Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-159

Reykjavíkurborg (Kristín Sólnes Lögmaður)
gegn
A (Haukur Freyr Axelsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Slysatrygging
  • Líkamstjón
  • Kjarasamningur
  • Málsástæða
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. desember 2022 leitar Reykjavíkurborg leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 11. nóvember sama ár í máli nr. 501/2021: A gegn Reykjavíkurborg. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu slysabóta vegna líkamstjóns úr hendi leyfisbeiðanda en ágreiningur aðila snýr að því hvort bótaréttur og uppgjör slyssins skuli fara eftir reglum nr. 1/90 um skilmála slysatryggingar starfsmanna leyfisbeiðanda vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi eða reglum nr. 2/90 vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs.

4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfu gagnaðila. Landsréttur féllst hins vegar á kröfuna og var leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða honum 5.699.867 krónur. Gagnaðili var starfsmaður leyfisbeiðanda og slasaðist á leið sinni yfir Ánanaust á grænu götuljósi þegar bifreið var ekið á hann. Hann var þá á leið heim til sín á venjulegri hlaupaleið sinni að loknum vinnudegi frá vinnustað sínum. Ágreiningslaust var að gagnaðili ætti tilkall til slysabóta úr hendi leyfisbeiðanda og höfðu honum þegar verið greiddar bætur á grundvelli reglna sem giltu um slys starfsmanna leyfisbeiðanda utan starfs. Í málinu var deilt um það hvort gagnaðili hefði verið á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis. Landsréttur taldi að leiðarval gagnaðila meðfram Sæbraut, fram hjá hafnarsvæðinu og að Ánanaustum gæti talist eðlileg hlaupaleið að áfangastað. Sú lykkja sem gagnaðili legði venjulega á leið sína vestur Seltjarnarnes og til baka að Hagamel hefði aftur á móti einungis þjónað þeim tilgangi að lengja hlaupaleiðina. Landsréttur taldi að eðlileg hlaupaleið gagnaðila heim til sín hefði legið yfir akveginn og áfram nokkurn spöl eftir göngustígnum og því bæri að leggja til grundvallar að hann hefði ennþá verið á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis. Þá féllst Landsréttur ekki á að sú málsástæða gagnaðila í greinargerð til Landsréttar, að hann hefði „í það minnsta enn verið á eðlilegri leið“ heim til sín þegar slysið varð, væri of seint fram komin, enda væri hún í eðlilegu samhengi við þá málsástæðu að slysið hefði orðið á eðlilegri leið heim frá vinnu og henni teflt fram sem andsvari við áherslum í héraðsdómi.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína um hvernig beri að túlka reglur um slysatryggingu starfsmanna. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að sambærilegar reglur gildi um slysatryggingar annarra starfsmanna á vinnumarkaði og hafi úrslit málsins því verulegt almennt gildi. Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að tjónþoli geti ekki talist hafa verið á eðlilegri leið frá vinnu að heimili sínu heldur hafi hann verið að sinna heilsurækt eða áhugamáli í sínum frítíma og ekki geti verið á forræði starfsmanna að útvíkka tryggingavernd einhliða og framlengja þannig þann tíma sem þeir fá notið verndar reglna um slysatryggingu í starfi. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi varðandi þýðingu útilokunarreglunnar í íslensku einkamálaréttarfari og vísar til þess að gagnaðili hafi ekki byggt á þeirri málsástæðu að hann hefði enn verið á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis er hann lenti í slysinu fyrr en í áfrýjunarstefnu og greinargerð til Landsréttar. Leyfisbeiðandi telur málsmeðferð fyrir Landsrétti stórlega ábótavant með vísan til niðurstöðu réttarins um framangreinda málsástæðu. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um það hvenær slysatryggður starfsmaður teljist vera á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.