Hæstiréttur íslands

Mál nr. 52/2005


Lykilorð

  • Manndráp
  • Tilraun
  • Líkamsárás
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. júní 2005.

Nr. 52/2005.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Berki Birgissyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Manndráp. Tilraun. Líkamsárás. Skilorðsrof.

B var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ráðist að manni og slegið hann nokkrum sinnum í höfuðið með öxi. Jafnframt var hann sakfelldur fyrir sjö líkamsárásir, brot á vopnalögum og brot á umferðarlögum. Með brotum sínum rauf hann skilorð þriggja mánaða fangelsisdóms, sem hann hafði fengið á árinu 2003 vegna ofbeldisbrots og brots á fíkniefnalöggjöfinni. Ekki var fallist á það með B að dómsformaður í héraði hefði verið vanhæfur til að fara með málið þar sem hann hefði kveðið upp úrskurð á rannsóknarstigi um að B skyldi sæta geðrannsókn. B var dæmdur í fangelsi í sjö ár og sex mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. febrúar 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og upptöku á öxi. Þá er krafist þyngingar á refsingu og greiðslu skaðabóta, 589.642 króna til A og 2.000.000 króna til H, auk vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar sem í ákæru greinir.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og að málinu verði vísað heim í hérað til meðferðar að nýju. Til vara krefst hann sýknu af báðum köflum ákæru 28. júlí 2004, af liðum 1, 2 og 3 í ákæru 18. ágúst 2004 og báðum köflum ákæru 12. október 2004. Verði ekki sýknað af háttsemi í kafla A í síðastnefndu ákærunni verði háttsemin til vara færð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í stað 211. gr., sbr. 20. gr. sömu laga. Þá krefst hann mildunar refsingar og að gæsluvarðhald það er hann hefur sætt frá 2. september 2004 komi til frádráttar refsingu með fullri dagatölu. Jafnframt verði hafnað kröfu um upptöku á öxi samkvæmt ákæru 12. október 2004 og skaðabótakröfum verði vísað frá dómi en til vara lækkaðar. Í kröfugerðinni felst að ákærði unir dómi varðandi 4. lið ákæru 18. ágúst 2004.

I.

Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er aðallega á því reist að formaður hans hafi á rannsóknarstigi kveðið upp úrskurð um að ákærði skyldi sæta geðrannsókn og til grundvallar þeim úrskurði hafi dómarinn lagt sjálfstætt mat á fyrirliggjandi rannsóknargögn og sakarefnið. Þessi störf dómarans á rannsóknarstigi hafi átt að leiða til vanhæfis hans til að fara með málið við aðalflutning og leggja dóm á það, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákærði gerða enga athugasemd við hæfi dómara meðan málið var til meðferðar fyrir héraðsdómi. Úrskurður héraðsdómara um að ákærði skuli sæta geðrannsókn liggur fyrir Hæstarétti. Af úrskurðinum verður ekki ráðið að dómarinn hafi við uppkvaðningu hans lagt efnislegt mat á sakarefnið enda var það óþarft til úrskurðar um að rannsóknin færi fram. Verður því ekki fallist á ómerkingarkröfu ákærða. Önnur atvik, sem ákærði færir fyrir vanhæfi formanns héraðsdóms, varða framkvæmd skýrslutöku af vitnum við aðalmeðferð málsins og voru ekki til þess fallin að valda  vanhæfi hans.

II.

Málsatvik eru rakin í héraðsdómi, svo og framburður ákærða og vitna. Héraðsdómur hefur metið sönnunargildi munnlegs framburðar. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæða. Með vísun til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 verða viðurlagaákvæði héraðsdóms jafnframt staðfest, þó þannig að rétt hefði verið að vísa til 77. gr. almennra hegningarlaga við endanlega ákvörðun refsingar.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku axar og um skaðabætur eru staðfest.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað, þó þannig að frá refsingu ákærða, Barkar Birgissonar, dregst gæsluvarðhaldsvist frá 2. september 2004.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 1.585.969 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 900.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. janúar 2005.

Málið er höfðað á hendur ákærða Berki Birgissyni, [kt.], Bröttukinn 18, Hafnarfirði með þremur ákærum útgefnum 28. júlí, 18. ágúst og 12. október 2004.          

I.

Í þeirri fyrstu, sem gefin er út af ríkissaksóknara, er höfðað mál á hendur ákærða „fyrir líkamsárásir, aðfaranótt þriðjudagsins 13. janúar 2004, fyrir utan veitingastaðinn A. Hansen við Vesturgötu í Hafnarfirði. [...]

1.             Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa slegið A í andlitið með glerflösku sem við það brotnaði og slegið hann þrjú hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð yfir hægra kinnbein, mar og yfirborðsáverka.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með

áorðnum breytingum.

[...]

Fyrir líkamsárásir, með því að hafa

2.             slegið B hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og yfirborðsáverka á andliti.

3.             slegið C hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og yfirborðsáverka á andliti.

4.             slegið D hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í götuna, hlaut mar og yfirborðsáverka á andliti, sár umhverfis munn og munnhol og mar á neðanverðu baki.

Teljast brot skv. 2., 3. og 4. tölulið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra

hegningarlaga nr. 19/1940.“

II.

Með ákæru útgefinni 18. ágúst 2004 höfðar lögreglustjórinn í Hafnarfirði mál á hendur ákærða „fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og vopnalögum;

1.             Fyrir brot gegn umferðarlögum, með því að hafa, mánudagskvöldið 15. september 2003, um kl. 23.15, ekið bifreiðinni JY-891, án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt, suður Hafnarfjarðarveg, Garðabæ, og áfram yfir gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilstaðarvegar, gegn rauðu umferðarljósi.

Telst háttsemi þessi varða við 1. og 2. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1.

mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

2.             Fyrir líkamsárás, með því að hafa, um miðnætti fimmtudaginn 30. október 2003, slegið E, nokkur högg í andlit þar sem þeir voru staddir á salerni veitingastaðarins A. Hansen, Strandgötu í Hafnarfirði, með þeim afleiðingum að E hlaut sár í munnholi og mar í andliti.

Telst háttsemi þessi varða 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

sbr. lög nr. 20/1981.

3.             Fyrir líkamsárás, með því að hafa sunnudaginn 11. janúar 2004, um kl. 15.04 slegið F, með krepptum hnefa í kviðinn þar sem þeir voru staddir í íbúð á neðri hæð við Bröttukinn 18, Hafnarfirði. Urðu afleiðingar af háttsemi ákærða þær að F hlaut rifbrot.

Telst háttsemi þessi varða 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

sbr.  lög nr. 20/1981.

4.             Fyrir vopnalagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 11. janúar 2004, um klukkan 15.52, orðið uppvís að því að hafa í vörslum sínum Remington 1187, hálfsjálfvirka, þriggja skota haglabyssu með viðarskepti, seríunúmer PC725708, án heimildar og tilskilins leyfis, en vopnið fannst undir baðkari á heimili hans, Bröttukinn 18, Hafnarfirði, við húsleit lögreglu umrætt sinn.

Telst háttsemi þessi varða við 1., sbr. 2. mgr. 12. gr. sbr. 1. mgr. 36. gr.

vopnalaga nr. 16/1998.“

III.

Í þriðju ákærunni sem ríkissaksóknari gefur út er höfðað opinbert mál á hendur ákærða „fyrir eftirgreind brot:

A.

             Tilraun til manndráps, með því að hafa þriðjudagskvöldið 31. ágúst 2004 á veitingastaðnum A. Hansen, Vesturgötu 4, Hafnarfirði, slegið H nokkrum sinnum í höfuðið með öxi, með þeim afleiðingum að hann hlaut tvö skurðsár á enni, tvö brot inn í ennisholu og særðist á innanverðu vinstra læri og marðist á handarbaki.

             Telst þetta varða við 211., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga með áorðnum breytingum.

B.

             Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa á sama tíma og sama stað og í A. lið greinir, slegið til I með öxinni þannig að höggið lenti í vinstra eyra hans með þeim afleiðingum að aftan við hlust hlaut hann skurð sem gekk niður í brjósk eyrans.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.“

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á öxi sem lagt var hald á við húsleit á heimili ákærða.

A, [kt. og heimilisfang] krefst þess að ákærði verði dæmdur til þess að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 589.642 krónur

Af hálfu H, [kt. og heimilisfang], er þess krafist, að ákærði verði dæmdur til að greiða honum 2.000.000 króna í skaðabætur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta samkvæmt 15. gr. sömu laga. Þá gerir H kröfu á hendur ákærða um greiðslu lögmannskostnaðar að fjárhæð 114.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.

Ákærði hefur neitað sök í öllum greinum að því undanskildu að hann hefur játað að vera sannur að sök samkvæmt ákærulið 4 í ákæru II. Einnig hefur hann viðurkennt að hafa ekið bifreið eins og honum er gefið að sök í 1. lið sömu ákæru, án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt. Ákærði hefur mótmælt bótakröfum og upptöku á öxi.

             Málið var dómtekið þann 8. desember.

             Málavextir verða raktir í þremur köflum I, II og III þannig að fyrst er fjallað um elstu ákæruna og svo koll af kolli.

I.

             Um aðdraganda þess máls segir í frumskýrslu lögreglu að lögreglumaður sem var við eftirlit á lögreglubifreið hafi veitt athygli hópi ungmenna, um tíu manns, við veitingastaðinn A. Hansen og virtist lögreglumanninum sem fólkið væri að rífast. Lögreglumaðurinn Jón Gunnar Sigurgeirsson sem gerði skýrsluna segir að hann hafi þekkt tvo úr hópnum, ákærða, sem var klæddur rauðri peysu og J. Kvaðst Jón strax hafa kallað eftir aðstoð frá lögreglumönnum sem komu fljótlega á vettvang. Segir í skýrslu Jóns að þegar hann hafi ekið að veitingastaðnum hafi komið á móti honum maður að nafni D og sagt honum að maður í rauðri peysu hafi ráðist að vini sínum, A, og slegið hann með flösku í andlitið. D sagði að sami maður hafi slegið hann með hnefa í andlitið svo og nokkra aðra vini hans sem voru í hópnum en í honum voru bæði strákar og stelpur. Á meðan Jón ræddi við D hafi A komið til þeirra og var hann með skurð í andliti við kinnbein og mikið bólginn. Sagðist A hvorki vita hvers vegna maðurinn í rauðu peysunni hafi ráðist á hann og slegið hann með flösku í andlitið né hvers vegna sá sami hafi ráðist að félögum hans. Við höggið hafi flaskan brotnað. Segir í skýrslu Jóns að á vettvangi hafi gefið sig fram K sem sagði að, ákærði hefði hótað honum því að myrða hann ef hann tjáði sig við lögreglu. Sagði K að ákærði hefði sagt þetta við sig vegna þess að hann hafi í raun verið sá eini sem vissi hver ákærði var. Sagði K að hann hefði tekið hótanir ákærða alvarlega enda umgengist ákærði menn eins og J og L sem væru stórhættulegir. Var A og öðrum sem urðu fyrir áverkum bent á að fara á slysadeild Landspítalans í Fossvogi og láta skoða áverkana. Var fólkinu bent á að koma síðar á lögreglustöð og leggja fram formlega kæru, væri það vilji þess. Vegna þeirra ásakana, að ákærði hafi slegið A með flösku í andlitið, hafi ákærði verið handtekinn og verið rætt við hann á lögreglustöð. Þar hafi hann sagt að fólkið hefði ráðist á hann og að hann hafi slegist við það í sjálfsvörn. Hvers vegna það hafi ráðist á hann viti hann ekki.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu þann 15. janúar 2004 skýrði A svo frá að hann hafi farið að skemmta sér á A. Hansen laust fyrir miðnætti, mánudagskvöldið 12. janúar s.l. ásamt unnustu sinni, M og K. Eftir miðnætti hafi bæst í hópinn þau D, N og B, sem er kærasta D. Tók A fram aðspurður að hann kannist ekki við C. Sagði A að hópurinn hafi verið kominn út af veitingastaðnum laust fyrir klukkan 01:30 og allir verið á heimleið. Sjálfur hafi hann verið lítillega undir áhrifum áfengis eftir að hafa drukkið bjór inni á staðnum.  Auk þess hafi hann séð þau M og K neyta áfengis en B sem ók fyrir hann bílnum, N og D hafi honum virst allsgáð. Skömmu eftir að A hafi komið út af veitingastaðnum hafi hann þurft að fara inn aftur til þess að komast á salernið. Á leiðinni inn á veitingastaðinn hafi ákærði sem var í  rauðri peysu varnað honum inngöngu í dyragættinni með því að standa fyrir honum og er hann spurði ákærða hvort hann mætti ekki fara inn á salernið hafi hann svarað því neitandi. Í fyrstu hafi hann haldið að ákærði væri starfsmaður A. Hansen en þegar hann sá að hann var ölvaður hafi hann áttað sig á því að svo væri ekki. Hafi hann þá ýtt ákærða til hliðar og farið inn á salernið. Þegar A kom aftur út, skömmu seinna, hafi hann séð ákærða standa fyrir framan K og öskra að honum ókvæðisorð og hafa í hótunum meðal annars um að drepa hann. Kvaðst A hafa gengið að þeim K og ákærða og lagt höndina á hægri öxl ákærða í þeim tilgangi að róa hann niður. Í sömu andrá hafi hann séð eitthvað grænt nálgast andlit sitt og áður en hann gat borið hönd fyrir höfuð sér þá hafi hann fengið mikið högg á hægra kinnbein. Í ljós hafi komið að ákærði hafði slegið hann með bjórflösku í andlitið og að bjórflaskan hafi brotnað við höggið. Við höggið hafi hann hrasað en þó ekki fallið í jörðina. K sem hafi strax hlaupið á milli hafi þá sagt honum að fara strax inn í bíl en áður en hann náði því að komast af stað, hafi ákærði náð að slá hann þrjú högg í andlitið með krepptum hnefa. Lenti fyrsta höggið á vinstra gagnauga, rétt ofan við eyrað, annað höggið lenti vinstra megin framan á ennið og þriðja höggið á hægra kinnbeini þar sem flaskan hafði lent skömmu áður. Eftir að hafa fengið þessi högg í andlitið og án þess að verja sig eða gera tilraun til þess að slá til á móti hafi honum tekist að komast í aftursæti bifreiðar sinnar sem stóð þarna skammt frá. Þegar þetta gerðist hafi B setið undir stýri í bifreiðinni. Sagði A að þetta hafi allt gerst í skjótri svipan en eftir að hann var kominn inn í bílinn hafi ákærði komið að bílnum og kýlt í rúðurnar en þegar hann gekk síðan í burtu hafi hann virst taka eftir því að rúðan bílstjóramegin var að hálfu leyti niðri og hafi hann þá hlaupið að bílnum og slegið B í andlitið með krepptum hnefa þar sem hún sat undir stýri. Kvaðst A ekki hafa séð ákærða slá neinn annan en B en haft af því spurnir að hann hefði slegið D og N. Lýsti A því í skýrslu sinni að árás þessi hafi með öllu verið tilefnislaus og að hann hafi ekki þekkt ákærða en telur að K hafi vitað deili á honum.

Tekin var vitnaskýrsla af A fyrir dómi og kom þar fram að vitnið þekkti ákærða ekki neitt þegar fundum þeirra bar saman inni á salerninu á A. Hansen. Það hafi svo verið þegar hann var að fara út af staðnum að hann varð þess var að svo virtist sem K og einhver annar væru að rífast við ákærða og menn hafi verið farnir að hækka róminn. Kvaðst vitnið þá hafa gengið að ákærða og tekið nokkuð fast í öxlina á honum aftan frá og hefði það ekki skipt neinum togum að allt hafi orðið vitlaust, ákærði hefði snúið sér og kýlt hann með flöskunni í andlitið og fleiri högg hafi fylgt í kjölfarið. Sagði vitnið að hann hafi dregið ákærða með sér niður er hann fékk flöskuna í andlitið. Sagði vitnið að hann hafi verið að skemmta sér með vinum sínum og ekki verið að sækjast eftir neinum átökum. Hann hafi séð ákærða kýla B inn um gluggann á bílnum og að höggið hafi ,,hitt í mark, en geti ekki fullyrt á hvorum vanganum það hafi lent. Vitnið hafi ekki séð ákærða slá aðra en B enda hafi hann sjálfur vankast við höggið sem hann fékk frá ákærða með flöskunni.

B skýrði frá því við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 16. janúar 2004 að hún hafi farið inn á A. Hansen, skömmu fyrir miðnætti, aðfaranótt 13. janúar 2004, ásamt kunningjum sínum C, D, N og P og að þar inni hafi þau hitt fyrir félaga sína A, K og M. Hún hafi verið allsgáð og ætlað að keyra bíl A sem hafi verið að drekka bjór ásamt M. Þegar hún seinna var á leið að bílnum hafi hún heyrt ákærða, sem hún þekkti ekki, kalla til M, sem einnig var á leið í bílinn, eitthvað á þá leið hvort hún væri að leita sér að strák til þess að gamna sér með. Hafi M snúið sér að honum og sagt eitthvað við hann og framhaldi af því hafi þau farið að rífast en K komið aðvífandi til að róa þau niður. Skömmu seinna hafi A komið til þeirra og komið við öxlina á ákærða og sagt eitthvað við hann. Um leið og A snerti ákærða þá hafi hann sveiflað hendinni og slegið A í andlitið með flösku sem brotnaði við höggið. Hafi B séð að A ætlaði að rjúka í ákærða en K hafi gengið á milli og sagt öllum að fara inn í bílana. Hafi hún sest undir stýri og A í aftursætið en K hafi fylgt M að bílnum og látið hana setjast í farþegasætið frammí. Árásarmaðurinn hafi þá komið að bílnum og byrjað að kýla í bílrúðurnar í þann mund sem hún ætlaði að bakka. Hafi hún þá stoppað strax en er henni var litið í átt að ákærða sá hún hann kýla D, hnefahögg í andlitið, sem við það féll í jörðina. Hafi hún, er hún sá þetta, hrópað á ákærða og farið um leið út úr bílnum og hafi hún þá séð hann slá C, með krepptum hnefa, í andlitið. Kvaðst hún þá hafa gengið að ákærða og spurt hann hvort ekki væri allt í lagi með hann og hefði hann þá svarað ,,þegiðu litla hóran þín”. Hafi hún þá ósjálfrátt slegið í öxl ákærða sem hafi þá reitt hnefann til höggs en hún þá spurt hvort hann ætlaði að slá hana. Við þetta hafi henni virst koma hik á hann og hann slegið laust í aðra öxl hennar og í framhaldi af því hafi hann hlaupið á eftir D sem var staðinn á fætur og hafði tekið á rás í burtu. Ákærði hafi síðan hætt að elta D og gengið á áttina að bílnum þar sem hún var nú sest undir stýri. Hafi árásarmaðurinn náð að slá hana þungt hnefahögg á hægri kinn áður en hún náði að skrúfa rúðuna upp en hún hafi verið að horfa aftur fyrir sig í sömu mund. Kvaðst B hafa farið á slysadeild eftir atvikið og hafi hún reynst mjög bólgin í andliti en óbrotin.

Tekin var vitnaskýrsla af B fyrir dómi þann 9. nóvember 2004 og lýsti hún aðdraganda þess að ákærði braut bjórflösku á andliti A á svipaðan hátt og í skýrslu sinni hjá lögreglu. Hún hafi séð A grípa í öxl ákærða sem þá sneri sér snöggt við og ,,smallaði” bjórflösku á andlitinu á A. Hún hafi ekki séð A gera neitt við ákærða áður annað en að taka rétt í öxlina á honum, en áður höfðu ákærði og M verið að öskra hvort á annað en hún hafi ekki heyrt orðaskil. Einnig kvaðst vitnið hafa séð þau M og ákærða hrækja hvort á annað en það haldi hún að hafi verið eftir að ákærði sló A með flöskunni. Lýsir hún árásinni á D á sama veg og fyrir lögreglu en að hún hafi ekki séð með eigin augum þegar ákærði kýldi C þó svo hún  hafi talið sig vita það. Sagðist vitnið aðspurt muna eftir því að flaskan sem ákærði var með hafi verið græn að lit.

Vitnið C hefur lýst því að hann hafi farið á A. Hansen umrætt kvöld ásamt D, B, N og P og hafi þau hitt félaga sína A, K og M inni á staðnum. Hann hafi sjálfur ekki neytt áfengis um kvöldið. Hafi kunningjahópurinn verið að yfirgefa staðinn um svipað leyti og hafi hann staðið fyrir utan er A fór inn aftur til þess að fara á salerni. Þá varð hann þess var að M var farin að rífast við ákærða, sem hafði sagt eitthvað við hana sem henni mislíkaði þó hann hafi ekki heyrt orðaskipti. Hafi hann séð K vera að reyna að stilla til friðar milli M og ákærða. Þegar A hafi komið út hafi hann greinilega haldið að slagsmál væru í uppsiglingu milli K og ákærða og hafi hann séð að A lagði aðra höndina á öxlina á ákærða sem þá snéri sér strax við og barði A í andlitið með bjórflösku, sem hann hafi haldið á, og hafi höggið verið svo mikið að flaskan brotnaði og þeir báðir fallið við.

Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði vitnið C, að hann hafi eftir árás ákærða á A, farið ásamt D að reyna að róa ákærða niður en það hafi ekki gengið betur en svo að ákærði kýldi D í andlitið, svo að hann steinlá, og ætlað síðan að rjúka í hann þar sem hann lá. Þegar vitnið ætlaði enn á ný að róa ákærða hafi hann sjálfur verið kýldur af ákærða en D hafi getað staðið upp og forðað sér. Höggið hafi ekki verið neitt rosalegt af því að honum hafi tekist að víkja sér eitthvað undan. Áður en þetta gerðist hafi D verið að reyna að toga ákærða frá bílnum sem hann var að berja að utan og reyna að ná M út úr. Hafi D dregið ákærða niður með sér en þegar þeir hafi staðið upp þá hafi ákærði kýlt hann. Hann hafi síðan séð ákærða elta D en  hann hafi fljótlega gefist upp á því. Ákærði hafi þá farið að bílnum þar sem B sat undir stýri og byrjað að berja hann að utan og síðan náð að slá B tvö eða þrjú högg inn um bílgluggann bílstjóramegin, að því er vitninu virtist, alveg að ástæðulausu. Hafi vitninu virst að upptök átakanna sem blossuðu upp hafi átt rót sína að rekja til þess að ákærði hafi verið með leiðindi við M og verið að kalla hana eitthvað sem hún var ekki ánægð með. Lýsti vitnið því þannig að þegar A hafi sett höndina á hægri öxl ákærða hafi sér virst eins og hann ætlaði að snúa honum við til þess að tala við hann og þá hafi ákærði snúið sér snöggt við og slegið A með bjórflöskunni.

             Vitnið D var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu þann 15. janúar 2004 og síðan fyrir dómi þann 9. nóvember sl. Kemur fram í skýrslum hans að hann hafi verið allsgáður að skemmta sér á A. Hansen umrætt kvöld og að með honum hafi verið vitnið C, N og M sem sé kærasta sín. Þegar hópurinn hafi verið að yfirgefa veitingastaðinn laust fyrir kl. 01.30 og hann verið sestur undir stýri á bíl sínum hafi hann orðið þess var að maður sem þarna var hafi kallað til M eitthvað á þá leið hvort hún vildi gamna sér í kvöld en sami maður hafði skömmu áður kallað ,,litla hóra” á eftir B þegar hún var á leið í bílinn. Þessi lýsing kemur fram í skýrslu vitnisins hjá lögreglu en fyrir dóminum kvaðst hann ekki hafa heyrt hvað sagt var. Hann hafi veitt því athygli að verið var að rífast fyrir utan og hann hafi séð er A lagði höndina á öxl ákærða sem þá hafi snúið sér við og brotið flösku á andlitinu á A. Hafi A og ákærði síðan dottið saman en verið aðskildir. Hann hafi séð að ákærði var með flösku. Eftir að ákærði hafi slegið A með flöskunni hafi M og ákærði átt einhver orðaskipti hjá bílnum og farið að hrækja hvort á annað. Hafi ákærði þá farið að berja utan bílinn en vitnið hafi reynt að toga hann frá og hafi ákærði þá dottið á hálkubletti en þegar ákærði hafi staðið upp hafi hann slegið vitnið niður. Hann segir að hann hafi ekki séð ákærða slá C sem hafi haldið fyrir andlitið er vitnið stóð upp. Hafi ákærði elt hann á hlaupum um stund en síðan snúið við og farið að bíl A og kýlt B sem sat undir stýri eitt högg, inn um bílstjóragluggann. Vitnið sagði fyrir dóminum að það geti ekkert staðhæft um það hvort ákærði hafi ætlað að slá A með flöskunni viljandi. Hann geti ekki metið hvort ákærði hafi sveiflað hendinni með þessum afleiðingum af ásetningi eða ekki. Áréttaði vitnið fyrir dóminum að hann hafi séð ákærða slá B inn um bílgluggann.

             K var yfirheyrður hjá lögreglu þann 16. janúar 2004 og síðan fyrir dómi þann 9. nóvember 2004. Í skýrslu sinni hjá lögreglu lýsti K því að hann hafi farið að skemmta sér á A. Hansen umrætt kvöld ásamt M og A og að síðar hefðu bæst í hópinn nokkrir félagar þeirra og minnti hann að fólkið hefði verið ódrukkið. Hann hafi séð ákærða, sem hann þekki í sjón, við bjórdrykkju inni á staðnum, fyrst einan og svo hafi einhver náungi sest hjá honum. Lýsti mætti því svo í lögregluskýrslu að þau hafi farið á svipuðum tíma út af veitingastaðnum og hafi hann hugsað sér að ganga heim. Fljótlega eftir að hann hafi komið út hafi hann heyrt ákærða segja eitthvað við M sem henni hafi ekki líkað og hafi hún gengið að ákærða og spurt hvað hann meinti með því að vera með sorakjaft við ókunnugt fólk. Hafi þá komið til snarpra orðahnippinga mill M og ákærða og hafi hann strax séð að í óefni stefndi og hann hafi verið sannfærður um að ákærði hafi ætlað að slá M miðað við það hvernig hann hafi horft á hana og hagað sér. Hann hafi því gengið á milli þeirra og tekið M aftur fyrir sig og sagt ákærða að hætta þessum stælum. Skyndilega hafi hann orðið þess var að M var ekki lengur fyrir aftan hann og þegar hann hafi snúið sér við hafi hann skynjað að átök ættu sér stað. Þegar hann fór að kanna hvað væri um að vera, þá hafi hann séð ákærða sveifla hendinni með bjórflösku sem hann hafi haldið á og slá A í andlitið þannig að flaskan brotnaði við höggið. Hafi þeir A og ákærði rokið saman út af þessu og hefði vitnið reynt að skilja þá að vegna þess að honum hafi sýnst A vera stórslasaður. Eftir að honum hafði tekist að skilja þá að hafi A staðið fyrir aftan vitnið en ákærði fyrir framan og reynt að slá A. Sagði vitnið að þegar heyrst hafi í sírenum á lögreglubíl sem kom aðvífandi hafi ákærði hótað því að drepa vitnið ef það kjaftaði frá. Hafi vitnið aðstoðað M við að fara inn í bílinn til A og hafi hún sest í farþegasætið frammí. Eftir að M var sest inn í bílinn hafi ákærði komið hlaupandi að bílnum og tekið að kýla í rúðurnar og er hann kom að vinstri hlið bílsins hafi hann náð að kýla B, alla vega einu sinni, í andlitið er hún var að líta til baka, en að því búnu hafi hann hlaupið burt. Kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða slá D eða C. Tók vitnið fram við skýrslugjöfina að hann teldi fulla ástæðu til þess að taka hótanir ákærða alvarlega. Fyrir dómi hefur vitnið breytt framburði sínum í verulegum atriðum og segir nú að hann hafi séð það sem hann hafi sagt í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hafi ekki séð og öfugt. Eins og að hann hafi séð A koma aftan að ákærða og taka hann hálstaki og draga hann einhvern veginn niður og að hann hafi snúið sér við til þess að rífast við M en ekki að hann hafi gert þetta af því að hann hafi haldið að hún væri ekki lengur fyrir aftan hann. Þá sagði vitnið fyrir dóminum að hann hafi, þegar hann hugsaði sig betur um, ekki séð neina flösku og sé honum nær að halda að A hafi skorist í andliti við högg sem ákærði hafi greitt honum eftir að A hafi ráðist á ákærða aftan frá. Hann kvaðst hafa verið vel fullur þegar þetta gerðist og þegar hann hafi svo gefið skýrslu hjá lögreglu þá hafi lögreglan spurt leiðandi spurninga. Þá kannast hann ekkert við að hafa átt einhver orðaskipti við ákærða fyrir utan A. Hansen í umrætt sinn. Aðspurður fyrir dómi, um það hvort ákærði hafi haft uppi hótanir í hans garð eins og hann hafi áður skýrt frá hjá lögreglu, var svar hans nánast óskiljanlegt eða já og nei og kannski eða ekkert sem hann hefur gert neina alvöru úr eftir að vitnið hitti ákærða eftir atburðinn. Var vitnið spurt hvort það muni umrædda atburði illa og var svarið að það muni voðalega lítið. Ekki reyndist unnt að fá skiljanlegt svar frá vitninu um það hvort það hafi séð upphaf átaka milli ákærða og A. Var svarið eitthvað á þá leið að vitnið hafi,, séð upphafið en það hafi séð hvað skeði fjórum sekúndum síðar eða eitthvað“.

             Vitnið N gaf skýrslu hjá lögreglu þann 22. janúar 2004 og síðar fyrir dómi þann 9. nóvember 2004. Í skýrslu sinni hjá lögreglu kvaðst hann hafa farið á veitingastaðinn A. Hansen í umrætt sinn ásamt þeim C, D, B og P. Inni á veitingastaðnum hafi verið þau M og A sem vitnið kannist lítillega við og K sem vitnið hafði ekki hitt áður. Sagðist N  hafa verið allsgáður er hann kom inn á staðinn, en hafa drukkið einn bjór á meðan hann staldraði þar við. Hafi hann farið út um svipað leyti og hópurinn og hafi verið meiningin að sameinast um tvo bíla. Þegar hann hafi komið út hafi hann veitt því athygli að M átti í útistöðum við ákærða sem hafi verið klæddur í gallabuxur og rauðleita íþróttapeysu. Hann hafi ekki vitað um tildrög ósættisins en hann hafi séð að A, kærasti M, gekk að ákærða og lagði hendi á öxl hans en ekki fylgst með því frekar. Augnabliki síðar hafi hann heyrt brothljóð og þegar hann leit við í áttina að A þá hafi hann sé að A hafði hrasað og að ákærði hafi staðið yfir honum. Kvaðst vitni hafa séð þegar A stóð upp að hann var blóðugur í framan. Hafi vitnið veitt því athygli að félagi ákærða hafi reynt að bera blak af honum og sagt að hann væri bara svona með víni. Hafi þess félagi ákærða ásamt K reynt að róa manninn og hafi sér virst sem það ætlaði að takast en þá hafi upphafist mikill æsingur og allt farið úr böndunum. Hafi vitnið séð ákærða slá D niður og C ganga á milli þegar hann virtist ætla að ganga í skrokk á D og hafi hann heyrt ákærða segja við C hvort hann vildi fá einn líka en vitnið hafi ekki séð ákærða slá C. Hafi hann séð D standa á fætur og hlaupa í burtu og ákærða fara á eftir honum. Hafi ákærði ekki hlaupið langt og fljótlega snúið til baka að bílnum og farið að berja rúðurnar í bílnum sem A, B og M sátu í. Hann hafi síðan séð það greinilega þegar ákærði  kýldi B eitt högg í andlitið með krepptum hnefa, þar sem hún sat undir stýri, en rúðan bílstjóramegin hafi verið opin til hálfs. Í þann mund hafi lögreglan komið á vettvang og hafi hann ásamt fleirum bent lögreglumönnunum á ákærða. Fyrir dóminum hefur vitnið staðfest að ókunni maðurinn sem hann talar um í skýrslu sinni hjá lögreglu og ákærði sem viðstaddur var í dómsalnum sé einn og sami maðurinn. Hann sagði aðspurður í dóminum að hann hafi séð ákærða slá D og hafi höggið lent í andliti hans og hann fallið til jarðar en hann hafi ekki séð ákærða slá C. Skýrsla vitnisins N var í góðu samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu og stangaðist endanleg frásögn hans fyrir dómi ekki á við það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu.

             Vitnið P var yfirheyrð hjá lögreglu þann 23. janúar 2004 og síðan fyrir dómi þann 9. nóvember sl. Sagði hún í skýrslu sinni að hún hafi farið  inn á A. Hansen umrætt kvöld ásamt B, C, D og N. Fyrir hafi verið inni á staðnum þau M, A og K en allt þetta fólk þekki hún að undanskildum N og K. Eftir að staðnum var lokað hafi þau öll farið út saman og hafi meiningin verið að sameinast í tvo bíla og hafi hún sjálf sest strax inn í bíl D og beðið eftir hinum. Hafi hún þá orðið vör við hávaða sem virtist vera vegna slagsmála sem hún hafi ekki séð hvernig upphófust, eða hver gerði hvað. Hún hafi orðið vitni að því þegar B hafi verið slegin í andlitið þar sem hún sat undir stýri í bíl M og A. Kvaðst hún hafa séð ákærða berja bílrúðurnar að utan og þegar hann hafi komið að glugganum bílstjóramegin þá hafi hann kýlt B eitt hnefahögg í andlitið. Auk þess hafi hún séð ákærða slá D eitt hnefahögg í andlitið, þar sem hann stóð hjá bílnum, sem varð til þess að D féll í jörðina. Hafi hún setið inni í bílnum meðan á þessu stóð. Fyrir dóminum hefur vitnið staðfest að ókunni maðurinn sem hún talar um í skýrslu sinni hjá lögreglu og ákærði sem viðstaddur var í dómsalnum sé einn og sami maðurinn. Skýrði vitnið sjálfstætt aðspurt frá á sama veg fyrir dómi og það hafði gert hjá lögreglu í öllum þeim atriðum sem skipta máli.

             Vitnið J var yfirheyrður hjá lögreglu 22. janúar 2004 og fyrir dómi þann 9. nóvember 2004. Í skýrslu hjá lögreglu lýsir hann því að hann hafi hitt ákærða inni á A. Hansen umrætt kvöld og hafi þeir setið saman við borð og drukkið bjór þar til staðnum var lokað um kl. 01.00. Þegar hann hafi komið út af staðnum þá sá hann ákærða standa fyrir framan stelpu sem hafi verið að öskra á hann einhverjar svívirðingar. Hann hafi þá séð mann sem hann hafði áður séð inni á staðnum fara rakleiðis aftan að ákærða og taka hann hálstaki aftan frá og snúa hann niður. Hafi ákærði staðið upp fljótlega og reynt að verjast árásum tveggja eða þriggja stráka sem hafi veist að honum með höggum og spörkum. Hann sagði aðspurður að hann hafi hvorki orðið var við að ákærði hafi verið með flösku í hendinni né að hann hafi barið stúlku sem sat undir stýri í bíl. Hann hafi séð ákærða hlaupa á eftir einum strákanna sem veist höfðu að honum en ákærða hafi ekki tekist að ná honum. Fyrir dómi sagði vitnið að hann og ákærði væru málkunnugir og spjölluðu saman þegar þeir hittust. Hann ítrekaði frásögn sína um að ráðist hafi verið að ákærða eins og fram kemur í skýrslu hans hjá lögreglu. Hann hafi ekki veitt því athygli hvort sá sem að ákærða réðist hafi fengið áverka en hann hafi séð að ákærði hafi fengið lítilsháttar blóðnasir og sprungna vör. Að sögn J hefðu þessir strákar, sem réðust að ákærða, komið út úr bíl sem þarna var. Sjálfur hafi vitnið staðið nálægt útidyrum veitingastaðarins meðan átökin áttu sér stað.

Q gaf skýrslu fyrir dómi þann 15. nóvember 2004. Kvaðst hann muna eftir því að hafa orðið vitni að átökum fyrir utan A. Hansen en hann muni þetta mjög illa. Hann muni eftir því að ákærði hafi losað sig úr einhverju taki með því að slá frá sér en heldur að þetta hafi ekki verið upptök átaka. Hann rekur ekki minni til þess að hafa séð neinn slá ákærða en ítrekar að hann muni þetta mjög óljóst, bæði sé langt um liðið og hann hafi kannski verið búinn að drekka þrjá eða fjóra bjóra. Tók hann fram að hann vildi sem minnst um þetta segja svo hann væri ekki að segja neina vitleysu.

M var yfirheyrð hjá lögreglu þann 21. janúar 2004 og fyrir dómi þann 15. nóvember 2004. Kvaðst hún í skýrslu sinn hjá lögreglu hafa farið umrætt kvöld að skemmta sér á A. Hansen ásamt unnusta sínum A og vini sínum K. Seinna um kvöldið hafi komið á staðinn frænka hennar B, sem hún hafði hringt í, ásamt D, C, N og P. Sagði hún að þessir krakkar hafi verið allsgáðir og hafi meiningin verið að B æki bifreið þeirra A heim. Sjálf hafi hún verið töluvert undir áhrifum. Þegar staðnum hafi verið lokað hafi verið meiningin að sameinast um tvo bíla, sem hafði verið lagt skammt frá inngangi veitingastaðarins. Þegar hún hafi verið að ganga að bílnum hafi hún veitt athygli manni sem kallaði á eftir henni eitthvað á þá leið hvort hóran vildi fá smá skemmtun. Hafi hún leitt þessi köll hjá sér og sest inn í bílinn en maðurinn, ákærði í máli þessu, hafi haldið áfram að kalla og verið með sorakjaft. Hafi þá skyndilega fokið í hana vegna þess að henni hafi ekki fundist að hún þyrfti að sitja undir svona svívirðingum frá ákærða sem hún þekkti ekkert. Hafi hún því farið út úr bílnum og gengið til ákærða, sem gekk á móti henni. Hafi hún spurt ákærða hvað honum gengi til en hann hafi öskrað á móti eitthvað sem hún heyrði ekki. Áður en fleira var sagt hafi K gengið á milli þeirra og skipað henni að fara inn í bíl en sagt við þennan mann sem hann hafi þekkti með nafni ,,Börkur róaðu þig, við erum að fara”. Hafi ákærði þá beint reiði sinni að K og farið að öskra á hann. Í þessari svipan hafi A komið út af veitingastaðnum eftir að hafa farið inn á klósettið, og hafi hann lagt höndina á öxl ákærða sem þá hafi sveiflað hendinni aftur fyrir sig. Hafi ákærði haldið á bjórflösku í hendinni sem hafnaði í andliti A og brotnaði. Hafi hún séð að mikið blæddi úr sári á andliti A. K hafi þá hlaupið til og gengið á milli ákærða og A. Mundi hún að eftir þetta hafi hún og ákærði hrækt hvort á annað. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa séð ákærða slá A eftir að hann hafði slegið hann með flöskunni. Hún hafi ekki séð ákærða slá D eða C, en frétt af því eftir á en hún hafi hins vegar séð þegar ákærði sló B eitt hnefahögg í andlitið í gegnum opinn bílglugga, en áður hafi hann barið bílrúðurnar að utan allan hringinn. Þegar ákærði sló B kvaðst vitnið hafa setið við hliðina á henni í bílnum. Fyrir dómi kvaðst hún ekki muna hvað ákærði hafi kallað til hennar og sagði að hann hafi bara verið með leiðindi og hún hafi öskrað á hann til baka. Hún muni vel þegar hún sá ákærða slá kærastann sinn með flöskunni þó hún hafi fundið til áfengisáhrifa þegar það gerðist. Sagði vitnið aðspurt að hún sé alveg viss um að A hafi ekki tekið ákærða neinu hálstaki, hann hafi bara lagt höndina á öxl hans. Hún muni ekki með hvorri hendinni var slegið með flöskunni en ákærði hafi beygt sig í hnjánum og sveiflað hendinni aftur fyrir sig. Hún muni að ákærði hafi verið með bjórflösku í hendinni þegar hún var að rífast við hann áður en hann sló A, en ekki hvaða tegund það var. Hana minni sterklega að hann hafi slegið með flöskunni með því að halda um stútinn og hafi flaskan en ekki höndin lent í andliti A. Hún hafi séð ákærða slá A einu eða tveimur höggum til viðbótar og leiðréttir það sem eftir henni er haft í lögregluskýrslu um þetta atriði þar sem haft er eftir henni að hún hafi ekki séð neitt högg eftir flöskuhöggið. Hún muni þetta síðastnefnda mjög greinilega og því sé það rangt sem segi í lögregluskýrslunni. Sagði vitnið að ákærði hafi slegið B á vinstri vangann.

Ákærði var yfirheyrður um sakarefnið hjá lögreglu þann 23. janúar 2004. Hann var einnig yfirheyrður fyrir dómi. Skýrði hann svo frá að hann hafi ekki ráðist á neinn fyrir utan veitingastaðinn A. Hansen aðfaranótt þriðjudagsins 13. janúar 2004, hann hafi þvert á móti varið sig fyrir árásum þess fólks sem hann er sakaður um að hafa ráðist á. Hann kannast við að hafa í umrætt sinn verið að koma út af A. Hansen og þá hafi stelpa, sem var í hópi þeirra sex sem á hann réðust, farið að rífa kjaft um leið og hann kom út og hann hafi bara svarað henni. Þá hafi hann ekki vitað fyrr til en hann hafi verið tekinn hálstaki aftan frá og snúinn niður. Í framhaldinu hafi komið fimm til viðbótar stelpunni stökkvandi út úr bílum og hafi þeir rokið í ákærða og sparkað í hann. Hann hafi náð að standa upp og slegið frá sér eftir mætti og reynt að verja sig fyrir höggum og spörkum. Kvaðst ákærði ekki þekkja neinn úr þessum hópi og ekki hafa hugmynd um hvers vegna þeir réðust á hann. Hann kannast ekki við að hafa slegið stúlku inn um bílglugga eða að hafa verið með glerflösku eða glas í höndunum þegar hann hitti fólkið. Skýrði ákærði svo frá að hann telji að A, sem hann er sakaður um að hafa slegið með glerflösku og greitt þrjú  hnefahögg í andlitið, hafi ekki orðið fyrir neinni árás þarna um kvöldið. Sagði ákærði að það væri öruggt að hann hafi slegið A og ef til vill fleiri sem hann muni ekki hverjir voru. Hann hafi engan þekkt þarna nema Q sem starfi á DV. Aðspurður sérstaklega kvaðst ákærði ekki þekkja K nema úr málskjölum.

Niðurstaða

Fram er komið að átök áttu sér stað fyrir utan veitingahúsið A. Hansen í Hafnarfirði á öðrum tímanum eftir miðnætti þann 13. janúar 2004. Gáfu sig þar fram við lögreglu fjögur ungmenni; A, B, C og D, sem öll sögðust hafa orðið fyrir barsmíðum af hálfu ákærða. Liggja frammi í málinu læknisvottorð sem staðfesta að þau leituðu öll til slysadeildar Landspítalans í Fossvogi af þessum sökum og kemur fram í þeim að þau hafi hlotið áverka í samræmi við það sem greint er frá í ákæru. Fyrir liggur að ákærði leitaði ekki til slysadeildarinnar þrátt fyrir að hann haldi því fram að á hann hafi verið ráðist af hópi fólks sem þessi ungmenni tilheyrðu. Kom fram í máli ákærða fyrir dóminum að öruggt væri að hann hafi slegið A og ef til vill fleiri auk þess sem hann sagði að A hefði ekki orðið fyrir annarri árás þarna um nóttina. Ber vitnunum A, B, C, D og M öllum saman um að ákærði hafi slegið A í andlitið með glerflösku sem hafi brotnað við höggið. Í vitnisburði A kemur að auki fram að ákærði hafi þessu til viðbótar slegið hann þrjú högg í andlitið. Fær það stoð í framburði M, sem kvaðst hafa séð þessi meintu þrjú viðbótarhögg, og í framlögðu læknisvottorði.

Vitnið K sagði í vitnisburði sínum hjá lögreglu að hann hafi séð ákærða sveifla hendinni með bjórflösku sem hann hafi haldið á og slá A með henni í andlitið þannig að flaskan hafi brotnað við höggið. Fyrir dómi breytti K framburði sínum og sagði að hann hafi ekki séð neina flösku og hann haldi að A hafi skorist í andliti við högg sem ákærði hafi greitt honum eftir að A hafi ráðist að ákærða aftan frá. Þá breytti vitnið einnig framburði sínum varðandi upphaf átaka, sagðist hafa séð upphafið fjórum sekúndum eftir að það átti sér stað og undirstrikaði að það muni atvik mjög illa. Að mati dómenda er hinn breytti framburður vitnisins svo ruglingslegur að ekki verður neitt á honum byggt. Ákærði hefur borið að A hafi ráðist aftan að sér og snúið sig niður og hann hafi sjálfur átt hendur sínar að verja auk þess sem hann neitar því staðfastlega að hafa verið með flösku í hendinni. Áðurgreind vitni önnur en A hafa borið fyrir dóminum að A hafi lagt höndina á öxl ákærða sem hafi brugðist við með því að slá A með flöskunni. A sagði fyrir dómi að hann hafi tekið nokkuð fast í öxlina á ákærða sem hafi þá snúið sér og kýlt hann með flöskunni í andlitið. Þrátt fyrir þessa lýsingu A á aðdraganda höggsins með flöskunni er það álit dómsins að hin alvarlega árás með flöskuna að vopni sem fylgdi í kjölfarið hafi ekki verið í neinu réttlætanlegu samhengi við það sem á undan var gengið.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið þykir vera fram komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið A í andlitið með glerflösku með þeim afleiðingum sem lýst er í A lið ákæru og hafa með því gerst sekur um brot sem varðar við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, samanber til hliðsjónar dómur Hæstaréttar frá 1. apríl 2004 í máli nr. 42/2004 og dómur frá 14. október 2004 í máli nr. 170/2004. Þá er ennfremur sannað að hann hafi slegið A þrjú hnefahögg í andlitið.

Ákærði er einnig sakaður um að hafa slegið B hnefahögg í andlitið þetta sama kvöld. Í vitnisburði B kemur fram að hún hafi verið allsgáð og setið í ökumannssæti bifreiðarinnar þegar ákærði hafi komið þar að og verið að munnhöggvast við hana. Hafi þessum viðskiptum þeirra lokið með því að ákærði náði að slá hana þungt hnefahögg á hægri kinn áður en hún náði að skrúfa upp rúðuna bílstjóramegin. Hún hafi verið að horfa aftur fyrir sig þegar ákærði sló hana og hafi höggið þess vegna lent á hægri kinn hennar. Vitnin A, C, D, N, M, K og P hafa borið að þau hafi séð ákærða slá B hnefahögg í andlitið inn um opinn bílglugga. Þrátt fyrir að ákærði kannist ekki við að hafa í umrætt sinn slegið neina stúlku inn um bílglugga þá þykja áður raktir vitnaframburðir renna traustum stoðum undir það að lögfull sönnun sé fram komin fyrir sekt ákærða. Nýtur þessi niðurstaða einnig stuðnings af læknisvottorði sem liggur frammi í málinu. Er þannig sannað að ákærði hafi greitt B hnefahögg með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hefur hann því unnið til refsingar fyrir brot gegn henni.

Ákærði er í ákæru þeirri sem hér er til umfjöllunar einnig borinn þeim sökum að hafa slegið vitnið C hnefahögg í andlitið í umrætt sinn. Í framburði C kemur fram að hann hafi ásamt vitninu D ætlað að reyna að róa ákærða niður eftir árásina á vitnið A, en það hafi ekki gengið betur en svo að hann hafi sjálfur verið kýldur af ákærða. Sagði vitnið B, hjá lögreglu, að hún hafi séð ákærða slá C með krepptum hnefa í andlitið en fyrir dómi kvaðst hún ekki hafa séð þetta með eigin augum en talið sig vita þetta. Vitnisburður C nýtur stuðnings í fyrirliggjandi læknisvottorði. Telst því komin fram lögfull sönnun fyrir sekt ákærða af þessum ákærulið enda gengur það ekki gegn því sem ákærði sagði sjálfur, að hann hafi slegið fleiri en A þarna um kvöldið. Hefur ákærði því gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um í þessum ákærulið með þeim afleiðingum sem þar greinir. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í þessari ákæru er ákærði einnig borinn þeim sökum að hafa slegið vitnið D hnefahögg í andlitið þetta sama kvöld. Í framburði D kemur fram að hann hafi reynt að toga ákærða frá bíl þeim sem M og B sátu í með þeim afleiðingum að ákærði datt á hálkubletti. Þegar ákærði hafi staðið upp hafi hann slegið vitnið niður. Er framburður vitnisins C á sömu lund en hann sagði að D hafi verið að reyna að toga ákærða frá bílnum sem hann var að berja að utan og reyna að ná M út úr. Hafi D dregið ákærða niður með sér en þegar þeir hafi staðið upp hafi ákærði kýlt D. Vitnin B, N og P hafa öll borið að þau hafi séð ákærða kýla D í andlitið eða slá hann niður eins og vitnið N orðaði það. Ákærði hefur ekki neitað því að hafa kýlt D en borið fyrir sig að hann hafi verið að verjast árásum hans. Þykir það sem nú hefur verið rakið taka af öll tvímæli um sekt ákærða samkvæmt þessum ákærulið. Nýtur sú niðurstaða auk þess stuðnings af fyrirliggjandi læknisvottorði. Þykir það því hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um í þessum ákærulið með þeim afleiðingum sem þar greinir. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt þessu telst ákærði sannur að sök í öllum greinum þessarar ákæru. Ekki þykir dómendum trúverðug sú skýring ákærða að hann hafi slegið alla þá sem urðu fyrir barsmíðum hans vegna þess að hann hafi átt hendur sínar að verja vegna þess að sótt hafi verið að honum. Stangast þessi skýring ákærða á við alla vitnaframburði aðra en framburð J. Fyrir liggur að ákærði lagði enga kæru fram eða leitaði sér læknisaðstoðar. Þá verður að telja það algjöra fjarstæðu að stúlkan B hafi sótt að ákærða þar sem hún sat undir stýri með lokaða bílhurð. Þá þykir dómendum ekki trúverðugur sá framburður ákærða að upptök átakanna við A hafi verið með þeim hætti að A hafi komið aftan að ákærða og snúið hann niður að fyrra bragði. Þykir framburður kunningja ákærða J, sem er samhljóða framburði ákærða að þessu leyti ekki trúverðugur ekki síst vegna þess að þetta var það eina sem hann sá sem máli skipti á vettvangi. Er framburður J einsleitur að því leyti að hann veitir engu athygli nema því sem gæti hugsanlega þjónað málstað ákærða auk þess sem hann er í algjöru ósamræmi við framburð allra annarra vitna.

Er því niðurstaðan sú að ákærði eigi sér engar málsbætur í þessum þætti málsins og að hann hafi unnið til refsingar eins og krafist er í ákæru.

II.

Tildrög ákæruefnis 1. liðar þessa ákæruskjals er þannig lýst í frumskýrslu lögreglu að lögreglumenn sem voru við eftirlit þann 15. mars 2003 við gatnamót Hafnarfjarðar- og Vífilstaðavegar hafi veitt athygli bifreiðinni JY-891 sem hafi verið ekið yfir gatnamótin eftir að rautt umferðarljós hafði kviknað er bifreiðin átti ófarna u.þ.b. þrjár bíllengdir að stöðvunarlínu. Hafi þeir stöðvað bifreiðna og reyndist ökumaður sem var ákærði vera með útrunnin ökuréttindi.

Um þennan lið ákærunnar frá 18. ágúst 2004 sagði ákærði fyrir dóminum að það sé rétt að hann hafi ekið án þess að vera með endurnýjað ökuskírteini en neitaði að hafa ekið gegn rauðu ljósi því ljósið hafi verið gult. Hann hafi verið búinn að uppfylla öll skilyrði til þess að fá endurnýjað ökuskírteini en átt eftir að fá skírteinið.

Um tildrög atburða sem 2. liður ákærunnar á rót sína að rekja til kemur fram í frumskýrslu lögreglu að lögreglan hefði verið kölluð til veitingastaðarins A. Hansen þann 30. október 2003 kl. 00:37. Þar hafi lögreglumenn hitt E sem hafi sagt þeim frá því að hann orðið fyrir barsmíðum af hálfu ákærða. Lýsti E atburðarásinni og tilefninu efnislega þannig að hann hafi um það bil tveimur vikum áður boðið ákærða aukavinnu sem hann hafi ekki þáð. Þvert á móti þá hafi hann móðgast við þetta boð. Þarna um kvöldið hafi hann hitt ákærða inni á salerninu á A. Hansen og hafi þetta mál þá borist í tal milli þeirra. Hafi E sagt að hann hafi reynt að gera gott úr þessu og beðið ákærða afsökunar. Ákærði hafi ekki viljað taka afsökunarbeiðninni og hafi E þá ætlað að fara út af salerninu en ákærði varnað honum útgöngu. Hafi E þá farið inn á bás sem er þarna innandyra, til þess að ná sér í pappírsþurrku en þegar hann hafi svo snúið sér við hafi hann fengið hnefahögg í andlitið og hafi 5 til 6 högg fylgt í kjölfarið og hafi svo farið að hann féll í gólfið. Hafi ákærði haldið áfram barsmíðum og slegið sig þrjú högg til viðbótar í höfuðið og sparkað í bakið á honum. Að þessu búnu hafi ákærði farið út af salerninu. Segir í skýrslunni að lögreglumennirnir hafi fengið ákærða sem var enn á staðnum til þess að ræða við þá og hafi ákærði sagt að hann hafi ekki lagt hendur á einn né neinn og vildi ekki tjá sig frekar um málið. Segir í skýrslunni að ákærði hafi verið með blóðuga rispu á vinstri handlegg og hruflaðan olnboga en ekki hafi verið að sjá nein sérstök ummerki á hnúum hans. Höfundur skýrslunnar, Heiðar Bragi Hannesson lögreglumaður, lýsir því að hann hafi rætt við R sem hafi verið þarna og hafi hann sagt að E hafi farið á salernið og þegar hann hafi komið til baka hafi hann verið allur útkýldur. Er R hafi leitað skýringa hafi E sagt honum hvað gerst hafði og hafi R þá talað við ákærða sem hafi sagt honum frá aukavinnutilboðinu sem E hefði móðgað hann með og síðan sagt við sig orðrétt: ,,Ég bankaði hann nokkur högg”. Í skýrslunni segir að á salerninu hafi mátt sjá blóð á gólfinu og á vaskinum.

Var ákærði inntur eftir því fyrir dómi hvort hann kannaðist við að hafa slegið E nokkur högg í andlit, eins og þar lýst er í 2. lið ákærunnar og svaraði hann því til að hann muni ekki eftir því að hafa slegið hann. Hann minnist þess að hafa verið staddur á A. Hansen umrætt kvöld og að þar hafi E einnig verið en þeir hafi eitthvað lítið rætt saman. Ekki minnist ákærði þess að hafa hitt E á salerninu og rætt þar við hann. Sagði ákærði að hann hefði verið með S en hann hafi ekki slegið nokkurn mann, hvorki þar né annarsstaðar þetta kvöld.

E var yfirheyrður hjá lögreglu vegna þessa atviks þann 30. október 2003 og síðan fyrir dómi þann 9. nóvember 2004. Framburður E fyrir lögreglu er sama efnis og rakið er í frumskýrslu lögreglu og greint er frá hér að ofan að því undanskildu að við yfirheyrsluna lét E þess getið að eftir að ákærði hafi sparkað í bakið á honum hafi hann sagt: ,, Þú hefur um tvennt að velja, reynt að gera eitthvað við mig eða biðja mig almennilega afsökunar.” Fyrir dómi sagði E að hann og ákærði hafi ekki verið neinir vinir en vitað hvor af öðrum. Hann lýsir aðdraganda árásarinnar fyrir dóminum á mjög líkan hátt og hann hafði áður gert hjá lögreglu en getur þess að hann hafi verið á veitingastaðnum með vini sínum R. Sagði vitnið að ástæðan fyrir því að hann bauð ákærða vinnu hafi verið að hann hafi vitað að ákærði væri duglegur í vinnu og að hann vantaði aðstoðarmann.

S sagði í vitnisburði sínum fyrir dóminum þann 9. nóvember sl. að hún hafi setið að spjalli við ákærða umrætt kvöld uppi á lofti á A. Hansen en hún hafi ekki orðið vitni af neinum átökum milli ákærða og E en þeir hafi átt einhver orðaskipti eða verið eitthvað að rífast. Hún sagði að ákærði hafi af og til þurft að fara á salernið enda hafi þau verið að drekka bjór og kannast við að hann hafi verið í uppnámi áður en hann fór á salernið. Hún kannaðist við er hún gaf skýrslu hjá lögreglu þann 3. nóvember 2003 að R hafi komið að borðinu þar sem þau sátu og að þeir hafi verið að rífast um einhvern kunningja þeirra.

R var yfirheyrður fyrir dómi þann 9. nóvember 2004 og lýsti hann atburðum á sama veg og haft er eftir honum í frumskýrslu lögreglu og rakið er hér að ofan. Vísaði hann til skýrslu sinnar hjá lögreglu frá 4. nóvember 2003. Lét vitnið þess getið að hann og E væru góðir vinir. Hann man ekki nú eftir að hafa séð áverka á E þarna um kvöldið á A. Hansen en daginn eftir hafi E verið orðinn eitthvað bólginn.

T gaf vitnaskýrslu fyrir dómi þann 8. desember sl. og kvaðst hann muna eftir þessu atviki sem hann hafi þó ekki séð en ákærði hafi sagt honum að hann hafi bankað eitthvað í E vegna þess að hann hafi verið vanvirða sig með því að bjóða honum eitthvert skítastarf.

Tildrög sakarefnisins á 3. lið ákærunnar voru að U fór ásamt dóttur sinni V og fleirum að sækja muni sem V átti heima hjá ákærða að Bröttukinn 18 og í fylgd með þeim voru lögreglumenn.

Um þetta sakarefni segir ákærði að hann hafi ekki ráðist á U heldur hafi hann sjálfur orðið fyrir árás af hálfu U og lögreglunnar í Hafnarfirði og það eina sem hann hafi gert hafi verið að reyna að verja sig. Erindi U og lögreglunnar hafi verið að sækja inn á heimili sitt ýmsa muni fyrir V sem hafi búið þar með honum til skamms tíma og þegar U var að taka sjónvarpið þá hafi ákærði þvingað hann til að setja það niður og í framhaldi af því hafi U slegið til hans og þeir lent í átökum og þá hafi hann kýlt U. Hafi U og lögreglan átt upptök að átökunum og hafi U verið vopnaður hamri. Hann hafi litið á þennan stað sem heimili sitt en V hafi farið af heimilinu skömmu fyrir áramótin. Kannast ákærði við að U hafi farið niður, eins og hann orðaði það, í stimpingunum milli þeirra, en höggið sem hann greiddi U hafi komið í kviðinn á honum en ekki í brjóstkassann.

Fyrir dóminn kom sem vitni V sambýliskona ákærða en hún kaus að bera vitni í málinu. Sagði vitnið aðspurt um þá atburði, sem lýst er í 3. lið ákæru í dómskjali nr. 4 og gerðust að Bröttukinn 18 í Hafnarfirði að hún hafi á þeim tíma ekki verið í sambúð með ákærða en ákærði hafi þá átt þar lögheimili eins og hún.

Sagðist hún hafa í umrætt sinn átt það erindi að Bröttukinn 18 að sækja þangað dótið sitt, sem hún hafi viljað fá, og hafi faðir hennar og mágur hennar auk móðurbróður og systur verið með henni í för. Kvaðst vitnið hafa verið mjög reið út í ákærða á þessum tíma. Kannaðist hún við að faðir hennar hafi verið með hamar meðferðis sem hann hafi ætlað að nota til þess að brjóta rúðu eða þess háttar til þess að komast inn bæri til þess nauðsyn. Kvað V ákærða hafa verið heima þegar þau komu á staðinn og er hún hafi bankað hafi ákærði sagt að hann gæti hleypt henni inn en ekki hinu fólkinu. Hafi þetta leitt til átaka og hefði faðir hennar sett fótinn fyrir dyrnar en ákærði samt lokað en síðan hefði lögregla ruðst inn eftir einhver orðaskipti. Hún hafi ekki séð nein högg eða átök á staðnum milli ákærða og U föður hennar önnur en þegar faðir hennar ýtti ákærða frá en hún hafi þá snúið sér frá þeim og þegar hún hafi litið við aftur þá hafi lögreglan verið að ,,taka ákærða niður”. Sagði vitnið að þegar hún hafi komið inn í íbúðina þá hafi ákærði setið þar að drykkju ásamt tveimur vinum sínum og hafi hún af þeim sökum orðið mjög reið.

Vitnið W var yfirheyrður fyrir dómi þann 9. nóvember sl. og sagði hann að ákærði og hann hafi verið vinir frá barnæsku. Hann hafi verið staddur að Bröttukinn 18 umræddan dag en hafi ekki orðið vitni að átökum milli ákærða og U nema þegar U var að reyna komast inn í íbúðina þá hafi U hrint ákærða frá.

U var yfirheyrður hjá lögreglu þann 28. janúar 2004 og fyrir dómi þann 9. nóvember 2004. U vísaði í upphafi skýrslu sinnar fyrir dómi til skýrslnanna sem hann gaf hjá lögreglu þann 12. og 28. janúar 2004 sem hann kvaðst hafa lesið yfir og sagði að þar væri allt rétt eftir sér haft. Sagði hann að tilefnið til þess að hann fór að Bröttukinn 18 umræddan dag hafi verið að hann hafi að beiðni dóttur sinnar farið með henni þangað til þess að ná í hluti sem hún átti þar. Hafi ákærði ekki viljað hleypa þeim inn sem endaði með því að hann hafi ruðst inn. Hafi lögreglan og hópur aðstandenda sem ætluðu að hjálpa til við að flytja búslóðina úr íbúðinni komið með inn. Þegar til átti að taka og byrjað var að flytja búslóðina út hafi ákærði veitt viðnám og viljað hindra að þau bæru búslóðina út sem leiddi til þess á endanum að ákærði hafi slegið hann bylmingshögg í bringuna en eftir það högg hafi lögreglan tekið ákærða úr umferð. Hann sagðist ekki hafa lent í neinum öðrum átökum. Hann segist hafa verið að ganga að sjónvarpstæki sem hann hafi vitað að dóttir hans V átti þegar ákærði sló hann, til þess að varna því að hann tæki tækið, eins og áður greinir.

Sverrir Guðfinnsson, lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi og sagði að þegar komið var að því að bera dótið út hafi ekki verið mikill ágreiningur fyrr en kom að sjónvarpinu, þá hafi þau deilt um það, ákærði og V, hvort þeirra ætti það, og þegar faðir V, U, hafi ætlað að taka sjónvarpið hafi það endað með því að ákærði sló hann. Hafi lögreglumennirnir þá handtekið ákærða. Hann muni ekki hvar höggið lenti en minnti að það hafi lent á efri hluta líkamans, höfði, öxlum eða bringu. Hann muni ekki til þess að ákærði hafi fengið á sig högg.

Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum þær sakir sem á hann eru bornar í 4. lið ákærunnar.

Niðurstaða

Í 1. lið þessa kafla málsins er ákærði sakaður um brot gegn umferðarlögum, með því að hafa, mánudagskvöldið 15. september 2003, um kl. 23.15, ekið bifreiðinni JY-891, án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt, suður Hafnarfjarðarveg, Garðabæ, og áfram yfir gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilstaðarvegar, gegn rauðu umferðarljósi.

Um þennan lið ákærunnar frá 18. ágúst 2004 sagði ákærði fyrir dóminum að það sé rétt að hann hafi ekið án þess að vera með endurnýjað ökuskírteini en neitaði að hafa ekið gegn rauðu ljósi því að ljósið hafi verið gult.

Gegn neitun ákærða þykir ekki unnt að sakfella hann fyrir að hafa ekið gegn rauðu ljósi enda hefur ákæruvaldið ekki rennt viðhlítandi stoðum undir þær sakargiftir. Verður ákærði því sýknaður af því að hafa brotið 1. og 2. mgr. 5. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hefur ákærði því aðeins unnið til refsingar fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. laganna, sem telst sannað með játningu hans.

Í 2. lið er ákærði sakaður um líkamsárás, með því að hafa, um miðnættið fimmtudaginn 30. október 2003, slegið E, nokkur högg í andlit þar sem þeir voru staddir á salerni veitingastaðarins A. Hansen, Strandgötu í Hafnarfirði, með þeim afleiðingum að E hlaut sár í munnholi og mar í andliti.

Í vitnisburði E kemur fram að hann hafi hitt ákærða á salerninu umrætt kvöld og að borist hafi í tal þeirra á milli aukavinnutilboð sem E hafi gert ákærða nokkru áður. Hafi ákærði móðgast vegna þessa boðs en þrátt fyrir afsökunarbeiðni E hafi ákærði gengið í skrokk á honum á salerninu. Ákærði hefur borið að hann hafi ekki slegið neinn mann þetta kvöld en minnist þess að hafa verið á staðnum og hitt E þar og rætt lítillega við hann. Vitnið R sem var á staðnum hefur borið að hann hafi séð E koma út af salerninu, útkýldan, og er hann hafi leitað skýringa hafi E sagt hvað gerst hafði. R kvaðst þá hafa rætt málin við ákærða sem hafi sagt honum frá hinu móðgandi atvinnutilboði og síðan sagt við sig orðrétt: ,,Ég bankaði hann nokkur högg”. R bar að hann muni ekki eftir því að hafa séð áverka á E er hann kom út af salerninu en hann hefði verið orðinn bólginn daginn eftir. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð E sem byggt er á sjúkraskýrslum Slysa- og bráðadeildar LSH í Fossvogi sem E leitaði til í kjölfar meintrar líkamsárásar þann 30. október 2003. Þykir vottorðið renna stoðum undir trúverðugleika frásagnar E um að hann hafi orðið fyrir líkamsárás með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru. Vitnið T sem var við störf á A. Hansen umrætt kvöld hefur borið að hann muni eftir þessu atviki sem hann þó hafi ekki séð gerast en ákærði hafi sagt honum að hann hafi bankað eitthvað í E vegna þess að hann hafi boðið honum eitthvert skítastarf.

Þegar það er virt í heild sinni, sem nú hefur verið rakið, ekki síst það sem vitni hafa eftir ákærða, þykir mega slá því föstu að fram sé komin lögfull sönnun fyrir sekt ákærða af þessum ákærulið og að hann hafi með háttsemi sinni unnið til refsingar fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Augljóst þykir að ákærði á sér engar málsbætur vegna þessa brots.

Í 3. lið er ákærði sakaður um líkamsárás, með því að hafa sunnudaginn 11. janúar 2004, um kl. 15.04 slegið U, með krepptum hnefa í kviðinn þar sem þeir voru staddir í íbúð á neðri hæð við Bröttukinn 18, Hafnarfirði.

Um þetta ákæruefni hefur vitnið U sagt að hann hafi farið að Bröttukinn ásamt dóttur sinni að sækja hluti sem hún átti þar. Hafi ákærði ekki viljað hleypa þeim inn en á endanum hafi hann ruðst inn ásamt lögreglu. Þegar byrjað var að flytja búslóðina út hafi ákærði veitt viðnám og reynt að hindra það og hafi þetta leitt til þess að ákærði sló hann fyrirvaralaust bylmingshögg í bringuna.

Ákærði bar að hann hafi ekki ráðist á U heldur hafi U ásamt lögreglunni ráðist á sig. Þegar U hafi verið að taka sjónvarpið hafi ákærði þvingað hann til þess að láta það niður og í framhaldi af því hafi U slegið til hans og þeir lent í átökum.  Þá hafi hann kýlt U og hafi höggið sem hann greiddi U lent í kviðnum en ekki á brjóstkassanum.

Vitnið Sverrir Guðfinnsson bar að þegar F hafi ætlað að taka sjónvarpið hafi það endað með því að ákærði sló hann og hafi lögreglan þá handtekið ákærða. Hann kvaðst ekki muna hvar höggið lenti á U en minnir að það hafi lent á efri hluta líkamans, höfði, öxl eða bringu. Í læknisvottorði sérfræðings á Slysa-og bráðadeild LSH sem skoðaði U, daginn eftir umræddan atburð, er högginu lýst þannig að ,,honum hafi verið greitt rokna bylmingshögg undir hægra rifjabarð”. Var niðurstaða læknisskoðunar samkvæmt vottorðinu að U væri rifbrotinn. Vitnið V bar að hún hafi ekki séð nein átök á staðnum milli ákærða og U föður hennar önnur en að faðir hennar hefði ýtt ákærða frá. Hafi hún þá snúið sér frá þeim en þegar henni var litið við aftur hafi lögreglan verið að handtaka ákærða.              Framangreint leiðir að mati dómsins til þeirrar niðurstöðu að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þessum ákærulið. Þá er það mat dómsins að líkamsárásin hafi verið tilefnislaus og ákærði eigi sér engar málsbætur. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð í ákæru undir 1. mgr 218. gr. almennra hegningarlaga.

Í 4. lið ákæru er ákærði borinn sökum fyrir vopnalagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 11. janúar 2004, orðið uppvís að því að hafa í vörslum sínum Remington 1187, hálfsjálfvirka, þriggja skota haglabyssu með viðarskefti, seríunúmer PC725708, án heimildar og tilskilins leyfis, en vopnið fannst undir baðkeri á heimili hans, Bröttukinn 18, Hafnarfirði, við húsleit lögreglu umrætt sinn. Ákærði hefur játað sök samkvæmt þessum ákærulið. Engin ástæða þykir til að efast um sannleiksgildi þeirrar játningar og telja ákærða sannan að sök. Telst háttsemi þessi varða við 1., sbr. 2. mgr. 12. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

III.

Í frumskýrslu lögreglu um tilurð sakarefnisins í þessum þætti málsins segir að tilkynning hafi borist frá Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar, um kl. 22:29 þann 31. ágúst 2004, um að maður hafi verið höggvinn í andlitið með öxi á veitingastaðnum A. Hansen. Þegar komið var á vettvang voru um 20 manns fyrir utan veitingastaðinn og þar á meðal tveir slasaðir menn. Var annar þeirra H sem var með djúpan skurð við nef og auga en hinn I, sem var með skurð á og við eyra. Voru þeir báðir með fullri meðvitund en virtust í mikilli geðshræringu og af þeim sökum hafi lítið verið hægt að ræða við þá. Var rætt við þá Þ og Æ og sagði Þ að hann hafi setið á móti H og séð þegar ákærði kom upp stigann sem liggur upp á aðra hæð veitingahússins. Hafi ákærði ráðist beint að H þar sem hann sat í makindum sínum í sófa ásamt öðrum. Virtist honum sem ákærði hafi vitað nákvæmlega hvar H sat. Hafi hann gengið rakleitt að H og slegið nokkrum sinnum í andlit hans með lítilli öxi, nokkurs konar hamaröxi, og síðan flýtt sér af staðnum. Æ sagði að hann hafi séð hvar ákærði kom aðvífandi með öxi og sló H nokkur högg í höfuðið með henni. Hélt hann að höggin hafi verið fjögur. Var rætt við I um kl. 01:20 og sagði hann að hann hafi staðið fyrir aftan ákærða þegar hann var að slá H með öxinni og hafi hann fengið öxina í sig þegar ákærði sveiflaði henni aftur fyrir sig til þess að slá H.

Var farið með H á slysadeild LSH strax eftir atburðinn og segir í samantekt í vottorðinu m.a.: ,,Tvö skurðsár á enni eftir eggvopn, einnig brot inn í ennisholu á 2 stöðum.” Þar segir einnig að hann hafi verið með smá sár innanvert á vinstra læri og mar í kring, einnig var hann marinn á handarbaki hægra megin.

Var ákærði handtekinn á heimili sínu að Bröttukinn 18 kl. 23:10 sama kvöld. Síðdegis þann 1. september sl. var farið á heimili ákærða að Bröttukinn 18 og V, sambýliskona hans, innt eftir því hvort hún hefði einhverja vitneskju um öxi eða annað verkfæri sem ætla mætti að sambýlismaður hennar hafi notað við líkamsárásina. Hafi hún ekki sagst vita um neina öxi eða neitt slíkt. Heimilaði V húsleit. Skömmu eftir að leit hófst hafi fundist í eldhússkúffu lítil öxi með rauðum haus, nánar tiltekið í þriðju skúffu ofanfrá, þar sem geymd voru samanbrotnar diskaþurrkur. Hafði öxin verið hulin undir diskaþurrku en ekkert annað en öxin og diskaþurrkurnar hafi verið í skúfunni. Haft var eftir V að hún hafi ekki vitað um öxina þarna.

Vitnið H var yfirheyrður bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi. Var fyrst tekin af honum lögregluskýrsla á Landspítala daginn eftir atburðinn. Sagði hann þá að hann hafi kvöldið áður farið á A. Hansen og setið þar að spjalli við Ö og I í sófa á annarri hæð. Er hann hafði verið þar í um það bil hálftíma hafi ákærði komið aðvífandi og lamið sig í höfuðið með einhverju áhaldi og síðan rokið út af staðnum. Hafi ákærði barið hann nokkrum sinnum en hann hafi náð að verja sig með hendinni og þannig borið af sér þyngstu höggin. Hann kvaðst ekki hafa getað áttað sig á því hvort áhaldið hafi verið rör eða öxi. Í skýrslu sem tekin var við rannsókn málsins þann 3. september sl.sagði H að hann hafi setið í sófanum og verið að ræða við strák sem einnig hafi fengið þessa öxi  í höfuðið. Hann hafi ekki séð það gerast sjálfur en hafa þetta eftir öðrum. Kvaðst H hafa séð þegar ákærði kom upp stigann en ekki gefið því frekari gaum en síðan hafi hann fengið þungt högg í höfuðið. Hafi hann reynt að verjast höggunum en ákærði hafi þó náð að berja hann tvisvar í andlitið með öxinni. Þegar ákærði hafi ætlað að halda barsmíðunum áfram þá hafi strákurinn sem sat við hliðina á honum náð að stoppa þessa morðtilraun sem hann kallaði svo. Framburður H fyrir dómi þann 16. nóvember 2004 var á sömu lund. Fram kom að engin orðaskipti hafi átt sér stað fyrir árásina og að hann hafi ekki séð ákærða fara út vegna þess að hann hafi ekkert séð þar sem að blóð hafi fossað úr sárinu á enninu eftir höggin. Nefndi H að hann hafi átt í útistöðum áður við ákærða og minntist þess að þeir hafi rifist fullir fyrir eins og ári síðan á A. Hansen og hafi starfsmenn þá haft afskipti af þeim. Í annað skipti, seinna á þessu ári, hafi ákærði lamið hann í klessu á sama stað, en hann muni ekki hvenær það var. Aðspurður hélt H að þessi óvild gæti eitthvað tengst því að X, fyrrum sambýlismaður og barnsfaðir V, sambýliskonu ákærða, er vinur hans. Nánar aðspurður sagði H að það geti hafa verið í mars sl. sem þeir áttu áður í átökum á A. Hansen en þá hafi ákærði ráðist á sig en ekki öfugt. Hann kannast aðspurður ekki við að hafa slegið úr ákærða tönn. Hann sagði að honum væri kunnugt um óvild milli ákærða og X og að ákærði hafi lamið X. Taldi H að ákærði hataði sig fyrir að vera vinur X. Sagði H að um kvöldið 31. ágúst sl. hafi veitingahúsið verið troðfullt af fólki. Hann sagði aðspurður að hann muni ekki hvernig ákærði hafi verið klæddur, sjálfur hafi hann verið í gallabuxum og peysu og ekki með neitt verkfæri á sér. Hann hafi orðið ákærða var er hann kom upp stigann en sjálfur var hann þannig staðsettur að hann sá niður í stigann.  Hann sagði að hann hafi ekki náð að verjast fyrstu tveimur höggunum en hann telur að höggin hafi verið fjögur. Tvö hafi lent í höfði hans, eitt í læri en einu hafi hann varist. Hann sagði að þetta hefði allt gerst á örskotsstundu. Sagði H að það hafi verið strákur sem heitir Y sem hafi sagt honum fyrst er hann var á leiðinni í sjúkrabílinn að öxi hafi veri beitt. H sagði þegar borin var undir hann fullyrðing ákærða um að hann hafi ráðist á ákærða að fyrra bragði að það væru ósannindi.

Um líkamlegar afleiðingar árásarinnar sagi H að hann hafi verið frá vinnu í mánuð. Hann sagði að hann hafi þjáðst af höfuðverk eftir árásina sem hann átti ekki vanda til. Beri einkum á þessu þegar hann reyni á sig við vinnu sína á sjónum

Vitnið I var yfirheyrður bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi. Í skýrslu sinni hjá lögreglu þann 1. september sl. sagðist hann hafa hitt H á  A. Hansen umrætt kvöld.  Hafi hann setið í sófa uppi á annarri hæð. Hann hafi síðan verið að horfa fram í salinn þegar hann heyrði einhver högg og sá þá hvar ákærði hélt á öxi og var að berja H með henni í höfuðið. Hafi hann í fyrstu haldið að þetta væri grín því að ásetningur ákærða til að berja H virkilega í höfuðið hafi verið svo greinilegur. Hafi ákærði náð að berja H nokkrum sinnum í höfuðið og hafi sér virst þetta líta út eins og ákærði ætlaði að kála H. Hafi lætin í ákærða verið svo mikil að vitnið hafi fengi öxina í vinstra eyra svo að úr blæddi og hafi hann þurft að bera fyrir sig hendurnar til þess að forðast frekari áverka. Eftir barsmíðarnar hafi ákærði hlaupið niður stigann og haft sig á brott. Fyrir dómi, þann 16. desember 2004, sagði I að hann hafi sest í sófann hjá H og að hann hafi ekki séð ákærða fyrr en hann réðst á H. Hann sagði að sófinn hafi verið fullur af fólki. Hann sagðist ekki hafa séð öxina greinilega en séð blaðið ganga upp og niður. Hann hafi ekki heyrt nein orðaskipti. Hann segir að þeir hafi setið í sófanum þegar ákærði reiddi til höggs með öxinni. Hann segist ekki geta lýst öxinni nánar enda hafi hann verið í algjöru sjokki þegar þetta gerðist. Hann segir að höggin hafi lent í andlitinu á H og minnir að þetta hafi verið þrjú högg. Hafði hann orð á því að þetta hafi gerst mjög snöggt. Hafi H reynt að bera fyrir sig hendurnar sitjandi í sófanum eins og hann gerði sjálfur. Hann sagðist engin samskipti hafa átt við ákærða áður og þekki hann ekki neitt og sama sé að segja um fyrri samskipti H og ákærða, um þau viti hann ekki neitt. H kvaðst hann ekki þekkja mikið en hann þekki bróður hans. Hafi H ekki minnst neitt á ákærða við sig og kunni hann engar skýringar á því hvers vegna þetta gerðist. Kvaðst hann hafa setið við hliðina á H fjær stigaopinu eða nánar tiltekið vinstra megin þegar komið er upp stigann. Hann hafi séð ákærða þegar hann var nýkominn upp stigann en muni ekki hvernig hann hafi verið klæddur en sjálfur hafi hann verið í peysu og gallabuxum. Hann hafi ekki hugmynd um hvað varð af öxinni. Hann sagði að hann hafi eftir tvö högg borið hendurnar bæði fyrir sig og H og hafi í raun reynt að verja þá báða. Hann taldi að höggum með öxinni hafi ekki verið viljandi beint að sér. Hann segir að þeir hafi ekki komið á veitingastaðinn saman hann og H. Vitnið Z kvaðst I ekki þekkja. I voru sýndar litmyndir af fjórum öxum sem eru á dómskjali 1.7 á blaðsíðu 2 og taldi hann að myndir nr. 2 og 3 væru líkastar þeirri sem beitt var og sagði að hann minnist þess að hún hafi verið með tréskafti.

Ákærði lýsti fyrir dóminum aðdraganda þeirra atburða sem urðu tilefni til þess að hann var borinn þeim sökum sem lýst er í A lið ákærunnar. Hann  hafi engan ætlað að drepa. Hann kannaðist við að hafa hitt H á A. Hansen umrætt kvöld. Hann sagðist ekki þekkja H mjög vel. Hann kannaðist ekki við að hafa lagt til atlögu við hann á veitingastaðnum. Honum hafi verið kunnugt um að H og barnsfaðir sambýliskonu sinnar, X, væru vinir og gamlir skólafélagar og hafi H ráðist fjórum sinnum á ákærða en versta tilfellið af þeim hafi verið í mars síðastliðnum á A. Hansen þegar H og tveir félagar hans hafi ráðist á sig og slegið úr sér tönn. Illindi hafi verið á milli þeirra einkum af hálfu H en ákærði viti ekki af hverju H komi svona fram við sig. Sagðist ákærði þekkja annan þeirra sem réðust á hann ásamt H í mars og heiti sá Z. Sagðist ákærði hafa gengið upp stigann upp á aðra hæðina á A. Hansen eftir að hann kom inn og þegar hann kom upp sá hann að H og félagar hans sátu í sófanum gegnt stiganum. Sagði ákærði að um leið og þeir hafi séð hann hafi þeir staðið upp og ráðist á hann. Hann  hafi ekki þekkt þá sem með H voru. Hafi það verið H og þrír eða fjórir aðrir sem sátu í sófanum sem ruku í hann. Sagði ákærði að H hafi slegið til hans með einhverju barefli og að hann hafi fundið fyrir hnefahöggum frá þeim sem voru með H en í þeirra hópi hafi verið sá sami Z og réðst að honum með H á A. Hansen í mars sl. Í átökunum hafi hann rifið eitthvert vopn af H sem ákærði kvaðst hafa slegið frá sér með. Hafi honum skilist á fólki að það hafi verið einhvers konar hamaröxi. Sagði ákærði að sú lýsing kæmi heim og saman við það áhald sem hann fékk í hendur. Hann hafi síðan, eftir að hann var búinn að slá frá sér, hent öxinni aftur í H og hlaupið út. Sagði ákærði að hann hafi óttast um líf sitt er hann sá H með vopnið í höndunum. Hann hafi svo séð að það blæddi úr H og þá hafi hann orðið hræddur um að hann hafi slasað H alvarlega og við svo búið hlaupið út og farið heim. Sagði ákærði að hann hafi brugðist svona við í átökunum af því að hann hafi óttast það að verða drepinn sjálfur tækist honum ekki að verja sig. Sagði ákærði aðspurður að erindi hans á A. Hansen þetta kvöld hafi verið að spila á spil. Ákærði kvaðst hafa hitt Z á neðri hæðinni á veitingastaðnum.  Þegar hann kom inn á  staðinn sagði Z honum að H væri uppi. Sagði ákærði að hann gæti ekki tekið fyrir það að allavega eitt af höggunum sem hann sló frá sér hafi lent á H en hann hafi ekki orðið var við að fleiri hafi orðið fyrir höggum með öxinni. Hann hafi ekki beitt verkfærinu sem hann skildi eftir á neinn annan en H. Sagðist hann hafa náð öxinni af H áður en honum hafi tekist að koma höggi á ákærða. Sagði ákærði að honum hafi ekki verið undankomu auðið er honum var ógnað að minnsta kosti ekki strax í byrjun. Sagðist ákærði halda að H hafi verið með vopnið innan klæða er hann kom upp á loftið að minnsta kosti hafi hann sjálfur ekki verið með það í hendinni þegar hann kom upp stigann. Sagði ákærði að árásarmennirnir hafi ekkert sagt við hann áður en þeir réðust að honum, átökin hefðu staðið mjög skamma stund og í lokin hafi hann séð öxina lenda á H þegar hann henti henni að honum. Nánar aðspurður um aðdragandann sagði ákærði að Z hafi sagt honum niðri að H væri uppi og að ákærða yrði stútað. Hann hafi þrátt fyrir þetta farið upp á loftið enda hafi hann ekki átt von á því að þeir félagar væru vopnaðir heldur myndu þeir ráðast á hann með hnefunum eins og þeir hafi áður gert.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 10. september 2004 lýsir ákærði atburðum á A. Hansen  þann 31. ágúst 2004 í öllum aðalatriðum á sama veg og fyrir dómi en sagði varðandi öxina að það hafi komið honum á óvart að hún skyldi finnast í skúffu í eldhúsinu eins og hann hafi heyrt því hann hafi talið að hún ætti að vera í verkfærakassa.

Vitnið Þ var yfirheyrður bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi. Í skýrslu sinni hjá lögreglu, daginn eftir atburðinn, lýsti Þ því þegar hann hafi orðið vitni að atlögu ákærða að H á veitingahúsinu A. Hansen að kvöldi 31. ágúst sl. Hann hafi setið uppi á annarri hæð í veitingahúsinu og haft gott útsýni yfir vettvang. Hann hafi verið búinn að drekka tæplega einn bjór þegar atburðurinn átti sér stað. Sagði hann að við hliðina á honum hafi verið sófi og að í honum hafi setið þrír menn og hafi sá sem slasaðist setið í miðjunni. Einn maður hafi staðið við borð fyrir framan sófann. Sá hann þá hvar ákærði, sem hann þekki í sjón og viti hver er, hafi komið hlaupandi upp stigann upp á aðra hæðina. Hafi ákærði hrint manninum sem stóð við borðið frá og farið rakleitt að H þar sem hann sat í sófanum og án orða hafi hann verið búinn að slá H að minnsta kosti tvö högg í andlitið þegar vitnið áttaði sig á því að ákærði beitti barefli. Um hafi verið að ræða litla öxi, rauða að lit, litlu minni en venjulegan smíðahamar, með blaði sem sneri langsum á skaftið og áþekka hamri í hinn endann. Hafi hann séð ákærða slá með verkfærinu í höfuð H og strax eftir atlöguna hafi hann hlaupið niður stigann. Hann hafi þá sjálfur farið ásamt öðrum niður til þess að leita að ákærða en hann hafi hvorki fundist inni á staðnum né fyrir utan húsið. Í skýrslu fyrir dómi staðfesti Þ að hann kannaðist við þá báða, ákærða og H. Sagði Þ að þegar ákærði gerði atlöguna hafi H setið í sófanum og ekkert staðið upp og varla náð að verja sig. Öxina hafi hann séð þegar hann sá ákærða standa yfir H og berja hann með henni. Lýsir hann öxinni þannig að honum hafi fundist hún vera rauð en að aftan með ,,svona hring”. Hann varð þess ekki var að neinn annar en H hafi skaðast í árásinni. Hann muni ekki hvernig ákærði hafi verið klæddur. Hann kvaðst ekki hafa séð blóð á öxinni. Hann hafi séð rauðan lit en ekki getað gert sér neina grein fyrir hvort um var að ræða litinn á öxinni eða blóð. Hann hafi verið í sjokki og hlutirnir hafi gerst nánast svo snöggt ,,sem fingri væri smellt”.

Fyrir dómi var skýrsla Þ hjá lögreglu frá 1. september 2004 borin undir hann og kvaðst hann engar athugasemdir hafa við hana að gera, allt væri þar rétt eftir honum haft. Hann hafi ekkert tekið eftir því hvað varð af bareflinu. Hann sagðist aðspurður ekki muna hvernig neinn hafi verið klæddur, ekki einu sinni hann sjálfur. Þegar vitnið var spurt um það hvort hátt hafi verið reitt til höggs með öxinni sagði hann að svo hafi verið og að það hafi verið slegið líkara því að verið væri að brjóta stein með sleggju en að verið væri að negla nagla með hamri.

Vitnið Ö var yfirheyrður bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi. Í skýrslu sinni hjá lögreglu daginn eftir atburðinn sagði Ö að hann hafi verið búinn að dvelja í um það bil hálftíma inni á A. Hansen þegar hann sá ákærða og kærustu hans V koma gangandi upp stigann á veitingahúsinu. Síðan hafi hann heyrt ákærða reka upp rosa öskur og sá þá hvar hann hélt á öxi í hendinni. Án orða hafi hann byrjað að berja H með öxinni en H hafi tekist að verjast þyngstu höggunum frá honum. Hafi hann séð ákærða berja H tvisvar með öxinni í andlitið en önnur högg virtust ekki hæfa jafn vel og hafi það verið H að þakka að ekki fór verr. Hafi ákærði og kærasta hans að þessu búnu rokið út af staðnum. Ö gaf skýrslu hjá lögreglu daginn eftir og bætti þá við sinn fyrri framburð að eigin ósk að þegar ákærði hafi verið að berja H þá hafi I farið á milli þeirra til þess að reyna að hindra að ákærði næði að berja H meira eins og ljóst hafi verið að hann hugðist gera.

Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst vitnið kannast við þá báða ákærða og H en eftir þessu kvöldi muni hann mjög lítið. Hann muni þó eftir því að hafa heyrt voðalegt öskur og er honum var litið í áttina að sófanum hafi hann séð H allan í blóði og einhvern gæja fljúga á borðið fyrir framan sig. Hann muni þó eftir því að hafa séð ákærða þarna en ekki eftir því að hafa séð hann halda á neinu. Hann hafi síðan farið með H upp á spítala svo viti hann ekki meir. Hann hafi verið búinn að drekka einhverja bjóra en hafi ekki tölu á þeim. Hann sagði aðspurður að hann minni að kærasta ákærða hafi komið með honum upp á loftið. Hann hafi ekki séð H standa neitt upp þegar atvikið gerðist. Hann sagði að það sé ranglega haft eftir sér í lögregluskýrslu að hann hafi séð ákærða með öxi í hendinni og að hann hafi séð hann slá H tvisvar í andlitið.

Eftir að hafa lesið skýrslur sínar hjá lögreglu þá sagðist Ö varla muna eftir því að hafa sagt neitt af því sem haft er eftir honum þar.

             Vitnið Y var yfirheyrður bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi. Í skýrslu hans hjá lögreglu, þann 2. september 2004, kom fram að hann hafi verið á A. Hansen umrætt kvöld og staddur nokkuð frá þeim stað þar sem H sat í miðjum sófa sem er við stigann þegar atburðurinn átti sér stað. Hann hafi verið á leið á barinn þegar hann sá hvar ákærði var kominn á þann stað sem H var. Ástæðan fyrir því að honum var litið þangað, var að hann heyrði læti þar úr horninu og hafi hann þá séð ákærða standa yfir H og halda á öxi, sem hann var að berja H með í höfuðið. Kvaðst hann hafa orðið alveg agndofa yfir þessum tilburðum ákærða. Hafi honum fundist ákærði berja H þrisvar sinnum í höfuðið og að árásin hafi staðið í svona 30 sekúndur og að svo búnu hafi ákærði rokið niður stigann og út. Hann sagði aðspurður að hann hafi ekki séð sambýliskonu ákærða, V, á meðan á árásinni stóð. Lýsti Y öxinni þannig að sér hafi sýnst skaftið vera 24 til 26 sm langt (er nálægt 27 sm) og þegar hann sá ákærða sveifla henni hafi honum virst hún vera frekar brúnleit en hitt. Taldi hann að öxi sem er á mynd á skjali 1.7 bls. 2 og auðkennd nr. 2 vera líklega og líkasta þeirri sem ákærði barði H í höfuðið með. Í skýrslu sinni fyrir dómi 8. desember sl. sagði Y að hann kannist bæði við H og ákærða, sé þeim málkunnugur eins og hann orðaði það. Sagði hann að hann hafi séð ákærða víkja sér að H sem hann hafi þó ekki séð beinlínis vegna súlu sem var í sjónlínu milli þeirra. Hafi hann þá séð að vopni var sveiflað en hann hafi reyndar ekki séð þegar ákærði tók vopnið upp. Hafi þetta staðið í 15 eða 20 sekúndur og þá hafi ákærði hlaupið niður aftur eftir að hafa stungið einhverju inná sig, að því er honum sýndist, áður en hann fór. Sagði Y að hann hafi ekki séð öxarhöggin beinlínis lenda í andliti H og orðaskipti heyrði hann ekki. Honum sýndust höggin vera föst og að H hafi verið sitjandi meðan þetta gerðist. Af þeim sem sátu í sófanum þegar þetta gerðist man hann fyrir víst að I hafi setið í sófanum og hugsanlega einnig Z sem hann hafi séð sitja þar nokkru áður. Hann kvaðst aðspurður hafa rætt þennan atburð við önnur vitni áður en skýrslan var tekin en ekkert hafi verið rætt um framburðinn sjálfan. Aðspurður um beiðni sína um nafnleynd kvaðst hann hafa óskað eftir henni sjálfur, honum hafi ekki verið boðin hún, og hafi ástæðan verið að hann kannist ágætlega við ákærða og hafi ekki átt neitt sökótt við hann og því hafi hann ekki kært sig um að mæta þarna beint fyrir framan hann. Hann kvaðst ekki hafi tekið eftir blóði á öxinni. Aðspurður um það hvernig ákærði hafi verið klæddur er hann nokkuð viss um að hann hafi verið í grænum jakka frekar síðum. Hann ítrekar að hann hafi ekki séð H standa upp fyrr en eftir atburðinn. Hann kvaðst ekki hafa séð að slegið hafi verið til I en hann hafi hins vegar heyrt það eftir á. Y las skýrslu sem skráð var eftir honum hjá lögreglu við rannsókn málsins og staðfesti hann að þar væri allt rétt eftir honum haft.

Vitnið Z var yfirheyrður bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi. Fram kom í skýrslu hans hjá lögreglu sem tekin var 7. september s.l. að hann hafi umrætt kvöld verið á neðri hæðinni á A. Hansen þegar ákærði og sambýliskona hans V komu saman inn. Hann hafi ekkert hugsað út í þetta sérstaklega heldur hafi hann farið upp á aðra hæð þar sem H sat í sófa sem þar er. Hafi hann skömmu síðar séð ákærða koma þarna upp og ganga að þeim stað þar sem H sat. Áður en hann nálgaðist H hafi hann hent borði til hliðar til þess að komast nær honum og þegar ákærði var kominn þangað hafi vitnið séð hvar hann tók upp öxi og byrjaði að berja H í höfuðið með henni. Hafi hann barið H þrisvar eða fjórum sinnum með öxinni í höfuðið á meðan H sat allan tímann og reyndi að verja sig með höndunum. Virtist honum H ekki veita ákærða athygli fyrr en ákærði réðst á hann. Þegar ákærði hafði barið H með öxinni hafi hann rokið út og yfirgefið staðinn. Hann hafi veitt því athygli að auk H hafi annar verið barinn með öxinni í eyrað þannig að úr hafi blætt. Voru Z sýndar nefndar myndir af öxum og sagði hann að nr. 2 og 3 væru líkastar þeirri sem notuð var við verknaðinn. Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði Z, að hann þekkti ákærða en tók fram að þeir væru ekki vinir. H og vitnið hefðu hins vegar verið saman í skóla. Hann sagði að hann hafi ekki séð ákærða með neitt í höndunum, honum hafi bara verið sagt frá því. Hann hafi staðið fyrir aftan ákærða og séð að hann var að berja H en hann hafi staðið þannig að hann gat ekki séð hvort hann væri með eitthvað í höndunum. Hann hafi haldið að þetta hafi staðið kannske í hálfa mínútu eða mínútu. Hann hafi vitað að H hafi setið þarna í sófanum því hann hafi sjálfur setið þar skömmu áður við hliðina á honum. I kvaðst hann ekki þekkja. Hann áréttaði að hann hafi aldrei séð verkfærið sem notað var við árásina. Hann sagði aðspurður að ákærði hafi spurt hann niðri hvort H væri uppi og lagt áherslu á að hann segði satt og hafi hann sagt honum að strákarnir væru þarna uppi. Hann muni ekki hvernig ákærði var klæddur. Hann sagðist ekki hafa sagt við ákærða að hann væri ,,dauður”. Hann segir að sig rámi í að borði hafi verið hent til hliðar þegar ákærði var að nálgast H.

Vitnið Æ var yfirheyrður bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu þann 8. september 2004 og fyrir dómi 8. desember sl. Í skýrslu sinni hjá lögreglu kvaðst hann hafa verið á A. Hansen umrætt kvöld. Hann hafi setið við borð á að giska þremur metrum frá þeim sófa þar sem árásin var gerð, en sá sófi hafi verið beint á móti stiganum sem liggur upp á aðra hæð. Í upphafi árásarinnar hafi hann snúið baki í vettvang þar sem hann sat við borðið en þegar hann hafi snúið sér við þá hafi hann séð mann standa yfir öðrum sem sat í sófanum og verið að berja hann með einhverju áhaldi í höfuðið. Hafi hann séð ákærða með áhaldið berja hinn í það minnsta tvisvar í höfuðið með þessu áhaldi þar sem hann sat. Síðan hafi það verið maður sem sat við hliðina á þeim sem fyrir árásinni varð sem fer á milli þess sem fyrir árásinni varð og ákærða og reynir að stöðva hann. Hafi ákærði þá hent þessum manni til og síðan rokið út. Kvaðst Æ þá hafa verið staðinn upp og verið að ganga í áttina að vettvangi þegar ákærði hafi rokið niður stigann. Hann hafi ekki getað áttað sig á því hvað ákærði var með í hendinni en er honum voru sýndar myndir þær af áhöldum sem sýndar hafa verið í réttinum þá hafi hann sagt að hann teldi að áhald sem er á mynd nr. 2 geti vel verið það áhald sem hann sá ákærða með því að það hafi verið með rauðum lit og liturinn á skaftinu sé sá sami er hann hafi séð á staðnum og stærðin gæti einnig passað. Kvaðst Æ hvorki kannast við ákærða né þann sem fyrir árásinni varð. Hann lýsti atburðum og því sem hann sá fyrir dómi á sama veg að því leyti sem frá þeim er greint í skýrslu hans hjá lögreglu. Hann sagði aðspurður í dóminum að hátt hafi verið reitt til höggs og hafi sá sem sló farið með hendina alveg upp og fannst honum sem ákærði hafi beygt sig eitthvað fram. Hann kvaðst vera alveg viss um að áhaldið sem notað var hafi ekki orðið eftir þarna á staðnum. Aðspurður sagði vitnið að hann hafi ekki lagt sérstaklega á minnið hvernig ákærði var klæddur en ef hann ætti eitthvað að segja um það þá minni hann að ákærði hafi verið í dökkum fötum, einhverjum dökkgrænum jakka. Hann sagði að sá sem fyrir árásinni varð hafi verið sitjandi þegar hann sá hann verða fyrir árásinni. Ekki treysti vitnið sér til þess að segja til um hvort sá sem var við hlið H, og stóð upp og reyndi að stöðva ákærða, hafi orðið fyrir höggi. Sagði vitnið að honum hafi verið sagt á vettvangi að ákærði hafi verið með öxi og að hann hafi farið með hana. Var vitninu sýnd öxi sem lagt var hald á við húsleit heima hjá ákærða, sbr. dómskjal nr. 26, og segir vitnið að hún geti mjög vel samrýmst því áhaldi sem hann taldi sig sjá. Hann sagði að sá hluti árásarinnar sem hann sá hafi varað í tíu eða í mesta lagi tuttugu sekúndur.

V, sambýliskona ákærða, hefur í dóminum, aðspurð um þá atburði er lýst er í ákæru og varða meinta árás ákærða á H og I með öxi, sagt að hún hafi ekki orðið vitni að neinum átökum er hún hafi farið inn á A. Hansen ásamt ákærða umrætt kvöld. Ákærði hafi hitt þar strák sem heitir Z sem hafi sagt ákærða að H væri þarna á staðnum að leita að honum. V tók fram að hún hafi ekki heyrt þetta almennilega. Sagði hún fyrir dóminum að hún hafi heyrt sagt ,,[H] leita” eða eitthvað þannig og þá hafi hún ekki nennt að hlusta meir. Hún hafi vitað hver þessi H var og hún hafi heyrt að þeir hafi lent í átökum hann og ákærði en ekki orðið vitni að slíku sjálf. Hún hafi sagt við  ákærða að hún ætlaði bara að fara og hafi hún horft á eftir honum upp á aðra hæð en hún hafi sjálf farið út í bíl. Skömmu síðar hafi ákærði komið út. Hafi hún ekki orðið vör við að hann hafi þá verið neitt óvanalegur í háttum, nema kannske dálítið pirraður sem hún hafi haldið að hafi verið vegna þess að hún vildi ekki vera inni á staðnum. Ákærði hafi ekki minnst á að neitt hafi gerst er hann kom út í bíl. Sjálf kunni hún enga skýringu á þessum ýfingum milli ákærða og H og eigi þær sér einhverjar rætur þá þekki hún þær ekki. Sagði vitnið, aðspurt um það þegar lögreglan kom og gerði húsleit heima hjá henni í kjölfar þessa atburðar, að hún hafi verið viðstödd leitina þegar öxin fannst. Sagði vitnið að sér hafi brugðið mjög en síðan hafi rifjast upp fyrir henni að ákærði ætti mörg verkfæri vegna þeirrar vinnu sem hann var í og að hún hafi sett þessa öxi þarna í skúffuna alveg óvart og önnur verkfæri hafi verið þarna líka. Sagði vitnið að ákærði hafi ekki henni vitanlega verið með neitt hvorki þegar hann fór inn né þegar hann kom út af A. Hansen umrætt kvöld.  Aðspurð um klæðnað ákærða sagði hún að hann hafi verið í svörtum bol og gallabuxum.

Er V var kynnt það af lögreglu við yfirheyrslu þann 1. september 2004 að á heimili hennar hefði fundist öxi, rauð að lit, sem svari til lýsingar vitna á þeirri öxi sem notuð var við atlöguna á A. Hansen og að hún hefði fundist í þriðju skúffu ofanfrá í eldhúsi hulin diskaþurrku, kvaðst hún ekkert kannast við þá öxi sem fannst í skúffunni og sagði að þar ætti ekki að vera öxi né önnur verkfæri sem dóttir hennar geti náð í. Skúffan sé ætluð undir diskaþurrkur. Taldi hún sig hafa farið í skúffuna fyrir um það bil einni eða tveimur vikum síðan. Á heimilinu sé venjan sú að verkfæri séu geymd í þar til gerðum kössum í geymslu og hún viti ekki til að þörf hafi verið á að nota slíkt verkfæri á hennar heimili. Ekki hafi aðrir en hún, dóttir hennar og ákærði aðgang að heimilinu.

Q gaf skýrslu fyrir dómi þann 15. nóvember 2004. Kvaðst hann muna eftir því að hafa orðið vitni að því þann 31. ágúst 2004 að einhver var laminn í höfuðið með eitthverju áhaldi á A. Hansen. Kvaðst vitnið hafa setið undir glugga á efri hæðinni og orðið vitni að því þegar maður stóð upp blóðugur eftir að hafa verið sleginn og einhver hafi hlaupið út og hafi hann þá heyrt sagt á staðnum að þetta hafi verið ákærði og H. Hann hafi ekki tekið eftir H áður og þekki hann ekki. Hann hafi heyrt tvö högg frekar en þrjú og þegar hann sá manninn standa upp blóðugan hafi hann strax hringt í 112 til þess að fá sjúkrabíl. Hann kvaðst hafa séð að áhaldi var beitt, hamri eða öxi, eða einhverju í líkingu við það. Sagði vitnið að það fyrsta sem hann hafi séð hafi verið eitthvert kraðak og að verið var að slá mann í höfuðið. Hann hafi ekki þekkt þá sem sátu í sófanum þar sem maðurinn sem sleginn var hafði setið. Hann hafi ekki séð ákærða koma upp stigann en hann hafi séð hann slá með áhaldinu í höfuðið á H og hlaupa síðan burtu. Honum hafi virst einhverjar hendur koma á móti höggunum en hann muni það ekki vel.

O gaf skýrslu fyrir dóminum, en hann er eigandi A. Hansen og sagði hann að hann viti ekki til þess að neitt verkfæri hafi fundist á veitingastaðnum eftir umræddan atburð. Hann kannast ekki við að H hafi átt í útistöðum við neinn á veitingastaðnum.

T sem var við störf á A. Hansen gaf vitnaskýrslu í dóminum og sagðist hann ekki hafa orðið vitni að árásinni en hann hafi komið að H strax á eftir og hefði þá fossblætt úr honum og hann haldið fyrir andlit sitt. Er hann innti eftir því hvað gerst hafði þá var honum sagt að ákærði hafði komið með öxi og höggvið H í andlitið og nefndi í því sambandi að hann hafi talað við Z og ekki hafi farið á milli mála að talað var um öxi. Hafi veitingastaðurinn verið fullur af fólki sem bendi til þess að þar hafi verið um eitt hundrað manns. T var einnig yfirheyrður hjá lögreglu 10. september sl. og var inntur eftir því fyrir dómi hvað hann hafi fyrir sér í því, sem þar er haft eftir honum, að hann hafi frétt að H hafi staðið upp úr sófanum er hann sá ákærða. Hann treysti sér ekki til þess að fullyrða hver hafi sagt honum þetta en telur lang líklegast að það hafi verið Z eða hugsanlega I. Hann sagði að ekkert barefli hafi fundist á staðnum eftir atburðinn. Hann kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir því hvort heimildarmenn hans hafi verið að segja honum eitthvað sem þeir hafi sjálfir séð eða þeir haft það eftir öðrum.

Einar Ólafsson, læknir, gaf skýrslu fyrir dóminum í gegnum síma og lýsti hann áverkum þannig að áverkinn beint framan á enninu vinstra megin hafi klárlega verið eftir eggvopn vegna þess að skurðbrúnir hafi verið alveg skarpar og ekki tættar. Hins vegar hafi hitt sárið á enninu verið tættara og erfitt að segja til um hvort það geti verið eftir hinn kantinn á öxinni, sem hann hafi að vísu ekki séð en talað hafi verið um. Hann kvaðst ekki vera í nokkrum vafa um að hefðu áverkar, sambærilegir þeim sem hér um ræðir, verið á öðrum stað á höfðinu gætu þeir leitt til dauða af völdum blæðinga þess sem fyrir yrði. Hann sagði einnig að H hafi verið svo heppinn, ef svo mætti segja, að höggið lenti inn í stórri ennisholu en 5 til 10% einstaklinga hafi enga ennisholu. Því hafi þessi áverki sem H hlaut ekki verið honum lífshættulegur þó svo hann hefði ekki komist strax undir læknishendur. Hann treysti sér ekki til þess að fullyrða að hann nái fullum bata vegna þess að höfuðverkir gætu orðið fylgifiskur höfuðáverkans. Hann sagði aðspurður að hann geti ekki sagt til um það hversu þung höggin hafi verið en orðar það svo að til þess að valda áverkanum hægra megin sé beinið það þykkt að þónokkuð þungt högg þurfi til þess að valda honum.

Margeir Sveinsson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dóminum 8. desember sl. og sagði hann sérstaklega aðspurður að tilefni svonefndrar vitnaverndar sem lögregla hafi kynnt vitnum hafi verið að einhver vitnanna hafi neitað að gefa skýrslu nema vitnavernd væri tryggð. Hafi þau borið því við að þau óttuðust hefndaraðgerðir ákærða kæmu nöfn þeirra fram.

Helgi Gunnarsson lögreglumaður sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að ný lög um vitnavernd hafi verið kynnt fyrir vitnum vegna þess að nokkur þeirra treystu sér ekki til þess að koma fram undir nafni.

Björgvin Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dóminum þann 15. nóvember 2004. Skýrði hann frá þeirri niðurstöðu sinni af rannsókn á öxi þeirri sem haldlögð var heima hjá ákærða við rannsókn málsins, að engin lífsýni hefðu fundist hvorki á axarblaðinu né skaftinu. Hann sagði að ekki sé hægt að útiloka að öxin hafi verið notuð til þess verknaðar sem lýst er í málsgögnum. Ekkert sé því til fyrirstöðu að mögulegt sé að þrífa blóð af slíkri öxi hafi það ekki verið mikið. Ekki hafi verið kannað hvort öxin hafi verið þvegin. Engin fingraför hafi heldur verið á öxinni en mjög sjaldgæft sé að fingraför finnist á slíkum verkfærum. Einungis hafi verið óskað eftir lífsýnarannsókn.

Niðurstaða

Í A lið ákærunnar er ákærði sakaður um tilraun til manndráps, með því að hafa þriðjudagskvöldið 31. ágúst 2004 á veitingastaðnum A. Hansen, Vesturgötu 4, Hafnarfirði, slegið H nokkrum sinnum í höfuðið með öxi, með þeim afleiðingum að hann hlaut tvö skurðsár á enni, tvö brot inn í ennisholu og særðist á innanverðu vinstra læri og marðist á handarbaki.

Vitnið H kvaðst hafa séð þegar ákærði kom upp stigann sem liggur upp á aðra hæðina á veitingastaðnum. Síðan hafi hann ekki vitað fyrr en hann fékk þungt högg í höfuðið og hafi hann þá byrjað að verjast höggum. Hafi ákærði náð að berja hann tvisvar í andlitið með einhverju áhaldi. Þegar ákærði hafi ætlað að halda barsmíðunum áfram þá hafi strákurinn sem sat við hliðina á honum náð að stoppa þessa ,,morðtilraun sem hann kallaði svo. Sagði H aðspurður að fullyrðingar ákærða um að á hann sjálfan hafi verið ráðist að fyrra bragði séu ósannindi.

Ákærði hefur skýrt svo frá að hann kannist við að hafa hitt H á umræddum stað og tíma en ekki að hafa lagt til atlögu við hann. Kvaðst ákærði hafa gengið upp stigann eftir að hann kom inn á A. Hansen og þegar upp var komið hafi hann séð H og félaga sitja í sófanum gegnt stiganum. Hafi þeir, um leið og þeir sáu hann, staðið upp og ráðist á hann. Hann hafi ekki þekkt þá sem með H voru. Það hafi verið H og þrír eða fjórir aðrir sem ruku í hann. Í átökunum hafi hann rifið eitthvert vopn af H sem ákærði kvaðst hafa slegið frá sér með. Sagðist ákærði hafa náð vopninu af H áður en honum hafi tekist að koma höggi á ákærða. Hann hafi síðan, eftir að hann var búinn að slá frá sér, hent öxinni aftur í H og hlaupið út. Hann hafi svo séð að það blæddi úr H og þá hafi hann orðið hræddur um að H hefði slasast alvarlega og við svo búið hafi hann hlaupið út og farið heim. Sagði ákærði að hann gæti ekki tekið fyrir það að allavega eitt af höggunum sem hann sló frá sér hafi lent á H en hann hafi ekki orðið var við að fleiri hafi orðið fyrir höggum með öxinni. Sagði ákærði að hann hafi brugðist svona við í átökunum af því að hann hafi óttast það að verða drepinn sjálfur tækist honum ekki að verja sig.

             Vitnið I sagði að höggin sem lent hafi í andlitinu á H hafi verið þrjú og að þetta hafi gerst mjög snöggt. Hafi H reynt að bera fyrir sig hendurnar sitjandi í sófanum en eftir tvö högg hafi vitnið borið hendurnar bæði fyrir sig og H og þannig reynt að verja þá báða. Hann hafi ekki talið að höggunum hafi viljandi verið beint að sér.        

Vitnið Þ lýsti atburðarásinni í skýrslu sinni hjá lögreglu daginn eftir atburðinn. Kvaðst hann hafa orðið vitni að atlögu ákærða á veitingahúsinu A. Hansen að kvöldi 31. ágúst sl. Hann hafi setið á annari hæð í veitingahúsinu og haft gott útsýni yfir vettvang. Sagði hann að við hliðina á honum hafi verið sófi og hafi þar setið þrír menn og að sá sem slasaðist hafi setið í miðjunni. Hafi hann þá séð hvar ákærði, sem hann þekki í sjón og viti hver er, hafi komið hlaupandi upp stigann upp á aðra hæðina. Hafi ákærði hrint manni sem stóð við borð fyrir framan H og farið rakleitt að honum  þar sem hann sat í sófanum og án orða slegið hann að minnsta kosti tvö högg í andlitið. Hafi vitnið þá áttað sig á því að barefli var beitt.            

Vitnið Ö sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu daginn eftir atburðinn að hann hafi verið búinn að vera um það bil hálftíma inni á A. Hansen þegar hann sá ákærða og kærustu hans V koma gangandi upp stigann á veitingahúsinu. Síðan hafi hann heyrt ákærða reka upp ,,rosa öskur og séð hvar hann hélt á öxi í hendinni. Án orða hafi hann byrjað að berja H með öxinni en H hafi tekist að verjast þyngstu höggunum frá honum. Hafi hann séð ákærða berja H tvisvar með öxinni í andlitið en önnur högg virtust ekki hæfa jafn vel og hafi það verið H að þakka að ekki fór verr. Hafi ákærði og kærasta hans að þessu búnu rokið út af staðnum. Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst vitnið kannast við þá báða ákærða og H. Kvaðst hann muna mjög lítið eftir umræddu kvöldi en minntist þess þó að hafa heyrt voðalegt öskur og er honum var litið í áttina að sófanum hafi hann séð H allan í blóði og einhvern gæja fljúga á borðið fyrir framan sig. Hann muni þó eftir því að hafa séð ákærða þarna en ekki eftir því að hafa séð hann halda á neinu. Hann sagði aðspurður að hann minni að kærasta ákærða hafi komið með honum upp á loftið. Hann hafi ekki séð H standa neitt upp þegar atvikið gerðist. Hann sagði að það sé ranglega haft eftir sér í lögregluskýrslu að hann hafi séð ákærða með öxi í hendinni og að hann hafi séð hann slá H tvisvar í andlitið. Breyttur framburður vitnisins fyrir dómi þykir mjög ósannfærandi. Verður ekki á dómsframburði vitnisins byggt nema að því leyti sem hann samrýmist skýrslu hans hjá lögreglu. Vitnið Y kvaðst hafi verið á A. Hansen umrætt kvöld og staddur nokkuð frá þeim stað þar sem H sat í miðjum sófa sem er við stigann, þegar atburðurinn átti sér stað. Sagði hann að honum hafi verið litið við vegna þess að hann heyrði læti úr horninu þar sem H hafi setið og hafi hann þá séð ákærða standa yfir H og halda á öxi sem hann var að berja H með í höfuðið. Hafi honum fundist ákærði berja H þrisvar sinnum í höfuðið og að árásin hafi staðið í svona 30 sekúndur og að þeim liðnum hafi ákærði rokið niður stigann og út. Segir hann að hann hafi séð ákærða víkja sér að H sem hann hafi þó ekki séð beinlínis vegna súlu sem var í sjónlínu milli þeirra. Hafi hann þá séð að vopni var sveiflað en hann hafi reyndar ekki séð þegar ákærði tók vopnið upp. Sagði Y að hann hafi ekki séð öxarhöggin beinlínis lenda í andliti H og orðaskipti heyrði hann ekki. Honum hafi sýnst höggin vera föst og að H hafi verið sitjandi meðan þetta gerðist.

             Vitnið Q bar fyrir dóminum að hann hafi orðið vitni að því þann 31. ágúst 2004 að maður var laminn í höfuðið með einhverju áhaldi sem honum fannst helst líkjast hamri eða öxi. Hann hafi setið uppi á efri hæðinni undir glugga og séð þegar maður stóð upp blóðugur. Hann hafi séð ákærða slá H með þessu áhaldi og hlaupa síðan á brott. Minnist hann þess að hafa ,,heyrt” tvö högg frekar en þrjú.

Í vitnisburði Z kom fram ósamræmi milli þess sem hann ber fyrir lögreglu við rannsókn málsinins og þess sem hann ber fyrir dómi. Fram kom í skýrslu hans hjá lögreglu sem tekin var 7. september sl. að hann hafi umrætt kvöld verið á neðri hæðinni á A. Hansen þegar ákærði og sambýliskona hans V komu saman inn. Hafi hann skömmu síðar séð ákærða koma þarna upp og ganga að þeim stað þar sem H sat í sófa. Áður en ákærði nálgaðist H hafi hann hent borði til hliðar til þess að komast nær honum og þegar hann var kominn þangað hafi vitnið séð hvar hann tók upp öxi og byrjaði að berja H í höfuðið. Hafi hann barið H þrisvar eða fjórum sinnum með öxinni í höfuðið á meðan H sat allan tímann og reyndi að verja sig með höndunum. Virtist honum H ekki veita ákærða athygli fyrr en ákærði réðst á hann. Þegar ákærði hafði barið H með öxinni hafi hann rokið út og yfirgefið staðinn. Hann hafi veitt því athygli að auk H hafi annar verið barinn með öxinni í eyrað þannig að úr hafi blætt. Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði Z, að hann þekkti ákærða en þeir væru ekki vinir. Hann segir að hann hafi ekki séð ákærða með neitt í höndunum, honum hafi bara verið sagt frá því. Hann hafi staðið fyrir aftan ákærða og séð að hann var að berja H en hann hafi staðið þannig að hann gat ekki séð hvort hann væri með eitthvað í höndunum. Hann hafi haldið að þetta hafi staðið kannski í hálfa mínútu eða mínútu. Hann hafi vitað að H hafi setið þarna í sófanum því hann hafi sjálfur setið þar skömmu áður við hliðina á honum. Hann áréttaði að hann hafi aldrei séð verkfærið. Hann sagði aðspurður að ákærði hefði spurt hann niðri hvort H væri uppi og lagt áherslu á að hann segði satt og hefði hann sagt honum að strákarnir væru þarna uppi. Hann segir að sig rámi í að borði hafi verið hent til hliðar þegar ákærði var að nálgast H. Þykir dóminum að fram hafi komið ásættanlegar útskýringar vitnisins á ósamræminu sem felst einkum í því að hann sagði áður hjá lögreglu að hann hafi séð ákærða með öxina í höndunum en nú að hann hafi ekki getað séð það vegna þess hvar hann stóð á bak við ákærða. Þykir því ekki tilefni til þess að efast um sannleiksgildi framburðar hans af þessum sökum.

T sem var við störf á A. Hansen gaf vitnaskýrslu í dóminum. T var einnig yfirheyrður hjá lögreglu 10. september sl. og var inntur eftir því fyrir dómi hvað hann hafi fyrir sér í því, sem þar er haft eftir honum, að hann hafi frétt að H hafi staðið upp úr sófanum er hann sá ákærða. Hann treysti sér ekki til þess að fullyrða hver hefði sagt honum þetta en telur lang líklegast að það hafi verið Z eða hugsanlega I. Hann sagði að ekkert barefli hefði fundist á staðnum eftir atburðinn eða síðar. Hann kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir því hvort heimildarmenn hans hafi verið að segja honum eitthvað sem þeir hafi sjálfir séð eða þeir haft það eftir öðrum.

Æ greindi frá því hjá lögreglu að hann hafi verið á A. Hansen umrætt kvöld. Hann  hafi setið við borð á að giska þremur metrum frá þeim sófa þar sem árásin var gerð en sá sófi hafi verið beint á móti stiganum sem liggur upp á aðra hæð. Í upphafi árásarinnar hafi hann snúið baki í vettvang þar sem hann sat við borðið en þegar hann hafi snúið sér við þá hafi hann séð mann standa yfir öðrum sem sat í sófanum og verið að berja hann með einhverju áhaldi í höfuðið. Hafi hann séð ákærða berja hinn í það minnsta tvisvar í höfuðið með þessu áhaldi þar sem hann sat. Kvaðst Æ hvorki kannast við ákærða né þann sem fyrir árásinni varð. Hann lýsti atburðum og því sem hann sá fyrir dómi á sama veg að því leyti sem greinir frá í skýrslu hans hjá lögreglu. Ekki treysti vitnið sér til þess að segja til um hvort sá sem var við hlið H, og stóð upp og reyndi að stöðva ákærða, hafi orðið fyrir höggi. Sagði vitnið að honum hafi verið sagt á vettvangi að ákærði hafi verið með öxi og að hann hefði farið með hana. Hann sagði að sá hluti árásarinnar sem hann sá hafi varað í tíu eða í mesta lagi tuttugu sekúndur.

Ekkert þeirra mörgu vitna sem viðstödd voru þegar meint árás átti sér stað kannast við að hafa séð að H hafi staðið upp úr sófanum áður en hann varð fyrir árásinni. H hefur sagt að fullyrðing ákærða um að hann hafi ráðist á ákærða að fyrra bragði séu ósannindi.

Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið þykir fjarstæðukennd sú staðhæfing ákærða að H og ótilgreindir félagar hans hafi ráðist á ákærða í umrætt sinn. Sama er að segja um þá frásögn hans að hann hafi náð öxi úr höndum H í átökum milli þeirra og síðan notað hana til þess að verja hendur sínar. Það er því niðurstaða dómsins að í ljós hafi verið leitt að ákærði hafi veist að H fyrirvaralaust þar sem hann sat í sófa gegnt stiga sem liggur upp á aðra hæð veitingastaðarins og slegið hann í höfuðið með áhaldi sem ákærði hafði sjálfur meðferðis.

Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði var H með tvö skurðsár á enni þegar komið var með hann á slysadeild hina umræddu nótt. Í vottorðinu kemur fram að um skurðsár eftir eggvopn hafi verið að ræða. Hefur læknirinn sem ritaði vottorðið staðfest þetta mat sitt fyrir dómi. Í vottorðinu er því jafnframt lýst að við læknisskoðun hafi komið í ljós brot inn í ennisholu á tveimur stöðum. Þá hafi verið smásár innanvert á vinstra læri og mar í kring og mar á handarbaki. Vitni hafa haldið því fram að ákærði hafi beitt öxi við atlögu sína. Þá hefur ákærði staðfest að hann hafi slegið til H með öxi enda þótt hann hafi þá jafnframt borið því við svo sem áður greinir að hann hafi náð að hrifsa hana úr hendi H og notað til að verja hendur sínar. Þykir að þessu virtu ekki varhugavert að telja í ljós leitt að ákærði hafi slegið H með öxi, enda er ekkert fram komið í málinu sem gefur tilefni til að ætla að þetta fái ekki staðist.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi ráðist að H með þeim hætti sem í ákæru greinir og að með atlögu sinni orðið valdur að þeim áverkum sem þar er lýst.

             Af hálfu ákæruvalds er því aðallega haldið fram að ákærði hafi með árás sinni gerst sekur um brot gegn 211. gr. sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Verði ekki á það fallist telur ákæruvaldið að heimfæra beri háttsemi ákærða undir 2. mgr. 218. gr. laganna.

Um heimfærslu til refsiákvæðis verður fyrst vikið að því áhaldi sem ákærði beitti við árásina.

Fyrir liggur að lögreglumenn gerðu húsleit á heimili ákærða síðdegis þann 1. september 2004 og fannst þá í eldhússkúffu lítil öxi með rauðum haus. Sambýliskona ákærða V var viðstödd leitina og er hermt eftir henni í skýrslu lögreglu að hún hafi ekki vitað um öxina þarna. Er V var kynnt það af lögreglu við yfirheyrslu þann 1. september 2004 að á heimili hennar hefði fundist öxi, rauð að lit, sem svari til lýsingar vitna á þeirri öxi sem notuð var við atlöguna á A. Hansen og að hún hefði fundist í skúffu í eldhúsi og verið hulin diskaþurrku, kvaðst hún ekkert kannast við þá öxi sem fannst í skúffunni og sagði að þar ætti ekki að vera öxi né önnur verkfæri sem dóttir hennar geti náð í, skúffan sé ætluð undir diskaþurrkur. Taldi hún sig hafa skoðað í skúffuna fyrir um það bil einni eða tveimur vikum. Hún viti ekki til þess að þörf hafi verið á að nota slíkt verkfæri á hennar heimili. Ekki hafi aðrir en hún, dóttir hennar og ákærði aðgang að heimilinu. Í skýrslu sinni fyrir dómi breytir hún þessum framburði sínum og sagði við það tækifæri að sér hafi brugðið mjög er hún sá öxina þar sem hún var en síðan hafi rifjast upp fyrir henni að ákærði ætti mörg verkfæri vegna þeirrar vinnu sem hann stundaði og að hún hafi sett þessa öxi þarna í skúffuna alveg óvart og önnur verkfæri hafi verið þarna líka. Sagði vitnið að ákærði hafi ekki henni vitanlega verið með neitt, hvorki þegar hann fór inn né þegar hann kom út af A. Hansen umrætt kvöld.

Í skýrslu lögreglumanna sem framkvæmdu leitina segir svo meðal annars: ,,Ekkert annað en öxin og viskustykkin voru í skúffunni.”

Ákærði sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu þann 10. september 2004 að það hafi komið honum á óvart að öxin skyldi finnast í skúffu í eldhúsinu eins og hann hafi heyrt því hann hafi talið að hún ætti að vera í verkfærakassa. Haft er eftir ákærða að í átökunum hafi hann rifið eitthvert vopn af H sem ákærði kvaðst hafa slegið frá sér með og hafi honum skilist á fólki að það hafi verið einhvers konar hamarsöxi. Sagði ákærði að sú lýsing, kæmi heim og saman við það áhald sem hann fékk í hendur. Hann hafi síðan, eftir að hann var búinn að slá frá sér, hent öxinni aftur í H og hlaupið út. Í samræmi við þá niðurstöðu dómsins að ákærði hafi verið með vopnið í hendinni við upphaf árásarinnar þykir mega ganga út frá því að ákærði sé sjálfur að lýsa áhaldi því er hann hafði að vopni. Ekkert hefur komið fram um að öxin hafi fundist á vettvangi eftir árásina þó svo að ákærði hafi sagt að hann hafi fleygt henni í höfuðið á H áður en hann fór út af veitingastaðnum.

Vitnið Y lýsti öxinni þannig að sér hafi sýnst skaftið vera 24 til 26 sm langt (er nálægt 27 sm) og þegar hann sá ákærða sveifla henni hafi honum virst hún vera frekar brúnleit en hitt. Taldi hann öxi sem er á mynd á skjali 1.7 bls. 2 og er auðkennd nr. 2 vera líklega og líkasta þeirri sem ákærði beitti. Í skýrslu sinni fyrir dómi 8. desember sl. segist vitnið hafa séð að vopni var sveiflað en hann hafi reyndar ekki séð þegar ákærði tók vopnið upp. Hafi þetta staðið í 15 eða 20 sekúndur og þá hafi ákærði hlaupið niður aftur eftir að hafa stungið einhverju inná sig að því er honum sýndist, áður en hann fór. Aðspurður um það hvernig ákærði hafi verið klæddur er hann nokkuð viss um að hann hafi verið í grænum jakka, frekar síðum.

Vitnið Æ sagði er honum voru sýndar myndir þær af áhöldum sem sýndar hafa verið í réttinum að hann teldi að áhald sem er á mynd nr. 2 geti vel verið það áhald sem hann sá árásarmanninn með því að það hafi verið með rauðum lit og liturinn á skaftinu sé sá sami er hann hafi séð á staðnum og stærðin gæti einnig passað. Þá minni hann að ákærði hafi verið í dökkum fötum, einhverjum dökkgrænum jakka. Hann kveðst vera alveg viss um að áhaldið sem notað var hafi ekki orðið eftir þarna á staðnum.

Öxin sem framangreind vitni bentu á er þau gáfu skýrslu fyrir dómi er sú hin sama og hald var lagt á við húsleit á heimili ákærða. Framburðir annarra vitna sem áður eru raktir gefa vísbendingu um að áhald það sem ákærði beitti við árásina hafi verið sambærilegt þeirri öxi sem fannst við húsleitina.

Björgvin Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður, sem annaðist lífsýnarannsókn á öxinni sem fannst við húsleit á heimili ákærða, sagði fyrir dóminum að niðurstaða af rannsókn hans væri að ekki væri útilokað að öxin hafi verið notuð til verknaðarins. Á henni hafi ekki fundist blóð en ekkert sé því til fyrirstöðu að þrífa blóð af slíkri öxi hafi það ekki verið mikið.

Þegar framangreint er virt telur dómurinn að ekki sé varhugavert að slá því föstu að ákærði hafi beitt öxinni, sem fannst við húsleit á heimili hans, í árás sinni á H.

Verður nú vikið að þeirri hættu sem árásin hafði í för með sér og hver tilgangur ákærða hafi verið.

Ákærði og H hafi báðir borið að komið hafi til átaka á milli þeirra á veitingastaðnum A. Hansen nokkrum mánuðum áður en það atvik sem hér er til umfjöllunar átti sér stað. Hefur ákærði haldið því fram að H hafi slegið úr honum tönn. Er ljóst af öllu að þeir báru kala hvor til annars fyrir atvikið 31. ágúst 2004, en engu verður þó slegið föstu varðandi það hver sé rót hans.

Vitnið Einar Ólafsson læknir sagði að hann geti ekki sagt til um það hversu þung höggin sem ákærði veitti H hafi verið en orðaði það svo að þónokkuð þungt högg þurfi til þess að valda áverkanum hægra megin á enninu enda sé beinið það þykkt þar. Hann kvaðst ekki vera í nokkrum vafa um að hefðu áverkar, sambærilegir þeim sem hér um ræðir, verið á öðrum stað á höfðinu gætu þeir leitt til dauða af völdum þess sem fyrir yrði af völdum blæðinga. Hann segir einnig að H hafi verið svo heppinn, ef svo mætti segja, að höggið lenti inn í stórri ennisholu, en 5 til 10% einstaklinga hafi enga ennisholu. Samkvæmt staðfestu læknisvottorði var um að ræða brot inn í ennisholu á tveimur stöðum. Hafi þessi áverki sem H hlaut ekki verið honum lífshættulegur þó svo hann hefði ekki komist strax undir læknishendur.

Í fyrirliggjandi læknisvottorði segir m.a svo: ,,Við skoðun í svæfingu kemur í ljós að hann hafi verið með 4 cm skurð framan á enninu yfir vinstri ennisholu, það er innkýldur beinflaski ca. ½ cm á breidd og 2 cm langur og er hann innkýldur um það bil ½ cm inn í ennisholuna. Hann er með tættan skurð á hægri augabrún sem liggur niður á nefrótina um það bil 5 cm langur.”

Vitnið Æ sagði aðspurður í dóminum að hátt hafi verið reitt til höggs og hafi sá sem sló farið með hendina alveg upp. Síðan hafi það verið maður sem sat við hliðina á þeim sem fyrir árásinni varð sem fer á milli þess sem fyrir árásinni varð og ákærða og reynir að stoppa hann. Hafi ákærði þá hent þessum manni til og síðan rokið út.

Þegar vitnið Þ var spurður um það hvort hátt hafi verið reitt til höggs með öxinni sagði hann að svo hafi verið og hafi verið slegið líkara því að verið væri að brjóta stein með sleggju en að verið væri að negla nagla með hamri. Engin orðaskipti hafi átt sér stað milli ákærða og H fyrir árásina.

Vitnið I sagði að hann hafi í fyrstu haldið að þetta væri grín því að ásetningur ákærða til að berja H virkilega í höfuðið hafi verið svo greinilegur. Hafi ákærði náð að berja H nokkrum sinnum með öxinni í höfuðið og hafi sér virst þetta líta út eins og ákærði ætlaði að ,,kála H. Engin orðaskipti hafi átt sér stað milli ákærða og H fyrir árásina.

Vitnið Y kvaðst ekki ekki hafa heyrt nein orðaskipti fyrir árásina.

Af framburðum vitna er ljóst að árás ákærða var beinskeitt og fyrirvaralaus með öllu. Engin orðaskipti áttu sér stað milli H og ákærða. Árásin var gerð í miklum flýti H að óvörum með vopni sem augljóslega er til þess fallið að bana manni með sé reitt til höggs af afli eins og talið er sannað að ákærði hafi gert. Ákærða hlaut að vera þetta ljóst. Verður að telja að að hending ein og hugsanlega viðbrögð H og sessunautar hans hafi ráðið því að ekki hlaust bani af. Verður samkvæmt þessu litið á atlögu ákærða sem tilraun til manndráps og háttsemi hans talin varða við 211. gr. sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á ákærði sér engar málsbætur í þessum þætti málsins.

Í B lið ákærunnar er ákærði sakaður um sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa á sama tíma og sama stað og í A lið greinir, slegið til I með öxinni þannig að höggið lenti í vinstra eyra hans með þeim afleiðingum að aftan við hlust hlaut hann skurð sem gekk niður í brjósk eyrans.

             Vitnið I hefur lýst atvikinu þannig að lætin í ákærða hafi verið svo mikil að vitnið hafi fengið öxina í vinstra eyra svo að úr blæddi og þurft að bera fyrir sig hendurnar til þess að forðast frekari áverka. Hann telur að höggum með öxinni hafi ekki verið viljandi beint að sér. Samkvæmt vottorði læknis kom I á slysadeild Landspítala laust fyrir klukkan 23 að kvöldi 31. ágúst 2004. Við læknisskoðun sem þá var framkvæmd var hann með þann áverka á vinstra eyra sem lýst er í ákæru. Samrýmist áverkinn þeim framburði I að öxin hafi lent í eyra hans. Telur dómurinn ekki varhugavert að telja viðhlítandi sönnur komnar fram fyrir því að áverkinn hafi verið þannig til kominn. Enda þótt fullyrða megi að ákærði hafi ekki ætlað sér að skaða I og beinn ásetningur hans hafi eingöngu tekið til þess að koma höggum á H með öxinni eru engin efni til þess, í ljósi allra aðstæðna, að líta svo á að ákærði hafi með gáleysi orðið valdur að þeim áverka sem I hlaut. Mátti ákærði þannig að mati dómsins í öllu falli gera sér grein fyrir því að langlíklegast væri að I yrði fyrir öxinni þegar hann sannanlega reyndi að koma H til aðstoðar. Er með þessu fullnægt saknæmisskilyrðum til þess að heimfæra háttsemi ákærða gagnvart I undir 217. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu og með því að ákærði beitti hættulegu vopni við atlögu sína er fallist á heimfærslu brots ákærða til refsiákvæða í ákæru, samanber dómafordæmi sem áður er getið.

IV.

             Refsiákvörðun o.fl.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi unnið til refsingar fyrir tilraun til manndráps sem varðar við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 7 líkamsárásir af hverjum tvær varða við 2. mgr. 218. gr., ein við 1. mgr. sömu greinar og fjórar við 1. mgr. 217. gr. Hann hefur einnig unnið til refsingar samkvæmt 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Í þágu rannsóknar sakarefnisins sem leiddi til ákærunnar frá 12. október 2004 var kveðinn upp dómsúrskurður þann 10. september 2004 um að ákærði sætti geðrannsókn sem miðaði að því að mat yrði lagt á það hvort ástæða væri til að draga sakhæfi hans samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga í efa, eða hvort refsing gæti borið árangur. Dómkvaðning fór síðan fram þann 23. september 2004 og var Tómasi Zoëga falið að annast rannsóknina. Liggur rannsóknarskýrsla Tómasar fyrir í gögnum málsins  og hefur hann staðfest hana fyrir dómi. Kemur fram í niðurstöðu að það sé mat geðlæknisins að ákærði hafi umrætt kvöld ekki verið haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun, sem kæmi í veg fyrir að hann gæti stjórnað gerðum sínum. Því sé það mat hans að verði ákærði fundinn sekur þá séu engar læknisfræðilegar ástæður sem mæli gegn því að refsing geti borið árangur.

Með hliðsjón af niðurstöðu framangreindrar rannsóknar á geðheilbrigði ákærða telur dómurinn hann sakhæfan.

Ákærði sem er fæddur 1. júní 1979 á að baki nokkurn sakarferil og hefur hann tvívegis verið dæmdur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þannig var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi í héraðsdómi, þar af 15. mánuði skilorðsbundna til 5 ára þann 11. mars 1997 fyrir brot gegn 252. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og var þessi dómur staðfestur af Hæstarétti 18. september sama ár. Þann 6. mars 1998 var hann síðan dæmdur í héraðsdómi í 18 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 245. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði gekkst þann 14. desember 2000 undir viðurlagaákvörðun vegna brota gegn fíkniefnalöggjöfinni og 3. mgr. 37. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þann 5. september 2003 hlaut hann síðan 3 mánaða fangelsisdóm í héraði fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og var refsingin skilorðsbundin í 3 ár. Með brotum sínum nú hefur ákærði því rofið skilorð síðastnefnda dómsins frá 5. september 2003 og verður hann því dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga.

Að mati dómsins á ákærði sér engar málsbætur.

Árásin á H var sérstaklega ófyrirleitin og beindist gegn lífi þess er fyrir henni varð og réði tilviljun ein og hugsanlega viðbrögð þolandans og vitnisins I því að ákærði náði ekki markmiði sínu.

Þá verður ekki litið fram hjá því við refsimatið að líkamsárásir þær sem ákærði er sakfelldur fyrir eru allar utan ein því marki brenndar að beinast að höfði þeirra sem fyrir verða. Slegið er af afli með krepptum hnefa og í einu tilfelli með flösku sem brotnar nálægt augum þess sem fyrir varð. Tilefni til árásanna er jafnan lítið eða ekki neitt og í besta falli ekki í neinu réttlætanlegu samhengi við það sem á undan var gengið. Dæmin sanni að slíkar árásir geta haft stórhættulegar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem fyrir þeim verða. Þrátt fyrir að hafa fengið tvívegis dóma fyrir slík brot eftir átján ára aldur í annað skiptið 18 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. og þriggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr hefur ákærði ekki látið sér segjast.

Um brot ákærða gegn umferðar- og vopnalögum sem hann er nú sakfelldur fyrir þykir ekki ástæða til að fara um fleiri orðum.

Þegar allt þetta er haft í huga og með hliðsjón af 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 7 ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 2. september sl. fram að dómsuppsögu með fullri dagatölu.

Með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga verður fallist á kröfu ákæruvalds um upptöku á þeirri öxi sem ákærði telst hafa beitt við árásina 31. ágúst 2004 og hald var lagt á við húsleit á heimili hans daginn eftir.

Skaðabótakrafa A samkvæmt ákæru nemur svo sem fram er komið 589.642 krónum. Var krafan sett fram með bréfi lögmanns hans 26. mars 2004. Annars vegar er gerð krafa um greiðslu á þjáningabótum, sbr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og nemur sá liður 6.790 krónum. Hins vegar er krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 500.000 krónur. Þá er gerð krafa um það að þessar fjárhæðir beri vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 13. janúar 2004 til greiðsludags. Loks er krafist greiðslu á lögfræðikostnaði að fjárhæð 82.792 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Samkvæmt vottorði Skúla Bjarnasonar læknis á slysa- og bráðadeild Landspítala kom A til saumatöku á deildina 19. janúar 2004, það er viku eftir að ákærði veitti honum þann áverka sem getið er um í A. lið ákæru frá 28. júlí 2004. Hafa með því verið lögð fram viðhlítandi gögn til stuðnings því að A eigi rétt til þjáningabóta og þá þannig að hann hafi í 7 daga verið veikur án þess að vera rúmfastur. Krafa hans um þjáningabætur er samkvæmt þessu tekin til greina.

Að virtum málsatvikum þykir A eiga rétt til miskabóta samkvæmt a. lið 26. gr. skaðabótalaga, sem þykja hæfilega ákveðnar 250.000 krónur.

Loks verður krafa A um greiðslu kostnaðar sem hann hefur haft af því að halda bótakröfu sinni fram í málinu, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, tekin til greina með 60.000 krónum og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða A 316.790 (6.790 + 250.000 + 60.000) krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir. Er í því sambandi til þess að líta að bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga bera ekki vexti samkvæmt 16. gr. laganna. Um vexti af þeim bótum fer því eftir 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Krafa H um skaðabætur styðst samkvæmt kröfubréfi lögmanns hans við 26. gr. skaðabótalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Fullnægt er skilyrðum til að dæma ákærða til að greiða H miskabætur á grundvelli a. liðar þessa ákvæðis og þykja þær hæfilega ákveðnar 450.000 krónur. Í kröfubréfi er ekki gerð krafa um þjáningabætur eða bætur fyrir varanlegan miska. Við munnlegan flutning málsins var því hins vegar hreyft að H ætti rétt til bóta vegna varanlegs miska sem hann hafi orðið fyrir við árás ákærða, sbr. 4. gr. skaðabótalaga. Ákvörðun um miskastig liggur ekki fyrir. Eru þegar af þeirri ástæðu ekki efni til að gera ákærða að greiða H bætur vegna varanlegs miska.

Auk miskabóta samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða H bætur vegna kostnaðar sem á hann mun falla og hann hefur haft af því að halda fram bótakröfu í málinu fram til þess að honum var skipaður réttargæslumaður 16. nóvember 2004, en samkvæmt kröfubréfi nemur bótakrafa að þessu leyti 141.930 krónum. Þykja þessar bætur hæfilega ákveðnar 60.000 krónur.

Samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða H 510.000 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði dæmdur til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnar- og réttargæslulaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur og þóknun réttargæslu­manns H, Guðmundar B. Ólafssonar hæstaréttar­lögmanns, sem ákveðin er 100.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið sótt af Sigríði Jósefsdóttur saksóknara.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari sem dómsformaður og meðdómendurnir Guðmundur L. Jóhannesson og Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómarar, kváðu upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

             Ákærði Börkur Birgisson sæti fangelsi í sjö ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 2. september 2004 til dagsins í dag með fullri dagatölu.

             Ákærði sæti upptöku á öxi sem lagt var hald á við húsleit á heimili hans 1. september 2004.

             Ákærði greiði A 266.790 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum af 6.790 krónum frá 13. janúar 2004 til greiðsludags, en vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 200.000 krónum frá 13. janúar 2004 til greiðsludags.

Ákærði greiði H 510.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 450.000 krónum frá 31. ágúst 2004 til 21. nóvember sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 510.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur og þóknun réttargæslu­manns H, Guðmundar B. Ólafssonar hæstaréttar­lögmanns, 100.000 krónur.