Hæstiréttur íslands

Mál nr. 34/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Sératkvæði


Þriðjudaginn 18. janúar 2011.

Nr. 34/2011.

Sérstakur saksóknari

(Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari)

gegn

X

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2011 og bárust réttinum kærumálsgögn 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 25. sama mánaðar kl. 16 og „vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.“ Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði er krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald varnaraðila reist á a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ég tel að fallast beri á með sóknaraðila að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, svo sem tilskilið er í 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Kemur þá til athugunar hvort „ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni,“ eins og þetta er orðað í a. lið 1. mgr. nefndrar lagagreinar.

Þegar metið er hvort síðast greindum skilyrðum gæsluvarðhalds sé fullnægt, verður að hafa í huga að ætluð brot varnaraðila, sem rannsókn sérstaks saksóknara beinist að, eru talin hafa verið framin á árunum 2003 til 2008. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan, hefur þráfaldlega verið fjallað um hin ætluðu brot á opinberum vettvangi og fyrir hefur legið að þau kynnu að koma til opinberrar rannsóknar. Meðal annars er um þetta fjallað í skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar á vegum Alþingis sem starfaði á grundvelli laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, en skýrslan var birt almenningi 12. apríl 2010. Er meðal annars talið í skýrslunni að yfirgnæfandi líkur séu á að viðskipti bankanna með eigin hlutabréf hafi verið gerð í þeim tilgangi að gefa misvísandi upplýsingar um eftirspurn eftir hlutabréfum og hafa þannig áhrif á verð þeirra. Kemur fram í skýrslunni að rannsóknarnefndin hafi í samræmi við 14. gr. laga nr. 142/2008 sent ríkissaksóknara tilkynningu af þessu tilefni. Þá hefur varnaraðili eftir fall Landsbanka Íslands hf. í október 2008 verið yfirheyrður hjá lögreglu sem sakborningur að því er varðar hluta þeirra sakargifta sem nú eru til rannsóknar. Í málsgögnum kemur fram að sérstakur saksóknari hafi aflað skjala hjá Landsbanka Íslands hf. við rannsóknina og að auki framkvæmt húsleit á heimili varnaraðila og vinnustað í þágu hennar. Einnig liggur fyrir að varnaraðili hefur ekki lengur aðgang að gögnum sem voru í vörslum Landsbanka Íslands hf. í október 2008, þegar Fjármálaeftirlitið tók bankann yfir. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að ætla að varnaraðili geti torveldað rannsóknina með því að koma skjallegum sönnunargögnum undan.

Varnaraðili mótmælir því að hætta sé á hann muni reyna að hafa áhrif á aðra grunaða og vitni gangi hann laus. Bendir hann meðal annars á að hann hafi haft næg tækifæri til þess á þeim tíma sem liðinn er frá ætluðum brotum og ekki fái staðist að svipta megi hann frelsi sínu nú af slíku tilefni. Þá séu aðrir fyrrverandi starfsmenn Landsbanka Íslands hf. hafðir fyrir sökum um aðild að þeim brotum sem hann er grunaður um, án þess að krafa hafi verið gerð um að þeir sættu gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarhagsmuna eins og hann. Nefnir hann þar til sögunnar mann sem gegndi bankastjórastarfi í Landsbanka Íslands hf. við hlið sína á því tímabili sem ætluð brot eiga að hafa verið framin og aðra yfirmenn í bankanum sem hafi stýrt þeirri starfsemi í bankanum sem rannsókn beinist að.

Svo sem fyrr var nefnt er ekki heimilt samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að fallast á kröfu sóknaraðila nema ætla megi að varnaraðili muni torvelda rannsókn málsins. Sóknaraðili rökstyður kröfu sína meðal annars með því að rannsókn málsins sé flókin og yfirgripsmikil og hafi ný gögn komið fram í málinu sem ekki hafi verið gerð opinber og ekki eigi að vera kunn varnaraðila og vitnum. Gögn þessi þurfi að bera undir varnaraðila og vitni eftir atvikum og enn eigi eftir að yfirheyra fjölda manns. Sóknaraðili hefur hins vegar látið við það sitja að fjalla almennt um þetta án þess að gera sérstaka grein fyrir hver þessi gögn séu og hverja eigi eftir að yfirheyra. Er sérstaklega brýnt að hann geri grein fyrir þessu í einstökum atriðum þar sem svo langur tími er liðinn frá ætluðum brotum og varnaraðili hefur haft rúman tíma til að spilla fyrir rannsókninni hafi vilji hans staðið til þess, sem reyndar eru engar vísbendingar um sem Hæstarétti hefur verið gerð grein fyrir. Þá hefur sóknaraðili heldur ekki skýrt út hvers vegna hann telji meiri hættu á að varnaraðili spilli fyrir rannsókn málsins heldur en aðrir sem grunaðir munu vera um sömu brot og hafa verið yfirheyrðir, en sæta ekki gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarinnar. Fyrir Hæstarétti er upplýst að A, sem gegndi starfi forstöðumanns þeirrar deildar Landsbanka Íslands hf. sem annaðist svonefndar eigin fjárfestingar hans, og úrskurðaður var til að sæta gæsluvarðhaldi til 21. janúar 2010 á sama tíma og hinn kærði úrskurður var kveðinn upp, hafi verið sleppt úr gæsluvarðhaldinu.

Í 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar eru gerðar strangar kröfur til þess að hneppa megi í gæsluvarðhald menn sem grunaðir eru um refsiverða háttsemi. Ég tel með vísan til þess sem að framan greinir að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að varnaraðili verði nú látinn sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Beri því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi en þess í stað sé rétt með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 að banna honum för frá landinu þann tíma sem kveðið er á um í hinum kærða úrskurði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2011.

Sérstakur saksóknari, sem starfar skv. lögum nr. 135/2008 hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 25. janúar 2011, kl. 16:00.  Þess er krafist að X verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Í greinargerð sérstaks saksóknara skv. lögum nr. 135/2008 kemur fram, að hjá embætti hans sé til rannsóknar mál, er varði ætluð refsiverð brot í tengslum við starfsemi A hf., kt. [...] (hér eftir A) og B (hér eftir B). Í fyrsta lagi sé um að ræða ætlaða skipulagða og kerfisbundna markaðsmisnotkun á árunum 2003-2008, sem hafi verið til þess fallin að skekkja eðlilega verðmyndun á hlutabréfum, útgefnum af A. Í öðru lagi séu til rannsóknar fjögur mál, er varði ætluð umboðssvik í tengslum við lánveitingar A til viðskiptavina A til fjármögnunar á kaupum á hlutabréfum í A. Í þeim málum sé jafnframt til skoðunar ætluð markaðsmisnotkun. Í þriðja lagi sé til rannsóknar ætluð markaðsmisnotkun í gegnum 10 aflandsfélög sem sett voru á stofn af A.

I.         Grunur um markaðsmisnotkun með hlutabréf í A (mál nr. [...]).

Þann 19. október 2010 hafi embætti sérstaks saksóknara borist kæra frá Fjármálaeftirlitinu (hér eftir FME) sem varði grun um refsiverða háttsemi fyrrverandi stjórnenda og starfsmanna A og dótturfélags þess, B, en um sé að ræða ætlaða markaðsmisnotkun með hlutabréf í A á tímabilinu maí 2003 til október 2008.

Til rannsóknar sé, hvort starfsmenn A hafi með skipulögðum og kerfisbundnum hætti, með viðskiptum með hlutabréf í A, haft áhrif á gengi eigin hlutabréfa í því skyni að hækka eða styðja við gengi þeirra. Umfangsmikil kaup eigin fjárfestinga A (hér eftir EFA) á hlutabréfum, útgefnum af A, hafi leitt til þess að röng mynd hafi verið gefin af eftirspurn, veltu og verði hlutabréfanna. Nánar tiltekið sé grunur um að með háttsemi sinni hafi starfsmenn A átt viðskipti eða gert tilboð, sem hafi gefið, eða verið líkleg til að gefa, framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, eða tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum, án þess að um viðurkennda framkvæmd væri að ræða. Þá sé grunur um að hluti hinnar ætluð refsiverðu háttsemi hafi lotið að því að eiga viðskipti eða gera tilboð, sem byggð hafi verið á tilbúningi, eða þar sem notuð hafi verið einhver form blekkingar eða sýndarmennsku.

Á árunum 2003 til 2008 hafi A keypt umtalsvert af hlutabréfum, útgefnum af A, eða um 3,3 milljarða hluta nettó á markaði með sjálfvirkri pörun á tímabilinu eða um 30% af útgefnu hlutafé A miðað við útgefið hlutafé A þann 30. júní 2008. Umfang þessara viðskipta A hafi verið stór hluti af veltu hlutabréfa A í Kauphöllinni á mörgum mánaðanna á tímabilinu sem um ræði. Sem dæmi megi nefna að frá maí til október 2008 hafi nettó kaup A á eigin hlutabréfum, sem hlutfall af heildarkaupum á þessum hlutabréfum í Kauphöllinni, numið á bilinu 40-80% í hverjum mánuði.

Hlutafélög og fjármálafyrirtæki megi ekki eiga eða taka að veði meira en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins, sbr. 55. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Í ljósi hinna umfangsmiklu kaupa á eigin bréfum, hafi safnast upp eigin bréf hjá A umfram lögbundin 10% á tímabili. Uppsöfnuð eigin bréf hafi því næst verið seld af eigin fjárfestingum A í gegnum verðbréfamiðlun A, oft á tíðum í stórum utanþingsviðskiptum til viðskiptavina A og tiltekinna aflandsfélaga sem voru undir stjórn A sjálfs, svonefndra kaupréttarfélaga, og hafi hlutafjárkaupin í mörgum tilvikum verið fjármögnuð af A sjálfum með lánveitingum. Meint brot vegna sölu A á eigin bréfum til ákveðinna viðskiptavina og aflandsfélaga sé einnig til rannsóknar og verði fjallað nánar um þau rannsóknartilvik í köflum II. og III. hér að neðan.

Framangreind háttsemi A hafi leitt til verulegs fjártjóns fyrir A. Samkvæmt útreikningum FME virðist gengistap EFA af viðskiptum með hlutabréf, útgefnum af A á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008, nema rúmlega 6,76 milljörðum króna. Við það bætist tap A vegna lánveitinga til viðskiptavina A til fjármögnunar á hlutabréfakaupum í A sjálfum, sem nemi milljörðum. Ætluð brot varði gríðarlega fjárhagslega hagsmuni og verulega hagsmuni fjölda þeirra, sem hafi átt viðskipti með hlutabréf í A á umræddu tímabili, þegar hin ætlaða markaðsmisnotkun fór fram.  Þá sé vert að horfa til hagsmuna þeirra, sem lánuðu A fjármuni til starfseminnar, þar sem horft hafi verið til hlutabréfaverðs til marks um afkomu A við ákvarðanir um að lána A fé. Einnig þurfi að líta til hagsmuna þeirra, sem tekið hafi veð í hlutabréfum A sem tryggingu fyrir fjárskuldbindingum. Loks verði að líta til verðbréfamarkaðarins í heild, alls víðskiptalífsins og íslensks samfélags, enda hafi A verið eitt af stærstu fyrirtækjum landsins. Með vísan til þessa sé talið að um meiriháttar einka- og almannahagsmuni sé að ræða í málinu.

Embætti sérstaks saksóknara telji rökstuddan grun vera fyrir því að yfirstjórnendur, ákveðnir starfsmenn EFA og miðlunar A hafi stundað þessi viðskipti af hálfu A með kerfisbundnum og skipulegum hætti yfir langt tímabil, í þeim tilgangi að hafa áhrif, eða reyna að hafa áhrif, á verð hlutabréfanna á markaði. Í mörgum tilvikum hafi viðskiptin verið fjármögnuð af A sjálfum.  Gögn málsins bendi til þess að ásamt EFA og miðluninni hafi fleiri deildir innan A, þeirra á meðal regluvarsla, lögfræðisvið, fyrirtækjasvið og áhættustýring, tengst hinni ætluðu markaðsmisnotkun með beinum eða óbeinum hætti og ýmsir starfsmenn þeirra verið meðvitaðar um þá háttsemi sem hafi viðgengist innan A.  Án aðkomu starfsmanna þessara deilda sé talið að það hafi verið vandkvæðum bundið fyrir A að fela stóra og vaxandi eign A í eigin bréfum. 

Talið sé að hin umfangsmiklu kaup á hlutabréfum, útgefnum af A, hafi haft veruleg áhrif á heildarvirkni verðbréfamarkaðarins á Íslandi, þar sem röng mynd hafi verið gefin af eftirspurn, veltu og verði hlutabréfanna á áðurnefndu tímabili.

Ætluð brot teljist varða við 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. 146. gr. laganna. Enn fremur 154. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.       C, D, E og F á hlutabréfum í A.

Þann 30. júní 2010 hafi fjögur erindi borist embætti sérstaks saksóknara frá FME, þar sem vísað sé málum til embættis sérstaks saksóknara sem öll varði rannsókn á sölu og fjármögnun hlutabréfa í A:

  1. Rannsókn á sölu og fjármögnun hlutabréfa í A til C (hér eftir nefnt (C);
  2. Rannsókn á sölu og fjármögnun hlutabréfa í A til D (hér eftir nefnt D);
  3. Rannsókn á sölu og fjármögnun hlutabréfa í A til E (hér eftir nefnt E);
  4. Rannsókn á sölu og fjármögnun hlutabréfa í A til F (hér eftir nefnt F).

Í greindum málum sé annars vegar grunur um umboðssvik við lánveitingar B og ábyrgðarveitingu A vegna þessa, en hins vegar grunur um að umrædd viðskipti kunni að vera hluti af umfangsmikilli og skipulagðri markaðsmisnotkun yfir lengra tímabil.

1.       C (mál nr. [...]).

Við rannsókn málsins hafi komið fram, að á fundi lánanefndar B 18. september 2008 hafi verið samþykkt lánsumsókn frá B, dags. 12. september 2008, til C, félags í eigu G, kt. [...], að fjárhæð kr. 1.608.000.000. Lánið hafi átt að nota til að fjármagna kaup á 91.000.000 hlutum í A að kaupverði kr. 2.000.871.600 að meðtöldum þóknunum, en gert hafi verið ráð fyrir eiginfjárframlagi félagsins að fjárhæð kr. 400.000.000. Samkvæmt yfirliti yfir bankareikning C frá B hafi heildarupphæð hlutabréfakaupanna, að viðbættri þóknun, verið skuldfærð á reikning C. Eiginfjárframlagið hafi aldrei verið reitt fram af hálfu C og því hafi B lánað kaupanda fyrir öllu kaupverði bréfanna. Kaupandinn hafi því í raun enga áhættu tekið með viðskiptunum en áhættan hafi áfram verið öll á A. Einu veðin fyrir láninu hafi verið hin keyptu hlutabréf.

Framkvæmd hlutabréfaviðskiptanna hafi verið í höndum H, forstöðumanns í markaðsviðskiptum A. Viðskiptin hafi verið skráð í nafni B og hin keyptu hlutabréf hafi verið skráð á safnreikning B hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Samkvæmt viðskiptanótum hafi umrædd hlutabréf verið seld samdægurs frá EFA.

Hlutabréfakaup C hafi verið fjármögnuð með láni frá B til C án víðhlítandi trygginga.  Í lánsumsókn frá B, dags. 12. september 2008, hafi m.a. komið fram að ekki væri hægt að ganga út frá því, að eigandi C myndi styðja við bakið á félaginu, ef þörf yrði á. Jafnframt hafi komið fram að B væri ekki með yfirsýn yfir fjárhagslega stöðu eiganda C og að hann ætti annað eignarhaldsfélag í viðskiptum við B, sem hefði brotið kvaðir í lánssamningum. Í lánsumsókninni séu talin upp atriði sem annars vegar mæli með (e. strenghts) og hins vegar mæla í mót (e. weaknessess) því að lánið verði veitt.  Fram komi í umsókninni að niðurstaða B sé að veita lánið, þrátt fyrir að margt hafi mælt lánveitingunni í mót.

A hafi gengist í ábyrgð gagnvart B á lánveitingu B til C að fjárhæð kr. 1.608.000.000 samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu.  Með þeirri yfirlýsingu hafi áhættan af framangreindri lánveitingu orðið að öllu leyti hjá A en ekki dótturfélaginu B.

Ætluð brot teljist geta varðað við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

2.       D (mál nr. [...]).

Við rannsókn málsins hafi komið fram að B hafi lánað D, félagi í eigu bræðranna H, kt. [...] og I, kt. [...], kr. 4.350.000.000 á grundvelli undirritaðrar lánsumsóknar B, dags. 31. mars 2008. Ekki liggi fyrir gögn um hvort og þá hvenær lánsumsóknin var samþykkt af lánanefnd B, en lánasamningur á milli B og D hafi verið undirritaður hinn 1. apríl 2008.

Með lánsfjárhæðinni hafi átt að fjármagna að fullu kaup D á 150.000.000 hlutum í A og hafi B þannig lánað 100% fyrir hlutabréfakaupum D. Lánið hafi verið tryggt með veði í hlutabréfunum sjálfum og krossveði í eignarhaldsfélaginu J. (hér eftir nefnt J) sem hafi verið í eigu sömu aðila og D. Framkvæmd hlutabréfaviðskiptanna hafi verið í höndum K forstöðumanns í markaðsviðskiptum A og virðist EFA hafa verið seljandi 17.500.000 hluta og L virðist hafa verið seljandi 132.500.000 hluta. 

Þann 1. júní 2008, þegar lánið féll í gjalddaga, hafi legið fyrir að hlutabréf hefðu fallið í verði og því hafði umtalsvert tap myndast á viðskiptunum á aðeins tveimur mánuðum. Á þeim tímapunkti hafi verðmæti hlutabréfanna í A fallið um 18%, verðmæti verðbréfasafns J fallið um 20%, og við gengistapið hafi bæst áfallnir vextir í tvo mánuði.  Þrátt fyrir þessa slæmu stöðu hafi B ákveðið að framlengja lánið án þess að tapið væri gert upp eins og lánssamningurinn kvað á um.  Ákvæði samningsins um hámarkstap á viðskiptum hafi ekki verið virkjað og staða veða hafi verið komin langt undir leyfileg mörk samkvæmt útlánareglum A.

A hafi gengist í ábyrgð gagnvart B vegna allra lánveitinga B til D.  Ábyrgð A virðist ekki hafa verið veitt við upphaflegu lánveitinguna, en ábyrgðaryfirlýsingin sé dagsett 30. júní 2008.

Ætluð brot teljist geta varðað við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

3.       E (Mál nr. [...]).

Við rannsókn málsins hafi komið fram að B hafi fjármagnað kaup E, félags í eigu M, fæddur [...], á 210.000.000 hlutum í A að andvirði kr. 4.533.060.000 með yfirdráttarláni, þann 30. september 2008, en sá dagur hafi verið síðasti viðskiptadagur þriðja ársfjórðungs 2008. Framkvæmd hlutabréfaviðskiptanna hafi verið í höndum K forstöðumanns í markaðsviðskiptum A og séu þau skráð í nafni B en grunur leiki á um að hlutabréfin hafi komið frá EFA þar sem B hafi á sama tíma keypt 210.000.000 hluti frá A.

B hafi lánað 100% fyrir hlutabréfakaupum E. Lánið hafi verið tryggt með veði í hlutabréfunum sjálfum og öðrum hlutabréfum sem hafi verið skráð í Kauphöllina. Á þeim tíma sem lánið var veitt hafi staða E gagnvart B vegna eldri lánveitinga verið orðin mjög alvarleg og samkvæmt lánareglum B hefði átt að vera búið að gera veðkall á félagið vegna þeirra lánveitinga.

Gögn málsins bendi til þess að A hafi verið í ábyrgðum gagnvart B á öllum lánveitingum B til E.

Ætluð brot teljist geta varðað við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

4.       F  (Mál nr. [...])

Við rannsókn málsins hafi komið fram að á fundi lánanefndar B, dags. 26. júní 2008, hafi verið samþykkt lánsumsókn frá B, dags. 12. júní 2008, til F, félags í eigu F, kt. [...], til að fjármagna kaup félagsins á 153.644.398 hlutum í A að kaupverði kr. 3.550.531.912. Gert hafi verið ráð fyrir 20% eiginfjárframlagi félagsins í hlutabréfakaupunum. Eiginfjárframlagið virðist aldrei hafa verið reitt fram af hálfu F og því virðist B hafa fjármagnað hlutafjárkaupin að öllu leyti. Einu veðin fyrir láninu hafi verið hin keyptu hlutabréf.

Um hafi verið að ræða níu viðskipti með hlutabréf á tímabilinu 16. júní til 21. ágúst 2008.  Framkvæmd viðskiptanna hafi verið í höndum starfsmanna í markaðsviðskiptum A. Af hinum keyptu hlutum hafi 140.784.308 hlutir verið keyptir frá EFA í 6 viðskiptum að andvirði kr. 3.252.426.896. 

Þann 25. júlí 2008 hafi verið gengið frá ábyrgðaryfirlýsingu A gagnvart B á lánssamningi F við B að fjárhæð kr. 4.000.000.000.

Ætluð brot teljist geta varðað við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

III.     Kaup A á lánasafni B

A hafi verið í ábyrgðum fyrir ýmsum lánum gagnvart B til viðskiptavina sem hafi verið komnir í slæma stöðu rétt fyrir yfirtöku FME á rekstri A, þar með talið lánum C, E, F og D. N ([...], hér eftir N) hafi gert alvarlegar athugasemdir við stöðu útlána B í bréfi til B dags. 24. september 2008. Meðal þess sem fram hafi komið í athugasemdum N hafi verið, að lánasafnið væri meira í líkingu við fjárfestingarbankastarfsemi en einkabankaþjónustu; starfsemin væri mjög áhættusöm og gerð hafi verið krafa um að draga úr áhættunni; ekki væri nægilega mikil áhættudreifing í þeim verðbréfum sem sett hafi verið að veði, o.fl.

Viðbrögð B við athugasemdum N hafi verið þau að hluti af lánabók B hafi verið seldur yfir til A og skuld B við móðurfélagið lækkuð sem hafi numið kaupverðinu. Þessi viðskipti hafi verið dagsett 3. október 2008, sem hafi verið síðasti bankadagur áður en svonefnd neyðarlög nr. 125/2008 voru samþykkt af Alþingi þann 6. október 2008. Talið sé að með þessum kaupum hafi A keypt lánasafn sem í raun hafi verið verðlítið eða verðlaust með fyrirsjáanlegu tjóni fyrir hluthafa eða eftir atvikum kröfuhafa A.  Grunur leiki á um að í umræddum viðskiptum svo skömmu fyrir fall A geti m.a. falist skilasvik.

Ætluð brot teljist geta varðað við 249. og 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.     Kaup svonefndra kaupréttarfélaga A á hlutabréfum í A sjálfum (Mál nr. [...]).

Þann 6. desember 2010 hafi embætti sérstaks saksóknara borist kæra frá FME, dags. 2. desember s.á., vegna meintrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í A.  Embætti sérstaks saksóknara rannsaki nú sölu A á hlutabréfum í A til 10 aflandsfélaga (hér eftir nefnd kaupréttarfélög) A sem sett hafi verið á stofn af A og fjármögnun þeirra hlutabréfaviðskipta. Nánar tiltekið sé um að ræða eftirfarandi félög sem hafi verið skráð erlendis:

1.       O;

2.       Ó;

3.       P;

4.       Q;

5.       R;

6.       S;

7.       T;

8.       U;

9.       Ú;

10.    V

Grunur liggi fyrir um að markaðsmisnotkun í viðskiptum A við umrædd félög með hlutabréf í A kunni að vera hluti af umfangsmikilli og skipulagðri markaðsmisnotkun yfir tímabilið frá árinu 2003 til 2008. Í árslok 2007 hafi umrædd kaupréttarfélög átt samanlagt 1.739.792.632 hluti í A eða um 15% af útgefnu hlutafé A. 

A hafi komið sér upp kaupréttarfyrirkomulagi sem hafi haft þann yfirlýsta tilgang af hálfu A að tengja betur saman hagsmuni A og starfsmanna hans. Samkvæmt lýsingu A á fyrirkomulaginu hafi A gert kaupréttarsamninga við starfsmenn sem hafi veitt þeim rétt (ekki skyldu) til að kaupa tiltekinn fjölda hluta í A á fyrir fram ákveðnu gengi, sem að jafnaði hafi verið markaðsvirði hlutabréfanna á þeim tíma sem kaupréttarsamningurinn var gerður. Samtímis hafi kaupréttarfélag keypt umsaminn fjölda hluta og hafi kaupin að fullu verið fjármögnuð með láni frá öðrum banka. Kaupréttarfélagið hafi svo veitt A kauprétt á hlutunum á sama gengi og það keypti hlutina á, sem jafnframt hafi verið sama gengi og starfsmaður gat keypt þá á. Fyrir kaupréttinn hafi A átt að greiða fjármagnskostnað lánsins sem kaupréttarfélagið tók fyrir kaupunum. Hinn yfirlýsti tilgangur A með þessu fyrirkomulagi hafi verið að tryggja að A myndi ekki bera markaðsáhættu af hlutabréfum kaupréttarfélaganna í A. Þá myndi A ekki fara með þau stjórnunarlegu réttindi sem fylgdu hlutabréfunum (atkvæðisrétt).

Veruleg frávik hafi í reynd verið frá fyrirkomulaginu eins og því hafi verið lýst af hálfu A.  Raunveruleg yfirráð á kaupréttarfélögunum hafi verið hjá A og hafi aðkoma A að málefnum félaganna verið mikil. A hafi borið 35% útlánahættu vegna lána til kaupréttarfélaganna og eignarhaldið hafi verið skráð á safnreikning og þar með hafi félögin ekki verið á lista yfir stóra eigendur A. 

Grunur leiki á um, að fyrirkomulag kaupréttarfélaganna hafi verið hluti af því ferli sem unnið hafi verið eftir í A að stýra markaðsverði hlutabréfa útgefnum af A sjálfum. Kaupréttarfyrirkomulagið hafi gefið eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega eða misvísandi til kynna vegna þess kaupþrýstings sem myndast hafi þegar hlutabréfin voru keypt á markaði í gegnum A og vegna þess leyndarhjúps sem hafi verið yfir viðskiptunum og eignarhaldi á hinum keyptu bréfum.  Með þessari háttsemi sé talið að stjórnendur A hafi hækkað eða viðhaldið verði hlutabréfa A í gegnum kaupréttarfélögin. 

Ætluð brot teljist geta varðað við 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, 154. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 248. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

X hafi verið bankastjóri A frá apríl 2003 til október 2008 og formaður fjármálanefndar A. Með hliðsjón af stöðu hans sem framkvæmdastjóra í A hafi hann meðal annars borið ábyrgð á að skipulag hlutafélagsins og starfsemi væri jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Fjármálanefndin hafi séð um að fylgjast með áhættuþáttum í rekstri A og setja mörk á áhættu A. Allar stefnumarkandi ákvarðanir vegna markaðsáhættu A hafi verið teknar hjá fjármálanefnd A. Í nefndinni hafi verið teknar ákvarðanir um allar nýjar gerðir af samningum og viðskiptum áður en A bauð afurðirnar til viðskiptavina sinna og einnig ákvarðanir vegna eigin stöðutöku. Þá hafi fjármálanefndin haft mikið að segja um lausafjárstýringu og veitt ráðgjöf um samsetningu eigna og skulda A. Á fundum fjármálanefndar A hafi staða A í eigin hlutabréfum og bréfum teknum að veði verið rædd bæði formlega og óformlega og skýrsla um eigin bréf A kynnt samkvæmt gögnum málsins. Vegna stöðu sinnar sem bankastjóri og formaður fjármálanefndar sé talið að X hafi haft vitneskju um umfangsmikil kaup eigin fjárfestinga A á eigin bréfum en á fundum Fjármálanefndar hafi það tap sem staðan í eigin bréfum myndaði verið kynnt sérstaklega. Þá beri tölvupóstar í gögnum málsins með sér að X hafi átt bein afskipti af gerð innanhússkýrslu um stöðu A í eigin bréfum.

Embætti sérstaks saksóknara rannsaki nú meðal annars hvort innri reglur A og B hafi verið brotnar við áðurgreindar lánveitingar til C, D, E og F og ábyrgðarveitingar í tengslum við þær lánveitingar en niðurstaða um það kunni að skipta máli við rannsókn á meintum umboðssvikum og markaðsmisnotkun.  X hafi staðfest með undirritun sinni lánsumsókn frá B, dags. 12. september 2008, til félagsins C.  Í þeirri lánsumsókn sé sérstaklega tekið fram að miklir veikleikar séu á lánveitingunni.  A hafi gengið í ábyrgðir gagnvart B vegna þess láns.  Ekki sé að sjá af fundargerðum lánanefndar A að ábyrgðin hafi verið samþykkt af lánanefnd.  Jafnframt virðist X  hafa staðfest með undirritun sinni eldri lánsumsóknir E hjá B.  Enn fremur hafi hann staðfest með undirritun sinni lánsumsókn frá B, dags. 12. júní 2008, til félagsins F. Embætti sérstaks saksóknara hafi rökstuddan grun um að stjórnendum A, þ.á m. X, hafi verið ljóst að umræddar lánveitingar til C, D, E og F og ábyrgðarveitingar vegna þeirra væru í andstöðu við hagsmuni A.  Vísað sé til þess að lánin hafi ýmist verið veitt með ófullnægjandi tryggingum og/eða til eignalausra eða eignalítilla félaga sem skráð hafi verið erlendis í þremur tilvikum, um mjög mikla tjónsáhættu hafi verið að ræða í viðskiptunum og áhættan af þeim virðist öll hafa verið lögð á A. Þá sé í gögnum málsins samningur um kaup A á lánasafni B, sbr. lið III og sé X einn þeirra sem riti undir samninginn fyrir hönd A.

Rökstuddur grunur sé um að X hafi komið að ákvörðunartöku á lánveitingum til svokallaðra kaupréttarfélaga til að fjármagna kaup félaganna á hlutabréfum í A. Eins og að framan greini sé rökstuddur grunur um að raunveruleg yfirráð á kaupréttarfélögunum hafi verið  hjá A þar sem starfsmenn A hafi fengið í einhverjum tilvikum umboð stjórna kaupréttarfélaganna til að sinna málefnum félaganna og í sumum tilvikum fullt umboð til að stýra félögunum. X skrifi undir valréttarsamningana við félögin. Þá komi fram í skjali sem fyrir liggi í gögnum málsins, vegna varnarsamnings við B vegna félagsins Ú, að ákvörðun um lokun samnings hafi verið tekin af X.  Tap félagsins vegna samningsins hafi verið fært yfir á A.  Með vísan til framangreinds og stöðu X innan A sé talið að X hafi haft vitneskju um yfirráð A á kaupréttarfélögunum.

Rökstuddur grunur sé um veigamikinn þátt X í ætluðum stórfelldum auðgunarbrotum skv. almennum hegningarlögum og ætlaðri markaðsmisnotkun skv. lögum um verðbréfaviðskipti, sem hagsmunir almennings krefjist að upplýst verði um.  Hin ætlaða markaðsmisnotkun sé talin ná yfir langt tímabil og talið að um umfangsmikla og kerfisbundna brotastarfsemi hafi verið að ræða.  A sé félag sem skráð hafi verið á skipulegum verðbréfamarkaði á þeim tíma sem ætluð brot voru framin og þannig almenningshlutafélag.  Ætluð brot hafi haft í för með sér mikil fjárútlát og mikla áhættutöku fyrir A.   Ætla megi að X hafi verið ljós sú mikla tjónshætta sem stafað hafi af umræddum viðskiptum en fyrir liggi að bæði hluthafar og kröfuhafar A hafi orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna hinna ætluðu framangreindu brota.  Verulegir hagsmunir standi til þess að hin ætluðu brot verði rannsökuð og upplýst um þau, þá sérstaklega vegna alvarleika háttseminnar og hinna afdrifaríku afleiðinga af henni.

Rannsókn málanna sé flókin og mjög yfirgripsmikil, enda spanni hin refsiverða háttsemi lengra tímabil en almennt gerist í sakamálum, til rannsóknar séu flóknir fjármálagerningar og rannsóknin varði gríðarlega fjárhagslega hagsmuni. 

Fyrir liggi að upplýsingar um þau sakarefni sem eru til rannsóknar séu að hluta kunnar opinberlega, m.a. eftir útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Við rannsókn á umræddum sakarefnum hafi aftur á móti komið fram mikið af gögnum og upplýsingum sem ekki hafi verið gerð opinber og borin verði undir sakborninga og vitni í skýrslutökum.  Rannsókn málanna sé á frumstigi hjá embætti sérstaks saksóknara og ljóst að efni þeirra kæra sem rannsókn málanna snúi að, auk þess hvaða gögn liggja fyrir í málunum, eigi ekki að vera kunn kærðum og vitnum.  Talið sé ljóst að það gæti spillt verulega fyrir rannsókn málsins ef kærði væri í þeirri aðstöðu að geta haft áhrif á framburð annarra sakborninga og vitna í málinu, áður en fyrstu skýrslur væru teknar af þeim í þágu rannsóknarinnar.  Það sé talið gríðarlega þýðingarmikið í þágu rannsóknarinnar að fá fram sjálfstæðan framburð sakborninga og vitna, án þess að kærði sé í þeirri aðstöðu að geta haft áhrif þar á. 

Á næstu dögum séu fyrirhugaðar skýrslutökur af tugum einstaklinga, sem ýmist hafi stöðu sakbornings eða vitnis í þeim málum sem til rannsóknar séu.  Talið sé nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi þann tíma sem fyrirhugaðar yfirheyrslur standi yfir. 

Með vísan til framangreinds sé talið nauðsynlegt að kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins, þar sem ætla megi að gangi hann laus, þá muni hann torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á samseka og/eða vitni og /eða skjóta undan gögnum sem sönnunargildi hafa í málinu og hafi enn ekki verið haldlögð. 

Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að X sæti gæsluvarðhaldi og sömu rök talin standa til þess að hann verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Til rannsóknar séu ætluð brot gegn 248., 249. og 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 117. gr., sbr. 146. gr., laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og 154. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, en hin tilgreindu brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um verðbréfaviðskipti geti varðað allt að 6 ára fangelsi.

Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b liðar 1. mgr. 99. gr.  sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun.  Verði ekki fallist á kröfu um gæsluvarðhald sé gerð krafa um að sakborningi verði bönnuð brottför af landinu, með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Með vísan til þess, sem fram kemur í greinargerð sérstaks saksóknara og fyrirliggjandi rannsóknargagna er fallist á, að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um, að kærði hafi framið brot, sem geta varðað fangelsisrefsingu.  Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn frá því að hin ætluðu brot eigi að hafa verið framin verður að líta til þess, að þau varða flókin fjárviðskipti, þar sem margir eru taldir hafa komið að málum og eftir atvikum með skipulögðum hætti.  Kemur fram í greinargerð sérstaks saksóknara, að  rannsókn málsins sé flókin og yfirgripsmikil, ný gögn hafi komið fram í málinu, sem ekki hafi verið gerð opinber og eigi ekki að vera kunn kærða og vitnum.  Gögn þessi þurfi að bera undir kærða og vitni eftir atvikum og eigi enn eftir að yfirheyra fjölda manns.  Þá sé rannsókn málsins á frumstigi hjá embætti sérstaks saksóknara.

   Samkvæmt framansögðu er fallist á með saksóknara, að atvik séu með þeim hætti að ætla megi, að varnaraðili muni torvelda rannsókn málsins sæti hann ekki gæsluvarðhaldi.  Með vísan til þessa telur dómurinn, að skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 séu uppfyllt og er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en með hliðsjón af umfangi málsins þykja ekki efni til að hafa gæsluvarðhaldstímann styttri en krafist er.  Þá telur dómurinn með sömu rökum og að framan greinir uppfyllt skilyrði b liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 og er fallist á að kærði verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. 

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 25. janúar 2011, kl. 16:00.

 Kærði skal látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.