Hæstiréttur íslands

Mál nr. 749/2015

Hótel Mývatn ehf. (Ólafur Örn Svansson hrl.)
gegn
Byggðastofnun (Garðar Garðarsson hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Nauðungarsala
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

L ehf., síðar B ehf., gaf út tvö skuldabréf árið 1998 til B sem tryggð voru með veði í fasteign félagsins. Árið 2011 afsalaði B ehf. eigninni til H ehf. Vegna vanskila á skuldabréfunum krafðist B þess að fasteignin yrði seld á nauðungarsölu og var svo gert árið 2014. H ehf. hafði uppi mótmæli gegn frumvarpi til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar, meðal annars á þeim grundvelli að um ólögmæt gengistryggð lán í íslenskum krónum hefði verið að ræða. Sýslumaður taldi að andmæli H ehf. gæfu ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu en bókaði í gerðarbók að aðilar hefðu lýst því yfir að leitað yrði úrslausnar héraðsdóms um ákvörðun hans. Í viðauka við frumvarpið hafi hins vegar verið bókað að aðilar myndu ekki leita úrlausnar héraðsdóms um meðferð málsins og úthlutun samkvæmt frumvarpinu og var í því sambandi vísað til fyrirliggjandi yfirlýsinga lögmanna aðila þess efnis. Gekk sýslumaður frá úthlutun samkvæmt frumvarpinu og greiddi kröfu B. Í málinu krafðist H ehf. þess að viðurkennt yrði að umrædd veðskuldabréf væru bundin ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Í dómi Hæstaréttar kom fram að H ehf. hefði hvorki neytt þess úrræðis að bera ágreining um frumvarp sýslumanns undir héraðsdóm samkvæmt XIII. kafla laga nr. 90/1991, né gildi nauðungarsölunnar samkvæmt XIV. kafla laganna. Yrði því litið svo á að H ehf. hefði greitt kröfu B án fyrirvara. Gæti H ehf. því ekki nú gert þá kröfu að viðurkennt yrði að grundvöllur krafna B hefði verið ólögmætur enda fælist í henni krafa um álit dómstóla á lögfræðilegu efni en veitti ekki úrlausn um réttindi sem málssókn hans væri ætlað að tryggja. Væri slíkur málatilbúnaður í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu var málinu vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. nóvember 2015. Hann krefst þess að að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf nr. 701341 og 701357, útgefin af „Bör ehf.“  til gagnáfrýjanda 24. maí og 26. júní 1998, eins og þeim var breytt með viðaukum dagsettum 30. nóvember 2004, séu bundin ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 14. janúar 2016. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að málskostnaður í héraði verði hækkaður. Loks krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi voru skuldabréf þau sem mál þetta varðar gefin út af Lykilhótelum ehf., er síðar fékk heitið Bör ehf., og voru þau tryggð með veði í fasteigninni „barnaskóla í Skútustaðahreppi (hótel ásamt öllum rekstrartækjum)“ sem þá var í eigu lántaka. Vegna vanskila á skuldabréfunum krafðist gagnáfrýjandi þess að fasteignin yrði seld nauðungarsölu og var svo gert 13. febrúar 2014. Hinn 22. maí 2014 var haldinn fundur um mótmæli gegn frumvarpi til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar. Þar komu fram mótmæli af hálfu aðaláfrýjanda meðal annars vegna framangreindra veðskuldabréfa þar sem hann taldi að um væri að ræða ólögmæt gengistryggð lán í íslenskum krónum. Sýslumaður taldi að andmælin gæfu ekki tilefni til breytinga á fyrirliggjandi frumvarpi til úthlutunar og var bókað í gerðabók að „aðilar lýsa því yfir að leitað verði úrlausnar héraðsdóms Norðurlands eystra um þessa ákvörðun.“  Í viðauka við frumvarp að úthlutun söluverðs fasteignarinnar 12. júní 2014 kom fram að krafa gagnáfrýjanda væri viðurkennd að fjárhæð 212.936.252 krónur auk þess sem tekið var fram að fyrir lægi að aðilarnir myndu ekki leita úrlausnar héraðsdóms um meðferð málsins og úthlutun samkvæmt frumvarpinu. Var krafa gagnáfrýjanda greidd 27. sama mánaðar.

Þegar til þess er litið að aðaláfrýjandi neytti hvorki þess úrræðis að bera ágreining um frumvarp sýslumanns undir héraðsdóm samkvæmt XIII. kafla laga nr. 90/1991 né að bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm samkvæmt XIV. kafla laganna verður litið svo á að hann sem eigandi veðsins hafi greitt kröfu gagnáfrýjanda án fyrirvara. Getur aðaláfrýjandi því ekki nú gert þá kröfu að viðurkennt verði að grundvöllur kröfu gagnáfrýjanda hafi verið ólögmætur enda felst í henni krafa um álit dómstóla á  lögfræðilegu efni en veitir ekki úrlausn um réttindi sem málsókn hans er ætlað að tryggja. Slíkur málatilbúnaður er í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa máli þessu frá héraðsdómi.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og  fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Aðaláfrýjandi, Hótel Mývatn ehf., greiði gagnáfrýjanda, Byggðastofnun, samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 6. ágúst 2015.

I

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 19. júní sl. var höfðað 7. nóvember 2014.

                Stefnandi er Hótel Mývatn ehf., Seljugerði 12, Reykjavík.

                Stefndi er Byggðastofnun, Ártorgi 1, Sauðárkróki.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf nr. 701341 og 701357, útgefin af Bör ehf. kt. [...] til stefnda hinn 24. maí 1998 og 26. júní 1998, eins og þeim var breytt með viðaukum dagsettum 30. nóvember 2004 séu bundin ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi hans á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála en til vara á grundvelli 1. og 2. mgr. 130. gr. sömu laga. Loks krefst stefnandi þess að dómurinn ákvarði stefnanda réttarfarssekt er renni í ríkissjóð á grundvelli a. og d. liða 1. mgr. 135. gr. laga um meðferð einkamála.

II

                Vorið 1998 leitaði Bör ehf., áður Lykilhótel ehf., sem á þessum tíma stundaði hótelrekstur, til stefnda, sem er stofnun í eigu íslenska ríkisins, og óskaði eftir láni. Samkomulag varð um að stefndi lánaði Bara ehf. fé og í samræmi við það gaf félagið, hinn 24. maí 1998, út veðskuldabréf nr. 701343 að fjárhæð 20.000.000 króna. Lánið var verðtryggt og tók verðtryggingin mið af vísitölu neysluverðs og bar bréfið á þeim tíma sem það var gefið út 7,7% vexti. Rúmum mánuði síðar, eða hinn 26. júní, gaf stefnandi út annað skuldabréf, nr. 701357, til stefnda með sömu kjörum að fjárhæð 27.000.000 króna. Skuldabréfin voru bæði upphaflega tryggð með veði í eign stefnanda, Skútustaðaskóla þar sem í dag er rekið hótel.

                Bör ehf. stóð ekki í skilum við endurgreiðslu lánanna. Af þeim sökum gerðu aðilar með sér samkomulag sem fólst í því að gerðir voru viðaukar við bréfin í október 1999 þar sem gjaldfallnar afborganir, vextir og dráttarvextir voru endurlánaðir og bætt við höfuðstól skuldarinnar. Hinn 30. nóvember 2004 voru aftur gerðir viðaukar við bréfin sem fólu í sér annað og meira en fyrri viðaukar. Samkvæmt þessum viðaukum var höfuðstól, vöxtum, vanskilum, dráttarvöxtum, ábyrgðar- og lántökugjöldum í íslenskum krónum breytt í nýjan höfuðstól sem ákveðinn var í evrum á gengi þess dags, 87,75 krónur fyrir hverja evru. Fyrra lánið, sem upphaflega var að höfuðstól 20.000.000 króna, var reiknað upp á nýtt í samræmi við framanritað og nam upphæð þess 38.889.830 krónum og samkvæmt því var nýr höfuðstóll ákveðinn 443.188,95 evrur. Síðara lánið var umreiknað á sama hátt og nam höfuðstóll þess 54.568.170 krónum eða 621.859,50 evrum. Enn voru gerðir viðaukar við bréfin í nóvember 2007 og þá var öllum vanskilum og kostnaði, reiknað í evrum, sem til hafði fallið frá síðustu skilmálabreytingum bætt við höfuðstól lánanna sem nú var aftur tiltekinn í evrum.

                Fasteigninni sem veðskuldabréfin hvíldu á var hinn 1. ágúst 2011 afsalað til stefnanda. Í afsali vegna þeirrar sölu kemur fram að kaupverð sé að fullu greitt með því að stefnandi tók að sér að greiða lán sem hvíldu á eigninni og eru lánin sem getið er um hér að framan þar á meðal.

                Hinn 18. maí 2012 höfðaði Bör ehf. mál á hendur stefnanda og krafðist þess að viðurkennt yrði að lánin, eftir síðastgreindu skilmálabreytingarnar, væru bundin ólögmætri gengistryggingu. Dómur gekk í því máli 29. nóvember 2013 og var stefndi sýknaður.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum hinn 11. desember 2013 var bú Bara ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og Guðrún Helga Brynleifsdóttir hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri. Stefndi lýsti kröfum vegna veðskuldabréfanna í búið, reiknuðum eins og fjárhæðirnar væru í erlendri mynt umreiknaðar í íslenskar krónur og samþykkti skiptastjóri þær sem veðkröfu samkvæmt 11. gr. laga nr. 21/1991. Fyrirsvarsmaður Bara ehf. og stefnanda máls þessa, Jón Ragnarsson fékk heimild skiptastjóra til að áfrýja dómi héraðsdóms frá 29. nóvember 2013 til Hæstaréttar Íslands. Stefnandi segir raunar í lýsingu sinni á málavöxtum að slíkt leyfi hafi hann fengið hjá skiptastjóra eftir að búið var að gefa út áfrýjunarstefnu. Hins vegar fór svo að málið var fellt niður fyrir Hæstarétti og dæmdi rétturinn ekki um annað en málskostnað.

Fasteignin Skútustaðaskóli var seld nauðungarsölu 13. febrúar 2014 en áður en til þess kom hafði þáverandi lögmaður stefnanda mótmælt því að salan færi fram m.a. með þeim rökum að dómi héraðsdóms um lögmæti nefndra veðskuldabréfa hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Þrátt fyrir andmæli stefnanda fór salan fram. Í framhaldi af því gerði sýslumaður frumvarp að úthlutunargerð og sendi hlutaðeigandi aðilum til skoðunar. Mótmæli bárust gegn frumvarpinu m.a. í þá veru að skuldir samkvæmt veðskuldabréfum þeim sem áður eru nefnd væru í erlendri mynt og þá hefðu vextir glatað veðrétti sínum gagnvart síðari veðhöfum. Á fundi sýslumanns með veðhöfum hinn 22. maí 2014 fjallaði hann um ágreininginn og tók afstöðu til hans. Gerði sýslumaður breytingu á frumvarpinu í þá veru að hluti vaxta af lýstum kröfum stefnda færðust aftar í veðröð en þeir voru engu að síður innan úthlutunar. Stefnandi, sem uppboðsþoli, lýsti því yfir að hann myndi leita úrlausnar héraðsdóms um ákvarðanir sýslumanns en af því varð þó ekki og þar með urðu ákvarðanir sýslumanns endanlegar. Stefndi fékk kröfur sínar að fullu greiddar hinn 27. júní 2014 með greiðslu á 212.936.252 krónum.

Stefnandi segir í lýsingu sinni á málavöxtum að skömmu eftir að endanlegt frumvarp sýslumanns lá fyrir hafi forsvarsmönnum Bara ehf. borist gögn sem lögmaður stefnda lagði fram í Hæstarétti vegna áfrýjunar nefnds dóms og þá fyrst hafi þeim orðið ljóst að skiptastjóri þrotabúsins hafði þegar á skiptafundi hinn 6. mars 2014 samþykkt kröfur stefnda í búið og fallist á fjárhæð þeirra eins og þeim var lýst. Þetta hafi skiptastjóri gert þó áfrýjunarfrestur væri ekki liðinn. Þar sem afstaða skiptastjóra sé endanleg hafi ekki lengur verið grundvöllur fyrir áfrýjun málsins og því hafi það verið fellt niður með yfirlýsingu til Hæstaréttar dagsettri 15. október 2014.

                Stefnandi krafðist þess að máli þessu yrði vísað frá dómi en þeirri kröfu hans var hafnað með úrskurði dómsins 20. mars sl.

III

Málsástæður og lagarök

                Stefnandi segir ágreiningslaust að hin upphaflegu veðskuldabréf hafi verið lögmæt íslensk verðtryggð lán, tengd vísitölu neysluverðs. Ágreiningur sé því einvörðungu um það hvers konar eðlisbreyting hafi orðið á veðskuldabréfunum með viðaukum þeim sem gerð voru við lánin í lok nóvember 2004, þ.e hvort þeim hafi verið breytt yfir í lögmæt erlend lán eða hvort verðtryggingarviðmiði lánanna hafi verið breytt úr vísitölu neysluverðs yfir í gengisviðmið evru. Stefnandi heldur því fram að hið fyrrnefnda eigi við.

Stefnandi telur að í dómi í máli Bara ehf. gegn stefnda, þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að lánunum hafi verið breytt í lán í erlendri mynt hafi dómurinn væntanlega byggt á fordæmum Hæstaréttar í málum þar sem tilgreining höfuðstóls lánasamninga var í erlendum gjaldmiðlum. Í þessu sambandi sé iðulega vísað í dóm Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 líkt og rétturinn sjálfur hafi gert í málum varðandi samninga af tiltekinni tegund. Niðurstaða Hæstaréttar í nefndu máli byggi á fjórum atriðum sem rétturinn tiltaki sem einkenni erlendra lána og leiði til þeirrar niðurstöðu að um lögmætt erlent lán sé að ræða. Í dóminum segi um þetta efni:

„Við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum er að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum er fyrst að líta til heitis skuldabréfsins en fyrirsögn þess er: „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum.“ Í öðru lagi að lánsfjárhæðin er samkvæmt orðalagi skuldabréfsins fyrst tilgreind í þremur erlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum, japönskum yenum og evrum, og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Í þriðja lagi eru vextir samkvæmt skuldabréfinu til samræmis við að um erlent lán sé að ræða tilgreindir Libor og Euribor vextir. Í fjórða lagi er til skilmálabreytingarinnar að líta, en fyrirsögn hennar er: „Skilmálabreyting skuldabréfs í erlendum myntum/mynteiningum“ og er jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum þar ekki getið. Þegar framangreind atriði eru virt verður lagt til grundvallar að hér hafi verið tekið gilt lán í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum.“

Stefnandi vísar til þess að í máli þessu sé heiti skuldabréfsins ekki erlent lán heldur veðskuldabréf og segir einnig í haus bréfsins að lánið sé verðtryggt. Þessi upphaflegu ákvæði veðskuldabréfanna haldist þrátt fyrir skilmálabreytingarnar enda segi skýrt í skilmálabreytingunum „Veðskuldabréfið er óbreytt að öðru leyti en að framan greinir og er breytinganna getið á frumskjali stofnunarinnar.“ Með vísan til þessa er ljóst að heiti bréfanna haldast óbreytt eftir skilmálabreytingarnar.

Stefnandi byggir jafnframt á því að efni skilmálabreytinganna sé ekki með sama hætti og í nefndum dómi Hæstaréttar. Þannig sé fyrirsögn skilmálabreytinganna ekki „Skilmálabreyting skuldabréfs í erlendum myntum“ heldur einfaldlega „viðauki við skuldabréf.“ Hvorki í upprunalegu bréfunum né í viðaukum við þau sé þess getið að um erlent lán sé að ræða. Þá bendir stefnandi á að Hæstiréttur hafi í nefndum dómi talið það skipta máli að jafnvirðis fjárhæða í íslenskum krónum sé ekki getið í skilmálabreytingu. Í skilmálabreytingu þeirra lána sem hér er um þrætt sé fjárhæðar í íslenskum krónum skýrlega getið. Að þessu virtu telur stefnandi ljóst að efni þeirra gerninga sem hér sé um þrætt sé ekki sambætilegt við þær aðstæður sem voru uppi og dæmt var um með dómi Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 og öðrum sambærilegum síðari dómum.

Stefnandi byggir á því að veðskuldabréfin, fyrir og eftir skilmálabreytingu þeirra, séu lán í íslenskum krónum en höfuðstóll þeirra sé verðtryggður. Upphaflega hafi vertryggingin verið vísitala neysluverðs en eftir skilmálabreytinguna hinn 30. nóvember 2004 hafi viðmið verðtryggingarinnar verið evra. Í þessu efni bendir stefnandi á að í skilmálabreytingunum er tekið fram að upphaflegu skuldabréfin haldist „óbreytt að öðru leyti en að framan greinir“. Af þessu leiði að einungis upphafákvæði veðskuldabréfanna um höfuðstól og vexti o.s.frv. breytist en önnur ákvæði bréfanna haldist óbreytt. Því haldist ákvæði þeirra sem segir að verðtrygging nái til höfuðstóls lánsins, verðbóta, vaxta, dráttarvaxta og hverskyns kostnaðar þ.á.m innheimtu- og lögfræðikostnaðar allt að engu undanskyldu. Einnig haldist óbreytt heiti og haus bréfanna en þar segi að þau séu vertryggð lán og veðskuldabréf. Þetta styðji eindregið þá niðurstöðu að lánin séu verðtryggð, upphaflega með viðmið við vísitölu neysluverðs en síðar með viðmið gengi evrunnar.

Stefnandi styður kröfur sínar einnig við það að samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands sé nægilegt að efni eða orðalag samnings sé óljóst um það hvort lán sé erlent eða tengt gegni erlendra gjaldmiðla, þannig að leiði til þess að horfa þurfi á raunverulega framkvæmd samningsins. Í nefndum dómi réttarins í máli nr. 524/2011 hafi það verið mat dómsins, með vísan til hinna fjögurra framangreindra atriða, að um ótvírætt erlent lán væri að ræða samkvæmt orðalagi samningsins og því þyrfti í því tilviki ekki að horfa til raunverulegrar framkvæmdar. Stefnandi vísar hvað þetta varðar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 70/2014. Í þeim dómi hafi samningurinn sem þar var til umfjöllunar skýrlega tilgreint samningsverð og einstakar afborganir/leigugreiðslur í erlendum gjaldmiðlum. Hins vegar hafi dómurinn talið að önnur ákvæði í samningnum væru ekki nægilega skýr. Í dóminum komi fram að af efni samningsins yrði ekki ráðið hvort um væri að ræða gilt lán í erlendum myntum eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum. Yrði því að líta til fyrirliggjandi gagna um efndir og framkvæmd samningsins. Af þeim var ráðið að lánsfjárhæðin hefði verið greidd út í íslenskum krónum, auk þess hafi afborganir og vextir verið greiddar í sömu mynt. Þetta hafi síðan leitt til þess að rétturinn kvað upp úr með það að lánið hafi verið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 38/2001.

Af þessum sökum byggir stefnandi á því að efni og orðalag þeirra löggerninga sem deilt er um í máli þessu, eins og þeim var breytt með skilmálabreytingum í lok nóvember 2004, sé ekki nægilega skýrt svo hægt sé að komast að niðurstöðu um raunverulegt inntak og eðli samninganna, nema með því að líta til raunverulegrar framkvæmdar þeirra.

Stefnandi vísar til þess að ómumdeilt sé að lánsfjárhæðir hafi upphaflega verið greiddar í íslenskum krónum og ávallt hafi verið greitt af þeim í þeirri mynt. Einnig sé óumdeilt að þegar skilmálabreytingar voru gerðar hafi engin breyting orðið þar á. Engir fjármunir hafi skipt um hendur af því tilefni heldur hafi framkvæmd lánasamninganna verið óbreytt nema hvað varðar viðmið verðtryggingar. Telur stefnandi því ljóst að skilmálabreytingarnar hafi ekki haft annan efnislegan tilgang en þann að breyta vertryggingarviðmiði upphaflegu veðskuldabréfanna yfir í evru. Þar með blasi við að lánið sé ólögmætt gengistryggt lán í skilningi 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings einnig til þess munar sem sjá má á greiðsluseðlum frá stefnda annars vegar áður en dómar Hæstaréttar frá 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggðar lána voru kveðnir upp og eftir þann tímapunkt. Á greiðsluseðli dagsettum 1. ágúst 2005 segi „Verðtrygging nú: EUR“og þar með gefið til kynna að notast hafi verið við evru sem verðtryggingu. Á greiðsluseðli dagsettum 10. febrúar 2012 hafi þessari tilgreiningu verðtryggingar hins vegar verið skipt út og þess í stað standi „Mynt EUR“. Af þessum mismun megi ráða að eftir að Hæstiréttur hafði dæmt að verðtrygging í formi gengistryggingar væri ólögmæt þá hafi stefndi breytt greiðsluseðlum sínum þannig að svo liti út að hann hefði veitt stefnanda lán í erlendri mynt en ekki lán bundin við gengi erlendrar myntar. Þannig liggi fyrir að stefndi hafi ákveðið að breyta orðalagi greiðslukvittana en það hafi hann ekki gert í öðrum tilgangi en að reyna að fela þá staðreynd að hann hafði sjálfur litið þannig að samningana að þeir væru gengistryggðir. Í þessu felist viðurkenning stefnda á réttarstöðunni sem skoða beri í því ljósti að stefndi er sérfróður aðili á sviði fjármála og lögfræði. Aðili í slíkri stöðu verði að bera ábyrgð á yfirlýsingum sem þessum enda gat honum ekki dulist hvað fælist í orðalagi sem þessu. Af þessu sökum geti stefndi ekki haldið því fram, gegn fyrri viðurkenningu, að veðskuldabréfin séu ekki gengistryggð.

Auk alls þess sem að framan er rakið telur stefnandi það styðja kröfur sínar að við gerð skilmálabreytinganna í lok nóvember 2004 sá stefndi ekki ástæðu til að gefa út ný skuldabréf og því séu fjárhæðir gildandi veðskuldabréfa í íslenskum krónum og veðréttur stefnda í fasteign samkvæmt þinglýsingarvottorði enn miðaður við íslenskar krónur. Þá telur stefndi það styðja kröfur hans að stefndi meðhöndli lánin sem íslensk lán við innheimtu þeirra. Í þessu efni vísar stefnandi t.d. til þess að í greiðsluáskorun stefnda frá 23. september 2013 séu skuldirnar eingöngu tilgreindar í íslenskum krónum, höfuðstóll, vextir og heildarfjárhæð útistandandi skulda. Hvergi sé hins vegar minnst á erlenda mynt.

Stefndi reisir kröfu sína um sýknu á því að stefnanda skorti aðild að málinu. Bör ehf. hafi rekið mál á hendur stefnda vegna sömu veðskuldabréfa og krafist þess að þau yrðu dæmd ólögmæt erlend lán. Stefnandi hafi ekki átt aðild að því máli þó svo hann væri samkvæmt afsali samningsbundinn Börum ehf. um að greiða skuldir þess félags við stefnda. Stefnandi hafi ekki óskað eftir því að lánunum yrði skuldskeytt á hans nafn og því hafi stefndi litið svo á að stefnandi væri veðsali en ekki skuldari að lánunum. Stefnandi, sem sé félag í eigu og undir stjórn sama aðila og Bör ehf. virtist einnig líta svo á, að fyrra málið á hendur stefnda hafi verið rekið í nafni þess félags en ekki stefnanda. Þetta leiði til þess að stefnandi eigi ekki aðild að máli þessu. Í þessu sambandi breyti engu þó stefnandi hafi verið veðsali á grundvelli samningssambands við Bör ehf. en að þeim samningi hafi stefndi ekki átt aðild og ekki samþykkt fyrir sitt leyti. Telji stefnandi sig hafa ofgreitt á grundvelli þess samningssambands þá verði stefnandi að snúa sér að þrotabúi Bara ehf. með þá kröfu sína.

Stefndi byggir einnig á því að hann hafi lýst kröfum samkvæmt veðskuldabréfunum í þrotabú Bara ehf. og kröfurnar hafi verið samþykktar líkt og áður er rakið. Sú ákvörðun hafi verið endanleg samkvæmt 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 og því fái dómstólar ekki haggað. Bendir stefndi á dóma Hæstaréttar í málum nr. 116/2013 og 462/2014 í því sambandi.

Stefndi vísar einnig sjálfstætt til þeirra málsástæðna sem hann hafði uppi í máli Bara ehf. á hendur honum og áður hefur verið getið, nr. E-40/2012. Í því máli og þar með þessu byggði stefndi á því að lán þau sem stefnandi fékk á árinu 1998 hafi verið íslenskum krónum en höfuðstóll þeirra bundinn við vísitölu neysluverðs svo sem algengt var með lán á þessum tíma. Stefnda hafi hins vegar verið óheimilt að veita óvertryggð lán en honum hafi verið heimilt að endurlána erlent lánsfé. Stefndi bendir á að í bréfi frá forsvarsmanni stefnda, dagsett 13. desember 2009, komi fram að hann hafi óskað eftir því að lánunum yrði breytt í „gengistryggð lán“ eins og það er orðað. Stefndi hafi orðið við ósk stefnanda um að veita honum erlent lán en í því hafi ekki falist að það væri gengistryggt svo sem stefnandi heldur fram. Gengistrygging í samningum og skjölum stefnda vísi til þeirrar þróunar sem getur orðið á höfuðstól hins erlenda láns miðað við nafnvirði íslenskrar krónu. Stefndi kveðst, í stað þess að útbúa ný skuldabréf með tilheyrandi kostnaði og töfum, hafa útbúið viðauka við eldri bréfin. Í viðaukanum komi skýrt fram að stefnandi skuldi stefna tilgreindar fjárhæðir í evrum. Skuldbindingin sjálf sé í erlendum gjaldeyri og engin binding eða viðmið við íslenska krónu. Af þessum sökum fari lánin ekki í bága við 13. og 14. gr. sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Viðaukarnir séu því ekki í íslenskum krónum líkt og upphaflegu lánin voru. Hefði ætlunin eingöngu verið sú að falla frá bindingu höfuðstóls lánanna við vísitölu neysluverðs hefðu viðaukarnir einfaldlega verið þess efnis. Stefnandi fór hins vegar ekki fram á slíka breytingu og þá var stefnda óheimilt að verða við slíku.

                Stefndi vísar einnig til þess að í viðaukunum sé mælt fyrir um vaxtakjör á hinum erlendu lánum sem og ákvæði um dráttarvexti, hvorutveggja í samræmi við vaxtakjör sem voru á erlendum lánum stofnunarinnar sem voru frábrugðin vaxtakjörum lána í íslenskum krónum.

                Stefndi segir að með viðaukunum hafi eldri lán nr. S982091 og S982111 verið greidd upp og þau lánanúmer afmáð. Í þeirra stað hafi komið skuldbindingar stefnanda í evrum og þau lán fengið ný númer, þ.e. 701343 og 701357. Stefndi hafnar því að stefndi hafi ekki fengið kaupnótur fyrir því að erlendar myntir hafi verið keyptar af honum og að hann hafi ekki fengið erlendar myntir til ráðstöfunar. Fullkomin reikningsskil fyrir uppgreiðslu eldri lánanna hafi átt sér stað með viðaukunum. Þar sé gerð grein fyrir uppgreiðslu eldri lána og að hið nýja lánsfé hafi verið notað til þess. Þá bendir stefndi á að stimpilgjöld hafi verið tekin af þeirri fjárhæð sem fólst í hækkun lánsfjárhæða sem sýni að um lántöku var að ræða. Stefnandi hafi ritað undir þetta og í því felist samþykki hans fyrir móttöku hins erlenda lánsfjár og ráðstöfun þess.

                Stefndi heldur því fram að, eftir veitingu hinna erlendu lána, hafi greiðsluseðlar sem sendir voru stefnanda ævinlega verið í evrum. Þá vekur hann athygli á því að hann sé lánastofnun en ekki viðskiptabanki. Stefndi feli viðskiptabönkum hins vegar að taka við greiðslum afborgana og vaxta fyrir sína hönd og ekkert sé því til fyrirstöðu að taka við greiðslu í þeirri mynt sem greiðsluseðill tilgreinir. Stefndi kveðst hins vegar gera sér grein fyrir að þeir sem tekið hafa hjá honum lán hafi ekki allir tekjur í erlendri mynt. Af þeim sökum séu fyrirmæli prentuð á niðurlag greiðsluseðla stofnunarinnar um það með hvaða hætti skuli greitt af lánunum, þ.e að greiða skuli fjárhæð sem jafngildir þeirri sem stefndi þarf að greiða sínum viðskiptabanka til að fá þann fjölda evra sem nemur viðkomandi afborgun. Þetta fyrirkomulag sé eðlilegt og hafi lengi tíðkast og breyti það engu um efni lánasamningsins. Stefndi bendir á að stefnandi hafi fimm sinnum greitt afborganir af láninu með evrum, síðast 12. nóvember 2007 alls 186.957,05 evrur en frá þeim degi hafi þær greiðslur sem borist hafa stefnda verið í krónum.

                Stefndi segir stefnanda halda því ranglega fram að allar færslur í tengslum við lánin hafi verið í íslenskum krónum, sem síðan leiði til þess að lánin hljóti að vera í íslenskum krónum. Stefndi bendir á að í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga komi fram í 1. mgr. 7. gr. laganna að texti ársreiknings og samstæðureiknings sem samdir eru samkvæmt lögunum skuli vera á íslensku og fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum. Hvorki stefnandi né stefndi hafi heimild til að færa bókhald sitt í erlendri mynt og því eigi undantekningarákvæði í 2. mgr. nefndrar 7. gr. ekki við. Þetta leiði til þess að þeir sem eiga einhver viðskipti í erlendri mynt verða að umreikna hana í íslenskar krónur í bókhaldi sínu. Stefndi, eins og aðrar stofnanir ríkisins, færi bókhald sitt í krónum en þar sem hann endurláni talsvert af erlendu fé sé haldið utan um lánasafn hans jafnt í íslenskum krónum og þeirri mynt sem við á. Þannig geti lántaki fengið upplýsingar um stöðu lána sinna hvort sem er í íslenskum krónum eða þeirri mynt sem lánuð var. Þetta haggi hins vegar ekki gildi lánasamninga.

                Stefndi vísar einnig til þess að þeir lánasamningar sem gerðir voru með viðaukum á árinu 2004 hafi verið endurnýjaðir hinn 22. nóvember 2007. Þar séu skuldir skýrlega tilgreindar í evrum og undir þá samninga hafi verið ritað fyrir hönd stefnanda. Hafi verið vafi um hvað fólst í viðaukunum frá 2004 þá hafi hann upphafist með undirritun stefnanda á síðari viðaukana enda séu það gildandi lánasamningar milli aðila en ekki samningarnir sem gerður voru 2004. Stefnandi geri hins vegar enga kröfu í málinu vegna síðustu viðaukanna.

                Stefndi telur að framangreindar málsástæður hans leiði til þess að skuldbindingar sem stefnandi gekkst undir með undirritun á viðaukana hafi verið lánveiting til hans í evrum. Slíkar lánveitingar séu ekki óheimilar samkvæmt vaxtalögum og Hæstiréttur Íslands hafi ítrekað tekið fram í dómum sínum að skuldbinding í erlendri mynt fari ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 og nefndir í því sambandi sem dæmi dóma réttarins í málum nr. 92/2100, nr. 153/2010, nr. 520/2011, nr. 551/2011, 522/2011 og nr. 3/2012 en í síðastgreinda dóminum hafi því verið slegið föstu að ekki skipti máli í hvaða tilgangi lán var tekið. Hæstiréttur hafi einkum litið til þess í hvaða gjaldmiðli skuldbindingin sjálf er tilgreind í lánaskjalinu og í því máli sem hér er til úrlausnar sé hún skýrlega tilgreind í evrum án tilvísunar til íslenskrar krónu eða bindingar íslenskrar krónu við gengi erlendra gjaldmiðla.

                Stefndi telur, verði krafa stefnanda um að ólögmæt gengistryggð lán hafi verið að ræða tekin til greina, að vísa beri frá dómi kröfu stefnanda um að skuld stefnanda nemi ákveðinni fjárhæð miðað við 30. mars 2012. Krafa stefnanda sé byggð á einhliða útreikningi hans sem sagður er taka mið af þeim sjónarmiðum sem fram komu í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011. Þessu hafnar stefndi en í nefndu máli hafi úrlausnin verið reist á kröfuréttarlegum sjónarmiðum en lántakar hafi alla tíð greitt umkrafðar afborganir af lánum sínum á réttum gjalddögum í samræmi við greiðsluseðla. Hæstiréttur hafi í rökstuðningi sínum tekið fram að kröfuhafar eigi almennt rétt á að krefja skuldara um það sem vangreitt kynni að hafa verið af skuld/afborgunum. Hins vegar taldi rétturinn atvik málsins hafa verið með svo sérstökum hætti að rétt væri að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til að krefjast viðbótargreiðslna fyrir liðna tíð þar sem sóknaraðilar málsins hefðu verið í góðri trú um að greiðslur þeirra fælu í sér fullar og réttar efndir af þeirra hálfu. Þá hafi einnig verið litið til þess að um langtímalánveitingu var að ræða og til þess að lánveitandi hefði boðið upp á staðlaða lánasamninga með ólögmætum gengisviðmiðunum. Ekkert af þessu eigi við í máli þessu nema að lánveitingin var til langs tíma. Síst af öllu eigi hér við að stefnandi hafi ætíð skilvíslega greitt afborganir af láninu á réttum gjalddögum.

                Stefndi heldur því jafnframt fram að stefnandi hafi án nokkurra raka miðað útreikning sinn við 30. mars 2012 sem ekki beri upp á gjalddaga lána hans og er eftir að skuldin hefur sannanlega verið gjaldfelld með greiðsluáskorun og eftirfarandi beiðni um nauðungarsölu. Stefndi mótmælir því að stefnandi geti einhliða valið dag til að miða útreikninga sína við en réttur til þess verði ekki reistur á lánasamningunum eða lagafyrirmælum.

                Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi algerlega litið framhjá langvarandi vanskilum sínum og rétti stefnda til að krefjast dráttarvaxta vegna þeirra eða krefjast uppgreiðslu lánanna sem raunar fellst í beiðni um nauðungarsölu sem gerð var á sínum tíma. Þá mótmælir stefndi því að hann eigi ekki rétt til dráttarvaxta úr hendi stefnanda vegna uppgjörsreglna sem fram koma í lögum nr. 151/2010. Réttur hans til að krefjast dráttarvaxta sé varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. áður nefnda dóma nr. 600/2011 og 274/2010. Þá heldur stefndi því fram að stefnandi geri enga grein fyrir útreikningsaðferðum sínum, vaxtafæti, höfuðstólsfærslu vaxta eða öðrum atriðum sem áhrif geta haft á endanlegan útreikning kröfunnar. Þar sem ekki er tekið mið af þessu sé ekki unnt að leggja útreikninga stefnanda til grundvallar við útreikning á fjárkröfu stefnda á hendur stefnanda.

                Loks telur stefndi, verði fallist á með stefnanda að skuldbindingar hans séu í íslenskum krónum, að þá leiði af dómkröfu stefnanda að lánin séu verðtryggð miðað við vísitölu nóvembermánaðar 2004 eða eftir atvikum vísitölu sama mánaðar 2007.

IV

Niðurstaða

                Að framan er rakið að Bör ehf. höfðaði mál á hendur stefnda vegna sömu veðskuldabréfa og viðauka við þau og hér eru til umfjöllunar. Voru í öllum meginatriðum hafðar uppi sömu málsástæður af hálfu Bara ehf. og stefnandi færir fram í máli þessu. Stefndi byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti stefnanda og því að afstaða skiptastjóra til kröfunnar eins og henni var lýst í þrotabú Bara ehf. sé endanleg og dómstólar fái henni ekki haggað. Auk þessa teflir stefndi fram sömu vörnum og hafðar voru uppi í greinargerð hans í nefndu máli Bara ehf. á hendur honum en hann vísar til þess máls í greinargerð sinni og lagði fram endurrit dómsins í málinu. Stefnandi gerði ekki athugasemdir við að stefndi vísaði með þessum hætti til greinargerðar úr öðru dómsmáli.

                Stefnandi höfðar mál þetta sem veðsali og síðar uppboðsþoli en hann átti fasteignina Skútustaðaskóla sem seld var nauðungarsölu. Við úthlutun á uppboðsandvirði fékk stefndi kröfur sínar sem hann lýsti vegna þeirra veðskuldabréfa sem hér er deilt um greiddar að fullu og þá miðað við að lánin hafi verið í evrum. Þá fékk stefnandi greiddar um 12.000.000 króna sem eftir stóðu þegar allar aðrar kröfur höfðu verið greiddar.

                Stefnandi var ekki aðili að samningum Bara ehf. og stefnda þegar lánin voru veitt á árinu 1998. Fyrir liggur að þegar stefnandi keypti Skútustaðaskóla hinn 1. ágúst 2011 greiddi hann kaupverðið m.a. með því að taka að sér að greiða þau lán sem um er deilt í máli þessu. Hins vegar fóru aldrei fram skuldaraskipti að lánum gagnvart stefnda og þá verður ekki séð að stefnandi hafi nokkru sinni greitt af lánunum.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 618/2014 er vísað í dóm réttarins í máli nr. 153/2000 og sagt að í þeim dómi komi fram að það sé almenn regla kröfuréttar að aðilar samnings geti einir haft uppi kröfur í tilefni af ætlaðri vanefnd hans. Aðrir, svo sem ábyrgðarmenn á skuldum samningsaðila, eigi almennt ekki aðild að slíkum málum enda þótt þeir kunni að hafa hagsmuni af því hvernig samningur er skýrður eða framkvæmdur. Með sama hætti gildi sú regla að skaðabætur samkvæmt sakarreglunni að almennt geti þeir einir krafist skaðabóta vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi tjónvalds sem bótaskyld háttsemi beinist gegn. Það skiptir stefnanda vissulega máli hvort lán þau sem hér er um deilt eru með ólögmætum hætti tengd við gengi erlendrar myntar enda ljóst að hann hefði fengið meira í sinn hlut af uppboðsandvirði eignar sinnar ef svo væri. Hins vegar gekkst hann í raun eingöngu í ábyrgð fyrir lánunum með þeim hætti að eign hans var sett að veði fyrir greiðslu þeirra. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið úr dómi Hæstaréttar í máli 618/2014 verður stefndi sýknaður vegna aðildarskorts sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins er stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 372.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti en tillit hefur verið tekið til þess að áður hefur frávísunarkröfu stefnda verið hafnað.

Ekki þykja efni til að að taka til greina kröfu stefnda þess efnis að stefnanda verði gert að greiða réttarfarssekt vegna málshöfðunar þessarar.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes S. Ólafsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Garðar Þ. Garðarsson hæstaréttarlögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Stefndi, Byggðastofnun, er sýkn af kröfum stefnanda, Hótels-Mývatns ehf.

Stefnandi greiði stefnda 372.000 krónur í málskostnað.