Hæstiréttur íslands
Mál nr. 338/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Þriðjudaginn 19. maí 2015. |
|
Nr. 338/2015.
|
A (Kolbrún Garðarsdóttir hdl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í eitt ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2015, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðili yrði svipt sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um sviptingu sjálfræðis, en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hún kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2015.
Með beiðni, sem barst dóminum 21. apríl sl. hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...], verði með vísan til a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, svipt sjálfræði í 12 mánuði. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
Af hálfu varnaraðila er því aðallega hafnað að krafa sóknaraðila nái fram að ganga en til vara er þess krafist að sviptingu verði markaður skemmri tími. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Málið var þingfest 24. apríl sl. og tekið til úrskurðar 5. maí sl. Varnaraðili var með ákvörðun innanríkisráðuneytisins 2. apríl sl. nauðungarvistuð á sjúkrahúsi í 21 dag. Beiðni varnaraðila var móttekin í héraðsdómi 21. apríl sl. og því innan þeirra tímamarka sem áskilið er í 2. mgr. 29. gr. laga nr. 71/1997. Móður varnaraðila mun vera kunnugt um fram komna beiðni um tímabundna sjálfræðissviptingu.
Í kröfu um sjálfræðissviptingu kemur m.a. fram að varnaraðili sé 27 ára gömul, einstæð móðir sem búi í leiguíbúð í [...]. Hún hafi lokið stúdentsprófi. Á árinu 2013 hafi varnaraðili hætt störfum á [...] sem hún starfaði á og hafi hún verið án vinnu síðan og þegar atvinnuleysisbætur. Varnaraðili eigi níu ára gamla dóttur og hafi barnavernd Reykjavíkur komið að málefnum dótturinnar frá því snemma árs 2012 eftir að tilkynning hafði borist frá grunnskóla. Frá því seint á árinu 2014 hafi dóttir varnaraðila búð hjá móðurömmu sinni sem fari tímabundið með forsjá hennar.
Þá segir að í febrúar 2012 hafi varnaraðili orðið fyrir líkamsárás og í kjölfarið hafi móðir hennar tekið eftir breytingum á hegðun hennar. Muni þar hafa verið um að ræða fyrstu einkenni veikinda sem hrjáð hafi varnaraðila en þau komi fram í ranghugmyndum hennar um ýmis atriði. Hafi varnaraðili einangrað sig mjög í kjölfarið og talið vini og fjölskyldu vera á móti sér. Þá hafi hún talið að nágrannar njósnuðu um sig. Þá hafi hún verið heltekin af hræðslu við lýs og séð iðandi lús heima hjá sér og í hári sínu og dóttur sinnar. Hafi hún meðhöndlað dóttur sína dögum saman með lúsasjampói. Þá segir að varnaraðili hafi í vaxandi mæli neytt áfengis samfara veikindum og flesta daga vikunnar. Hún eigi sögu um áfengisvanda og hafi meðal annars farið í áfengismeðferð á sjúkrahúsinu Vogi á unglingsárum sínum.
Um aðdraganda innlagnar á sjúkrahús segir að starfsfólk í grunnskóla dóttur varnaraðila hafi tekið eftir sérkennilegri hegðun hennar. Hafi dóttir varnaraðila ítrekað komið mjög seint í skólann auk þess sem varnaraðili hafi sent hana með lúsasjampó í hárinu dögum saman. Í kjölfarið hafi móðir varnaraðila haft samt við sálfræðing hjá barnavernd Reykjavíkur og óskað eftir aðkomu hans við að kanna aðstæður hjá varnaraðila. Hafi þá komið í ljós að varnaraðili var alvarlega veik. Hún hafi í tvígang verið færð í fangageymslu lögreglu eftir að hafa áreitt barnsföður sinn á heimili hans. Í síðara skiptið hafi móðir varnaraðila haft samband við borgarlækni sem lagt hafi mat á ástand hennar. Hafi það verið mat hans að varnaraðili væri í geðrofi og niðurstaðan orðið sú að hún hafi lagst sjálfviljug inn á geðdeild 15. janúar sl. Hafi hún verið lögð inn á almenna móttökugeðdeild 32A sama dag. Varnaraðili hafi ekki áður leitað til geðdeildar.
Þann 28. janúar sl. hafi varnaraðili verið flutt á bráðageðdeild 32C vegna alvarlegs geðrofs og ógnandi hegðunar þrátt fyrir að hafa fengið öfluga lyfjameðferð með geðrofslyfjum. Ástandi hennar er lýst á þann veg að hún sé með ofsóknarranghugmyndir, ofskynjanir, mikla atferlistruflun og ógandi hegðun. Hafi hún m.a. ítrekað beitt starfsfólk geðdeildar ofbeldi með því að sparka, slá og kasta hlutum. Þá hafi hún slegið til annarra sjúklinga og kastað hlutum í þá. Þá hafi varnaraðili einnig skaðað sjálfa sig. Endurtekið hafi þurft að kalla eftir aðstoð varnarteymis geðdeildar og hafi þurft að gefa varnaraðila lyf í sprautuformi. Vegna þessara atferlistruflana hafi verið talið nauðsynlegt að flytja hana á öryggisgang. Hún hafi fengið fulla skammta af geðrofslyfjum en endurtekið hafi þurft að breyta um meðferð þar eð hún virtist ekki svara lyfjunum að neinu marki.
Varnaraðili hafi verið sjálfviljug á geðdeild og samþykkt að taka lyf allan tímann. Þann 1. apríl sl. hafi hún á hinn bóginn óskað eftir útskrift. Hafi þá verið reynt að ræða við hana, útskýra stöðuna og færa fram rök fyrir áframhaldandi innlögn. Það hafi ekki borið árangur. Var það mat lækna að þörf væri á nauðungarvistun og var varnaraðili nauðungarvistuð í 48 klukkustundir 1. apríl 2015. Í kjölfar þess hafi sóknaraðili staðið að nauðungarvistun varnaraðila í 21 dag, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. laga nr. 71/1997, með beiðni 1. apríl sl. sem samþykkt hafi verið með bréfi innanríkisráðuneytisins 2. apríl sl. Hafi varnaraðili í kjölfarið farið fram á að ákvörðun ráðuneytisins yrði felld úr gildi. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, upp kveðnum 10. apríl sl., hafi ákvörðun ráðuneytisins verið staðfest. Var niðurstaða héraðsdóms svo staðfest með dómi Hæstaréttar 17. apríl sl.
Í beiðninni segir að krafa um tólf mánaða sjálfræðissviptingu byggist á heimild í 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 þar sem ljóst sé að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm að stríða og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð, sbr. a-lið 4. gr. laganna. Varnaraðili hafi í innlögn sýnt batamerki þótt hæg séu en sjúkdómsinnsæi hennar hafi verið mjög skert allan tímann. Þegar litið til sé allra aðstæðna í málinu verði að telja að tímabundna sjálfræðissviptingu nauðsynlega til að vernda líf og heilsu varnaraðila. Ljóst sé að nauðsynlegri læknishjálp og meðferðarúrræðum verði ekki komið við með öðrum hætti.
Beiðni sóknaraðila fylgdi ítarlegt læknisvottorð B, læknis á geðdeild Landspítalans, dagsett 15. apríl sl. Þar kemur m.a. fram að varnaraðili hafi verið lögð inn á almenna móttökugeðdeild 32A 15. janúar sl. Hún hafi verið metin í geðrofi við innlögn og lagst sjálfviljug inn í sína fyrstu innlögn á geðdeild. Geðhag varnaraðila við innlögn er lýst á þann hátt að hugsanatruflun hafi verið til staðar og grunur sé um ranghugmyndir. Varnaraðili hafi ekki verið talin í sjálfsvígshættu en metin í geðrofi.
Hvað varði gang meðferðar í innlögn segir í vottorðinu að varnaraðili hafi verið á deild 32A til 28. janúar sl. en þá hafi hún verið flutt á bráðageðdeild 32C vegna alvarlegs geðrofs og ógnandi hegðunar. Hafi hún áfram verið mjög veik af geðrofi á deild 32C með ofsóknarranghugmyndir, ofskynjanir, mikla atferlistruflun og ógnandi hegðun. Fyrstu vikurnar í innlögn hafi hún lítið getað tjáð sig í viðtölum um líðan sína og upplifanir. Hún hafi ekki getið setið kyrr og lokið samtölum eftir örfáar mínútur með því að ganga út. Er leið á innlögnina hafi hún farið að tjá sig betur. Hafi hún þá greint frá því að hún heyrði tónlist og hefði gert lengi, sæi ryk og kusk breytast í skordýr, húsgögn breyta um lögun, áreita sig og leggja í einelti. Þá hafi hún lýst því að hugsanir hennar stoppi en hún fái hugsanir annarra í sinn huga og aðrir heyri hugsanir hennar. Þá gruni hana að starfsfólk geðdeildar eitri fyrir sér matinn. Hún hafi áhyggjur af dóttur sinni, móðir hennar selji hana í vændi og bræður hennar misnoti hana. Hún hafi ráðist á móður sína er hún hafi komið með dótturina í heimsókn
Þá segir að varnaraðili hafi síðastliðnar vikur sýnt batamerki þótt hæg séu. Hún virðist hafa losnað við ofskynjanir fyrir um mánuði síðan en hafi enn ranghugmyndir um móður sína og bræður og starfsfólk deildarinnar. Þá hafi hún enn verið að ráðast á starfsfólk deildarinnar. Jafnframt segir að sjúkdómsinnsæi hennar hafi verið mjög skert alla innlögnina þótt hún virðist skynja að einhverju leyti að hún sé veik en hún hafi ekki innsæi í geðrofseinkenni sín.
Við geðskoðun er vottorðið er ritað segir að geðslag og geðhrif varnaraðila séu flöt en hún sé með fulla meðvitund og áttuð. Hún hafi ranghugmyndir af ofsóknartoga og takmarkað sjúkdómsinnsæi. Þá segir að hún hafi verið gríðarlega veik í innlögninni með mikil martraðarlík geðrofseinkenni og mikla atferlistruflun með ofbeldishegðun. Hún hafi verið að veikjast af geðrofssjúkdómi sl. þrjú ár með neikvæðum einkennum: virknifalli, innsæisleysi og félagslegri einangrun og jákvæðum einkennum: ranghugmyndum, hugsanatruflun, heyrnarofskynjunum, sjónofskynjunum og alvarlegri atferlistruflun. Er það mat læknisins að varnaraðili uppfylli greiningarskilmerki fyrir aðsóknargeðklofa. Hún hafi verið með ómeðhöndluð geðrofseinkenni í a.m.k. þrjú ár og hafi bati verið hægur í innlögn. Þá sé innsæi hennar afar takmarkað og hún sé enn í geðrofi. Í ljósi veikinda hennar sé áframhaldandi vistun hennar óumflýjanleg, fyrst um sinn á bráðageðdeild og í framhaldinu á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild til að tryggja áframhaldandi bata. Útskrifi varnaraðili sig nú stefni hún án alls vafa heilsu sinni og lífi í hættu. Þá sé ekki hægt vegna ofsóknarranghugmynda, sögu um endurtekið ofbeldi og áfengisfíkn hægt að útiloka að varnaraðili sé hættuleg öðrum. Mælir læknirinn því með sjálfræðissviptingu til tólf mánaða.
Læknirinn staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum og svaraði spurningum um efni þess. Aðspurð um tímalengd sjálfræðissviptingar taldi hún nauðsynlegt að sviptingin myndi ekki vara skemur en í tólf mánuði. Sá tími væri nauðsynlegur til að hægt væri að veita varnaraðila fullnægjandi meðferð. Ekki væri hægt að útiloka að varnaraðili gæti verið hættuleg sjálfri sér og öðrum. Yrði varnaraðili sjálfræðissvipt til skemmri tíma gæti það haft í för með sér rof á meðferð sem hefði slæm áhrif á batahorfur og möguleikum varnaraðila til að ná stjórn á sjúkdómseinkennum sínum. Varnaraðili hefði verið með geðrof í nokkuð langan tíma sem hafi ekki verið meðhöndlað. Þess vegna tæki meðferð hennar langan tíma. Því væri mjög mikilvægt með tilliti til möguleika varnaraðila á að ná bata að gripið yrði inn í nú á þessu stigi veikinda hennar með langtímameðferð með endurhæfingu og að sjálfræðissviptingu yrði markaður tólf mánaða tími.
Með heimild í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 71/1997 aflaði dómari vottorðs C, sérfræðings í geð- og embættislækningum. Í niðurlagi ítarlegs vottorðs hans, sem dagsett er 30. apríl sl., er því lýst að varnaraðili hafi mögulega verið veik í tvö til þrjú ár og miðað við hennar lýsingu mikið veik frá hausti 2014. Hún hafi verið með miklar ranghugmyndir og samhliða sé ofskynjunum lýst. Hún hafi þurft mikla geðrofslyfjameðferð og hafi einungis svarað henni takmarkað á rúmum fjórum mánuðum. Í meðferðinni hafi hún verið óútreiknanleg og á köflum ofbeldisfull gagnvart ættingjum og starfsmönnum en einnig valdið sjálfri sér skaða. Innsæi sé lítið og hún sé enn með ranghugmyndir sem hafi í sér verulegan ofbeldisþátt. Ljóst sé að varnaraðili þurfi langtímameðferð á sjúkrahúsi og endurhæfingarstofnun í framhaldinu. Innsæisleysi hennar sé mikið og veruleg ógn við framtíðarhorfur. Mælir læknirinn eindregið með sjálfræðissviptingu. Hvað varði tímalengd sviptingar segir í vottorðinu að verði hún til sex mánaða sé mögulegt að varnaraðili verði þá heldur betri en hætta sé á að varnaraðili ákveði að hætta meðferð og veikist þá enn frekar að nýju með heilsutjóni fyrir hana sjálfa og jafnhliða ógn fyrir fjölskyldu og barnsföður. Miðað við hve hægt hafi gengið í meðferð verði að telja þetta líklegt ferli. Bakslag í veikindum eins og varnaraðili glími við sé líklegt til að seinka bata verulega. Sjálfræðissvipting til tólf mánaða sé því mun öruggara ferli með tilliti til langtíma heilsu og velferðar varnaraðila.
Við meðferð málsins fyrir dómi gaf læknirinn skýrslu og staðfesti framangreint mat sitt og svaraði spurningum um efni þess. Aðspurður kvað hann nauðsynlegt vegna alvarlegra veikinda varnaraðila að gripið væri inn í nú með sjálfræðissviptingu. Ljóst væri að varnaraðili hafi verið alvarlega veik í nokkuð langan tíma af geðrofi og að hún beri skýr merki um aðsóknargeðklofa. Þessi veikindi hafi ekki verið meðhöndluð fyrr en nú. Það væri ástæða þess hversu hægt hún hafi svarað meðferð. Þá væri ljóst að varnaraðili gæti verið hættuleg sjálfri sér og öðrum vegna ranghugmynda sinna. Að hans mati væri ekki unnt að marka sjálfræðissviptingu skemmri tíma en tólf mánuði vegna þess hve alvarleg veikindi varnaraðila væru og hvers seint meðferð hafi gengið fram að þessu. Yrði rof á meðferð væru batahorfur og framtíðarmöguleikar varnaraðila til að ná tökum á sjúkdómi sínum mun verri.
Varnaraðili treysti sér ekki vegna sjúkdóms sína til að koma fyrir dóminn og tala máli sínu. Málið var tekið fyrir á deild 32C 5. maí sl. að viðstöddum talsmanni sóknaraðila og verjanda varnaraðila auk starfsmanns Landspítalans. Varnaraðili mótmælti kröfunni og kvaðst vera ósammála því mati lækna að það þyrfti að svipta hana sjálfræði. Hún taldi sig ekki vera veika eða þurfa á hjálp að halda hvorki á sjúkrahúsinu né annars staðar. Hún vildi komast út af deildinni og vera heima hjá sér með dóttur sína.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að ekki séu uppfyllt lagaskilyrði til þess að varnaraðili verði svipt sjálfræði sínu tímabundið. Hún hafi sýnt bata þótt hann sé hægur. Hún hafi sýnt vilja til samstarfs og ekki útilokað að að eftir sex mánuði verði ástand hennar svo að hún geti þegið göngudeildarmeðferð án þess að vera sjálfræðissvipt. Gæta þurfi meðalhófs við skerðingu svo mikilvægra rétttinda.
Niðurstaða
Eins og að framan er rakið liggur fyrir í gögnum málsins og er í ljós leitt með vætti tveggja geðlækna, B og C, að varnaraðili á við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða sem þarfnast meðhöndlunar. Hefur hún síðastliðin þrjú ár glímt við vaxandi geðrofseinkenni og sýnt við þær aðstæður ógnandi hegðun og einnig verið hættuleg sjálfri sér. Hefur sjúkdómur hennar verið ómeðhöndlaður fram að þessu og veikindi hennar því verið á mjög alvarlegu stigi er hún komst undir læknishendur. Fram er komið í málinu að varnaraðili hafi enn ranghugmyndir um fólk og aðstæður og sé enn í geðrofi auk þess sem hún sýni á stundum ofbeldisfulla hegðun. Var framburður læknanna afdráttarlaus um að þörf væri á tímabundinni sjálfræðissviptingu varnaraðila til þess að unnt væri að veita henni fullnægjandi meðferð en vegna skorts á innsæi í sjúkdóm sinn, ástand og geðrofseinkenni hefði varnaraðili ekki skilning á að langvarandi meðferð sé henni nauðsynleg. Töldu læknarnir báðir að vegna alvarleika veikinda varnaraðila og þess hversu seint hún hafi svarað meðferð gæti sjálfræðissvipting ekki verið til skemmri tíma en eins árs. Yrði tíminn styttri væri hætta á að rof yrði í meðferð varnaraðila sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér hvað varðar sjúkdómsþróun og framtíðarhorfur hennar til að takast á við veikindi sín.
Að mati dómsins verður að telja ljóst að þörf sé tímabundinnar sjálfræðissviptingar varnaraðila og að hún sé í raun óumflýjanleg vegna hagsmuna varnaraðila sjálfrar. Með vísan til þess sem fram er komið í málinu og vætti áðurnefndra tveggja lækna verður að telja að án þessarar ráðstöfunar sé heilsu og öryggi varnaraðila stefnt í voða og möguleikum spillt á bata. Á hinn bóginn er ljóst að með inngripi eru meiri líkur á að varnaraðila takist að ná tökum á sjúkdómi sínum og einkennum hans að að framtíðarhorfur hennar verði mun betri.
Með hliðsjón af öllu framangreindu telur dómurinn því að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. nr. 71/1997, hvað varðar getu varnaraðila til að ráðstafa persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms. Er því óhjákvæmilegt að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið svo tryggja megi henni viðeigandi meðferð á sjúkrahúsi og endurhæfingu í kjölfarið svo hún geti átt möguleika á bata og náð tökum á lífi sínu á ný. Er fram komið í málinu að ekki er unnt eins og sakir standa að beita vægari úrræðum í tilviki varnaraðila til að tryggja velferð hennar þar sem varnaraðila skortir innsæi í veikindi sín. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði svipt sjálfræði í eitt ár. Með vísan til þess sem fram er komið í málinu og vætti áðurnefndra tveggja lækna þykir ekki unnt að marka þeirri sviptingu skemmri tíma þar sem hætta á rofi í meðferð varnaraðila sem því væri samfara getur haft áhrif á framgang sjúkdóms hennar til hins verra og dregið úr batalíkum varnaraðila. Ekki er því unnt að taka varakröfu varnaraðila til greina um að sjálfræðissvipting vari skemur en eitt ár.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...] er svipt sjálfræði í eitt ár.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 140.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.