Hæstiréttur íslands

Mál nr. 269/2014


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Uppsögn
  • Samkeppni
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 20. nóvember 2014.

Nr. 269/2014.

Davíð Búi Halldórsson

(Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.)

gegn

PricewaterhouseCoopers ehf.

(Gestur Jónsson hrl.)

Vinnusamningur. Uppsögn. Samkeppnisákvæði. Skaðabætur.

D og P ehf. deildu um hvort D, fyrrverandi starfsmanni P ehf. og hluthafa, bæri að greiða félaginu bætur vegna yfirtöku viðskiptavina félagsins og hvort D ætti rétt á launum í uppsagnarfresti. Í ljósi framburðar samstarfsmanns D, sem kvað D hafa boðið sér að taka þátt í stofnun nýs fyrirtækis, uppsagnar þriggja starfsmanna P ehf. daginn eftir uppsögn D og annarra atvika málsins var talið að P ehf. hefði með réttu mátt líta svo á að D væri að undirbúa samkeppnisrekstur við félagið og að liður í því væri að ná til sín viðskiptamönnum þess. Samkvæmt samstarfssamningi aðilanna hefði P ehf. því verið heimilt að víkja D úr starfi. Þá var talið sannað að D hefði tekið viðskiptavini frá P ehf. og var bótaskilyrðum samningsins því einnig fullnægt. Var D gert að greiða P ehf. bætur að fjárhæð 2.549.115 krónur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2014. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnda og stefnda aðallega gert að greiða sér 6.180.380 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. mars 2013 til greiðsludags, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.  

Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 21. janúar 2014. Hæstarétti barst áfrýjunarstefna málsins til útgáfu 16. apríl sama ár og var hún gefin út 22. sama mánaðar. Málinu var því áfrýjað innan áfrýjunarfrests samkvæmt 1. mgr. 153. gr. og 155. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. dóm réttarins 7. mars 2013 í máli nr. 561/2012.

I

Eins og nánar er lýst í héraðsdómi var áfrýjandi starfsmaður og hluthafi í stefnda, sem er ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtæki, og forstöðumaður starfsstöðvar hans á Akureyri. Áfrýjandi sagði upp starfi sínu 29. maí 2012 með sex mánaða uppsagnarfresti, en stefndi vék honum úr starfi 8. júní sama ár. Í máli þessu er annars vegar deilt um það hvort áfrýjanda beri að greiða stefnda bætur vegna yfirtöku viðskiptavina stefnda og hins vegar hvort áfrýjandi eigi rétt á launum í uppsagnarfrestinum.

Samkvæmt ráðningarsamningi áfrýjanda 17. nóvember 2008 skyldi áfrýjandi í starfi sínu fylgja samstarfssamningi hluthafa stefnda. Í slíkum samningi, sem staðfestur var 30. september 2011, er í 8. tölulið 1. mgr. 30. gr. kveðið á um að hluthafi fyrirgeri rétti sínum til starfa hjá félaginu ef hann verður uppvís að því að hefja samkeppnisrekstur eða undirbúning hans meðan hann er í starfi hjá stefnda. Í 3. mgr. 31. gr. samstarfssamningsins segir: „Ef hluthafi hættir störfum hjá félaginu en heldur áfram störfum á sama sviði og tekur með sér viðskiptamenn frá félaginu, innan þriggja ára frá útgöngu, eða verði uppvís að því að valda félaginu tjóni við útgöngu úr félaginu t.d. með því að beina viðskiptavinum þess til samkeppnisaðila, er hann skaðabótaskyldur gagnvart félaginu og getur félagið krafist bóta sem nema tekjum síðustu 12 mánaða vegna vinnu félagsins fyrir viðskiptamanninn.“ Nánar er svo kveðið á um með hvaða hætti greiðsla skuli fara fram.

Áfrýjandi heldur því fram að framangreint ákvæði sé ekki í gildi gagnvart sér. Hann hafi samþykkt samstarfssamninginn með fyrirvara um gildi 31. gr. hans „í ljósi þess hvernig framkvæmd á útgöngu hluthafa hefur verið háttað hingað til án þess að farið sé að ákvæðum greinarinnar.“ Í skýrslutöku fyrir dómi sagði áfrýjandi að fyrirvarann hefði hann gert  þar sem verið væri að mismuna hluthöfum sem voru að ganga úr félaginu. Sumir væru ekkert látnir greiða fyrir verkefni, sem þeir tækju með sér, aðrir 20%, en hann vildi láta jafnt yfir alla ganga. Fallist er á það með héraðsdómi að einhliða fyrirvari áfrýjanda hafi engin áhrif á gildi samstarfssamningsins.

Þá heldur áfrýjandi því fram að ákvæðið í 31. gr. samstarfssamningsins sé brot á stjórnarskrárvörðum rétti hans til atvinnufrelsis, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt dómvenju stendur 75. gr. stjórnarskrárinnar því ekki í vegi að slík samkeppnisákvæði séu í samningum manna enda er gert ráð fyrir því í 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Loks telur áfrýjandi að hann sé óbundinn af 31. gr. samstarfssamningsins með vísan til 37. gr., svo og 36. gr. laga nr. 7/1936. Þótt grunnregla samningaréttar sé að samninga skuli halda þá er gert ráð fyrir því í 1. mgr. 37. gr. laganna að atvinnurekandi geti sett ákvæði í ráðningarsamninga sem varna samkeppni. Þar er jafnframt kveðið á um að við tilteknar aðstæður séu slík samningsákvæði óskuldbindandi, það er ef skuldbindingin er víðtækari en nauðsynlegt er til þess að varna samkeppni eða hún skerðir með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess sem tókst skylduna á herðar. Áfrýjandi gerði ráðningarsamning við stefnda, sem þeir báðir höfðu ávinning af. Áfrýjandi féllst á að hafa þetta ákvæði í samningnum og þarf því að sýna fram á að þær aðstæður 1. mgr. 37. gr. laganna séu fyrir hendi sem geri ákvæðið óskuldbindandi fyrir hann. Bótaákvæði 31. gr. samstarfssamningsins var sett í því skyni að vernda ákveðna og lögmæta samkeppnishagsmuni. Áfrýjandi var einn af helstu starfsmönnum stefnda og gegndi lykilstöðu í fyrirtækinu. Þá var hann í beinu sambandi við viðskiptamenn og bar ríka trúnaðarskyldu. Þegar þetta er virt verður ekki talið að samningsákvæðið hafi skert atvinnufrelsi hans með ósanngjörnum hætti. Tilvísun áfrýjanda til 36. gr. fyrrnefndra laga er haldlaus.

II.

Eins og að framan greinir sagði áfrýjandi upp starfi sínu 29. maí 2012 og óskaði eftir viðræðum við stefnda um starfslok. Í 3. mgr. 29. gr. samstarfssamningsins segir að hluthafi sem hætti í félaginu skuli ávallt leitast við að tryggja áframhaldandi viðskipti viðskiptavina hjá því sem frekast sé kostur í fullu samstarfi við aðra hluthafa.  Samkvæmt 8. tölulið 1. mgr. 30. gr. samningsins hefur hluthafi fyrirgert rétti sínum til að starfa hjá félaginu ef hann verður uppvís að því að hefja samkeppnisrekstur eða undirbúning hans meðan hann er í starfi hjá stefnda.  Upplýst er í málinu að stefndi fékk ekki vitneskju um uppsögn áfrýjanda fyrr en með tölvubréfi þess síðarnefnda klukkan  17.52 hinn 29. maí 2012 en fyrr þann sama dag hafði áfrýjandi haldið starfsmannafund, þar sem hann sagði frá uppsögninni. Þann sama morgun fór hann til Húsavíkur til að ræða við starfsmann stefnda, sem þar hafði aðsetur. Sá maður bar fyrir dómi að áfrýjandi hefði sagt sér að hann ætlaði að stofna nýtt fyrirtæki á Akureyri, boðið sér að taka þátt í því og að flestir starfsmanna stefnda á Akureyri myndu starfa hjá sér. Daginn eftir sögðu þrír aðrir starfsmenn stefnda upp starfi sínu. Degi síðar fóru þrír menn á vegum stefnda til Akureyrar til að ræða við starfsmenn þar. Skriflegir punktar þeirra um samtölin liggja fyrir og staðfestu þeir að hafa ritað þá á staðnum. Stjórn stefnda vék áfrýjanda síðan úr starfi 8. júní 2012 eins og áður sagði eftir að hafa kynnt honum þá fyrirætlun með bréfi 4. júní og veitt honum færi á andmælum. Var áfrýjanda formlega tilkynnt um frávikninguna 14. sama mánaðar. Samkvæmt framansögðu er fallist á það með héraðsdómi að stefndi hafi með réttu mátt líta svo á að áfrýjandi væri að undirbúa samkeppnisrekstur við sig meðan hann enn var í starfi hjá stefnda. Liður í því væri jafnframt að ná til sín viðskiptamönnum stefnda svo sem kom síðar á daginn. Var stefnda því heimilt að víkja áfrýjanda úr starfi vegna samningsbrota hans.

Áfrýjandi stofnaði 12. júní 2012 einkahlutafélagið Enor, en tilgangur þess er að annast hverskonar endurskoðunar- og ráðgjafaþjónustu, rekstur fasteigna svo og lánastarfsemi. Fyrrverandi starfsmaður stefnda, Hermann Brynjarsson, sem sagði upp starfi sínu degi eftir uppsögn áfrýjanda, stofnaði sjálfstætt fyrirtæki sem hét HB rekstrar- og bókhaldsþjónusta ehf., en nafninu var breytt í Enor rekstrar- og bókhaldsþjónustu ehf. Náið samstarf er milli fyrirtækjanna og starfa nánast allir fyrrverandi starfsmenn stefnda á Akureyri hjá öðru hvoru þeirra. Mikill meirihluti viðskiptamanna stefnda í maí 2012 er nú í viðskiptum við Enor ehf. Fyrir liggur að stefndi endurskoðaði reikninga þeirra þriggja félaga, sem hann krefst bóta fyrir, en áfrýjandi endurskoðar þá nú. Að minnsta kosti eitt þeirra félaga mun vera í viðskiptum við áðurnefnt félag Hermanns Brynjarssonar um bókhaldsþjónustu, en það breytir því ekki að endurskoðun þess er í höndum Enor ehf. Samkvæmt framansögðu er sannað að áfrýjandi tók viðskiptavini frá stefnda og er bótaskilyrðum 3. mgr. 31. gr. samstarfssamnings aðila því fullnægt. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Davíð Búi Halldórsson, greiði stefnda, PricewaterhouseCoopers ehf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. janúar 2014.

Mál þetta var dómtekið 18. september sl., en endurupptekið og dómtekið á ný þann 15. janúar sl. Aðalstefnandi er PricewaterhouseCoopers ehf., Skógarhlíð 12, Reykjavík. Gagnstefnandi er Davíð Búi Halldórsson, Vörðutúni 1, Akureyri.  Aðalsök var höfðuð 12. desember 2012.  Gagnsök var höfðuð 7. febrúar 2013. Hún var sameinuð aðalsök.

Aðalstefnandi krefst þess að í aðalsök að gagnstefnandi verði dæmdur til að greiða sér 2.549.115 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 frá 14. október 2012 til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi. 

Gagnstefnandi krefst sýknu í aðalsök en til vara að kröfur aðalstefnanda verði lækkaðar mjög verulega.  Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda. 

Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða sér 9.693.033 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6 gr. laga nr. 38, 2001 af þeirri fjárhæð frá þingfestingardegi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda. 

Aðalstefnandi krefst sýknu í gagnsök og málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda.      

I.

Aðalstefnandi kveðst vera ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtæki sem veiti fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum sérhæfða þjónustu á sviði ráðgjafar, endur­skoðunar og reikningsskila.  Gagnstefnandi sé fyrrverandi starfsmaður og hluthafi í aðalstefnanda og forstöðumaður starfstöðvar aðalstefnanda á Akureyri. 

Í málinu liggur starfssamningur aðila þar sem að efst segir að hann sé byggður á eldri starfssamningi eftir að hann hafi verið aðlagaður að samþykktum aðalstefnanda og samstarfssamningi hluthafa samþykktum á aðalfundi 2008.  Starfssamningur þessi er gerður 17. nóvember 2008.  Kemur þar fram að aðalstefnandi sé vinnuveitandi og gagnstefnandi hluthafi/starfsmaður með starfsheitið endurskoðandi „Assurance partner“. Í 9. grein þessa samnings er tekið fram að uppsagnartími beggja aðila sé 6 mánuðir. Þó sé starfsmanni óheimilt að segja samningi upp þannig að hann gangi úr þjónustu atvinnurekanda á tímabilinu frá 1. janúar til 1. júní.  Þá eru taldar upp í sömu grein 8 ástæður sem leiði til þess að hluthafi fyrirgeri rétti sínum til starfa hjá aðalstefnanda. Er þar meðal annars talið brot hluthafa gegn ákvæði samstarfssamnings hluthafa eða annarra hluthafasamninga eigenda aðalstefnenda (7. tl.) og byrjun samkeppnisrekstrar eða undirbúningur hans meðan hluthafi sé í starfi hjá aðalstefnanda (8. tl.).

Þá segir að framkvæmdastjóri  „TSP“ hafi heimild til þess að vísa hluthafa úr starfi með vísan til framangreindra ástæðna og gildi þá ekki ákvæði 1. mgr. um uppsagnarfrest. Nýti framkvæmdastjóri þessa heimild skuli þegar í stað óska þess við stjórnarformann að boðaður verði stjórnarfundur þar sem framkvæmdastjóri geri grein fyrir ástæðu uppsagnarinnar, sem komi ekki til framkvæmda fyrr en hún hafi verið staðfest af meirihluta stjórnar.  Hluthafa skuli gefinn kostur á að skýra mál sitt fyrir stjórn og framkvæmdastjóra áður en formleg ákvörðun sé tekin um uppsögn og innlausn eignarhluta. 

Samskonar ákvæði er að finna í 30. gr. samstarfssamnings hluthafa í aðalstefnanda sem staðfestur var á aðalfundi 30. september 2011.  Þá segir þar í 31. gr. að ef hluthafi hætti störfum hjá félaginu en haldi áfram störfum á sama sviði og taki með sér viðskiptamenn frá félaginu innan þriggja ára frá útgöngu eða verði uppvís að því að valda félaginu tjóni við útgöngu úr félaginu, t.d. með því að beina viðskiptum þess til samkeppnisaðila, sé hann skaðabótaskyldur gagnvart félaginu og geti félagið krafist bóta sem nemi tekjum síðustu 12 mánaða vegna vinnu félagsins fyrir viðskiptamanninn.  Skuli greiðsla fara þannig fram að 1/3 hluti greiðist eigi síðar en 3 mánuðum eftir að viðskiptasambandið fari frá félaginu, 1/3 hluti eftir 6 mánuði og 1/3 hluti þegar tólf mánuðir séu liðnir frá því að viðskiptasambandið hafi farið frá félaginu.   Greiðsla samkvæmt þessari grein skuli innt af hendi í formi þóknunar fyrir viðskiptavild. 

Gagnstefnandi sagði upp störfum hjá aðalstefnanda með bréfi 29. maí 2012.  Rakti hann í nokkrum atriðum í bréfinu að hann teldi að við þær aðstæður sem uppi væru hefðu hluthafar ekki virt ákvæði í anda samstarfssamningsins og hefði ákveðinn hluti hluthafa ekki sýnt samstarfinu nægjanlegan trúnað.  Teldi hann mikilvægar forsendur fyrir samstarfssamningum brostnar með þeim hætti að samningurinn og ákvæði hans væru ekki lengur skuldbindandi í óbreyttri mynd fyrir hann.  Óskaði hann eftir því að aðalstefnandi tæki upp viðræður við sig um starfslok sín og útgöngu úr hluthafahópnum á næstu dögum. 

Daginn eftir sögðu starfsmenn aðalstefnanda á Akureyri, þeir Hermann Brynjarsson, Hjörtur Halldórsson og Níels Guðmundsson einnig upp störfum.  Segir aðalstefnandi þá alla hafa gegnt lykilstöðum hjá sér á Akureyri.  

Aðalstefnandi segir uppsögn gagnstefnanda hafa komið hluthöfum og stjórnendum sínum í opna skjöldu.  Stjórnendurnir hafi átt fund með gagnstefnanda 31. maí 2012 og aftur 4. júní um starfslokin.  Á seinni fundinum hafi gagnstefnandi lagt fram minnisblað þar sem fjallað hafi verið um að hann og Hermann Brynjarsson myndu yfirtaka helstu viðskiptasambönd aðalstefnanda gegn greiðslu sem hafi ekki með neinum hætti endurspeglað verðmæti þeirra. Ekkert samkomulag hafi því náðst um starfslok gagnstefnanda.

Mál hafi þróast svo að stjórn aðalstefnanda hafi tekið til skoðunar að rifta ráðningarsamningi gagnstefnanda í ljósi upplýsinga um að hann hefði hafið undirbúning að samkeppni við aðalstefnanda meðan hann hafi enn verið starfsmaður og hluthafi í félaginu.  Hafi komið í ljós að þeir Hermann Brynjarsson hafi átt fund með starfsmönnum aðalstefnanda á Akureyri 29. maí 2012 og greint þar frá fyrirætlunum sínum um að stofna fyrirtæki á Akureyri í samkeppni við aðalstefnanda.  Sama dag hafi gagnstefnandi jafnframt haft samband við fyrirsvarsmann starfstöðvar aðalstefnanda á Húsavík, Björn St. Haraldsson, og greint honum frá því að hann hygðist hætta störfum hjá aðalstefnanda og hefja rekstur endurskoðunarskrifstofu á Norðurlandi. 

Aðalstefnandi sendi gagnstefnanda bréf þann 4. júní 2012 og vísaði til 8. tl. 30. gr. samstarfssamnings hluthafa um að hluthafi fyrirgeri rétti sínum til starfa og sé þá jafnframt skylt að þola innlausn hlutabréfa ef hann verði uppvís að því að hefja samkeppnisrekstur eða undirbúning hans á meðan hann sé í starfi hjá aðalstefnanda.  Er rakið að 29. maí hafi gagnstefnandi sent uppsagnarbréf og sama dag hafi hann haldið fund með starfsmönnum útibús aðalstefnanda, þar sem hann hafi upplýst um starfslokin og ætlun sína að hefja rekstur sjálfstæðrar endurskoðunarskrifstofu á Akureyri í framhaldinu. Á fundi með stjórnarformanni aðalstefnanda og fleiri stjórnendum í Reykjavík 31. maí hafi hann upplýst um þau áform sín að starfa áfram á sama vettvangi og aðalstefnandi á Norðurlandi.  Þetta sé ótvírætt og alvarlegt brot á skuldbindingu hans gagnvart öðrum hluthöfum og vegna þess telji framkvæmdastjóri óhjákvæmilegt að víkja honum úr starfi og hafi hann þegar gert stjórn félagsins grein fyrir þeirri ætlun.  Var síðan tilkynnt um fyrirhugaða frávikningu og kostur gefinn á að gera athugasemdir við hana innan tveggja sólarhringa.  Tekið var fram að starfslokadagur yrði sá dagur er stjórn staðfesti ákvörðun um frávikninguna.  Jafnframt var tilkynnt að gagnstefnanda væri óheimill aðgangur að starfstöð aðalstefnanda á Akureyri og gögnum, nema með sérstöku fyrirfram fengnu samþykki og að honum bæri þegar í stað að skila öllum tækjum sem að hann hefði til afnota þarna, þar með talinni fartölvu og síma, sem og hvers konar afritum af gögnum sem að hann kynni að hafa undir höndum. 

Gagnstefnandi ritaði andmælabréf dagsett 6. júní 2012 þar sem brottvikningu var mótmælt og jafnframt því að gagnstefnandi hefði brotið gegn ákvæðum samnings aðila. 

Stjórn aðalstefnanda ákvað þann 8. júní að víkja gagnstefnanda úr starfi án frekari fyrirvara og var tiltekið að starfslokadagur hans yrði þann dag, þ.e. 8. júní 2012.  Lögmaður aðalstefnanda ritaði gagnstefnanda bréf 14. júní 2012 þar sem andmælabréfi hans var mótmælt í nokkrum atriðum og honum tilkynnt um ákvörðun stjórnarinnar. 

II.

Aðalstefnandi telur að athafnir gagnstefnanda eftir að honum hafði verið tilkynnt um fyrirhugaða riftun 4. júlí 2012 staðfesti að hann hafi verið byrjaður að undirbúa samkeppni við aðalstefnanda þegar hann hafi enn verið við störf hjá honum og hluthafi.  Er vísað til þess að gagnstefnandi hafi stofnað fyrirtækið Enor ehf.  12. júní 2012, tveimur dögum áður en honum hafi verið vikið frá störfum, en Enor ehf. sé samkeppnisaðili aðalstefnanda á Norðurlandi.  Sé félaginu lýst á heimasíðu þess þannig, að það sé nýtt og framsækið norðlenskt endurskoðunarfyrirtæki, sem hafi verið stofnað í júní 2012 og byggi á áralangri reynslu starfsmanna þess á sviði endurskoðunar og tengdrar þjónustu.  Stjórn aðalstefnanda hafi ákveðið að bregðast við samkeppnisrekstri gagnstefnanda í samræmi við skilmála samstarfssamningsins og hafi gert kröfu á hendur honum vegna viðskiptamanna, sem hafi flutt viðskipti sín yfir til gagnstefnanda eða Enors ehf., eftir að gagnstefnandi hafi hætt störfum.  Aðalstefnandi hafi fengið staðfest að stéttarfélagið Samstaða, Kælismiðjan Frost ehf. og Verkalýðsfélagið Eining/Iðja, hefðu flutt viðskipti sín til gagnstefnanda eða Enors ehf. og því gefið út reikninga á hendur gagnstefnanda vegna þessara viðskiptamanna.  Reikningurinn hafi verið að fjárhæð 2.549.115 krónur, sem sé dómkrafa þessa máls og sundurliðist með nánar greindum hætti.  Hafi gagnstefnandi ekki greitt kröfuna og sé aðalstefnandi því knúinn til að höfða þetta mál til innheimtu skuldarinnar. 

Aðalstefnandi kveðst byggja á því í aðalsök að gagnstefnanda sé skylt samkvæmt samstarfssamningnum að greiða sér fyrir þá viðskiptamenn, sem hafi flutt viðskipti sín yfir til gagnstefnanda eða Enors ehf. eftir starfslok gagnstefnanda 14. júní 2012.  Tekur aðalstefnandi fram að einungis sé gerð krafa vegna framangreindra þriggja viðskiptamanna, en hann áskilji sér engu að síður rétt til að höfða önnur mál vegna annarra viðskiptamanna, sem hafi flutt viðskipti sín.  Samstarfssamningurinn sé bindandi fyrir gagnstefnanda vegna ákvæða í samþykktum aðalstefnanda og þar sem hann hafi verið sérstaklega undirritaður af gagnstefnanda 2. nóvember 2011.  Gagnstefnandi hafi gert einhliða fyrirvara við 31. grein samningsins, sem dómkrafa aðalstefnanda byggist á. Hafi hann gert fyrirvarann í ljósi þess hvernig framkvæmd útgöngu hluthafa hefði verið háttað án þess að farið hefði verið að ákvæðum greinarinnar.  Þessi fyrirvari hafi hins vegar engin áhrif á greiðsluskyldu gagnstefnanda þar sem hann hafi hvorki verið samþykktur af öðrum hluthöfum né af stjórn aðalstefnanda.  Í 3. mgr. 31. greinar samstarfssamningsins sé sérstaklega tekið á því álitaefni þegar hluthafi hætti störfum hjá félaginu, en haldi áfram störfum á sama sviði og taki með sér viðskiptamenn frá félaginu, hvort sem hann geri það sjálfur eða beini þeim til samkeppnisaðila, sbr. 3. mgr. 31. gr., sem hljóði svo:  „Ef hluthafi hættir störfum hjá félaginu, en heldur áfram störfum á sama sviði og tekur með sér viðskiptamenn frá félaginu innan þriggja ára frá útgöngu eða verður uppvís að því að valda félaginu tjóni við útgöngu úr félaginu, t.d. með því að beina viðskiptum þess til samkeppnisaðila, er hann skaðabótaskyldur gagnvart félaginu og getur félagið krafist bóta, sem nema tekjum síðustu 12 mánaða vegna vinnu félagsins fyrir viðskiptamanninn.“  Þetta ákvæði feli í sér samningsbundna greiðsluskyldu hluthafa til aðalstefnanda þar sem greiðsluskyldan stofnist við það eitt að þeir hætti störfum hjá honum og hefji störf fyrir viðskiptamenn hans innan þriggja ára frá því að þeir hætti störfum hjá félaginu.  Dómkrafa aðalstefnanda uppfylli öll þessi skilyrði og beri því að fallast á hana. 

Í fyrsta lagi hafi gagnstefnandi hætt störfum hjá aðalstefnanda þann 14. júní 2012, þegar stjórn aðalstefnanda hafi rift ráðningarsamningi hans og innleyst hlutabréf hans í félaginu.  Sú staðreynd að ráðningarsamningi gagnstefnanda hafi verið rift  vegna brota hans gegn samstarfssamningnum hafi ekki leitt til þess að hann hafi losnað undan skyldum sínum samkvæmt samstarfs- eða ráðningarsamningunum.  Samstarfs­samningurinn sé fortakslaus og skýr um greiðsluskyldu hluthafa við starfslok, hvort sem þau megi rekja til uppsagnar eða riftunar. 

Í öðru lagi hafi gagnstefnandi tekið með sér viðskiptamenn frá aðalstefnanda innan þriggja ára frá útgöngu hans úr félaginu.   Viðskiptamenn í skilningi 2. mgr. 31. gr. samstarfssamningsins séu einstaklingar, stofnanir og félög, sem hafi verið í viðskiptum við aðalstefnanda við starfslok gagnstefnanda í júní 2012, óháð því hvort skriflegur verksamningur hafi verið fyrir hendi eða ekki. 

Framangreindir viðskiptamenn hafi allir verið viðskiptamenn aðalstefnanda þegar gagnstefnanda hafi verið vikið frá störfum í júní 2012.  Hafi það engin áhrif á greiðsluskyldu gagnstefnanda þótt gagnstefnandi hafi ekki átt frumkvæðið að því að eiga viðskipti við fyrrum viðskiptamenn aðalstefnanda.  Hafi greiðsluskyldan orðið virk hvort sem gagnstefnandi hafi leitað til viðskiptamannanna eða þeir til hans.  Þetta hafi verið staðfest í dómaframkvæmd Hæstaréttar og sé í samræmi við markmið og orðalag 3. mgr. 31. gr. samstarfssamningsins. 

Varðandi markmið ákvæðisins vísist til eðlis samstarfssamningsins og einstakra ákvæða hans, sbr. 17. og 2. mgr. 29. gr. samstarfssamningsins.  Í fyrrnefnda ákvæðinu segi orðrétt:  „Öll gögn í hvaða formi sem þau kunna að vera og allar upplýsingar, hugmyndir og viðskiptasambönd, sem hluthafi aflar eða kemst yfir í starfi sínu hjá aðalstefnanda eru eign félagsins og skulu skilin þar eftir á aðgengilegu formi þegar hluthafi hættir störfum.“  Í síðar nefnda ákvæðinu segir síðan:  „Hluthafi sem hættir í félaginu skal ávallt leitast við að tryggja áframhaldandi viðskipti viðskiptavina hjá félaginu, sem frekast er kostur, í fullu samstarfi við aðra hluthafa.“   Þá hafi það engin áhrif á greiðsluskyldu gagnstefnanda þótt hann þjónusti ekki framangreinda aðila milliliðalaust eða sendi þeim reikning í sínu nafni.  Sé slík aðstaða uppi sé byggt á því að hann hafi beint þeim í viðskipti til Enors ehf., sem leiði til greiðsluskyldu hans samkvæmt 3. mgr. 31. gr. samstarfssamningsins.  Þá kveðst aðalstefnandi mótmæla því að rök séu fyrir því að ógilda eða takmarka greiðsluskyldu gagnstefnanda samkvæmt samstarfssamningnum, með vísan til 36. gr. eða 37. gr. laga nr. 7, 1936 eða annarra ólögfestra ógildingarreglna samningaréttar.  Ákvæði sem dómkrafa sín byggist á sé í fyrsta lagi afmarkað og skýrt um greiðsluskyldu hluthafa, sem hefji störf fyrir viðskiptamenn aðalstefnanda innan þriggja ára frá því að þeir hætti störfum hjá félaginu.  Í öðru lagi verði gildistími ákvæðisins að teljast hæfilegur, þ.e. 36 mánuðir frá starfslokum.  Í raun skipti hann ekki máli, þar sem gagnstefnandi hafi byrjað störf fyrir viðskiptamenn aðalstefnanda nánast um leið og honum hafi verið vikið frá störfum.  Í þriðja lagi geti ákvæðið ekki talist víðtækara en nauðsynlegt hafi verið til að verja samkeppni og lögvarða hagsmuni aðalstefnanda, einkum í ljósi eðlis samstarfssamningsins.  Ekki verði því séð að hið umsamda ákvæði hafi takmarkað atvinnufrelsi gagnstefnanda umfram það sem nauðsynlegt hafi verið vegna hagsmuna aðalstefnanda. 

Aðalstefnandi segir dómkröfu sína byggjast eins og fyrr segir á 3. mgr. 31. gr. samstarfssamningsins, sem mæli fyrir um staðlaðar skaðabætur til handa sér ef hluthafar hætti störfum hjá sér og hefji störf fyrir viðskiptamenn hans innan þriggja ára frá útgöngu.  Í ákvæðinu segi að hann geti krafist bóta sem nemi tekjum síðustu tólf mánaða vegna vinnu sinnar fyrir viðskiptamanninn.  Kveðst aðalstefnandi byggja á því að tólf mánaða tímabilið miðist við það tímamark þegar framangreindir viðskiptamenn hafi hætt viðskiptum við aðalstefnanda.  Miðist dómkrafa sín því við tekjur vegna vinnu fyrir þessa viðskiptamenn á síðustu 12 mánuðum áður en þeir hafi hætt viðskiptum við aðalstefnanda.  Kælismiðjan Frost ehf. hafi hætt viðskiptum 31. júlí 2012.  Tólf mánaða tímabilið sé því frá 1. ágúst 2011 til 31. júlí 2012.  Hafi tekjur aðalstefnanda á tímabilinu numið 3.066.162 krónum án virðisaukaskatts og sé gerð krafa um 1/3 af þeirri fjárhæð með virðisaukaskatti, 1.282.678 krónur.  Kveðst aðalstefnandi hafa í hyggju að höfða mál síðar til innheimtu eftirstöðvanna.  Stéttarfélagið Samstaða og Verkalýðsfélagið Eining/Iðja hafi hætt í viðskiptum við aðalstefnanda á sama tíma og gagnstefnanda hafi verið vikið frá störfum í júní 2012, þótt formleg uppsagnarbréf hafi verið send síðar.  Tólf mánaða tímabilið sé því frá 1. júní 2011 til 31. maí 2012.  Tekjustofnar aðalstefnanda á tímabilinu hafi numið 696.825 krónum án virðisaukaskatts, vegna stéttarfélagsins Samstöðu og 2.330.514 krónum vegna Einingar-Iðju.  Gerir aðalstefnandi kröfu um 1/3 af þessum fjárhæðum með virðisaukaskatti, 1.266.437 krónur, og kveðst hafa í hyggju að höfða mál síðar til innheimtu eftirstöðvanna.  Krafa um dráttarvexti sé byggð á 1. mgr. 6. gr. sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38, 2001, en þann 14. október 2012 hafi verið liðinn mánuður frá því að aðalstefnandi hafi sannanlega krafið gagnstefnanda með réttu um greiðslu dómkröfunnar. 

Aðalstefnandi kveðst vísa til almennra reglna samningaréttar um að samningar skuli halda og lagaákvæða sem vísað sé til hér að framan. 

III.

Gagnstefnandi tekur fram í greinargerð í aðalsök að hann hafi af ýmsum ástæðum, sem þar eru nánar raktar, metið stöðu sína svo 29. maí 2012, að tímabært væri fyrir sig að nýta sér uppsagnarákvæði samstarfs­samningsins og segja starfi sínu lausu hjá aðalstefnanda.  Það sé rangt að hann hafi hafið undirbúning samkeppni meðan hann hafi verið í starfi hjá aðalstefnanda.  Hann hafi hafið undirbúning að stofnun Enors ehf. eftir að sér hafi verið gert ljóst á fundi og með bréfi 4. júní 2012 að sér væri vikið fyrirvaralaust frá störfum.  Sé ljóst að frá þeim degi hafi honum verið fyrir fullt og fast með samþykki stjórnar vikið endanlega frá störfum á mjög meiðandi og móðgandi hátt og með því hafi verið svo gróflega brotið gegn samstarfssamningi aðila að hann hafi verið með öllu óbundinn af honum þá þegar. Hafi t.a.m. verið ómögulegt fyrir sig að starfa eftir 29. gr. samstarfs­samningsins.  Hafi stjórnendur aðalstefnanda með tilefnislausri framkomu sinni reynt að lítilvirða hið góða starf gagnstefnanda fyrir félagið á Norðurlandi og um leið varpað rýrð á trúverðugleika hans, en því hafi fylgt hætta á að orðspor hans sem endurskoðanda biði hnekki.  Með því hafi verið svo gróflega brotið gegn samstarfs­samningi aðila gagnvart gagnstefnanda, að hann hafi þá þegar verið laus undan öllum þeim kvöðum sem hann hafði á sig tekið.  Tekur hann fram að hann hafi í öndverðu ráðgert að vinna í uppsagnarfresti. 

Gagnstefnandi kveðst byggja sýknukröfu í aðalsök á því, að ákvæði ráðningar­samnings og hluthafasamnings um samkeppnishömlur og vistarbönd séu niður fallin og ógild eða óvirk í samningi aðila, með því að aðalstefnandi og lykilstarfsmenn í hluthafahópi hafi brotið samstarfssamninginn og ráðningarsamninginn gróflega.  Kveðst hann byggja hér á almennum reglum kröfuréttar um gagnkvæmar efndir samninga og 37. gr. samningalaga nr. 7, 1936, einkum 2. mgr. 

Gagnstefnandi byggir á því í aðalsök að þann 4. júní 2012 hafi hann ekki verið byrjaður samkeppnisrekstur eða undirbúning hans. Aðalstefnandi hafi sagt ráðningarsamningi upp með ólögmætum hætti og án gildra ástæðna.  Hafi verið byggt á ágiskunum og ályktunum um að gagnstefnandi hefði byrjað samkeppnisrekstur eða undirbúning hans.  Kveðst gagnstefnandi byggja á því að með bréfi dags. 4. júlí 2012 hafi aðalstefnandi brotið samningsbundinn rétt sinn til uppsagnarfrests og andmæla.  Hafi skort heimildir til að víkja gagnstefnanda fyrirvaralaust af starfsstöð og krefja hann um skil á gögnum.  Hafi borið að veita honum raunverulegan andmælarétt.  Sé því mótmælt að brottvikningin hafi verið lögmæt aðgerð.  Liggi fyrir að stjórn aðalstefnanda hafi þegar verið búin að samþykkja þann 4. júní 2012 að víkja gagnstefnanda frá störfum, með undirritun sinni á uppsagnarbréf þar sem tekið sé undir fyrirvaralausar ásakanir um samningsbrot.  Þetta komi fram í fundargerð 4. júní þar sem komi fram í 2. lið að bréfið sé tilkynning um að gagnstefnanda sé vikið úr starfi.  Lögmaður gagnstefnanda hafi lýst því í andmælabréfi 6. júní 2012 að gagnstefnandi teldi aðalstefnanda hafa vikið sér endanlega frá störfum og þessu hafi gagnstefnandi ekki andmælt, en staðfest uppsagnarbréfið enn frekar 8. júní, en fyrst tilkynnt með bréfi dags. 14. júní að fjallað hefði verið um andmæli gagnstefnanda.  Kveður gagnstefnandi andmælarétt vera haldlausan þegar svona sé komið, ákvörðun hafi verið tekin af stjórn aðalstefnanda og framkvæmdastjóra 4. júní.  Hafi aðferð aðalstefnanda verið móðgandi og meiðandi og til þess fallin að sverta orðstír og starfsheiður aðalstefnanda sem endurskoðanda, án þess að til þess væru gildar ástæður.  Brottvikning af starfsstöð og afturköllun tækja og gagna sé skýrasta mynd uppsagnar starfs og áþreifanlegri en skriflegt uppsagnarbréf og gangi lengra en samningsbundnar heimildir milli aðila og lengra en aðrar mögulegar lögmætar heimildir aðalstefnanda hafi staðið til.  Gagnstefnandi hafi, vegna framkomu og bréfs aðalstefnanda 4. júní 2012, engar réttmætar væntingar haft um að brottvikning hans fæli ekki í sér endanlega brottvikningu úr starfi.  Gagnstefnandi byggir á að íþyngjandi ákvæði um uppsögn í ráðningarsamningi beri að skýra mjög þröngt.  Kveðst hann byggja á því að ógildur sé samningur aðila um trúnaðarskyldu og samkeppnisbann, sbr. 33. gr., 36. gr. og 37. gr., einkum 2. mgr., laga nr. 7, 1936.  Sé því hafnað að uppsögn hafi fyrst tekið gildi 14. júní 2012.  Hafi ákvörðun aðalstefnanda verið tekin 4. júní og staðfest 8. júní og tekið gildi gagnvart gagnstefnanda þann 4. júní. 

Þá kveðst gagnstefnandi byggja á því að vegna atvika í samstarfi við aðila og skeytingarleysis um ýmsa þætti í samningi, „eftir atvikum og aðilum“ sé samningurinn brostinn og trúnaðar- og samstarfsákvæði hans orðin ógild og óskuldbindandi fyrir hann. Vísar hann til þess að samstarf gagnstefnanda við aðra í hluthafahópnum hafi beðið hnekki og trúnaðarbrestur orðið á milli aðila.  Lykilstarfsmenn hafi hótað tafarlausri afsögn ef gagnstefnanda yrði af hálfu hluthafa trúað fyrir lykilstöðum í félagsskapnum, með því að meirihlutinn hafi afþakkað framlag gagnstefnanda til tiltekinna ábyrgðar- og stjórnunarstarfa. Hafi gagnstefnanda verið gert ljóst að hann ætti ekki von um að áherslur hans fengju hljómgrunn í starfsemi og uppbyggingu félagsins eða hann nyti trausts í hluthafahópnum.  Ekki hafi verið brugðist við kröfum gagnstefnanda um að brugðist yrði við versnandi afkomu og tillögum hans um aðgerðir.  Samstarfssamningur hafi ekki verið virtur í alla staði.  Hluthöfum hafi verið mismunað með því að 31. gr. samningsins hafi ekki verið látin gilda fullum fetum fyrir þá sem hafi horfið frá félaginu án þess að allir hluthafar hafi samþykkt frávik.  Kveðst gagnstefnandi byggja á því að með framkvæmd sinni hafi aðalstefnandi breytt þessu ákvæði samningsins og það sé ógilt og hafi verið það frá því fyrir 29. maí 2012 sem og samningurinn í heild, vegna þess að ekki hafi verið farið eftir ákvæðum hans í tilfellum allra hluthafa. Tiltekinn hluthafi hafi setið í stjórn starfsleyfisskylds fjármálafyrirtækis og gagnstefnandi gert athugasemd við það.  Ekkert hafi verið gert með þá athugasemd.  Reglur hluthafasamkomulags um undirritanir í félaginu hafi verið brotnar.  Nánar greindir hluthafar hafi undirritað ársreikninga í eigin nafni fyrir hönd félagsins án þess að hafa til þess heimild. Hafi gagnstefnandi gert athugasemdir við þetta.  Þeir sem hafi átt að sinna eftirliti með gæðum hafi ekki sinnt ábyrgð sinni með forsvaranlegum hætti, með alvarlegum afleiðingum fyrir félagið.  Verkefni félagsins fyrir nánar greindan banka hafi ekki staðist gæðakröfur eftirlitsaðilans PWC Global vegna uppgjörs árin 2006 og 2007. Þetta hafi hluthöfum ekki verið gert ljóst með formlegum hætti þegar tilefni hafi gefist til og gagnstefnandi fyrst fengið vitneskju um það þegar að hann hafi gegnt stöðu áhættu- og gæðastjóra.  Eigi aðalstefnandi í málaferlum, þar sem honum hafi verið stefnt vegna yfirsjóna í starfi fyrir banka þennan.  Hafi verið um að ræða brot á samstarfssamningi hluthafanna og trúnaðarbrest og setji það afkomu og orðspor félagsins og starfsmanna þess í uppnám og leiði til þess að félagið geti ekki byggt rétt á hendur hluthöfum og lagt á þá vistarband eða samkeppnisbann við þessar aðstæður.  Þá rekur gagnstefnandi að innan vébanda aðalstefnanda sé nánar greint dótturfélag og telur allt benda til þess að í því félagi hafi ekki verið farið að fyrirmælum helstu laga sem endurskoðendur starfi eftir og beri að standa vörð um.   Telur gagnstefnandi að svo mikil brotalöm hafi verið orðin á efndum nokkurra hluthafa á samstarfssamningi aðila, að samningurinn hafi ekki getað verið skuldbindandi fyrir hann í óbreyttri mynd. Þess vegna hafi hann óskað eftir viðræðum við félagið um starfslok og útgöngu úr hluthafahópi í uppsagnarbréfi. 

Þá kveðst gagnstefnandi byggja á því að út frá meginreglum um jafnræði hluthafa hafi hann gert fyrirvara við ákvæði 31. gr. samstarfssamnings aðila.  Hafi því ákvæði ekki verið fylgt í mörgum tilvikum og stjórn félagsins hafi ekki fylgt því eftir að farið væri eftir ákvæðinu.  Mörg fordæmi séu fyrir því að greidd hafi verið 20% af því sem að 31. gr. mæli fyrir um.  Vegna þessa hafi gagnstefnandi gert sérstakan fyrirvara við nefnda 31. gr. samstarfssamningsins á aðalfundi 30. september 2011, án þess að þeim fyrirvara væri mótmælt.  Telji hann að fyrirvarinn sé í fullu gildi. Sé byggt á því að hluthöfum hafi borið að mótmæla þessum fyrirvara og bóka hefði átt þau mótmæli í fundargerð. Að öðrum kosti hafi fundarmenn ekki getað vitað afstöðu fundarins eða brugðist við henni, til dæmis með breytingartillögu.  Gagnstefnandi hafi ekki fallið frá fyrirvara sínum.  Á vinnufundi hluthafa í nóvember 2011 hafi stjórnarformaður dreift samstarfssamningi hluthafa ásamt fylgigögnum, þar á meðal fyrirvara gagnstefnanda. Þar fyrir utan telji gagnstefnandi að samstarfssamningurinn sé ógildur og óvirkur þar sem að baki skuldbindingu hans hafi búið þær röngu og brostnu forsendur að sátt væri um starfsemi félagsins í hluthafahópnum og samstaða væri um áherslur og verkaskiptingu í starfseminni. Telji gagnstefnandi því að sýkna beri sig af kröfum aðalstefnanda.  Þá tekur gagnstefnandi fram að hagsmunir viðskiptalífsins og aðalstefnanda sem fyrirtækis séu minni en hagsmunir gagnstefnanda af því að vera ekki bundinn af samningnum.  Afkoma alþjóðlegs endurskoðendafyrirtækis, einnar stærstu endurskoðendaskrifstofu landsins, geti ekki og megi ekki vera á því byggð að leggja svo ströng samkeppnisskilyrði á einstaka starfsmenn sína að afkomuöryggi og aflahæfi þeirra séu settar svo þröngar skorður sem kröfugerð aðalstefnanda byggi á.  Gagnstefnandi sé menntaður endurskoðandi og hafi starfsréttindi sem slíkur, en vinni fyrir fjölskyldu sinni og beri framfærsluskyldu.  Sam­keppnisákvæðið, einkum skaðabótaákvæðið, stríði í þessari mynd gegn atvinnu­frelsisákvæði 75. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33, 1944. Sé með því gengið lengra en nauðsynlegt sé og skerði það atvinnufrelsi gagnstefnanda meira en sanngjarnt sé.  Þetta verði ljóst þegar litið sé til þess að umþrætt viðskiptasambönd séu að líkindum í eigu Hermanns Brynjarssonar en ekki aðalstefnanda og með beitingu skaða­bóta­ákvæðisins væri gagnstefnanda gert ómögulegt að starfa með Hermanni Brynjarssyni, þrátt fyrir að Hermanni sé samkvæmt sínum ráðningarsamningi heimilt að taka með sér sín viðskiptasambönd. Svo víðtækt ákvæði fari langt út fyrir mörk sanngirni og réttmætra hagsmuna viðskiptalífsins, sbr. 36. gr. og 37. gr. laga nr. 7, 1936, sbr. 7. gr. laga nr. 11, 1986.  Engin endimörk séu á kröfugerð aðalstefnanda, þar sem gerður sé fyrirvari um að stefna gagnstefnanda enn frekar vegna annarra viðskiptamanna.  Engin grein sé gerð fyrir því í málinu hvernig dómari eigi að taka afstöðu til þess hvort skaðabótaákvæði samningsins sé of víðtækt, þar sem ekki liggi fyrir hversu háar endanlegar kröfur aðalstefnanda séu.  Eins og málið sé lagt upp af hálfu aðalstefnanda sé örðugt að leggja mat á gildi skaðabótaákvæðis gagnvart nefndum lagagreinum og öðrum réttarreglum.  Stappi framsetning sakarefnisins nærri því að fela í sér lögspurningu.  Vörnum gagnstefnanda sé óhjákvæmilega áfátt vegna málatilbúnaðar aðalstefnanda, sem sé nokkuð á skjön við réttarframkvæmd skaðabóta og févítisákvæði, þar sem dómstólum hafi verið játað svigrúm til að leggja heildarmat á slík ákvæði út frá ýmsum mælikvörðum.  Ekki sé farið fram á frávísun þótt sennilegt megi telja að dómurinn íhugi frávísun málsins án kröfu.  Þá telur gagnstefnandi umkrafða fjárhæð vera alltof háa og óhóflega, sbr. áskilnað í stefnu um frekari málshöfðanir.  Sé gerð krafa um allar heildartekjur af viðskiptamanni í 12 mánuði og í engu tekið tillit til kostnaðar við að afla þeirra tekna.  Samanborið við hagnað af starfsemi aðalstefnanda 2010-2011 yrðu ætlaðar tekjur hans, yrði fallist á dómkröfu hans, langt umfram afkomu af starfsemi aðalstefnanda.  Augljóst sé að það sé of íþyngjandi og ósanngjarnt fyrir gagnstefnanda að bera einn uppi afkomu aðal­stefnanda.  Áhrif skaðabótanna séu algjörlega ófyrirsjáanleg. Sé ákvæði um þær of opið, beinist að einstaklingi og fyrir vikið ósanngjarnt. Beri að víkja því til hliðar í heild.  Verði um það meðal annars að líta til stöðu samningsaðila og atvika sem síðar hafi komið til. 

Fyrir liggi að aðalstefnandi ætli að sækja bætur vegna sama tjónsins til a.m.k. tveggja annarra fyrrverandi starfsmanna sinna, Hjalta Bjarka Halldórssonar og Níelsar Guðmundssonar, sem báðir starfi hjá Enor ehf.  Megi samkvæmt þessu vera ljóst að kröfugerð aðalstefnanda keyri úr hófi fram, þótt höfuðstóll þess máls láti ef til vill ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn. Gagnstefnandi telji blasa við að umþrætt skaðabótaákvæði sé þannig, þegar litið sé til allra atvika víðtækara en nauðsynlegt sé til að varna samkeppni og skerði atvinnufrelsi þeirra sem gengist hafi undir það. Sé það þess vegna óskuldbindandi fyrir gagnstefnanda og beri að sýkna hann af kröfum aðalstefnanda.  Við mat á þessu beri að líta til þess að ákvæðið sé látið ná til margra starfsmanna í senn og ekki sé um að ræða ákvæði sem aðeins hafi verið ætlað að gilda milli aðalstefnanda og gagnstefnanda.  Ekkert liggi fyrir í málinu um það hvort dómkröfur aðalstefnanda endurspegli verðmæti við­skipta­sambands með tilliti til tekna næstu ára þar á undan.  Þá liggi ekkert heldur fyrir um réttmæti kröfunnar eða heimild aðalstefnanda til hennar, en líkur standi til þess að viðskiptasambönd sem krafa aðalstefnanda grundvallist á séu í eigu þriðja aðila Hermanns Brynjarssonar, fyrrum starfsmanns aðalstefnanda, sem nú hafi látið af störfum og starfi með gagnstefnanda.  Samstarfssamningur Hermanns sé frá árinu 1990 og þar sé skýrt ákvæði í 7. gr. um að honum sé heimilt að bjóða viðskiptamönnum sem hann hafi aflað sambanda við, þjónustu sína ef hann hætti hjá aðalstefnanda.  Í ljósi yfirlýsingar Einingar-Iðju megi telja nær öruggt að þar sé um að tefla viðskiptasamband Hermanns Brynjarssonar og sama megi segja um aðra yfirlýsingu.  Í besta falli sé vafi um hver eigi viðskiptasambandið við aðilann að þeirri þriðju. Þar sem aðalstefnandi færi ekki óyggjandi sönnur á að hann sé rétthafi þessa viðskiptasambands beri að sýkna gagnstefnanda. 

Þá vísar gagnstefnandi til neyðarréttar og telur að sjónarmið um hann dugi ein og sér til að víkja ætluðum skuldbindingum og samkeppnisbanni til hliðar, þar sem samningur aðila hafi ekki verið skuldbindandi fyrir gagnstefnanda og allra síst eftir brottvikninguna 4. júní 2012. Hafi hann eftir það tímamark byrjað undirbúning þess að starfa sjálfstætt.  Fjölmargir viðskiptamenn hafi kosið að leita eftir þjónustu hans.  Verði fallist á kröfur aðalstefnanda myndu áhrif þess teygja sig út fyrir áhrif dómkröfunnar, sbr. fyrirvara um frekari málsóknir og leiða til gjaldþrots gagn­stefnanda og atvinnu- og starfsréttindamissis.  Sé því augljóst að bótaákvæðið standist hvorki atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár né ákvæði 33. gr., 36. gr. og 37. gr. laga nr. 7, 1936. Það sé ósanngjarnt í garð aðalstefnanda og raski hagsmunum hans í miklu stærra umfangi en samkeppnishagsmunir geti réttlætt.  Verði í því sambandi meðal annars að líta til ráðstöfunartekna gagnstefnanda, sem síst sé að vænta að séu hærri en hann hafi haft hjá aðalstefnanda. 

Gagnstefnandi kveðst mótmæla því að umdeilt ákvæði 3. mgr. 31. gr. samstarfssamningsins eða ákvæði starfssamnings gagnstefnanda feli í sér hlutlæga greiðsluskyldu.  Gagnstefnandi byggi á að aðalstefnandi hafi ekki sannað tjón sitt, en krafa aðalstefnanda byggi á ákvæði sem geri að skilyrði að uppvíst verði að gagnstefnandi hafi valdið aðalstefnanda tjóni.  Ákvæðið sé fremur óskýrt og feli í sér hámark tjónsbóta, en ekki fyrirfram umsamdar skaðabætur.  Vegna tilvistar sama ákvæðis í mörgum samningum við starfsmenn og teknu tilliti til þeirrar staðreyndar að rekstur aðalstefnanda sé samkvæmt rekstrarreikningi hans fremur veikburða séu líkur til þess að aðalstefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni.  Jafnvel megi leiða að því líkur að aðalstefnandi hagnist á því að losna undan rekstrarkostnaði vegna starfsmanna sem hafi hætt á starfsstöð hans á Akureyri síðan gagnstefnandi hafi sagt þar upp störfum.  Engar tölur hafi verið lagðar fram um tjón aðalstefnanda og sé gagnstefnanda því ótækt að taka til varna um þennan þátt málsins, en hann krefjist sýknu þar sem ekki liggi fyrir tjón.  Þá sé viðmiðunartímabil samningsins alltof langt að mati gagnstefnanda, sérstaklega ef litið sé til þess að sama ákvæðinu, teldist það í gildi, væri aðalstefnandi vís til að beita fyrir sig oftar en einu sinni vegna sama tjónsins, eins og yfirlýsingar hans um málsókn á hendur öðrum fyrrverandi starfsmönnum beri vott um.    

Gagnstefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 7, 1936, einkum 33. gr., 36. gr., og 37. gr. Þá vísar hann til meginreglna kröfu- og skaðabótaréttar um sönnun á tilvist kröfu og tjóns og ennfremur til reglna félagaréttar um jafnræði hluthafa.    

IV.

Gagnsök er höfðuð til greiðslu launa í uppsagnarfresti.  Kveðst gagnstefnandi byggja kröfu sína á því að hann eigi skýran rétt til þeirra, samkvæmt 9. gr. ráðningarsamningsins frá 17. nóvember 2008.  Samkvæmt henni sé uppsagnarfrestur 6 mánuðir.  Kveðst hann hafna því að nokkurt þeirra atvika, sem talin séu upp í greininni og geti réttlætt fyrirvaralausa uppsögn, eigi við.  Þá geti aðalstefnandi ekki gripið til þess að ráðs að segja gagnstefnanda fyrirvaralaust upp störfum eftir að honum hafi borist uppsagnarbréf.  Ekkert hafi komið fram um það að gagnstefnandi hafi hafið undirbúning samkeppnisreksturs á meðan hann hafi enn verið í ráðningarsambandi við aðalstefnanda, líkt og byggt hafi verið á af hálfu aðalstefnanda í aðalsök. 

Gagnstefnandi hafi leitast við að skilja við aðalstefnanda í sátt, svo sem uppsagnarbréf hans beri með sér. Hann hafi leitast við að skýra ástæður uppsagnarinnar og óskað viðræðna um formlega útgöngu. Ekki verði annað séð en að um málefnalegar ástæður hafi verið að ræða. Ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi brotið gegn ákvæðum í ráðningarsamningi sem þar séu talin upp í 1. grein og talin séu geta réttlætt brottvikningu án greiðslu launa í uppsagnarfresti. Þá sé því mótmælt að heimilt hafi verið að víkja honum af starfstöð aðalstefnanda þann 4. júní 2012. Gagnstefnandi hafi ekki haft annað í hyggju en að skila vinnuframlagi í upp­sagnar­fresti.

Heildarlaun gagnstefnanda á mánuði hafi við starfslok numið 1.515.888 krónum, eins og nánar er sundurliðað í gagnstefnu.  Kveðst gagnstefnandi gera kröfu um full mánaðarlaun í sex mánuði, samtals 9.095.380 krónur. Til frádráttar komi greiðsla til hans vegna launa frá 1. til 8. júní 2012, 443.100 krónur.  Nemi krafan þá 8.662.228 krónum. Þá sé gerð krafa um orlof, sem nemi 11,90% af þeirri fjárhæð eða samtals 1.030.805 krónum. Heildarkrafan nemi því 9.693.033 krónum, sem sé stefnufjárhæðin.  Ekki komi fram í ráðningarsamningi hver mánaðarlaun hafi verið og sé því byggt á launaseðli. 

Gagnstefnandi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar og meginreglna vinnuréttar um greiðslu launa og launa í uppsagnarfresti og laga nr. 30, 1987 um orlof.

V.

Aðalstefnandi kveðst til stuðnings sýknukröfu í gagnsök árétta að gagnstefnandi hafi margoft lýst því yfir meðan ráðningarsamningur hans hafi verið í gildi, að hann hygðist koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri í samkeppni við aðalstefnanda.  Hann hafi undirbúið slíkan rekstur í samstarfi við Hermann Brynjarsson, þáverandi starfsmann aðalstefnanda.  Hjörtur Halldórsson og Níels Guðmundsson, fyrrverandi starfsmenn aðalstefnanda virðist einnig hafa verið með í ráðum, en þeir starfi nú allir hjá Enor ehf., samkeppnisaðila aðalstefnanda á Norðurlandi.  Gagnstefnandi hafi sagt Birni St. Haraldssyni, starfsmanni aðalstefnanda, frá því á fundi á starfstöð aðalstefnanda á Húsavík þann 29. maí 2011, að hann hygðist hætta störfum hjá aðalstefnanda til að koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri í samkeppni við aðalstefnanda.  Hafi hann tjáð Birni að hann og tilgreindir samstarfsmenn hans á Akureyri, Hermann, Níels og Hjörtur, hygðust allir hætta störfum og stofna endurskoðunarskrifstofu á Akureyri, sem myndi leita eftir viðskiptum við aðila á Norðurlandi.  Þá hafi gagnstefnandi sagt starfsmönnum aðalstefnanda á Akureyri frá fyrirhuguðum samkeppnisrekstri sínum á starfsmannafundi, sem hafi verið haldinn 29. maí 2012.  Á fundinum hafi komið fram að markmiðið væri að allir starfsmenn aðalstefnanda á Akureyri fengju vinnu hjá nýju fyrirtæki.  Loks hafi gagnstefnandi upplýst stjórn og stjórnendur aðalstefnanda um að hann hygðist starfa áfram á sviði endurskoðunar og ráðgjafar þegar stjórnendur hafi fundað með honum um starfslok hans hjá félaginu.  Hermann Brynjarsson, sem nú starfi hjá gagnstefnanda, hafi jafnframt upplýst um fyrirhugaðan samkeppnisrekstur á fundum með stjórnendum aðalstefnanda og greint frá því að þeir gagnstefnandi ætluðu að hefja saman rekstur á Norðurlandi, þar sem betra væri að þeirra mati að markaðssetja norðlenska einingu en aðalstefnanda.  Þeir væru farnir að skoða húsnæði og hafi Hermann sérstaklega nefnt þrjár eignir.  Þá hafi verið nefnt að til greina kæmi að fara í alþjóðlegt samstarf, en ekkert væri ákveðið í þeim efnum.  Þá hafi Hermann upplýst að hann hafi rætt við fjölmarga viðskiptamenn aðalstefnanda og látið þá vita af því að hann og gagnstefnandi hygðust koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri í samkeppni við aðal­stefnanda.  Sé enginn vafi á því, að gagnstefnandi hafi undirbúið samkeppnisrekstur við aðalstefnanda á þeim tíma er ráðningarsamningur hans hafi enn verið í gildi.  Hafi það réttlætt fyrirvaralausa riftun í samræmi við ráðningarsamning, sem og almennar reglur vinnuréttar um trúnaðarskyldur starfsmanna.  Hafi verið lögmætar ástæður fyrir riftun ráðningarsambandsins og sé sýknukrafa á því byggð.  Rift hafi verið þegar hafi legið fyrir að gagnstefnandi hefði undirbúið samkeppnisrekstur við aðalstefnanda á Norðurlandi.  Hafi verið um alvarlegt brot að ræða, sem hafi heimilað fyrirvaralausa riftun í samræmi við 8. tl. 30. gr. samstarfssamnings hluthafa í aðalstefnanda, sem og 8. tl. 9. gr. í ráðningarsamningi aðila, sem hljóði um að hluthafi fyrirgeri rétti sínum til starfa hjá aðalstefnanda verði hann uppvís að því að hefja samkeppnisrekstur eða undirbúning hans á meðan hann sé í starfi hjá aðalstefnanda og sama gildi ef hluthafi ráði sig til samkeppnisaðila.  Sé ákvæðið fortakslaust og skýrt um heimild aðalstefnanda til að rifta ráðningarsamningi við gagnstefnanda, ef hann verði uppvís að því að undirbúa samkeppnisrekstur.  Þann 8. júlí 2012 hafi legið fyrir að gagnstefnandi hafi verið farinn að undirbúa samkeppnisrekstur.  Sé vísað til þess að hann hafi verið búinn að finna sér samstarfsaðila, Hermann Brynjarsson, ákveða hvernig markaðssetja ætti samkeppnisreksturinn, þar sem þeir Hermann hafi talið betra að markaðssetja norðlenska einingu, og loks hafi gagnstefnandi og Hermann verið farnir að líta í kringum sig vegna húsnæðis.  Kveðst aðalstefnandi byggja á því að undirbúningurinn hafi verið langt á veg kominn þegar gagnstefnandi hafi sagt upp störfum 29. maí 2012, enda hafi hann stofnað Enor ehf. þann 12. júní 2012, nokkrum dögum eftir að ráðningarsamningi var rift.  Gagnstefnandi hafi jafnframt verið búinn að tæma skrifstofu sína í starfsstöð félagsins á Akureyri áður en honum hafi verið tilkynnt um riftun ráðningarsamnings.  Eftir starfslok gagnstefnanda hafi komið í ljós að hann hafi í mörgum tilvikum komið því til leiðar að viðskiptavinir aðalstefnanda hafi breytt vali endurskoðanda, með því að kjósa gagnstefnanda í stað aðalstefnanda.  Sá almenni háttur sem viðhafður sé hjá aðalstefnanda, sé að viðskiptavinir séu beðnir um að kjósa félagið sem endurskoðanda.  Í sumum tilvikum sé einstakur endur­skoðandi kosinn auk félagsins.  Sú háttsemi gagnstefnanda að fá viðskiptavini aðal­stefnanda til þess að víkja frá þessari reglu án vitneskju aðalstefnanda og kjósa gagn­stefnanda persónulega endurskoðanda mánuðina fyrir stofnun samkeppnisreksturs, sýni að undirbúningur samkeppnisrekstrar hafi staðið lengi yfir.  Kveðst aðalstefnandi byggja á því að þessi háttsemi hafi verið þáttur í undirbúningi samkeppnisrekstrar og þar með brot í starfi, auk þess að vera brot á samstarfssamningi hluthafa, þar sem kveðið sé á um að hluthöfum sé ekki heimilt að taka að sér önnur störf en fyrir félagið, nema með samþykki stjórnar.

Þá mótmælir aðalstefnandi kröfum gagnstefnanda sem of háum.  Framlagðir launaseðlar sýni einungis umsamin laun hans til loka júlímánaðar 2012, þar sem stjórn aðalstefnanda ákveði laun starfsmanna í júlí á hverju ári.  Tilgreind mánaðarlaun hafi því aðeins gilt til 30. júní 2012.  Talsverðar breytingar hafi orðið á launum hluthafa frá 1. júlí 2012 og greiðslur fyrir fasta yfirvinnu hafi t.d. verið felldar niður.  Sé gagnstefnandi bundinn af þeirri ákvörðun í samræmi við grein 3 í ráðningarsamningi og gæti því aldrei öðlast rétt til greiðslu vegna yfirvinnu.  Þá eigi hann ekki rétt á launum í uppsagnarfresti fyrir svokölluð PIE verkefni, enda hafi hann ekki verið með nein slík verkefni frá og með 8. júní 2012.  Þá hefði hann ekki átt rétt á launum í uppsagnarfresti fyrir hópstjórnun, þar sem öðrum aðila hefði verið falin sú staða.  Séu kröfur gagnstefnanda því verulega ofreiknaðar.  Þá er tekið fram að krafa gagnstefnanda sé skaðabótakrafa og frá henni beri að draga tekjur sem hann kunni að hafa haft annars staðar á tímabilinu sem um ræði.

VI.

Gagnstefnandi gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa verið hluthafi í aðalstefnanda og stýrt skrifstofunni á Akureyri og gegnt stöðu áhættu- og gæðastjóra um tíma, eða í rúmt ár.  Hann kvaðst hafa sagt upp vegna þess að það hafi verið viðvarandi vandamál í rekstri aðalstefnanda og stjórnun og skipulagi án þess að brugðist væri við, virðingarleysi hjá stjórnendum og lykilhluthöfum við ákveðin lög og reglur og algjört virðingarleysi í samskiptum milli hluthafa.  Hann kvað alltaf hafa staðið til hjá sér að vinna sex mánaða uppsagnarfrest, eins og sér hefði borið að gera samkvæmt ráðningarsamningi.  Hann hefði ekki verið búinn að undirbúa samkeppni við aðalstefnanda á nokkurn hátt.  Hann kvaðst hafa haldið fund með starfsmönnum á Akureyri eftir að hann hefði ritað uppsögn sína, en hið eina sem þar hefði komið fram hefði verið að hann ætti eftir að ræða við stjórn félagsins um starfslok og ýmislegt sem kæmi til greina hjá sér að fara að gera.  Ekki hefði verið rætt á þessum fundi að starfsmönnum yrði boðið starf hjá nýjum aðila.  Daginn sem hann hefði sett uppsagnarbréfið í póst hefði hann ekið til Húsavíkur til að láta Björn St. Haraldsson vita að hann væri búinn að segja upp, en ekki hefði verið rætt neitt um að þeir færu í samstarf á nýjum vettvangi.  Hann kvaðst hafa litið svo á að 4. júní hefði sér verið sparkað út og öllum skyldum hans við aðalstefnanda þar með lokið.  Hann kvað Kælismiðjuna Frost ehf. vera viðskiptavin hjá sér í dag en vinnu fyrir Einingu-Iðju og stéttarfélagið Samstöðu vera viðskiptasambönd sem Hermann Brynjarsson hefði tekið með sér þegar hann hætti hjá aðalstefnanda.  Hann færi yfir endurskoðun hjá Hermanni og áritaði uppgjörið svo til að tryggja að endurskoðunarvinnan væri í lagi. 

Gagnstefnandi sagði að hjá aðalstefnanda á Akureyri hefðu í maí 2009 starfað 11-12 manns, þar af þrír endurskoðendur.  Úr þessum hópi starfi nú 5-6 hjá Enor ehf.  Hermann Brynjarsson hafi stofnað sjálfstætt fyrirtæki utan um sinn rekstur og ráðið til sín starfsmenn líka.  Hann sagði að töluverður fjöldi viðskiptamanna sem hafi skipt við aðalstefnanda í maí 2012 séu nú í viðskiptum við Enor ehf.  Hann kvaðst hafa skannað uppsagnarbréf sitt og sent í tölvupósti kl. 17:52.  Fyrr þann dag hafi hann farið til Húsavíkur og hitt Björn Haraldsson og starfsmannafundurinn hafi verið haldinn eftir hádegi.  Hann kvaðst ekki hafa vitað um uppsagnir annarra starfsmanna áður en þær voru sendar.  Hann kvað fyrirvara sem hann gerði við undirritun samstarfsamnings hafa komið fram á aðalfundi 30. september 2011.  Hann kvaðst hafa gert fyrirvarann vegna þess að hluthöfum sem hefðu gengið frá félaginu hefði verið mismunað, sumir hefðu ekkert verið látnir greiða fyrir verkefni sem þeir hefðu tekið með sér, í einstaka tilfellum hefði verið viðhöfð einhver 20% regla. Sér hefði fundist að jafnt skyldi yfir alla ganga, hvort sem það væru 0%, 20% eða 100%.  Hann kvaðst kannast við að hafa mætt á fund 12. janúar 2012 þar sem þessi fyrirvari hefði verið ræddur við lögmann félagsins.

Friðgeir Sigurðsson framkvæmdastjóri aðalstefnanda gaf aðilaskýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa fengið vitneskju um uppsögn gagnstefnanda með tölvupósti sem hefði verið sendur klukkan 17:52 þann 29. maí 2012.  Hann kvaðst hafa setið fund með gagnstefnanda 31. maí í Reykjavík þar sem hann hefði gert grein fyrir ástæðum uppsagnar sinnar sem hefðu verið stjórnunarágreiningur og að hann væri ósáttur við ákvarðanir um stjórnun og að ágreiningur væri meðal hluthafa.  Spurður hvort þarna hafi komið fram að hann hygðist fara í samkeppnisrekstur við aðalstefnanda sagði Friðgeir að gagnstefnandi hefði orðað það svo að hann hefði hug á að nýta sér menntun sína og starfa á þessu sviði á Norðurlandi, þ.e.a.s. við endurskoðun.  Ekki hefði þá verið vitað að gagnstefnandi hefði haldið fund með starfsmönnum aðalstefnanda til að gera grein fyrir uppsögn sinni og ekki heldur að hann hefði hitt Björn Haraldsson til að gera honum grein fyrir uppsögninni.  Friðgeir kvaðst hafa verið á fundi 4. júní með gagnstefnanda. Tilefnið hefði verið að ræða ákveðnar hugmyndir að útspili af hans hálfu í framhaldi af fundinum þann 31. maí um hvort væri grundvöllur fyrir því að hann myndi leysa til sín viðskiptasambönd.  Þann 4. júní hafi stjórnendur aðalstefnanda haft vitneskju um starfsmannafundinn þann 29. maí og fundinn með Birni Haraldssyni.  Friðgeir var spurður um fund með hluthöfum sem haldinn var að morgni 4. júní 2012 og kvaðst hann hafa verið á honum.  Kvaðst hann hafa skynjað þar að hluthafar væru þeirrar skoðunar að forsvarsmaður skrifstofunnar á Akureyri væri að segja skilið við fyrirtækið eins og hann ætti rétt til, en að það lægi fyrir vitneskja um að hann væri búinn eða væri að leggja drög að því að taka til sín megnið af þeirri rekstrareiningu sem aðalstefnandi væri með á Akureyri.  Í því fælist brot á samstarfssamningi hluthafa.  Hafi þeir sem höfðu farið norður að hitta starfsmenn á Akureyrarskrifstofunni gert grein fyrir því hvers þeir hefðu orðið áskynja og Björn Haraldsson hafi staðfest á þessum fundi að hafa hitt gagnstefnanda þann 29. maí.

Guðmundur Snorrason stjórnarformaður aðalstefnanda gaf skýrslu vitnis fyrir dómi.  Hann staðfesti að á aðalfundi 30. september 2011 hefði samstarfssamningur hluthafa verið samþykktur af þorra eða yfirgnæfandi meirihluta og hefðu gagnstefnandi og hluthafinn Gunnar Þór Ásgeirsson gert fyrirvara varðandi 31. gr. samningsins.  Fyrirvarinn hefði ekki verið lagður fram á fundinum en umræður hefðu verið um 31. gr. og athugasemdir gagnstefnanda gengið út á að skerpa á ákvæðum um skyldur til að borga 100% af ársveltu liðins árs ef menn gerðust brotlegir við samninginn.  Hefðu gagnstefnandi og Gunnar Þór Ásgeirsson helst gagnrýnt það að gefinn væri einhver afsláttur af greiðslu bóta samkvæmt 31. gr.  Vafalaust hafi verið einhver dæmi um að niðurstaða hafi orðið um að greitt væri minna, en það hefði ekki verið talið að mati stjórnenda að það breytti gildi ákvæðisins.  Hann staðfesti að framkvæmdastjóri félagsins hafi lagt fyrir stjórnina bréf þar sem boðuð hafi verið fyrirætlun um að víkja gagnstefnanda, ef niðurstaða fundarins fyrir norðan myndi ekki skila jákvæðri niðurstöðu.  Þá hafi legið fyrir að það væru ráðagerðir um að yfirtaka reksturinn fyrir norðan og fara í samkeppnisrekstur við aðalstefnanda.  Vitnið staðfesti að stjórn hefði fundað 8. júní, farið yfir andmæli gagnstefnanda, ákveðið endanlega brottvikningu hans og falið lögmanni að tilkynna honum um hana.

Björn St. Haraldsson gaf skýrslu vitnis fyrir dómi.  Hann kvað gagnstefnanda hafa hringt til sín að morgni 29. maí 2012 og beðið um að fá að hitta hann þá þegar.  Hafi það gengið eftir að hann hafi komið til Húsavíkur milli klukkan ellefu og tólf þann morgun.  Hann hafi sagt sér frá því að hann ætlaði að segja upp störfum hjá aðalstefnanda og hefja eigin rekstur endurskoðunarskrifstofu á Akureyri.  Hafi hann boðið sér að taka þátt í þessu eða vera með í þessu með sér.  Þótt það kæmi ekki beint fram hafi hann ráðið það af samtali þeirra að þáverandi starfsmenn aðalstefnanda, annað hvort hluti þeirra eða allir, myndu starfa hjá honum í þessu nýja félagi sem hann hygðist stofna.  Það hafi komið fram milli þeirra að auðvitað sneri þetta m.a. að því að viðskipti sem þá hafi verið hjá aðalstefnanda myndu fara yfir til hins nýja félags.  Það svona teldist nokkuð augljóst.  Hann hafi í sjálfu sér ekki getað markað af þessu samtali hvort og þá hversu langt undirbúningur var á veg kominn.  Tveimur dögum síðar hafi gagnstefnandi hringt og spurt hvort hann hefði hugsað þetta mál og hvort vitnið vildi vera með og vitnið sagt honum að svo yrði ekki.

Hermann Brynjarsson gaf skýrslu vitnis fyrir dómi. Hann kannaðist við að Ljósbrá Baldursdóttir og Sighvatur Halldórsson hefðu rætt við hann 31. maí. Hann kvaðst gera athugasemdir við punkta þeirra um samtalið. Hann hefði ekki kynnt þeim að þeir gagnstefnandi ætluðu í samstarf og ekki hafa upplýst um starfsmannafundinn þann 29. maí. Spurður um fundinn kvaðst hann ekki muna annað en að gagnstefnandi hefði upplýst að hann ætlaði að hætta. Sjálfur kvaðst hann ekki muna hvort hann hefði upplýst það hvað hann sjálfan varðaði, en hann hefði verið búinn að ganga með það í maganum í töluverðan tíma. Ekki hafi legið meira fyrir en að það væri möguleiki, að hugsanlega færu þeir gagnstefnandi í samstarf. Af því hefði þó orðið. Hann hefði hætt störfum hjá aðalstefnanda um mánaðamót júní- júlí og í ágúst 2012 stofnað fyrirtæki sem nú heiti Enor rekstrar- og bókhaldsþjónusta. Sé samstarf milli þess og fyrirtækis gagnstefnanda og heimasíða sameiginleg. Hjá hans félagi starfi 5 manns, þar af hafi fjórir unnið hjá aðalstefnanda.

Vitnið Níels Guðmundsson kannaðist við að fyrrnefnd Ljósbrá og Sighvatur hefðu rætt við hann þann 31. maí. Hann kvað ekki rétt eftir sér haft í punktum þeirra um samtalið. Hefði hann sagt þeim að sér fyndist gott að vinna með gagnstefnanda og vildi styðja hann í því sem hann hefði verið að gera. Hann hefði verið búinn að tilkynna að hann hefði sagt upp og vitnið verið farið að íhuga sína stöðu, en ekki ákveðið framhaldið. Vitnið kvað gagnstefnanda hafa sagt sér frá fyrirhugaðri uppsögn helgina á undan. Vitnið kvaðst nú vinna hjá fyrirtæki gagnstefnanda, hafa byrjað störf í byrjun ágúst 2012, en hætt hjá aðalstefnanda í lok júní.

Vitnið Björn Óli Guðmundsson kvaðst hafa starfað hjá aðalstefnanda, en starfa nú hjá Enor ehf. Vitnið kvað ekki alls kostar rétt eftir sér haft í punktum um samtal sem Elín Hlíf Helgadóttir tók við hann. Hann hefði sagt að ef svo myndi fara gæti hann hugsað sér að fylgja gagnstefnanda í önnur verkefni. Hann hefði frétt það hjá gagnstefnanda 26. eða 27. maí að hann hugleiddi að segja upp störfum. Á fundinum 29. maí hefði gagnstefnandi kynnt að hann væri búinn að senda uppsagnarbréf. Ekki hefði komið fram að hann hygðist bjóða starfsmönnum aðalstefnanda vinnu. Hermann Brynjarsson hefði orðað að hann gæti alveg hugsað sér að fara út í samstarf við gagnstefnanda, en engar hugmyndir hafi verið fastmótaðar. Hann hefði síðan ákveðið í ágúst að hefja störf hjá Enor ehf.

Vitnið Hjörtur Bjarki Halldórsson kvaðst fyrst hafa orðið var við það helgina 26.-27. maí að gagnstefnandi hygðist hætta störfum hjá aðalstefnanda. Hann kannaðist ekki við að hafa sagt Elínu Hlíf Helgadóttur að hann vildi fylgja aðalstefnanda, enda hafi ekkert legið fyrir um framhaldið. Hann kvaðst ekki minnast þess að gagnstefnandi hefði sagt á starfsmannafundi að hann vildi bjóða fólki vinnu eða fara í samkeppni við aðalstefnanda. Hafi hann ekki orðið var við slíkt fyrr en eftir að gagnstefnandi hafi verið farinn endanlega út úr fyrirtækinu.

Vitnið Heiða Guðrún Vigfúsdóttir kvaðst ekki muna efni fundarins 29. maí frekar en svo að aðalstefnandi hefði tjáð að hann hefði sagt upp og Hermann líka. Ekki hefði komið fram hjá þeim hvað þeir hygðust fyrir. Vitnið kvaðst nú starfa hjá Enor bókhaldsþjónustu og hefði Hermann boðið sér það starf.

Vitnið Pálína Austfjörð kvaðst starfa hjá nýnefndu fyrirtæki einnig. Hún hefði hætt störfum hjá aðalstefnanda í lok september 2012. Hún kvaðst ekki muna annað frá fundinum 29. maí en að komið hefði fram að gagnstefnandi og Hermann væru búnir að segja upp.

Vitnið Aðalheiður Eiríksdóttir kvaðst hafa verið á fundinum 29. maí. Þar hefði gagnstefnandi tilkynnt að hann væri búinn að senda inn uppsögn. Hermann hefði greint frá að hann hygðist gera slíkt hið sama daginn eftir. Fram hefði komið hjá gagnstefnanda að þeir hygðust stofna fyrirtæki í sambærilegum rekstri og að þeir vonuðust til að geta ráðið sem flesta af starfsmönnum aðalstefnanda fyrir norðan. Eftir fundinn hefði hún talað við Hermann sem hefði nefnt að hann væri búinn að ræða við nokkra viðskiptavini og tiltekið tvo þeirra, þar af annan Einingu-Iðju. Vitnið kvaðst ennþá starfa hjá aðalstefnanda.

Vitnin Elín Hlíf Helgadóttir og Ljósbrá Baldursdóttir staðfestu að hafa rætt við starfsmenn aðalstefnanda á Akureyri þann 31. maí 2012 og ritað minnispunkta um samtölin, sem liggja frammi í málinu. Staðfestu þær þá sem rétta. Staðfesti Ljósbrá sérstaklega aðspurð að rétt væri haft eftir Hermanni Brynjarssyni að þeir gagnstefnandi ætluðu að hefja rekstur saman og að þeir hefðu á starfsmannafundinum 29. maí tilkynnt að þeir væru að fara í rekstur og þeir vonuðust til að geta boðið öllu starfsfólki vinnu. Einnig staðfesti hún að rétt væri haft eftir Níels Guðmundssyni að ástæða uppsagnar hans væri að hann vildi fremur fara að vinna með gagnstefnanda en að vera áfram hjá aðalstefnanda.

Vitnið Sighvatur Halldórsson staðfesti að hafa rætt við Hermann og Níels ásamt Ljósbrá og staðfesti sem rétta minnispunkta um þau samtöl.

Vitnið Gunnar Þór Ásgeirsson kvaðst hafa starfað hjá aðalstefnanda sem löggiltur endurskoðandi og verið hluthafi. Hann hefði látið af störfum seint á árinu 2012. Hann kvaðst hafa samþykkt samstarfssamning hluthafa á aðalfundi 30. september 2011, en þó með fyrirvara við 31. grein hans um greiðslur fyrir viðskiptasambönd, þar sem hann hefði verið óánægður með það hvernig ákvæðinu hefði verið beitt.

Vitnið Þórir Hvanndal Ólafsson endurskoðandi, sem var hluthafi í aðalstefnanda en lét af störfum seint á árinu 2011, staðfesti að hafa verið á greindum aðalfundi 30. september, þar sem tveir hluthafar hefðu samþykkt samstarfssamning með fyrirvara. Hann staðfesti einnig að gagnstefnandi hefði rætt við sig um að hann væri óánægður með starfsemi aðalstefnanda og gæðamál.     

VII.

Svo sem að framan er rakið sagði gagnstefnandi upp starfi hjá aðalstefnanda þann 29. maí 2012 og óskaði eftir viðræðum um starfslok. Kveðst hann hafa ráðgert að vinna í sex mánaða uppsagnarfresti. Þann 4. júní var honum tilkynnt að ráðgert væri að víkja honum úr starfi og veittur kostur á að koma að andmælum. Samtímis var honum vikið af starfstöð aðalstefnanda. Gagnstefnandi afhenti andmælabréf, sem stjórn aðalstefnanda tók fyrir þann 8. júní. Ákvað hún þá að víkja gagnstefnanda úr starfi. Honum var tilkynnt um þá ákvörðun þann 14. júní.

Fyrir liggur að gagnstefnandi hóf í kjölfarið rekstur endurskoðunarskrifstofu í samkeppni við aðalstefnanda. Liggur einnig fyrir að þrír viðskiptamenn aðalstefnanda, Kælismiðjan Frost ehf., stéttarfélagið Samstaða og Eining-Iðja, slitu samstarfi við aðalstefnanda og byrjuðu að skipta við gagnstefnanda. Snýst aðalsök málsins um kröfu aðalstefnanda um bætur fyrir þessi viðskiptasambönd.

Krafa um bætur er reist á ákvæði í samstarfssamningi hluthafa í aðalstefnanda, sem var samþykktur á aðalfundi 30. september 2011. Segir þar í 31. gr. að ef hluthafi hætti störfum hjá félaginu en haldi áfram störfum á sama sviði og taki með sér viðskiptamenn hjá félaginu innan þriggja ára frá útgöngu, eða verði uppvís að því að valda félaginu tjóni við útgöngu úr félaginu, t.d. með því að beina viðskiptavinum þess til samkeppnisaðila, sé hann skaðabótaskyldur gagnvart félaginu og geti það krafist bóta sem nemi tekjum síðustu 12 mánaða vegna vinnu félagsins fyrir viðskiptamanninn. Greiðsla skuli fara þannig fram að 1/3 hluti greiðist eigi síðar en 3 mánuðum eftir að viðskiptasambandið fer frá félaginu, 1/3 hluti eftir 6 mánuði og 1/3 hluti þegar 12 mánuðir séu liðnir frá því að viðskiptasambandið fór frá félaginu. Greiðslur samkvæmt þessari grein skuli inntar af hendi í formi þóknunar fyrir viðskiptavild.

Gagnstefnandi samþykkti þennan samning sem hluthafi, með fyrirvara um gildi 31. gr. hans, ,,í ljósi þess hvernig framkvæmd á útgöngu hluthafa hefur verið háttað hingað til án þess að farið sé að ákvæðum greinarinnar.“ Telur hann að með framkvæmd þessa ákvæðis hafi aðalstefnandi breytt þessu ákvæði og sé það ógilt.

Þótt gagnstefnandi gerði þennan fyrirvara við ákvæðið er hann undirritaði samninginn verður ekki litið svo á að hann hafi með því losnað einhliða undan því. Verður fallist á það með aðalstefnanda að gagnstefnandi hafi verið bundinn af ákvæðinu samt sem áður. Telur dómurinn þar engu breyta um gildi þess þótt stjórn félagsins hafi í einhverjum tilvikum samið um lægri bætur við útgöngu hluthafa. Þá verður ekki fallist á það með gagnstefnanda að samstarfssamningurinn hafi orðið ógildur í heild vegna þess að aðrir hluthafar hafi brotið hann í einhverjum tilvikum, eða félagið orðið fyrir málsókn vegna yfirsjóna starfsmanna.

Ekki verður á það fallist með gagnstefnanda að honum hafi í raun verið vikið úr starfi 4. júní. Varð ákvörðun um það ekki endanleg fyrr en andmæli hans höfðu verið metin og ákvörðun tekin 8. júní. Honum var vikið úr starfi vegna þess að stjórn aðalstefnanda taldi hann hafa orðið uppvísan að því að undirbúa samkeppni við aðalstefnanda. Kemur að því atriði í umfjöllun um gagnsök, en ekki verður fallist á það með honum að brottvikningin hafi leyst hann undan ákvæði um bótaskyldu. Verður ekki séð að 33. gr. laga nr. 7/1936 eigi hér við. Er gagnstefnanda var vikið úr starfi hafði hann þegar sagt því upp sjálfur. Verður heldur ekki fallist á að 2. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 hér við.

Ákvæði 31. gr. samstarfssamnings aðila felur ekki í sér skuldbindingu um að stunda ekki samkeppnisrekstur, heldur samningsbundna skuldbindingu til að greiða með tilteknum hætti fyrir viðskiptasambönd. Stofnast greiðsluskylda samkvæmt ákvæðinu því aðeins að fyrrverandi hluthafi nái viðskiptasambandi eða fái það til sín á tilteknum fresti eftir að hann gengur úr félaginu. Er ekki unnt að fallast á það með gagnstefnanda að telja beri ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig. Eru ekki efni til að víkja honum til hliðar að einhverju eða öllu leyti af þeim sökum með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Felur þessi skuldbinding ekki heldur í sér takmörkun á atvinnufrelsi, þannig að fari í bága við 75. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944. Þá verður ekki heldur fallist á að greiðsluskyldan sé of víðtæk eða óljós, þar sem ljóst er hvernig hún stofnast og ræðst af því hvaða viðskiptasambönd aðalstefnandi missir til gagnstefnanda. Þá eru bætur samkvæmt ákvæðinu óháðar því hvert tjón kann að leiða af missi viðskiptasambands. Verður ekki fallist á það með gagnstefnanda að aðalstefnandi þurfi að sýna fram á slíkt tjón.

Fyrir liggur að aðalstefnandi endurskoðaði reikninga þeirra félaga sem hann krefst bóta fyrir og að gagnstefnandi endurskoðar þá nú, sbr. skýrslu hans fyrir dómi, hver sem þáttur Hermanns Brynjarssonar er í gerð reikninganna. Nægir þetta til að gera bótaskyldu samkvæmt 3. mgr. 31. gr. samstarfssamningsins virka.

Samkvæmt þessu verður ekki fallist á kröfu gagnstefnanda um sýknu í aðalsök. Fjárhæðum er ekki mótmælt tölulega og þær eru studdar gögnum. Verður gagnstefnandi dæmdur til greiðslu þeirra ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er, þó með þeirri breytingu að aðalstefnandi kveður Kælismiðjuna-Frost ehf. hafa hætt viðskiptum 31. júlí. Verður upphafstími dráttarvaxta á bætur fyrir missi þess viðskiptasambands því miðaður við 31. október, vegna ákvæðis í 3. mgr. 31. gr. samstarfssamnings hluthafa um að 1/3 hluti skuli greiðast eigi síðar en 3 mánuðir eru liðnir frá því að viðskiptasamband fer frá aðalstefnanda.    

VIII.

Gagnsök er höfðuð til greiðslu launa í uppsagnarfresti. Byggir aðalstefnandi sýknukröfu sína á því að sér hafi verið heimilt að víkja gagnstefnanda úr starfi, vegna brots hans gegn 8. tl. 30. gr. samstarfssamnings aðila, sem og 8. tl. 9. gr. ráðn­ingarsamnings aðila, þar sem segir að hluthafi fyrirgeri rétti sínum til starfa, ef hann verði uppvís að því að hefja samkeppnisrekstur eða undirbúning hans meðan hann sé í starfi hjá gagnstefnanda.

Gagnstefnandi sagði upp störfum hjá aðalstefnanda 29. maí 2012. Stjórn aðalstefnanda vék honum úr starfi 8. júní 2012, eftir að hafa kynnt honum þá fyrirætlun 4. júní og veitt honum færi á andmælum. Var gagnstefnanda formlega tilkynnt um vikninguna 14. júní.

Eins og að framan er getið ræddu þrír starfsmenn aðalstefnanda við starfsmenn á Akureyri þann 31. maí. Ræddu Ljósbrá Baldursdóttir og Sighvatur Halldórsson við Hermann Brynjarsson og Níels Guðmundsson. Var Elín Hlíf Helgadóttir viðstödd fundinn með þeim síðarnefnda, en hún ræddi einslega við aðra starfsmenn. Skriflegir punktar þeirra liggja frammi um það sem fram kom í þessum samtölum og staðfestu þau að hafa samið þá jafnharðan og efni þeirra sem rétt.

Í þessum punktum kemur fram að Hermann Brynjarsson hafi greint frá því að þeir gagnstefnandi væru að fara í rekstur saman. Á fundi með starfsmönnum 29. maí hefðu þeir greint þeim frá því að markmiðið væri að bjóða öllum starfsmönnum á Akureyri vinnu. Hann hefði þegar haft samband við stærstu viðskiptavini sína og hann teldi að stærstur hluti viðskiptavina sem þeir gagnstefnandi hefðu umsjón með myndi fara með þeim tveimur. Einnig myndu Hjörtur Bjarki Halldórsson og Níels Guð­munds­son fara í samstarf með þeim.

Í punktum um samtal við Níels Guðmundsson kemur fram að hann vildi frekar fara að vinna með gagnstefnanda og að hann teldi að öll verkefni færu með honum. Í punktum um samtöl við Björn Óla Guðmundsson kemur fram að það gagnstefnandi ætli að halda áfram í bransanum og það hafi verið umræða um að fylgja honum í önnur verkefni. Á fundinum 29. maí hafi verið ýjað að nýju fyrirtæki af hálfu gagnstefnanda og Hermanns Brynjarssonar. Í punktum um samtal við Hjört Bjarka Halldórsson kemur fram að hann vildi fylgja gagnstefnanda. Í punktum um samtal við nafngreindan starfsmann segir að hún væri í lausu lofti og ekki ljóst hvort gagnstefnandi gæti boðið öllum með á nýjan stað. Í punktum um samtal við Heiðu Guðrúnu Vigfúsdóttur kom fram að hún myndi fylgja gagnstefnanda og Hermanni ef hægt yrði.

Hér að framan er framburður gagnstefnanda og vitna rakinn. Kannast gagnstefnandi og vitni ekki við að hafa tjáð sig svo skýrt sem punktarnir bera með sér. Með sama hætti kannast þau ekki við eða muna ekki að á starfsmannafundinum 29. maí hafi komið annað fram en að gagnstefnandi væri að segja upp. Kveðst Hermann ekki muna hvort hann hafi sagt að hann myndi einnig gera svo. Vitnin Heiða Guðrún Vigfúsdóttir og Pálína Austfjörð kváðust ekki muna vel eftir fundinum. Skýrt kom hins vegar fram hjá vitninu Aðalheiði Eiríksdóttur að Hermann hefði greint frá að hann hygðist segja upp daginn eftir og að fram hefði komið hjá gagnstefnanda að þeir hygðust stofna fyrirtæki í sambærilegum rekstri og að þeir vonuðust til að geta ráðið sem flesta af starfsmönnum aðalstefnanda fyrir norðan. Þá kom fram hjá henni að í samræðu við Hermann eftir fundinn hefði komið fram að hann hefði þegar rætt við nokkra viðskiptavini og tiltekið tvo þeirra, þar af annan Einingu-Iðju.

Fyrir liggur að gagnstefnandi gerði sér ferð til Húsavíkur að morgni 29. maí til að ræða við Björn St. Haraldsson endurskoðanda. Greinir þá á um það hvað hafi verið rætt. Kveðst gagnstefnandi aðeins hafa gert honum grein fyrir því að hann væri að segja upp. Björn ber hins vegar að fram hafi komið að gagnstefnandi ætlaði að stofna til eigin rekstrar á Akureyri og boðið sér samstarf.

Meta verður framburð vitnanna í ljósi þess að þau starfa ýmist hjá öðrum hvorum málsaðila eða eru í samstarfi við þá. Það gerir þó framburð vitnisins Björns St. Haraldssonar mun trúverðugri en ella að fyrir liggur að gagnstefnandi gerði sér sérstaka ferð til Húsavíkur til að ræða við hann og þykir dómnum verulega fyrir því haft, ef ekki var frekara erindi en að segja honum frá fyrirhugaðri uppsögn. Þá verður ekki metið trúverðugt að vitnin Ljósbrá Baldursdóttir, Sighvatur Halldórsson og Elín Hlíf Helgadóttir hafi í minnispunktum sínum misskilið efni samtala sinna við vitni svo verulega sem vitnin telja. Þegar efni skýrslna vitna fyrir dómi er virt í þessu ljósi verður talið hafa verið sýnt fram á að gagnstefnandi fór að morgni 29. maí 2012 til Húsavíkur og greindi Birni St. Haraldssyni frá því að hann hygðist stofna til samkeppnisrekstrar við aðalstefnanda og ræddi við hann um mögulegt samstarf. Síðar sama dag hélt hann fund með starfsmönnum aðalstefnanda á Akureyri og greindi þeim frá því að hann hygðist segja upp störfum. Framburður Aðalheiðar Eiríksdóttur um það sem frekar kom fram á fundinum er í samræmi við framburð Björns St. Haraldssonar um það sem hann kveður gagnstefnanda hafa rætt við sig og einnig í samræmi við efni margnefndra minnispunkta um samtöl við starfsmenn aðalstefnanda á Akureyri tveimur dögum síðar. Atvik sem síðar komu til styrkja þetta einnig. Er þá horft til þess að daginn eftir að gagnstefnandi sagði upp störfum gerðu þrír lykilstarfsmenn aðalstefnanda á Akureyri slíkt hið sama. Einn þeirra stofnaði síðar bókhaldsþjónustufyrirtæki sem starfar í náinni samvinnu við gagnstefnanda. Yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna aðalstefnanda á Akureyri á þeim tíma er gagn­stefnandi sagði upp störfum, starfar nú ýmist hjá bókhaldsþjónustufyrirtækinu eða endurskoðunarfyrirtæki gagnstefnanda.

Þegar þetta er virt verður fallist á það með aðalstefnanda að hann hafi réttilega metið það svo að gagnstefnandi væri orðinn uppvís að því hefja undirbúning samkeppnisrekstrar við sig, meðan hann var enn í starfi hjá aðalstefnanda. Var aðalstefnanda þar með heimilt að rifta ráðningarsamningi við gagnstefnanda samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum samstarfssamnings hluthafa og ráðningarsamnings aðila. Ber samkvæmt því að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.

Eftir þessu ber að dæma gagnstefnanda til greiðslu málskostnaðar. Ákveðst hann í einu lagi í aðal- og gagnsök, 1.800.000 krónur.

Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Gagnstefnandi, Davíð Búi Halldórsson, greiði stefnanda í aðalsök, Price­water­houseCoopers ehf., 2.549.115 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 af 1.266.437 krónum frá 14. október 2012 til 31. október 2012, en af 2.549.115 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefnandi er sýkn af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.

Gagnstefnandi greiði aðalstefnanda 1.800.000 krónur í málskostnað.