Hæstiréttur íslands
Mál nr. 155/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 16. apríl 2008. |
|
Nr. 155/2008. |
Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag (Grétar Haraldsson hrl.) gegn VBS fjárfestingabanka hf. (Skúli Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun máls vegna vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2008, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að „málskostnaður er varnaraðila var úthlutað í uppboðsmálum á Rafstöðvarvegi 1A, Reykjavík, fnr. 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 vegna 1. veðréttar kr. 6.029.318,00 og vegna 2. veðréttar kr. 2.369.125,00 án virðisaukaskatts verði stórlega lækkaður.“ Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvik og málsástæður eru nægilega rakin í hinum kærða úrskurði. Með vísan til þess sem þar kemur fram um málatilbúnað sóknaraðila verður að telja að verulega skorti á að hann geri með fullnægjandi hætti grein fyrir þeim atvikum, röksemdum og sjónarmiðum, sem leiða ættu til þess að krafa hans yrði tekin til greina og þá með hvaða hætti. Er krafan því vanreifuð og ódómtæk og verður þegar af þeirri ástæðu að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, greiði varnaraðila, VBS fjárfestingabanka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2008.
Mál þetta var þingfest 2. nóvember 2007 og tekið til úrskurðar 19. febrúar sl. um framkomna frávísunarkröfu varnaraðila.
Í málinu krefst sóknaraðili þess að málskostnaður er varnaraðila var úthlutað í uppboðsmálum á Rafstöðvarvegi 1A, Reykjavík, fnr. 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 vegna 1. veðréttar kr. 6.029.318.00 og vegna 2. veðréttar kr. 2.369.125.00 án virðisaukaskatts verði stórlega lækkaður. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi.
Sóknaraðili krefst þess að frávísunarkröfu varnaraðila verði hafnað.
I
Sóknaraðili lýsir málsatvikum þannig að varnaraðili hafi veitt fyrrum eigendum uppboðsandlaganna lán út á 1. veðrétt að upphæð kr. 160.000.000 samkvæmt 32 veðskuldabréfum útgefnum 01.03.2006 til handhafa hverju að upphæð kr. 5.000.000 og út á 2. veðrétt að upphæð kr. 50.000.000 samkvæmt 10 veðskuldabréfum útgefnum 05.10.2005 hverju að upphæð kr. 5.000.000. Ofangreind bréf hafi lent í vanskilum og fól varnaraðili Skúla Bjarnasyni hrl. að innheimta bréfin. Innheimtuaðgerðir hans leiddu til þess að ofangreindir 4 eignarhlutar voru seldir á framhaldsuppboði 18. apríl 2007 og uppboðskaupandi varð varnaraðili, eignarhluti 225-8526 á kr. 44.800.000, eignarhluti 225-8527 á kr. 44.800.000, eignarhluti 225-8528 kr. 90.000.000 og eignarhluti 225-8524 kr. 44.800.000. Lögmaður varnaraðila lýsti kröfu í ofangreind uppboðsandvirði vegna 1. veðréttar að upphæð kr. 191.989.893.00 og fékk greitt upp í þá kröfu kr. 191.986.757.00 og vegna 2. veðréttar að upphæð kr. 65.434.135.00 og fékk greitt upp í þá kröfu kr. 29.869.109.00. Sóknaraðili mótmælti fjárhæð málskostnaðar, en þeim mótmælum var hafnað af fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík þann 26. september 2007 og í réttarhaldi þann dag lýsti umboðsmaður gerðarþola því yfir að hann muni bera þá ákvörðun sýslumanns undir héraðsdóm.
Í kröfulýsingu lögmanns varnaraðila vegna 1. veðréttar, þar sem krafist er málskostnaðar að upphæð kr. 6.029.318.00 (án virðisaukaskatts) er einnig gerð krafa til greiðslu fyrir allt, sem unnið hafði verið vegna málsins (gagnaöflunargjald, birting greiðsluáskorunar, uppboðsbeiðni, kostnaður vegna uppboðs og kröfulýsing). Í kröfulýsingu lögmanns varnaraðila vegna 2. veðréttar, þar sem krafist er málskostnaðar að upphæð kr. 2.369.125.00 (án virðisaukaskatts) er einnig gerð krafa til greiðslu fyrir allt, sem unnið hafði verið vegna málsins (gagnaöflunargjald, birting greiðsluáskorunar, uppboðsbeiðni, kostnaður vegna uppboðs og kröfulýsing).
II
Sóknaraðili byggir á að krafa lögmanns varnaraðila sé bersýnilega ósanngjörn. Í þessu sambandi sé vísað til 24. gr. laga nr. 77/1998. Skaðabætur til handa varnaraðila vegna kostnaðar hans við innheimtuaðgerðir verði að miðast við það að gætt hafi verið ákvæða 24. gr. laga 77/1978 í viðskiptum varnaraðila og lögmanns hans. Þá sé bent á að dómstólar hafi almennt talið sig hafa heimild til að ákvarða fjárhæð málskostnaðar að sínu mati og sé þess krafist að það verði gert í þessu tilfelli.
III
Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína á því að í máli þessu séu fjórar sjálfstæðar nauðungarsölur kærðar, án heimildar, í einu og sama málinu. Þá er á því byggt að málið sé verulega vanreifað af hálfu sóknaraðila.
Nauðungarsölur þær er mál þetta er risið af fóru allar fram í eigum sóknaraðila til fullnustu peningakrafna varnaraðila. Kröfur sóknaraðila í máli þessu eru því samkynja og tilheyra allar sóknaraðila og beinast að sama aðila. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, að sækja þær í einu og sama málinu.
Dómkrafa sóknaraðila er að málskostnaður í uppboðsmálunum kr. 6.029.318 og vegna 2. veðréttar kr. 2.369.125, verði stórlega lækkaðar. Fjárhæð dómkröfu sóknaraðila er þannig ekki tiltekin í krónum. Fullnægir kröfugerð hans ekki að þessu leyti meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð og er þannig andstæð d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að krafa lögmanns varnaraðila sé bersýnilega ósanngjörn. Þá vísar hann til 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en þar er kveðið á um að lögmanni sé rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín.
Sóknaraðili gerir enga grein fyrir hvaða atvikum hann byggir þá staðhæfingu sína að endurgjaldið sé óhóflegt né lýsir því með öðrum hætti. Er þessi málatilbúnaður sóknaraðila í andstöðu við e. lið 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991.
Með vísan til þessa eru slíkir annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila að taka verður til greina kröfu varnaraðila og vísa málinu frá dómi.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Úrskurðinn kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.