Hæstiréttur íslands

Mál nr. 640/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 6

 

Föstudaginn 6. nóvember 2009.

Nr. 640/2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Unnar Steinn Bjarndal hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4 nóvember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. nóvember 2009 klukkan 16, og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Greinargerðir málsaðila bárust Hæstarétti 6. nóvember 2009. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. nóvember 2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. nóvember 2009, kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Er krafan aðallega byggð á a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 en til vara á b- og d- liðum sama lagaákvæðis.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að hann hafi í samvinnu við önnur lögregluembætti, allt frá 10. október sl., haft til rannsóknar ætlað mansal ásamt fleiri brotum sem lögreglan ætlar að séu hluti af ætlaðri skipulagðri glæpastarfsemi. Sé kærði grunaður í því máli og hafi hann setið í gæsluvarðhaldi frá 18. október sl. Varðandi frekari málsatvik vísist til fyrri krafna um gæsluvarðhald fyrir dómnum svo og til gagna málsins.

Lögregla telji rökstuddan grun til að ætla að kærði hafi innritað konuna á hótel Leifs Eiríkssonar þann 15. október sl. og verið í samskiptum við konuna á meðan hún var ekki í umsjá lögreglu en fyrir liggi að símanúmer kærða var í tengslum við símanúmer konunnar á þeim tíma auk þess sem myndir séu af kærða og konunni í eftirlitsmyndavél hótelsins þann sama dag. Þá hafi konan borið um það að hafa verið í samskiptum við kærða á þeim tíma sem hún var ekki í umsjá lögreglu. Kærði hafi að mestu neitað að tjá sig um málið og verið heldur ósamvinnufús við lögreglu. Það sé því ætlun lögreglu að kærði kunni að tengjast komu og veru hins ætlaða fórnarlambs mansals hingað til lands.

Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og miði vel en það sé mjög umfangsmikið og teygi anga sína víða og telji lögreglan að rökstuddur grunur leiki á því að um sé að ræða verulega umfangsmikla skipulagða glæpastarfsemi sem kærði tengist ásamt meðkærðu. Rannsókn málsins hafi verið unnin í nánum samskiptum við erlend lögregluyfirvöld og sérstaklega til Litháen en fyrir liggi fjöldi gagna þaðan sem unnið sé að því að þýða og varðar forsögu og aðdraganda að ferð konunnar hingað til lands. Sú háttsemi, sem kærða hafi verið gefin að sök, telji lögreglustjóri að kunni einkum að varða við ákvæði 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en ætlað brot gegn því ákvæði geti varðað fangelsisrefsingu, allt að 8 árum. Rannsókn málsins á ætluðu mansali sé verulega flókin og að mati lögreglu ljóst að hún taki lengri tíma en flestar aðrar rannsóknir.

Varðandi aðalkröfuna telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka og/eða vitni eða geti komið undan sönnunargögnum gangi hann laus en um verulega umfangsmikið mál sé að ræða og hafi kærðu á engan hátt verið samvinnufúsir við lögreglu og lögreglan því þurft að eyða afar miklum tíma í það að yfirfara gögn og bera þau saman, sem nauðsynlegt sé að gera, og bera þau svo undir kærðu áður en þeir geti sammælst við hverja aðra eða aðra mögulega samverkamenn. Sú vinna standi enn og sex manns sitji nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins og gæti verulegs ósamræmis í framburði þeirra hjá lögreglu.

Varðandi varakröfu lögreglu vísi lögreglustjóri til þess að kærði sé af erlendu bergi brotinn og því séu verulegar líkur á að hann reyni að yfirgefa Ísland eða komast undan ætlaðri refsingu verði hann fundinn sekur af þeirri háttsemi sem lögreglan ætlar að hann hafi átt aðild að. Þá vísi lögreglustjóri jafnframt til þess að þær sakir sem lögreglan ætli að kærði kunni að eiga aðild að, séu verulega alvarlegar og varði helgustu réttindi fólks. Með vísan til þess telji lögreglan nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi til að verja aðra fyrir árásum hans.

Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé þess jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta takmörkunum sbr. a- til f-liði 1. mgr. sömu greinar.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, rannsóknarhagsmuna, aðallega a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, en til vara við b- og d-liði sama ákvæðis, 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. nóvember 2009, kl. 16.00.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er í fullum gangi og enn á viðkvæmu stigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Er fallist á það með lögreglustjóra að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og verður kærða því gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Kærði hefur nú þegar setið í gæsluvarðhaldi frá 18. október sl. Eins og málið liggur nú fyrir er það mat dómsins að rétt sé að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Er kærða því gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 11. nóvember 2009 kl. 16:00. Verður kærða gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Úrskurð þennan kveður upp Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. nóvember 2009, kl. 16.00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.