja að í 2. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið skýrt á um að skiptabeiðandi beri ábyrgð á kostnaði af meðferð kröfu hans og af gjaldþrotaskiptunum ef krafa hans er tekin til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé búsins og þessu til fyllingar segir í lokamálslið 1. mgr. að þetta gildi einnig þrátt fyrir að skiptabeiðandi hafi ekki verið krafinn um tryggingu. Af þessu verður ráðið að skiptabeiðandi getur búist við auknum kostnaði við búskiptin þrátt fyrir framlagða tryggingu fyrir skiptakostnaði. Þá verður einnig að telja að með hliðsjón af 1. mgr. 119. gr. laganna ráði það ekki úrslitum um ábyrgð skiptabeiðanda á kostnaði við búskiptin að skiptastjóri hafi leitað samþykkis hans eða kröfuhafa fyrir auknum kostnaði vegna skyldustarfa skiptastjóra. Væri það fortakslaus skylda skiptastjóra gæti niðurstaða orðið kröfuhöfum til verulegra réttarspjalla. Ekki er talið að lokamálsliður 1. mgr. 155. gr. laganna eigi við í þessu tilviki varðandi samþykki þess er ber ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar, enda er það ákvæði sett til að tryggja frekari vinnu til hagsbóta fyrir þrotabúið sjálft. Í þessu máli höfðu kröfuhafar, er áttu forgangskröfu í þrotabúið, lögvarða hagsmuni af því að skiptastjóri tæki afstöðu til krafna þeirra.
Að þessu virtu verður tekið undir þá málsástæðu stefnanda að honum hafi borið að taka afstöðu til lýstra launakrafna auk þess að kanna hvort riftanlegir gjörningar hefðu átt sér stað af hálfu þrotabúsins svo og að tilkynna það til ríkislögreglustjóra, sbr. dskj. 8. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins eða öðrum atvikum að skiptastjóra hafi verið mögulegt að ljúka skiptum á fyrsta skiptafundi og takmarka þannig kostnað við skiptin við framlagða skiptatryggingu. Ekki er ágreiningur í málinu um tímafjölda sem liggur að baki kröfugerðinni eða tímagjald skiptastjóra heldur einungis um það hvort þörf hafi verið á að leggja svo mikla vinnu í málið. Stefndi hefur ekki sýnt fram á það hvaða tímum sé ofaukið í tímaskýrslu stefnanda. Verður því varakröfu stefnda hafnað.
Með vísan til þess sem að ofan greinir verður stefndi, sýslumaðurinn í Hafnarfirði, dæmdur til að greiða stefnanda, þrotabúi Melhóls ehf., 844.621 krónu. Stefnandi krafði stefnda fyrst um ofangreinda fjárhæð með bréfi, dagsettu 11. ágúst 2008, sem stefndi hafnaði. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 11. september 2008 til greiðsludags. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, 188.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, sýslumaðurinn í Hafnarfirði, kt. 490169-5559, greiði stefnanda, þrotabúi Melhóls ehf., kt. 700402-5920, 844.621 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. september 2008 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 188.250 krónur í málskostnað.