Hæstiréttur íslands

Mál nr. 567/2015

Viðhald og nýsmíði ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
þrotabúi Graníthússins ehf. (Hilmar Magnússon hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Þrotabú G ehf. krafðist riftunar á nánar tilgreindri greiðslu G ehf. til V ehf. og að V ehf. yrði gert að greiða sér samsvarandi fjárhæð. Í stefnu kom fram að ekki lægi ljóst fyrir hvenær og af hvaða bankareikningi félagsins greiðslan hefði verið innt af hendi eða þá hvort hún hefði verið staðgreidd með reiðufé. Var talið að þótt þrotabúið hefði lagt til grundvallar að greiðslan hefði farið fram skorti með öllu lýsingu á hinni riftanlegu ráðstöfun og væri í raun alls óvíst hvort greiðslan hefði yfir höfuð verið innt af hendi. Þessi vanreifun af hálfu þrotabúsins hlyti að hafa gert V ehf. erfitt um vik að taka til varna og væri hún svo veruleg að ókleift væri að leggja efnisdóm á málið. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2015. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda um að rift verði greiðslu Graníthússins ehf. til aðaláfrýjanda samkvæmt reikningi 24. maí 2011 að fjárhæð 2.003.356 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti og að gagnáfrýjanda verði gerð sekt fyrir þarflausa málshöfðun.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 10. nóvember 2015. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 2.003.356 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. október 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta til að fá rift greiðslu frá Graníthúsinu ehf. til aðaláfrýjanda samkvæmt reikningi 24. maí 2011 að fjárhæð 2.003.356 krónur, auk þess sem hann krafðist þess að aðaláfrýjanda yrði gert að greiða sér sömu fjárhæð með tilgreindum dráttarvöxtum. Í stefnu til héraðsdóms kom fram að ekki lægi ljóst fyrir hvenær og af hvaða bankareikningi félagsins greiðslan hefði verið innt af hendi eða þá hvort hún hefði verið staðgreidd með reiðufé. Þótt gagnáfrýjandi legði til grundvallar að greiðslan hefði farið fram skorti með öllu lýsingu á hinni riftanlegu ráðstöfun og er í raun alls óvíst hvort greiðslan hafi yfir höfuð verið innt af hendi. Þessi vanreifun af hálfu gagnáfrýjanda hlaut að gera aðaláfrýjanda erfitt um vik að taka til varna og er hún svo veruleg að ókleift er að leggja efnisdóm á málið. Þá verður ekki bætt úr þessum annmarka með því að byggja á því hér fyrir dómi að fjárhæðin hafi verið greidd með millifærslum með vísan til stöðu á viðskiptamannareikningi, enda væri með því móti verulega raskað málsgrundvellinum. Samkvæmt þessu verður sjálfkrafa að vísa málinu frá héraðsdómi.

Eftir þessum úrslitum verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og greinir í dómsorði. Ekki er tilefni til að fallast á kröfu aðaláfrýjanda um að gagnáfrýjanda verði gert að sæta réttarfarssekt.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Gagnáfrýjandi, þrotabú Graníthússins ehf., greiði aðaláfrýjanda, Viðhaldi og nýsmíði ehf., samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. júní 2015

Mál þetta, sem var dómtekið 12. maí 2015, var höfðað 13. október 2014. Stefnandi er þrotabú Graníthússins ehf., Hafnarfirði. Stefndi er Viðhald og nýsmíði ehf., Kvisthaga 1, Reykjavík, með aðsetur að Helluhrauni 2, Hafnarfirði. 

Dómkröfur stefnanda eru þær að rift verði með dómi greiðslu frá hinu gjaldþrota félagi til stefnda samtals að fjárhæð 2.003.356 kr. og innheimt var samkvæmt reikningi nr. 3347, dags. 24. maí 2011. Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.003.356 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá gerir stefndi kröfu um málskostnað.

I.

                Málsatvik er þau að hinn 24. maí 2011 gaf stefndi úr reikning númer 3347, dagsettan sama dag, á hendur Graníthúsinu ehf., að fjárhæð 2.003.356 kr., vegna vinnu starfsmanna stefnda rúm fjögur ár aftur í tímann, eða vegna tímabilsins 1. desember 2006 til 31. desember 2007.

Bú Graníthússins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta, að kröfu Graníthallarinnar ehf., með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 30. janúar 2014. Innköllun til kröfuhafa var gefin út og birt í fyrra sinn í Lögbirtingablaði 14. febrúar 2014. Kröfulýsingarfresti lauk 14. apríl 2014 og fyrsti skiptafundur var haldinn 22. apríl 2014. Frestdagur við skiptin er 19. desember 2013.

Heiðar S. Steinsson átti 50% hlutafjár í hinu gjaldþrota félagi, Graníthúsinu, en stefndi, Viðhald og nýsmíði ehf., átti 50% til móts við Heiðar. Heiðar er jafnframt eigandi Graníthallarinnar ehf. Stefndi er félag í eigu Guðna Freys Sigurðssonar og Brynjars Guðmundssonar. Fram hefur komið að Heiðar lét af störfum í Graníthúsinu ehf. sumarið 2011 eftir að ágreiningur kom upp á milli hans og Guðna Freys og Brynjars.

Við skýrslutöku skiptastjóra af Guðna Frey og Brynjari hinn 24. febrúar 2014 hafði skiptastjóri ekki í höndunum afrit umrædds reiknings nr. 3347 og var því ekki kunnugt um hann. Bókhald hins gjaldþrota félags mun hafa verið fært af Félagsvörum ehf. fram til áramóta 2013/2014, er starfsemi hins gjaldþrota félags var hætt. Skiptastjóri óskaði afhendingar bókhaldsins en bókhaldið mun ekki enn hafa verið afhent skiptastjóra að öllu leyti, þrátt fyrir beiðnir skiptastjóra þar um, utan hluta bókhaldsgagna áranna 2009-2012 sem hafi fundist í gámi á vegum hins gjaldþrota félags.

Með ábyrgðarbréfi, dags. 6. október 2014, til þáverandi lögmanns stefnda, lýsti skiptastjóri yfir riftun á stefnufjárhæð málsins, 2.003.356 kr. Mál þetta var höfðað þar sem stefndi hefur ekki orðið við kröfum skiptastjóra um endurgreiðslur fjármunanna. 

II.

                Stefnandi reisir riftunarkröfu sína á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og endurgreiðslukröfu á 3. mgr. 142. gr. sömu laga. 

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi á ótilhlýðilegan hátt móttekið greiðslu hins gjaldþrota félags að fjárhæð 2.003.356 kr. Ráðstöfunin sé riftanleg samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991. Reglan sé huglæg riftunarregla.

Ekki liggi fyrir hvenær og af hvaða bankareikningi hins gjaldþrota félags greiðslan samkvæmt ofangreindum reikningi stefnda hafi verið innt af hendi eða þá hvort greiðslan hafi verið staðgreidd með reiðufé, enda gögn skiptastjóra takmörkuð. Hins vegar liggi ljóst fyrir að reikningur að fjárhæð 2.003.356 kr. hafi verið gefinn út á hendur hinu gjaldþrota félagi. Stefnandi telur að löglíkur séu til þess að stefnufjárhæðin hafi verið greidd stefnda, sér í lagi með vísan til áðurgreindra tengsla milli stefnanda og stefnda, enda liggi auk þess ekki fyrir að hinn umdeildi reikningur hafi verið bakfærður í bókhaldi aðila eða þá kröfu lýst í búið af hálfu stefnda að sömu fjárhæð og stefnufjárhæð máls þessa.

Stefnandi telur að stefndi hafi á ótilhlýðilegan hátt fengið efndir kröfu sinnar sér til hagsbóta en á kostnað annarra kröfuhafa. Ráðstöfunin til handa stefnda hafi verið til þess að rýra eignir búsins og leiða þannig til skuldaaukningar hins gjaldþrota félags.

Stefnandi byggir á því að hið gjaldþrota félag hafi verið ógjaldfært allt árið 2011 og fram til þess tíma er hið gjaldþrota félag var úrskurðað gjaldþrota 30. janúar 2014, sbr. beiðni hins gjaldþrota félags um gjaldþrotaskipti, dags. 9. nóvember 2012. Beiðnin hafi verið móttekin af Héraðsdómi Reykjaness þann sama dag, þ.e. 9. nóvember 2012. Samkvæmt beiðninni hafi rök beiðanda, hér stefnda, verið þau að samkvæmt ársreikningi 2011 lægi fyrir að hið stefnda félag hafi verið rekið með tapi árið 2011 upp á 4.743.382 kr. og að eigið fé félagsins hafi verið neikvætt um 8.375.024 kr. Þá hafi einnig verið tekið fram í beiðninni að fyrir lægi að skuldir stefnda væru töluverðar og að ljóst væri að stefndi myndi ekki geta staðið í fullum skilum við lánardrottna sína. Þá hafi verið tekið fram í beiðninni að ekki yrði séð að greiðsluörðugleikar myndu líða hjá innan skamms. Framangreind beiðni hafi verið afturkölluð 18. nóvember 2012. Þrátt fyrir að beiðni um gjaldþrotaskipti hafi ekki náð fram að ganga og síðar verið afturkölluð þá breyti það engu um þá staðreynd málsins að stefndi hafi engu að síður verið ógjaldfær allt árið 2011 og þar til úrskurður um gjaldþrotaskipti hafi verið kveðinn upp 30. janúar 2014. Félagið hafi því verið ógjaldfært á þeim tíma er innheimtar hafi verið 2.003.356 kr. Stefnandi vísar hér enn fremur til ársreiknings vegna reikningsárs 2011, ársreiknings vegna reikningsárs 2012, endurrits úr gerðarbók, dags. 19. september 2013, staðfestingar um endurupptöku dags. 15. janúar 2014, og endurrits úr gerðabók, dags. 22. janúar 2014.

Stefnandi byggir auk þess á því að stefndi hafi, á þeim tíma er hið gjaldþrota félag var krafið um 2.003.356 kr. og fjárhæðin greidd kröfuhafa, vitað eða mátt vita um ógjaldfærni hins gjaldþrota félags og þær aðstæður er hafi leitt til þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Stefndi sé nákominn stefnanda skv. 3. gr. laga nr. 21/1991. Stefnda hafi því verið vel kunnugt um allt ofangreint og þá ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar að mati skiptastjóra. 

Háttsemi stefnda sé auk þess ótilhlýðileg sé litið til þeirra atvika er reikningurinn hafi byggst á, þ.e. að innheimt hafi verið vegna vinnu allt að fjögur ár aftur í tímann frá því að reikningurinn er dagsettur. Forsvarsmenn stefnda hafi hagnýtt sér tengsl sín við bæði félögin á óforsvaranlegan hátt og hæsta máta óeðlilegan með því að ljá atbeina sinn til þess að fá greidda stefnufjárhæð þessa sem auk þess hafi verið fyrnd, sbr. lög um 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Ráðstöfunin hafi auk þess verið brot á jafnræði kröfuhafa, enda hafi staða annarra ótengdra kröfuhafa aldrei verið sambærileg stöðu stefnda sem aðila tengdum hinu gjaldþrota félagi og þá með greiðan aðgang að bókhaldi þess sem og bankareikningum.

Ofangreind innheimta hafi verið í bága við almennar venjur aðila á milli. Ekki verði séð að venja hafi verið til þess að innheimta kröfur langt aftur í tímann eða þá fyrndar kröfur yfir höfuð. Slík venja sé óvenjuleg að mati stefnanda.

Stefnandi kveðst auk þess ekki fá séð hver hafi verið ávinningur hins gjaldþrota félags af framangreindri innheimtu stefnda og þá greiðslu kröfunnar, sér í lagi með vísan til þess að um fyrnda kröfu hafi verið að ræða, líkt og áður greinir. Ekki sé hægt að líta á greiðsluna sem annað en gjöf til handa stefnda, honum einum til hagsbóta. Skýring um annað hafi enda ekki verið færð fram af hálfu stefnda. Ekkert liggi fyrir í gögnum hins gjaldþrota félags um að innheimtan hafi verið borin undir stjórn félagsins. Ekki liggi heldur fyrir staðfesting þess efnis að heimild til svo óvenjulegrar framkvæmdar hafi getað falist í venjubundnu umboði framkvæmdastjóra hins gjaldþrota félags. 

Engar skýringar hafa borist skiptastjóra á ofangreindu og þá hafi skiptastjóra einungis verið afhent umbeðin gögn að takmörkuðu leyti. 

Stefnandi telur að tilgreind innheimta hafi verið óheimil með vísan til ofangreinds lagaákvæðis. Ljóst hafi verið að á þeim tíma er innheimtan átti sér stað þá hafi verið komið til deilna á milli stjórnarmanna. Fyrirsvarsmenn stefnda hafi frá sama tíma ákveðið leynt og ljóst að hefja nýjan rekstur á sama rekstrargrundvelli og hagnýta sér að sama skapi sem mest rekstur hins gjaldþrota félags hinum nýja rekstrar­grundvelli til hagsbóta en hinu gjaldþrota félagi í óhag. Annað verði tæplega ráðið af framgangi hins gjaldþrota félags allt frá árinu 2011 og þar til það hafi verið úrskurðað gjaldþrota í janúar 2014.  

Með vísan til alls ofangreinds sé á því byggt að hið gjaldþrota félag hafi greitt stefnda fjárhæð upp á 2.003.356 kr. og sé því krafist endurgreiðslu fjárhæðarinnar af hálfu búsins. Stefnandi telur löglíkur á því að fjárhæðin hafi verið greidd stefnda, enda liggi fyrir fjöldinn allur af óútskýrðum millifærslum á milli málsaðila sem Guðni Freyr og Brynjar hafi ekki léð atbeina sinn á að skýra frekar, sbr. til að mynda með því að afhenda allt bókhald hins gjaldþrota félags. Þá liggi fyrir að stefndi hafi ekki lýst kröfu í búið að sömu fjárhæð og stefnufjárhæð máls þessa en slíkt hefði verið til þess að leiða líkur að því að krafan hafi sannanlega ekki verið greidd.  

Um lagarök hvað varðar riftunarkröfu og kröfu um endurgreiðslu er m.a. vísað til 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 142. gr. sömu laga. Þá vísar stefnandi til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001, nánar tiltekið 1. mgr. 6. gr. laganna.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

                Í greinargerð stefnda er því mótmælt að umræddur reikningur nr. 3347 sé vegna ótiltekins tíma. Í fylgiskjali reikningsins komi skýrt fram hvaða starfsmenn hafi verið um að ræða, við hvað þeir hafi unnið og hversu margir tímar og á hvaða tímabili.

                Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi í höndum öll bankayfirlit stefnanda í gegnum heimabanka og því ætti að vera afar auðvelt fyrir stefnanda að sjá á millifærslum hvort umræddur reikningur hafi verið greiddur.

                Stefndi byggir á því að engar sannanir liggi fyrir þeim staðhæfingum stefnanda að stefndi hafi með ótilhlýðilegum hætti fengið umræddan reikning greiddan þar sem ekki hafi verið færðar sönnur fyrir því að reikningur hafi yfirhöfuð verið greiddur. Í málatilbúnaði stefnanda komi fram að ekki liggi fyrir af hvaða bankareikningi eða með hvaða hætti umrædd krafa hafi verið greidd. Tilgátur séu hjá stefnanda um að umrædd krafa hafi verið greidd með peningum og virðist stefnandi grípa það úr lausu lofti.

                Stefndi segir að þegar krafan hafi verið sett fram um mitt ár 2011 hafi hún ekki verið fyrnd að öllu leyti þrátt fyrir að vinnan sem innheimt hafi verið hafi verið framkvæmd á árinu 2006-2007. Eins og stefnandi bendi sjálfur réttilega á hafi umrædd krafa verið fyrnd þegar búið hafi verið tekið til skipta og það ástæða fyrir því að henni hafi ekki verið lýst í búið. Því sé ótækt að nota það sem rök í málinu að krafan hafi verið greidd.

                Þá segir stefndi að skilyrði riftunarreglu 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti séu ströng og að stefnandi þyrfti að leggja fram einhver gögn sem styðji eða sýni fram á að krafan hafi verið greidd. Ómögulegt hljóti að teljast að rifta kröfu sem ekki hafi verið greidd á þeim grundvelli sem stefnandi haldi fram.

                Um lagarök er vísað til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og almennra reglna kröfuréttarins.

                Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

IV.

                Samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. má krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

                Þegar litið er til ársreiknings Graníthússins ehf. fyrir árið 2011, um tap á árinu, og tap sem kemur fram í ársreikningi 2012, og þess að lögð var fram beiðni fyrir Héraðsdómi Reykjaness 9. nóvember 2012 um gjaldþrotaskipti á Graníthúsinu ehf., verður fallist á með stefnanda að Graníthúsið ehf. hafi verið ógjaldfært á þeim tíma sem reikningur stefnda var gefinn út. Fyrirsvarsmenn stefnda, Guðni Freyr Sigurðsson og Brynjar Guðmundsson, vissu eða máttu vita um ógjaldfærni Graníthússins ehf., enda sátu þeir beggja vegna borðsins, en stefndi átti helmingshlut í Graníthúsinu ehf. 

Fallist er á með stefnanda að umrædd ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg þar sem reikningur stefnda var vegna vinnu mörg ár aftur í tímann en það verður að teljast óeðlilegt að gefa út reikning svo seint og langt aftur í tímann. Þá var krafa stefnda að stórum hluta fyrnd og því greitt umfram skyldu. Á þeim tíma sem stefndi gaf út reikninginn virðast hafa verið komnar upp deilur milli eigenda. Ráðstöfun þessi var stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. 

Með vísan til framangreinds og 141. gr. laga nr. 21/1991 er fallist á kröfu stefnanda um riftun, með þeim hætti sem greinir í dómsorði.

                Endurgreiðslukrafa stefnanda er reist á 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu skal sá sem hafði hag af ráðstöfun sem er rift á grundvelli 141. gr. greiða bætur eftir almennum reglum.

Í stefnu málsins kemur fram að ekki liggi fyrir hvenær og af hvaða bankareikningi hins gjaldþrota félags greiðsla samkvæmt umræddum reikningi hafi verið innt af hendi eða hvort reikningurinn hafi verið greiddur með reiðufé. Telur stefnandi löglíkur til þess að reikningurinn hafi verið greiddur en fyrir liggi fjöldinn allur af óútskýrðum millifærslum milli málsaðila. Þá vísar stefnandi til þess að reikningurinn hafi ekki verið bakfærður í bókhaldi aðila og kröfu ekki lýst í búið af hálfu stefnda að sömu fjárhæð og reikningurinn. Stefndi mótmælir því í greinargerð sinni að reikningurinn hafi verið greiddur og þar af leiðandi ekki komið stefnda að notum. Að þessu virtu og með hliðsjón af því að fyrir liggur staðfesting Jóhanns Sigurðssonar hjá Endurskoðun og reikningsskilum hf., dags. 15. desember 2014, um að reikningurinn sé samkvæmt bókhaldi og ársreikningi ógreiddur, ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um greiðslu á 2.003.356 kr.

                Eftir atvikum þykir rétt að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

                Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Rift er greiðslu samkvæmt reikningi stefnda, Viðhalds og nýsmíði ehf., nr. 3347, dagsettum 24. maí 2011, til hins gjaldþrota félags, Graníthússins ehf., að fjárhæð 2.003.356 krónur.

Stefndi er sýkn af fjárkröfu stefnanda, þrotabús Graníthússins ehf.  

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.