Hæstiréttur íslands

Mál nr. 96/2002


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. maí 2002.

Nr. 96/2002.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Kristínu Maríu Hafsteinsdóttur

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð. Aðfinnslur.

K var ákærð fyrir hættulega líkamsárás með því að hafa stungið G, sambúðarsmann sinn, í vinstri síðu með hnífi svo af hlaust stungusár með töluverðri blæðingu og einnig í hægri fótlegg svo sauma þurfti sár saman. Fyrir lögreglu báru báðir aðilar að K hefði stungið G í framhaldi af rifrildi þeirra á milli á heimili þeirra, er G hafði lagst á gólfið framan við sófa í stofunni. Kvaðst K hafa sótt steikarhníf fram í eldhús og rekið hnífinn djúpt í kvið G og síðar í fótinn er G hafði ekki sýnt viðbrögð, er hún sagði að hann þyrfti að fara á sjúkrahús. Fyrir dómi héldu þau hins vegar bæði fram að áverkarnir hafi orðið fyrir slysni þegar K hafi reynt að fá viðbrögð frá G. K var sýknuð í héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar var fundið að samningu héraðsdóms og þótti á það skorta að dómurinn væri saminn með þeim hætti að öllum atriðum sem skiptu máli við heildarmat á sök væru gerð nægileg skil. Þó var ekki talin alveg næg ástæða til að ómerkja héraðsdóm og var efnisdómur því lagður á málið. Fyrir lá að stungusár á síðu G var 8 cm djúpt og sár á fæti hafði þurft að sauma saman. Þá var sannað að áverkarnir höfðu hlotist af beitingu K á umræddum eldhúshnífi. Hvað sem leið skýringum K og G fyrir dómi þótti fráleitt að áverkarnir hefðu getað orðið fyrir slysni með þeim hætti sem þau höfðu haldið fram. Var K sakfelld samkvæmt ákæru fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að K hafði beitt hættulegu vopni gegn liggjandi manni og beint því meðal annars að þeim stað líkamans þar sem mikilvæg líffæri eru staðsett og að atferlið hefði getað haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. G hafði þó náð fullum bata. Að þessu virtu og með tilliti til afstöðu G, sem beðið hafði K vægðar, þótti refsing K hæfilega ákveðin 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuðir skilorðsbundnir.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2002 og krefst þess að ákærða verði sakfelld samkvæmt ákæru og henni ákvörðuð refsing.

Ákærða krefst staðfestingar héraðsdóms.

I.

Í reifun héraðsdóms á framburði ákærðu fyrir dómi segir að hún hafi sagt að umræddur hnífur hafi fyrir slysni farið í gegnum föt og stungist í síðu Gunnars Þorbjörns Björnssonar, en þessa sér ekki stað í endurriti framburðarins og samkvæmt vettvangsskýrslu lögreglu bar stuttermabolur hans þess ekki merki. Á það skortir og að dómurinn sé saminn með þeim hætti, að öllum atriðum, sem skipta máli við heildarmat á sök séu gerð nægileg skil. Einkum var brýnt að taka til úrlausnar sérstaklega hvernig framburður ákærðu og Gunnars fyrir dómi stóðst í ljósi sýnilegra sönnunargagna, svo og með hliðsjón af skýrslum þeirra hjá lögreglu. Ekki er gerð nægileg grein fyrir þeirri ályktun dómarans að sumar ástæður fyrir breyttum framburði þeirra séu trúverðugar og skiljanlegar. Er þetta í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 5. gr. laga nr. 37/1994.

Þrátt fyrir þessa annmarka er ekki talin alveg næg ástæða til að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim til nýrrar meðferðar og verður efnisdómur á það lagður.

II.

Í málinu liggur fyrir að sambúðarmaður ákærðu, Gunnar Þorbjörn Björnsson, var fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi aðfaranótt 24. mars 2001 vegna sára er hann hafði á vinstri síðu og hægri fótlegg og er óumdeilt að þau voru af völdum hnífs, er ákærða hafði verið með í höndum. Í vottorði Gunnars Péturssonar deildarlæknis á skurðlækningasviði sjúkrahússins segir að miðað við eðli áverka sé um lífshættulegt áverkaferli að ræða. Rétt ofan við stungustað sé miltað og nýra þar útundan. Samkvæmt vottorði Sigurgeirs Kjartanssonar, skurðlæknis á fyrrgreindu sjúkrahúsi, var sárið á síðunni um 3 cm á lengd en 8 cm á dýpt. Missti Gunnar talsvert blóð og blóðþrýstingur hans féll. Sárið á fótleggnum var minni háttar en þurfti þó að sauma saman. Gunnar útskrifaðist af sjúkrahúsinu 27. mars 2001 og liggur fyrir að hann náði fljótlega fullum bata.

Fyrir dómi hafa ákærða og sambúðarmaður hennar haldið því fram að áverkar þessir hafi orðið fyrir slysni eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Segir ákærða þannig að stungan í síðuna hafi orðið með þeim hætti að hún hafi ætlað að „pota“ í Gunnar þar sem hann lá, en hnífurinn hafi farið í gegn. Við yfirheyrslu hjá lögreglu síðdegis 24. mars 2001 hafði ákærða lýst atburðum svo, að þau hafi átt í rifrildi á heimili þeirra, sem hafi stigmagnast, en eftir nokkur átök þeirra á milli hafi Gunnar lagst á gólfið fyrir framan sófa í stofunni. Hafi hann ekki svarað henni, er hún yrti á hann og hafi hún þá sagt: „Ætlarðu að tala við mig eða ég sting þig.“ Hann hafi engu svarað og hafi hún þá hálfsturlast, ætt fram í eldhús og sótt þar steikarhníf, oddhvassan með rifluðu biti og miðlungslöngu blaði. Hafi hún rekið hnífinn djúpt í kvið Gunnars. Í framhaldi þessa og vegna þess að Gunnar hafi ekki sýnt viðbrögð er hún sagði að hann þyrfti að fara á sjúkrahús, hefði hún stungið hann í fótinn. Aðspurð um hvers vegna hún hafi stungið Gunnar sagði ákærða að hún gerði sér ekki grein fyrir því, en taldi það hafa verið vegna hamslausrar reiði. Við skýrslutöku hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík 30. maí 2001 las ákærða umrædda skýrslu yfir og kvað þar rétt greint frá málsatvikum.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu síðdegis 24. mars 2001 sagði Gunnar að ákærða hefði stungið hann með rifluðum eldhúshníf beint í kviðinn vinstra megin og síðan í hægri fótlegg. Hefði þetta orðið í framhaldi rifrildis þeirra á milli. Eins og fram kemur í héraðsdómi hafa ákærða og Gunnar skýrt misræmi í framburði fyrir dómi og skýrslugjöf hjá lögreglu með því að við skýrslugjöfina hafi þau verið illa fyrirkölluð og segir ákærða að sér hafi verið lögð orð í munn. Viðkomandi lögreglumaður hefur komið fyrir dóm og andmælt þessu. Ákærða staðfesti og undirritaði skýrslurnar að viðstöddum votti í hvort sinn.

III.

Eins og áður er rakið liggur ótvírætt fyrir samkvæmt læknisvottorði að Gunnar Þorbjörn Björnsson var umrætt sinn með stungusár á síðu, sem var 8 cm djúpt, og sár á fæti, sem sauma þurfti saman. Sannað er með framburði ákærðu að áverkar þessir hlutust af beitingu hennar á ofangreindum eldhúshnífi. Hvað sem líður skýringum hennar og árásarþola fyrir dómi, sem eru í ósamræmi við skýrslur þeirra beggja hjá lögreglu, verður að telja fráleitt að áverkar sem þessir hafi getað orðið fyrir slysni með þeim hætti, er þau halda fram. Þegar litið er til sýnilegra sönnunargagna með hliðsjón af eigin framburði ákærðu verður að telja hafið yfir skynsamlegan vafa, að hún hafi staðið að atlögu gegn Gunnari með þeim hætti, að varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Verður ákærða því sakfelld samkvæmt ákæru málsins.

Ákærða hefur ekki áður sætt kærum eða refsingum. Hún beitti hættulegu vopni gegn liggjandi manni með atlögu sinni og beindi því meðal annars að þeim stað líkamans, þar sem mikilvæg líffæri eru staðsett, og hefði atferlið getað haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Hins vegar liggur fyrir sem áður segir að árásarþoli hefur náð fullum bata. Að þessu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Þegar litið er til allra atvika, þar á meðal afstöðu árásarþola, sem hefur beðið sambúðarkonu sinni vægðar, þykir mega skilorðsbinda refsinguna að hluta eins og nánar greinir í dómsorði.

Dæma ber ákærðu til greiðslu sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir. 

                                                         Dómsorð:

Ákærða, Kristín María Hafsteinsdóttir, sæti fangelsi í 15 mánuði, en fresta skal fullnustu 12 mánaða af refsingunni og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða greiði sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2002.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 20. ágúst 2001 á hendur: ,,Kristínu Maríu Hafsteinsdóttur, kt. 230755-2569, Hraunbæ 94, Reykjavík, fyrir hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 24. mars 2001, stungið sambýlismann sinn, Gunnar Þorbjörn Björnsson, á ofangreindu heimili þeirra í Reykjavík, í vinstri síðu með hnífi, svo að af hlaust stungusár rétt neðan við milta með töluverðri blæðingu.  Í framhaldi af þessu stungið hann í hægri fótlegg sár sem sauma þurfti saman.

Telst háttsemi ákærðu varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11, gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar.”

Verjandi ákærðu krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.  Í báðum tilvikum er þess krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greidd úr ríkissjóði.

Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 24. mars sl. barst lögreglu tilkynning kl. 03.54 aðfaranótt þess dags um að maður hefði verið stunginn með hnífi í íbúð í Hraunbæ 94.  Er lögreglumenn komu á staðinn hittu þeir Gunnar Þorbjörn Björnsson í dyragættinni, blóðugan og blæddi úr síðu hans.  Í lögregluskýrslunni segir að Gunnar hafi verið ,,mjög áberandi ölvaður og ruglaður.”  Hann greindi lögreglunni svo frá að konan sín, ákærða í  málinu, hefði stungið sig með hnífi.  Ákærða var í stofunni ,,mjög róleg en greinilega nokkuð ölvuð.”  Í skýrslunni segir að ákærða hafi viðurkennt að hafa stungið Gunnar með hnífi, en það hafi verið í kjölfar rifrildis þeirra og hún hafi sagt að hún myndi stinga hann með hnífnum ef hann svaraði henni ekki.  Hann hafi þá hvatt hana til að stinga sig sem hún gerði. Gunnar var fluttur á slysadeild.

Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu eftir því sem ástæða þykir.

Ákærða neitar sök.  Hún kvað áverkana sem Gunnar hlaut hafa hlotist fyrir slysni.  Hún kvað málavexti þá að þau Gunnar hafi bæði verið ölvuð á heimili sínu þessa nótt.  Gunnar hafi lagst á gólfið framan við sófa, sem ákærða sat í.  Hann hafi legið þar á hliðinni meðan ákærða reyndi árangurslaust að ná sambandi við hann.  Hún kvaðst hafa verin orðin hrædd um Gunnar, þar sem hún sá sprautu á borði í íbúðinni, en Gunnar hafi verið að sprauta sig með fíkniefnum og hún orðin hrædd um að hann færi í eitthvert kóma.  Hún kvaðst þá hafa gripið hníf sem þarna var og potað með honum í síðu Gunnars í því skyni að reyna að ná við hann sambandi.  Fyrir slysni hafi hnífurinn farið í gegnum fötin og stungist í hann.  Húnn kvaðst strax hafa kippt hnífnum að sér og orðið fyrir miklu áfalli er hún sá hversu mikið Gunnari blæddi.  Hún kvaðst hafa sagt við hann að það þyrfti að hringja á hjálp. Gunnar hefði sagt að hann fyndi ekkert til og að allt væri í lagi.  Hún hafi þá sagt að hann yrði að þiggja aðstoð og, þá til að fá viðbrögð frá Gunnari, potað í lappirnar á honum með hnífnum og hann þá loksins sýnt viðbrögð.

Við skýrslutöku hjá lögreglu 24. mars sl. greindi ákærða svo frá að hún hefði stungið Gunnar í síðuna eftir að hafa sótt hnífinn fram í eldhús.  Þetta hafi gerst eftir að hann svaraði henni ekki, þar sem hann lá í gólfinu.  Hún hefði áður árangurslaust reynt að ná sambandi við hann sem svaraði engu. Hún kvaðst hafa “hálfsturlast” vegna viðbragðaleysis hans og þá sótt hnífinn og stungið hann. Hún kvað lögreglumanninn sem tók skýrsluna hafa spurt sig hvort hún hafi ekki bara verið hamslaus af reiði er þetta átti sér stað.  Hún hafi bara svarað já, já.  Þess vegna væri bókað í lögregluskýrsluna að hún hafi sagt að hún hafi talið sig hamslausa af reiði er þetta gerðist.  Hjá lögreglunni tók ákærða fram að hún hafi ekki ætlað sér að veita Gunnari þá áverka sem hann hlaut.  Hún hafi verið að reyna að fá athygli hans, hugsanlega að hræða hann.  Ákærða gaf síðan aðra lögregluskýrslu 30. maí sl. þar sem hún lýsti fyrri skýrslu sína rétta.

Fyrir dómi lýsti ákærða ástæðum fyrir breyttum framburði sínum.  Hún kvað lögregluna hafa komið illa fram við sig.  Ákærða hefði verið illa fyrirkölluð og veik er hún gaf skýrsluna 24. mars og auk þess hafi hún verið í miklu sjokki.  Hún lýsti þessu nánar.  Hún kvaðst hafa verið í þess konar ástandi að hún hefði játað næstum hvað sem er.  Hún tók fram að hún hefði margsinnis sagt að hún hefði ekki framið verknaðinn af ásetningi, heldur hafi hún verið að reyna að fá viðbrögð frá Gunnari. 

Gunnar Þorbjörn Björnsson lýsti samskiptum þeirra ákærðu á heimili þeirra þetta kvöld, en þau hefðu verið við áfengisdrykkju.  Hann kvaðst hafa rifið skyrtu af ákærðu um kvöldið og eftir það hefði hún farið inn í svefnherbergi.  Meðan hún dvaldi þar kvaðst hann hafa neytt deyfandi lyfja, en þau ákærða voru bæði undir áhrifum áfengis um nóttina.  Er ákærða kom til baka vildi hún ræða við hann, en hann sinnti henni ekki. Hann kvaðst hafa verið í mikilli vímu.  Hann kvaðst ekki hafa verið sofandi, þar sem hann lá á gólfinu milli sófa og sófaborðs, en ekki hafa haft áhuga á því að tala við ákærðu.  Hann kvað ákærðu þá hafa rispað sig með hnífi og sagt að hún hefði farið inn í hann og sagt að hann yrði að hringja á sjúkrabíl því áverkinn væri alvarlegur.  Hann kvaðst ekki hafa fundið fyrir þessu og sagt að þetta skipti ekki máli.  Ákærða hefði þá rispað hann í sköflunginn í því skyni að fá viðbrögð frá honum.  Hann kvaðst þá fyrst hafa fundið til og staðið á fætur og farið fram á baðherbergið og skoðað áverkana. Eftir það hringdi hann á sjúkrabíl.  Hann kvað ákærðu ekki hafa stungið sig af ásetningi.  Hún hafi ýtt við honum og verið að reyna að vekja hann, en hann svaraði henni ekki eins og lýst var.

Tekin var lögregluskýrsla af Gunnari 24. mars sl. er hann var staddur á gjörgæslu. Þá lýsti hann rifrildi þeirra ákærðu þetta kvöld. Það hafi endað með því að ákærða stakk hann með eldhúshníf í kviðinn og í hægri fótlegg.  Fyrir dómi kvað hann þessa skýrslu ranga.  Hann hefði verið á deyfilyfjum á gjörgæslunni og hann rámi í skýrsluna.  Önnur skýrsla var tekin af Gunnar 30. maí sl.  Hann lýsti ekki hinni meintu líkamsárás í þeirri skýrslu.

Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður lýsti skýrslu sem hann tók af Gunnari Þorbirni Björnssyni á gjörgæsludeild 24. mars sl., en skýrslan var tekin eftir að leyfi hafði fengist hjá deildarlækni.

Kristján Ingi tók skýrslu af ákærðu 24. mars sl.  Hann kvað hana hafa verið miður sín út af atburðinum, en hún hafi verið fær um að gefa skýrslu.  Framburður hennar hafi verið skýr.  Henni voru ekki lögð orð í munn við skýrslutökuna.  Kristján Ingi tók skýrslu af ákærðu 30. maí sl. og var hún þá í góðu standi og staðfesti fyrri skýrslu sína.

Tómas Frosti Sæmundsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti að hafa ritað nafn sitt sem vottur á skýrslu þá sem tekin var af ákærðu 30. maí sl. Þá var Tómas Frosti viðstaddur skýrslutöku af Gunnari Þorbirni 24. mars sl.  Hann kvað Gunnar hafa verið fullfæran um að gefa skýrsluna og honum hefðu ekki verið lögð orð í munn.

Óskar Þór Sigurðsson lögreglufulltrúi staðfesti að hafa vottað skýrslu þá sem tekin var af ákærðu hjá lögreglunni 24. mars sl.  Hann kvað ákærðu hafa verið illa fyrirkallaða, en hún hafi verið fær um að gefa skýrslu að hans áliti.

Sigurður Pétursson varðstjóri kom á vettvang um nóttina.  Hann lýsti aðkomunni og að ákærða og maðurinn sem stunginn hafi verið hefðu bæði verið mjög áberandi ölvuð.  Ákærða hefði fljótlega viðurkennt að hafa stungið manninn. Hún sagði ástæðuna þá að hún hefði ekki náð sambandi við hann.

Auk ofangreindra vitna komu fyrir dóminn Steinn Þór Karlsson flokkstjóri og Jónas Sigurður Magnússon rannsóknarlögreglumaður.  Þeirra vitnisburður varpar ekki frekara ljósi á málavexti og verður því ekki rakinn.

Niðurstaða

Samkvæmt læknisvottorði Gunnars Þorbjörns Björnssonar, sem dags. er  14. maí sl.  hafði hann þá áverka sem lýst er í ákærunni er hann kom á slysadeild aðfaranótt 24. mars sl.  

Ákærða neitar sök og kveður áverkann sem Gunnar hlaut á vinstri síðu hafa hlotist fyrir slysni.

Eins og rakið var er framburður ákærðu á annan veg fyrir dómi en hjá lögreglu um þetta, þótt hún hafi frá upphafi haldið því fram að hnífinn hafi hún notað til að fá viðbrögð eða svör frá Gunnari, sem svaraði henni ekki.  Vitnisburður Gunnars Þorbjörns fyrir dómi er á sama veg um þetta.  Vitnisburður hans fyrir dómi er einnig  breyttur frá því sem hann var hjá lögreglunni eins og rakið hefur verið.

Lögreglumenn höfðu á vettvangi bæði tal af ákærðu og Gunnari og lýstu ölvunarástandi þeirra. Niðurstaða rannsóknar blóðsýna úr þeim báðum staðfestir ölvunarástand þeirra beggja.  Frásögn þeirra á vettvangi ber að virða með hliðsjón af því, að þau voru bæði ölvuð.

Ákærða og Gunnar eru ein til frásagnar um það sem gerðist.  Þau hafa bæði borið fyrir dómi að áverkinn á síðu Gunnars hafi verið slys.  Í læknisvottorði Gunnars Þorbjörns segir m.a. : ,,Minniháttar  sár framan á hægri fótlegg er saumað og sárið á síðunni er kannað með æðatöng og reynist ná eina 8 cm niður í vegginn.” Af ljósmyndum má ráða að Gunnar Þorbjörn var klæddur þunnum bol er atburðurinn átti sér stað. Hnífurinn sem ákærða notaði er 23 cm langur með oddhvössu 12 cm löngu skörðóttu blaði. Engin gögn eru um það í málinu hversu mikið afl þurfi til að reka hnífinn í gegnum bolinn og valda áverkanum sem lýst var. Því eru ekki fyrir hendi gögn sem gefa vísbendingu um það hvort líklegt sé að áverkinn hafi getað hlotist á þann hátt sem ákærða og Gunnar Þorbjörn hafa bæði lýst fyrir dómi. Hvorugt þeirra hefur að öllu leyti fært fram sannfærandi rök fyrir breyttum framburði. Hins vegar telur dómurinn að sumar ástæðurnar sem þau nefndu fyrir breyttum framburði séu trúverðugar og skiljanlegar. 

Niðurstaða máls þessa ræðst af því hvort lögregluskýrslur af ákærðu og Gunnari Þorbirni verða lagðar til grundvallar niðurstöðunni eða frásögn þeirra fyrir dómi. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að  framburður sé annar fyrir dómi en hjá lögreglu.

Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi.  Tjónþolinn, Gunnar Þorbjörn, hefur borið fyrir dómi að hann hafi hlotið áverkana fyrir slysni. Með vísan til þessarar grundvallarreglu og að öðru leyti með vísan til þess sem rakið hefur verið, hafa ekki af hálfu ákæruvaldsins verið leidd fram nægjanleg rök sem leitt geta til þess að hafna beri nánast einshljóða framburði ákærðu og vitnisburði Gunnars Þorbjörns fyrir dómi um það sem gerðist og að áverkinn á síðu Gunnars hafi hlotist fyrir slysni og hafi ekki verið ásetningsverk eins og þau hafa bæði borið.  Samkvæmt þessu ber að sýkna ákærðu af þeim þætti ákærunnar. 

Þegar atburðarásin er virt í heild, og framburður ákærðu og vitnisburður Gunnars Þorbjörns um það hvernig áverkinn á fæti hans kom til, verður að telja að hann hafi hlotist í þannig samhengi við fyrri atburðinn að ekki sé unnt að meta beitingu ákærðu á hnífnum í það sinn sem líkamsárás. Styðst þessi niðurstaða við framburð ákærðu og vitnisburð Gunnars Þorbjörns um að ekki hafi verið fyrir hendi ásetningur hjá ákærðu til að valda ávekum með hnífnum. Ber því einnig að sýkna ákærðu af þessum hluta ákærunnar.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 120.000 krónur í málsvarnarlaun til Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns.

Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærða, Kristín María Hafsteinsdóttir, er sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 120.000 krónur í málsvarnarlaun til Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns.