Hæstiréttur íslands
Mál nr. 153/2009
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 17. september 2009. |
|
Nr. 153/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Einari Ragnari Guðnasyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð.
E var sakfelldur fyrir sérlega hættulega líkamsárás og ólöglegan vopnaburð á almannafæri, með því að hafa slegið X höggi með krepptum hnefa í andlit og skorið hann í andlitið með stálhnífi. Voru brot hans heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998, ásamt áorðnum breytingum. Við ákvörðun refsingar E var meðal annars litið til þess að tilviljun ein réði því að ekki hlaust meiri skaði af en raun bar vitni en atlaga E var hættuleg þar sem hnífi var beitt. Þá hefði F skorist illa í andliti og hlotið ör frá vinstra gagnauga niður á kinn. E hafði hins vegar játað brot sitt. Að öllu þessu virtu var E dæmdur í 9 mánaða fangelsi, en fullnustu 7 mánaða refsingarinnar var frestað, auk þess sem E var gert að greiða X 257.600 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, að refsing hans verði þyngd en ákvæði hins áfrýjaða dóms um bætur til X staðfest.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst hann þess að kröfu X verði vísað frá héraðsdómi.
Af hálfu X er gerð sú krafa að ákvæði hins áfrýjaða dóms um bætur til hans verði staðfest auk þess sem honum verði ákveðinn úr hendi ákærða lögmannskostnaður vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 49.800 krónur.
Gögn málsins benda til þess að samskipti ákærða við X utan við skemmtistaðinn Sportarann í Hafnarfirði 1. mars 2008 hafi byrjað þegar X kom félaga sínum A til hjálpar eftir að ákærði hafði veist að honum. Af gögnum málsins verður ekki ráðið nákvæmlega í hverju atbeini X fólst, en samt er ljóst að ekkert réttlætti þau viðbrögð ákærða að beita hnífi svo sem hann gerði. Er ljóst að tilviljun ein réði því að ekki hlaust meiri skaði af en raun ber vitni. Niðurstaða héraðsdóms um að sakfella ákærða fyrir eitt hnefahögg í andlit X og fyrir atlöguna með hnífnum verður staðfest og fallist á heimfærslu brotsins til refsiákvæða. Hinn 17. mars 2009 var ákærði sakfelldur í Héraðsdómi Vesturlands fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og dæmdur til greiðslu sektar og sviptingar ökuréttar. Fallist verður á tilvísanir í hinum áfrýjaða dómi til sjónarmiða og lagaákvæða sem koma til athugunar við ákvörðun refsingar ákærða og verður sú ákvörðun staðfest.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og ákærði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Ákærði verður dæmdur til að greiða X vegna kostnaðar hans af að halda fram kröfu sinni fyrir Hæstarétti, 35.000 krónur.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Einar Ragnar Guðnason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 277.408 krónur, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Ákærði greiði X 35.000 krónur vegna kostnaðar af kröfugerð fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. febrúar 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. janúar 2009, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 7. október 2008 á hendur Einari Ragnari Guðnasyni, kt. 220977-4399, Hringbraut 9, Hafnarfirði, „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólöglegan vopnaburð á almannafæri, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 1. mars 2008, fyrir utan skemmtistaðinn Sportarinn við Flatahraun 5a í Hafnarfirði, slegið X að minnsta kosti einu höggi með krepptum hnefa í andlitið og skorið hann í andlitið vinstra megin með stálhnífi. Við þetta hlaut X heilahristing, bólgu yfir nefbeini og stóran skurð frá vinstra gagnauga niður á kinn sem sauma þurfti saman með 18 sporum.“
Þetta er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 1. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum hnífi samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 37. gr. vopnalaga. Þá er gerð krafa um að ákærði greiði sakarkostnað málsins.
Af hálfu X, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 257.600 krónur auk dráttarvaxta frá 3. apríl 2008 til greiðsludags.
Ákærði krefst vægustu refsingar er lög leyfa. Þá gerir verjandi kröfu um hæfileg málsvarnarlaun sér til handa.
I.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var óskað eftir aðstoð lögreglu aðfaranótt laugardagsins 1. mars 2008 að veitingastaðnum Sportaranum, Flatahrauni 5A, Hafnarfirði, vegna slagsmála. Í skýrslunni segir að er lögregla kom á staðinn hafi mátt sjá hóp af fólki utan við aðaldyrnar og hafi ákærði og X verið þar í hörkuátökum. Þeir hafi legið í götunni og ákærði verið ofan á. Um 1-2 metra frá þeim hafi legið hnífur og fólk kallað að ákærði hefði ráðist á X með hnífnum. Lögregla hefði skilið þá að og ákærði verið handtekinn. Kallað hafi verið á sjúkrabifreið sem flutti X á slysadeild, en hann hafi verið mjög blóðugur og blætt úr andliti hans.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu eftir dvöl hans í fangaklefa. Í lögregluskýrslu segir að hann hafi skýrt frá því að einhver aðili hafi tekið af honum bjór. Ákærði hefði orðið mjög reiður og farið að rífast við þennan aðila sem sé pólskur. Þeir hefðu eitthvað verið að rífast þarna þegar einhver hávaxinn viðskiptavinur hafi byrjað að rífa í ákærða í því skyni að henda honum út. Ákærði hefði togað eitthvað í hann á móti. Síðan muni ákærði eftir því að hann hafi verið kominn út og þá hafi X komið. Þeir hefðu síðan togast eitthvað á. Þeir hefðu fallið í jörðina og ákærði þá fundið að einhverjir hefðu byrjað að sparka í hann. Ákærði hafi náð að standa upp og það sé þá sem hann hafi náð í Leatherman-hníf sem hafi verið í hulstri í belti hans. Ákærði hefði opnað hnífinn og veifað honum framan í hópinn til þess að verja sig. Þrátt fyrir að hann hafi verið með hnífinn á lofti hafi einhver ráðist á hann og tekið hálstaki. Við það hafi hann misst hnífinn og í kjölfarið verið tekinn hálstaki og hann fallið í jörðina ásamt þeim sem hafi tekið hann hálstaki. Það næsta sem gerist sé það að lögreglan kom og aðskildi þá. Ákærði kvaðst hafa verið mjög ölvaður og að hann þekki X ekki. Ákærði hafi verið að verja sig en þarna hafi verið 10 manna hópur sem hafi verið að veitast að sér. Um áverka á X sagði ákærði að hann væri ekki viss um að þeir væru eftir hnífinn, en hann hefði náð að kýla hann nokkuð föstu höggi. Ákærði kvaðst miður sín yfir framkomu sinni og að honum þætti þetta mjög leitt.
X lagði fram kæru hjá lögreglu 5. mars 2008 á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Samkvæmt lögregluskýrslu skýrði kærandi svo frá að hann hefði verið að spjalla við félaga sinn, A, fyrir utan skemmtistaðinn Sportarann í Hafnarfirði. Þá hafi allt í einu komið þarna að einhver gæi og þrifið í kæranda og verið með einhverja stæla, en þeir hefðu ekkert þekkt hann. Kærandi hefði þá farið að skipta sér af þessu og ýtt þessum strák í burtu. Þá hafi strákurinn tekið sig til og komið að kæranda og kýlt hann beint í andlitið með krepptum hnefa. Kærandi hefði kastast frá og þegar hann hafi litið upp hafi hann séð þennan strák gera sig líklegan til að slá sig aftur, þannig að kærandi hafi verið fyrri til og náð að slá hann í andlitið í algjörri sjálfsvörn. Það næsta sem kærandi viti er að þessi strákur reisir sig upp og sé þá með hníf í hendi sem hann reki í andlit kæranda og ristir með honum við vinstra gagnauga kæranda og niður eftir kinnbeininu. Kærandi hefði misst meðvitund og næst munað eftir sér í sjúkrabifreiðinni á leiðinni á slysadeild.
Vitnið B gaf skýrslu hjá lögreglu 12. mars 2008 þar sem hann greindi frá því að hann hefði verið að vinna á Sportaranum umrætt sinn. Um klukkan 02:30 um nóttina hafi hann látið gesti vita að staðnum yrði lokað eftir u.þ.b. hálftíma. Hann hafi verið byrjaður að taka til og tekið glös af borðum. Þá hafi maður sakað hann um að hafa tekið frá sér bjórglas sem hann hefði keypt. Maðurinn hefði kallað ókvæðisorðum að sér, en hann ekki látið það á sig fá og farið fram að aðstoða við þrif og fleira. Vitnið og starfsstúlka að nafni C hefðu farið fram í sal að ganga frá stólunum. Þá hefði þessi maður skyndilega komið beint framan að vitninu og slegið það eitt högg í andlitið. Einhver hafi verið þarna inni sem reyndi að róa manninn og vitnið sagt þeim að hann myndi hringja á lögregluna. Vitnið hefði haldið áfram að reyna að koma fólkinu út og þegar hann hafi verið búinn að koma öllum út hafi þessi maður ráðist á sig í annað sinn og slegið aftur í andlitið þarna úti. Vitnið hefði í kjölfarið ákveðið að drífa sig aftur inn, en skyndilega séð hvar þessi maður sem sló til vitnisins hafi verið kominn í átök við einhvern annan strák. Vitnið hafi verið að snúa sér við til að fara aftur inn á staðinn, en þá séð hvar hnífur hafi dottið í jörðina og um leið falli þessir drengir á jörðina og vitnið hafi séð blæða úr andlitinu á öðrum þeirra. Fólk sem hafi verið þarna fyrir utan hefði reynt að ganga á milli þeirra en lögreglan svo komið skömmu síðar.
Vitnið A gaf einnig skýrslu hjá lögreglu 12. mars 2008. Hann skýrði svo frá að hann hefði verið á Sportaranum umrætt sinn ásamt vini sínum, X, D, E og einhverjum fleirum að skemmta sér. Þegar vitnið hafi verið að fara út hafi hann séð hvar ákærði var að rífast við pólskan starfsmann þarna inni á staðnum. Þeir hafi verið við útidyrahurðina og ákærði staðið í dyrunum og neitað að hleypa vitninu framhjá. Vitnið hefði þá ýtt honum frá dyrunum. Þegar þeir hafi verið komnir út hafi ákærði reynt að slá til vitnisins. Við það hefði X komið vitninu til hjálpar og þeir tekist eitthvað á þarna. Vitnið hefði m.a. séð þá slá til hvors annars og svo fallið í jörðina og þeir haldið áfram að slást þar. Lögreglan hefði svo komið þarna allt í einu og skilið þá að. Þegar lögreglan hafi reist X við hafi vitnið séð að hann var alblóðugur í andlitinu og heyrt að ákærði hefði stungið X í andlitið. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar hnífnum hafi verið beitt, og sagðist ekki vita hvernig það hefði getað farið fram hjá sér þar sem hann hefði verið alveg ofan í þessum slagsmálum. Reyndar hafi hann líka verið að tala við einhvern strák þarna einmitt þegar slagsmálin hafi verið þannig að hann hefði ekki fylgst með öllu.
Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 3. júní 2008 þar sem borið var undir hann framburður X og A sem lýst var hér að framan. Ákærði mótmælti því að atvik hefðu verið með þeim hætti sem þeir lýstu og sagði að þeir hefðu byrjað að veitast að sér inni á staðnum og svo hefðu þessi átök haldið áfram þegar út hafi verið komið. Þeir hefðu slegið sig a.m.k. tvisvar í andlitið áður en hann tók að verja sig. Þegar út hafi verið komið hafi fleiri bæst í lið með X og A. Ákærði hafi verið kominn í algjöra nauðvörn og þá tekið upp hnífinn og byrjað að sveifla honum að fólkinu til að hræða það frá sér. Ákærði neitaði því að hafa beitt hnífnum sérstaklega að X. Þetta hefði ekki verið þannig að hann hefði veist að X og stungið eða skorið hann með hnífnum og áverkar hans ekki verið eftir hnífinn heldur vegna þess að ákærði sló hann. Ákærði hefði ekki beitt hnífnum á hann. Það hafi verið þarna hópur af fólki sem hefði ráðist á sig og hann verið smeykur og þess vegna dregið upp hnífinn til að halda fólkinu frá sér. Þetta hefðu bara verið slagsmál. Ákærði hefði slegið frá sér og það hefði verið fullt af fólki að slá hann. Þetta fólk sem hefði verið með X hefði ekki bara staðið þarna og horft á.
Vitnin D, E, F, C, og G gáfu skýrslu hjá lögreglu sem vitni en ekki er ástæða til að rekja framburð þeirra hér.
II.
Í málinu liggur fyrir vottorð Ásu E. Einarsdóttur, sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild Landspítalanum Fossvogi, dags. 1. apríl 2008. Í vottorðinu kemur fram að X hafi komið á slysa- og bráðadeild hinn 1. mars 2008 kl. 03:25. Við skoðun á honum sjáist stór skurður frá vinstra gagnauga og niður á kinn. Í efri hluta sársins séu hárfínar skurðbrúnir og sárið sé galopið upp. Í neðri hluta sársins séu fleiður og stór flipi. Hann sé aumur vinstra megin yfir kinnbeini. Hann sé nokkuð bólginn yfir nefbeini en það sé ekkert tilfært. Ekki séu önnur sár á höfði og ekki eymsli yfir neðra kjálkabeini. Tennur séu heilar og ekki merki um að þær séu lausar. Ekki séu eymsli í hálshrygg. Greining sé heilahristingur og opið sár á öðrum hlutum höfuðs. Þá segir í vottorðinu að það hafi verið saumuð 18 spor í andlit.
Einnig liggur fyrir í málinu lögregluskýrsla tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknar á hnífi ákærða. Í skýrslunni segir að hnífurinn sé 240,53 grömm og heildarlengd hnífs sé 17 sm og lengd hnífsblaðs 7 sm. Þá liggja fyrir ljósmyndir af áverka X.
III.
Verður nú rakinn framburður vitna fyrir dómi, en ákærði kaus að gefa ekki skýrslu við aðalmeðferð málsins. Við þingfestingu málsins játaði ákærði sök og sagði að atvik hefðu verið með þeim hætti að fólk hefði veist að honum og hann hafi orðið skelkaður og tekið upp hníf og sveiflað honum í kringum sig með þeim óheppilegu afleiðingum að hann rakst í andlitið á brotaþola.
Vitnið X skýrði svo frá að á leiðinni út af Sportaranum hafi komið upp eitthvert vesen milli ákærða og vinar vitnisins, A, og vitnið gripið inn í það og beðið ákærða um að hætta, en það hafi ekki verið hlustað á það. Það hafi komið til ryskinga milli vitnisins og ákærða sem hafi endað með því að ákærði tók upp hníf og skar vitnið í andlitið. Nánar um það hvernig vitnið hefði gripið inn í samskipti ákærða og A sagði vitnið að hann hefði farið fram fyrir A og beðið ákærða að hætta þessu og ýtt aðeins við honum. Ákærði hafi ekkert hlustað á vitnið og átök byrjað milli þeirra. A hafi verið brugðið og hann ekki tekið þátt í átökunum, en vitnið hélt að hann hafi örugglega reynt að stöðva þetta með því að segja þeim að hætta. Aðspurður hvort einhverjir félagar vitnisins hafi tekið þátt í átökunum kvaðst vitnið ekki hafa tekið eftir því að aðrir hafi tekið þátt í þeim. Þetta hefði allt gerst á skömmum tíma. Borin var undir vitnið frásögn ákærða um að sá síðarnefndi hafi þurft að verja sig fyrir hóp af fólki. Sagði vitnið að það væri rangt. Um það hverjir hefðu verið með vitninu umrætt kvöld sagði vitnið að það hafi verið G, E, D og A. Vitnið kvaðst hafa verið ölvaður.
Um áverka sína sagði vitnið að hann hefði verið saumaður með 18 sporum og væri með ör í andliti. Vitnið sagði að þetta væri mikið böl fyrir hann og hann væri t.d. kallaður „scarface“ í bænum þar sem hann býr. Vitnið sagði að hann væri ekki sami maður eftir þessa árás. Vitnið sagði að það væri mögulegt að laga örið en kostnaður við það sé meiri en sem nemur bótakröfu hans í málinu.
Vitnið A sagði að umræddum veitingastað hafi verið að loka og hópur þriggja manna hefði átt einhver orðaskipti við pólska starfsmenn þarna. Vitnið hefði ekkert skipt sér af því og keypt sér bjór áður en staðnum yrði lokað. Vitnið og félagi hans hefðu svo gert sig klára til að fara út. Ákærði hefði staðið í dyrunum og hindrað þá í að komast út þannig að vitnið hefði ýtt aðeins við honum, eins og þegar maður opnar hurð, til að komast fram hjá honum. Ákærði hefði þá reynt að kýla vitnið og X þá komið að, farið fram fyrir vitnið og ákærði þá ráðist á hann og ákærði og X hefðu tekist á fyrir utan staðinn. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hníf. Vitnið sagði að lögreglan hefði verið fljót á staðinn, eða eiginlega komin um leið og slagsmálin hófust, en búið hafi verið að kalla á hana þar sem það hafi átt að henda ákærða út. Vitnið sagði að hann hefði ekki tekið þátt í átökum við ákærða og engir aðrir félagar hans. Vitnið kvaðst hafa átt orðaskipti við félaga ákærða og ekki viljað skipta sér af átökunum.
Vitnið B skýrði frá því að hann hafi unnið á Sportaranum umrætt kvöld. Hluti fólksins hefði farið út af staðnum en nokkrir verið eftir. Erfitt hafi verið að koma fólkinu út. Þegar vitnið hafi farið fram fyrir barinn hafi hann verið sleginn af ákærða og vitnið hringt á lögregluna. Vinur ákærða hefði svo farið með hann út. Vitnið hafi verið fyrir utan staðinn þegar komið hafi til átaka og vitnið snúið sér við og hafi þá séð hníf detta á jörðina. Þetta hefði gerst á um 20 sekúndum.
IV.
Ákærði játar þá háttsemi sem honum er gefin að sök en segir að atvik hafi verið með þeim hætti að hann hafi sveiflað hnífnum til að verjast hóp af fólki sem hafi veist að honum með þeim afleiðingum að hann rakst í andlitið á brotaþola.
Þessi frásögn ákærða stangast verulega á við framburð vitna. Samkvæmt vitnisburði B og A var ákærði til vandræða inni á veitingastaðnum Sportaranum þegar loka átti staðnum. B, sem var starfsmaður á staðnum, hefur lýst því að ákærði hafi m.a. slegið sig og því hafi verið óskað aðstoðar lögreglu. Stuttu eftir það kom til átaka milli ákærða og X. Um aðdraganda þess segir vitnið X að upp hafi komið vandræði milli ákærða og vinar síns, A. Vitnið hefði gripið inn í og beðið ákærða um að hætta, en ákærði ekki orðið við því og komið hefði til ryskinga milli sín og ákærða sem endaði með því að ákærði tók upp hníf og skar vitnið í andlitið. Framburður X samrýmist vitnisburði A sem hefur lýst því að ákærði hafi staðið í vegi þess að hann kæmist út af staðnum ásamt X. Vitnið hafi því aðeins ýtt við honum og ákærði brugðist illa við og reynt að kýla vitnið. X hafi þá gripið inn í og beðið ákærða um að hætta, en ákærði hafi ekki orðið við því og komið hefði til átaka milli þeirra. Enginn kannast við að aðrir en þeir tveir hafi átt í átökum. Þannig á það sér hvorki stoð í gögnum málsins né framburði vitna að hópur fólks hafi veist að ákærða. Þvert á móti er ljóst að það var ákærði sem átti upptökin að átökunum og að hann hafi verið fljótur að grípa til hnífsins og beita honum.
Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólöglegan vopnaburð með því að hafa slegið X að minnsta kosti einu höggi með krepptum hnefa í andlitið og skorið hann í andlitið vinstra megin með stálhnífi, með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Brot ákærða varðar við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 1. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
V.
Ákærði er fæddur í september 1977. Samkvæmt sakavottorði hans hlaut hann hinn 6. nóvember 1998 dóm fyrir líkamsárás. Á árinu 2000 og á árinu 2002 gekkst ákærði undir sektarrefsingar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Með dómi 5. október 2005 var ákærða gert að greiða sekt fyrir umferðarlagabrot. Þá var hann dæmdur til greiðslu sektar 15. febrúar 2006 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Til refsiþyngingar horfir að atlaga ákærða var hættuleg þar sem hnífi var beitt. Brotaþoli skarst í andliti og þurfti að sauma hann 18 sporum og er hann með ör í andliti. Til nokkurra málsbóta horfir að ákærði hefur játað brotið, en annars er ekki fallist á að hann eigi sér málsbætur. Hvorki 3. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 né 4. tl. 1. mgr. 74. gr. laganna eiga hér við. Að öllu þessu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin níu mánaða fangelsi, sem verður skilorðsbundin að hluta með heimild í 1. mgr. 57. gr. a almennra hegningarlaga, þannig að sjö mánuðir af dæmdri refsingu falli niður að liðnum þremur árum frá dómsbirtingu, enda haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998 skal ákærði sæta upptöku á hnífnum sem lagt var hald á.
VI.
Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa brotaþola, X. Í bréfi, dags. 3. apríl 2008, vegna bótakröfunnar segir að krafan sé að fjárhæð 257.600 kr., auk „dráttarvaxta frá dagsetningu kröfubréfs þessa til greiðsludags“. Krafan sundurliðast þannig:
|
1. Útlagður kostnaður |
7.800 kr. |
|
2. Miskabætur |
200.000 kr. |
|
3. Lögmannskostnaður |
49.800 kr. |
|
Samtals |
257.600 kr. |
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að hafa slegið brotaþola í andlitið og skera hann í andlitið með stálhnífi. Ber ákærði skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja má til hinnar refsiverðu háttsemi.
Krafa vegna útlagðs kostnaðar er studd gögnum, reikningum vegna sjúkraflutnings og komu á slysadeild, samtals að fjárhæð 7.800 kr. Ákærði fellst á þennan kröfulið og verður því dæmdur til að greiða þennan kostnað, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna árásarinnar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sbr. lög nr. 37/1999. Við ákvörðun bóta er til þess að líta að ákærði beitti hnífi og sauma þurfti brotaþola í andliti með 18 sporum. Þegar brotaþoli kom fyrir dóm var greinilegt ör að sjá í andliti hans. Verður fallist á framkomna kröfu um miskabætur að fjárhæð 200.000 kr.
Krafist er kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að fjárhæð 49.800 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti. Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að fallast á þennan kröfulið.
Í bótakröfunni er um dráttarvexti hvorki vísað til ákveðins vaxtafótar eða til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Verður því ekki hjá því komist að vísa dráttarvaxtakröfu frá dómi, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 207/200 og nr. 223/2007.
Samkvæmt framansögðu ber ákærða að greiða brotaþola samtals 257.600 kr.
VII.
Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, alls 261.100 krónur. Um er að ræða kostnað vegna læknisvottorðs, 27.700 krónur, og ferðakostnað vitnis, 24.240 krónur. Þóknun verjanda fyrir dómi þykir hæfilega ákveðin 209.160 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Einar Ragnar Guðnason, sæti fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu sjö mánaða þeirrar refsingar og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði X 257.600 krónur.
Kröfu X um dráttarvexti er vísað frá dómi.
Ákærði sæti upptöku á stálhnífi sem lögregla lagði hald á.
Ákærði greiði 261.100 krónur í sakarkostnað, þar með talin 209.160 króna þóknun skipaðs verjanda hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns.