Hæstiréttur íslands
Mál nr. 143/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 19. febrúar 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. mars 2016 klukkan 13 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að hann sæti ekki einangrun á meðan á því stendur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldinu verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. mars 2016 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 19. febrúar 2016.
Ár 2016, föstudaginn 19. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur krafist þess að X, kt. [...], [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. mars nk. kl. 13:00 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og jafnframt að honum verði gert að sæta einangrun á gæsluvarðhaldstímanum á grundvelli b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Krafan var tekin fyrir á dómþingi kl. 12:30 í dag og tók dómari sér frest til kl. 16:30 til að úrskurða um hana með heimild í 1. mgr. 98. gr. sömu laga.
Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að lögreglan hafi nú til rannsóknar ætlað brot kærða gegn 227. gr. a almennra hegningarlaga og ýmsum ákvæðum laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Hafi lögreglan nú nöfn a.m.k. sex erlendra einstaklinga sem rökstuddur grunur leiki á að séu brotaþolar í málinu en þeir kunni að vera fleiri. Í gær hafi lögreglan farið til [...] og gert húsleit á þremur stöðum vegna gruns um svokallað vinnumansal á vegum fyrirtækisins [...] ehf., kt. [...], en kærði sé eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Á lögheimili kærða að [...] hafi verið staddar tvær erlendar konur er lögreglu hafi borið að garði. Hafi þær báðar verið frá [...] og hvorki talað né skilið íslensku eða ensku að neinu ráði. Þær hafi í fyrstu sagst hafa komið til Íslands sem ferðamenn og hafi þær neitað því að hafa verið í vinnu. Er þeim hafi verið gerð grein fyrir handtöku kærða hafi þær greint frá því að þær hefðu komið til landsins þann 17. janúar sl. og hafi búið á heimili kærða og unnið þar við prjóna og sauma. Hafi kærði bannað þeim að fara mikið út úr húsi og láta sjá sig utan dyra. Hafi þær engin laun fengið greidd fyrir vinnu sína. Hafi lögreglumönnum á vettvangi virst augljóst að konunum tveim hafi verið mjög létt við komu þeirra á staðinn og hafi þeir skynjað hræðslu þeirra í garð kærða. Þá hafi lögreglan farið inn á vinnusvæði [...] ehf. í húsakynnum [...] ([...]) í [...]. Hafi þar verið fjórir erlendir aðilar við störf á vegum [...] ehf. og hafi komið fram hjá þeim að þau hafi ekki fengið greidd laun nema þau hvert og eitt prjónuðu þrjátíu peysur á dag. Lögregla telji sig hafa áreiðanlegar upplýsingar um að ekki sé hægt að prjóna nema að hámarki tíu peysur á dag á umræddar prjónavélar. Hafi einhverjir þessara aðila sagst af og til hafa fengið einhver laun greidd en ekkert af þeim hafi verið gefið upp.
Kærði hafi í skýrslutöku hjá lögreglu í morgun alfarið neitað sök. Hann hafi sagt konurnar tvær sem verið hafi á heimili hans vera gestkomandi hjá honum. Hann hafi sagt sex starfsmenn vera hjá [...] ehf. að honum og eiginkonu hans meðtöldum. Lögreglustjóri segir að til rannsóknar séu ætluð brot kærða sem varðað geti við 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slík brot geti varðað allt að tólf ára fangelsi. Telur lögreglustjóri að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um vinnumansal sem varðað geti fangelsisrefsingu. Um sé að ræða viðamikla rannsókn og mjög alvarlegar sakargiftir. Málið sé umfangsmikið og að því er best sé vitað fordæmalaust hér á landi. Rannsókn málanna sé á frumstigi, það eigi eftir að yfirheyra fjölda vitna og leita frekari vitna að atvikum. Þá sé ljóst að afla þurfi frekari gagna um ferðatilhögun brotaþola til landsins, sem og rannsaka skilríki og önnur skjöl. Megi gera ráð fyrir að óska þurfi aðstoðar erlendra lögregluyfirvalda í þessu skyni. Fyrir liggi að hluti vitnanna séu tengd kærða fjölskyldu og/eða vinaböndum. Þá liggi fyrir að staða brotaþola í mansalsmálum sé afar veik og viðkvæm vegna eðlis slíkra mála. Telur lögreglustjóri því raunverulega hættu á því að kærði geti torveldað rannsókn málanna svo sem með því að afmá ummerki eftir brot og/eða hafa áhrif á vitni.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er þess farið á leit að framangreind krafa nái fram að ganga. Nái krafan fram að ganga er þess óskað að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Með vísan til þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu er ljóst að varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar er meðal annars fjallað um svokallaða nauðungarvinnu, en brot gegn þeirri lagagrein geta varðað fangelsi allt að tólf árum. Rannsókn málsins er á frumstigi og á eftir að yfirheyra ótiltekinn fjölda vitna, kanna ferðatilhögun brotaþola sem samkvæmt gögnum málsins eru erlendir ríkisborgarar. Má ætla að leita þurfi aðstoðar erlendra lögregluyfirvalda í því skyni. Að mati dómsins þykir leika á því hætta að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins svo sem með því að skjóta undan sakargögnum eða hafa áhrif á samverkamenn eða vitni gangi hann laus. Er því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun, sbr. b-lið 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr., sömu laga, eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. mars 2016 kl. 13:00.
Kærði sæti einangrun á gæsluvarðhaldstímanum.