Hæstiréttur íslands
Mál nr. 752/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum samdægurs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og varnaraðila ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar mál er varði stórfellda líkamsárás. Lögreglan hafi verið kölluð til að [...] í gærdag vegna hnífstungu. Er lögreglan hafi komið á vettvang hafi hún hitt þar fyrir kærða X þar sem hann hafi setið fyrir utan húsið. Alls hafi sjö karlmenn verið inni og/eða úti við húsnæðið og hafi þeir allir bent á X sem meintan geranda í málinu. X hafi verið með stóran skurð á enni. Lögreglumenn hafi leitað að vopni á honum en ekki fundið en greina hafi mátt blóð í fatnaði hans. Þá hafi mátt sjá tvö stungusár á baki og eitt á síðu. Hann hafi verið fluttur í sjúkrabíl á slysadeild. Brotaþoli, A, hafi verið á þriðju hæð hússins en hann hafi verið með stungusár á vinstri síðu. Hann hafi einnig verið fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.
Á vettvangi hafi blóð verið utan við húsið og blóðslóð frá útidyrum að stofu á annarri hæð og frá stofunni á salerni á þriðju hæð. Í stofunni hafi mátt sjá ummerki um átök en sjónvarpið hafi legið á hvolfi á gólfinu, stólar verið brotnir og blóð á gólfi og veggjum. Lögreglan hafi lagt hald á hníf sem verið hafi í eldhúsvaskinum en mögulegt sé að hann sé árásarvopnið.
Rætt hafi verið við C á vettvangi. Hann hafi sagst hafa setið í stofunni en hann hafi ekki orðið var við neitt, ekkert heyrt og ekkert séð. Hann hafi svo séð að A hafi verið blóðugur og farið að hjálpa honum. Vitni á vettvangi hafi greint svo frá að það hafi séð X ráðast á A og stinga hann með hnífi. Hann hafi séð C halda á stól og vera í átökum við árásarmanninn. Annað vitni hafi einnig bent á X sem meintan árásarmann. Ákveðið hafi verið að handtaka C vegna gruns um aðild að málinu, en hann hafi verið staddur í stofunni þegar átökin hafi átt sér stað en neiti að hafa séð neitt. Það hafi vakið athygli lögreglu að peysan hans hafi verið rifin við hálsmálið og greina hafi mátt blóðkám á bolnum hans. C hafi neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu.
Lögregluvakt hafi verið höfð yfir X á slysadeild, en hann sé höfuðkúpubrotinn. Hann hafi verið útskrifaður af slysadeild í morgun og handtekinn af lögreglu.
Lögreglan hafi rætt við A á slysadeild. A hafi sagt að hann hafi verið með C, X og þremur öðrum. Hann hafi sagt að X hafa ráðist á sig með hnífi. Hann hafi ætlað að taka hnífinn af honum en þá hafi hann slegið sig nokkrum sinnum. Hann hafi þá farið upp á næstu hæð inn á baðherbergið þar. A sé með stungusár á síðunni en við stunguna hafi lungað fallið saman. Hann sé undir eftirliti lækna á slysadeild.
Í skýrslu lögreglu kemur fram að það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í málinu. Kærði sé undir rökstuddum grun um stórfellda líkamsárás sem talin sé varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Fjöldi vitna hafi verið á vettvangi sem lögreglan þurfi að taka frekari skýrslur af. Kærði neiti sök í málinu, en fyrir liggi framburður vitna um að kærði hafi ráðist að brotaþola. Því sé afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun þannig að hann hafi ekki tækifæri til að torvelda rannsókna s.s. með því að koma undan munum sem geti haft sönnunargildi og hafi áhrif á aðra samseka eða vitni.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Niðurstaða
Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi.
Af því sem fram hefur komið fyrir dómi þykir ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan frekari rannsókn fer fram. Ætla má að kærði muni reyna að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að hafa áhrif á meinta samseka aðila, sem rannsókn beinist að eða aðra. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt svo fallast megi á kröfu lögreglustjórans um að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Eins og máli þessu er háttað koma önnur úrræði ekki í stað gæsluvarðhaldsins. Ekki þykir tilefni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Þá hefur sækjandi fært fyrir því fullnægjandi rök, sbr. og skilyrði b. liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 að nauðsynlegt sé að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi standi.
Verður, að öllu framangreindu virtu, krafan tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember nk. kl. 16 og skal hann sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.