Hæstiréttur íslands

Mál nr. 48/2015


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 17. desember 2015.

Nr. 48/2015.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Matthíasi Magnússyni

(Guðbjarni Eggertsson hrl.)

(Sveinn Andri Sveinsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skaðabætur.

M var sakfelldur fyrir kynferðisbrot samkvæmt 199. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa farið óboðinn inn í svefnherbergi þar sem A lá sofandi, lagst upp í rúm til hennar og strokið henni ítrekað um utan- og innanverð læri og rass utan klæða og fróað sér á meðan. Var refsing M ákveðin fangelsi í sex mánuði sem bundið var skilorði, auk þess sem honum var gert að greiða A 250.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Einnig krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Matthías Magnússon, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 724.549 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. desember 2014.

Mál þetta, sem var dómtekið 5. f.m., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 18. júní 2014, á hendur Matthíasi Magnússyni, kt. [...], [...] í [...], „fyrir kynferðisbrot gegn [A], kt. [...], með því að hafa að morgni laugardagsins 9. mars 2013, að [...], í [...], farið óboðinn inn í svefnherbergi, þar sem [A] lá sofandi, lagst upp í rúm til hennar og strokið henni ítrekað um utan- og innanverð læri og rass utan klæða og fróað sér á meðan og síðar sama morgun, á öðrum stað í íbúðinni, sýnt [A] lostugt og ósiðlegt athæfi með því að segja að hann væri graður og langaði að sofa hjá henni.

Telst þetta varða við 199. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. mars 2013 til 26. maí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist réttargæsluþóknunar.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara lækkunar á henni. Loks er gerð krafa um að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda.

I

Þriðjudaginn 12. mars 2013 kom A, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Tekin var skýrsla af henni hjá lögreglu sama dag. Þar kom fram hjá henni að hún og B, vinkona hennar, hefðu verið saman á djamminu aðfaranótt laugardagsins 9. mars 2013 og haldið að því loknu heim til B, sem býr að [...] í Hafnarfirði. B hafi boðið ákærða að koma þangað, en þær þekki hann báðar. Öll hafi þau verið drukkin. Þær hefðu fljótlega farið að sofa í herbergi B og hafi hún sagt við ákærða að hann mætti sofa á sófa annars staðar í íbúðinni og rétt honum sæng. Brotaþoli hafi síðan vaknað við það að ákærði lá í rúminu sem þær sváfu í. Hann hafi legið á milli þeirra og verið að fróa sér og þukla á brotaþola í leiðinni. Hann hafi káfað á rassi hennar og lærum. Hún hafi reynt að ýta honum frá sér og slá hann en það hafi ekki borið árangur, hann hafi haldið uppteknum hætti. Þá hafi hún kallað á B sem hafi verið steinsofandi. Þessu næst skýrði brotaþoli svo frá: „Ég reyni meira og meira og reyni að fá hann til að hætta og hann hættir ekkert fyrr en [B] vaknar og hún er ekkert að gera sér grein fyrir hvað er að gerast strax, hún bara horfir á okkur ... en hún sér að ég er svona skrýtin í andlitinu og byrja að öskra á hana og segi við hana að hann sé bara að káfa á mér og eitthvað og þá kýlir eða svona gefur hún honum olnbogaskot í bringuna og togar í hárið á honum og svona tekur hann út úr rúminu og hendir honum fram.“ Ákærði hafi stunið á meðan hann fróaði sér og þuklaði á brotaþola og um leið sagt til skiptis nafn hennar, B og C, unnustu sinnar. Eftir þetta, og á meðan þær voru að undirbúa sig fyrir ferðalag norður í land, hafi hann svo áreitt þær með því að segja við þær að hann væri graður og langaði til að sofa hjá þeim. 

Skýrsla B hjá lögreglu um atburðarás í íbúð hennar aðfaranótt 9. mars 2013 allt þar til hún og brotaþoli höfðu lagst til svefns í herbergi hennar og ákærði á sófa á öðrum stað í íbúðinni var í öllum meginatriðum í samræmi við framburð brotaþola. Hún hafi síðan vaknað við hróp frá brotaþola, að því er hún taldi á milli klukkan sjö og átta. Brotaþoli hafi verið hálfgrátandi og í sjokki. Ákærði hafi þá legið á milli þeirra í rúminu með buxurnar dregnar niður að hnjám og verið að fróa sér og þukla læri og rass brotaþola utan klæða. Á meðan hafi hann stunið í sífellu til skiptis „[B] mín, [C] mín, [A] mín“. Hann hafi þóst vera sofandi. Hún hafi sagt honum að hætta þessu og gefið honum olnbogaskot í bringuna, en þar sem hann hafi ekki látið segjast hafi hún tekið bjór, sem hún taldi að ákærði hefði sett á náttborðið, og hellt upp í munninn á honum, rifið í hárið á honum og hent honum fram úr rúminu. Um framferð ákærða eftir þetta og áður en þær yfirgáfu íbúðina og skildu ákærða þar eftir skýrði B svo frá að hann hafi áreitt þær með dónalegum orðum. Eitt sinn þegar brotaþoli hafi þurft að beygja sig hafi hann sagt: „Oh nei ekki beygja þig svona þú gerir mig svo graðan, ertu að vinna á [...]“. Þá hafi hann líka sagt að hann vildi að brotaþoli væri dauðadrukkin og blindfull „því þá væri [hann] að ríða henni núna“.      

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 26. apríl 2013. Ítrekað aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að það sem brotaþoli sakaði hann um hefði gerst. Hann hafi komið til þeirra á [...] um nóttina. Þær hefðu hringt í hann skömmu áður, beðið hann um að koma og látast vera kærasti B í þeim tilgangi að losna við strák sem hefði fylgt henni heim. Hann hafi síðar um nóttina sofnað á sófa í íbúðinni og ekki vaknað fyrr en þær voru að fara eitthvað í burtu og B beðið hann um að passa fyrir sig hundinn þangað til einhver stelpa kæmi að sækja hann. Hann hafi í kjölfar þessa sofnað aftur og ekki vaknað fyrr en lögreglumenn bönkuðu upp á og handtóku hann.

II

Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sök. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins kvaðst hann ekki kannast við að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og hefði ekki hugmynd um hvernig ásakanir á hendur honum um kynferðisbrot væru til komnar. Sig ræki ekki minni til þess að hann hafi átt í einhverjum kynferðislegum samskiptum við brotaþola þessa nótt. Skýrði hann svo frá að hann hafi verið að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur og verið á heimleið þegar B hafi hringt í hann, en hana hafi hann þekkt frá árinu 2006, hún sé vinkona C, kærustu hans. Í kjölfar samtalsins hafi hann farið heim til hennar, þau hafi í öllu falli sammælst um það. Þegar hann kom þangað hafi brotaþoli verið þar stödd og einhver strákur sem hann ekki þekkti. Hann hafi verið búinn að drekka bjór þegar hér var komið sögu og verið „léttölvaður“. Fljótlega eftir að hann kom heim til B hafi hann farið inn í svefnherbergi íbúðarinnar og rætt þar við brotaþola. B og þessi strákur hefðu verið frammi í stofu og verið að „sofa saman“. Að einni til tveimur klukkustundum liðnum hafi hann vísað stráknum út úr íbúðinni að beiðni B. B hafi í framhaldi af því lagst í rúmið í svefnherberginu við hlið brotaþola og ákærði sjálfur til fóta. Þar hafi hann sofið í á að giska 10 mínútur og taldi að brotaþoli og B hefðu verið vakandi á meðan. Hann hafi svo farið fram í stofu og sofnað þar á sófa. Ástæða þess að hann sofnaði í íbúðinni í stað þess að fara heim til sín hafi verið sú að hann hafi ekki nennt heim og ekki verið í ástandi til að ganga þangað. Hann hafi verið orðinn nokkuð ölvaður enda haldið áfengisdrykkju áfram eftir að hann kom heim til B og þá drukkið sterkt áfengi. Þegar hann vaknaði um morguninn hafi hann legið á sófanum fullklæddur og orðið einn eftir í íbúðinni þegar brotaþoli og B yfirgáfu hana með þeim orðum að hann ætti að passa hund fyrir B. Kvaðst hann ekki minnast frekari orðaskipta um morguninn og kannaðist þannig ekki við að hafa áreitt brotaþola með kynferðislegu tali. Þær hefðu ekkert verið ósáttar við hann þegar þær fóru. Lögreglan hafi komið síðar um daginn og handtekið hann vegna þess að hann hefði ekki greitt sekt.    

Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði brotaþoli svo frá að hún hafi verið á djamminu með B, vinkonu sinni, þessa nótt og endað heima hjá henni. Ákærði hafi komið þangað á milli klukkan 3 og 4 og þá verið mjög mikið ölvaður. Þau hefðu setið í stofunni og verið að drekka. Að einhverjum tíma liðnum hefðu þær farið upp í rúm í svefnherbergi íbúðarinnar en ákærði orðið eftir í stofunni og haldið áfram að drekka. Kvaðst brotaþoli hafa verið hálfsofandi þegar ákærði hafi komið upp í rúmið og lagst á milli þeirra. Er vitnisburður hennar um viðbrögð hennar við því nokkuð misvísandi, enda þótt fyrir liggi samkvæmt honum að það hafi verið í óþökk hennar, og eins um það hvort hún hafi sofnað eftir það eða ekki. Ekki löngu síðar hafi ákærði svo byrjað að strjúka rass hennar og læri utan klæða og kalla hana C. Henni hafi fundist eins og hann væri sofandi, hann hafi ekki svarað henni og haldið þessu áfram. Hún hafi verið föst upp við vegginn, snúið baki í ákærða og lítið getað athafnað sig þar sem hann hafi legið þétt upp að henni. Þá hafi hún fundið fyrir því að ákærði væri byrjaður að runka sér. Hann hafi um leið strokið henni og kallað hana C. Hún hafi reynt að gefa honum olnbogaskot og ýta við honum en það hafi ekkert þýtt. Hann hafi haldið áfram að runka sér og fengið það, hún hafi skynjað þetta þannig. Loks hafi hún kallað á B sem hafi vaknað og sagt við ákærða að hann ætti ekkert að vera þarna. Hann hafi þá umlað eitthvað, sagt að hann væri með konunni sinni. B hafi þá togað í hárið á honum og hann haldið áfram að rugla eitthvað, en að endingu farið úr rúminu og fram. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki geta sagt til um það hversu lengi þetta hafi staðið yfir, en þó kom fram hjá henni að hann hafi líklega verið búinn að strjúka henni í 4-5 mínútur þegar hann byrjaði að runka sér. Hann hafi strokið henni, runkað sér og stunið, það er emjað eins og honum hafi fundist þetta gott. Á meðan hafi hann sagt: „[C], [C] mín“, en ekki nefnt önnur nöfn. Kvaðst hún telja að B hafi ekki séð þegar ákærði strauk henni og runkaði sér, hún hafi verið sofandi á meðan. Þegar hún kom fram um morguninn hafi ákærði verið þar staddur. Atvikið hafi ekkert verið rætt. Þá kvaðst brotaþoli ekki muna hvort ákærði hafi sagt eitthvað við hana þegar hér var komið sögu. Hún hafi svo fyrst skýrt B frá því sem gerðist þegar þær voru á leið norður í land síðar þennan sama dag. Þegar brotaþoli var innt eftir því hvort hún hefði verið ölvuð þessa nótt svaraði hún því til að það hafi nánast verið runnið af henni þegar hún lagðist til svefns. Nánar aðspurð um háttsemi ákærða inni í svefnherberginu skýrði hún svo frá að hún hafi heyrt þegar ákærði losaði beltið á buxum sínum og renndi niður buxnaklaufinni. Enda þótt hún hafi ef til vill ekki séð ákærða runka sér hafi hún heyrt það og fundið, það hafi ekkert farið á milli mála. Ákærði hafi verið klæddur í gallabuxur og bol eða skyrtu. Hann hafi verið hættur að þukla á henni og runka sér þegar B vaknaði og henti honum fram úr rúminu. Þá staðhæfði brotaþoli að ákærði hafi meðal annars strokið læri hennar að innanverðu rétt ofan við hné. Þegar hún var sérstaklega innt eftir því hvort ákærði hafi fengið sáðlát kvaðst hún ekki vera viss um það. Þegar borin var undir brotaþola frásögn hennar samkvæmt skýrslu hennar hjá lögreglu þess efnis að ákærði hafi sagt við hana að hann væri graður og langaði til að sofa hjá henni kvaðst hún ekki muna eftir því, en tók fram að þetta hefði hún sagt stuttu eftir þennan atburð þegar hún mundi atburðarásina vel og því væri þessi framburður hennar örugglega réttur. Þá er vert að geta þess að í vitnisburði brotaþola kom fram að þessa nótt hafi einhver strákur, sem B hafi verið að reyna við, verið staddur í íbúðinni en hún gat ekkert sagt til um það hvað um hann varð. Þá skýrði brotaþoli svo frá að slitnað hafi upp úr vinskap hennar og B.

Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði vitnið B svo frá að hún hafi verið stödd heima hjá sér að [...] í Hafnarfirði ásamt brotaþola þegar ákærði hafi komið þangað mjög ölvaður aðfaranótt laugardagsins 9. mars 2013. Þau hefðu stuttu áður rætt saman í síma, en hún hafi reyndar ætlað að tala við C kærustu hans þar sem fyrirhugað var að þær og brotaþoli færu saman í skírnarveislu norður í land morguninn eftir en hún hafi verið með slökkt á sínum síma. Ákærði hafi sem sagt komið heim til hennar í kjölfar þessa símtals. Þegar líða tók á nóttina hafi hún spurt hann hvort hann ætlaði ekki að fara að koma sér heim til sín en hann hafi svarað því til að það gæti hann ekki. Hún hafi þá búið um hann í sófa í stofunni og því næst lagst til svefns í herbergi sínu ásamt brotaþola. Þær hefðu lokað að sér. Ákærði hafi setið við eldhúsborðið þegar þær fóru inn í svefnherbergið og verið að sötra áfengi. Framburður ákærða um að hann hafi komið með þeim inn í herbergið væri rangur. Hún hafi síðan vaknað við það að hann var kominn á milli þeirra í rúminu og búinn að girða niður um sig. Hann hafi runkað sér og þuklað á brotaþola og um leið sagt nöfn þeirra tveggja og kærustu sinnar til skiptis. Þetta hafi hún séð hann gera. Hann hafi legið á bakinu, runkað sér með vinstri hendi og káfað á brotaþola á innan- og utanverðu læri með þeirri hægri. Hann hafi verið með augun lokuð meðan á þessu stóð og þóst vera sofandi, henni hafi að minnsta kosti fundist að hann væri ekki sofandi en gat ekki skýrt það frekar. Brotaþoli hafi nánast setið upp við vegginn, hún hafi grenjað og gargað og reynt að losa sig undan ákærða. Kom fram hjá B að henni hafi brugðið mjög og það hafi tekið hana dálítinn tíma að átta sig á því hvað var í gangi. Hún hafi öskrað á ákærða, hellt úr bjórdós framan í hann, rifið í hárið á honum og náð að draga hann fram úr rúminu og henda honum út úr herberginu. Hann hafi verið búinn að draga gallabuxur og nærbuxur sínar niður að hnjám og hysjað þær upp um sig á meðan hann gekk fram. Þær hefðu ekkert sofnað eftir þetta og ákveðið að drífa sig sem allra fyrst af stað norður. Ákærði hafi setið við eldhúsborðið þegar þær komu fram. Þegar brotaþoli hafi verið að ganga í átt að baðherberginu hafi hann sagt við hana að hann langaði til að sofa hjá henni. Meira treysti hún sér ekki til að segja varðandi þetta. Þær hefðu ekkert rætt um atvikið fyrr en þær voru á leiðinni norður, en þær hefðu lagt af stað þangað rétt upp úr klukkan 8 þennan morgun. Áður en hún fór út úr íbúðinni hafi hún beðið ákærða um að hafa sig á brott. Þá kannaðist hún ekki við að hafa beðið hann um að passa fyrir sig hundinn.         

Fyrir dóm komu að auki sem vitni D og lögreglumennirnir E og F. Ekki þykir ástæða til að gera grein fyrir vitnisburði þeirra að öðru leyti en því að lögreglumennirnir staðfestu annars vegar að lögreglu hafi borist tilkynning um meint kynferðisbrot ákærða klukkan 14 laugardaginn 9. mars 2013 og hins vegar að lögregla hafi komið að [...] í Hafnarfirði klukkan 18:32 sama dag og gert ákærða að yfirgefa íbúðina.

Fyrir liggur að við rannsókn lögreglu á sængurfatnaði hafi ekki fundist lífsýni sem nothæf væru til DNA-kennslagreiningar.  

III

Í málinu er ákærði annars vegar borinn sökum um kynferðisbrot með því að hafa að morgni laugardagsins 9. mars 2013, í íbúð að [...] í Hafnarfirði, þar sem hann var gestkomandi, lagst upp í rúm til brotaþola, A, og strokið henni ítrekað um utan- og innanverð læri og rass utan klæða og fróað sér á meðan. Hins vegar tekur saksókn á hendur ákærða til þess að hann hafi síðar sama morgun sýnt brotaþola lostugt og ósiðlegt athæfi með því að segja að hann væri graður og langaði að sofa hjá henni. Telst þetta varða við 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði hefur neitað sök. Samkvæmt framburði hans hafði hann drukkið áfengi um kvöldið og nóttina og verið orðinn talsvert ölvaður þegar hann lagðist til svefns í sófa í stofu íbúðarinnar. Við það verður að miða að sú háttsemi sem ákærði er sakaður um hafi átt sér stað í mesta lagi tveimur klukkustundum síðar. Hefur hann skýrt framangreinda afstöðu sína til sakargifta á þann veg að sig reki ekki minni til þess að hann hefi gert það sem hann er ákærður fyrir. Ekkert af þessu hafi átti sér stað áður en hann sofnaði í stofusófanum og þegar hann vaknaði hafi hann legið þar fullklæddur og orðið einn eftir í íbúðinni þegar brotaþoli og húsráðandi, B, hurfu á braut. Þá er þess sérstaklega að geta að í framburði sínum fyrir dómi og svo sem áður er rakið greindi ákærði í fyrsta sinn frá því að hann hafi lagst upp í rúm til brotaþola í svefnherbergi íbúðarinnar áður en hann sofnaði í stofunni.

Fyrir liggur að tilkynnt var um atvikið samdægurs og brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu þremur dögum seinna. Enda þótt ákveðið ósamræmi sé á milli framburðar brotaþola um málsatvik í skýrslu hennar hjá lögreglu annars vegar og fyrir dómi hins vegar hefur vitnisburður hennar jafnan verið skýr og afdráttarlaus um það að ákærði hafi legið á milli B og hennar í rúminu og káfað á henni og fróað sér um leið. Þá fær þessi frásögn brotaþola ótvíræða stoð í vitnisburði B, en svo sem þegar er rakið hefur hún við skýrslugjöf í málinu verið staðföst í þeim framburði sínum að hún hafi séð ákærða viðhafa þessa háttsemi. Fyrir liggur að brotaþoli og B hafa ekki í einu og öllu borið á sama veg um málsatvik og þá einkum að því er tekur til þess sem fram fór skömmu áður en þær yfirgáfu íbúðina og skildu ákærða þar einan eftir. Verður í því sambandi meðal annars að hafa í huga að einhver tími hafi liðið frá því að ákærði byrjaði að áreita brotaþola og fróa sér og þar til B gerði sér grein fyrir því. Hvað sem þessu annars líður er það mat dómsins að ekkert sé fram komið í málinu sem er til þess fallið að rýra trúverðugleika vitnisburðar þeirra um þetta meginatriði í atburðarás að morgni laugardagsins 9. mars 2013 eða draga með öðrum hætti úr sönnunargildi hans þannig að þýðingu hafi við sakarmat.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat dómsins að sannað sé, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi í umrætt sinn strokið brotaþola ítrekað um utan- og innanverð læri og rass utan klæða og fróað sér á meðan. Varðar þessi háttsemi ákærða við 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga. Þá eru engin efni til að líta svo á að sökum ölvunar ákærða hafi verið þannig komið fyrir honum að uppfyllt séu þau ströngu skilyrði seinni málsliðar 17. gr. laganna, sem leitt geta til refsileysis.

Fyrir dómi kannaðist brotaþoli ekki við að ákærði hafi viðhaft þau ummæli sem getið er um í niðurlagi verknaðarlýsingar ákæru. Er ákærði því sýknaður af þeim sakargiftum.

IV

Ákærði er tæplega 28 ára gamall. Hann hefur ekki áður sætt refsingu. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Þykir eftir atvikum og einkanlega í ljósi sakaferils hans mega ákveða að fullnustu refsingarinnar skuli frestað og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

V

Með þeirri háttsemi sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér skyldu til að greiða brotaþola miskabætur, sbr. b. liður 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að því er varðar kröfu brotaþola um greiðslu bóta úr hendi ákærða verður að gæta að því að ekki liggja fyrir nein gögn um afleiðingar brotsins gagnvart henni. Þetta breytir því á hinn bóginn ekki að verknaður af því tagi sem hér um ræðir er ótvírætt til þess fallinn að hafa áhrif á andlega heilsu þess sem fyrir honum verður. Að þessu virtu og atvikum máls að öðru leyti eru bætur til brotaþola ákveðnar 250.000 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir. 

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

Þorgeir Ingi Njálsson, Bogi Hjálmtýsson og Jón Höskuldsson héraðsdómarar dæma mál þetta.

D ó m s o r ð

Ákærði, Matthías Magnússon, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.   

Ákærði greiði A 250.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. mars 2013 til 26. maí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.