Hæstiréttur íslands

Mál nr. 242/2007


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skilorð


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. október 2007.

Nr. 242/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

Arnari Inga Jónssyni

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Skilorð.

 

A var sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa tekið mynd á gsm-síma sinn af nafngreindri, nakinni stúlku án hennar vitneskju og að hafa síðar sýnt öðrum þessa mynd ásamt annarri mynd, er A sagði vera af kynfærum stúlkunnar. Með brotinu rauf hann skilorð dóms frá 26. janúar 2004. Í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga var eins mánaðar fangelsisrefsing samkvæmt þeim dómi tekið upp og dæmt með. Með hliðsjón af 77. gr. laganna og ungs aldurs A er brotið var framið var refsing hans ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Þar sem rannsókn málsins hafði dregist án þess að skýringar á því lægju fyrir þótti rétt að skilorðsbinda refsinguna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. apríl 2007. Hann krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

Í málinu er ákærða annars vegar gefið að sök að hafa á heimili sínu kvöldið 26. eða aðfararnótt 27. apríl 2004 tekið mynd á gsm-síma sinn af nafngreindri, nakinni stúlku án hennar vitneskju og að hafa nokkru síðar sýnt sjö karlmönnum og einni konu þessa mynd í símanum og hins vegar að hafa sýnt fjórum karlmönnum aðra mynd í sama síma af kynfærum konu, eins og nánar er lýst í ákæru, og sagt að myndin væri af stúlkunni. Ákærði viðurkennir að hafa tekið eina mynd af stúlkunni umrædda nótt með nafngreindum pilti en það hafi hann gert með samþykki beggja. Ákæruvaldið lýsti því yfir við aðalmeðferð málsins í héraði að ákæran lúti að töku þessarar myndar. Þá var komist að þeirri niðurstöðu í hinum áfrýjaða dómi að sannað væri með framburði vitna að ákærði hefði að minnsta kosti sýnt fimm karlmönnum og einni stúlku þessa mynd og að sannað væri með framburði sömu vitna að hann hefði einnig sýnt þeim aðra mynd er sýndi kynfæri konu og sagt að hún væri af umræddri stúlku. Með vísan til forsendna héraðsdóms ber að fallast á þessa niðurstöðu.

Fyrir héraðsdómi bar stúlkan að hún myndi lítið eftir dvöl sinni á heimili ákærða umrædda nótt sökum ölvunar, en hún hafi verið vakin klukkan átta eða níu morguninn eftir. Hún kvaðst ekki minnast þess að myndir hefðu verið teknar af henni en telja að það hlyti að hafa gerst meðan hún svaf ölvunarsvefni. Vitnið B, sem var viðstaddur myndatöku ákærða, kvað ákærða ekki hafa beðið um leyfi til hennar. Í framburði ákærða fyrir dómi kemur fram að hann hafi ekki beðið um leyfi til myndatökunnar heldur aðeins sagt að hann ætlaði að taka eina mynd og smellt af en stúlkan þá litið undan. Í samræmi við framangreint er ekki unnt að líta svo á að stúlkan hafi veitt samþykki sitt fyrir myndatökunni eins og ákærði vísar til í málsvörn sinni. Þá er upplýst með framburði vitna, sem sáu myndina sem ákærði er sakaður um að hafa tekið af stúlkunni og sýnt öðrum, að þar hafi mátt sjá að hún væri nakin, þótt sæng hafi hulið hana að hluta.

Með lostugu athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er átt við athöfn af kynferðislegum toga sem gengur skemmra en samræði og önnur kynferðismök. Hlutrænt séð og eins og aðstæðum var háttað í umrætt sinn verður að líta svo á að taka myndarinnar og eftirfarandi sýning hennar og annarrar myndar úr sama síma, er ákærði sagði vera af kynfærum stúlkunnar, hafi verið lostugt athæfi í skilningi ákvæðisins. Þá er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að þessi háttsemi ákærða hafi verið til þess fallin að særa blygðunarkennd stúlkunnar. Hefur ákærði því gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og unnið til refsingar samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga.

Með brotinu rauf ákærði skilorð eins mánaðar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra 26. janúar 2004, fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot. Verður það mál tekið upp og dæmt í einu lagi fyrir þessi brot, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af 77. gr. sömu laga og ungs aldurs ákærða er brotið var framið er refsing hans ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. 

Af gögnum málsins verður ráðið að rannsókn þess hjá lögreglu hafi legið niðri frá júlí 2004 en hafist aftur í maí 2005 er óskað var álitsgerðar um afleiðingar brotsins fyrir líðan stúlkunnar og síðan teknar skýrslur af þremur vitnum. Umbeðin álitsgerð barst lögreglunni 27. september 2005. Skýrsla var svo tekin af ákærða og einu vitni í desember sama ár og ákæra loks gefin út 22. febrúar 2006. Engin skýring hefur verið gefin á þessum drætti á rannsókn málsins. Með hliðsjón af þessu þykir rétt að skilorðsbinda refsingu ákærða eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði verður dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Arnar Ingi Jónsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, samtals 958.982 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Sigmundar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 373.500 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola í héraði, Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 28. mars 2007.

I

             Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 5. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara hinn 22. febrúar 2006 á hendur Arnari Inga Jónssyni fæddum 15. maí 1986, Grenihlíð 1, Sauðárkróki, „fyrir brot gegn blygðunarsemi A, kennitala [...], með því að hafa að kvöldi 26. apríl eða aðfaranótt 27. apríl 2004 á heimili sínu, tekið mynd á gsm síma sinn af A, án hennar vitneskju, þar sem hún lá nakin í rúmi ákærða og fyrir að hafa á næstu dögum sýnt sjö körlum og einni konu mynd þessa í símanum og sýnt fjórum körlum mynd í gsm síma sínum, sem ákærði sagði vera af A, en myndin sýndi kynfæri konu sem sett hafði verið vasaljós upp í.

             Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

             A krefst bóta að fjárhæð kr. 300.000 auk vaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 frá 26. apríl 2004 en dráttarvaxta samkvæmt sömu lögum frá 1. júní 2004 til greiðsludags.“

II

Málavextir

             Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að hinn 12. maí 2004 kom A á lögreglustöðina á Sauðárkróki og kvaðst vilja leggja fram kæru á hendur ákærða og félaga hans B. Hún kvaðst hafa heyrt fyrir um viku síðan að mynd af stúlku að nafni [...] væri til sýnis í gsm-síma ákærða en systir hennar hafi tjáð henni að þessi [...] væri hún sjálf. C, samnemandi systur hennar, hafi séð myndirnar og þekkt hana þar sem hún væri með tvö húðflúr. A kvaðst ekki hafa séð myndirnar en hún hafi heyrt talað um að þær væru af sér nakinni og að á einni myndinni sjáist í B. Í skýrslunni er ennfremur haft eftir A að ef það sé rétt að hún sjáist nakin á myndum þá sé það ekki með hennar vilja eða vitund og hún vilji að málið sé rannsakað og hinir seku látnir sæta refsingu auk þess sem myndirnar verði haldlagðar af lögreglu og eyðilagðar. Haft er eftir A að hún telji að hún hafi hitt ákærða og B að kvöldi mánudagsins 26. apríl. Hún hafi farið með þeim á rúntinn og hún og ákærði hafi neytt áfengis. Þá mundi hún til þess að þau þrjú hefðu farið heim til ákærða. Þá taldi hún að klukkan hafi verið milli 08 og 09 þegar hún kom heim til sín um morguninn.

             Næstu daga á eftir og til 27. maí eru teknar 9 lögregluskýrslur af ákærða og vitnum. Þá er tekin lögregluskýrsla af vitni hinn 24. maí 2005, af ákærða hinn 15. desember 2005 og loks ein vitnaskýrsla hinn 29. desember 2005.

III

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

             Ákærði kvaðst hafa verið á rúntinum með B í umrætt sinn. Þeir hafi hitt A og vinkonu hennar. Þeir hafi um stund farið í bílinn til þeirra. Síðan hafi A farið með þeim í bílinn til B og þau hafi haldið áfram að rúnta. Ákærði bar að A hafi byrjað að neyta áfengis eftir að hún kom í bílinn til þeirra en það hafi ekki verið mikið, kannski tveir bjórar og eitthvað lítilræði af sterku áfengi. Ákærði taldi að klukkan hafi verið nærri 06:00 þegar þau fóru öll heim til hans.

Ákærði kvaðst hafa tekið eina mynd á gsm-símann sinn af B og  A þar sem þau lágu í rúmi hans en mjög lítið hafi sést í A á þeirri mynd. Ákærði sagði að þau hafi bæði vitað af myndatökunni en A hafi snúið sér undan. Ákærði taldi það af og frá að A hafi sofið eða verið meðvitundarlaus þegar myndin var tekin, raunar hafi A ekki sofnað heima hjá honum í þetta sinn. Ákærði sagði að framburður B hjá lögreglu litaðist af því að hann væri að reyna að komast hjá sök í málinu og benti á að B hefði líka tekið mynd í umrætt sinn. Að sögn ákærða fóru þau aðeins á rúntinn eftir að hafa verið heima hjá honum og síðan hafi B ekið A heim.

Ákærði kannaðist ekki við að hafa sýnt nokkrum manni myndina sem hann tók en hann benti á að það væru meira en tvö og hálft ár liðið frá því að þetta gerðist og því myndi hann ekki eftir afburðum í smáatriðum. Aðspurður um framburð hjá lögreglu þar sem haft er eftir honum að hann hafi sýnt nafngreindum vitnum myndina þá kvaðst hann ekki hafa sýnt þær heldur hafi þeir í einhverjum gleðskap verið að skoða símann hans en hann hafi ekki sýnt neinum einhverjar myndir. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa gefið leyfi fyrir því að myndir í síma hans væru skoðaðar en hver sem er hefði getað komist í símann og skoðað það sem í honum var. Ákærði kvaðst ekki kannast við mynd með vasaljósi og neitar að hafa sýnt slíka mynd. Ákærði bar að hann hafi verið með mikið af alls konar myndum í símanum sínum og því væri ekki útilokað að svona mynd hafi verið þar en þá hafi hún ekki verið af A. 

             Vitnið A kvaðst muna eftir að hafa verið á rúntinum með vinkonu sinni og hún hafi neytt einhvers áfengis. Á þessum tíma hafi ákærði og B, en hún kannaðist við þá báða, líka verið að rúnta. Þeir hafi komið í bílinn til þeirra og síðar hafi hún farið með þeim í bíl B. Þar hafi hún drukkið meira áfengi, kannski þrjá til fjóra bjóra, og þá hafi hún líka drukkið eitthvað af sterku víni. Hún kvaðst ekki muna vel hversu mikið áfengi hún drakk en hún mundi að hún fann til áfengisáhrifa. Eftir að þau hættu að rúnta hafi þau öll farið heim til ákærða en þar hafi þau ætlað að sækja meira áfengi. Hún kvaðst reyndar ekki muna mikið eftir því hvað gerðist eftir að þau komu heim til ákærða og taldi hún það vera vegna áfengisáhrifa. Hún sagðist muna eftir því að hafa reykt eina sígarettu en varla annað fyrr en B vakti hana og sagði henni að það væri kominn dagur og henni hafi verið ekið heim. Vitnið mundi ekki eftir því að myndir hafi verið teknar af henni heima hjá ákærða. Þá kvaðst hún ekki muna til þess að eitthvað kynferðislegt hafi verið á milli hennar og drengjanna og var hún viss um að hún hefði ekki samþykkt slíkt. Hún bar hins vegar að það hefði ekki komið til greina af hennar hálfu að samþykkja að myndir væru teknar af henni fáklæddri. Hún kvaðst síðar hafa frétt af því að ákærði hefði tekið af henni einhverjar myndir. Þar sem hún hafi ekki vitað hvað hún ætti að gera vegna þessa hafi hún farið til lögreglu. Aðspurt kvaðst vitnið á þessum tíma hafa verið með tvö húðflúr á líkama sínum. Vitnið bar að mál þetta hafi haft slæm áhrif á hana andlega.

Vitnið B kvaðst ekki muna vel eftir atvikum þetta kvöld enda langt um liðið frá því að þetta gerðist. Hann bar að A hafi verið á rúntinum með vinkonu sinni en hann og ákærði hafi boðið henni að koma í bílinn til þeirra og það hafi hún gert. Þeir hafi verið með sex til átta bjóra í bílnum og A hafi drukkið megnið af þeim. Vitnið kvaðst ekki muna hvort eitthvað annað áfengi hefi verið drukkið í þetta sinn. Vitnið kvaðst ekki muna hvað klukkan var þegar þau fóru þrjú heim til ákærða. Vitnið kvaðst ekki muna vel hvað gerðist heima hjá ákærða en á einhverjum tímapunkti hafi hann farið út til að reykja og þar hafi hann hitt fyrir félaga sinn, vitnið D, og þeir hafi átt tal saman. Á meðan hafi ákærði og A verið í herbergi ákærða. Vitnið taldi að A hafi verið sofnuð þegar hann kom aftur í herbergi ákærða. Vitnið bar að ákærði hefði tekið eina mynd af sér og A saman. Ákærði hafi bara tekið símann sinn og sagt brostu eða eitthvað á þá leið og smellt af. Vitnið bar að ákærði hefði bæði sent og sýnt mörgum þessar myndir en hann hafi ekki séð þær. Vitnið kvaðst enga mynd hafa tekið þetta kvöld. Síðar um nóttina, eftir að hann var kominn heim, hafi ákærði hringt í hann og beðið hann um að aka A heim og það hafi hann gert. Þá kvaðst hann hafa farið út á sjó daginn eftir að þetta gerðist og því hafi hann ekki orðið vitni að því sem gerðist næstu daga.

             Vitnið E kvað langt um liðið frá því að hann sá myndir í síma ákærða en hvernig að sýningu þeirra var staðið mundi hann ekki glöggt en taldi að ákærði hefði sýnt sér myndirnar. Hann mundi ekki hversu margar myndirnar voru en þær hafi verið miður fallegar og verið af naktri stúlku sem virtist vera sofandi, taldi þó að þær hafi verið þrjár til fimm. Hann mundi ekki hvort einhverjir fleiri voru á myndunum. Eftir að vitninu hafði verið kynntur framburður hans hjá lögreglu kvað hann það vel geta verið að B hafi verið á einhverri myndanna. Hann kvað ákærða hafa reynt að senda honum þessa mynd í símann hans en það hafi ekki tekist. Vitnið bar að sig rámaði í að hafa séð mynd af kynfærum á stúlku og það hafi verið vasaljós inni í kynfærunum en þeirri mynd kvaðst hann ekki geta lýst nánar. Vitnið bar að það gæti vel verið rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að ákærði og B hefðu sagt honum að stúlkan á myndinni væri A. Raunar taldi vitnið að framburður hans hjá lögreglu væri réttur þótt hann myndi ekki eftir atvikum nú. Vitnið kvaðst ekki þekkja A.

             Vitnið F kvaðst hafa séð um það bil fjórar myndir í síma B í samkvæmi fyrir tveimur og hálfu ári. Hann minnti að hann hefði séð eina mynd af kvenmanni sem lá nakinn á rúmi. Ekki hafi verið hægt að sjá hver þetta var en B, sem sýndi honum myndirnar, hafi sagt honum að þær væru af A. Hann kvaðst einungis muna eftir þessari einu mynd en bar jafnframt að myndirnar hafi ekki verið skýrar. Vitnið kvaðst hafa eytt myndunum úr símanum þar sem honum hafi ekki þótt viðeigandi að það væri verið að sýna svona myndir. Vitnið bar að myndirnar hafi verið óskýrar. Þegar vitninu var kynnt að hjá lögreglu hefði hann sagt að myndirnar hefðu verið í síma ákærða kvað hann hugsanlegt að sig misminnti nú. Raunar taldi vitnið líklegt að framburður hans hjá lögreglu væri réttur, enda hafi sú skýrsla verið gefin rétt eftir að atvik máls áttu sér stað.

Vitnið D kvaðst vera góður vinur ákærða. Hann bar að hann hefði séð tvær eða þrjár myndir í síma ákærða en hvernig það kom til að hann sá þær mundi hann ekki en þessar myndir hefðu borist í tal á milli þeirra. Hann staðfesti þó það sem eftir honum var haft í lögregluskýrslu en þar kom fram að ákærði hefði sýnt honum myndirnar en þær hafi verið af A. Vitnið bar að það hafi greinilega sést að A var ber að ofan en hún hafi snúið til hliðar. Vitnið mundi ekki eftir mynd með vasaljósi og rámaði ekki í slíkt. Eftir að vitninu var kynnt að í lögregluskýrslu væri haft eftir honum ,,Arnar sýndi okkur mynd af kvenmannsklofi með vasaljósi í leggöngum, hann var hlæjandi og fannst þetta rosalega sniðugt, hann sagði þetta væri mynd af A“ þá kvaðst hann muna eftir þessu og bar að í skýrslu lögreglu væri rétt eftir sér haft. Þá kvað hann líka rétt í skýrslunni að ákærði hefði sýnt honum þetta vasaljós en hann kvaðst ekki muna eftir vasaljósinu.

             Vitnið G kvaðst hafa verið á rúntinum með vitninu H. Hann kvað ákærða hafa komið til þeirra og viljað sýna þeim einhverjar myndir sem voru í símanum hans. Hann hafi rétt þeim símann og þar hafi verið fimm til sex myndir af ,,þessari stelpu A“ Á meðal myndanna hafi verið myndir af A og B og þá hafi líka verið mynd af kynfærum. Hann kvaðst ekki geta lýst myndinni sem B var á en kvað þó að A hafi verið nakin á myndinni. Vitnið bar að það hafi mátt þekkja A á myndunum. Vitnið bar að ákærði hefði sagt þeim hver væri á myndunum ella hefði hann ekki vitað af hvaða stúlku myndirnar voru. Þá hafi þær allar verið teknar við sömu aðstæður en hann kvaðst ekki geta lýst myndunum nánar, þó hafi þarna verið mynd af kynfærum og vasaljósi. Vitnið kvaðst geta fullyrt að ákærði sýndi þeim myndirnar.

             Vitnið I kvaðst hafa séð myndir í síma ákærða. Þeir hafi verið í samkvæmi og þar hafi ákærði sýnt honum þessar myndir með því að rétta honum símann. Hann kvaðst nokkuð viss um að ákærði hafi sýnt honum þessar myndir. Vitnið kvaðst hafa séð mynd af stúlku liggjandi á bakinu með vasaljós í leggöngunum en það hafi ekki sést í andlitið á henni. Þá hélt vitnið að á annarri mynd hafi þetta sama sést auk þess sem þar hafi mátt sjá B á myndinni. Hann kvaðst þó ekki vera viss um þetta. Vitnið kvað ákærða hafa sagt að stúlkan á myndunum væri A en það hafi ekki sést í andlitið á stúlkunni á myndunum. Vitnið taldi að ákærði hefði greint sér frá því að hann hefði tekið þessar myndir. Vitnið kvaðst hafa verið töluvert undir áhrifum áfengis þegar þetta gerðist.

             Vitni J kvaðst hafa verið á rúntinum með A þetta kvöld. Hún kvað A hafa drukkið eitthvað af áfengi fyrr þennan dag en hún vissi ekki hversu mikið. Þær hafi hitt ákærða og B og þeir hafi komið í bílinn hennar um stund. Síðan hafi A farið með þeim og taldi vitnið hana hafa ætlað að verða sér úti um meira áfengi hjá þeim félögum.

Vitnið C kvaðst hafa verið heima hjá ákærða ásamt fleiri krökkum þegar hann sýndi henni myndir sem voru í símanum hans. Vitnið kvað ákærða hafa rétt sér símann. Í fyrstu hafi hún ekki séð hver var á myndunum en henni hafi verið sagt hver það væri og þá hafi hún einnig séð að þetta var A vegna þess að hún sá húðflúr sem hún vissi að A var með. Myndirnar hafi verið þrjár eða fjórar. Eftirminnilegasta myndin hafi verið af kvenmannsklofi með svörtu vasaljósi uppi í kynfærunum en á þeirri mynd hafi ekki sést í andlitið á stúlkunni. Vitnið kvaðst hafa séð vasaljósið í herbergi ákærða. Á annarri mynd hafi mátt sjá húðflúr á baki stúlku og þess vegna hafi hún vitað að það var mynd af A. Vitnið kvaðst muna eftir því að B hafi sagt að ákærði hefði tekið myndirnar og þá hafi B og ákærði talað um að myndirnar væru af A.

             Vitnið H kvaðst hafa verið á planinu fyrir utan Kaupfélag Skagfirðinga ásamt G þegar til þeirra komu ákærði og B. Þeir hafi talað um að þeir ættu myndir af A þar sem þeir hefðu verið að leika sér með henni um nóttina og í framhaldi af því hafi þeir sýnt þeim u.þ.b. fimm myndir og í raun megi segja að þeir hafi báðir verið að gorta sig af þessu. Að sögn vitnisins voru þeir að státa sig af því að hún hefði verið sofandi. Vitnið bar að ákærði og B hefðu sagt að A hafi sofið ölvunarsvefni á þessum tíma. Vitnið greindi frá því að ákærði hefði rétt sér símann í þetta sinn. Vitnið kvaðst muna eftir einni mynd þar sem A lá á rúmi og snéri baki í myndavélina en á þeirri mynd hafi B verið líka. Þá kvaðst vitnið muna eftir mynd þar sem vasaljós var við klof en á þeirri mynd hafi ekki sést andlit. Vitnið kvað myndirnar hafa verið teknar á sama tíma því rúmföt og annað hafi verið eins á þeim öllum.

Vitnið K bar að A hefði leitað til sín í febrúar  2005. Hún kvað A hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en það sé mikill streituvaldur og valdi mikilli vanlíðan. Hún hafi unnið í því með A að koma henni í gegnum þetta áfall sem komi til með að fylgja henni áfram. Raunar hafi þær tekið á öðrum málum A líka.

IV

Niðurstaða

             Við lestur ákærunnar verður ekki annað ráðið en ákærða sé gert að sök að hafa tekið eina mynd af A með gsm-síma sínum án hennar vitneskju að kvöldi 26. apríl 2004 eða aðfaranótt 27. apríl 2004 og að hann hafi síðan á næstu dögum sýnt sjö körlum og einni konu þessa mynd. Þá er honum gefið að sök að hafa sýnt fjórum körlum mynd af kynfærum konu sem vasaljós hafði verið sett upp í og að hann hafi jafnframt haldið því fram að þessi mynd væri af A. Hins vegar er hann ekki ákærður fyrir að hafa tekið þessa mynd og þá er því ekki haldið fram að myndin sé af kynfærum A. Takmarkast sakarefni málsins við þessa lýsingu þrátt fyrir að öll vitnin hafi greint frá því að ákærði hafi sýnt þeim fleiri en eina mynd af A. Við aðalmeðferð málsins lýsti sækjandi því að myndin sem ákært er út af hafi verið myndin þar sem vitnið B sést ásamt stúlku sem snýr baki í myndavélina. Af hálfu ákærða var ekki gerð athugasemd við þessa lýsingu sækjanda.

Ákærði hefur neitað sök. Hann hefur þó viðurkennt að hafa tekið eina mynd af A og B saman en það hafi hann gert með samþykki þeirra. Að framan er rakinn framburður vitna sem komu fyrir dóminn. Þau eru flest sammála um að ákærði hafi sýnt þeim myndir af A þótt framburður þeirra sé nokkuð misvísandi um fjölda myndanna sem sýndar voru og hvað nákvæmlega var á þeim. Með framburði vitna þykir fram komin lögfull sönnun um að ákærði hafi sýnt a.m.k. fimm körlum og einni stúlku mynd í síma sínum og að á þeirri mynd hafi mátt þekkja A. Þá hafa þessi vitni líka borið að ákærði hafi sýnt þeim mynd af kynfærum konu þar sem vasaljós hafði verið sett upp í og ákærði hafi sagt að þessi mynd væri af A. Með framburði vitna telst þetta einnig sannað.

             Brot ákærða er talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að mati dómsins er óumdeilt að háttsemi ákærða var til þess fallin að særa blygðunarsemi A. Til þess að unnt sé að sakfella ákærða fyrir brot á nefndri 209. gr. þarf háttsemin að vera lostug af hans hálfu. Í greinargerð með frumvarpi til breytingar á almennum hegningarlögum sem varð að lögum nr. 40/1992 segir svo m.a. svo: ,,Af nýjum sérákvæðum í 200.--202. gr., sbr. 8.--10. gr. frumvarpsins um kynferðislega áreitni, leiðir hins vegar að undir 209. gr. fellur nú fyrst og fremst ýmiss konar háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, klúrt orðbragð í síma.“ Þetta bendir ótvírætt til þess að með lostugu athæfi sé átt við háttsemi af kynferðislegum toga sem er til þess fallin að veita þeim sem slíka háttsemi hefur í frammi einhverja kynferðislega fullnægju. Ekkert bendir til þess að svo hafi verið í tilfelli ákærða. Eru því ekki efni til að sakfella hann fyrir brot gegn nefndri 209. gr. almennra hegningarlaga.

             Að þessari niðurstöðu fenginni ber að vísa bótakröfum A frá dómi.

             Með vísan til 166. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að greiða allan sakarkostnað úr ríkissjóði. Samkvæmt yfirliti rannsóknara nam sakarkostnaður við rannsókn málsins samtals 104.025 krónum. Einnig telst til sakarkostnaðar ferðakostnaður verjanda ákærða, samtals að fjárhæð 81.572 krónur. Málsvarnarlaun Sigmundar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 373.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, teljast til sakarkostnaðar svo og 124.500 króna þóknun Stefáns Ólafssonar, réttargæslumanns A, en þóknunin innifelur virðisaukaskatt. Við ákvörðun málsvarnarlauna verjanda hefur verið tekið tillit til þess tíma sem fór í ferðalög hans vegna meðferðar málsins fyrir dóminum.

             Meðferð málsins hjá lögreglu hefur dregist úr hófi fram án þess að nokkur tilraun hafi verið gerð til að skýra þann drátt. Atvik máls áttu sér stað í lok apríl 2004 og skýrslutökum af vitnum lauk í lok maí 2004 þótt ein vitnaskýrsla hafi verið tekin ári síðar. Ákæra barst ekki dóminum fyrr en um miðjan september 2006.

             Af hálfu ákæruvalds sótti málið Birkir Már Magnússon, fulltrúi lögreglustjórans á Sauðárkróki.

             Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna veikinda dómarans. Sakflytjendur telja ekki þörf á endurflutningi.

 

DÓMSORÐ

             Ákærði, Arnar Ingi Jónsson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

             Allur sakarkostnaður að fjárhæð 683.597 krónur, þar með talin 373.500 króna málsvarnarlaun Sigmundar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns og 124.500 króna þóknun Stefáns Ólafssonar héraðsdómslögmanns, greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun verjanda og þóknun réttargæslumanns innifela virðisaukaskatt.

             Bótakröfu A er vísað frá dómi.