Hæstiréttur íslands

Mál nr. 641/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


Fimmtudaginn 3. október 2013.

Nr. 641/2013.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Litháen var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2013, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðherra 22. ágúst sama ár um að framselja varnaraðila til Litháen. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2013.

Með bréfi ríkissaksóknara 6. september 2013, var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu varnaraðila um að úrskurðað yrði um það hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi vegna ákvörðunar innanríkisráðuneytisins 22. ágúst 2013, um að fallast á beiðni litháískra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila til Litháen. Er í þessu efni vísað til II. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar á ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 22. ágúst 2013, um að framselja varnaraðila til Litháen.

Varnaraðili krefst þess að framsalskröfunni verði hafnað. Þá er krafist réttargæsluþóknunar úr ríkissjóði að mati dómsins.

I.

Með bréfi sendiráðs Litháens í Danmörku 6. maí 2013 barst utanríkisráðuneytinu framsalsbeiðni frá embætti ríkissaksóknara í Litháen frá 9. apríl 2013 og var sú beiðni framsend innanríkisráðuneytinu þann 8. maí 2013. Samkvæmt beiðninni og gögnum er henni fylgdu var framsals varnaraðila beiðst vegna gruns um refsiverða háttsemi.

1.     Var varnaraðili grunaður um að hafa þann 13. ágúst 2005 á [...]-götu í [...], á svæði [...] [...], ásamt tveimur nafngreindum mönnum og einum ókunnum til viðbótar, ráðist með ofbeldi að A, með því að slá hann höggum í líkama og þannig haft af honum peningaveski sem innihélt 800 LTL.

2.     Einnig er hann grunaður um að hafa síðar sama dag, 13. ágúst 2005 og á sama stað, á svæði [...] [...], sparkað í bifreið af gerðinni BMW 520 og valdið eignaspjöllum á henni. Var háttsemi heimfærð undir 1. mgr. 180. gr. og 1. mgr. 284. gr. litháískra hegningarlaga.

Með framsalsbeiðninni fylgir handtökuskipun dómara við héraðsdóm í [...], dagsett 30. október 2012, og kemur þar fram að með vísan til sönnunargagna sem aflað hafi verið í málinu megi ætla að varnaraðili hafi framið þau brot sem hann er grunaður um.

Áður en framsalsbeiðnin barst, eða þann 3. apríl 2013, var tekin skýrsla af varnaraðila hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna eftirlýsingar lítháískra yfirvalda til handtöku varnaraðila með framsal í huga.

Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 3. maí 2013. Aðspurður kvað varnaraðili framsalsbeiðnina eiga við sig en mótmælti framsali. Hann kvað verknaðarlýsinguna á ráninu ekki rétta, og sagði rangt að hann hefði ráðist að umræddum manni með ofbeldi og tekið af honum peningaveski. Um ryskingar og slagsmál hafi verið að ræða. Játaði hann eignaspjöllin. Var varnaraðila kynnt efni 7. gr. laga nr. 13/1984 og lýsti hann persónulegum aðstæðum sínum hér á landi.

Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals, dagsett 31. maí 2013. Voru skilyrði laga nr. 13/1984 talin uppfyllt að því er varðaði ætlað rán, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 3. gr. og 9. gr. laganna, en vegna fyrningar töldust skilryðin ekki uppfyllt að því er varðaði ætluð eignaspjöll.

Tók innanríkisráðuneytið ákvörðun í málinu með bréfi til ríkissaksóknara dagsett 22. ágúst 2013. Fram kemur í forsendum ráðuneytisins að heildstætt mat hafi verið lagt á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða mannúðarákvæðis 7. gr. framsalslaga nr. 13/1984 en að mati ráðuneytisins þóttu ekki nægilegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli umrædds ákvæðis. Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila þann 26. ágúst 2013 við fyrirtöku kröfu um áframhaldandi farbann hans vegna máls þessa í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þann sama dag krafðist varnaraðili úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984.

Varnaraðili sætir farbanni vegna málsins til 21. október nk. kl. 16.00.

II.

Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili sem er litháískur ríkisborgari, sé grunaður um refsiverða háttsemi í heimalandi sínu. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 sé heimilt að framselja mann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Skilyrði framsals samkvæmt 1. mgr. 3. gr. framsalslaga sé að verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Sú háttsemi sem varnaraðili sé grunaður um myndi varða við 252. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot gegn ránsákvæðinu varði fangelsi ekki skemur en 6 mánuði og allt að 10 árum, en allt að 16 árum hafi mikil hætta verið samfara. Brot gegn eignaspjallaákvæðinu varði sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Aðeins sé heimilt að framselja mann til meðferðar máls ef tekin hafi verið ákvörðun í ríki framsalsbeiðanda um að viðkomandi skuli handtekinn eða fangelsaður fyrir viðkomandi verknað, sbr. 2. mgr. 3. gr. framsalslaga. Í málinu liggi fyrir handtökuskipun dómara frá 30. október 2012. Engin gögn séu fram komin í málinu sem leiða til þess að rökstudd ástæða sé til að ætla að grunur um refsiverða hátsemi þyki ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun eða refsiverða háttsemi, sbr. 5. mgr. 3. gr. framsalslaga. Í 9. gr. framsalslaga sé kveðið á um að framsal sé óheimilt ef sök eða dæmd refsing sé fyrnd eða að öðru leyti fallin niður samkvæmt íslenskum lögum. Sökin sé ófyrnd að því er varði ætlað rán, sbr. 3. tl. 1. mgr. 83. gr., sbr. 4. og 5. mgr. 82. gr. hegningarlaga.

Með vísan til þessa teljist efnisskilyrði framsals uppfyllt að því er varðar ætlað rán varnaraðila en vegna fyrningar teljast skilyrði framsals ekki uppfyllt að því er varðar ætluð eignaspjöll.

III.

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi komið til Íslands í atvinnuleit í maí árið 2006.  Eigi varnaraðili enga ættingja hér á landi, en fyrrverandi sambýliskona og sonur þeirra tíu ára búi í [...].  Frá komu sinni til Íslands hafi varnaraðili unnið á nokkrum vinnustöðum, jafnframt sem hann hafi einnig notið atvinnuleysisbóta að einhverju marki og sé það staðan í dag hjá varnaraðila.  Eftir megni sendi varnaraðili fé til barnsmóður sinnar í [...].

Samkvæmt framsalsbeiðni litháískra yfirvalda þá grundvallist beiðni þeirra á grun um refsiverða háttsemi varnaraðila þann 13. ágúst 2005 í Litháen.  Sé varnaraðili sakaður um að hafa í greint sinn, ásamt fleiri aðilum, tekið þátt í líkamsárás gegn einstaklingi og tekið af sama aðila peningaveski.  Sama dag hafi hann einnig valdið viljandi skemmdum á BMW 520 bifreið með því að sparka í bifreiðina.

Aðspurður af lögreglunni á Íslandi, þá hafi varnaraðili kannast við þessar ásakanir í sinn garð.  Við yfirheyrslur hjá lögreglunni í Litháen hafi varnaraðili játað að hafa valdið skemmdum á bifreiðinni, en neitað sök að öðru leyti.  Sá einstaklingur sem beri varnaraðila þeim sökum að hafa valdið sér meiðingum hafi átt upptökin að slagsmálum sem brutust út milli varnaraðili og vina hans annars vegar og hins vegar þessa einstaklings.  Hafi einstaklingurinn hlotið áverka í þessari rimmu, sem og aðrir sem í henni lentu.  Þá kannist varnaraðili ekki við að hann eða vinir hans hafi rænt manninn veski.  Telji varnaraðili að maðurinn sé að bera fram rangar sakargiftir hvað það varðar.

Frá því að atvik gerðust þá séu um átta ár liðin, en þá hafi varnaraðili verið rétt um 21 árs gamall.  Fram að þessu atviki þá hafi varnaraðili ekki komizt í kast við lögin í Litháen. Þá vekji varnaraðili athygli á því að skemmdirnar á bifreiðinni hafi verið metnar á ca. 47.500 krónur. Varðandi ásakanir á hendur varnaraðila um líkamsmeiðingar og rán, þá vekji varnaraðili athygli á því að ekki komi fram í framsalsgögnum frá Litháen umfang áverka meints fórnarlambs.  Þeirri spurningu sé því ósvarað hvort meint brot heimfærist undir 217. gr. laga nr. 19/1940 eða 218.gr., sem geti skipt máli varðandi refsiramma. Ekkert læknisvottorð hafi fylgt framsalsbeiðni.  Hvað varði meint rán þá beri meint fórnarlamb því við að í veskinu hafi verið andvirði 37.500 krónur. Samtals sé því um að ræða fjárhagslega hagsmuni hugsanlega upp á 85.000 krónur sé horft framhjá meintum líkamsmeiðingum sem engin sönnun sé fyrir.

Varnaraðili hafi yfirgefið Litháen og komið til Íslands í góðri trú, þ.e. hann hafi ekki verið að flýja réttvísina í Lithaáen.  Honum hafi ekki verið kunnugt um að hann væri eftirlýstur af litháískum yfirvöldum og hann hafi ekki farið huldu höfði á Íslandi.

Mótmæli varnaraðila við framsalsbeiðni litháískra yfirvalda byggist m.a. á því að hagsmunir varnaraðila á því að vera ekki framseldur séu ríkari en hagsmunir litháískra yfirvalda að fá hann framseldan.  Telji varnaraðili að hinum virðulega rétti beri, þegar hann tekur ákvörðun í málinu, að vega og meta þessa hagsmuni.  Aðstæður varnaraðila séu þannig að hann hafi verið búsettur á Íslandi í rétt rúm sjö ár  og hafi stundað hér vinnu.  Hann eigi tíu ára dreng, sem búi í [..], og sem hann sendi fé til.  Framsal nú myndi raska aðstæðum varnaraðila allverulega  og hljóti það að vega þyngra en hagsmunir litháískra yfirvalda að fá varnaraðila framseldan vegna gamalla meintra afbrota og lítilla fjárhagslegra hagsmuna. Við ákvarðanir sínar beri innanríkisráðuneytinu, sem og öðrum stjórnvöldum að gæta meðalhófs og þá þannig að ákvarðanir er varði einstaklinga verði ekki meira íþyngjandi en tilefni sé til.  Telji varnaraðili að meðalhófs hafi ekki verið gætt þegar ráðuneytið tók ákvörðun um að fallast á framsalsbeiðni litháískra yfirvalda.  Með vísan til framangreinds, svo og til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri að hafna framkominni framsalskröfu og ákvarða réttargæzlumanni varnaraðila þóknun úr hendi ríkissjóðs.

Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga nr. 13/1984 og til 12. gr. laga nr. 37/1993.

IV.

Í 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum kemur fram að þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sé heimilt að framselja samkvæmt lögunum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er framsl á manni aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. 

Svo sem að framan er rakið hafa dómsmálayfirvöld í Litháen krafist framsals á varnaraðila vegna gruns um refsiverða háttsemi og meðferðar sakamáls en með framsalsbeiðninni fylgir einnig handtökuskipun dómara við héraðsdóm í [...], frá 30. október 2012, þar sem fram kemur að með vísan til sönnunargagna sem aflað hafi verið í málinu megi ætla að varnaraðili hafi framið þau brot sem hann er grunaður um. Sú háttsemi varnaraðila sem honum er gefin að sök í heimalandi sínu myndi hér á landi varða við 252. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við slíkum brotum liggur fangelsi ekki skemur en 6 mánuðir og allt að 10 árum, en hafi mikil hætta verið samfara ráninu, getur refsingin þó orðið allt að 16 ára fangelsi. Brot gegn eignaspjallaákvæðinu varðar sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 girðir ekki fyrir framsal á varnaraðila  að því er varðar grun um brot gegn 252. gr. laga nr. 19/1940. Samkvæmt gögnum málsins var gefin út handtökuskipun af héraðsdóminum í [...] þann 30. október 2012 vegna meintra brota varnaraðila sem sögð eru hafa átt sér stað þann 13. ágúst 2005. Samkvæmt þessu teljast skilyrðin til framsals ekki uppfyllt að því er varðar ætluð brot um eignaspjöll en á hinn bóginn teljast skilyrði laga nr. 13/1984 uppfyllt að því er varðar ætlað rán, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 3. gr. og 9. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili eftirlýstur á Schengen svæðinu þann 25. janúar 2013 og óskað eftir því að hann yrði handtekinn vegna brotanna sem sögð eru hafa átt sér stað árið 2005. Samkvæmt því stendur fyrning sakar ekki í vegi fyrir framsali.

Innanríkisráðuneytið hefur í ákvörðun sinni frá 22. ágúst 2013 metið annars vegar hagsmuni litháískra yfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan með tilliti til grófleika brotsins sem beiðnin er reist á og hversu langt er um liðið síðan það var framið og hins vegar hagsmuna varnaraðila af því að synjað verði um framsal. Verður ekki annað séð en að það mat hafi verið framkvæmt með réttum og málefnalegum hætti. Verður við því mati ekki hróflað í máli þessu.

Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila úr ríkissjóði og með hliðsjón af umfangi málsins þykir þóknun réttargæslumanns, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hæfilega ákveðin 175.700 krónur.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun innanríkisráðherra frá 22. ágúst 2013, um að framselja varnaraðila, X, kt. [...], til Litháen, er staðfest.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólf Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 175.700 krónur, greiðist úr ríkissjóði.