Hæstiréttur íslands
Mál nr. 279/2008
Lykilorð
- Málsástæða
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 29. janúar 2009. |
|
Nr. 279/2008. |
Ný-Fiskur ehf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Fiskmarkaði Íslands hf. og (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) Reiknistofu fiskmarkaða hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Málsástæður. Frávísun frá héraðsdómi.
N ehf. hélt því fram að F hf. og R hf. hefðu staðið saman að ólöglegri háttsemi með því að F hf. auglýsti og seldi fisk óslægðan en skilaði honum til kaupanda slægðum og án innmatar og R hf. gerði N ehf. reikning fyrir kostnaði við slægingu og flutning fisksins til og frá slægingarstað. N ehf. kvaðst eiga endurgreiðslukröfu á F hf. og R hf. vegna innheimtra gjalda og andvirðis innmatar sem hann hafði ekki fengið afhentan. N ehf. vísaði í ýmis lög máli sínu til stuðnings, þar á meðal samkeppnislög nr. 44/2005 „sem leggja bann við samkeppnishindrunum og misnotkun á markaði“. Talið var að verulega skorti á skýrleika málsreifunar í héraði. Fyrir Hæstarétti lagði N ehf. megináherslu á þá málsástæðu að F hf. og R hf. hefðu brotið gegn samkeppnislögum með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína. F hf. og R hf. mótmæltu málsástæðum N ehf., þar sem um væri að ræða nýjar málsástæður og ekki hefði verið lagður fullnægjandi grundvöllur fyrir þeim í stefnu. N ehf. taldi hins vegar að með framangreindri tilvísun í stefnu til samkeppnislaga hefði málsástæða um misnotkun á markaðsráðandi stöðu verið nægilega reifuð en héraðsdómur hefði ekki fjallað um hana á fullnægjandi hátt. Fallist var á það með F hf. og R hf. að málatilbúnaður N ehf. hefði breyst mjög frá því sem var í héraði. Þá hefði hann í upphafi ekki verið nægilega skýr til að F hf. og R hf. hefðu getað tekið til varna á fullnægjandi hátt. Þótti því óhjákvæmilegt að vísa málinu að sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. maí 2008. Hann krefst þess nú að stefndu verði dæmd til að greiða sér 1.402.472 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. mars 2007 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Í báðum tilvikum krefjast þau greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsástæður og lagarök áfrýjanda í héraði eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Byggir hann í fyrsta lagi á því að söluskilmálar stefnda, Fiskmarkaðar Íslands hf., og framkvæmd þeirra hafi verið ólögmæt, það er að auglýsa og selja fisk óslægðan en skila honum til kaupanda slægðum og án innmatar. Þá hafi stefnda, Reiknistofu fismarkaða hf., verið óheimilt að gera áfrýjanda reikning fyrir kostnaði við slægingu og flutning fisksins til og frá slægingarstað, og hafi hún við innheimtu reiknings getað gengið að bankaábyrgð áfrýjanda. Hafi áfrýjandi mótmælt þessum viðskiptaháttum, en stefndu sameiginlega staðið að hinni ólöglegu háttsemi og beri þau því óskipta ábyrgð. Áfrýjandi kveðst eiga endurgreiðslukröfu á stefndu vegna innheimtra gjalda og andvirðis innmatar sem hann hafi ekki fengið afhentan. Með þessu hafi verið brotið gegn ákvæði 72. gr. stjórnarskrár, reglum um uppboðsskilmála samkvæmt lögum nr. 79/2005 um uppboðsmarkaði sjávarafla, gegn 31. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, lögum nr. 91/2006 um mál og vog, lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup, lögum nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða og loks gegn samkeppnislögum nr. 44/2005 „sem leggja bann við samkeppnishindrunum og misnotkun yfirburðastöðu á markaði.“
Verulega skortir á skýrleika málsreifunar í héraði um rökstuðning fyrir því hvernig framangreind lagarök skjóti stoðum undir málsgrundvöllinn. Á þetta alveg sérstaklega við um framangreinda almenna tilvísun til samkeppnislaga og þá skýringu sem henni fylgir. Þá er óljóst hvort gerð sé endurgreiðslukrafa eða skaðabótakrafa og þá hvort um sé að ræða kröfu um skaðabætur innan eða utan samninga.
Fyrir Hæstarétti byggir áfrýjandi annars vegar á því að háttsemi stefndu hafi verið saknæm og ólögmæt og því sé fyrir hendi grundvöllur skaðabóta utan samninga, en hins vegar að hann hafi vanefnt samninga sína við áfrýjanda. Megináherslu leggur áfrýjandi þó á þá málsástæðu, að stefndu hafi brotið gegn samkeppnislögum með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína.
Stefndu mótmæla málsástæðum áfrýjanda með þeim rökum að ekki hafi verið um þær fjallað í héraði, um sé að ræða nýjar málsástæður sem ekki eigi skylt við þann grundvöll málsins sem lagður hafi verið í stefnu. Telur stefndi, Fiskmarkaður Íslands hf., að sú málsástæða áfrýjanda að stefndu hafi valdið honum verulegu tjóni með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína, kalli á umfangsmikla umfjöllun og gagnaöflun en hann hafi ekki fengið sanngjarnt tækifæri til að bregðast við með þeim hætti. Áfrýjandi heldur því hins vegar fram að með framangreindri tilvísun í stefnu til samkeppnislaga hafi málsástæða um misnotkun markaðsráðandi stöðu verið nægilega reifuð en héraðsdómur hafi hins vegar ekki fjallað um hana á fullnægjandi hátt.
Hina fyrri málsástæðu áfrýjanda þykir mega rekja til málatilbúnaðar hans í héraði þó að framsetning hennar þar hafi verið ruglingsleg. Um hina síðari er í stefnu einungis vísað til samkeppnislaga án frekari tilgreiningar á ákvæðum þeirra laga og enga frekari lýsingu er að finna á því með hvaða hætti er um markaðsráðandi stöðu að ræða eða hvernig hún hefur verið misnotuð. Verður að fallast á með stefndu að hin síðari málsástæða hafi fyrst verið höfð uppi fyrir Hæstarétti. Í málflutningi stefndu fyrir Hæstarétti kom fram að þeir hefðu litið á tilvísun til samkeppnislaga í stefnu einungis sem lagarök. Þó að mörk málsástæðu og lagaraka séu ekki alltaf skörp verður í þessu tilviki að fallast á, að því er varðar meint brot gegn samkeppnislögum, að stefndu hefðu ekki mátt átta sig á að um helstu málsástæðu áfrýjanda yrði að ræða og að vörn þeirra hafi verið áfátt vegna þess hvernig framsetningu á þessu atriði var háttað í stefnu.
Af framangreindu er sýnt að málatilbúnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti hefur breyst mjög frá því sem var í héraði. Þá var hann í upphafi ekki nægilega skýr til þess að stefndu gætu tekið til varna á fullnægjandi hátt. Af þessum ástæðum þykir óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Áfrýjandi skal, samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Áfrýjandi, Ný-Fiskur ehf., greiði stefndu, Fiskmarkaði Íslands hf. og Reiknisstofu fiskmarkaða hf., hvorum um sig 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. febrúar 2008.
Mál þetta var þingfest 11. apríl 2007 og tekið til dóms 24. janúar 2008. Stefnandi er Ný-Fiskur ehf., Hafnargötu 1, Sandgerði, en stefndu eru Fiskmarkaður Íslands hf., Norðurtanga, Ólafsvík og Reiknistofa Fiskmarkaða hf., Iðavöllum 7, Reykjanesbæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 1.514.846 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. mars 2007 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar in solidum.
Stefndi Fiskmarkaður Íslands hf. krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður þá felldur niður.
Stefndi Reiknistofa fiskmarkaða hf. krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Málskostnaðar er krafist.
I
Stefnandi kveður tildrög máls þessa vera þau að fiskmarkaðir starfi hér á landi samkvæmt lögum nr. 79/2005 um uppboðsmarkaði og séu lögin rammalög. Í 5. gr. laganna segi að í reglugerð skuli kveða á um útgáfu rekstrarleyfa og starfsemi uppboðsmarkaða, þ. á m. um gagnsæi viðskipta, birtingu uppboðsskilmála og uppboðslýsingar. Auk þess segi að ráðherra setji jafnframt reglur um starfsemi reiknistofu uppboðsmarkaða. Útgáfa þessarar reglugerðar hafi dregist úr hömlu en viðskiptahættir á fiskmörkuðum hafi hneigst til verri vegar og einkennst af ólöglegum uppboðsskilmálum og margvíslegri ósanngirni í garð kaupenda.
Ófremdarástand hafi verið látið viðgangast hjá stefnda, Fiskmarkaði Íslands hf., og þannig boðinn upp fiskur sem þegar hafi verið slægður og því haft aðra og minni þyngd en þá sem hann í uppboðslýsingu hafi verið sagður hafa. Þá hafi stundum í uppboðslýsingu verið tekið fram að slæging fari fram á fiskinum á vegum seljanda eftir sölu á honum og seljandi því haldið fiskinum áfram í sinni vörslu eftir söluna og þá iðulega flutt hann langar leiðir til annars staðar þar sem slæging hafi farið fram. Að því búnu hafi fiskurinn verið afhentur kaupanda og kaupanda gerður reikningur fyrir kostnaði, bæði við slægingu og flutning til og frá slægingarstað. Stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., sem starfi í tengslum við stefnda, Fiskmarkað Íslands hf., hafi síðan séð um að innheimta reikninga þessa hjá kaupendum. Það hafi gerst með þeim hætti að stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., hafi gengið í bankaábyrgð stefnanda þótt það hafi ekki verið heimilt samkvæmt ábyrgðarskilmálum.
Með bréfi 29. janúar 2007 hafi stefnandi gert stjórn Fiskmarkaðar Íslands hf. grein fyrir því að hann frábæði sér að vera sviptur ráðstöfunarrétti á þeim þorski sem hann kaupi hjá stefnda. Stefnandi hafi tekið fram í þessu bréfi að hann áskili sér rétt að ráða því sjálfur hvort og hvar fiskur sem hann kaupi á markaðinum verði slægður og stefnda væri óheimilt að nota bankaábyrgð hans til annarra nota en til innheimtu á kaupverði hins keypta fisks og svo til innheimtu á uppboðsgjöldum.
Í vikunni 9.-15. mars 2007 keypti stefnandi 81.753 kg af óslægðum þorski á fiskmarkaði stefnda. Samkvæmt reikningi 16. mars 2007, sem stefndi Reiknistofa fiskmarkaða hf. útbjó og sendi stefnanda, námu fiskkaup þessi 23.932.156 krónum sem að viðbættum 14% virðisaukaskatti að fjárhæð 1.675.252 krónur gerði samtals 25.607.408 krónur. Afgreiðslugjald vegna þessara viðskipta var 242.802 krónur sem að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti að fjárhæð 59.485 krónur gerði samtals 302.287 krónur.
Stefnandi segir að þrátt fyrir áðurnefndan fyrirvara stefnanda í bréfi 29. janúar 2007, að hann ákvæði sjálfur hvort og hvar þorskur sem hann keypti á fiskmarkaðinum yrði slægður, hafi stefndi Fiskmarkaður Íslands hf. upp á sitt eindæmi sett hinn keypta fisk í slægingu. Við slæginguna hafi stefndi Fiskmarkaður Íslands hf. hirt af stefnda innmat (hrogn, lifur og svil) af hinum keypta sjávarafla og ekki skilað stefnanda. Síðan hafi stefndi Reiknistofa fiskmarkaða hf. útbúið reikninga vegna greindra viðskipta 16. mars 2007 og innheimt með því að ganga í bankaábyrgð stefnanda. Reikningur fyrir nefnda þjónustu hafi numið samtals 1.014.480 krónum.
Undir rekstri málsins aflaði stefnandi mats þar sem matsmaður var beðinn um að meta til peningaverðs verðmæti innmats (hrogna, svila og lifrar) í þorski sem stefnandi keypti hjá stefnda Fiskmarkaði Íslands hf. vikuna 9.-15. mars 2007. Í matsgerð segir m.a. að á þessum tíma geti innyflin numið allt að 20% af þyngd fiskjar. Nokkuð góð reynsla sé komin á að magn lifrar sé um 7% af þyngd fiskjarins og hrogn og svil um 5%. Niðurstaða matsmanns er að verðmæti innmats í þorski þeim sem stefnandi keypti vikuna 9.-15. mars 2007 af stefnda, Fiskmarkaði Íslands hf., sé 700.000 krónur.
Stefnandi reisi kröfugerð sína á þeim málsástæðum fyrst og fremst að stefnda, Fiskmarkaði Íslands hf., hafi verið óheimilt að lögum að leyfa seljendum fisks á uppboðsmarkaði sínum að selja sjávarafla þann, sem stefndandi keypti vikuna 9.-15. mars 2007, með því skilyrði að hinn seldi sjávarafli yrði eftir sölu á kostnað stefnanda tekinn til slægingar á stað sem seljendur ákvæðu sjálfir og innmatur fisksins yrði hirtur af stefnanda forspurðum. Slæging á kostnað stefnanda hafi verið ólögleg aðgerð og sé því stefnanda rétt að endurheimta úr hendi stefndu þau verðmæti sem þannig hafi ólöglega verið frá honum tekin. Annars vegar hin ólöglega teknu gjöld fyrir óumbeðna, ólöglega þjónustu og hins vegar andvirði þess innmats sem hafi ólöglega verið hirtur af stefnanda.
Stefnandi reisir dómkröfur sínar á því að ólöglegt hafi verið það fyrirkomulag stefnda, Fiskmarkaðs Íslands hf., að auglýsa til sölu á fiskmarkaði sínum ofangreindan sjávarafla sem óslægðan miðað við tiltekna þyngd hans óslægðs. Það hafi jafngilt því að fiskurinn hafi þegar verið slægður og innmatur hans þegar hirtur og hinn keypti fiskur því í reynd haft aðra og minni þyngd en þegar hann var keyptur. Það hafi jafnframt jafngilt því að fiskurinn hafi verið slægður og innmatur hans hirtur eftir að hann hafi verið seldur kaupanda og því haft aðra og minni þyngd á afhendingardegi en uppgefið hafi verið í uppboðsauglýsingu. Í þessu efni telur stefnandi einu gilda þótt stefndi Fiskmarkaður Íslands hf. hafi í uppboðsauglýsingu á sjávarafla áskilið sér rétt til að slægja hinn selda sjávarafla þar sem ófrávíkjanleg ákvæði íslenskra laga standi því í vegi að hann geti haft þennan hátt á þar sem þetta hafi verið ólöglegt athæfi. Því hafi jafnframt verið ólöglegt að gera stefnanda reikning þann sem liggi frammi í málinu.
Þar sem stefndu hafi tekið saman þátt í hinu ólöglegu aðgerð telur stefnandi þá bera óskipta ábyrgð á hinni ólöglegu athöfn sem sé saknæm. Þess vegna sé þeim stefnt saman í málinu, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnandi telur að stefndu hafi brotið ákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um friðhelgi eignarréttar með því að fá fiskkaupanda ekki þegar í stað eftir kaup á uppboði umráð yfir hinum keypta sjávarafla heldur senda hann gegn vilja kaupanda til slæginga á fjarlægum stað. Ennfremur með því að hirða verðmætan innmat fiskjarins að kaupanda forspurðum og afhenda kaupanda fiskinn síðan án innyfla og með annarri og minni þyngd en uppgefið hafi verið í uppboðsauglýsingu.
Stefndu hafi brotið ákvæði laga nr. 79/2005 um uppboðsmarkaði sjávarafla sem kveði á um og geri ráð fyrir skýrum, hlutlausum og sanngjörnum uppboðsskilmálum er tryggi gagnsæi markaðar, sbr. einkum 5. gr. laganna. Lögin leggi stjórn stefnda, Fiskmarkaðs Íslands hf., ríkar ábyrgðarskyldur á herðar svo sem að gæta hlutleysis gagnvart þeim sem eiga viðskipti við uppboðsmarkaði og mismuna þeim ekki svo sem með því að heimila seljanda fisks að áskilja sér rétt til að setja keyptan fisk í slægingu gegn vilja kaupanda og hirða verðmætan innmat hans að kaupanda forspurðum. Þannig hafi stefndi hylmt yfir með seljendum sem hafi framið auðgunarbrot gegn kaupendum.
Stefndu hafi brotið lög nr. 7/1936 um samningsgerð og ógilda löggerninga með því að beita stefnanda misbeitingu, sbr. 31. gr. laganna. Ennfremur sé háttsemi stefndu brot á 36. gr. laganna.
Stefndi Fiskmarkaður Íslands hf. hafi brotið lög nr. 91/2006 um mál og vog með því að koma í veg fyrir að þau lög hefðu í raun haft gildi með því að fá fiskkaupanda ekki þegar í stað umráð hins keypta sjávarafla.
Stefndi, Fiskmarkaður Íslands hf., hafi brotið lög nr. 50/2000 um lausafjárkaup sem gerir ráð fyrir að samið sé um afhendingardag. Afhendingardagur skipti máli t.d. í þeim tilvikum þegar áhætta flytjist af hinu selda yfir til kaupandans. Stefndi hafi flutt hinn keypta fisk til slægingar og síðan afhent hann kaupanda. Stefnandi hafi því ekki getað tryggt góða meðhöndlun á hráefninu.
Stefndi hafi brotið lög nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða sem geri strangar kröfur um að fiskvinnslustöðvar tryggi neytendum tiltekin gæði afurða sinna. Með því að flytja fiskinn til slægingar á óþekktan stað hafi kaupandi ekki getað fullnægt lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.
Stefnandi byggir á því að ákvæði samkeppnislaga nr. 44/2005, sem leggi bann við samkeppnishindrunum og misnotkun yfirburðastöðu á markaði, hafi verið brotin.
II
Stefndi, Fiskmarkaður Íslands hf., telur grundvallaratriði í þessu máli að skoða af hvaða þáttum framboð á fiski ráðist og hvernig það hafi áhrif á uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla. Úthlutun fiskveiðiheimilda fari fram á grundvelli laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og sé útgerðum úthlutað aflaheimildum í samræmi við ákvæði laganna. Þær takmörkuðu aflaheimildir, rétturinn til þess að veiða og landa óunnum fiski, sé þannig í höndum útgerða. Ákvarðanir útgerða um það hvaða vettvang þær velji til þess að selja veiddan afla ráði úrslitum um það hvernig framboð og eftirspurn á óunnum fiski sé háttað, þ. á m. á uppboðsmörkuðum fyrir sjávarafla. Þegar útgerð taki ákvörðun um hvar og hvernig eigi að selja veiddan afla ráði úrslitum hvar fáist hæst verð fyrir aflann. Útgerðir hafi um nokkra valkosti að ræða. Þær geti selt aflann með beinni sölu ýmist í einstökum viðskiptum eða með því að gera fasta sölusamninga við tiltekinn kaupanda. Þá geti útgerðir sett afla á uppboðsmarkað með því að selja aflann í gám sem fluttur sé til útlanda eða með því að sigla með aflann á erlenda fiskmarkaði. Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu um sölu á fiski tímabilið 2001-2006 sé 63% afla seldur beinni sölu, 8% í gámasölu, 14% hjá stefnda, Fiskmarkaði Íslands hf. og 16% á öðrum fiskmörkuðum. Samkvæmt þessum upplýsingum noti útgerðir og handhafar veiðiheimilda framangreindar söluleiðir fyrir fisk nokkuð jöfnum höndum.
Markaður með fisk sé seljandamarkaður og ráði seljendur í reynd ferðinni þegar komi að viðskiptakjörum og skilmálum um sölu og kaup. Þetta komi fram í skýrslu nefndar sem sjávarútvegsráðherra hafi skipað til að kanna starfshætti fiskmarkaða og gefin hafi verið út í desember 2002. Þar komi ítrekað fram þau sjónarmið að markaður með fisk sé seljandamarkaður. Uppboðsmarkaðir keppi við aðrar söluleiðir, þ.e. beina sölu, kvótaleigu, gámasölu og siglingar. Til að mæta vilja og þörfum útgerða þurfi uppboðsmarkaður að tryggja seljendum hæsta mögulega verð. Nánast allir kaupendur á fiski kaupi fisk eftir fleiri en einni leið enda ráðist framboð á fiski fyrst og fremst af því hvar útgerðir taka ákvörðun um að selja afla sinn í það skiptið. Þá leigi fiskkaupendur einnig kvóta í þeim tilgangi að þurfa ekki að kaupa hann beint af útgerðum eða kaupa hann af uppboðsmörkuðum. Fiskkaupendur semji síðan við útgerð um að veiða hinn leyfða kvóta.
Þá hafi framkvæmd reglugerðar nr. 522/1998 sem sett hafi verið samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og þágildandi laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, svo og reglugerð nr. 644/2006 um veiðar í atvinnuskyni haft veruleg áhrif á uppboðsskilmála fiskmarkaða þar sem efni þeirra og innihald hafi leitt til þess að það sé óhagkvæmt fyrir útgerðina að landa slægðum fiski þar sem löndun á slægðum fiski hafi þau áhrif að frádráttur landaðs afla á úthlutaða veiðiheimild verði mun óhagstæðari en ef afla sé landað óslægðum. Þá hafi seljendur gert þá kröfu til uppboðsmarkaða að þeir sjái til þess að aðrir en seljandinn sjái um að slægja fiskinn og flokka fyrir kaupendur. Þannig hafi seljendur losnað við kostnað við slægingu og tryggi að gæði fisksins séu sem mest og minnki þannig líkur á að kaupendur geri kröfur til afsláttar vegna minni gæða á fiskinum eftir að kaup hafi átt sér stað á óslægðum afla.
Því séu uppboðsskilmálar þeir sem stefndi bjóði upp á hreinlega viðbrögð við kröfum markaðarins um tilhögun, sölu og skilmála fyrir sölu vöru á markaði þar sem verðmyndun sé frjáls og mótist af framboði og eftirspurn.
Stefndi, Fiskmarkaður Íslands hf., byggir á því að stefnandi hafi að fullu þekkt þá uppboðsskilmála sem hann hafi keypt fiskinn á. Beri allur málatilbúnaður stefnanda þess merki að hann hafi gjörþekkt uppboðsskilmála stefnda, þ. á m. skilmála um slægingu. Með því að taka þátt í uppboðinu og kaupa fiskinn sé stefnandi bundinn við efni uppboðsskilmála þeirra sem deilt sé um í málinu. Stefndi hafi svarað bréfi stefnanda 29. janúar 2007 með bréfi samdægurs þar sem skýrlega komi fram að öllum frávikum frá uppboðsskilmálum stefnda eða sérstökum samningum við kaupendur um sérskilmála sé með öllu hafnað. Með því að kaupa umræddan fisk á uppboðsmarkaðnum hafi stefnandi í raun samþykkt skilmála þá sem seljandi fisksins hafi sett. Í skilmálunum sé skýrlega tekið fram að allur innmatur sé eign þess aðila sem sjái um slæginguna. Þetta hafi stefnandi gjörþekkt enda keypt fisk á markaðinum svo árum skipti með þessum sömu skilmálum. Uppboðsskilmálar liggi frammi á starfsstöðvum stefnda og sömuleiðis skilmálar fyrir slægingu. Þá hafi stefndi birt slægingarskilmála sína á heimasíðu sinni um árabil.
Stefndi byggir á því að ekkert í lögum eða reglugerðum banni fyrirkomulag eða efni á uppboðsskilmálum hans eða skilmálum við slægingu. Þetta fyrirkomulag hafi mótast af þörfum markaðarins og vegna ákvæða laga og reglugerða. Ekkert í lögum, hvorki lögum nr. 79/2005 eða öðrum lögum eða reglugerðum, banni það fyrirkomulag sem stefndi hafi haft á uppboði með sjávarafla á mörkuðum sínum. Fullyrðingar stefnanda séu með öllu ósannaðar og ekki studdar haldbærum rökum eða gögnum.
Þá byggir stefndi á að uppboðsskilmálar séu mismunandi milli fiskmarkaða en á Íslandi séu í dag reknir 30 fiskmarkaðir af 19 fyrirtækjum. Stefnandi þurfi því ekki eða sé skyldugur til að kaupa sjávarafla af uppboðsmarkaði stefnda og geti keypt fisk á öðrum uppboðsmörkuðum sem hafi aðra skilmála. Þá sé stefnanda í lófa lagið að tryggja sér hráefni til vinnslu eftir öðrum leiðum sem notaðar séu af fiskkaupendum jöfnum höndum. Því sé því mótmælt að stefnanda sé nauðugur sá einn kostur að kaupa fisk af stefnda með framangreindum skilmálum.
Fyrirtæki sem reki uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla eigi í harðri samkeppni innbyrðis um þann fisk sem útgerðir ákveði að selja á uppboðsmörkuðum. Jafnframt keppi uppboðsmarkaðir jafnhliða við aðrar leiðir sem seljendum standi til boða þegar tekin sé ákvörðun um hvar eigi að selja afla. Í þessari samkeppni þurfi uppboðsmarkaðir sjálfir að keppa sín á milli að fá að selja fisk á sínum mörkuðum, m.a. með því að bjóða mismunandi þjónustu og fyrirkomulag á kaupum og sölu. Ráðandi þáttur í þeirri tilhögun sé að gera uppboðsmarkaði aðlaðandi fyrir seljendur og reyna að tryggja þeim sem hæst verð fyrir þann fisk sem þeir komi með á markaðinn.
Stefndi byggir á að útgerðir fái úthlutað veiðiheimildum árlega samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Þegar útgerð selji tiltekinn kílóafjölda afla á uppboðsmarkaði sé kílótala þess afla sem seldur sé dregin frá árlega úthlutaðri veiðiheimild. Upplýsingum um kílóatölu, sem dregin sé frá úthlutaðri veiðiheimild útgerðar, sé miðlað til Fiskistofu eftir tveimur leiðum, annars vegar frá hafnarvog löndunarhafnar, þegar vigtað er upp úr bát eða skipi, og hins vegar vigt á fiskmarkaði. Sé misræmi milli vigtar, sem mæld sé við löndun og þeirrar sem vigtuð sé á fiskmarkaði, noti Fiskistofa þá kílóatölu sem sé hærri og dragi þannig meira frá úthlutaðri veiðiheimild útgerðar. Framangreint hafi leitt af sér að margar útgerðir sjái sér hag í að landa fiski óslægðum og vilji selja fisk óslægðan á fiskmarkaði.
Þá byggir stefndi á því að seljendur hafi gert þá kröfu til uppboðsmarkaða að þeir selji afla með þeim skilyrðum að aðrir en seljandinn sjái um að slægja fiskinn og flokka fyrir kaupendur. Með því losni seljendur annars vegar við kostnað við slægingu og hins vegar að fiskurinn sé rétt flokkaður en þannig minnki mjög líkur á að kaupendur geti gert kröfu um afslátt vegna minni gæða á fisknum.
Stefndi byggir á því að einföld hagfræðileg rök leiði til þess að það sé seljandi sem ráði skilmálum og kjörum í viðskiptum sem þessum. Geti seljandi ekki selt fisk á fiskmarkaði með sínum skilmálum beini hann einfaldlega viðskiptum sínum annað í þeim tilgangi að fá sem hæst verð fyrir. Sé kaupandi ekki ánægður með uppboðsskilmála geti hann einfaldlega snúið sér til annarra uppboðsmarkaða eða keypt fisk eftir öðrum leiðum eins og að framan er getið. Grunnrök laga um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla hafi verið sú að verðmyndun á uppboðsmörkuðum myndi ráðast af framboði og eftirspurn.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að stefndi hafi gengið að bankaábyrgð stefnanda.
Stefndi mótmælir því að ákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar geti átt við í málinu. Stefndi eigi engan eignarrétt yfir aflanum og það sé seljandi sem ákveði uppboðsskilmála. Aflinn verði ekki eign kaupanda fyrr en hann hafi fengið hann afhentan í samræmi við þá skilmála sem kaupandi hafi undirgengist með því að kaupa aflann á uppboði.
Stefndi mótmælir því að hann hafi beitt stefnanda misneytingu. Það sé seljandi aflans sem ákveði uppboðsskilmála en þar að auki hafi stefnandi val á því að kaupa sjávarafla á fleiri uppboðsmörkuðum og eftir fleirum leiðum eins og áður hefur verið rakið. Stefnandi sé því ekki háður stefnda að nokkru leyti.
Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að uppboðsskilmálar á uppboðsmarkaði stefnda brjóti gegn 36. gr. samningalaga. Skilmálarnir séu ekki ósanngjarnir eða andstæðir góðri viðskiptavenju en þar að auki hafi stefnandi keypt sjávarafla um árabil á framangreindum uppboðsskilmálum.
Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að ákvæði laga nr. 91/2006 eigi við í málinu. Stefnanda hafi að fullu verið ljóst hver þyngd aflans hafi verið sem upp hafi verið boðinn. Fiskkaupendur reikni ávallt með slóginnihaldi við kaup á fiski og gegni þá einu hvort fiskur sé slægður á uppboðsmarkaði af kaupanda sjálfum eða öðrum.
Varðandi tilvísun stefnanda til kaupalaga vísar stefndi til 3. gr. laganna þar sem segir að ákvæði kaupalaga eigi ekki við þegar annað leiði af samningi, fastri venju milli aðila, viðskiptavenju eða annarri venju sem telja verði bindandi milli aðila.
Þá telur stefndi ósannað að hann hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Ekkert í málatilbúnaði stefnanda rökstyðji þessa fullyrðingu. Sama sé að segja um tilvísun stefnanda til laga nr. 44/2005 um að stefndi stundi samkeppnishindranir. Þessar fullyrðingar stefnanda séu með öllu órökstuddar. Þá byggir stefndi á því að ekki sé ljóst hvort krafa stefnanda sé krafa um endurgreiðslu eða hvort um skaðabótakröfu sé að ræða.
III
Stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., kveður málavexti þá að stefndi gegni hlutverki reiknistofu uppboðsmarkaða, sbr. lög um uppboðsmarkaði sjávarafla nr. 79/2005. Hlutverk stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða hf., sé skilgreint í 6. gr. laganna en tilteknar skyldur leyfishafa samkvæmt ákvæðinu hafi í raun verið framseldar til stefnda samkvæmt heimild í 3. mgr. ákvæðisins. Þannig sjái stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., um reikningsgerð, innheimtu reikninga og móttöku greiðslna fiskkaupenda í umboði fiskmarkaða. Stefndi veiti fiskmörkuðum aðgang að tölvukerfi sínu og hafi hver markaður sinn aðgang að kerfinu. Hver og einn markaður setji sína eigin skilmála og ákveði sín gjöld algjörlega án íhlutunar stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða hf., en markaðirnir séu 19 talsins, þ.e. 19 fyrirtæki á 30 stöðum á landinu. Fiskmarkaðurinn sjálfur beri á allan hátt ábyrgð á ágreiningi við kaupanda um hið selda, sbr. t.d. grein 2.1. í þjónustusamningi milli stefndu í málinu, þar sem sérstaklega sé tekið fram að stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., hafi ekki afskipti af slíkum málum. Þannig ákveði fiskmarkaðir á hvern hátt þeir sinni fiskkaupendum, hvaða þjónustu þeir veiti og hvaða gjöld þeir innheimti. Stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., hafi hins vegar verið falið að sjá um innheimtu á reikningum fiskmarkaðanna. Þá sé stefnda skylt samkvæmt lögum að krefjast greiðslu trygginga af fiskkaupanda samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 6. gr. laga nr. 79/2005 ef ekki sé um staðgreiðsluviðskipti að ræða. Stefndi komi hvergi að útvegun tryggingarinnar heldur fái fiskkaupandi bankatryggingu hjá sínum viðskiptabanka sem stefndi beri síðan að ganga eftir og halda utan um samkvæmt ákvæðum fyrrnefndra laga.
Í því tilviki sem mál þetta snúist um hafi stefndi, Fiskmarkaður Íslands hf., selt stefnanda fisk á uppboði samkvæmt þeim skilmálum sem gildi í viðskiptum fyrirtækisins við alla viðskiptamenn sína. Stefndi Reiknistofa fiskmarkaða hf. gefi síðan út reikning á fiskkaupandann, stefnanda, samkvæmt þeim upplýsingum sem stefndi fái frá fiskmarkaðnum um viðskipti í tölvukerfi sínu. Reikningurinn hafi síðan verið innheimtur með venjubundnum hætti og greiddur. Röng sé sú fullyrðing stefnanda að umræddur reikningur hafi verið innheimtur með því að ganga á bankaábyrgð stefnanda heldur hafi stefnandi sjálfur greitt reikninginn. Aldrei hafi á það reynt í viðskiptum aðila að stefndi þyrfti að innleysa bankaábyrgð stefnanda.
Í meginatriðum snúist mál þetta um hvort seljandi á markaði geti boðið vöru sína til sölu í tilteknu horfi og á tilteknum stað eða hvort kaupandi geti ráðið þessum hlutum.
Í stefnu sé engin grein gerð fyrir sérstakri lagareglu eða málsástæðu sem ábyrgð stefnda eigi að byggjast á. Í stefnu sé ekki minnst á hvort krafan sé skaðabótakrafa innan eða utan samninga, einhvers konar endurgjaldskrafa vegna oftekins söluverðs eða eitthvað annað. Stefndi eigi rétt á að fá þetta skýrt í stefnu því varnir taki mið af því á hvaða grunni stefnukrafa hvíli. Ekki sé til dæmis unnt að fjalla um skaðabótakröfu nema með því að skoða hvort tjón sé rétt metið. Sé krafan skaðabótakrafa eigi stefnandi til dæmis eftir að draga frá þann kostnað sem hann hefði sjálfur þurft að bera vegna flutnings á fiskinum sem og slægingar. Það væri með öðrum orðum tjón hans. Engin reifun sé hins vegar á þessum atriðum í stefnunni og því beri af þessari ástæðu að sýkna stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða hf., af kröfu stefnanda.
Við upptalningu á málsástæðum hafi stefnandi ekki vikið að stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða hf, nema á þann hátt að hann hafi tekið þátt í ólöglegum athöfnum með stefnda, Fiskmarkaði Íslands hf. Í stefnu sé fjallað um meint brot meðstefnda, Fiskmarkaðs Íslands hf., gegn stjórnarskrá lýðveldisins og ýmsum settum lögum. Þessi meintu brot séu hins vegar ekki tengd við atvik málsins, hvað þá að þáttur stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða hf., sé á nokkurn hátt skilgreindur. Öllum málsástæðum stefnanda sé því mótmælt í heild sinni.
Stefnda sé ekki ætlað það hlutverk, hvorki samkvæmt lögum né samningum sínum við fiskmarkaði, að gæta að því hvort viðkomandi fiskkaupandi sé sáttur við hið selda eða þá þjónustu sem viðkomandi fiskmarkaður hafi veitt honum. Stefndi hafi því ekki brotið lög með því að senda stefnanda reikning þann sem mál þetta snúist um. Með því hafi stefndi eingöngu verið að gegna hlutverki sínu sem skilgreint sé í 6. gr. laga nr. 79/2005 um uppboðsmarkaði sjávarafla og í þjónstusamningi sínum við Fiskmarkað Íslands hf.
Stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., bendir einnig á til upplýsinga, að stefndi hafi enga hagsmuni af því að innheimta allan heildarkostnað í stað þess að innheimta einungis greiðslu aflaverðmætis. Sú þóknun sem stefndi fái fyrir að sinna þeim skyldum, sem stefnda hafi verið framseldar samkvæmt 6. gr. laga nr. 78/2005, miðist við tiltekna fjárhæð á hverju kílói sem innheimt sé fyrir. Stefndi fengi því ekki hærri þóknun í sinn hlut þótt innheimt væri hærri fjárhæð með því að innheimta einnig fyrir aukaverk.
Varakrafa um lækkun krafna stefnanda sé sett fram með það í huga að dómstóll kynni að fallast á kröfu stefnanda að einhverju leyti. Sérstaklega sé mótmælt fjárhæð stefnukröfu en krafan sé með öllu ósundurliðuð og því ómögulegt fyrir stefnda að átta sig á því úr hverju hún sé samansett.
Þá mótmælir stefndi því sérstaklega að hann geti talist ábyrgur fyrir ætlaðri brotttöku innmats eða endurgreiðslu á verðmæti hans. Stefndi hafi á engan hátt komið að ætlaðri brotttöku innmats eða á nokkurn hátt hagnast af slíku. Stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., hafi ekkert haft með það að gera er stefnandi hafi keypt fiskinn af stefnda, Fiskmarkaði Íslands hf.
Þá mótmælir stefndi tölulegri framsetningu stefnanda og upphafsdegi dráttarvaxta.
IV
Fyrir dóminn komu Birgir Kristinsson, framkvæmdastjóri stefnanda, Tryggvi Leifur Óttarsson, framkvæmdastjóri stefnda Fiskmarkaðs Íslands hf. og Eyjólfur Þór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri stefnda Reiknistofu fiskmarkaða hf., og gáfu skýrslur.
Stefnandi er fiskverkunarfyrirtæki og kaupir fisk á fiskmörkuðum, þ. á m. hjá stefnda, Fiskmarkaði Íslands hf. Stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., gegnir hlutverki reiknistofu uppboðsmarkaða, sbr. 6. gr. laga nr. 79/2005 um uppboðsmarkaði sjávarafla og er falið að sjá um innheimtu á reikningum fiskmarkaðanna. Fiskmarkaðir eru á 30 stöðum á landinu og starfa 19 fyrirtæki í greininni.
Stefnandi hefur keypt fisk hjá stefnda, Fiskmarkaði Íslands hf., frá árinu 1989. Stefnandi er með eigin bát en að sögn forsvarsmanns stefnanda kaupir stefnandi 70-80% af hráefni af fiskmörkuðum, aðallega hjá stefnda. Stefnandi telur að viðskiptahættir og uppboðsskilmálar hjá stefnda, Fiskmarkaði Íslands hf., hafi þróast síðustu 2-3 ár þannig að þeir séu orðnir ólöglegir þar sem stefnandi sé neyddur til að kaupa slægðan fisk á uppboðsmarkaði stefnda í stað þess að fá hann óslægðan eins og áður hafi tíðkast. Að auki hafi slæging farið fram á vegum seljanda eftir að kaup hafi verið gerð og fiskurinn fluttur á slægingarstöð. Síðan hafa hann verið afhentur með allt aðra þyngd og minni en við kaup. Þá hafi stefnanda verið gert að greiða kostnað vegna flutninga en orðið af innmat sem seljandi hafi hirt. Þessa viðskiptahætti telur stefnandi ólögmæta og er krafa hans í málinu reist á þeim sjónarmiðum. Grundvöllur kröfunnar eru kaup stefnanda á fiskmarkaði stefnda vikuna 9.-15. mars 2007 en þá keypti stefnandi 81.753 kg af þorski. Í matsgerð dómkvadds matsmanns er verðmæti innmats (hrogna, svila og lifrar), í keyptum þorski þessa viku metinn á 700.000 krónur.
Með lögum nr. 19/1987 um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir er í fyrsta sinn sett löggjöf um starfsemi fiskmarkaða. Tilgangurinn var að stuðla að frjálsri verðmyndun sem réðist af ferskleika og gæðum ásamt framboði og eftirspurn hverju sinni. Með lögum nr. 123/1989 voru gerðar breytingar sem einkum miðuðu að því að gera rekstrarleyfi fiskmarkaða ótímabundin. Núgildandi lög eru nr. 79/2005 og samkvæmt 5. gr. laganna er heimilt að setja reglugerð þar sem m.a. skal kveða á um útgáfu rekstrarleyfa og starfsemi uppboðsmarkaða, þ. á m. um gagnsæi viðskipta, birtingu uppboðsskilmála og um uppboðslýsingar. Í greinargerð með 5. gr. laganna segir að komið hafi fram óskir frá hagsmunaaðilum um að settar yrðu samræmdar starfsreglur fyrir fiskmarkaði til að auka öryggi í viðskiptum. Að öðru leyti er ekki að finna nein fyrirmæli í lögum um tilhögun viðskipta eða efni og inntak uppboðsskilmála, önnur en þau að skilmálar taki mið af starfsemi þeirra og þess hvernig verðmyndun á sjávarafla eigi sér stað á mörkuðum.
Þegar mál þetta var höfðað hafði reglugerð á grundvelli 5. gr. laga nr. 79/2005 ekki verið sett. Með reglugerð nr. 646/2007, sem gildi tók 1. september 2007, sbr. relugerð nr. 774/2007, var kveðið á um að þeir viðskiptahættir og uppboðsskilmálar, sem deilt er um í máli þessu, skyldu aflagðir. Segir í 16. gr. reglugerðar nr. 646/2007 að kaupandi teljist eigandi aflans stax að loknu uppboði.
Úthlutun fiskveiðiheimilda fer fram á grundvelli laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og er útgerðum úthlutað aflaheimildum í samræmi við ákvæði laganna. Það eru því útgerðir sem ákveða hvernig aflinn er seldur og úrslitum ræður hvar hæst verð fæst fyrir aflann. Upplýst er í málinu að 63% veidds afla er seldur beinni sölu, 8% í gáma til útflutnings, 14% á fiskmarkaði stefnda og 16% á öðrum fiskmörkuðum.
Stefnandi er uppboðsmarkaður sem annast umboðssölu fyrir sjávarafla. Markaður með fisk er seljendamarkaður og ráða seljendur í reynd ferðinni varðandi viðskiptakjör og skilmála um kaup og kjör. Seljendur eru að leita að hæsta mögulega verði og kaupendur bjóða í fiskinn eins og þeir telja hagkvæmt fyrir sína starfsemi. Stefnandi var ekki bundinn við að eiga viðskipti við stefnda, Fiskmarkað Íslands hf., ef honum líkaði ekki uppboðsskilmálar hjá honum. Það er ekki stefndi sem setur uppboðsskilmála heldur seljendur. Hafi stefndi verið ósáttur við skilmálana gat hann snúið sér annað. Með því að taka þátt í umræddu uppboði og kaupa fiskinn hjá stefnda varð stefnandi bundinn við efni uppboðsskilmála þeirra sem deilt er um í málinu en því er ekki haldið fram í málinu af hálfu stefndanda að hann hafi ekki þekkt uppboðsskilmála. Tilgangur og grunnrök laga um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla var að verðmyndun á uppboðsmörkuðum réðist af framboði og eftirspurn. Uppboðsskilmálar hjá stefnda hafa tekið mið af þessum grunnrökum og því að hæst verð fáist fyrir afla á hverjum tíma. Ekkert í lögum eða reglugerðum, þá er kaupin voru gerð, bannaði stefnanda að selja fisk eftir þeim skilmálum sem deilt er um í málinu og eins og áður sagði gat stefnandi beint viðskiptum sínum annað ef honum fannst skilmálar hjá stefnda ósanngjarnir eða óaðgengilegir á einhvern hátt. Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi, Fiskmarkaður Íslands hf, sýknaður af kröfum stefnanda í málinu enda þykja þau lagarök, er stefnandi teflir fram, ekki eiga við í málinu.
Stefnandi hefur ennfremur stefnt Reiknistofu fiskmarkaða hf., in solidum með stefnda, Fiskmarkaði Íslands hf. Í stefnu segir að stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., hafi gengið á bankaábyrgð stefnda en forsvarsmaður stefnanda leiðrétti þann misskilning í skýrslu sinni fyrir dómi og sagði að umræddur reikningur hafi verið greiddur á venjubundinn hátt.
Hlutverk stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða hf., er skilgreint í 6. gr. laga nr. 79/2005 og samkvæmt 3. mgr. greinarinnar hefur leyfishafi, (uppboðsmarkaður) framselt stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða hf., tilteknar skyldur. Þannig sér stefndi um reikningsgerð, innheimtu reikninga og móttöku greiðslna fiskkaupenda í umboði fiskmarkaða.
Málsókn á hendur stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða hf., er reist á því að stefnda hafi verið ,,óheimilt að lögum að gera stefnanda reikning, dags. 16. mars 2007, fyrir kostnaði við slægingu og flutning til og frá slægingarstað og innheimta þann reikning með því að ganga að bankaábyrgð stefnanda”. Sem áður sagði er fullyrðing stefnanda í stefnu á misskilningi byggð um að gengið hafi verið á bankaábyrgð stefnanda. Fallist verður á með stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða hf., að stefnda sé ekki ætlað það hlutverk, hvorki samkvæmt lögum né samningi sínum við meðstefnda, Fiskmarkað Íslands hf., að gæta að eða bera ábyrgð á að fiskkaupandi sé sáttur við uppboðsskilmála eða þá þjónustu er viðkomandi fiskmarkaður hefur veitt honum. Með því að senda stefnanda reikning 16. mars 2007 var stefndi eingöngu að gegna hlutverki sínu sem skilgreint er í 6. gr. laga nr. 79/2005 og í þjónustusamningi sínum við meðstefnda. Stefndi, Reiknistofa fiskmarkaða hf., verður því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.
Samkvæmt öllu framansögðu verða stefndu sýknaðir alfarið af kröfu stefnanda og eftir þeim úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur til handa stefndu, Fiskmarkaði Íslands hf. að meðtöldum virðisaukaskatti og 800.000 krónur til hands stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða ehf., einnig að viðbættum virðisaukaskatti.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndu, Fiskmarkaður Íslands hf. og Reiknistofa fiskmarkaða hf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Ný-Fisks ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda Fiskmarkaði Íslands hf., 800.000 krónur í málskostnað og stefnda, Reiknistofu fiskmarkaða hf., 800.000 krónur í málskostnað.