Hæstiréttur íslands
Mál nr. 305/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Sakarauki
- Framhaldssök
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 14. maí 2014. |
|
Nr. 305/2014.
|
Ægisgata 5, húsfélag (Magnús Björn Brynjólfsson hrl.) gegn Reynaldi Jónssyni Vátryggingafélagi Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson hrl.) Orra Árnasyni Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) Benedikt Skarphéðinssyni Þráni Karlssyni Tryggingamiðstöðinni hf. og (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Sakarauki. Framhaldssök. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi framhaldssök og sakaukasök Æ á hendur RJ o.fl., sökum þess að skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 19. gr. sömu laga væru ekki uppfyllt, svo og að þeir annmarkar væru á stefnu að ekki væri heldur fullnægt 1. mgr. 80. gr. laganna. Æ hafði höfðað skaðabótamál vegna tjóns sem varð á nýbyggingu í óveðri í Reykjavík í desember 2007 og var framhalds- og sakaukasök reist á því að Æ hefði vanmetið tjón sitt við málshöfðun aðalsakar. Í sakaukasök hafði Æ uppi auknar kröfur á hendur byggingarstjóra og ábyrgðartryggjanda hans, RJ og V hf., en í framhaldssök gerði hann kröfur á hendur húsasmíðameistara og ábyrgðartryggjanda hans, O og S hf., verkfræðingum sem komu að hönnun hússins og ábyrgðartryggjanda þeirra, B, Þ og T, og loks hlutaðeigandi sveitarfélagi, R.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. apríl 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2014, þar sem vísað var frá dómi framhaldssök og sakaukasök sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið í heild til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast hver fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ægisgata 5, húsfélag, greiði varnaraðilunum Reynaldi Jónssyni, Vátryggingafélagi Íslands hf., Orra Árnasyni og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hverjum fyrir sig 150.000 krónur í kærumálskostnað, Benedikt Skarphéðinssyni, Þráni Karlssyni og Tryggingamiðstöðinni hf. hverjum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað og Reykjavíkurborg 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2014.
Mál þetta, sem flutt var um frávísunarkröfur framhaldsstefndu og tekið var til úrskurðar þann 18. mars 2014, var í frumsök höfðað af Húsfélaginu Ægisgötu 5, Reykjavík, með stefnu útgefinni 24. ágúst 2011 á hendur Reynaldi Jónssyni, Þrastarlundi 18, 210 Garðabæ, persónulega og fyrir hönd Búafls ehf., Þrastarlundi 18, Garðabæ og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, 108 Reykjavík, til réttargæslu.
I.
Stefnandi krafðist þess í frumsök að framhaldsstefndi Reynald Jónsson, hér eftir nefndur stefndi Reynald, og Búafl ehf. yrðu sameiginlega dæmdir til að greiða 4.051.905 kr. með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20.12.2007 til 23.3.2011 en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags og að stefndu, Reynald Jónsson og Búafl ehf. yrðu sameiginlega dæmdir bótaskyldir fyrir tjóni vegna þess að handrið vantaði á vegg með fram innkeyrslu í bílageymslu við húseignina nr. 5 við Ægisgötu, Reykjavík, sem fram kemur á samþykktum teikningum byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 1.2.2005, og vinnuteikningum framhaldsstefnda, Orra Árnasonar arkitekts, hér eftir nefndur stefndi Orri Árnason, dags. 6.12.2004. Stefnandi hefur fallið frá kröfum á hendur stefnda Búafli ehf. þar sem fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota þann 8.9.2011 og skiptum lauk þann 30.3.2013.
Stefnandi krafðist málskostnaðar að skaðlausu skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi stefnanda ásamt virðisaukaskatti eða samkvæmt mati dómsins.
Stefndi Reynald Jónsson krafðist aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að fjárkrafa stefnanda yrði lækkuð verulega og að hann yrði sýknaður að svo stöddu af viðurkenningarkröfu stefnanda. Í báðum tilvikum krafðist stefndi Reynald málskostnaðar eftir mati dómsins.
Réttargæslustefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., gerði engar kröfur í málinu enda engum kröfum að honum beint.
Af hálfu stefnda Búafls ehf. var ekki sótt dómþing, en stefndi var tekinn til gjaldþrotaskipta 8. september 2011 eins og áður er rakið.
Með framhaldsstefnu útgefinni 28. október 2013 stefndi stefnandi, Húsfélagið Ægisgötu 5, Reynaldi Jónssyni, Þrastarlundi 18, 210 Garðabæ, og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu vegna Reynalds, Orra Árnasonar, Laugavegi 39, 101 Reykjavík, og Sjóvá hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu vegna Orra Árnasonar, Benedikt Skarphéðinssyni, Frostaskjóli 87, Reykjavík, Þráni Karlssyni, Hjallalandi 8, Reykjavík, og Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, til réttargæslu vegna Benedikts Skarphéðinssonar og Þráins Karlssonar, og Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu við Tjörnina í Reykjavík.
Framhaldsstefnandi, hér eftir nefndur stefnandi, krefst þess að stefndi Reynald Jónsson verði dæmdur til að greiða 13.654.450 kr. með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20.12.2007 til 10.3.2012; en dráttarvexti skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim tíma til greiðsludags.
Þess er og krafist af hálfu stefnanda að dómurinn viðurkenni að starfsábyrgðartrygging stefnda, Reynalds, hjá framhaldsstefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu verði miðuð við byggingarvísitölu 229,8 stig til 579,0 stiga (des. 2012), sem er sá tími er endanlegt tjón var staðreynt. Þá krefst stefnandi þess að framhaldssök verði sameinuð aðalsök í héraðsdómsmálinu nr. E-3891/2011.
Stefnandi krefst þess að aðrir framhaldsstefndu, þeir Orri Árnason, Benedikt Skarphéðinsson, Þráinn Karlsson og Reykjavíkurborg, hér eftir nefndir stefndu, verði sameiginlega (in solidum) dæmdir bótaskyldir fyrir öllu tjóni á burðarvirki glerhjúps og glerhjúp á Ægisgötu 5, Reykjavík. Er þess krafist að framhaldsstefna þessi verði sameinuð aðalmáli nr. E-3891/2011.
Stefnandi krefst málskostnaðar af öllum stefndu að skaðlausu skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi stefnanda ásamt virðisaukaskatti eða samkvæmt mati dómsins.
Stefndi í framhaldssök, Reynald, gerir aðallega kröfu um að málinu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum framhaldsstefnanda og til þrautavara að kröfur hans verði lækkaðar til muna. Í öllum tilvikum krefst framhaldsstefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Réttargæslustefndi í framhaldssök, Vátryggingafélag Íslands hf., gerir ekki aðrar kröfur en um málskostnað í málinu enda sé engum kröfum að honum beint. Réttargæslustefndi tekur undir allar kröfur réttargæslustefnda Reynalds.
Stefndi í framhaldssök, Orri Árnason, og stefndi í framhaldssök til réttargæslu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., gera þær dómkröfur að máli þessu verði vísað frá dómi hvað þá varðar og að þeim verði tildæmdur málskostnaður.
Stefndi í framhaldssök, Reykjavíkurborg, gerir þá kröfu aðallega að kröfum á hendur sér verði vísað frá dómi, en til vara að verða sýknaður af dómkröfum stefnanda.
Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
II.
Málsatvik
Byggingarleyfi fyrir nýbygginguna Ægisgötu 5 var gefið út af stefnda Reykjavíkurborg 9. júní 2004. Byggjandi var stefndi Búafl ehf., aðalhönnuður var stefndi Orri Árnason, húsasmíðameistari og byggingarstjóri Ægisgötu 5 var stefndi Reynald Jónsson sem jafnframt var framkvæmdastjóri stefnda Búafls ehf. Stefndi Búafl ehf. var á byggingartíma fasteignarinnar með lögboðna starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hjá réttargæslu stefnda Vátryggingafélagi Íslands og tók sú trygging til verka stefnda Reynalds sem byggingarstjóra á verkum sem stefndi Búafl ehf. vann að og lauk störfum hans við bygginguna við útgáfu vottorðs um lokaúttekt þann 15. október 2006. Verfræðistofa Þráins og Benedikts ehf. stefndi í framhaldssök, tók að sér verkfræðihönnun ákveðinna verkþátta, þ.e. burðarþols sökkuls, platna, þaks og veggja ásamt hönnun vatns- og skolplagna. Enginn skriflegur samningur var gerður um verkfræðihönnunina en verkfræðistofan vann verk sitt á kostnað húsbyggjandans á grundvelli teikninga aðalhönnuðar (arkitekts) sem verkfræðistofunni bárust ýmist frá byggjanda hússins eða arkitekt. Allir þeir verkþættir sem verkfræðistofan vann voru teknir út af starfsmönnum embættis byggingarfulltrúa framhaldsstefnda Reykjavíkurborgar.
Vottorð um lokaúttekt var gefið út af byggingarfulltrúa 15. október 2006.
Sunnan megin á fasteigninni Ægisgötu 5 eru miklir glerveggir, hert þykkt gler, sem liggur fram og upp með tröppum, lyftuhúsi og svölum íbúða. Glerhandrið og/eða glerkápa þessi er uppsett með fram öllum inngöngum í íbúðir að sunnanverðu á húsinu. Dagana 13. og 14. desember 2007 og næstu daga á eftir gerði mikið óveður í Reykjavík og gekk umrætt gler til, skemmdist og brotnaði.
Fljótlega eftir óveðrið fékk stefnandi húsasmíðameistara til að framkvæma bráðabirgðaviðgerð á svalahandriðum og glerveggjum hússins og greiddi fyrir þá viðgerð 61.225 kr. þann 3. janúar 2008. Stefnandi leitaði síðan eftir tilboðum í viðgerð á svalahandriðum og glerveggjum hússins og tók tilboði Suðulistar Ýlis ehf. að fjárhæð 3.990.900 kr. Verkið fólst í að skipta út 14 stk. af hertum glerjum og uppsetningu á klemmum og vinklum til að festa glerin.
Með bréfi dags. þann 11. janúar 2011 krafðist Skipulags- og byggingarsvið framhaldsstefnda Reykjavíkurborgar þess að sett yrði upp handrið á vegg sem liggur með fram innkeyrslu að bílageymslu við fasteignina. Stefnandi svaraði erindi þessu með bréfi, dags. 28. janúar 2011 og vísaði til þess að lokaúttekt hefði farið fram þann 15. október 2006, en vottorðið hefði ekki átt að gefa út nema farið hefði verið eftir samþykktum uppdráttum á árunum 2004-2005.
Með bréfi stefnanda til stefnda Reynalds, dags. 18. febrúar 2011, sem hann tók á móti hinn 23. febrúar sama ár, var skorað á hann sem byggingarstjóra að ganga frá umræddu handriði í samræmi við samþykktar teikningar. Jafnframt var réttargæslustefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. tilkynnt um þetta. Í marsmánuði 2011 áttu lögmaður stefnanda og réttargæslustefnda VÍS í tölvupóstsamskiptum þar sem fram kom ósk um að réttargæslustefndi tæki afstöðu til bótaskyldu úr lögboðinni ábyrgðartryggingu byggingarstjóra. VÍS hafnaði með tölvupósti til stefnanda bótaskyldu í málinu á þeim grunni að byggingarstjórar bæru ekki ábyrgð á því að verktakar lykju verki og vísaði til 3. mgr. 44. gr. laga um vátryggingarsamninga.
Með stefnu útgefinni 24. ágúst 2011 höfðaði stefnandi síðan mál þetta í aðalsök og krafðist þess að stefndi Reynald og Búafl ehf. yrðu sameiginlega dæmdir til að greiða stefnanda 4.051.905 kr. auk dráttarvaxta, en bótakrafa nam útlögðum kostnaði stefnanda sem að framan er rakinn, og þeir yrðu sameiginlega dæmdir bótaskyldir fyrir tjóni vegna skorts á handriði á vegg með fram innkeyrslu við fasteignina sem fram komi á samþykktum teikningum. Í frumsök var byggt á því að verklegar framkvæmdir hefðu ekki verið í samræmi við fyrirmæli hönnuða um gerð og eiginleika festinga.
Undir rekstri málsins í frumsök óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta orsakir tjónsins sem varð á fasteigninni Ægisgötu 5 í umræddu óveðri. Samkvæmt niðurstöðum matsgerðar Ragnars Ómarssonar tæknifræðings, dags. 17.09.2012, sem lögð var fram í dómi hinn 6. des. 2012, kom fram að orsakir tjónsins hefðu verið eftirfarandi:
„Orsakir tjónsins eru þær að burðarvirki glerhjúpsins var ófullnægjandi. Engin burðarþolshönnun var fyrirliggjandi og of lítið af útfærðri hönnun á festingum. Sú takmarkaða útfærða hönnun sem fyrir hendi var er sundurleit og innbyrðis ósamræmd og því erfitt að átta sig á hvers óskað var eftir.
° Burðarvirkið sem reist hefur verið er óvandað. Samsetningar á burðarsúlum eru hreyfanlegar og staðsetning samsetninga er óheppileg með tilliti til burðarþols.
° Þær festingar sem valdar voru til þess að halda glerhjúpnum eru alls ekki hugsaðar til nota í klæðningar af þessu tagi og valda ekki eiginþyngd stærri glerskífanna. Skífurnar hafa því sigið niður og skekkst í festingum.
° Þykkt glerskífa er of lítil.“
Þá segir jafnframt í matsgerðinni:
„Við skoðun matsmanns á samþykktum uppdráttum hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík kom í ljós að engin burðarþolshönnun er samþykkt fyrir glerhjúpinn og engir burðarþolsuppdrættir hafa verið gefnir fyrir hjúpinn. Uppdrættir arkitekts nr. 501 og 502 sýna fjölda glerskífa, flatarstærðir og staðsetningu þeirra á útlitsmyndum. Einu uppdrættirnir sem sýna frágang og festingar á glerskífum eru uppdrættir arkitekts nr. 308, 408 og 409 og ber þeim ekki saman innbyrðis né við það sem byggt var í veigamiklum atriðum. Á teikningunum er gert ráð fyrir því að reistar séu 60x100mm galvanhúðaðar stálpípusúlur. Þykkt stálpípa er ekki gefin upp. Stálsúlurnar á að festa utan á kant steyptra svalagólfa með stálfestingum sem boltaðar eru í svalagólf og múrað yfir með gólfílögn svalanna. Stærð stálfestinga og fjöldi múrbolta er ekki gefin upp. Á stálsúlurnar eiga að koma ásoðnar festingar fyrir gler. Stærð festinga og fjöldi þeirra er ekki gefin upp. Á uppdráttunum fimm kemur fram að glerveggir eigi að vera úr hertu gleri, öryggisgleri eða gleri og ber uppdráttunum ekki saman, en í byggingarlýsingu á aðaluppdrætti nr.201 segir orðrétt: “ Svalir og svalagangar eru staðsteypt. Þau eru með léttu gler og stálhandriði. Svalagangar eru að hluta til lokaðir með glerplötum. Þykkt glers er hvergi gefin upp.“
Stefnandi höfðaði síðan, eins og áður er rakið, framhaldssök í máli þessu með stefnu útgefinni þann 28. október 2013.
Með tölvupósti þann 19. desember 2013 tilkynnti lögmaður réttargæslustefnda VÍS lögmanni stefnanda að hann væri reiðubúinn að greiða bætur vegna handriðs við bílageymslu og teldist þessi greiðsla hluti af sérstökum vátryggingaratburði, óháðum glerhjúp og hefði ekki áhrif á anna ágreining í málinu og í greiðslunni fælist ekki viðurkenning á greiðsluskyldu, sök né á því að krafan hafi verð sett tímanlega fram. Var á það fallist af hálfu stefnanda og voru bætur að fjárhæð 1.225.549 kr. að meðtöldum málskostnaði inntar af hendi 7. janúar 2014.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda í framhaldssök
Stefnandi telur sig hafa stórlega vanmetið tjón sitt í upphafi þegar hann höfðaði skaðabótamálið sem þingfest var þann 6. október 2010. Það hafi ekki komið í ljós fyrr en matsgerð dómkvadds matsmanns hafi legið fyrir þann 6. desember 2012. Með matsgerðinni hafi komið fram frekari efnisleg skilyrði til að auka við kröfur á stefnda, Reynald Jónsson byggingarstjóra, vegna starfsábyrgðartryggingar hans.
Þá séu ekki lengur forsendur til að hafa uppi kröfur gegn þb. Búafls ehf., sem hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 8.9.2011 en skiptum hafi lokið þann 30.3.2013.
Við tilkomu matsgerðarinnar hafi orðið ástæða til að hafa uppi nýjar kröfur í málinu á hendur fleiri aðilum, sem hafi borið ábyrgð á hönnun, gerð teikninga, burðarþolshönnun, uppdráttum, samþykki þeirra og uppsetningu á burðarvirki og glerhjúp í fasteigninni að Ægisgötu 5. Stefnandi telur umræddar kröfur um bótaskyldu framhaldsstefndu vera bæði samkynja og samrættar, það er kröfurnar eiga rætur til sama atviks og aðstöðu, sem sé gerð burðarvirkis og glerhjúps í Ægisgötu 5.
Stefnandi telur að stefndi Reynald hafi sniðgengið þau fyrirmæli, sem koma fram í samþykktum verkteikningum um gler á svalagöngum og í kringum tröppur og lyftuhús. Stefndi Reynald beri ábyrgð á umræddum göllum sem felist í því að hafa hvorki notað rétt efni í burðarvirki og glerskífur né fest nægilega til að standast veður og vindálag. Stefndi hafi vanrækt að bora í gegnum hvert gler eins og samþykktar og ósamþykktar verkteikningar mæli fyrir um. Þessi vanræksla hafi leitt til þess að gler hafi verið laust frá festingum og því hafi verið nauðsynlegt að yfirfara allar festingar og setja aukaeyru og uppihengi til að glerið þyldi aukið vindálag og óveður sem geta hæglega farið yfir 30 metra á sekúndu. Þrátt fyrir þá viðgerð hafi dómkvaddur matsmaður komist að þeirri niðurstöðu að viðgerðin væri ekki fullnægjandi og nauðsynlegt væri að skipta um allt burðarvirkið og setja nýjar glerskífur upp í stað þeirra sem fyrir eru.
Stefnandi byggir á því að háttsemi stefnda Reynalds falli undir almennu sakarregluna í skaðabótarétti, þar sem hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi af gáleysi eða ásetningi við uppsetningu á burðarstálinu og öllum glerhjúpnum á suðurhlið Ægisgötu 5. Byggingarstjóri hafi verið sérfræðingur og beri hann því stranga ábyrgð, svokallaða sérfræðiábyrgð, sem sé strangt afbrigði af sakarreglunni utan samninga.
Stefnandi byggir og bótakröfu sína á 18. og 19. gr. laga nr. 49/2002. Fasteignin sé haldin galla þar sem hún hafi ekki staðist kröfur um gæði og búnað sem leiði af lögum um fasteignakaup og þeim kaupsamningum, sem gerðir voru um eignina. Sama gildi um b-lið 19. gr. laga nr. 40/2002, þar sem segi að eign teljist gölluð ef hún hentar ekki til þeirra sérstöku afnota fyrir kaupanda sem seljanda var eða mátti vera kunnugt um er kaupsamningur var gerður.
Þá hafi ekki verið fylgt stjórnvaldsreglum, samþykktri aðalteikningu varðandi búnað fasteignarinnar og samkvæmt matsgerðinni hafi komið í ljós að hvorki hafi legið fyrir samþykkt burðarþolshönnun né burðarþolsuppdrættir fyrir glerhjúpinn.
Stefnandi vísar til 22 gr., sbr. 23 og 24. gr. laga nr. 40/2002 um fylgifé fasteignarinnar. Stefnandi bendir á að gluggabúnaður skv. 24. gr. fasteignakaupalaga teljist til fylgifjár íbúðarhúsnæðis og sé fyrirmælum teikninga um uppsetningu á gluggum ekki fylgt teljist íbúðarhúsnæði gallað. Fram komi í matsgerð að ekki hafi verið til staðar samþykktar teikningar hjá byggingarfulltrúa, heldur aðeins ein samþykkt en ófullkomin aðalteikning auk samþykktra útlitsteikninga. Stefnandi hafi staðið í þeirri trú að farið hefði verið eftir samþykktum verkteikningum stefnda Orra Árnasonar og löglegum burðarþolsuppdráttum, en með matsgerðinni hafi verið endanlega staðreynt að það hafði ekki verið gert. Þá vekur stefnandi athygli á 3. mgr. 29. gr. fasteignakaupalaga þar sem löggjafinn hafi látið upplýsingaskyldu seljanda (Búafls ehf.) ganga framar aðgæsluskyldu stefnanda. Með framangreint í huga krefst stefnandi skaðabóta skv. d-lið 37. gr. laga nr. 40/2002, sbr. 43. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. fasteignakaupalaga geti stefnandi krafist bóta vegna beins og óbeins tjóns sem rekja megi til saknæmrar háttsemi stefnda Reynalds.
Stefnandi byggi einnig á 30. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup sem mæli fyrir um skaðabótarétt kaupanda sé söluhlutur gallaður eða ef ágalli er á efndum seljanda eftir því sem við á, sem og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000. Stefnandi telur orsakasamband vera milli stórfelldrar vanrækslu stefnda Reynalds við að fylgja samþykktum teikningum við uppsetningu glersins og þess tjóns sem stefnandi varð fyrir. Fyrir liggi sannað fjárhagslegt tjón skv. matsgerð, sem lögð hafi verið fram og það hafi verið fyrirsjáanlegt og sennileg afleiðing hinna ólögmætu athafna eða athafnaleysis
Stefnandi vísar til þess að í málinu liggi fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns, Ragnars Ómarssonar, dags. 17.9.2012. Í henni komi fram sú niðurstaða að heildartjón stefnanda miða við janúar 2007 væri 13.654.450 kr. sem sé hækkuð stefnufjárhæð frá því í frumsök.
Stefnandi vísar til þess að stefndi Reynald Jónsson, byggingarstjóri hússins, hafi verið tryggður starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hjá réttargæslustefnda Vátryggingarfélagi Íslands hf. vegna umræddrar byggingar á þeim tíma er mistök við uppsetningu glersins áttu sér stað. Af þeim sökum sé Vátryggingafélagi Íslands hf. stefnt til réttargæslu sem ábyrgðaraðila tjónsins. Samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laga nr. 73/1997, nú 8. mgr. 29. gr. laga 160/2010 um mannvirki gildi starfsábyrgðartrygging byggingarstjóra í fimm ár frá lokum byggingarframkvæmda. Vottorð um lokaúttekt á byggingarframkvæmdum við Ægisgötu 5 hafi verið gefið út þann 15. október 2006. Tjónið hafi hins vegar ekki komið fram fyrr en með framlagningu matsgerðar í héraðsdóm þann 6 desember 2012 og frá þeim tíma beri því að reikna dráttarvexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, mánuði framlagningu matsbeiðni í dóm eða hinn 10. mars 2012. Ábyrgðartrygging stefnda Reynalds sé gild og taki til þeirra mistaka, ábyrgðar og tjóns sem hann hafi valdið stefnanda og beri að reikna með byggingarvísitölu miðað við desember 2012 en þá hafi tjónið fyrst verið staðfest.
Samkvæmt lið 4.1 í tryggingarskilmálum vátryggingafélags stefnda Reynalds, AP28, bæti tryggingin fjártjón stefnanda, sem rakið verður til þess að byggingarstjóri fylgdi ekki skipulagslögum nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr.441/1998 um að gera uppdrætti og leggja þá fyrir byggingarfulltrúa til samþykktar. Um bótafjárhæð vísar stefnandi einnig til gr. 33.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem mæli fyrir um lágmarkstryggingarfjárhæð byggingarstjóra. Útreikning tryggingarfjárhæðar beri að miða við þann tíma þegar endanlegt tjón var staðreynt.
Varðandi bótaábyrgð framhaldsstefndu, Orra Árnasonar, Benedikts Skarphéðinssonar og Þráins Karlssonar, hér eftir nefndir stefndu, þá vísar stefnandi til 17. gr. reglugerðar nr. 441/1998, en þar segir að hönnuðir skuli árita uppdrætti sína með eigin hendi. Með því ábyrgist þeir að hönnunin sé faglega unnin í samræmi við lög og reglugerðir um byggingar og ábyrgjast að mannvirkið standist þær kröfur sem gerðar séu í reglugerð og lögum. Samkvæmt gr. 17.2 í byggingarreglugerð séu það hönnuðir sem áriti aðaluppdrætti og beri ábyrgð á því að samræmi sé milli aðaluppdrátta og séruppdrátta. Hönnuður aðaluppdrátta, stefndi, Orri, hafi borið sérstaka ábyrgð á því að séruppdrættir væru í innbyrðis samræmi þar sem hann hafi verið samræmingarhönnuður, sbr. gr. 17.3 í byggingarreglugerð. Stefndi Orri hafi ábyrgst með áritun sinni á útlitsteikningar og verkteikningar að Ægisgötu 5 að þær væru faglega unnar og í samræmi við lög og reglugerðir um byggingamál, sbr. 17. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Hins vegar hafi allir hönnuðir vanrækt alvarlega skyldur sínar og störf í Ægisgötu 5 þar sem þeir lögðu ekki fyrir byggingarfulltrúa séruppdrætti af burðarvirki og glerhjúp byggingarinnar. Stefnandi telur að þar sem stefndu, arkitektinn Orri og verkfræðingarnir, Benedikt og Þráinn, hafi komið að þessu verkefni, verði að ætla að a.m.k. munnlegur samningur hafi verið með þeim og byggjanda um vinnu þeirra og hlutverk í byggingunni. Þeir hafi verið ráðgjafar og sérfræðingar sem hafi tekið að sér að gera uppdrætti að útfærslum og burðarþolsútreikningum. Með því hafi þeir tekið á sig ákveðnar skyldur og ábyrgð gagnvart stefnanda og byggingarfulltrúa. Í gr. 7.1.7 í ÍST35 segi að ráðgjafi, sem hafi með höndum eftirlit fyrir verkkaupa skv. samningi skuli tilkynna verkkaupa án tafar ef hann verður þess var að framlag viðsemjanda verkkaupa sé ekki í samræmi við samning. Þessir hönnuðir, arkitekt og verkfræðingar, hafi búið yfir trúnaðarskyldu gagnvart stefnanda, Búafli ehf. og byggingarfulltrúa. Þeir beri ábyrgð sem sérfræðingar gagnvart stefnanda á því að hafa ekki skilað inn séruppdráttum til byggingarfulltrúa til áritunar.
Að öðru leyti vísast til 7. kafla ÍST35, sérstaklega. 7.1.1 um skaðabótaskyldu ráðgjafa, skv. íslensku sakarreglunni, og til 7.1.4 ÍST35, um að samþykki verktaka leysi ekki ráðgjafa undan ábyrgð vegna áhættuatriða sem þeir allir hefðu átt að sjá að voru fyrir hendi.
Stefnandi telur að hönnuðirnir, stefndu Orri, Benedikt og Þráinn, hafi brugðist skyldum sínum með þeim afleiðingum að stórfelldur galli varð á burðarvirkinu og glerhjúpnum. Vanræksla þeirra teljist til vanefnda og beri þeir sameiginlega ábyrgð á þessum galla á fasteigninni. Áritun þeirra á allar aðrar teikningar og uppdrætti hjá byggingarfulltrúa staðfesti tengsl þeirra og ábyrgð við bygginguna og þar með glerhjúpinn og burðarvirkið. Stefnandi byggir á því að hönnuðir geti ekki vikið sér undan ábyrgð með því að halda því fram að þeir hafi aldrei verið beðnir um að ganga frá hönnun stálvirkis og glerskífa þar sem enginn hafi getað komið að því verki nema þeir hönnuðir sem voru skráðir á húsið frá upphafi til enda. Hvergi sé að finna í gögnum eða byggingarsögu byggingarfulltrúa tilkynningar frá arkitekt og verkfræðingum þar sem þeir segi sig frá umræddu verki.
Stefnandi bendi á 53. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 varðandi ábyrgð og bótaskyldu hönnuða. Þessum aðilum hafi verið ætlað samkvæmt henni að vera viðstaddir lokaúttekt hússins. Með fjarveru sinni hafi hönnuðirnir tekið þá áhættu að verða bótaskyldir fyrir öllum göllum og mistökum sem gerð sé grein fyrir í matsgerðinni.
Stefnandi bendir á sömu lagarök, sem gildi um orsakasamhengi og vávæni hjá byggingarstjóra. Hér sé um sennilega afleitt tjón að ræða vegna ólögmæts athafnaleysis hönnuðanna, stefndu Orra, Benedikts og Þráins, sem hafi falist í því að koma sér hjá því að gera séruppdrætti að burðarvirki og glerhjúp, árita þá og leggja fyrir byggingarfulltrúa. Ekki hafi mátt reisa glerhjúpinn, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1997, nema fyrir lægju samþykktir aðaluppdrættir og séruppdrættir. Hönnuðir séu þannig bótaskyldir sameiginlega. Einnig komi til greina að nota sakarlíkindareglu skaðabótaréttarins þar sem tjónþola nægi að benda á gallann og mistökin, sem hafi orðið vegna vanrækslu sérfræðinganna. Sönnunarbyrðin snúist þar með við.
Stefnandi telur að sök framangreindra aðila sé ekki fyrnd, þar sem málshöfðun aðalmáls átti sér stað áður en fimm ára frestur frá lokaúttekt rann út. Tjónið hafi ekki komið fram fyrr en með matsgerð sem var lögð fram í dómi þann 6. desember 2012. Stefndu geti ekki borið fyrir sig fyrningu, sbr. 52. gr. vátryggingalaga nr. 30/2004, 3. gr. laga nr. 14/1905 og 9. gr. laga um fyrningu nr. 150/2007. Lokaúttekt undanþiggi ekki tryggingarfélögin ábyrgð þeirra þar sem hönnuðirnir hafi ekki lagt fram teikningar hjá byggingarfulltrúa utan eina aðalteikningu frá stefnda Orra um glerhjúpinn.
Þrátt fyrir að réttargæslustefndu, tryggingarfélögin, kunni að skjóta sér undan ábyrgð á hönnuðum á grundvelli 26. gr. byggingarreglugerðar beri hönnuðir engu að síður persónulega ábyrgð á verkum sínum sem sérfræðingar. Þá byggir stefnandi í þessum þætti málsins á öllum sömu málsástæðum og byggt sé á í hluta málsins gegn byggingarstjóra.
Varðandi bótaábyrgð stefnda Reykjavíkurborgar, þá hafi byggingarfulltrúi farið með byggingamál Ægisgötu 5 undir yfirstjórn sveitarstjórnar, sbr. 38. gr. laga nr. 73/1997, en skv. 2. mgr. 38. gr. laganna skuli byggingarnefnd hafa eftirlit með því að byggt sé í samræmi við gildandi skipulag, lagaákvæði og reglugerðir. Byggingarfulltrúi sé framkvæmdastjóri byggingarnefndar Reykjavíkur og skv. 40. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé honum skylt að ganga úr skugga um að hönnunargögn, aðaluppdrættir og séruppdrættir séu, í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Hann gefi út byggingarleyfi þegar öll hönnunargögn hafa verið lögð fram og samþykkt af sveitarstjórn með áritun á uppdrætti. Hann hafi eftirlitsskyldu skv. 2. mgr. 40. gr. fyrrgreindra laga og annist úttektir allra byggingarframkvæmda svo og lokaúttekt og gefi út vottorð þar um. Eftirlitsskylda hans sé að ganga úr skugga um að aðaluppdrættir séu í samræmi við gildandi lög og skipulag, að fylgjast með því að framkvæmdir séu í samræmi við samþykkta uppdrætti og annast úttektir og eftirlit með einstökum þáttum framkvæmda. Þá séu byggingarfulltrúa veittar víðtækar heimildir til að sinna eftirliti sínu skv. 42. gr. laga nr.73/1997 og hann hafi vanrækt þær skyldur sínar.
Stefnandi byggir á því að rannsókn á hönnunargögnum hafi átt að eiga sér stað áður en ákvörðun var tekin um veitingu eða höfnun byggingarleyfis. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr.73/1997 sé óheimilt að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun nema með leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Í 2. mgr. 40. gr. sömu laga segi og að byggingarfulltrúi ákveði í samræmi við byggingarreglugerð hvaða hönnunargögn skuli lögð fram vegna byggingarleyfis. Honum hafi borið að ganga úr skugga um að hönnunargögn væru í samræmi við þær reglur sem giltu um framkvæmdina við Ægisgötu 5 og árita síðan alla uppdrætti um samþykki á þeim. Þar liggi sök sveitarstjórnarinnar ásamt því að vanrækja eftirlit með öllum framkvæmdum framkvæmdaaðila. Stefndi Reykjavíkurborg geti ekki komið sér hjá ábyrgð í þessu máli, þar sem hún hafi vanrækt alvarlega lögbundnar skyldur sínar og gefið út lokaúttektarvottorð á byggingu sem haldin hafi verið stórkostlegum göllum. Stefndu hönnuðir mannvirkisins og stefndi Reykjavíkurborg séu sameiginlega ábyrgir vegna umræddra mistaka.
Samkvæmt 48 gr. reglugerðar nr. 441/1998 sé byggingarfulltrúa óheimilt að gera áfangaúttektir nema fyrir liggi samþykktir og samræmdir séruppdrættir, samþykktir af honum og áritaðir. Þá sé skylt að hafa séruppdrætti samræmda, samþykkta og áritaða af hönnuði aðaluppdrátta til að úttekt geti átt sér stað, sbr. gr. 19.2 og 19.5 í byggingarreglugerð. Byggingarstjóra og byggingarfulltrúa sé skylt að vera viðstaddir áfangaúttektir, sbr. 35. gr. og 50. gr. byggingarreglugerðar, en þessa hafi ekki verið gætt varðandi burðarvirki og glerhjúp í Ægisgötu 5.
Stefnandi byggir á því að hann hafi mátt ganga að því vísu að lokaúttektarvottorð, útgefið af byggingarfulltrúa, væri trygging fyrir því að öllum tilskildum ákvæðum um efni, gerð og búnað væri fullnægt með löglegum hætti. Athugasemdalaust lokaúttektarvottorð hafi því verið sterkt sönnunargagn um að húsnæðið að Ægisgötu 5 uppfyllti öll skilyrði laga um öryggi og aðbúnað.
Komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að bætur eigi ekki að greiðast af tryggingarfélögum vegna þess að fimm ár séu liðin frá lokaúttekt, þá telur stefnandi að virða beri stefnda Reykjavíkurborg það sérstaklega til sakar að hann heimilaði lokaúttekt of snemma, það er áður en byggingarfulltrúi hafði gengið úr skugga um að allir uppdrættir væru fyrir hendi og samþykktir. Stefndi Reykjavíkurborg sé því ábyrgur í þessu tilviki fyrir stórkostleg mistök starfsmanna sinna hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík.
Stefnandi telur að orsakasamband sé á milli mistaka byggingarfulltrúa við að sniðganga reglur byggingarreglugerðar og lög nr. 73/1997 frá upphafi og þess mikla tjóns, sem stefnandi varð fyrir. Ólögmætt athafnaleysi og brot á fyrrnefndum reglum bendi til sakar stefnda Reykjavíkurborgar, vávæni liggi fyrir og tjónið sé sennileg afleiðing af athafnaleysi stefnda Reykjavíkurborgar, sem beri ýmist bótaskyldu einn og sér eða sameiginlega með öðrum stefndu.
Varðandi lagarök byggir stefnandi á almennu sakarreglunni í íslenskum skaðabótarétti, almennum reglum kröfuréttar, 18., 19., 20., 22., 23., 24., 26., 27., 29., 34., og 43. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, 30. og 40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, 2., 38., 40., 42., 43., 44., 48., 51., 52. og 56. gr. skipulagslaga nr. 73/1997, sbr. 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, gr. 12.6, gr. 17.1.2, 19. og 36. gr., gr. 32.2 og 33.1 2. og 35. gr., 20.2, 50., 53.3, 66.3, 118.1, og 202.14 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, lið 4.1 í tryggingarskilmálum réttargæslustefnda nr. AP-28. Þá er byggt á Íslenskum Staðli ÍST 35. Þá vísar stefnandi til fyrningarlaga nr. 14/1905 og fyrningarlaga nr. 150/2007. Stefnandi vísar til 19.gr. laga um meðferð einkamála varðandi sakauka og 29. gr. sömu laga varðandi framhaldsstefnu og 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þá er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu varðandi kröfu stefnanda um vexti og dráttarvexti.
Málsástæður og lagarök stefnda Reynalds Jónssonar og réttargæslustefnda Vátryggingarfélags Íslands hf. vegna frávísunarkröfu í framhaldssök.
Stefndi Reynald ítrekar að hann hafi gegnt stöðu byggingarstjóra við byggingu mannvirkisins að Ægisgötu 5 og jafnframt verið framkvæmdastjóri húsbyggjandans, stefnda Búafls ehf. Hann hafi hins vegar hvorki verið persónulegur eigandi né seljandi fasteignanna.
Stefndi Reynald byggir, eins og við geti átt, á sömu málsástæðum og lagarökum í framhaldssök og í frumsök. Því til viðbótar og fyllingar byggi stefndi á eftirfarandi.
Stefndi Reynald byggir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að skilyrðum 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, fyrir því að stefnanda sé heimilt að auka við þá kröfu sem hann gerði í frumsök, séu ekki uppfyllt og þar horfi stefndi fyrst og fremst til þess að það verði metið stefnanda til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu.
Stefnanda hafi verið í lófa lagið að láta staðreyna tjón sitt með dómkvaðningu matsmanna fyrir höfðun frumsakar. Strax þann 14. desember 2007 hafi stefnanda mátt vera ljóst að tjón hefði orðið á fasteigninni og ekkert hafi verið að vanbúnaði að láta meta það hvað úrbætur myndu kosta. Stefna í frumsök hafi verið þingfest 6. október 2011. Stefnandi hafi því haft rétt tæp fjögur ár til að staðreyna fjárhæð tjóns síns. Meta verði honum til vanrækslu að hafa ekki gert það fyrr en með matsgerð sem dagsett sé 5. desember 2013, sex árum eftir tjónsdag. Meta verði það stefnanda til vanrækslu að hafa ekki haft alla kröfu sína uppi í frumsök. Þá hafi stefnanda í öllu falli borið að höfða framhaldssök þessa strax og matsgerð dómkvadds matsmanns lá fyrir samkvæmt grunnrökum 5. mgr. 101 gr. laga um meðferð einkamála og meginreglu einkamálaréttarfars um hraða málsmeðferð. Það hafi stefnandi ekki gert, heldur látið líða rúmt ár án nokkurrar ástæðu.
Krafa stefnda Reynalds um frávísun byggir í öðru lagi á ákvæðum 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála og meginreglum einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð og skýra og gagnorða lýsingu málsástæðna. Þá skorti mjög upp á samhengi málsástæðna og dómkrafna stefnanda.
Af lestri framhaldsstefnu sé engin leið að ráða á hverju stefnandi byggi að stefndi hafi forræði fyrir því við hvaða stig byggingarvísitölu skuli miða vátryggingarfjárhæð lögboðinnar ábyrgðartryggingar hans. Það liggi í augum uppi að ekki sé unnt að beina kröfu að aðila nema hann hafi forræði fyrir henni og geti eftir atvikum samþykkt hana með bindandi hætti. Það verði að játa að vátryggingafélag stefnda hafi miklu frekar forræði fyrir þessu sakarefni en stefndi og því hafi verið nauðsynlegt fyrir stefnanda að tilgreina í stefnu á hverju hann byggi að stefndi hefði forræði fyrir sakarefninu og hví kröfunni sé beint að honum.
Þá séu dómkröfur stefnanda þannig upp settar í framhaldsstefnu að krafist sé greiðslu peninga úr hendi stefnda Reynalds sem samsvari öllu tjóni stefnanda. Engu að síður krefjist stefnandi þess að viðurkennd verði sameiginleg bótaábyrgð fjögurra annarra aðila á sama tjóni. Dómkröfur stefnanda séu ekki settar upp sem aðal- og varakröfur og ekki sé hægt a taka þær allar til greina samhliða, enda fæli það í sér að viðurkenndur hefði verið réttur stefnanda til að fá tjón sitt bætt tvisvar. Þetta sé á engan hátt ákveðin eða ljós kröfugerð.
Að lokum sé verulega óljóst hver sé grundvöllur kröfu stefnanda á hendur stefnda. Í stefnu sé fullyrt að grundvöllur kröfunnar séu tiltekin ákvæði laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, en ekkert kemur fram um það í stefnu hvers vegna þau lög taki til ágreinings aðila. Gildissvið fasteignakaupalaga sé skilgreint í 1. gr. þeirra og gilda þau um kaup á fasteignum. Hvergi í stefnu sé því lýst að stefnandi hafi keypt fasteign af stefnda Reynaldi enda sé það fjarri lagi. Stefnandi sé húsfélag sem aldrei hafi keypt fasteign og stefndi Reynald hafi aldrei átt fasteign að Ægisgötu 5.
Á öðrum stöðum í framhaldsstefnu er fjallað um stefnda sem byggingarstjóra og vikið að lögboðinni ábyrgðartryggingu hans sem slíks. Þó er hvergi í framhaldsstefnunni vikið að þeim skyldum sem á honum hvíldu sem byggingarstjóra skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Þá sé því lýst í framhaldsstefnu að háttsemi stefnda falli undir hina almennu sakarreglu án þess að unnt sé að sjá að krafa stefnanda sé grundvölluð á þeirri reglu.
Á heildina litið sé afar óljóst hvort krafa stefnanda er skaðabótakrafa utan samninga eða skaðabótakrafa innan samninga. Sé um skaðabótakröfu utan samninga að ræða vanti alla umfjöllun um tjón stefnanda, sök stefnda Reynalds og orsakatengsl þar á milli. Sé um skaðabótakröfu innan samninga að ræða sé ekki greint frá nokkru samningssambandi milli aðila.
Að öllu framangreindu athuguðu telur stefndi grundvöll kröfu stefnanda svo óskýran að ekki verði hjá því komist að vísa kröfunni frá dómi.
Réttargæslustefndi Vátryggingafélag Íslands hf. leggur á það áherslu að greiðsluskylda úr lögboðinni ábyrgðartryggingu byggingarstjóra geti aldrei stofnast af hærri fjárhæð en vátryggingarfjárhæðinni, jafnvel þótt raunverulegt tjón stefnanda kunni að nema hærri fjárhæð.
Samkvæmt sérstakri áritun á vátryggingarskírteini stefnda Reynalds og í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé vátryggingarfjárhæðin 15.000.000 kr. á hverju vátryggingarári, þó 5.000.000 kr. í hverju einstöku tjónstilviki. Fjárhæðir þessar miðist við byggingarvísitölu með grunnvísitölu 229,8.
Óumdeilt sé að gallar á glerhjúp séu einungis eitt tjónsatvik enda rökstyðji stefnandi að skilyrði 29. gr. laga um meðferð einkamála séu uppfyllt með vísan til þess að um sama atvik og aðstöðu og í frumsök sé að ræða. Þá liggi fyrir að um sama byggingarhlutann sé að ræða sem byggingarstjóri og byggingaryfirvöld hafa yfirfarið í heild sinni, í einu lagi.
Stefnandi byggi á því að miða eigi uppreikning vátryggingarfjárhæðarinnar við þann dag er endanlegt tjón var staðreynt þann 6.12.2013. Þessu mótmælir réttargæslustefndi en bendir jafnframt á að þessi dagur geti ekki haft áhrif á vátryggingarfjárhæðina nema tjónið teljist hafa orðið eða komið í ljós þetta seint. Ef svo er falli tjónið ekki undir trygginguna enda löngu liðin fimm ár frá lokaúttekt, sbr. 3. mgr. skipulags- og byggingarlaga. Þá sé rétt að taka fram að matsgerðin er dagsett í september 2012 og því í síðasta lagi hægt að miða við byggingarvísitölu þann mánuð.
Réttargæslustefndi telur tjónsatvikið hafa verið á byggingartímanum og að meintu saknæmu atferli byggingarstjóra og afskiptum hans af húsinu hafi lokið á árinu 2005 er húsið var fullbyggt en í síðasta lagi við lokaúttekt. Vátryggingarfjárhæð beri að miða við þann tíma er hið meinta saknæma atferli átti sér stað. Í byggingarsögu hússins sé bygging allra hluta hússins skráð á árinu 2005 og telur réttargæslustefnda að því eigi að miða við lok þess árs en sem áður segir í allra síðasta lagi við lokaúttekt 6. nóvember 2006 enda ljóst að eftir þann tíma hafi stefndi ekkert aðhafst né átt að aðhafast varðandi húsið.
Réttargæslustefndi Vátryggingafélag Íslands tekur undir allar málsástæður stefnda er samrýmast framansögðu.
Heimild til að gera kröfu um málskostnað byggir réttargæslustefndi á 21. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá er jafnframt vísað til 1.-3. mgr. 130. gr. sömu laga af hálfu stefnda Reynalds og réttargæslustefnda Vátryggingafélags Íslands.
Málsástæður og lagarök stefndu Orra Árnasonar og réttargæslustefnda Sjóvá-almennra trygginga hf. í framhaldssök
Krafa um frávísun er á því byggð að lagaskilyrði skorti fyrir því að stefna Orra Árnasyni og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. með framhaldsstefnu og að málið verði sameinað málinu nr. E-3891/2011.
Í fyrsta lagi sé hér um það að ræða að nýjum aðila sé stefnt án þess að skilyrðum 19., 27. og 29. grein laga um meðferð einkamála nr. 19/1991 sé fullnægt. Af hálfu stefnda Orra og Sjóvá-Almennra trygginga er því andmælt að dómkröfur í málum þessum eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggjörnings. Eins og málatilbúnaðurinn lítur nú út sé um að ræða fimm dómkröfur sem um margt eigi ólíkan uppruna og beinist gegn mismunandi aðilum.
1. Krafa um greiðslu á bráðabirgðaviðgerð að fjárhæð 61.005 kr.
2. Krafa um viðgerðarkostnað að fjárhæð 3.990.900 kr.
3. Krafa um viðurkenningu á kostnaði við gerð handriðs.
4. Krafa um heildarendurnýjun á öllum glervegg á suðurhlið Ægisgötu 5
að fjárhæð 13.654.450 kr.
5. Krafa um að hönnuðir og Reykjavíkurborg verði dæmdir til að
bera bótaábyrgð á tjóni á öllu burðarvirki títtnefnds glerhjúps.
Kröfur þessar séu af ólíkum uppruna og verði ekki að mati stefndu sóttar allar í einu máli auk þess sem þær eru í innbyrðis ósamræmi. Í þessu sambandi sé m.a. bent á að ekki sé nokkur leið að átta sig alveg á kröfugerðinni hvað varðar fjárhæðir, hvort stefnandi sé að krefja í framhaldsstefnu um fjárhæð 13.990.450 kr. til viðbótar áður gerðri kröfu um 3.990.900 kr. vegna viðgerðar á glerveggnum. Ef svo er standist slík kröfugerð engan veginn.
Í öðru lagi sé á það bent að meta verði stefnanda það til vanrækslu að hafa ekki stefnt þegar í upphafi þeim sem komu til greina sem ábyrgðarmenn á tjóni því sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir. Tjónið hafi orðið 13. eða 14. desember 2007 og það sé ekki fyrr en 6. október 2011 sem stefnandi stefni upphaflega í málinu og þá eingöngu byggingaraðila og byggingarstjóra. Stefnandi hafi haft tæp fjögur ár til að gera sér grein fyrir því hver bæri ábyrgð á tjóninu. Í málum sem þessum sé engum blöðum um það að fletta hver beri ábyrgð eða ekki. Í augum uppi liggi að nokkrir möguleikar komi til greina. Um geti verið að ræða atvik sem enginn beri ábyrgð á svo sem óveður. Um geti verið að ræða handvömm við smíði. Um geti verið að ræða efnisgalla. Um geti verið að ræða skemmdarverk. Um geti verið að ræða hönnunargalla. Allt þetta bar stefnanda að hafa í huga og hafði hann tæp fjögur ár til að velta þessu fyrir sér. Það verði því að meta honum það til vanrækslu að hafa ekki velt því upp hvort um hönnunargalla gæti verið að ræða. Framhaldsstefna gegn hönnuði glerhjúps nú, tæpum sex árum eftir tjónið, sé alltof seint fram komin.
Í þriðja lagi sé kröfugerð á hendur stefndu Orra og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. svo óljós að hún samrýmist ekki 80. grein einkamálalaga. Hér komi það til að dómkrafan sé að mati stefndu ekki í samræmi við d-lið 80 greinar. Auk þess séu málsástæður stefnanda langt frá því að vera gagnorðar. Mjög skorti og á að samhengi málsástæðna sé ljóst og svo virðist sem grautað sé saman málsástæðum á vart samrýmanlegum grundvelli.
Málsástæður og lagarök stefndu Benedikts Skarphéðinssonar og Þráins Karlssonar og réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Af hálfu stefndu Benedikts og Þráins er bent á að þeim sé stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur með framhaldsstefnu. Samkvæmt 29. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 geti stefnandi aukið við fyrri kröfu eða haft uppi nýja kröfu í máli eftir þingfestingu en verið hafi fyrir aðalmeðferð þess ef skilyrðum 1. mgr. 27. gr. er fullnægt og það verður ekki metið aðilanum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu. Í 1. mgr. 27. gr. laganna er kveðið á um að í einu máli megi sækja allar kröfur á hendur sama aðila sem séu samkynja eða rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með framhaldsstefnu geti stefnandi því aukið við fyrri kröfur eða haft uppi nýja kröfu á hendur þeim sem þegar hefur verið stefnt.
Samkvæmt 19. gr. laganna um meðferð einkamála má sækja fleiri en einn í sama máli. Í 3. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að dómkröfurnar verði að vera samkynja eða eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og sóknaraðila verði ekki metið það til vanrækslu að hann hafi ekki stefnt nýja aðilanum áður en málið var þingfest. Stefna samkvæmt 19. gr. eml. er sakaukastefna en heiti stefnunnar í dómsmáli þessu ber það ekki með sér.
Frávísunarkrafa stefndu Benedikts og Þráins er í fyrsta lagi á því byggð að skilyrði sakaukastefnu sé ekki uppfyllt, þ.e. að sóknaraðila verði ekki metið það til vanrækslu að hann hafi ekki stefnt nýja aðilanum áður en málið var þingfest. Húseignin Ægisgata 5 hafi orðið fyrir tjóni í óveðri 13. og 14. desember 2007. Frumstefna hafi verið þingfest 6. október 2011. Stefnandi hafði því tæp fjögur ár frá tjónsdegi til að kynna sér hverjir voru byggjendur og hönnuðir hússins og hvernig verkaskiptingu milli hönnuða var háttað. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að kynna sér hverjir gátu hugsanlega borið ábyrgð á uppsetningu og hönnun glerhjúpsins enda allar upplýsingar þar að lútandi aðgengilegar hjá embætti byggingarfulltrúa. Enginn munur sé á frumstefnu og framhaldsstefnu að því leyti að í báðum tilvikum sé verið að sækja bætur vegna kostnaðar við viðgerð glerhjúpsins. Það verði með réttu metið sóknaraðila til vanrækslu að hafa ekki stefnt stefndu Benedikt og Þráni áður en málið var þingfest.
Þá sé vandséð að ákvæði 19. gr. laga um meðferð einkamála um að dómkröfurnar uppfylli það skilyrði að vera samkynja eða eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Kröfur á frumstefndu eru fyrst og fremst byggðar á lögum um fasteignakaup nr. 40/2002 og lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000. Sama sé að segja um kröfur stefnanda á byggingarstjórann, meðstefnda Reynald samkvæmt framhaldsstefnu. Kröfur á aðra stefndu séu síðan byggðar á allt öðrum lagagrunni. Beri því samkvæmt 19. gr. laga um meðferð einkamála að vísa máli þessu frá dómi að kröfu varnaraðila að því er hann varðar.
Í öðru lagi sé frávísunarkrafan á því byggð að dómkröfur stefnanda séu innbyrðis ósamrýmanlegar og stefnan uppfylli ekki skilyrði 80. gr. eml og er þar vísað til d-liðar greinarinnar. Stefnandi setji annars vegar fram beina fjárkröfu á hendur byggingarstjóra hússins, stefnda Reynaldi, en hins vegar kröfu um að aðrir stefndu verði dæmdir sameiginlega bótaskyldir fyrir öllu tjóni á burðarvirki glerhjúps og glerhjúp á Ægisgötu 5. Svo virðist sem um einhvers konar viðurkenningarkröfu sé að ræða en hvergi í framhaldsstefnunni er vísað til þeirra ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sem krafan á að byggja á. Ekki kemur fram hvort þessi krafa er hærri eða lægri en dómkrafa stefnanda á hendur byggingarstjóranum með frumstefnu og framhaldsstefnu. Tjón stefnanda liggi fyrir með reikningum og matsgerð. Í d-lið 80. gr. laga um meðferð einkamála sé kveðið á um að í stefnu skuli greina dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum og bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana. Stefndu Benedikt og Þráinn geti ekki gert sér grein fyrir því hver bótaábyrgð þeirra sé eða hver hún kunni að vera í krónum talið. Framsetning dómkröfunnar gagnvart stefndu Benedikt og Þráni sé vanreifuð og beri að vísa málinu hvað þá varðar frá dómi.
Málskostnaðarkrafa stefndu Benedikts og Þráins byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda Reykjavíkurborgar í framhaldssök
Stefndi, Reykjavíkurborg, krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því að ekki sé fullnægt skilyrðum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála til að stefna stefnda, Reykjavíkurborg, inn í mál nr. E-3891/2011 fyrst nú. Þá er jafnframt á því byggt að stefna uppfylli ekki áskilnað 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 enda sé um að ræða slíka vanreifun á málatilbúnaði stefnanda í stefnu að stefnda sé gert ókleift að taka til varna með eðlilegum hætti. Auk þessa vekur stefndi athygli dómsins á því að lengd stefnu kunni að fela í sér skriflegan málflutning sem sé í andstöðu við áðurnefnda 80. gr. laganna og geti verið tilefni til frávísunar frá dómi án kröfu. Verður nú nánar gerð grein fyrir málsástæðum stefnda fyrir aðalkröfu.
Stefnandi byggir framhaldsstefnu á heimild í 29. gr. laga um meðferð einkamála. Stefndi Reykjavíkurborg bendir á að sú tilvísun geti eðli málsins samkvæmt ekki átt við aðild stefnda Reykjavíkurborgar að umræddu máli enda hafi honum ekki verið stefnt í frumstefnu. Þar sem stefnda Reykjavíkurborg sé, samkvæmt framhaldsstefnu, ætlað að verða nýr aðili að frumsök stefnanda hafi stefnandi ekki vísað til viðeigandi ákvæða laga um meðferð einkamála um aðild hans. Er því um vanreifun að ræða af hálfu stefnanda sem leiða á til frávísunar málsins hvað stefnda varði.
Framangreindu til stuðnings bendir stefndi Reykjavíkurborg á að fullyrðingar stefnanda, sem fram koma í stefnu þess efnis að stefnanda hafi fyrst verið ljós mögulegur þáttur byggingarfulltrúa stefnda Reykjavíkurborgar í málinu þegar matsgerð í frumsök lá fyrir 17. september 2012, séu rangar. Bent er á að fram kemur í dómskjölum með frumstefnu, t.d. dómskjali nr. 3, að stefnandi heldur því fram í bréfi dags. 18. febrúar 2011, að lokaúttekt byggingarfulltrúa dags. 15. október 2006 hafi farið fram þrátt fyrir að þá hafi skort á að tilteknar framkvæmdir hafi verið eins og gert var ráð fyrir á samþykktum teikningum hjá byggingarfulltrúa. Miðað við að meint tjón stefnanda hafi átt sér stað í lok árs 2007 má ljóst vera að stefnandi hafði nægan tíma til að skoða öll gögn er vörðuðu byggingu hússins og glerhjúpsins þar til frumstefna var þingfest 6. október 2011. Eins og áður segir lá niðurstaða matsgerðar fyrir 17. september 2012 en þrátt fyrir það hafi stefnda Reykjavíkurborg ekki verið stefnt inn í málið fyrr en rúmlega ári síðar eða 7. nóvember 2013. Verði að meta það stefnanda til vanrækslu að hafa ekki stefnt stefnda Reykjavíkurborg inn í málið með frumstefnu enda ljóst að kröfu á hendur stefnda Reykjavíkurborg hefði hæglega mátt hafa uppi í frumsök. Ekki hafi komið fram nein ný atvik sem leitt gætu til þess að stefnandi hafi fyrst nú vitað um þátt stefnda Reykjavíkurborgar í byggingarferlinu. Með því að stefna Reykjavíkurborg ekki inn í málið strax í upphafi hafi möguleikar stefnda Reykjavíkurborgar til að taka til varna verið takmarkaðir á ólögmætan hátt og verði ekki úr þeim annmörkum bætt með umþrættri „framhaldsstefnu“.
Vakin er athygli dómsins á því að í stefnu er sú dómkrafa gerð að stefndi Reykjavíkurborg og aðrir meðstefndu, fyrir utan frumstefnda Reynald Jónsson, „verði in solidum dæmir (sic) bótaskyldir fyrir öllu tjóni á burðarvirki glerhjúps og glerhjúp á Ægisgötu 5, Reykjavík“. Engin fjárhæð er þó tilgreind í dómkröfu á hendur stefnda Reykjavíkurborg. Virðist dómkrafa stefnanda í stefnu á hendur stefnda Reykjavíkurborg því vera eins konar viðurkenningarkrafa. Þrátt fyrir það lætur stefnandi undir höfuð leggjast að vísa til viðeigandi ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 kröfu sinni til stuðnings. Ljóst sé því að dómkrafa stefnanda gagnvart stefnda Reykjavíkurborg er vanreifuð og ber að vísa málinu hvað stefnda varðar frá dómi.
Þá bendir stefndi á að engar málsástæður eða lagarök séu í stefnu færð fyrir þeirri dómkröfu stefnanda að stefndi verði dæmdur bótaskyldur sameiginlega með öðrum tilgreindum stefndu. Hér sé því um ótæka dómkröfu að ræða. Engin haldbær rök hafi verið færð fyrir slíkri niðurstöðu auk þess sem ekki sé vísað til viðeigandi ákvæða laga um meðferð einkamála þessari dómkröfu til stuðnings. Þá skorti með öllu rökstuðning fyrir því að kröfur á hendur stefnda, og öðrum tilgreindum stefndu, séu samkynja eða samrættar eins og stefnandi haldi fram í stefnu. Auk þess fáist ekki séð að nein rök séu færð fyrir stöðu dómkrafna gagnvart hvorri annarri. Þannig séu því skilyrði laga um meðferð einkamála til að sakaukastefna stefnda Reykjavíkurborg inn í aðalsök ekki fyrir hendi og því beri að vísa málinu hvað stefnda varðar frá dómi.
Að auki bendir stefndi á að fleiri annmarkar á stefnu leiði til þess að hún uppfylli ekki 80. gr. laga um meðferð einkamála, sérstaklega d-, e- og f-lið 1. mgr. hennar. Þannig sé málsgrundvöllur stefnu óljós enda skorti mjög á samhengi málsástæðna við dómkröfur. Þá skorti verulega á lagarök fyrir þeim málsástæðum sem stefnandi virðist tefla fram í stefnu. Ekki verði séð hvernig stefndi Reykjavíkurborg geti tekið til eðlilegra varna þegar dómkröfum er stillt upp með þeim hætti sem raun ber vitni enda gangi umrætt fyrirkomulag í berhögg við framangreind fyrirmæli laga um meðferð einkamála um skýra og glögga kröfugerð í stefnu.
Þá hafi stefnandi hróflað svo mjög við grundvelli málsins frá því að stefna var þingfest og ekki gert þá grein fyrir þeim kröfum sem eru hafðar uppi í málinu sem nauðsynlegt sé skv. 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála að kröfugerð stefnanda sé í reynd svo óskýr að óhjákvæmilegt sé að vísa kröfum á hendur stefnda Reykjavíkurborg frá dómi.
Varðandi lagarök um frávísunarkröfu vísar stefndi Reykjavíkurborg til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 2. mgr. 16. gr., 19., 27., 29., 80., 129. og 130. gr.
IV.
Niðurstaða
Stefnandi færir þau rök fyrir framhaldsstefnu í málinu að hann hafi stórlega vanmetið tjón sitt í upphafi þegar málið í aðalsök var þingfest þann 6. október 2010 og það hafi ekki komið í ljós fyrr en matsgerð dómkvadds matsmanns hafi legið fyrir þann 6. desember 2012. Með henni hafi komið fram efnisleg skilyrði til að auka við kröfur á stefnda, Reynald Jónsson byggingarstjóra, vegna starfsábyrgðartryggingar hans, og ástæða til að hafa uppi nýjar kröfur í málinu á hendur fleiri aðilum, sem hafi borið ábyrgð á hönnun, gerð teikninga, burðarþolshönnun, uppdráttum, samþykkt þeirra og uppsetningu á burðarvirki og glerhjúp í fasteigninni að Ægisgötu 5. Stefnandi telur umræddar kröfur um bótaskyldu framhaldsstefndu vera bæði samkynja og samrættar, það er þær eigi rætur til sama atviks og aðstöðu, sem sé gerð burðarvirkis og glerhjúps í Ægisgötu 5.
Stefnandi vísar til 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 varðandi sakarauka, 29. gr. sömu laga varðandi framhaldsstefnu og 129. og 130. gr. sömu laga varðandi málskostnað.
Allir stefndu í framhaldssök krefjast frávísunar framhaldsstefnu og vísa til þess að samkvæmt ákvæðum 29. greinar einkamálalaga sé heimilt að auka við fyrri kröfu eða hafa uppi nýja kröfu í máli eftir þingfestingu en fyrir aðalmeðferð þess ef skilyrðum 1. mgr. 27. gr. er fullnægt og ekki verði ekki metið aðilanum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu.
Þá krefjast stefndu Orri Árnason, réttargæslustefndi Sjóvá hf., stefndu Benedikt Skarphéðinsson og Þráinn Karlsson og réttargæslustefndi Tryggingamiðstöðin hf., og stefndi Reykjavíkurborg frávísunar á þeim grundvelli að ekki séu uppfyllt skilyrði 19. gr. og 29. gr. laga um meðferð einkamála þannig að heimilt sé að stefna þeim inn í málið. Stefndu telja einnig allir að vísa beri framhaldsstefnu frá þar sem hún uppfylli ekki kröfur um skýrleika á grundvelli 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Tjón af völdum óveðurs olli skemmdum á fasteign stefnanda að Ægisgötu 5 í Reykjavík dagana 13.-14. desember 2007. Stefnanda mátti strax vera ljóst að tjón hafi orðið á eigninni og hefði í framhaldi af því átt að láta staðreyna tjónið með dómkvaðningu matsmanns til að kanna orsakir tjónsins hygðist hann leita réttar síns gagnvart aðilum er talið yrði að bæru ábyrgð á tjóninu. Það var síðan ekki fyrr en 6. október 2011 sem aðalsök var þingfest eða nær fjórum árum eftir að tjónsatvik átti sér stað.
Þann 10. febrúar 2012 óskaði stefnandi síðan eftir dómkvaðningu matsmanns í aðalsök og matsbeiðni lá fyrir þann 17. september 2012. Hún var þó ekki lögð fram fyrr en í þinghaldi 6. desember 2012 eða nær fimm árum eftir að umrætt tjón varð. Framhaldsstefna var síðan þingfest þann 7. nóvember 2013 eða rúmum 13 mánuðum eftir að matsgerð lá fyrir og rúmum tveimur árum eftir að aðalstefna var þingfest. Þá voru liðin nær sex ár frá því að skemmdir urðu á fasteign stefnanda í óveðrinu sem var upphafið að máli þessu.
Í málinu liggja ekki fyrir af hálfu stefnanda aðrar skýringar á því af hverju stefnandi hafði ekki allar kröfur sínar uppi í aðalsök eða af hverju þeim nýju aðilum sem stefnt er inn í málið með framhaldsstefnu á grunvelli 29. og 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 var ekki stefnt í aðalsök en nauðsyn þess hafi fyrst orðið ljós þegar matsgerð dómkvadds matsmanns var lögð fram í þinghaldi þann 6. desember 2012. Raunar er umrædd matsgerð dagsett 17. september 2012. Þá hafi stefnandi mátt treysta því að vottorð byggingarfulltrúa um lokaúttekt, sem dags. var 15. október 2006, væri trygging fyrir því að tilskildum ákvæðum um efni, gerð og búnað væri fullnægt með löglegum hætti. Þrátt fyrir þessa skýringar stefnanda liggur fyrir í málinu ritað bréf til stefnda Reykjavíkurborgar, dags. 18. febrúar 2011, nálægt níu mánuðum áður en mál í aðalsök var þingfest, og vísar til þess að lokaúttekt hafi farið fram þann 15. október 2006, en vottorðið hefði ekki átt að gefa út nema farið hefði verið eftir samþykktum uppdráttum á árunum 2004-2005.
Stefnandi hafði tæp fjögur ár frá tjónsdegi til að kynna sér hverjir voru byggjendur og hönnuðir hússins og hvernig verkaskiptingu milli hönnuða hafi verið háttað. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að kynna sér hverjir gátu hugsanlega borið ábyrgð á uppsetningu og hann hafði vissulega ærið tilefni til þess að kynna sér þau hönnunargögn varðandi byggingu fasteignarinnar sem fyrir lágu hjá embætti byggingarfulltrúa stefnda Reykjavíkurborgar, enda eru allar upplýsingar þar að lútandi aðgengilegar.
Dómkröfur stefnanda eru þannig fram settar í framhaldsstefnu að krafist er greiðslu fjárhæðar úr hendi stefnda Reynalds sem samsvarar öllu tjóni stefnanda. Jafnframt krefst stefnandi þess að viðurkennd verði sameiginleg bótaábyrgð fjögurra annarra stefndu á sama tjóni. Dómkröfur stefnanda eru ekki settar fram sem aðal- og varakröfur og ekki er hægt að taka þær til greina samhliða og getur það ekki átt undir dóminn að velja hvora kröfuna eigi að dæma.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat dómsins að skilyrði 29. og 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 séu ekki uppfyllt og því ekki heimild til að auka við fyrri kröfur í málinu eða stefna nýjum aðilum til að svara til sakar með þeim sem stefnandi hefur þegar stefnt. Þá er einnig til þess að líta að fleiri annmarkar á stefnu leiða til þess að hún uppfyllir ekki skilyrði 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um glöggan málatilbúnað, málsgrundvöllur stefnu er óljós og vanreifaður og skortir á samhengi málsástæðna við dómkröfur.
Þegar að öllu ofanskráðu athuguðu og virtu og með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða er fallist á framkomnar kröfur um frávísun framhaldsstefnu frá dómi.
Eftir þessum úrslitum ber með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dæma stefnanda til að greiða framhaldsstefndu öðrum en aðalstefnda hverjum um sig málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn eins og í úrskurðarorði greinir. Ákvörðun um málskostnaðarkröfur aðalstefnda og réttargæslustefnda bíður efnisdóms í aðalsök.
Úrskurðinn kvað upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Framhaldssök er vísað frá dómi.
Stefnandi, Húsfélagið Ægisgata 5, greiði stefndu, Orra Árnasyni, Benedikt Skarphéðinssyni, Þráni Karlssyni og Reykjavíkurborg, hverjum um sig 300.000 kr. í málskostnað.