Hæstiréttur íslands
Mál nr. 96/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
- Laun
- Forgangskrafa
|
|
Þriðjudaginn 29. mars 2011. |
|
Nr. 96/2011. |
Jacob Lehman (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn Glitni banka hf. (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Laun. Forgangskrafa.
J kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu hans sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrot o.fl. við slit G hf. J hafði verið framkvæmdastjóri útibús G hf. í K samkvæmt ráðningarsamningi aðila 29. maí 2006. Útibúinu var lokað 1. mars 2008 og ráðningarsamningi J sagt upp 28. febrúar sama ár með sex mánaða uppsagnarfresti. Í málinu reisti J kröfu sína á tímabundnum samningi og tilteknu fylgiskjali við hann sem aðilar höfðu gert 4. apríl 2008 þar sem J var falið það verkefni að vinna að lokun útibúsins. Gerði J þá kröfu að eingreiðsla G hf. til sín á grundvelli samningsins nyti forgangsstöðu við slit G hf. Ekki var ágreiningur í málinu um greiðsluskyldu G hf. eða um fjárhæð kröfu J. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að ekki verði séð af málatilbúnaði J að hann hafi í héraði byggt á því að fyrrnefnt fylgiskjal væri í gögnum málsins. Það sé ekki tiltekið í svokölluðu skjalayfirliti með hinum tímabundna samningi. Skjalið sem skírskotað væri til væri ódagsett og bæri heitið „greiðsluyfirlit“. Var með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar talið að J hefði ekki sýnt fram á að krafa hans væri þess eðlis að henni skyldi skipað í réttindaröð skv. 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 heldur teldist hún til almennra krafna samkvæmt 113. gr. sömu laga. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2011, þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu lýstra krafna sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 6.816.000 krónur „ásamt dráttarvöxtum frá 22. apríl 2009“ verði viðurkennd sem forgangskrafa við slit varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði afstaða slitastjórnar varnaraðila um að krafa sóknaraðila að höfuðstól 6.816.000 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 „og að frekari kröfum sóknaraðila verði hafnað.“ Þá krefst varnaraðili staðfestingar á úrskurði héraðsdóms um málskostnað og kærumálskostnaðar.
I
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði starfaði sóknaraðili sem framkvæmdastjóri við útibú Glitnis banka hf. í Kaupmannahöfn samkvæmt ráðningarsamningi 29. maí 2006. Útibúinu var lokað 1. mars 2008 og ráðningarsamningi sóknaraðila sagt upp 28. febrúar það ár með sex mánaða uppsagnarfresti. Sóknaraðila munu hafa verið greidd laun á uppsagnarfrestinum í samræmi við upphaflegan ráðningarsamning, eða 100.000 danskar krónur á mánuði til loka ágúst 2008, auk lífeyrissjóðsiðgjalda, kaupauka og orlofs. Þá gerði bankinn 4. apríl 2008 einnig sérstakan tímabundinn samning við sóknaraðila. Í honum var vísað til þess að sóknaraðili væri starfandi framkvæmdastjóri samkvæmt ráðningarsamningnum 29. maí 2006, en þeirri ráðningu lyki 31. ágúst 2008. Með þessum tímabundna samningi var sóknaraðila falið það verkefni að vinna að lokun útibúsins. Segir í þýðingu löggilts skjalaþýðanda að samningurinn gildi um samband aðilanna og lok verkefna, sem lýst sé í fylgiskjali 1.1.2 sem nefnt er starfslýsing og launasamningur í yfirliti samningsins um fylgiskjöl. Á hinn bóginn er í þeirri grein samningsins, er nefnist fjármálaleg réttindi starfsmannsins á ráðningartímanum, getið um annað fylgiskjal, 3.1, en í ákvæðinu segir að sóknaraðili skuli fá greiðslu sem tilgreind sé í fylgiskjali 1.1.2 og fylgiskjali 3.1. Í þessum ákvæðum samningsins kemur einnig fram að bankinn muni greiða útlagðan kostnað sóknaraðila, en bankann varði ekki svokölluð skattaleg áhrif af fjármálalegum réttindum starfsmannsins. Þá eru í samningnum almenn ákvæði um orlof. Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði er í fylgiskjali 1.1.2 sérstaklega útlistað í hverju verkefni sóknaraðila skyldu felast og lýst útreikningi á þóknun hans fyrir þau. Bæði í samningnum 4. apríl 2008 og skjali 1.1.2 var miðað við að verklok yrðu í síðasta lagi 30. september 2008.
Sóknaraðili reisir kröfu í máli þessu á hinum sérstaka tímabundna samningi 4. apríl 2008 og svokölluðu fylgiskjali 3.1. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila hafnað meðal annars með skírskotun til þess að fylgiskjal 3.1 væri ekki í gögnum málsins og ekki væri séð að sóknaraðili hefði byggt á því að svo væri. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð fram svofelld yfirlýsing Elvars Rúnarssonar 10. febrúar 2011 en hann kveðst hafa verið forstöðumaður mannauðsmála á alþjóðasviði varnaraðila: „Ég get staðfest eftirfarandi: 1. Í tímabundna ráðningarsamningnum, grein 3.1, er vísað í viðaukaskjal 3.1 (exhibit 3.1). Í því samhengi er viðaukaskjal 3.1 „Payment Overwiev“ sem lýsir væntanlegum greiðslum til Jacob Lehmans Nielsen og telst hluti af umræddum tímabundnum ráðningarsamningi. 2. Í „Payment Overview“ skjali (exhibit 3.1) er vísað til greiðslu á DK 300.000 sem „Closure finalization payment“. Þessi greiðsla var hugsuð sem lokagreiðsla vegna þeirra verkþátta sem fylgja því að ganga frá lokun skrifstofu bankans í Kaupmannahöfn svo sem fundarhalda með og póstsamskipta við: danska fjármálaeftirlitið, stéttarfélög, starfsmannafélög, skattayfirvöld, viðskiptaráðuneyti og banka og fleiri. Einnig fyrir vinnu við nauðsynlega skjalagerð til yfirvalda. 3. Í „Payment Overview“ skjali (exhibit 3.1) er vísað til „Closure Incentives“. Upphæð þessarar greiðslu átti að ráðast af þeim heimtum sem Glitnir banki næði með endurleigu á húsnæði og sölu á húsgögnum, tölvum og öðrum skrifstofubúnaði. Ljóst var að Glitnir myndi tapa umtalsverðum fjármunum ef ekki tækist vel til. Því var ákveðið að deila með Jacobi Lehman Nielsen þeim tekjum sem myndu endurheimtast fyrir hans tilstilli. Skipting þessara tekna er lýst í viðauka 1.1.2 (Exhibit 1.1.2) sem er hluti tímabundna ráðningarsamningsins. 4. Allar fjárhæðir í „Payment Overview“ skjali (exhibit 3.1) aðrar en „Closure finalization payment“ og „Closure Icentives“ vísa til fyrri ráðningarsamnings milli Glitnis banka og Jacob Lehman Nielsen sem vísað er til í grein 1.1.1.“ Varnaraðili hefur andmælt því að þetta sé í raun skjal 3.1 eða að það tengist með öðrum hætti samningnum 4. apríl 2008.
II
Ágreiningi málsaðila við slit varnaraðila var skotið til héraðsdóms í samræmi við 171. gr., sbr. 120. gr., laga nr. 21/1991 með bréfi varnaraðila 8. júní 2010. Í héraði krafðist sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 6.816.000 krónur yrði viðurkennd sem forgangskrafa við slit varnaraðila, en ágreiningur laut ekki að vöxtum á höfuðstól hennar. Kemur sá hluti kröfugerðar sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu ekki til athugunar fyrir Hæstarétti.
Óumdeilt er að sóknaraðili hefur fengið greitt fyrir störf þau sem tíunduð eru í fylgiskjali 1.1.2 og einnig laun í uppsagnarfresti samkvæmt upphaflegum ráðningarsamningi hans. Sóknaraðili gerir á hinn bóginn einnig kröfu um að fá greiðslu samkvæmt svokölluðu fylgiskjali 3.1. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði verður ekki séð af málatilbúnaði sóknaraðila í héraði að hann hafi þar byggt á því að skjal 3.1 væri í gögnum málsins. Þá er skjal þetta ekki tiltekið í svokölluðu skjalayfirliti með hinum tímabundna samningi heldur einungis framangreint fylgiskjal 1.1.2 sem eins og áður segir kallast starfslýsing og launasamningur. Skjal það sem framangreind yfirlýsing Elvars Rúnarssonar skírskotar til er ódagsett og ber fyrirsögnina „Payment overview“. Er það samkvæmt efni sínu í raun einhvers konar yfirlit hans um greiðslur í uppsagnarfresti samkvæmt upphaflegum ráðningarsamningi 29. maí 2006 auk þess sem talan „300.000“ kemur einu sinni fyrir undir liðnum lokagreiðsla án þess að sérstakt vinnuframlag sé tengt henni. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að krafa hans sé þess eðlis að henni skuli skipað í réttindaröð samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og telst hún því til almennra krafna eftir 113. gr. sömu laga.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jacob Lehman, greiði varnaraðila, Glitni banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2011.
I
Mál þetta var þingfest 23. júní 2010 og tekið til úrskurðar 20. janúar 2011. Sóknaraðili er Jakob Lehman, búsettur í Danmörku, en varnaraðili er Glitnir banki hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru að viðurkennt verði að krafa hans að fjárhæð 6.816.000 krónur sé, við slit varnaraðila, forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila auk virðisaukaskatts.
Dómkröfur varnaraðila eru að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar hans að viðurkenna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 6.816.000 krónur sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að frekari kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts.
II
Málavextir eru þeir helstir að sóknaraðili starfaði í útibúi varnaraðila í Kaupmannahöfn frá árinu 2006. Starfaði hann sem forstjóri samkvæmt ráðningarsamningi 29. maí 2006. Hinn 1. mars 2008 var útibúi varnaraðila í Kaupmannahöfn lokað og með bréfi 28. febrúar 2008 var ráðningarsamningi við sóknaraðila sagt upp frá 31. ágúst 2008. Samkvæmt því fékk sóknaraðili sex mánaða uppsagnarfrest og hafa honum verið greidd laun í uppsagnarfresti.
Í tilefni af lokun útibús varnaraðila í Kaupmannahöfn var gerður tímabundinn ráðningarsamningur við sóknaraðila 4. apríl 2008. Samkvæmt samningnum var verkefni sóknaraðila á ráðningartímanum að helga sig því að loka útibúinu og er í sérstöku skjali sem merkt er 1.1.2 nánar útlistað í hverju verkefnin voru fólgin og hvaða þóknun hann skyldi fá fyrir þau. Þá kemur fram í samningnum að ráðningunni sé lokið þegar þeirri vinnu sem tilgreind sé í skjali 1.1.2 ljúki eða í síðasta lagi 30. september 2008.
Hinn 7. október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og skipa honum skilanefnd. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009. Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009. Áður en sá tími var á enda, hinn 12. maí 2009, var varnaraðila skipuð slitastjórn. Gaf slitastjórnin út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaði 26. maí 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út sex mánuðum síðar eða 26. nóvember 2009. Frestdagur var 15. nóvember 2008.
Óumdeilt er að sóknaraðili hefur fengið greitt fyrir störf sín í þágu varnaraðila fyrir utan 300.000 danskar krónur sem hann krefst nú greiðslu á en hann lýsti kröfu sinni fyrir slitastjórn varnaraðila með kröfulýsingu 28. maí 2009 og krafðist þess að hún nyti forgangs við slitameðferð varnaraðila. Slitastjórn móttók kröfulýsingu sóknaraðila 3. júní 2009 og tók þá afstöðu til kröfunnar að hafna forgangsrétti hennar en viðurkenna hana sem almenna kröfu.
Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu slitastjórnar varnaraðila á kröfuhafafundum 17. desember 2009 og 19. maí 2010. Fundir til að reyna að jafna ágreining um kröfu sóknaraðila voru haldnir 24. mars. og 7. júní 2010. Þar sem ekki tókst að leysa úr ágreiningi aðila var ágreiningsefninu beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 8. júní 2010.
Í máli þessu er ekki deilt um að sóknaraðili eigi ógreidda kröfu á hendur varnaraðila að fjárhæð 300.000 danskar krónur sem ágreiningslaust er að sé að verðmæti 6.816.000 íslenskar krónur. Snýst ágreiningur aðila eingöngu um hvort skipa skuli kröfunni í skuldaröð sem forgangskröfu eða almennri kröfu.
III
Sóknaraðili kveður að sérstaklega sé tiltekið í starfssamningi varnaraðila við sóknaraðila frá 4. apríl 2008 að lokagreiðsla til sóknaraðila, að fjárhæð 300.000 danskar krónur, skuli vera hluti launa enda hvergi tiltekið í samningnum að greiðslan tengist nokkru öðru en vinnuframlagi sóknaraðila fyrir varnaraðila. Á grundvelli þess sé byggt á því að kröfuna skuli samþykkja sem slíka og um leið sem forgangskröfu í bú varnaraðila, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í ákvæðinu sé tiltekið að kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns sem fallið hafi í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag skuli teljast sem forgangskröfur.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar sóknaraðili til meginreglu vinnuréttar um að greiða skuli umsamin laun í samræmi við gildandi ráðningarsamning. Jafnframt vísar hann til laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega.
IV
Varnaraðili fellst ekki á rök sóknaraðila um að umdeild lokagreiðsla sé launagreiðsla samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í því ákvæði komi fram að forgangskröfur séu kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Með ákvæði þessu, sem skipi vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð, sé vikið frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti og beri því að skýra ákvæðið þröngt. Í dómaframkvæmd hafi mótast sú regla um skýringu inntaks ákvæðis þessa um laun og annað endurgjald fyrir vinnu, að slík laun eða endurgjald þurfi að eiga rætur sínar að rekja til vinnu í þjónustu þrotamanns.
Sóknaraðili hafi fengið greidda þóknun fyrir öll störf sín í þágu varnaraðila. Umrædd starfslokagreiðsla hafi verið umfram þær greiðslur sem sóknaraðili hafi fengið fyrir vinnu í þágu varnaraðila. Starfslokagreiðslan sé ekki tengd vinnuframlagi af hálfu sóknaraðila. Gögn málsins geymi engin ákvæði um vinnu varnaraðila í þágu sóknaraðila sem endurgjald fyrir umrædda eingreiðslu að fjárhæð 6.816.000 krónur. Hafi varnaraðili ekki fært fram nein gögn til sönnunar á því hvaða vinnu sóknaraðili hafi átt að inna af hendi fyrir varnaraðila í stað greiðslunnar enda hafi ekkert vinnuframlag verið til staðar. Hafi slíkt verið til staðar beri sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því. Sé ljóst að eitt af skilyrðum fyrir því að krafa sem byggi á samningi milli launþega og vinnuveitanda verði talin laun í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé vinnuframlag launþega. Sé ekki krafist vinnuframlags af hálfu launþega fyrir vinnuveitanda teljist krafa almenn krafa.
Þá gefi ekkert til kynna að greiðsla þessi verði skert með frádrætti vegna launatengdra gjalda eða staðgreiðslu opinberra gjalda. Þegar af þessum ástæðum verði þessari kröfu sóknaraðila ekki skipað í réttindaröð sem forgangskröfu heldur teljist hún almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili vísi til meginreglu vinnuréttar um að greiða skuli umsamin laun í samræmi við gildandi ráðningarsamning. Varnaraðili hafi viðurkennt greiðsluskyldu sína á umræddri starfslokagreiðslu sem almenna kröfu. Byggi sú ákvörðun á meginreglu kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga. Engin rök séu fyrir því að sóknaraðili hafi betri réttarstöðu en aðrir kröfuhafar sem eigi kröfur á hendur varnaraðila sem byggist á samningi.
Um lagarök, til viðbótar því sem að framan er rakið, vísar varnaraðili almennt til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og meginreglna gjaldþrota- og samningaréttar. Kröfu um málskostnað styður varnaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt við lög nr. 50/1988.
V
Samkvæmt sérstökum tímabundnum ráðningarsamningi milli aðila sem gerður var 4. apríl 2008 gilti hann um ráðningarsamband aðila og lok verkefna sem lýst var í sérstöku skjali sem merkt er 1.1.2 um lokun útibús varnaraðila í Kaupmannahöfn. Var gildistími samningsins frá 1. mars 2008 til 31. ágúst 2008. Af gögnum málsins er ljóst að á sex mánaða uppsagnarfresti fékk sóknaraðili greidd laun í samræmi við upphaflegan ráðningarsamning 29. maí 2006 eða 100.000 danskar krónur á mánuði auk lífeyrissjóðsgreiðslna, kaupauka og orlofs.
Eins og að framan er rakið er hvorki ágreiningur um greiðsluskyldu varnaraðila né um fjárhæð kröfu sóknaraðila, heldur snýst ágreiningur aðila um það hvort kröfu sóknaraðila skuli skipa í röð forgangskrafna samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða almennra krafna samkvæmt 113. gr. þeirra laga.
Samkvæmt hinum tímabundna ráðningarsamningi er um greiðslur fyrir verkið vísað til skjals 1.1.2 og skjals 3.1 en hið síðarnefnda er ekki meðal gagna málsins og ekki verður séð að á því sé byggt í málinu. Eins og að framan er rakið er í skjali 1.1.2 sundurliðað hvaða verkefni sóknaraðili tók að sér fyrir varnaraðila vegna lokunar útibús hans í Kaupmannahöfn auk þess sem tilgreint er við hvert verkefnanna hvaða greiðslur hann fengi fyrir hvert þeirra fyrir sig. Er þetta sundurliðað svo í skjalinu:
- Leigusamningur.
Sparnaður sá sem sóknaraðili næði fram á skrifstofuleigu vegna útibúsins fyrir árið 2008 skyldi skiptast þannig að 40% sparnaðarins rynni til hans. Við uppgjör á þessum lið fékk sóknaraðili greitt hinn 29. ágúst 2008 samtals 236.365 danskar krónur.
- Búnaður.
Greiddar skyldu 4000 danskar krónur fyrir hverja fartölvu sem skilað væri fram yfir 15 fyrstu fartölvurnar. Við uppgjör hinn 29. ágúst 2008 var sóknaraðila greitt vegna 34 tölva eða samtals 76.000 danskar krónur (34-15 x 4000).
- Innbú.
Sóknaraðili skyldi fá 33% af öllum endurheimtum greiðslum fyrir húsgögn eða búnað. Fékk sóknaraðili greitt vegna þessa liðar hinn 29. ágúst 2008 samtals 277.025 danskar krónur.
- Flutningur lána.
Sóknaraðili skyldi fá 25.000 danskra króna kaupaukagreiðslu ef hann gengi frá færslu allra lána fyrir 30. júní 2008. Var honum greidd sú fjárhæð 29. ágúst 2008.
Samkvæmt þessu hafa sóknaraðila verið greiddar 614.390 krónur vegna þeirra verkefna sem sundurliðuð eru á skjali 1.1.2 og vísað er til í tímabundnum ráðningarsamningi aðila 4. apríl 2008.
Hvorki í hinum tímabundna ráðningarsamningi né í skjali 1.1.2 er getið um hina umdeildu lokagreiðslu að fjárhæð 300.000 danskar krónur heldur er samkvæmt skjölum málsins einungis getið um þá greiðslu í tölvupósti yfirmanns sóknaraðila hinn 27. ágúst 2008 þar sem farið er yfir endanlegt uppgjör við sóknaraðila vegna ágústmánaðar 2008. Þar segir í lok skeytisins eins og það hefur verið þýtt af löggiltum skjalaþýðanda: „Við leggjum einnig til að lokalúkningargreiðslan 300 k verði greidd af Glitnir Ísland inn á reikning þinn eftir að fyrirtækinu hefur verið lokað í Kaupmannahöfn.“ Svo eru í kjölfarið sundurliðaðar greiðslur annars vegar vegna ágúst samtals að fjárhæð 1.136.158 danskar krónur, þar með taldar greiðslurnar samkvæmt skjali 1.1.2 að fjárhæð 614.390 danskar krónur, og hins vegar lokagreiðsla að fjárhæð 300.000 danskar krónur.
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Af framangreindu þykir ljóst að sóknaraðili fékk greitt fyrir þau verkefni sem hann tók að sér varðandi lokun útibús varnaraðila í Kaupmannahöfn og tíunduð eru í skjali 1.1.2. Hefur hann því fengið greitt í samræmi við þann samning. Þykir því ljóst að umdeild lokagreiðsla er viðbótargreiðsla og verður ekki séð að sérstaks vinnuframlags hafi verið krafist af sóknaraðila vegna hennar. Hefur sóknaraðili ekki lagt fram haldbær gögn því til stuðnings að umrædd viðbótargreiðsla sé laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í þágu varnaraðila í skilningi framangreinds lagaákvæðis. Þegar af þeirri ástæðu verður kröfunni ekki skipað í réttindaröð samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 heldur telst hún til almennra krafna samkvæmt 113. gr. laganna.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Hulda Rós Rúriksdóttir hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Þórður Guðmundsson hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Jacobs Lehman, um að viðurkennt verði að krafa hans að fjárhæð 6.816.000 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrot o.fl. við slit varnaraðila, Glitnis banka hf. Er krafa sóknaraðila viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.