Hæstiréttur íslands

Mál nr. 486/2017

A (Ólöf Heiða Guðmundsdóttir hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tólf mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2017, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tólf mánuði.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar til handa verjanda sínum fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og verður hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Ólafar Heiðu Guðmundsdóttur héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2017

I.

Með kröfu, sem barst dóminum 12. júlí sl., hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...],[...],[...] Reykjavík, verði, með vísan til a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, sviptur sjálfræði tímabundið í 12 mánuði. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá er og gerð krafa um að skipuðum verjanda verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

II.

Sóknaraðili byggir kröfur um sviptingu sjálfræðis til 12 mánaða á a-lið 4. gr., sbr. 5. gr., lögræðislaga, nr. 71/1997. Er krafan reist á því að varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð vegna alvarlegs geðsjúkdóms.

Sóknaraðili bendir á að velferðarsvið Reykjavíkurborgar sé sóknaraðili í málinu, sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Aðstæður allar þyki vera með þeim hætti að rétt sé að sóknaraðili standi að beiðni um sjálfræðissviptingu varnaraðila.

Með beiðni sóknaraðila fylgdi m.a. læknisvottorð B, [...] og sérfræðingi í geðlækningum frá 20. júní sl., og beiðni um fyrirsvar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur varðandi kröfu um sjálfræðissviptingu varnaraðila, dagsett 30. júní 2017. Hvað varðar forsögu málsins og málsatvik er vísað til gagna málsins, sér í lagi til framangreinds vottorðs og gagna.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé [...] ára karlmaður, [...],[...] og [...]. Varnaraðili hafi frá [...] ára aldri haldið til í herbergi í íbúð í eigu [...] en í íbúðinni búi einnig erlendir verkamenn sem séu á vegum [...]. Foreldrar varnaraðila hafi skilið þegar hann hafi verið [...] ára en hann eigi [...] yngri bræður sem búi hjá móður hans. Við skilnað foreldra hafi farið að bera á hegðunarvanda hjá varnaraðila. Hann hafi byrjað að reykja kannabis á framhaldsskólaárunum en sú neysla hafi aukist töluvert undanfarin ár, en að sögn varnaraðila neyti hann ekki lengur kannabisefna. Á yngri árum hafi varnaraðili átt við mikla námsörðugleika að stríða, bæði í grunn- og framhaldsskóla, og hafi fljótlega hætt námi. Hann hafi lítið sem ekkert verið á vinnumarkaði síðastliðin [...] ár en fyrir þann tíma hafi hann um tíma unnið hjá fyrirtæki föður síns. Hann hafi mætt illa og oft lent í deilum við aðra starfsmenn. Faðir varnaraðila hafi stutt hann fjárhagslega en sl. þrjá mánuði hafi hann þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu frá sóknaraðila. Þá liggi fyrir umsókn um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingarstofnun ríkisins. Undanfarin fjögur ár hafi varnaraðili einangrast mikið, bæði gagnvart fjölskyldu og vinum, en hann sé í mikilli tölvunotkun.

Hinn 18. mars 2017 hafi varnaraðili mætt með foreldrum sínum til viðtals á bráðamóttöku geðsviðs vegna vaxandi vanlíðunar en hann hafi verið með hugmyndir sem bent gátu til geðrofssjúkdóms. Hann hafi lýst minningum um að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi ári áður, talið að myndavélar væru í herbergi sínu og að fylgst væri með honum. Hann hafi lýst einkennilegum upplifunum sem fólust meðal annars í því að hlutir sem hann talaði um birtust á tölvuskjá hans. Foreldrar varnaraðila hafi tekið eftir hegðunarbreytingum fyrir tveimur til þremur árum en þá hafi hann ekki lengur viljað borða mat úr sameiginlegum ísskáp í íbúð sinni þar sem hann hafi talið aðra íbúa eiga við matinn. Eftir viðtal á bráðamóttöku geðsviðs hafi varnaraðili samþykkt innlögn á geðdeild en honum snúist hugur þegar þangað hafi verið komið. Ekki hafi þótt ástæða til að grípa til nauðungarráðstafana en varnaraðila hafi verið vísað í viðtöl á dagdeild Laugaráss. Í viðtölum hafi komið fram greinileg einkenni geðrofs í formi ofsóknarkenndar og tilvísunarranghugmynda og var varnaraðili metinn í geðrofi. Hann hafi verið mótfallinn innlögn og lyfjameðferð og því hafi verið nauðsynlegt að beita nauðungaraðgerðum. Borgarlæknir hafi metið varnaraðila einnig í geðrofi. Varnaraðili hafi komið í fylgd lögreglu á geðdeild 32C eftir að borgarlæknir hafi nauðungarvistað hann á heimili sínu í 72 klst., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997.

Varnaraðili hafi verið hræddur við komu á geðdeild 6. apríl 2017 og lýst því að hann hefði engan skilning á því hvers vegna hann væri staddur þar. Hann teldi sig ekki öruggan þar sem starfsfólkið væri að reyna að skaða hann. Það hafi borið strax á aðsóknarkennd og ranghugmyndum hjá varnaraðila en hann hafi talið innlögn vera samsæri gegn sér. Hann hafi verið algerlega innsæislaus, ekki talið sig veikan og viljað útskrifast þar sem hann reykti ekki lengur kannabis.

Í kjölfarið stóð sóknaraðili að nauðungarvistun í 21 sólarhring, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, með beiðni, dags. 7. apríl 2017, sem samþykkt var samdægurs með bréfi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Þann 25. apríl 2017 stóð sóknaraðili að beiðni um framlengingu á nauðungarvistun í 12 vikur sbr. 29. gr. a. lögræðislaga nr. 71/1997, með síðari breytingum. Sú beiðni var staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 26. apríl 2017.

Varnaraðili kom til innlagnar á bráðageðdeild 32C en var færður á móttökugeðdeild 33C. Í núverandi legu hafi hann glímt við framtaksleysi, hann eigi erfitt með að koma sér á fætur og hafi lítið úthald í viðtöl. Hann hafi þegið lyf frá innlögn en hafi þurft mikið tiltal til að þiggja lyfin. Ákveðið hafi verið að hann myndi fara í sprautumeðferð en þar sem hann hafi verið mjög mótfallinn því hafi verið ákveðið að reyna aftur töflumeðferð sem hafi gengið vel síðustu tvær vikur.

Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt læknisvottorði B, [...] á móttökugeðdeild 33C, dags. 20. júní sl., hafi aðdragandi veikinda varnaraðila verið langur og án meðferðar. Það sé mat læknis og meðferðaraðila að langvarandi áframhaldandi meðferð sé nauðsynleg til þess að varnaraðili nái bata. Sjúkdómsinnsæi hans sé mjög takmarkað og enn séu áberandi neikvæð einkenni geðklofa.

Þá segi orðrétt í vottorðinu: „Í ljósi þess er það mat mitt að tímabundin sjálfræðissvipting í 1 ár sé nauðsynleg til að tryggja áframhaldandi lyfjameðferð og endurhæfingu, að öðrum kosti eru verulegar líkur á að ástand A verði óbreytt eða versni.“

Sóknaraðili telur að með hliðsjón af framanrituðu, gögnum málsins og aðstæðum öllum að öðru leyti verði að telja að tímabundin sjálfræðissvipting til 12 mánaða sé nauðsynleg til að vernda líf og heilsu varnaraðila.

Í framanlýstu vottorði B, [...] er m.a. fyrri heilsufarssaga varnaraðila rakin ásamt því að greint er frá aðdraganda innlagnar varnaraðila. Í niðurstöðu vottorðsins er m.a. tekið fram að ljóst sé að aðdragandi veikinda varnaraðila sé búinn að vera langur án nokkurrar meðferðar. Hann hafi verið í reglulegri kannabisneyslu undanfarin ár ásamt því að fá að vera óáreittur í herbergi sínu þar sem virkni og félagsleg tengsl hafi farið hratt niður á við. Samkvæmt foreldrum hafi farið að bera á því sem gæti verið geðrofseinkenni fyrir a.m.k. 3 árum síðan.

Það sé mat þeirra meðferðaraðila sem komið hafi að hans meðferð nú og fyrir innlögn og undirritaðrar að langvarandi áframhaldandi meðferð sé nauðsynleg til þess að þess að varnaraðili nái bata. Hann hafi verið í geðrofi við komu á deild en nú þegar hann hafi verið innliggjandi í tvo og hálfan mánuð séu mest áberandi neikvæð einkenni geðklofa, vanvirkni, hugsanafæð, flatar tilfinningar, mjög lítið úthald í samræðum og minni geta til að hugsa um sjálfan sig. Sjúkdómsinnsæi sé mjög takmarkað en varnaraðili hafi takmarkaðan skilning á þörf fyrir innlögn. Markmiðin séu ekki raunhæf eins og staðan sé í dag. Hann vilji drífa sig að útskrifast svo hann komist í vinnu.

Það sé því mat meðferðaraðila að langvarandi meðferð sé nauðsynleg og að eina leiðin til að ná slíku sé með tímabundinni sjálfræðissviptingu í 1 ár. Búið sé að leggja drög að hans endurhæfingu með innlögn á sérhæfða endurhæfingargeðdeild og virkniprógrammi á Laugarási meðferðardeild. Mjög líklegt sé að varnaraðili muni þurfa sprautumeðferð í framhaldinu en hann sé alfarið á móti þeirri meðferð nú. Í ljósi þess sé það mat undirritaðrar að tímabundin sjálfræðissvipting í 1 ár sé nauðsynleg til að tryggja áframhaldandi lyfjameðferð og endurhæfingu, að öðrum kosti séu verulegar líkur á að ástand varnaraðila verði óbreytt eða versni.

         Varnaraðili kom fyrir dóm. Í máli varnaraðila kom fram að hann mótmælti kröfu sóknaraðila um 12 mánaða sjálfræðissviptingu en hann væri reiðbúinn að samþykkja meðferðarsamkomulag til 6 mánaða.

Við aðalmeðferð málsins gaf áðurnefndur geðlæknir B, skýrslu fyrir dóminum um síma. Hún staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess og um heilsufar varnaraðila. Greindi hún frá því að varnaraðili hefði sýnt neikvæð einkenni geðklofa og að hann væri ennþá veikur. Varnaraðili væri innsæislaus í ástand sitt og reynt hefði verið að meðhöndla hann  í samráði við hann. Þótt læknirinn svaraði því til að hún væri kannski ekki rétta manneskjan til að svara því hvort 12 mánaða svipting væri nauðsynleg, taldi hún það mjög líklegt.

Einnig gaf geðlæknirinn C, sem jafnframt er núverandi meðferðarlæknir varnaraðila skýrslu fyrir dóminum um síma. Taldi læknirinn að varnaraðili þyrfti á langvarandi meðferð að halda og 12 mánuðir væru lágmarksmeðferðartími í tilviki hans. Þá kvað hún sjálfræðissviptingu vera nauðsynlega til þess að unnt væri að veita varnaraðila þá meðferð sem hann þyrfti. Líkindi væru á því að án aðhalds myndi varnaraðili hætta núverandi lyfjameðferð og fara aftur í sama farið. Varnaraðili væri innsæislaus í eigið ástand. Hann hefði ekki viljað sprautumeðferð en tæki nú önnur lyf. Miklar framfarir hefðu orðið hjá varnaraðila en hann hefði fengið mikið aðhald á spítalanum sem hann hefði sinnt. Á meðferðartímanum væri mikilvægt að láta reyna á meðferð utan stofnanna en möguleiki yrði að vera til staðar að grípa inn ef út af brygði.

Talsmaður varnaraðila mótmælti kröfu sóknaraðila og taldi að skilyrði sjálfræðissviptingar væru ekki fyrir hendi. Ekki væri forsvaranlegt að sjálfræðissvipta varnaraðila á grundvelli fyrirliggjandi sjúkdómsástands hans en hann hefði sýnt miklar og hraðar framfarir uppá síðkastið. Um væri að ræða mikið inngrip í líf varnaraðila og takmörkun á mannréttindum hans. Varnaraðili væri samvinnufús við lækna og væri reiðbúinn að samþykkja meðferðarsamkomulag til 3 mánaða, jafnvel í 6 mánuði. Í því ljósi væri ekki séð að reynt hafi verið að fara vægari leiðir í meðferðarúrræðum varnaraðila. Framkomin beiðni um sjálfræðissviptingu væri því ótímabær.

III.

Með vísan til vættis læknanna, B og C fyrir dómi, en einnig með hliðsjón af öðrum fyrirliggjandi gögnum málsins, þykir sýnt að varnaraðili glími við vanda sem felst í alvarlegum geðsjúkdómi.

Fyrir liggur mat geðlæknis um að varnaraðili þurfi læknisaðstoð til að takast á við sjúkdómsástand sitt. Fái hann ekki viðeigandi meðferð stofni hann heilsu sinni í voða og möguleikum á bata. Virkt og stöðugt aðhald mun vera forsenda þess að árangur geti náðst við meðhöndlum varnaraðila, en ljóst þykir að varnaraðila skortir innsæi í þarfir sínar og vægari úrræði séu að svo stöddu ekki tæk. Telur dómurinn því brýna þörf á því að hann verði tímabundið sviptur sjálfræði og eru hans eigin hagsmunir þar hafðir í huga. Skilyrði a-liðar 4. gr., sbr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, eru uppfyllt til að verða við kröfu sóknaraðila um tímabundna sjálfræðissviptingu varnaraðila. Varnaraðili kom vel fyrir í þinghaldi um kröfuna og ljóst að hann hefur tekið miklum framförum eins og læknar staðfestu. Á hinn bóginn telja læknar að 12 mánaða svipting sé nauðsynleg í tilviki varnaraðila. Ekki þykja því efni standa til þess að marka sviptingunni skemmri tíma.

Dómurinn bendir á að samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 71/1997 getur sóknaraðili hvenær sem er og varnaraðili, þegar liðnir eru sex mánuðir frá upphafi sviptingar, borið fram kröfu fyrir héraðsdómara um að sjálfræðissvipting þessi verði felld úr gildi að nokkru eða öllu leyti telji framangreindir skilyrði hennar ekki lengur fyrir hendi.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað af rekstri málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ólafar Heiðu Guðmundsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 180.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í tólf mánuði. Allur kostnaður af málinu, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ólafar Heiðu Guðmundsdóttur hdl., 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.