Hæstiréttur íslands

Mál nr. 56/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Kyrrsetning
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Miðvikudaginn 18. febrúar 2009.

Nr. 56/2009.

Arkís ehf.

(Eiríkur S. Svavarsson hdl.)

gegn

Þverási ehf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

 

Kærumál. Kæruheimild. Kyrrsetning. Frávísun máls frá Hæstarétti.

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu A um staðfestingu kyrrsetningar sem gerð hafði verið í eigum Þ, en jafnframt hafnað að öðru leyti kröfum Þ um frávísun málsins. Kæra A til Hæstaréttar barst viku eftir að kyrrsetningargerðin var niður fallin og samkvæmt því taldi Hæstiréttur að A gæti ekki haft lögvarða hagsmuni af því að leita dóms um staðfestingu gerðarinnar. Var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009 þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að staðfest yrði kyrrsetning, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í eignum varnaraðila 20. júní 2008 í máli nr. K-14/2008, en jafnframt hafnað að öðru leyti kröfu varnaraðila um frávísun málsins. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar frávísun kröfu um staðfestingu á nefndri kyrrsetningu sýslumannsins í Reykjavík og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Hann krefst þess einnig að staðfest verði að öðru leyti niðurstaða hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kæru sóknaraðila verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Að hluta til felst kröfugerð sóknaraðila í því að staðfest verði sú niðurstaða héraðsdóms að hafna því að kröfu um að varnaraðili verði dæmdur til að greiða tiltekna skuld með vöxtum verði vísað frá dómi. Með gagnályktun frá framangreindu ákvæði laga nr. 91/1991 brestur lagaheimild til að kæra úrskurð héraðsdóms til staðfestingar. Verður þessari kröfu vísað frá Hæstarétti þegar af þeirri ástæðu.

Varnaraðili styður aðalkröfu sína annars vegar þeim rökum að kröfugerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti sé svo óskýr og óljós að ekki séu uppfyllt skilyrði 145. gr. laga nr. 91/1991. Í annan stað reisir varnaraðili kröfu sína á því að sóknaraðili hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfu sína. Vísar hann um það til 3. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Í síðastnefndu ákvæði laga nr. 31/1990 segir meðal annars að hafi máli til staðfestingar á kyrrsetningu eða lögbanni verið vísað frá dómi, standi gerðin í eina viku frá því gerðarbeiðanda urðu þau málalok kunn. Að loknum þeim fresti falli gerðin sjálfkrafa úr gildi nema gerðarbeiðandi hafi áður fengið stefnu gefna út á ný til staðfestingar henni. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 15. janúar 2009 að viðstöddum lögmanni sóknaraðila. Kæra í málinu barst Héraðsdómi Reykjavíkur ekki fyrr en 29. sama mánaðar, en kyrrsetningargerðin var þá fallin úr gildi viku fyrr. Hagsmunir, sem sóknaraðili hafði af því að leita dóms um staðfestingu kyrrsetningargerðarinnar eru því ekki lengur fyrir hendi. Málinu verður í samræmi við það vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Arkís ehf., greiði varnaraðila, Þverási ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda 9. janúar sl., er höfðað með réttarstefnu sem birt var 13. ágúst 2008.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Að stefnda verði dæmt til greiðslu skuldar að fjárhæð 56.750.786 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 af 39.902.250 krónum frá 20. febrúar 2008 til 7. apríl s.á., af 34.902.250 krónum frá þ.d. til 23. apríl s.á., af 48.597.250 krónum frá þ.d. til 8. maí s.á., af 55.120.432 krónum frá þ.d. til 20. júní s.á., en af 56.750.786 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Að staðfest verði með dómi kyrrsetning sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í eignum gerðarþola hinn 20. júní 2008 í málinu nr. K-14/2008.

Loks krefst hann þess að stefnda verði dæmt til greiðslu málskostnaðar, þ.m.t. vegna reksturs kyrrsetningarmálsins nr. K-14/2008.

Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins og málskostnaðar að mati dómsins. Er sá þáttur hér til úrlausnar.

II.

Málsatvik eru í megindráttum eftirfarandi:

Stefnda er byggingafyrirtæki og tók með samningi að sér að reisa námsmannaíbúðir á lóðum Byggingafélags námsmanna ses. við Einholt og Þverholt í Reykjavík. Með hönnunarsamningi um alhönnun 19. janúar 2007 samdi stefnda við stefnanda um hönnun námsmannaíbúðanna og gekk verkið undir heitinu BN-Campus. Samkvæmt samningnum nam heildarþóknun stefnanda fyrir verkið 446.299.000 krónum, án virðisaukaskatts, og bar stefnda að greiða eftir framvindu þess. Þá sagði þar að greiðslur yrðu verðbættar miðað við byggingarvísitölu janúarmánaðar 2007.

Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi sent stefnda reikninga eftir framvindu hönnunar og hafi þeir verið greiddir með skilum, allt þar til kom að reikningi útgefnum 20. febrúar 2008, að fjárhæð 39.902.250 krónur. Stefnda hafi þó greitt 5.000.000 króna inn á þann reikning 7. apríl 2008, en ekkert eftir það. Þá hafi stefnda ekki heldur greitt síðari reikninga frá stefnanda, að fjárhæð 13.695.000 krónur, útgefinn 23. apríl 2008, og reikning vegna verðbóta, að fjárhæð 6.523.182 krónur, útgefinn 8. maí 2008.

Með bréfi forsvarsmanns stefnda 6. maí 2008 var stefnanda tilkynnt að Byggingafélag námsmanna ses. myndi ekki standa við verksamning við stefnda um byggingu námsmannaíbúðanna, og því sæi stefnda sér ekki annað fært en að stöðva allar framkvæmdir á byggingarreitnum. Um leið óskaði forsvarsmaðurinn eftir viðræðum við stefnanda um samningslok. Í greinargerð stefnda segir að verkstaðan hafi þá verið sú að búið hafi verið að girða byggingarsvæðið af og að mestu leyti grafa fyrir bílakjallara. Engin uppbygging hafi hins vegar verið hafin á svæðinu, enda ekki ljóst hvað mætti byggja, þar eð deiliskipulagsvinnu byggingaryfirvalda hafi ekki verið lokið. Stefnandi hafi því hvergi nærri lokið verki sínu, þótt á blað væru komnar hugmyndir að því hvað mætti reisa á byggingarreitnum.

Eftir áskoranir stefnanda til stefnda um greiðslu vangoldinna reikninga óskaði stefnandi 12. júní 2008 eftir því að Sýslumaðurinn í Reykjavík kyrrsetti eignir stefnda til tryggingar skuldinni, auk dráttarvaxta og lögmannskostnaðar. Að ábendingu stefnanda kyrrsetti sýslumaður 20. júní 2008 tvo bankareikninga í eigu stefnda. Krafa stefnanda í máli þessu er til heimtu hinna vangoldnu reikninga og staðfestingar á kyrrsetningargerð sýslumanns.

III.

Frávísunarkrafa stefnda er á því reist að málatilbúnaður stefnanda sé í andstöðu við ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þannig sé ekki með neinu móti unnt á að átta sig á því hvernig stefnandi finni út þær 56.750.786 krónur, sem hann telji stefnda skulda sér. Reikningum stefnanda sé hvergi lýst í stefnu, hvorki fjárhæð þeirra, útgáfudegi eða gjalddaga, né fyrir hvaða vinnu verið sé að krefja. Aðeins sé látið við það sitja að vísa til dómskjala, sem feli þó ekki í sér neina lýsingu á reikningum stefnanda. Sum þeirra dómskjala séu hins vegar ekki reikningar, né veiti þau upplýsingar um fyrir hvað stefnandi sé að krefjast greiðslu. Í öðrum tilvikum skorti á hver sé útgefandi hinna meintu reikninga og brjóti slíkt gegn 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í einu skjalanna, sem stefnandi nefni reikning, sé krafist verðbóta, án þess að finna megi útreikning á verðbótunum. Í sama skjali krefjist stefnandi virðisaukaskatts á verðbæturnar, án þess að séð verði að lagaheimild standi til slíks. Telur stefnda að málatilbúnaður stefnanda brjóti að þessu leyti ekki aðeins gegn áðurnefndu ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, heldur einnig gegn 95. gr. sömu laga.

Stefnda byggir einnig kröfu sína á því að síðari liður kröfugerðar stefnanda sé ekki dómtækur, en þar krefjist stefnandi þess „Að staðfest verði með dómi kyrrsetning sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í eignum gerðarþola hinn 20. júní 2008 í málinu nr. K-14/2008.“ Að áliti stefnda yrði þannig orðað dómsorð óskiljanlegt og andstætt ákvæðum 114. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Bendir stefnda á að dómsorð verði að vera endanlegt og skiljanlegt, en ekki háð efni annarra skjala.

IV.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og mótmælir því að  málatilbúnaður hans sé í andstöðu við ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þvert á móti telur hann málatilbúnað sinn bæði skýran og glöggan og að öllu leyti í samræmi við tilvitnað ákvæði. Hann mótmælir því einnig að erfitt sé að átta sig á hvernig dómkrafan sé fundin í málinu. Vísar hann til þess að í stefnu komi fram að krafan sé samkvæmt þremur tilgreindum reikningum, samtals að fjárhæð 60.120.432 krónur. Stefnda hafi greitt 5.000.000 króna inn á skuldina og því nemi eftirstöðvar reikninganna 55.120.432 krónum. Að viðbættri innheimtuþóknun að fjárhæð 1.630.354 krónur, sem fallið hafi til við kyrrsetningu eigna stefnda, nemi dómkrafan því 56.750.786 krónum. Þá telur stefnandi engin rök fyrir þeirri staðhæfingu stefnda að reikningar beri ekki með sér fyrir hvað stefnandi sé að krefjast greiðslu. Á reikningum komi fram að þar sé verið að krefjast greiðslu í samræmi við samning aðila, í þessu tilviki hönnunarsamning frá 19. janúar 2007, en þar sé mælt fyrir um greiðslur eftir framvindu verks, svo og greiðslu verðbóta. Jafnframt tekur stefnandi fram að hluti þeirra reikninga sem hann hafi lagt fram, séu reikningar úr bókhaldi stefnanda, en ekki ljósrit af frumriti þeirra. Í því felist skýring á því að nokkrir reikninganna beri ekki með sér nafn útgefanda þeirra. Loks bendir stefnandi á að stefnda hafi aldrei mótmælt reikningum stefnanda, hvorki formi þeirra, efni, né fjárhæð þeirra.

Að því er varðar kröfu um staðfestingu kyrrsetningar, mótmælir stefnandi því að sú krafa sé ódómtæk. Í 36. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sé mælt fyrir um að gerðarbeiðandi skuli, að lokinni kyrrsetningu, fá gefna út réttarstefnu til héraðsdóms til staðfestingar kyrrsetningunni. Í samræmi við þann áskilnað hafi stefnandi krafist staðfestingar á kyrrsetningu eigna stefnda, sem fram hafi farið hjá Sýslumanninum í Reykjavík 20. júní 2008 í málinu nr. K-14/2008. Í endurriti úr gerðabók sýslumanns, sem lagt hafi verið fram í málinu, komi greinilega fram tilgreining þeirra eigna sem kyrrsettar voru í umrætt sinn, þ.e. bankareikningar stefnda nr. 324-26-46010 og 324-13-300627. Telur stefnandi að ekki sé því þörf á að tilgreina frekar hinar kyrrsettu eignir í kröfugerð sinni.

V.

Kröfugerð stefnanda í máli þessu er tvíþætt. Annars vegar er krafist greiðslu á skuld, hins vegar er krafist staðfestingar á kyrrsetningu.

Samkvæmt fyrri lið kröfugerðar krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmt til greiðslu skuldar, samtals að fjárhæð 56.750.786 krónur, auk dráttarvaxta. Stefnufjárhæðin er mynduð af þremur reikningum, sem stefnandi kveðst hafa gefið út eftir framvindu hönnunar, í samræmi við ákvæði hönnunarsamnings sem aðilar gerðu með sér 19. janúar 2007. Fjárhæð hvers reiknings er tilgreind í stefnu, svo og útgáfudagur. Jafnframt er þar gerð grein fyrir innborgun stefnda inn á elsta reikninginn, svo og innheimtuþóknun stefnanda, sem fallið hafði á kröfuna við kyrrsetningargerðina 20. júní 2008. Þykir dóminum að þessu leyti krafa stefnanda skýr og engum vandkvæðum bundið að finna út hvernig stefnufjárhæðin er mynduð.

Þótt fallast megi á að reikningar stefnanda geymi ekki mikla útlistun á þeirri vinnu sem stefnandi krefst greiðslu fyrir, þykja mótmæli stefnda við umræddum reikningum, bæði efni og formi þeirra, fremur lúta að efnisþætti málsins, og bíða því efnisúrlausnar þess. Verður því ekki á það fallist að málatilbúnaður stefnanda sé að þessu leyti í andstöðu við ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. eða 95. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt því er hafnað kröfu stefnda um frávísun þessa kröfuliðar.

Síðari liður kröfugerðar stefnanda í máli þessu hljóðar um að „staðfest verði með dómi kyrrsetning sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í eignum gerðarþola hinn 20. júní 2008 í málinu nr. K-14/2008.“ Í stefnu er þess aðeins getið að við kyrrsetningargerðina hafi tveir bankareikningar í eigu stefnda verið kyrrsettir, en að öðru leyti látið nægja að vísa til framlagðs endurrits úr gerðabók Sýslumannsins í Reykjavík. Í því endurriti má finna númer umræddra bankareikninga og hvar þá er að finna.

Í d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er að finna fyrirmæli um hvernig haga skuli kröfugerð í stefnu. Hefur jafnan verið litið svo á að í ákvæðinu felist sú leiðbeiningarregla að kröfugerð stefnanda skuli vera svo ákveðin og ljós að dómstóll geti formsins vegna tekið hana til greina og gert að niðurstöðu sinni, ef efnisleg skilyrði eru á annað borð fyrir þeim málalokum. Tæki dómurinn síðari lið kröfu stefnanda til greina, eins og hún er fram sett í stefnu í máli þessu, hefði dómsorðið ekki sjálfstætt gildi, en væri þess í stað bundið við efni skjals þar sem finna mætti tilgreiningu á þeim eignum stefnda, sem kyrrsettar voru í umrætt sinn. Slík niðurstaða stríddi gegn 114. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Að því leyti er þessi liður kröfugerðar stefnanda í andstöðu við áðurnefnt ákvæði d-liðar 1. mgr. 80. gr. tilvitnaðra laga. Ber því að fallast á kröfu stefnda um að vísa frá dómi þessum lið kröfugerðar stefnanda.

Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms í málinu.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu stefnanda, um að staðfest verði með dómi kyrrsetning sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í eignum stefnda 20. júní 2008 í málinu nr. K-14/2008, er vísað frá dómi. Að öðru leyti er hafnað kröfu stefnda um frávísun málsins.

Málskostnaðarákvörðun bíður efnisdóms í málinu.