Hæstiréttur íslands

Mál nr. 707/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Greiðsla
  • Gjaldmiðlar
  • Gengi


                                     

Mánudaginn 10. nóvember 2014.

Nr. 707/2014.

Kaupþing hf.

(Þröstur Ríkharðsson hrl.)

gegn

Aresbank S.A.

(Baldvin Björn Haraldsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Greiðsla. Gjaldmiðlar. Gengi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa A um að viðurkennt yrði að K hf. hefði borið við framkvæmd greiðslu þriggja krafna A 16. ágúst 2013 að styðjast við sölugengi Seðlabanka Íslands fyrir evru eins og það var birt þann dag við umreikning greiðslunnar yfir í þann gjaldmiðil. Deildu aðilar um það hvort K hf. hefði við framkvæmd greiðslunnar átt að miða við skráð gengi evru 22. apríl 2009, er K hf. var tekinn til slita, eða 16. ágúst 2013, er greiðslan var innt af hendi inn á tilgreindan fjárvörslureikning, en A hafði undirritað sérstakt eyðublað K hf. þess efnis að hann óskaði eftir að fá greiðsluna innta af hendi í evrum miðað við skráð gengi evru 22. apríl 2009. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 3. mgr. 99. laga nr. 21/1991 skyldu kröfur á hendur þrotabúi í erlendum gjaldmiðlum færðar yfir í íslenskar krónur eftir skráðu sölugengi á þeim degi, sem úrskurður hefði gengið um gjaldþrotaskipti, enda væri ekki um að ræða kröfur, sem fullnægt yrði í réttindaröð við skiptin samkvæmt 109.-111. gr. sömu laga. Eftir þessari reglu breyttust kröfurnar, sem ákvæðið tæki til, í kröfur í íslenskum krónum í eitt skipti fyrir öll og í sérhverju atriði, sem gjaldþrotaskiptin vörðuðu. Því yrði úthlutun upp í kröfur við lok gjaldþrotaskipta  ákveðin eftir fjárhæð þeirra í krónum og greiðsla innt af hendi í þeim gjaldmiðli. Þó væri skiptastjóra heimilt í tilgreindum tilvikum, umfram skyldu, að inna greiðslu af hendi í erlendum gjaldmiðli. Var talið að engin lagastoð væri fyrir því að reikna út fjárhæð greiðslna til lánardrottna þrotabús, sem inntar yrðu af hendi í erlendum gjaldmiðlum í slíkum tilvikum, eftir skráðu gengi á úrskurðardegi gjaldþrotaskipta. Þessar reglur giltu um slit K hf. Hefði K hf. því borið að ákveða fjárhæðina sem lögð hefði verið inn á fjárvörslureikning 16. ágúst 2013 á þann hátt að umreikna fjárhæð þeirra úr íslenskum krónum yfir í evrur eftir gengi, sem skráð hefði verið þann dag. Þá var talið að K hf. gæti ekki haldið upp á A að hann hefði með bindandi hætti samþykkt þá skipan mála, sem K hf. gerði ráð fyrir og andstæð hefði verið réttri skýringu laga, með undirritun yfirlýsingar um ósk um útborgun krafna sinna í evrum. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að viðurkennt yrði að sóknaraðila hefði borið við framkvæmd greiðslu nánar tilgreindra krafna varnaraðila 16. ágúst 2013 að styðjast við sölugengi Seðlabanka Íslands fyrir evru eins og það var birt þann dag við umreikning greiðslunnar yfir í þann gjaldmiðil. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði neytti Fjármálaeftirlitið heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, sem þá hét Kaupþing banki hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Slit á sóknaraðila hófust 22. apríl 2009 við gildistöku laga nr. 44/2009, sem breyttu fyrstnefndu lögunum. Við slitin lýsti varnaraðili þremur kröfum að fjárhæð samtals 55.007.807,63 evrur og krafðist þess að þær fengju stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Í samræmi við 3. mgr. 99. gr. síðastnefndra laga, sbr. 1. mgr. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, færði sóknaraðili fjárhæð krafna varnaraðila til íslenskra króna eftir sölugengi, sem Seðlabanki Íslands hafði skráð 22. apríl 2009, og munu þær þannig alls hafa numið 9.308.971.348 krónum. Ágreiningur reis um viðurkenningu þessara krafna, bæði um fjárhæð þeirra og stöðu í réttindaröð, en með því að ekki tókst að jafna ágreininginn var honum beint til héraðsdóms, þar sem þrjú mál voru þingfest 26. janúar 2011 til að fá leyst úr honum.

Á kröfuhafafundi 5. júní 2013 kynnti sóknaraðili áform um að neyta heimildar samkvæmt 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 til að greiða að fullu viðurkenndar kröfur á hendur sér, sem nytu stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Gerði sóknaraðili þar ráð fyrir því að lánardrottnar fengju greitt í íslenskum krónum, en gætu þó valið um að fá greiðslu í evrum. Þeir sem veldu þann kost fengju greiðslu, sem reiknuð yrði eftir skráðu gengi 22. apríl 2009, en þó með þeim fyrirvara að reyndist gengi evru hærra á greiðsludegi yrði útborgun reiknuð samkvæmt því. Ágreiningur stóð þá enn óleystur um kröfur varnaraðila, en hann lýsti allt að einu þeirri afstöðu að hann kysi að fá greiðslu í evrum. Í því skyni undirritaði hann yfirlýsingu á eyðublaði, sem sóknaraðili lagði til, og er efni þess ítarlega lýst í hinum kærða úrskurði. Á þessum grunni kveðst sóknaraðili hafa 16. ágúst 2013 greitt 55.007.808 evrur inn á sérstakan fjárvörslureikning fyrir varnaraðila í samræmi við ákvæði 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en sú fjárhæð hafi jafngilt heildarfjárhæð lýstra krafna varnaraðila, áðurgreindum 9.308.971.348 krónum, samkvæmt skráðu gengi 22. apríl 2009.

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila ákvað hann 23. september 2013, að gengnum dómum Hæstaréttar 12. sama mánaðar í málum nr. 438/2013 og 454/2013, að viðurkenna kröfur varnaraðila með fjárhæðinni 8.781.677.575 krónur og með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Á þeim grunni hafi sóknaraðili 16. október 2013 greitt varnaraðila út af fjárvörslureikningnum 51.891.967 evrur, sem hafi svarað til síðastgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum miðað við skráð gengi 22. apríl 2009.

Í dómi Hæstaréttar 24. september 2013 í máli nr. 553/2013, sem varðaði slit á öðru fyrrverandi fjármálafyrirtæki en sóknaraðila, var slegið föstu að því fyrirtæki hafi borið við útborgun til lánardrottna, sem fóru með kröfur sem upphaflega voru í erlendum gjaldmiðlum, að miða greiðslur, sem inntar voru af hendi í erlendri mynt, við gengi hennar á greiðsludegi. Var því hafnað þar að styðjast ætti við skráð gengi 22. apríl 2009, svo sem það fjármálafyrirtæki hafði talið rétt að gera. Á grundvelli þess dóms krafðist varnaraðili með bréfi 7. nóvember 2013 að sóknaraðili leiðrétti fjárhæð fyrrnefndrar innborgunar á fjárvörslureikning 16. ágúst sama ár með því að leggja þar inn til viðbótar 3.064.377,57 evrur, en sú fjárhæð hafi svarað til þess, sem skorti á að jafngildi 9.308.971.348 króna eftir skráðu gengi 16. ágúst 2013 hefði verið lagt á reikninginn. Þessari kröfu hafnaði sóknaraðili, en með því að ekki tókst að jafna ágreining aðilanna um þetta atriði var honum beint til héraðsdóms 11. nóvember 2013, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 31. janúar 2014.

Undir rekstri þessa máls gengu dómar Hæstaréttar 12. maí 2014 í málunum milli aðilanna, sem þingfest voru í héraði 26. janúar 2011, og voru það mál nr. 276, 277 og 278/2014. Í þeim dómum voru kröfur varnaraðila við slit sóknaraðila viðurkenndar með heildarfjárhæðinni 9.287.911.011 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Með þessu fékk varnaraðili kröfur sínar viðurkenndar með fjárhæð, sem var 506.233.436 krónum hærri en sóknaraðili hafði áður lagt til grundvallar. Því til samræmis kveðst sóknaraðili hafa tekið jafngildi þeirrar fjárhæðar samkvæmt skráðu gengi 22. apríl 2009, 2.991.393,32 evrur, af fjárvörslureikningnum og greitt varnaraðila 13. október 2014. Með þessu taldi sóknaraðili sig endanlega hafa gert upp viðurkenndar kröfur varnaraðila með greiðslum að fjárhæð samtals 54.883.360,32 evrur, sem hafi svarað til 9.287.911.011 króna eftir skráðu gengi 22. apríl 2009. Varnaraðili byggir á hinn bóginn á því að greiðslur til sín eigi að réttu lagi að nema jafngildi 9.287.911.011 króna í evrum eftir skráðu gengi 16. ágúst 2013, þegar sóknaraðili lagði fé í þeim gjaldmiðli inn á fjárvörslureikning til að mæta kröfum varnaraðila.

II

Samkvæmt fyrrnefndri 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 gildir sú regla við gjaldþrotaskipti að kröfur á hendur þrotabúi í erlendum gjaldmiðlum skal færa yfir í íslenskar krónur eftir skráðu sölugengi á þeim degi, sem úrskurður gekk um gjaldþrotaskipti, enda sé ekki um að ræða kröfur, sem fullnægt verður í réttindaröð við skiptin samkvæmt 109., 110. eða 111. gr. sömu laga. Eftir þessari reglu breytast kröfurnar, sem 3. mgr. 99. gr. laganna tekur til, í kröfur í íslenskum krónum í eitt skipti fyrir öll og í sérhverju atriði, sem gjaldþrotaskiptin varða. Því til samræmis verður úthlutun upp í kröfur við lok gjaldþrotaskipta ákveðin eftir fjárhæð þeirra í krónum og greiðsla innt af hendi í þeim gjaldmiðli. Eigi þrotabú á hinn bóginn enn við skiptalok fé í erlendum gjaldmiðli standa ákvæði laga nr. 21/1991 því ekki í vegi, þótt til þess sé heldur engin skylda, að skiptastjóri inni af hendi til lánardrottna, sem fara með kröfur sem upphaflega voru í erlendri mynt, greiðslu í þeim gjaldmiðli eða öðrum til úthlutunar við skiptalok. Að stofni til yrði slík úthlutun sem endranær ákveðin í krónum og þá með því að eign þrotabús í erlendum gjaldmiðli sé umreiknuð til króna eftir skráðu gengi á þeim tíma og úthlutunin til hlutaðeigandi lánardrottna á sama veg. Jafnframt getur skiptastjóri í þrotabúi, sem eingöngu á eignir í innlendum gjaldmiðli, greitt götur erlendra lánardrottna við skiptalok með því umfram skyldu að kaupa á markaði fjárhæð í erlendum gjaldmiðli fyrir úthlutun til þeirra, sem þó er ákveðin í krónum. Slík kaup yrðu þá eðli máls samkvæmt gerð á grundvelli gengis þess gjaldmiðils, sem væri við lýði á greiðsludegi. Að þessu virtu er engin lagastoð fyrir því að reikna út fjárhæð greiðslna til lánardrottna þrotabús, sem inntar yrðu af hendi í erlendum gjaldmiðlum af annarri hvorri framangreindra ástæðna, eftir skráðu gengi á úrskurðardegi gjaldþrotaskipta. Þessar reglur gilda að breyttu breytanda við slit sóknaraðila samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002. Úr því að sóknaraðili hefur kosið að veita erlendum lánardrottnum sínum það hagræði í þeim tilvikum, sem mál þetta varðar, að inna af hendi greiðslur á kröfum þeirra í erlendum gjaldmiðli verða þær greiðslur óumflýjanlega að taka mið af þeirri staðreynd að kröfur þessara lánardrottna eru í íslenskum krónum og verður því til samræmis að miða fjárhæð greiðslnanna við gengi hlutaðeigandi gjaldmiðils við þann dag, sem þær fara fram. Sóknaraðila hefði samkvæmt þessu borið að ákveða fjárhæðina, sem lögð var á fjárvörslureikning 16. ágúst 2013 til að mæta hugsanlegum kröfum varnaraðila, á þann hátt að umreikna fjárhæð þeirra úr íslenskum krónum yfir í evrur eftir gengi, sem skráð var þann dag.

Samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 gilda ákvæði um skiptastjóra í lögum nr. 21/1991 að meginreglu um slitastjórn, sem sett er yfir fjármálafyrirtæki. Á þeim grunni, sbr. og 3. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991, ber slitastjórn í lögbundnum verkum sínum að fara að réttum lögum. Samkvæmt því, sem að framan greinir, var engin lagastoð fyrir þeirri ákvörðun slitastjórnar sóknaraðila að miða greiðslu í evrum inn á fjárvörslureikning í þágu varnaraðila við skráð gengi 22. apríl 2009, heldur hefði henni borið að beita í því efni gengi á greiðsludegi. Sóknaraðili getur ekki að þessu virtu haldið upp á varnaraðila að hann hafi með bindandi hætti samþykkt þá skipan mála, sem sóknaraðili gerði ráð fyrir og andstæð var réttri skýringu laga, með undirritun áðurnefndrar yfirlýsingar um ósk um útborgun krafna sinna í evrum. Að þessu öllu gættu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kaupþing hf., greiði varnaraðila, Aresbank S.A., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2014.

Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 11. nóvember 2013, sem barst héraðsdómi þann 18. sama mánaðar. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar þriðjudaginn 9. september sl.

Sóknaraðili er Aresbank A.S., P° de Castellana, 257, Madrid, Spáni, en varnaraðili er Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst viðurkenningar á að varnaraðila hafi verið óheimilt, við framkvæmd greiðslu á kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila með tilvísunarnúmerin 20100111-0008, 20091227-0820 og 20100111-009 í kröfuskrá varnaraðila, hinn 16. ágúst 2013, að notast við opinbert sölugengi Seðlabanka Íslands þann 22. apríl 2009 sem gengisviðmiðun við útreikning á virði greiðslunnar í evrum og að viðurkennt verði að varnaraðila hafi borið, við framkvæmd greiðslunnar til sóknaraðila hinn 16. ágúst 2013 að notast við opinbert sölugengi Seðlabanka Íslands fyrir evru eins og það gengi hafi verið birt þann 16. ágúst 2013, við umreikning kröfunnar yfir í evrur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

I

Varnaraðili er fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 9. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd.

Varnaraðila var 24. nóvember 2008 veitt heimild til greiðslustöðvunar. Með lögum nr. 44/2009, sem breyttu nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var varnaraðili tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 25. maí sama ár slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur varnaraðila. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 30. júní 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember sama ár. Í samræmi við ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002 eins og greininni var breytt með lögum nr. 44/2009 fer að meginstefnu um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki sem er til slitameðferðar eftir ákvæðum laga nr. 21/1991.

Ágreiningur í máli þessu varðar greiðslu varnaraðila á þremur kröfum sem sóknaraðili lýsti við slitameðferð varnaraðila og hafa númerin 20100111-0008, 20091227-0820 og 20100111-009 í kröfuskrá: Kröfurnar voru umþrættar en ágreiningur aðila um fjárhæð þeirra var endanlega leiddur til lykta með dómum Hæstaréttar 12. maí 2014 í málum nr. 276/2014, 277/2014 og 278/2014 en í september 2013 hafði verið leyst úr ágreiningi aðila um stöðu krafnanna í skuldaröð. Liggur því fyrir að umræddar kröfur eru samtals að fjárhæð 9.287.911.011 krónur og njóta stöðu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferðina. Umræddir dómar féllu eftir að aðilar lögðu fram greinargerðir sínar í þessu máli en áður en aðalmeðferð fór fram.

Á kröfuhafafundi við slitameðferð varnaraðila 5. júní 2013 voru kynnt áform varnaraðila um að neyta heimildar í 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki til að greiða forgangskröfuhöfum kröfur sínar að fullu. Var farið yfir það á fundinum að allar kröfur hefðu í samræmi við ákvæði 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/19991 um gjaldþrotaskipti o.fl. verið færðar yfir í íslenskar krónur miðað við gengi 22. apríl 2009. Þá var frá því greint að kröfur yrðu greiddar í íslenskum krónum nema kröfuhafar kysu að fá greitt í evrum. Var þessi valkostur kynntur þannig að yrði hann fyrir valinu myndi umreikningur kröfu í íslenskum krónum yfir í evrur miðast við sölugengi evru á úrskurðardegi 22. apríl 2009. Þó var gerður fyrirvari um að ef gengi evru á svokölluðum viðmiðunardegi væri hærra en gengið á úrskurðardegi yrði miðað við það. Lagt var fyrir kröfuhafa að fylla út svokallað rétthafabréf þar sem m.a. kæmi fram hvort þeir vildu nýta sér að fá greidda kröfu sína í evrum. Í bréfinu kom fram að með því að velja að fá greiðslu á forgangskröfu sinni í evrum samþykki kröfuhafi að greiðslurnar á forgangskröfum sem hann kunni að eiga rétt á verði reiknaðar yfir í evrur á sölugengi Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009 eða eftir atvikum á viðmiðunardegi gengis og viðurkenni og lýsi yfir að slík greiðsla verði endanlegt uppgjör á öllum greiðslum forgangskrafna sem viðkomandi kunni að eiga rétt á frá varnaraðila. Þá kemur og fram að framangreint eigi einnig við um lýstar forgangskröfur sem enn kunni að vera ágreiningur um, bæði að því er varði fjárhæð og stöðu í skuldaröð. Í bréfinu er einnig gerð grein fyrir banni við því að erlendir aðilar geti móttekið íslenskar krónur, vegna gjaldeyrishafta sem séu á Íslandi, og því verði kröfur slíkra aðila sem greiddar verði út í íslenskum krónum lagðar inn á bankareikning í nafni varnaraðila. Einnig er tekið fram að ekkert liggi fyrir um hversu lengi gjaldeyrishöft verði fyrir hendi og því óvíst hvenær kröfuhafar geti fengið umráð krafna sinna í íslenskum krónum. Á hinn bóginn er einnig gerð grein fyrir því að reglur um gjaldeyrishöft standi því ekki í vegi að kröfuhafar geti fengið yfirráð greiðslna í evrum.

Sóknaraðili sendi inn ofangreint rétthafabréf í júlímánuði 2013 og valdi að fá greitt í evrum. Í samræmi við framangreinda ráðagerð greiddi varnaraðili forgangskröfur 16. ágúst 2013. Þann dag var enn ágreiningur um kröfur sóknaraðila og því lagði varnaraðili inn á geymslureikning í nafni sóknaraðila 55.007.808 evrur.             Hæstiréttur kvað upp dóm 24. september 2013 í máli nr. 553/2012 sem varðaði deilur um gengisviðmið við greiðslu forgangskrafna við slitameðferð LBI hf. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að ef greiða ætti kröfuhöfum í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu skyldi miða verðmæti viðkomandi gjaldmiðils við gengisskráningu hans á greiðsludegi. Var þannig hafnað sjónarmiðum slitastjórnar LBI hf. að miða ætti við gengi erlends gjaldmiðils á úrskurðardegi 22. apríl 2009.

Í kjölfar umrædds dóms, eða 7. nóvember 2013, sendi sóknaraðili kröfubréf til varnaraðila og krafðist viðbótargreiðslu í samræmi við þær forsendur dómsins að miða gengi greiðslu í erlendum gjaldeyri við greiðsludag en ekki 22. apríl 2009. Taldi hann að með vísan til dómsins hefði varnaraðila borið, við greiðslu til hans, að miða við gengi evru 16. ágúst 2013 sem verið hafi 160,3 íslenskar krónur en ekki 169,23 sem verið hafi gengi evru gagnvart íslenskri krónu 22. apríl 2009. Byggði hann af þeim ástæðum á því að varnaraðila hefði að réttu borið að leggja 58.072.185 evrur inn á geymslureikning en ekki 55.007.808 eins og gert var.

Slitastjórn hafnaði kröfunni og vísaði m.a. til þess að aðferð varnaraðila hefði verið önnur en viðhöfð hefði verið við slitameðferð LBI hf. og umræddur dómur hefði því ekki fordæmisgildi. Haldinn var fundur til að freista þess að jafna ágreining aðila en án árangurs og var málinu þá vísað til úrlausnar dómsins. Kemur fram í bréfi slitastjórnar til dómsins að ágreiningur sá sem vísað er til dómsins sé afmarkaður við hvort slitastjórn varnaraðila hafi vangreitt umræddar þrjár kröfur sóknaraðila þegar greiddar hafi verið 55.007.808 evrur inn á fjárvörslureikning 16. ágúst 2013 vegna umþrættra forgangskrafna sóknaraðila.

II

Sóknaraðili kveðst byggja á því að varnaraðili hafi ekki efnt skuldbindingu sína gagnvart honum að fullu þrátt fyrir skyldu þess efnis og yfirlýsta fyrirætlan sína þar um og sóknaraðili eigi þannig rétt til viðbótargreiðslu úr hendi varnaraðila. Krafa sóknaraðila hafi verið í íslenskum krónum og af þeim sökum verði verðmæti þeirrar greiðslu sem sóknaraðili fái, í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 553/2013, að vera jafnhátt kröfu sóknaraðila til þess að um fullar efndir geti verið að ræða. Þannig byggi sóknaraðili kröfu sína á því að (i) kröfur hans séu í íslenskum krónum og kröfurnar hafi því ekki verið greiddar að fullu þegar forgangskröfur voru greiddar hinn 16. ágúst 2013, (ii) ekkert í umsókn sóknaraðila og staðfestingu á „evru-valkosti“ gefi til kynna að sóknaraðili hafi gefið eftir hluta af kröfu sinni, og (iii) að kröfuréttarleg sjónarmið um fullnaðarkvittun valdi því ekki að víkja beri frá meginreglu kröfuréttar um rétt til viðbótargreiðslu.

Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um kröfur á hendur fjármálafyrirtæki. Í 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 segi að kröfur í erlendum gjaldmiðli skuli færðar til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi á þeim degi sem úrskurður hafi gengið um að búið væri tekið gjaldþrotaskipta. Í tilviki varnaraðila hafi þetta verið gert og séu kröfur sóknaraðila tilgreindar í íslenskum krónum í kröfuskrá varnaraðila. Þannig sé skuld varnaraðila gagnvart sóknaraðila í íslenskum krónum og fari efndir á þeirri skuldbindingu fram í íslenskum krónum, óháð því í hvaða mynt sú greiðsla sé afhent, sbr. forsendur dóms Hæstaréttar í máli nr. 553/2013.

Varnaraðili sé í slitameðferð samkvæmt almennum reglum um gjaldþrotaskipti og fari um greiðslur á kröfum samkvæmt þeim fyrirfram ákveðnu reglum. Í tilviki varnaraðila sé sérstaklega heimilt samkvæmt 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 að efna forgangskröfur í heild eða að hluta með greiðslu í erlendri mynt. Sé sú regla túlkuð í samræmi við framangreindar reglur laga nr. 21/1991 og meginreglur kröfuréttar beri að reikna virði greiðslna í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu miðað við virði hennar á þeim degi sem greiðslan sé framkvæmd. Annars sé ekki um réttar efndir á kröfunni að ræða.

Reglur laga nr. 21/1991 séu ófrávíkjanlegar og geti slitstjórn varnaraðila því ekki ákveðið hvernig virði greiðslna sé ákveðið eftir geðþótta nema henni sé sérstaklega falin slík heimild í lögum. Af þeim sökum sé ekki hægt að efna kröfur og reikna út virði greiðslugjaldmiðla í íslenskum krónum með þeim hætti sem slitastjórn varnaraðila hafi gert nema það sé heimilt samkvæmt lögum. Þrátt fyrir að það hafi verið lagaleg óvissa um það hvernig bæri að reikna út virði hlutagreiðslna í þeim kringumstæðum sem hér um ræði þá sé ekki um slíka óvissu að ræða lengur þar sem Hæstiréttur Íslands hafi kveðið á um með ákaflega skýrum hætti hvernig beri að standa að slíkum útreikningum með framangreindum dómi sínum í máli nr. 553/2013. Þegar af þeirri ástæðu beri varnaraðila að leiðrétta þær greiðslur sem inntar hafi verið af hendi þannig að greidd verði sú fjárhæð sem tilgreind sé í kröfuskrá.

Ein af meginreglum kröfuréttar sé að kröfuhafi, sem fengið hafi minna greitt en hann hafi átt rétt til í lögskiptum aðila, eigi viðbótarkröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé. Eina heimild slitastjórnar til þess að borga minna en samþykkta kröfu - standi á annað borð til að efna kröfur samkvæmt tilteknum kröfuflokki að fullu - sé ef kröfuhafi gefi með skýrum hætti eftir hluta af kröfu sinni, sbr. 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Samkvæmt þeirri grein skuli gæta þess að allir kröfuhafar sem fari með viðurkenndar kröfur í sömu stöðu í réttindaröð fái greiðslu á sama tíma nema kröfuhafi bjóðist til að gefa eftir kröfu sína gegn greiðslu hennar að hluta, sem víst megi telja að sé lægri að tiltölu en aðrir jafnstæðir kröfuhafar muni fá á síðari stigum.

Ef það ætti að halda því fram að sóknaraðili hafi gefið eftir hluta af kröfum sínum við greiðslu í samræmi við 6. mgr. 102. gr. laga nr. 21/1991 hefði sóknaraðili þurft að bjóðast til þess með skýrum hætti. Þannig sé ekki nóg að í umsókninni hafi verið tekið fram að um fullar efndir væri að ræða til þess að í því fælist afsal á hugsanlegum viðbótarkröfum sem síðar ættu eftir að koma í ljós. Til þess að svo hefði verið hefði þurft að koma fram jákvæð yfirlýsing um að með því að leggja inn umsóknina væri viðkomandi kröfuhafi að afsala sér rétti til frekari krafna ef þær kynnu að koma í ljós síðar meir.

Þegar varnaraðili hafi tilkynnt 5. júní 2013 að til stæði að efna forgangskröfur að fullu hafi það verið sett upp þannig að kröfuhöfum stæði til boða að velja á milli þess að fá kröfur sínar greiddar í íslenskum krónum eða í evrum. Í sömu tilkynningu hafi komið fram að ef kröfuhafar veldu að fá greitt í evrum yrði virði þeirra í íslenskum krónum ákvarðað í samræmi við gengi evru gagnvart íslenskri krónu á úrskurðardegi. Kröfuhöfum hafi jafnframt verið tilkynnt að þeir yrðu að greina frá vali sínu fyrir 5. ágúst 2013 annars yrði litið svo á að þeir hygðust fá greitt í íslenskum krónum. Þetta fyrirkomulag hafi verið í samræmi við samskonar ákvarðanir bæði Glitnis hf. og LBI hf. Samhliða þessu hafi varnaraðili gert forgangskröfuhöfum aðgengilegt þar til gert eyðublað þar sem þeir hafi getað komið á framfæri greiðsluupplýsingum og vali sínu um þann gjaldmiðil sem þeir kysu að fá greitt í. Hvergi hafi komið fram á því eyðublaði að með því að velja að fá greitt í evrum væru kröfuhafar að afsala sér frekari greiðslum eða kröfum ef síðar kæmi í ljós að þeir ættu rétt á frekari greiðslum. Einungis hafi verið tekið fram að eftirfarandi greiðsla væri full greiðsla á kröfum kröfuhafa.

Þannig sé að mati sóknaraðila ljóst að í samræmi við meginreglur kröfuréttar um fullar efndir á kröfum eigi hann rétt til viðbótargreiðslu þannig að krafa hans, eins og hún er tilgreind í kröfuskrá varnaraðila, teljist að fullu efnd. Hvergi í samskiptum aðila sé gefið í skyn að sóknaraðili afsali sér frekari greiðslum komi síðar í ljós að hann eigi frekari kröfur á hendur varnaraðila og því beri varnaraðila að greiða eftirstöðvar kröfunnar.

Í dómaframkvæmd hafi þeirri meginreglu verið slegið fastri að kröfuhafi eigi tilkall til viðbótargreiðslu komi síðar í ljós að greiðsla á kröfu hans hafi í raun ekki falið í sér fullar efndir á kröfu hans. Undantekning á þeirri reglu sé ef skuldari hafi fengið fullnaðarkvittun og gildi sú regla, eins og henni hafi verið beitt af Hæstarétti Íslands, í undantekningartilvikum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013.

Þau atriði sem litið hafi verið til við mat á því hvort unnt sé að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu séu í fyrsta lagi hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans hafi verið ófullnægjandi þegar hann hafi innt hana af hendi. Í öðru lagi hafi verið litið til þess hvort sá aðstöðumunur hafi verið á aðilum að það réttlæti að hafna viðbótarkröfu og í framhaldi af því hvorum þeirra standi nær að bera áhættu af ástæðu þess að vangreitt hafi verið. Samkvæmt framangreindum dómi Hæstaréttar skipti máli við þetta mat „hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök komu fram þar til að krafa var höfð uppi, hvorum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssamband sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu.“ Loks komi fram að þessi atriði séu til viðmiðunar og að ekkert eitt þeirra ráði úrslitum um hvort vikið verði frá meginreglunni um rétt til viðbótargreiðslu og það verði að fara fram „heildarmat á aðstæðum öllum, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari eru rökin til að víkja frá meginreglunni.“ Í málinu hafi Hæstiréttur fallist á að kröfuhafinn, Arion Banki hf., ætti rétt á því að fá greidda frá Högum hf. viðbótarkröfu sína um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu fyrir það tímabil sem hinn undirliggjandi lánasamningur hafi verið ólöglegur sökum gengistryggingar, þrátt fyrir að til staðar væri fullnaðarkvittun fyrir greiðslum Haga hf. á hinni undirliggjandi kröfu. Þannig hafi verið lagt til grundvallar að samningsaðilar hafi verið jafningjar, viðbótarkrafan myndi ekki valda röskun á fjárhagslegri stöðu skuldarans sem jafna mætti til óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um viðbótargreiðslu og að ekki hafi liðið langur tími frá því að krafa um viðbótagreiðslu hafi orðið ljós og þar til krafist hafi verið greiðslu á henni.

Að mati sóknaraðila sé ljóst að engin skilyrði eða sjónarmið um fullnaðarkvittanir sem að framan eru rakin eigi við í tilviki aðila. Það halli alls ekki á skuldarann - Kaupþing hf. - í kröfuréttarsambandinu þar sem hann sé sá aðili sem sjái um framkvæmd slitameðferðarinnar og taki einhliða ákvarðanir um greiðslur og önnur málefni varðandi kröfur kröfuhafa. Þannig sé túlkun og framkvæmd þeirra lagaákvæða sem gildi um slitameðferð varnaraðila, þar á meðal um greiðslur á kröfum, alfarið á hendi varnaraðila. Einu úrræði kröfuhafa til að hafa áhrif á slíkt sé á grundvelli gildandi málsmeðferðarreglna og fá þannig endurskoðun á ákvörðun varnaraðila fyrir dómstólum. Enn fremur sé ljóst, að mati sóknaraðila, að greiðsla viðbótarkröfunnar muni ekki hafa nein sérstök og íþyngjandi fjárhagsleg áhrif á varnaraðila önnur en þau að frekari greiðslur fari til kröfuhafa sem eigi kröfur í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Hugsanlega beri eigendur krafna með kröfur í réttindaröð samkvæmt 113. eða 114. gr. laga nr. 21/1991 minna úr bítum en ella, en þó það sama og þeir hafi getað vænst þar sem viðbótargreiðslan sé í samræmi við gildandi reglur. Þess megi geta að bæði Glitnir hf. og LBI hf. hafi greitt forgangskröfur með því að reikna út virði hverrar greiðslu með gengi þeirra gjaldmiðla sem greitt sé í á útgreiðsludegi í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 553/2013. Að auki beri að líta til þess að í umsóknareyðublaði varnaraðila hafi komið skýrlega fram að ef erlendir kröfuhafar veldu að fá greitt í íslenskum krónum fengju þeir hugsanlega aldrei greitt vegna gjaldeyrishafta á Íslandi. Undir þeim kringumstæðum sé ekki hægt að halda því fram að slíkir kröfuhafar hafi haft val um í hvorum gjaldmiðlinum greiðslan yrði innt af hendi. Hið raunverulega val hafi verið um það að fá yfirráð yfir greiðslu varnaraðila eða ekki. Að sjálfsögðu velji allir kröfuhafar í slíkum kringumstæðum að fá greitt í evrum þar sem slík greiðsla sé undanþegin gjaldeyrishöftum. Loks sé ljóst að ekki hafi liðið langur tími frá því að réttur til viðbótargreiðslu hafi orðið ljós, með uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í máli nr. 553/2013 þann 24. september 2013 og þar til sóknaraðili hafi krafist greiðslu með kröfubréfi 7. nóvember 2013.

Framangreindu til viðbótar bendi sóknaraðili á að grundvöllur viðbótarkröfu sóknaraðila sé túlkun á lögum nr. 21/1991 og 161/2002 og sá skilningur slitastjórnar varnaraðila að sér hafi verið heimilt að haga útreikningi á virði greiðslna í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum á þann veg sem hún hafi talið hagkvæmastan. Slitastjórnir LBI hf. og Glitnis hf. hafi, áður en varnaraðili hafi tekið ákvörðun um að greiða forgangskröfur, beitt sömu aðferðum við að reikna út virði greiðslna til forgangskröfuhafa. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 553/2013 hafi hins vegar verið skorið úr með skýrum hætti hvernig bæri að standa að slíkum útreikningum. Líkt og farið hafi verið yfir hafi það verið á forræði varnaraðila að sjá til þess að greiðslur til forgangskröfuhafa yrðu framkvæmdar í samræmi við gildandi reglur og mistökin, í skilningi dóms Hæstaréttar nr. 463/2013, því varnaraðila.

Að mati sóknaraðila séu kringumstæður efnislega eins hvað varði þau málsatvik sem skipti máli og í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 463/2013 og því beri að komast að sömu niðurstöðu og þar hvað varði rétt til viðbótargreiðslu.

Sóknaraðili telji sig eiga rétt til viðbótargreiðslu úr hendi varnaraðila þannig að krafa hans á hendur varnaraðila verði að fullu efnd. Krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila sé í íslenskum krónum sbr. 3. mgr. 99. gr. 21/1991 m.v. gengi evru á úrskurðardegi hinn 22. apríl 2009, eða kr. 169,23 fyrir evru. Slitastjórnir LBI hf., Glitnis hf. og varnaraðila hafi allar greitt forgangskröfur með erlendum myntum og fundið út verðmæti þeirra í íslenskum krónum með því að nota gengi viðkomandi mynta á úrskurðardegi. Hinn 24. september 2013 hafi Hæstiréttur Íslands kveðið upp dóm í máli nr. 553/2013 þar sem hann hafi hnekkt ákvörðun slitastjórnar LBI hf. um að miða við gengi á úrskurðardegi og hafi slegið því föstu að kröfur væru í íslenskum krónum og því bæri að miða við gengi viðkomandi mynta á þeim degi sem greitt væri til að um jafnvirði í íslenskum krónum væri að ræða. Afleiðingin af þessu fyrirkomulagi sé, samkvæmt forsendum Hæstaréttar „að fáist ekkert upp í kröfu vegna gengismunar samkvæmt 1. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991 verður kröfuhafinn fyrir tjóni í þeim gjaldmiðli ef gengi íslenskrar krónu veikist gagnvart honum, en að sama skapi hagnast kröfuhafinn ef gengi krónunnar styrkist.“ Varnaraðili hafi greitt forgangskröfur 16. ágúst 2013 í evrum. Birt sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim degi hafi verið kr. 160,3 fyrir evru og því ljóst að krónan hafi styrkst á þeim tíma sem hafi liðið frá úrskurðardegi til greiðsludags um 5,28%. Krafa sóknaraðila nemi gengishagnaði sóknaraðila vegna þessarar gengisstyrkingar líkt og hann eigi rétt á samkvæmt skýru orðalagi Hæstaréttar í dómi sínum í máli nr. 553/2013.

Í ljósi viðbótarkröfu sóknaraðila og höfnunar varnaraðila á henni komi til álita hugsanleg sjónarmið sem leysi varnaraðila frá skyldu sinni til að greiða viðbótarkröfur. Sóknaraðili telji þó að ekkert, hvorki beint eða óbeint, í samskiptum aðila feli í sér afsal sóknaraðila á hugsanlegum viðbótarkröfum á hendur varnaraðila. Þrátt fyrir að það væri hugsanlega hægt að halda því fram að yfirlýsing í umsóknareyðublaði varnaraðila, sem sóknaraðili hafi undirritað þegar hann hafi sótt um að fá greitt í evrum, felist fullnaðarkvittun fyrir efndum varnaraðila á kröfu sóknaraðila, valdi það ekki missis réttar sóknaraðila á tilkalli til viðbótargreiðslu.

Í ljósi framangreinds beri varnaraðila að greiða sóknaraðila umkrafða fjárhæð og efna þær viðbótarkröfur sem gerðar hafi verið á hendur varnaraðila þannig að kröfur sóknaraðila verði að fullu efndar.

Varðandi ákvörðun málskostnaðar vísar sóknaraðili til þess að hann stundi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og því verði við slíka ákvörðun að taka tillit til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Sóknaraðili kveðst byggja rétt sinn til viðbótargreiðslu á 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Enn fremur á skráðum og óskráðum meginreglum kröfu- og samningaréttar um efndir á kröfum og rétt til viðbótargreiðslna. Krafa sóknaraðila um málskostnað byggi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Af hálfu varnaraðila er byggt á því að með greiðslu hans á 55.007.808 evrum inn á sérstakan fjárvörsluinnlánsreikning 16. ágúst 2013, sem innt hafi verið af hendi með stoð í 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, hafi farið fram endanlegt uppgjör gagnvart sóknaraðila vegna krafna hans nr. 20100111-0008, 20091227-0820 og 20100111-0009.

Í samræmi við 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 hafi allar kröfur á hendur varnaraðila í erlendri mynt, sem lýst hafi verið skv. 112. gr. laganna, verið færðar í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi viðkomandi gjaldmiðils hjá Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009. Á þeim grundvelli hafi varnaraðili ákveðið að greiðsla á forgangskröfum skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 skyldi fara fram í íslenskum krónum. Aðferð varnaraðila hafi því verið í fullu samræmi við ákvæði laganna og sé því hafnað sem fram komi í greinargerð sóknaraðila að varnaraðili hafi beitt „geðþótta“ við ákvörðun um greiðslu forgangskrafna. Þá bendi varnaraðili á að sú ákvörðun að greiða í krónum hafi verið í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 553/2013 þar sem fram komi að LBI hf. hafi ávallt verið heimilt að standa skil á greiðslum til forgangskröfuhafa í íslenskum krónum.

Í kröfuhafahópi varnaraðila hafi verið yfir 4650 aðilar með samþykkta kröfu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Hafi þessi hópur fyrst og fremst samanstaðið af erlendum einstaklingum sem hafi átt kröfur vegna ógreiddra vaxta af EDGE innlánsreikningum í Þýskalandi. Hafi verið um að ræða margar en tiltölulega smáar kröfur í evrum en höfuðstóll innlánanna hafi verið gerður upp í evrum af hálfu skilanefndar varnaraðila um mitt ár 2009.

Til að koma til móts við þá erlendu aðila sem myndað hafi þennan hóp kröfuhafa hafi verið ákveðið að bjóða forgangskröfuhöfum annan valkost í stað þess að fá kröfu sína greidda í krónum, þ.e. svokallaðan evru-valkost. Hann hafi þó verið bundinn ýmsum skilyrðum. Greiðsla skv. valkostinum hafi verið bundin því skilyrði að hún yrði umreiknuð í evrur miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á evru á úrskurðardegi 22. apríl 2009. Enn fremur hafi þá takmörkun verið að finna á evru-valkostinum að ef gengi evru gagnvart krónu 14. ágúst 2013 væri sterkara en 169,23, þ.e. 169,24 eða hærra, að þá myndi það gengi verða notað við umreikning greiðslu í evru.

Greiðsla í evrum á umræddu gengi með fyrrgreindum takmörkunum hafi því verið valkostur fyrir sóknaraðila og hafi hann orðið að merkja sérstaklega við þann valkost í rétthafabréfinu (e. Entitlement Letter) sem hann hafi skilað til varnaraðila. Sóknaraðila hafi hins vegar alltaf staðið til boða að fá fulla greiðslu á kröfu sinni í krónum miðað við fjárhæð hennar í kröfuskrá.

Sóknaraðila sem og öðrum kröfuhöfum hafi verið kynnt þetta fyrirkomulag með ýtarlegum hætti á kröfuhafafundi varnaraðila þann 5. júní 2013, með glærusýningu og umfjöllun í kröfuhafaskýrslu sem legið hafi frammi á sama fundi. Þá hafi verið að finna greinargóða umfjöllun um hið sama í spurningum og svörum (e. FAQ) á heimasíðu varnaraðila. Auk þess hafi verið að finna upplýsingar í yfirliti yfir greiðslur forgangskrafna (e. Payment of Priority Claims), sem hafi verið birt á heimasíðu varnaraðila. Þar sé að finna sundurliðað yfirlit yfir greiðslur til hvers forgangskröfuhafa og séu fjárhæðir tilgreindar bæði í krónum og evrum. Yfirlit yfir fyrirhugaðar greiðslur til sóknaraðila megi sjá í yfirlitinu. Með vísan til framangreinds sé ljóst að sóknaraðila hafi verið veittur rúmur tími til að kynna sér kosti og galla þeirra valkosta sem varnaraðili hafi boðið upp á. Þá sé einnig ljóst að sóknaraðili hafi gert sér fulla grein fyrir því að evru-valkosturinn var miðaður við sölugengi evru á úrskurðardegi en ekki á greiðsludegi. Þá hafi sóknaraðili getað séð samþykktar fjárhæðir krafna sinna í krónum sem og evrum, miðað við gengi 22. apríl 2009, með skilmerkilegum hætti í lista sem birtur hafi verið á heimasíðu varnaraðila 4. júní 2013.

Þá hafi enn fremur verið að finna ýtarlega umfjöllun um fyrirkomulagið í rétthafabréfinu, sem sóknaraðili hafi fyllt út og hafi skilað rafrænt til varnaraðila. Þar segir m.a.: „Með því að haka í eftirfarandi reiti samþykkir þú: 1) að þær greiðslur forgangskrafna sem þú kannt að eiga rétt á verði reiknaðar yfir í evrur á sölugengi Seðlabanka Íslands þann 22. apríl 2009 (1 evra = 169,23) eða ef það er hærra (1 evra = 169,24 eða hærra) á sölugengi Seðlabanka Íslands á viðmiðunardegi gengis. 2) Viðurkennir og lýsir yfir að slík greiðsla verði að fullu og endanlegt uppgjör á öllum greiðslum á forgangskröfum sem þú kannt að eiga rétt á frá félaginu og….“

Sóknaraðili hafi kosið að fá greiðslu í evrum þegar hann hafi fyllt út og skilað inn rétthafabréfinu 19. júlí 2013 og það hafi hann gert án nokkurs fyrirvara. Með vísan til framangreinds geti sóknaraðili ekki krafið varnaraðila um viðbótargreiðslu enda hafi hann samþykkt að um fullnaðaruppgjör væri að ræða, sbr. framangreint ákvæði í rétthafabréfinu. Þeim málsástæðum sóknaraðila að sóknaraðili hafi ekki gefið eftir hluta kröfu sinnar sé því mótmælt sem röngum auk þess sem þær málsástæður séu með öllu haldslausar þegar litið sé til framangreinds.

Í þessu samhengi verði að horfa til þess að sóknaraðili sé fjárfestingarbanki með alþjóðlega starfsemi og hafi notið aðstoðar íslenskra lögmanna við innheimtu forgangskröfu sinnar og vegna annarra samskipta við varnaraðila. Verði því ekki önnur ályktun dregin en að sóknaraðili hafi að öllu leyti sætt sig við að fá kröfur sínar greiddar með framangreindum hætti. Hafi sóknaraðili enda engar athugasemdir gert við aðferðarfræðina þegar hún hafi verið kynnt á kröfuhafafundi né þegar honum hafi verið tilkynnt um greiðsluna inn á fjárvörsluinnlánsreikninginn. Geti sóknaraðili, sem sérfræðingur á svið fjármálaréttar, ekki borið fyrir sig að honum hafi ekki verið það ljóst að hann væri mögulega að sætta sig við „verðminni“ greiðslu með því að velja evru-valkostinn með þeim takmörkunum sem honum hafi fylgt í stað þess að fá kröfuna greidda að fullu í íslenskum krónum. 

Verði ekki önnur ályktun dregin en að sóknaraðili hafi einfaldlega talið sér það hagstæðara að fá greiddar evrur sem hann hafi getað flutt úr landi og notað í starfsemi sinni, þótt gengi á greiðslunni væri ákvarðað með fyrrgreindum hætti, í stað þess að fá kröfur sínar greiddar í krónum með þeim takmörkunum sem kunni að fylgja vegna núverandi gjaldeyrishafta.

Sóknaraðili byggi málatilbúnað sinn að miklu leyti á dómi Hæstaréttar frá 24. september 2013 í máli nr. 553/2013. Sóknaraðili tiltaki hins vegar ekki í greinargerð sinni að LBI hf. hafi beitt annarri aðferðarfræði við greiðslu forgangskrafna en varnaraðili. Að mati varnaraðila hafi dómurinn þar af leiðandi engin áhrif á þær greiðslur sem varnaraðili hafi innt af hendi vegna forgangskrafna.

Í ljósi þess að í greinargerð sóknaraðila sé lagt að jöfnu hvernig farið hafi verið með greiðslur til forgangskröfuhafa hjá LBI hf., Glitni hf. og varnaraðila kveðst varnaraðili hafna því að svo hafi verið. Er því lýst í greinargerð að slitastjórnir LBI hf. og Glitnis hf. hafi ákveðið að greiða forgangskröfuhöfum hluta krafna sinna með myntkörfu nokkurra mynta og hafi verðmæti hverrar myntar miðast við sölugengi Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009. Kröfuhafar hafi því ekkert val haft um það hvernig greiðslum til þeirra yrði háttað.

Ljóst sé að aðferðarfræði LBI hf. og Glitnis hf. annars vegar og varnaraðila hins vegar sé á engan hátt sambærileg. Þeirri fullyrðingu í greinargerð sóknaraðila að aðferð LBI hf. og Glitnis hf. hafi verið samskonar og í tilviki varnaraðila sé því mótmælt sem rangri. Þegar litið sé til þeirra gagna sem liggi fyrir í málinu þar sem fyrirhuguð greiðsla forgangskrafna hafi verið kynnt hjá varnaraðila og hins vegar fyrirhuguð greiðsla forgangskrafna LBI hf. og Glitnis hf., sé ljóst að um sé að ræða tvær mismunandi aðferðir sem eigi fátt sammerkt. Grundvallarmunurinn sé sá að greiðsla til kröfuhafa LBI hf. og Glitnis hf. hafi verið ákveðin í myntkörfu en greiðsla til kröfuhafa varnaraðila hafi verið ákveðin í íslenskum krónum.

Í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 553/2013 komi fram að meginreglan sé sú að greiðslur megi inna af hendi í íslenskum krónum, enda sé það meginregla kröfuréttar að kröfu megi inna af hendi í þeirri mynt sem hún sé tilgreind í. Varnaraðili hafi beitt framangreindri meginreglu við greiðslu forgangsgreiðslna þar sem ákveðið hafi verið að forgangsgreiðslur skyldu greiddar út í íslenskum krónum. Eins og að framan greini hafi kröfuhöfunum þó staðið til boða að velja frekar greiðslu í evru en þá að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Að mati varnaraðila hafi aðferðarfræði hans við greiðslu forgangskrafna verið í samræmi við forsendur Hæstaréttar í umræddum dómi.

Varnaraðili bendi á að með vísan til framangreinds dóms sé ljóst að slitastjórn fjármálafyrirtækis í slitameðferð sé ekki skylt að bjóða forgangskröfuhöfum greiðslur í erlendum myntum. Í 5. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sé slitastjórn veitt svigrúm til að greiða forgangskröfur á meðan á slitameðferð standi og áður en aðrar kröfur greiðist. Einnig sé að finna ráðagerð um að slitastjórn megi greiða með mismunandi hætti, þ.e. að heimilt sé að taka tillit til þess ef kröfuhafi bjóðist til að gefa eftir kröfu sína gegn greiðslu hennar að hluta, sem víst megi telja að sé lægri að tiltölu en aðrir jafnstæðir kröfuhafar muni fá á síðari stigum. Eins og að framan greini hafi forgangskröfuhöfum boðist valkostur sem hafi verið bundinn ákveðnum skilyrðum, þ.e. að fá greiðslu í evru umreiknaða miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á úrskurðardegi 22. apríl 2009.

Varnaraðili telji að sá háttur sem hafður hafi verið á við greiðslu forgangskrafna sé lögmætur. Ekki sé að finna ákvæði í lögum sem banni kröfuhafa að gefa eftir hluta af kröfu sinni ef hann kjósi svo. Í tilviki varnaraðila hafi fyrsti valkosturinn fyrir forgangskröfuhafa verið að taka við greiðslu í þeirri mynt sem krafan hafi verið í samkvæmt forsendum Hæstaréttar, þ.e. íslenskum krónum. Með því að velja þann valkost hefðu kröfuhafar fengið greiðslu í íslenskum krónum miðað við krónufjárhæð kröfu þeirra í kröfuskrá. Sóknaraðili, sem og aðrir kröfuhafar, hafi hins vegar getað valið annars konar uppgjör sem hafi getað leitt til lítilsháttar eftirgjafar kröfu, allt eftir því hvernig kröfuhafinn hafi metið sína hagsmuni.

Í þessu samhengi verði að horfa til þess að það gengi sem evru-valkosturinn hafi verið bundinn við geti ekki talist ósanngjarnt fyrir forgangskröfuhafa sem hafi upphaflega átt kröfu í erlendri mynt. Hafi þannig verið miðað við sama gengi og þegar kröfurnar hafi upphaflega verið umreiknaðar í íslenskar krónur. Þannig fengi kröfuhafi sem hafi upphaflega átt kröfu upp á 100 evrur endurgreiddar 100 evrur. Geti slík niðurstaða vart talist ósanngjörn fyrir viðkomandi kröfuhafa þótt hann hefði mögulega átt rétt á örlítið hærri evrufjárhæð ef slitastjórn hefði ákveðið að greiða kröfurnar eingöngu í evrum í stað króna. Þá verði líka að horfa til þess hagræðis sem kröfuhafar hafi notið við að geta fengið greitt í einni erlendri mynt í stað þess að fá greiðslu í mörgum myntum með íslenskri krónu meðtalinni.

Þá beri einnig að hafa í huga að sölugengi evru gagnvart krónu 16. ágúst 2013 hafi verið 160,3 skv. opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands. Sölugengi evru gagnvart krónu hafi hins vegar verið 169,23 þann 22. apríl 2009 og muni þannig aðeins 5,27% á evrufjárhæðinni eftir því hvort umreikningur á greiðslu sé miðaður við 22. apríl 2009 eða 16. ágúst 2013. Geti munurinn á gengi á fyrrgreindum dögum ekki talist stórfelldur né að það hafi verið ósanngjarnt gagnvart sóknaraðila að beita þeirri aðferðarfræði við greiðslu forgangskrafna sem slitastjórn varnaraðila hafi kosið að gera.

Með vísan til framangreinds sé ljóst að varnaraðili hafi efnt skuldbindingu sína gagnvart sóknaraðila að fullu og geti sóknaraðili af þeim sökum ekki átt viðbótarkröfu á varnaraðila með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 553/2013. Varnaraðili hafi boðið valkost þar sem sóknaraðili hafi getað dregið úr áhættu af gengissveiflum og fengið mynt sem honum hafi verið hagfelldari. Ekkert banni slíka tilhögun.

Varnaraðili kveðst varðandi málskostnað vísa til þess að hann reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og því verði að taka tillit til skyldu hans til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun við ákvörðunar málskostnaðar.

Um lagarök kveðst varnaraðili vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. m.a. 3. mgr. 99. gr., 112. gr., 120. gr. og 171. gr. sem og meginreglna þeirra laga. Jafnframt sé vísað til laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki sbr. m.a. 6. mgr. 102. gr. Þá kveðst varnaraðili vísa til meginreglna kröfuréttar. Krafa um málskostnað sé reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Ágreiningur aðila máls þessa lýtur að því hvort varnaraðili teljist hafa efnt að fullu framangreindar þrjár kröfur sóknaraðila með því að greiða 55.007.808 evrur inn á fjárvörsluinnlánsreikning í nafni sóknaraðila 16. ágúst 2013. Liggur fyrir að framangreind innborgun á reikninginn byggðist á skráðu sölugengi Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009 sem var 169,23 íslenskar krónur fyrir eina evru. Sóknaraðili krefst viðurkenningar á því að varnaraðila hefði borið að miða við skráð gengi á greiðsludegi 16. ágúst 2013 og hefði varnaraðili því þurft að leggja 58.072.185 evrur inn á fjárvörsluinnlánsreikninginn til efnda á kröfum sóknaraðila.

Ekki er um það deilt í málinu að varnaraðili hafi réttilega, í samræmi við 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991, fært lýstar kröfur sóknaraðila til íslenskra króna miðað við skráð gengi 22. apríl 2009. Kröfur sóknaraðila eru því í íslenskum krónum.

Eins og nánar er lýst hér að framan kynnti varnaraðili fyrir kröfuhöfum að hann hygðist greiða forgangskröfur að fullu í ágústmánuði 2013. Var um þetta fjallað á kröfuhafafundi 5. júní 2013 og í aðdraganda hans. Tilkynnti varnaraðili að hann hygðist efna forgangskröfur með greiðslu í íslenskum krónum, en tilkynnti einnig að kröfuhafar gætu valið að fá greitt í evrum og tilgreindi þá aðferð sem hann ætlaði að nota til að umreikna fjárhæð krafna yfir í evrur. Bæri kröfuhöfum að tilkynna um val sitt innan tiltekins frests. Fyrir liggur að sóknaraðili valdi að fá greitt í evrum. Af hans hálfu er ekki á því byggt að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því með hvaða hætti umreikningur kröfunnar myndi eiga sér stað og telst því óumdeilt í málinu að varnaraðili hafi kynnt sóknaraðila þá skilmála sem liggja fyrir í málinu og varða forsendur varnaraðila fyrir umræddri greiðslu.

Hér að framan er gerð grein fyrir dómi Hæstaréttar 24. september 2013 í máli nr. 553/2013 og hafa báðir málsaðilar fjallað um dóminn og lagt út af efni hans. Að mati dómsins verður umrædd niðurstaða Hæstaréttar ekki skilin öðruvísi en að af henni verði dregin sú almenna regla að þegar innt er af hendi greiðsla til kröfuhafa í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu við slitameðferð skuli miða verðmæti greiðslunnar við skráð sölugengi umrædds gjaldmiðils gagnvart íslenskri krónu á greiðsludegi. Það er því niðurstaða dómsins að fyrir liggi fordæmi sem sker úr um það hvernig verðmæti erlendra gjaldmiðla verður fundið hyggist slitastjórn nýta slíkan greiðslueyri til að inna af hendi greiðslur til kröfuhafa.

Röksemdir varnaraðila lúta einkum að því að sú aðferð sem hann viðhafði hafi verið önnur en um sé fjallað í framangreindum dómi, einkum að því er varðar það að hann hafi ákveðið að greiða kröfur í íslenskum krónum en hafi veitt kröfuhöfum val um að fá greiðslurnar í evrum að uppfylltum vissum skilyrðum. Með því að sóknaraðili hafi fallist á umrædd skilyrði og skilmála um að með því að velja umrædda leið viðurkenndi hann að krafa hans hefði verið gerð upp að fullu, væri hann bundinn af þeim yfirlýsingum og krafan því að fullu greidd, án tillits til niðurstöðu framangreinds dómsmáls.

Það er mat dómsins að ekki verði framhjá því horft að sóknaraðili fékk kröfu sína greidda í evrum, en ekki íslenskum krónum. Er því ekki fallist á með varnaraðila að einhverju breyti í þessu tilliti að varnaraðili hafi ákveðið að greiða íslenskar krónur en hafi boðið upp á „evru valkost“.  Staðreyndin er sú að greiðsla til sóknaraðila fór fram í evrum. Kemur þá næst til skoðunar hvort sóknaraðili hafi samþykkt þá greiðslu sem hann fékk þannig að hann sé við það bundinn að í henni felist fullar efndir krafna hans. Það er meginregla að við gjaldþrotaskipti skuli kröfuhafar sem eiga kröfur sem njóta sömu stöðu í skuldaröð njóta jafnræðis við úthlutun. Frá þessu má þó víkja með því að kröfuhafi getur afsalað sér kröfuréttindum sínum að hluta eða öllu leyti. Í 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2001 kemur m.a. fram að við greiðslur til kröfuhafa á grundvelli þeirrar greinar skuli gæta þess að allir kröfuhafar sem fari með viðurkenndar kröfur í sömu stöðu í réttindaröð fái greiðslu á sama tíma, en frá því megi þó víkja með samþykki þeirra sem ekki fái greitt eða samkvæmt ákvörðun slitastjórnar ef kröfuhafi bjóðist til að gefa eftir kröfu sína gegn greiðslu hennar að hluta, sem víst megi telja að sé lægri að tiltölu en aðrir jafnstæðir kröfuhafar muni fá á síðari stigum. Það er mat dómsins með vísan til þeirra meginsjónarmiða sem birtast í síðasttilvitnuðu lagaákvæði að slitastjórn sé skylt að gæta fulls jafnræðis með kröfuhöfum og til að víkja megi frá reglum um fullar efndir krafna samkvæmt sömu rétthæð sé nauðsynlegt að kröfuhafi, sem sæta eigi slíku fráviki, samþykki það skýrlega. Felst í því að mati dómsins að ekki nægir að kröfuhafi fallist á, eins og hér á við, að krafa hans sé reiknuð út með tilteknum hætti, heldur einnig að ljóst sé að kröfuhafinn geri sér grein fyrir að með því að fallast á slíkt sé hann að sætta sig við að fá lægri greiðslu en hann ella ætti rétt á. Í máli þessu liggur fyrir að sóknaraðili féllst á að krafa hans yrði reiknuð með þeim hætti sem gert var. Á hinn bóginn verður ekki fallist á það með varnaraðila að sóknaraðili hafi með því fallið frá hugsanlegri kröfu um viðbótargreiðslu þegar komið hafi í ljós að sú greiðsla sem innt var af hendi var ekki í samræmi við réttan lagaskilning, eins og sjá má á forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 553/2013.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða er það mat dómsins að skylt sé að fallast á síðari kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á því að við útreikning greiðslu til hans 16. ágúst 2013 hafi varnaraðila borið að notast við opinbert sölugengi Seðlabanka Íslands sem gengisviðmiðun á þeim degi. Í þeirri niðurstöðu felst að mati dómsins að efnislega er fallist á fyrri dómkröfu sóknaraðila en ekki stendur réttarfarsleg nauðsyn til að dæma hana sjálfstætt.

Með hliðsjón af málsúrslitum verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn að teknu tilliti til virðisaukaskatts með þeirri fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Stefán Reykjalín hdl. vegna Árna Freys Árnasonar hdl. og af hálfu varnaraðila flutti málið Ragna Björk Ragnarsdóttir hdl. vegna Þrastar Ríkharðssonar hrl.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna embættisanna dómara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Viðurkennt er að varnaraðila, Kaupþingi hf., hafi borið, við framkvæmd greiðslu krafna sóknaraðila, Aresbank S.A., með tilvísunarnúmerin 20100111-0008, 20091227-0820 og 20100111-009 í kröfuskrá varnaraðila, 16. ágúst 2013, að notast við opinbert sölugengi Seðlabanka Íslands fyrir evru eins og það gengi var birt þann dag, við umreikning kröfunnar yfir í evrur.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 627.500 krónur í málskostnað.