Hæstiréttur íslands
Mál nr. 778/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn
27. nóvember 2014. |
|
Nr.
778/2014. |
Lögreglustjórinn á
höfuðborgarsvæðinu (Karl
Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Unnsteinn Örn Elvarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga
nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar
sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu
stæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt
Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2014, sem
barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur
26. nóvember 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til
mánudagsins 8. desember 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild
er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili
krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til
vara að gæsluvarðahaldinu verði markaður skemmri tími. Jafnframt krefst hann
þess, verði honum gert að sæta gæsluvarðhaldi, að tilhögun þess verði þannig að
takmörkunum samkvæmt c., d. og e. lið 99. gr. laga nr. 88/2008 verði aflétt.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur ekki borið undir héraðsdóm kröfu sína um tilhögun
gæsluvarðhalds og kemur hún því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til
mánudagsins 8. desember 2014 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti
einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í
greinargerð lögreglustjóra kemur fram að, að kvöldi 23. nóvember sl.
hafi lögreglu borist tilkynning um slasaðan mann að [...]. Þegar lögreglan hafi
komið á vettvang hafi komið í ljós að þar hefði maður verið stunginn í
brjóstholið.
Lögreglustjóri tekur fram að
kærði hafi gefið tvær skýrslur hjá lögreglu þann 25. nóvember sl. Kærði, sem búi
í íbúðinni að [...], segði að hann hafi að degi til, þann 23. nóvember sl.,
fengið sér að drekka áfengi og síðan lagt sig. Hann hafi vaknað við að gler í skáp í stofunni hafi brotnað. Þá
hafi verið í íbúðinni A, Y, B og C og einhverjir tveir í viðbót, sem hann hafi
ekki getað gert grein fyrir, en í fyrri skýrslutökunni hafi hann sagst kannast
við röddina í öðrum þeirra, en hafi þó ekki getað sagt hver það væri. Í seinni
skýrslutökunni hafi hann sagt þá vera [...]. Í fyrri skýrslutökunni hafi hann sagst hafa
farið út í göngutúr og tekið svo strætó upp í [...]. Í seinni skýrslunni hafi
hann sagst hafa hitt þá Z og Y og gengið um með þeim áður en hann hafi tekið
strætó, en hann segði Z hafa verið á leið heim til sín, en í skýrslu af Z segi
hann ekkert um að ætla að fara heim til sín. Í fyrri skýrslutökunni hafi kærði
ekki minnst á að hann hafi hitt þá Z og Y áður en hann hafi farið að [...]. Þá
segðist kærði hafa farið að gistiheimili við [...] og að hann hefði ekki hitt
neinn þar, en hafi sofnað í sófa. Hann hafi sofið svo lengi að strætó hafi
verið hættur að ganga og því hafi hann gengið aftur heim að [...], en þá séð að
lögreglan hafi verið á vettvangi og því ákveðið að sofa úti og segðist hafa
sofið á horni í bænum alla nóttina og ekki hafa hitt neinn.
Þá
kemur fram í greinargerð lögreglustjóra að daginn eftir hafi kærði sagst
hafa farið í [...] og á [...], en hafi ekki getað gert nánar grein fyrir því
hvaða [...] um væri að ræða. Hann segðist hafa verið þar til hádegis en farið
síðan í [...] og tekið strætó til [...] þar sem hann hafi hitt kærustu sína og
þau farið í heimsókn til vina sinna, þar sem hann hafi frétt að lögreglan væri
að lýsa eftir honum. Í fyrri skýrslunni hafi kærði verið spurður í hvaða fötum
hann hafi verið þann 23. nóvember. Segðist hann hafa verið í svartri úlpu,
hvítum skóm og öðrum buxum en hann hafi verið í þegar hann hafi verið
handtekinn. Í fyrri skýrslutökunni segðist hann hafa hent buxunum sem hann hafi
verið í þar sem þær hafi rifnað. Segðist hann hafa hent þeim í ruslið rétt
fyrir ofan við gistiheimilið að [...], hjá verslun sem selji [...]. Hann segðist
hafa fengið föt hjá D vini sínum. Í seinni skýrslutökunni hafi hann verið
spurður aftur um buxurnar. Segðist hann hafa fengið aðrar buxur hjá D vegna
þess að hinar buxurnar hefðu rifnað um nóttina þegar hann hafi verið að bogra
vegna kulda. Segðist hann hafa hent buxunum á [...], skammt frá [...], en hafi
ekki getað lýst nánar ílátinu sem hann hafi hent þeim í. Hann segðist hafa hent
þeim þar, þar sem hann hafi tekið strætó upp í [...]. Þar hafi hann verið
sóttur af félaga sínum og þeir farið til D þar sem hann hafi fengið aðrar
buxur. Hann hafi tekið rifnu buxurnar með sér því hann hafi ekki vitað hvað
hann ætlaði að gera við þær og hafi nefnt að hann lifði fábrotnu lífi. Hann
hafi svo gengið aftur langleiðina að gistiheimilinu að [...], þegar kærasta
hans hafi hringt og hann þá gengið til baka að [...]. Hann hafi þá hent rifnu
buxunum á leiðinni þangað, skammt frá [...]. En þess má geta að verslun [...] á
[...] er talsvert ofar en gistiheimilið og umrædd verslun sem selur [...]. Í fyrri skýrslutökunni hafi kærði
ekki minnst á að félagi hans hafi sótt hann í [...] og keyrt hann til D. Þegar
hann hafi verið beðinn um að lýsa bílastæðinu nánar, sem félagi hans hafi sótt
hann á, hafi hann ekki getað það.
Lögreglustjóri
bendir á í greinargerð sinni að þegar
kærði hafi verið handtekinn þann 25. nóvember sl. hafi hann verið í hvítum skóm
og hafi við skýrslutöku sagt að það væru sömu skórnir og hann hafi verið í þann
23. nóvember. Tæknideild lögreglunnar hafi rannsakað skóna og fundist hafi blóð
á vinstri skónum. Skýrslan fylgi gögnum málsins.
Að
mati lögreglustjóra verði framburður kærða að teljast afar ótrúverðugur hvað
varðar ferð hans að [...], að þar hafi hann ekki hitt neinn heldur ákveðið að
leggja sig á sófa í húsi þar sem hann búi ekki og þekki engan. Hann hafi svo
ákveðið að ganga frá [...] í miðbæ [...] og þegar hann hafi komið að [...] hafi
lögreglan verið þar. Þá sé misræmi í
framburði hans í fyrri og seinni skýrslutöku, t.d. um að hann hafi hitt þá Z og
Y á gangi þann 23. nóvember og um hvar hann hafi hent buxunum sem hann hafi
ákveðið að skipta um. Þá hafi hann ekki getað lýst nákvæmlega hvernig
ruslaílátið hafi verið sem hann henti buxunum í, hvort það hafi verið mjög
lítið eða mjög stórt o.s.frv. Þá hafi hann ekki getað lýst því á hvaða
bílastæði félagi hans hafi sótt hann um nóttina. Á grundvelli ótrúverðugs
framburðar kærða um ferðir hans, um að hann hafi þurft að skipta um buxur og um
hvar hann hafi hent þeim, þess að blóð hafi fundist á skóm sem hann hafi verið
í á þeim tíma sem brotið hafi verið framið og þess að hann hafi verið á vettvangi
fyrr um daginn og komið að vettvangi seinna um kvöldið, líkt og sakborningarnir
Z og Y, þá telji lögregla rökstuddan grun fram kominn um að kærði hafi gerst
sekur um það brot sem til umfjöllunar sé og því sé brýnt að hann sæti
gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, því ætla megi að hann muni ella
torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki um brot, t.d. með því
að koma umræddum buxum undan og hníf, en árásarvopnið hafi enn ekki fundist,
ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni.
Sakarefni
málsins telji lögreglustjóri varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi ævilangt ef sök sannist. Um
heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð
sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu standi
sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Niðurstaða
dómara:
Til rannsóknar er brot gegn 211.
gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem getur varðað þungri
fangelsisrefsingu. Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglu og
rannsóknargögnum málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði eigi
aðild að brotinu. Eru því skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir hendi
til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Þá eru vegna rannsóknarhagsmuna
uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að kærði sæti
gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er og einangrun meðan á því stendur af
sömu ástæðu, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu verður krafa
lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina eins og nánar greinir í
úrskurðarorði.
Ingibjörg
Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað
upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt.
[...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 8. desember 2014 kl. 16.00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.