Hæstiréttur íslands
Mál nr. 23/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 12. janúar 2011. |
|
Nr. 23/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og b. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. janúar 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. janúar 2011 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með sóknaraðila að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Við uppsögu hins kærða úrskurðar var bókað: „Kærða er leiðbeint um rétt hans til að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Kærði kærir úrskurðinn.“ Ekki var bókað í hvaða skyni kært væri svo sem áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka hefur verið bætt með skriflegri greinargerð.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins. 14. janúar 2011 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að laugardaginn 8. janúar sl. um kl. 6:00 hafi A komið í fylgd vinkvenna sinna á slysadeild. Meint brot hafi átt sér stað á skemmtistað í miðbænum. Hafi þær misst sjónar af henni um stund en fundið hana svo til rænulausa vegna ofneyslu áfengis á gólfi salernisins. Hafði hún verið klædd úr sokkabuxum og nærbuxum að hluta til. Hafi þær mætt kærða á leiðinni út og hafi þær átt orðaskipti við hann. Muni hann hafa gefið í skyn að hann hafi haft samræði við A á salerninu.
Rætt hafi verið óformlega við A og fleiri vitni á slysadeild. Vegna ölvunarástands A hafi hún ekki munað eftir því sem gerst hafði. Vitni hafi getað gefið greinargóða lýsingu á kærða.
Hafi hann verið handtekinn kl. 17:45 í gærkvöldi á heimili vinkonu sinnar.
Skoðaðar hafi verið upptökur af skemmtistaðnum en myndavél sé staðsett þannig að sjá megi mannaferðir inn á gang er liggi inn á salerni. Á upptöku hafi kærði og A sést ganga inn ganginn og sé A áberandi ölvuð.
Kærði hafi gengist undir réttarlæknisfræðilega rannsókn í gær og hafi verið yfirheyrður í kjölfarið. Hann kvaðst ekki þekkja A og hafi neitað því að hafa átt við hana samræði eða önnur kynferðisleg samskipti.
Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/194, er varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins sé á frumstigi og telji lögreglustjórinn ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Taka þurfi formlega skýrslu af A og öðrum vitnum, m.a. vinkonu kærða. Brýnt sé að kærði gangi ekki laus meðan á þessum rannsóknaraðgerðum standi en nauðsynlegt sé að tryggja að hann geti ekki torveldað rannsókn málsins. Þá sé kærði [...] ríkisborgari búsettur í [...] en þangað hyggist hann fara á morgun. Ætla megi að kærði muni reyna að komast úr landi gangi hann laus.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, a og b liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði hefur mótmælt framkominni kröfu.
Með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins þykir fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi framið það brot sem honum er gefið að sök. Brotið getur varðað við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fallist á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. Þá er kærði erlendur ríkisborgari, búsettur í [...] og mun hafa átt farmiða úr landi í dag. Er því fallist á að skilyrði a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. séu uppfyllt, svo úrskurða megi kærða í gæsluvarðahald. Er því fallist á kröfuna eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins. 14. janúar 2011 kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
.