Hæstiréttur íslands
Mál nr. 147/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit
- Opinber skipti
- Óvígð sambúð
|
|
Föstudaginn 23. mars 2012. |
|
Nr. 147/2012.
|
M (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn K (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Kærumál. Fjárslit. Opinber skipti. Óvígð sambúð.
Fallist var á kröfu K um opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar hennar og M, sbr. 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., með vísan til þess að sýnt væri að sambúð málsaðila hefði staðið samfleytt yfir í að minnsta kosti tvö ár og að uppfyllt væru skilyrði ákvæðisins til fjárslita milli þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. febrúar 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. febrúar 2012, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að opinber skipti skyldu fara fram til fjárslita milli hennar og sóknaraðila. Þá var vísað frá dómi kröfu varnaraðila um að viðurkenndur yrði réttur hennar til að fá úthlutað helmingi allra eigna og verðmæta sem mynduðust á sambúðartíma aðila og kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði að lágmarki 500.000 krónur. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um opinber skipti til fjárslita milli aðila, en til vara að henni verði gert að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði að fjárhæð 500.000 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hófst samband aðila á árinu 2001 eða 2002. Stóð sambandið yfir í um átta ár, eftir atvikum með hléum. Varnaraðili telur að þau hafi byrjað sambúð eigi síðar en á árinu 2005. Skilja verður málflutning sóknaraðila svo að hann mótmæli því í sjálfu sér ekki að til sambúðar hafi stofnast en hún hafi hins vegar ekki staðið í tvö ár samfleytt eins og tilskilið sé í 100. gr. laga nr. 20/1991. Sambandi aðila lauk á árinu 2010. Lýtur deila þeirra að því hvort uppfyllt sé það skilyrði framangreinds lagaákvæðis að sambúð hafi staðið samfleytt í að minnsta kosti tvö ár. Nefndu lagaákvæði var lítillega breytt með 12. gr. laga nr. 65/2010 sem tóku gildi 27. júní 2010 eða um það leyti sem upp úr slitnaði sambandi málsaðila. Verður talið að ákvæðið gildi með því efni sem það hafði meðan á hinni umdeildu sambúð stóð eða fyrir lagabreytinguna.
Meðal þess sem máli kann að skipta við mat á því hvort til óvígðar sambúðar hafi stofnast er athugun á því hvort sambúðarfólkið hafi að einhverju marki haft fjárhagslega samstöðu á sambúðartímanum. Bein ágreiningsmál um eignamyndun á sambúðartíma og áhöld um hlutdeild hvors um sig í slíkri eignamyndun koma hins vegar til úrlausnar við skiptameðferðina ef á kröfu um opinber skipti til fjárslita á milli þeirra er fallist.
Aðilar máls þessa voru ekki skráðir sem sambúðaraðilar í þjóðskrá, né heldur er öðrum opinberum gögnum til að dreifa um sambúð þeirra. Þeim ber ekki saman um hvenær sambúðin hófst. Varnaraðili heldur því fram að þau hafi tekið upp samband á árunum 2001 og 2002 og það staðið yfir allt til sambúðarslita á árinu 2010, en sóknaraðili telur að málsaðilar hafi ekki tekið upp samband fyrr en á árinu 2002 og það hafi verið slitrótt alla tíð. Samkvæmt þessu þykir sýnt að samband málsaðila hafi hafist eigi síðar en á árinu 2002.
Varnaraðili heldur því fram að málsaðilar hafi sameiginlega tekið á leigu fasteign að A í [...] í apríl 2005, en sóknaraðili ber því við að varnaraðili ein hafi flust þangað. Í gögnum málsins liggur meðal annars fyrir yfirlýsing eiganda fasteignarinnar að A, C, þess efnis að málsaðilar hafi sameiginlega tekið fasteignina á leigu í apríl 2005 og búið þar til marsmánaðar á árinu 2007, er þau hafi flutt saman þaðan í nýbyggingu á næstu jörð að B í [...]. Fasteignareigandinn kom fyrir héraðsdóm og staðfesti þar áðurgreinda yfirlýsingu. Í máli hans kom fram að málsaðilar hefðu sameiginlega komið að máli við sig um leigu á fasteigninni. Ekki hafi verið gerður skriflegur leigusamningur þar sem fasteignin hafi verið í slæmu ástandi. Sameiginlegur vinur beggja, D, kom fyrir héraðsdóm og bar þar um að þau hefðu búið saman að A í [...] og síðar að B og að þau hefðu í samskiptum við aðra komið fram sem sambúðarfólk.
Í málinu liggur fyrir að varnaraðili bjó á árunum 2008 til 2010 í fasteign sóknaraðila að B í [...]. Meðal gagna málsins er leigusamningur milli aðila um hluta tímabilsins. Hefur varnaraðili haldið því fram að samningur þessi hafi verið gerður til málamynda í því skyni að svíkja út bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Fyrir liggur að sóknaraðili krafði varnaraðila ekki um leigugreiðslur samkvæmt samningnum fyrr en eftir að málsaðilar höfðu slitið samvistir. Bendir það eindregið til þess að varnaraðili hafi búið í húsinu á grundvelli sambúðar við sóknaraðila og að staðhæfingar hennar um tilurð húsaleigusamningsins séu réttar.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður fallist á staðhæfingu varnaraðila um að sambúðin hafi staðið samfleytt í að minnsta kosti í tvö ár og að uppfyllt séu skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 til að fallast á kröfu hennar um opinber skipti til fjárslita milli málsaðila.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. febrúar 2012
Mál þetta var þingfest þann 29. september sl., við fyrirtöku máls dómsins nr. D-14/2011, sem var á milli sömu aðila, þar sem sóknaraðili máls þessa, K, kt. [...], til heimilis að B, [...], krafðist opinberra skipta til fjárslita á milli fólks í óvígðri sambúð, og beindist krafa hennar að varnaraðila, M, kt. [...], til heimilis að [...], [...]. Mótmælti varnaraðili kröfu sóknaraðila um opinber skipti og var málinu D-14/2011 lokið með því að til varð ágreiningsmál þetta.
Sóknaraðili krefst þess að opinber skipti fari fram til fjárslita á milli hennar og varnaraðila, þannig að viðurkenndur verði réttur hennar til að fá úthlutað helmingi allra eigna og verðmæta sem mynduðust á sambúðartíma þeirra, á árunum 2005 til og með janúar 2011.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu.
Varnaraðili gerir kröfu um að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að opinber skipti fari fram til fjárslita á milli aðila.
Til vara gerir sóknaraðili kröfu um að sóknaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir skiptakostnaði, að lágmarki 500.000 kr.
Þá gerir varnaraðili kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila að skaðlausu.
Aðalmeðferð fór fram í málinu þann 17. janúar sl. og var málið, að henni lokinni, tekið til úrskurðar.
Málavextir
Sóknaraðili lýsir málavöxtum þannig að hún hafi kynnst varnaraðila á árinu 2001 og hafið samband við hann á árunum 2001/2002. Á þeim tíma hafi sóknaraðili búið í [...] og varnaraðili verið tíður helgargestur hjá henni, og hann þannig verið í fríu fæði og húsnæði um helgar hjá sóknaraðila í nokkur ár, en hann átti lögheimili á [...]. Þá hafi aðilar hafið sambúð er þau fluttu í íbúð að A í [...] í apríl 2005. Fljótlega hafi verið farið að huga að byggingu nýs húss, og hafi aðilar flutt inn í hið nýja hús að B, er það var tilbúið í mars 2008 og hafi þau búið þar saman allt þar til varnaraðili fór út af heimilinu í september 2010. Sóknaraðili hafi í janúar 2011 flutt aftur að A, þar sem hún leigir nú, eftir að varnaraðili krafði hana um greiðslu leigu að fjárhæð 1.647.007,- kr. og í kjölfarið sett fram útburðarbeiðni á hendur henni.
Þá kveður sóknaraðili þau hafa eignast talsverðar eignir á sambúðartímanum, í formi innbús og einnig hafi þau byggt glæsilegt einbýlishús að B í [...]. Fasteignin sé þó eingöngu skráð á varnaraðila. Kveðst sóknaraðili hafa á þessum tíma verið búin að fara í tvær höfuðaðgerðir og þar af leiðandi ekki verið á vinnumarkaði. Hún hafi hins vegar lagt örorkubætur til heimilisins á sambúðartímanum, auk þess sem hún hafi lagt sitt af mörkum til heimilisins og búið varnaraðila glæsilegt heimili. Þá hafi sóknaraðili lagt talsvert af innanstokksmunum til heimilisins. Sóknaraðili hafi haldið um heimilið að mestu. Hún hafi séð um bréfaskriftir og gengið í ýmis fjárhagsleg mál sem hafi þurft að ganga í, t.d. að sækja bætur vegna vatnsleka og jarðskjálftatjóns. Þá hafi varnaraðili útbúið leigusamning, þar sem sóknaraðili leigði húsnæðið að B, af varnaraðila, allt til þess að auka ráðstöfunartekjur heimilisins. En varnaraðili hafi í kjölfar sambandsslita aðila gengið svo langt, eins og áður er lýst, að innheimta, með aðstoð lögmanns, ógreidda húsaleiguskuld og krefjast útburðar sóknaraðila úr húsnæðinu.
Í beiðni sóknaraðila eru taldar áætlaðar eignir og skuldir sem til skipta komi, aðallega fasteignin að B, fnr. [...], sem sé að mati fasteignasala að verðmæti um 40 milljónir króna. Á eigninni hvíli tvö lán, annað upphaflega að fjárhæð 12 milljónir króna og hitt að fjárhæð 5 milljónir. Aðrar eignir samanstandi af veglegum innanstokksmunum, m.a. ítölskum innréttingum. Sóknaraðili kveðst ekki þekkja til fleiri eigna, enda hafi henni að mestu verið haldið fyrir utan fjármál heimilisins, en varnaraðili sé þó einnig skráður fyrir fasteigninni að [...] á [...].
Varnaraðili hafnar málsatvikalýsingu sóknaraðila hvað varðar lengd og eðli sambands aðila. Kveðst varnaraðili hafa kynnst sóknaraðila á árinu 2001-2002, en það hafi ekki verið fyrr en á árinu 2002 sem þau hafi hafið samband sín á milli. Þau hafi þó ekki búið saman, varnaraðili hafi búið í íbúð sinni á [...], en sóknaraðili í leiguíbúð í [...] uns hún hafi flutt að A í [...] árið 2005. Hafi þau aldrei verið skráð í sambúð, né talið fram sameiginlega til skatts. Þar að auki hafi varnaraðili verið fjarverandi vegna vinnu sinnar alla virka daga og aðeins verið heima um helgar. Stundum hafi varnaraðili eytt helgum sínum með sóknaraðila, en ekki alltaf. Hafnar varnaraðili því alfarið að aðilar hafi verið í sambúð þann tíma sem haldið er fram af hálfu sóknaraðila. Varnaraðili sé ekkill sem sitji í óskiptu búi eftir eiginkonu sína heitna, en erfingjar eftir hana hafi fyrir utan hann verið sameiginleg börn þeirra og barn hennar frá fyrra sambandi. Á árinu 2007 hafi varnaraðili farið að huga að því að byggja sér hús á lóð sinni að B, á lóð sem hann erfði eftir foreldra sína. Varnaraðili kveðst hafa byggt húsið fyrir innistæðu á bankareikningi sem áður hafi verið á nafni látinnar eiginkonu sinnar, svo og með lántöku. Húsið hafi verið fullbyggt vorið 2008 og skömmu síðar hafi varnaraðili gert leigusamning við sóknaraðila um fasteignina. Varnaraðili hafi ekki flutt lögheimili sitt að B, heldur hafi hann verið með skráð lögheimili í íbúð sinni á [...] allan þann tíma er sóknaraðili kveður aðila hafa verið í sambúð.
Kveður varnaraðili samband aðila hafa verið slitrótt allan þann tíma sem það stóð og reglulega hafi slitnað upp úr því, og því hafi aldrei verið fjárhagsleg samstaða með aðilum, né hafi þau verið í hefðbundinni sambúð, nema e.t.v. nokkra mánuði. Þá kveður varnaraðili sóknaraðila hafa tekið með sér burt úr leiguhúsnæði sínu að B, nær allt innbú hússins, sem hafi að hluta til verið í eigu varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili tekið baðinnréttingu úr húsinu og háf úr eldhúsi eftir að hún flutti út, og hafi varnaraðili kært það til lögreglu, þar sem málið sé enn til rannsóknar.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að, þar sem henni hafi ekki þrátt fyrir margar tilraunir tekist að fá sanngjarnan skerf af þeim eignum sem myndast hafi sambúðartíma aðila og vegna hrokafullrar tilraunar varnaraðila til innheimtu húsaleigu af fyrrverandi sambúðarkonu sinni, sé henni nauðugur sá kostur að leita atbeina dómstóla til opinberra skipta á fjárslitum aðila. Kveður sóknaraðili uppfyllt skilyrði laga, m.a. 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., enda hafi aðilar búið samfleytt saman í að minnsta kosti tvö ár, en ekki sé það gert að skilyrði í nefndu ákvæði að sambúð sé skráð ef um hafi verið að ræða raunverulega sambúð. Ekki hafi varnaraðili búið neins staðar annars staðar eða með öðru fólki en með sóknaraðila á þessum tíma og það þótt lögheimili hans hafi verið annars staðar. Það að varnaraðili hafi verið í brúarvinnuflokki og því ekki verið í sambúð sé hjákátlegt. Sóknaraðili mótmælir því að ekkert sameiginlegt bú hafi verið til staðar. Hvor aðili fyrir sig hafi lagt fjármuni til sameiginlegs heimilis enda hafi ekki verið verulegur tekjumunur milli þeirra á sambúðartímanum. Þau hafi bæði tekið þátt í rekstri heimilisins og byggingu fasteignarinnar að B með tekjum sínum og vinnuframlagi. Sóknaraðili hafi tekið fullan þátt í byggingaframkvæmdum að B og aðstoðað varnaraðila í deilum um skiptingu á lóðum við B. Þá hafi sóknaraðili séð um bréfaskriftir við byggingafulltrúa [...] vegna byggingarleyfis og verið í samskiptum við [...] á [...], sem hafi selt húsið. Hafi hún gengið í öll samskipti við verktaka og þá sem hafi komið að byggingu hússins. Hún hafi séð um að mála allt húsið innan, fúaverja allt að utan og séð um lóðina og gerð hennar. Sóknaraðili mótmælir því að varnaraðili hafi sérstaklega létt undir með henni fjárhagslega, að frátöldum nokkrum krónum þegar þau hafi búið í [...]. Þá sé rangt að varnaraðili hafi greitt fyrir legstein á leiði foreldra sóknaraðila.
Um fjármál varnaraðila og sóknaraðila hafi farið eins og venjulega hjá sambúðarfólki, fjármunir hafi blandast saman, vinna og sameiginleg verkefni og úr hafi orðið ákveðin eignamyndun í formi húsnæðis og innbús. Hafi sóknaraðili reynt að sækja sinn rétt vegna þessa, m.a. með fundum með varnaraðila í kjölfar skilnaðarins en ekki hafi tekist sættir.
Engu breyti að varnaraðili sitji í óskiptu búi eftir eiginkonu sína, en vísun varnaraðila til 2. mgr. 13. gr. erfðalaga nr. 8/1962 eigi við um allt aðra stöðu en hér sé uppi. Sóknaraðili sé ekki að gera tilkall til þeirra eigna sem séu í óskiptu búi varnaraðila, heldur aðeins til þeirrar sameiginlegu eignamyndunar sem hafi átt sér stað á sambúðartíma þeirra. Varnaraðili geti ekki unnið rétt út að það eitt að hafa setið í óskiptu búi eftir eiginkonu sína frá 1995, en ekkert í lögum banni það að aðili sem situr í óskiptu búi geti stofnað til sambands og sameiginlegs heimilis og það eitt að varnaraðili sitji í óskiptu búi geti ekki orðið til þess að sóknaraðili tapi þeim rétti sem hún eigi, en væntanlegur skiptastjóri muni halda utan skiptanna þeim eignum sem tilheyri hinu óskipta búi.
Sóknaraðili mótmælir því að húsið að B hafi verið byggt fyrir fjármuni sem komið hafi úr hinu óskipta búi og hafi engin gögn verið lögð fram um það. Sóknaraðili og varnaraðili hafi bæði lagt heilmikið til hússins, en einnig hafi bygging þess verið fjármögnuð með lánum. Sóknaraðili hafi haft ágætar tekjur í formi örorkubóta og hluti þeirra hafi runnið til húsbyggingarinnar, en hinn hlutinn til reksturs heimilisins. Til að auka tekjur heimilisins hafi, að frumkvæði varnaraðila, verið gerður leigusamningur þar sem sóknaraðili hafi leigt af varnaraðila hluta hússins að B, en þetta hafi verið til að fá aukalega heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins. Leigusamningurinn hafi hins vegar aldrei verið innheimtur fyrr en eftir sambúðarslitin, enda hafi hann aðeins verið málamyndagerningur. Þá hafi mikið af vönduðum innréttingum í húsið verið fengnar frá [...], sem sé í eigu aðila tengdum sóknaraðila, þá að andvirði rúmlega 4,6 milljónir króna, en fyrir það hafi aðeins þurft að greiða kr. 1.000.000. Þá hafi sóknaraðili lagt til mikið af innbúi.
Þá kveðst sóknaraðili hafa haft frumkvæði að því að sækja tjónabætur vegna suðurlandsskjálftanna, samtals hátt í 2 milljónir króna.
Þá hafi sóknaraðili innt af hendi mikið vinnuframlag við að búa þeim heimili.
Sóknaraðili mótmælir því sérstaklega að krafa um opinber skipti sé of seint fram komin. Allt frá því sambúðinni lauk hafi sóknaraðili reynt að sækja sinn hlut með samningum, en það hafi ekki gengið eftir. Ekki séu tilteknir neinir tímafrestir í lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Ekki komi til að sóknaraðili þurfi að setja tryggingu fyrir skiptakostnaði þar eð ljóst sé að ótvírætt sé að eignir séu umfram skuldir í búinu.
Þá fer sóknaraðili fram á 50% hlut í öllum eignum búsins, hverjar sem þær kunna að verða og að verða skráð fyrir 50% hlut í fasteigninni að B, [...].
Kröfu sinni til stuðnings lagði sóknaraðili fram gögn um eignir og skuldir, auk yfirlýsinga ýmissa einstaklinga til staðfestingar á sambúð aðila.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 100., 101. og 104. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., en um málskostnað vísar sóknaraðili til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að engar forsendur séu til staðar til taka bú varnar- og sóknaraðila til opinberra skipta, enda sé skilyrðum 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., ekki fullnægt. Aðilar hafi ekki verið í sambúð í tilskilinn tíma. Vísar varnaraðili til þess að aðilar hafi ekki verið í skráðri sambúð og enginn gögn sanni samfellda sambúð aðila til hið minnsta tveggja ára. Hafnar varnaraðili því að yfirlýsingar þær er sóknaraðili hefur lagt fram máli sínu til stuðnings sanni nokkuð um sambúð þeirra. Varnaraðili hafi, líkt og áður er lýst, eingöngu verið heima um helgar á umræddum tíma.
Þar að auki byggir varnaraðili á því að, þó fallist yrði á sambúð aðila í skilningi áðurnefndrar 100. gr. skiptalaga, væri engu að síður ekki um neitt sameiginlegt bú að ræða, sem unnt væri að krefjast skipta á. Eignamyndun aðila á hinum meinta sambúðartíma hafi verið lítil sem engin. Þannig hafi varnaraðili eignast báðar fasteignir sínar áður en hann kynntist sóknaraðila. Þá séu eignir varnaraðila hluti af sameiginlegu búi hans og látinnar eiginkonu hans, sem enn sé óskipt. Þá hafi húsið á B verið byggt fyrir bætur er fengust vegna jarðskjálftatjóns er varð á eldra húsi á fasteigninni, er varnaraðili eignaðist, sem áður segir, áður en hann kynntist sóknaraðila. Hafi því allar eignir hins meinta sameiginlega bús verið í eigu varnaraðila og erfingja konu hans heitinnar áður en kom til sambands aðila. Við upphaf sambands þeirra hafi sóknaraðili aðeins átt innbú, en engar aðrar eignir. Þá geti sóknaraðili ekki, eðli málsins samkvæmt, krafist skipta á hinu óskipta búi sem varnaraðili situr í eftir látna eiginkonu sína, með kröfu um útlagningu eigna þess bús til sín. Vísar varnaraðili um þetta m.a. til sjónarmiða að baki 2. mgr. 13. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Ennfremur sé ekki unnt að fallast á að með þeim hafi orðið sameiginleg eignamyndun á sambandstímanum. Þannig hafi tekjur sóknaraðili rétt dugað fyrir framfærslu hennar sjálfrar, en ekki til nokkurrar eignamyndunar. Vísar varnaraðili þessu til stuðnings til þess að tekjur sóknaraðila hafi á umræddum tímabili numið, að frádregnum skattgreiðslum, að meðaltali um 200.000 kr., en samkvæmt neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins nemi kostnaður tveggja einstaklinga í sambúð af rekstri heimilis u.þ.b. 402.066 kr. og einstaklings u.þ.b. 292.662 kr. Ennfremur hafi fjárhagsstaða sóknaraðila verið svo bág á umræddum tíma að varnaraðili hafi nokkrum sinnum létt undir með henni með fjárframlögum. Þá kveður varnaraðili því ekki vera hafnað sem slíku að til sambands hafi stofnast meðal aðila, eða að þau hafi veitt hvort öðru aðstoð s.s. algengt er meðal sambúðarfólks, en kveður það þó hafa lítið gildi varðandi eignamyndum aðila.
Ennfremur byggir varnaraðili á því að aðilar hafi aldrei á þeim tíma sem þau voru í sambandi, viljað stofna til formlegrar óvígðrar sambúðar, með þeim réttaráhrifum sem henni fylgja, og bendir hann á lögheimilisskráningar þeirra þessu til stuðnings. Þau hafi ekki talið saman til skatts, og hafi þar að auki gert leigusamnings sín á milli vegna búsetu sóknaraðila í fasteign varnaraðila. Hafi þeim því verið í lófa lagið að tryggja hagsmuni sína sín á milli með samningum hefði vilji til slíks verið til staðar.
Varnaraðili hafnar því sem sóknaraðili heldur fram um að það hafi verið sameiginleg ákvörðun þeirri að gera leigusamning um fasteignina B, í þeim tilgangi að auka ráðstöfunarfé aðila. Um hafi verið að ræða raunverulega leigu fasteignarinnar, en vegna sambands aðila hafi varnaraðili ekki gengið hart í innheimtu leigu fyrr en eftir að sambandi aðila lauk, en þá hafi sóknaraðili búið í fasteigninni í talsverðan tíma án þess að greiða leigu.
Þá byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin og beri því að hafna kröfunni. Sambandi aðila hafi endanlega lokið vorið 2010, og eðli máls samkvæmt þurfi að gera kröfu um opinber skipti strax við lok meintrar sambúðar.
Að lokum byggir varnaraðili á því að verði fallist á kröfu sóknaraðila um að taka bú aðila til opinberra skipta, þá verði henni gert að setja tryggingu fyrir kostnaði við skiptin að fjárhæð 500.000 kr., enda hafi varnaraðili alfarið hafnað því að þau eigi nokkrar sameiginlegar eignir og engin sönnun hafi verið lögð fram um það af hálfu sóknaraðila að eignir varnaraðila heyri undir sameiginlegt bú þeirra. Þá sé sóknaraðili eignalaus og tekjulág. Sé því fyrirsjáanlegt að, verði fallist á kröfu sóknaraðila um skipti, komi kostnaður af þeim til með að greiðast af eignum varnaraðila og erfingja konu hans heitinnar, verði ekki fallist á kröfu varnaraðila um skiptatryggingu úr hendi sóknaraðila.
Um lagarök vísar varnaraðili aðallega til 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., svo og annarra ákvæða sömu laga. Varðandi kröfu um málskostnað vísar varnaraðili til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Skýrslur fyrir dómi
Við aðalmeðferð málsins mætti sóknaraðili sjálf og bar hún um kynni aðila og samband þeirra. Þá bar sóknaraðili um sambúð aðila, þau hefðu flutt inn saman á árinu 2005. Þá hafi þau byggt saman hús í [...]. Hafi þau búið saman allt fram til loka september árið 2010. Kvað hún aðila hafa búið saman í þessi fimm ár sem hjón, og hafi varnaraðili ekki búið annarsstaðar á umræddum tíma, en hann hafi oftast verið frá á virkum dögum vegna vinnu. Lýsti sóknaraðili aðkomu sinni að byggingu hússins í [...], er hún kvað aðila hafa byggt saman. Aðspurð kvaðst sóknaraðili hafa þegið greiðslur frá Tryggingastofnun á árunum 2009 og 2010, og hafi heimilisuppbót fyrir það tímabil miðast við að sóknaraðili byggi ein, en umsókn um slíkar bætur, og leigusamningur sá er þær byggðu á hafi verið sóttar í samráði við varnaraðila og viðurkenndi sóknaraðili í raun að um svik hefði verið að ræða. Varnaraðili gaf ekki skýrslu við aðalmeðferð málsins.
Þá bar vitni fyrir dómi E, sonur sóknaraðila, og kvað hann aðila málsins hafa farið að búa saman á [...] á árinu 2005, þá hafi þau byggt saman hús á lóð varnaraðila. Kvað hann þau hafa verið í sambúð. Þá bar vitni F, sonur sóknaraðila, og kvað hann þau hafa flutt inn saman á [...] á árinu 2005, og hafi búið saman sem hjón allt til ársins 2010. Þau hafi einnig byggt saman hús. Þá staðfesti vitnið yfirlýsingu sína sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 9. Þá bar vitni G, vinkona sóknaraðila, og staðfesti hún yfirlýsingu sína sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 10., kvað hún aðila hafa verið í sambúð, allt frá því að hún kynntist sóknaraðila, en það hafi verið um það leyti sem sóknaraðili var að flytja inn með varnaraðila. Þá bar vitni D, vinur aðila beggja, og kvað hann þau hafa verið í sambúð. Þá kvað hann þau hafa byggt húsið að B í sameiningu. Þá bar vitni C, eigandi fasteignarinnar að A er aðilar leigðu, og staðfesti hann yfirlýsingu sína er liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 11. Kvað hann aðila hafa komið að máli við hann og viljað leigja fasteign hans að A. Kvaðst ákærði hafa haldið einhverju sambandi við aðila upp frá þessu. Kvað hann þau hafa verið í sambúð. Þá bar vitni H lögmaður, og kvað hann aðila hafa verið í sambúð frá árinu 2005.
Niðurstaða
Mál þetta varðar kröfu sóknaraðila um að opinber skipti fari fram til fjárslita milli aðila, sem verið hafi í óvígðri sambúð. Varnaraðili hefur haldið því fram að skilyrðum 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., hér eftir nefnd skiptalög, sé ekki fullnægt, enda hafi aðilar ekki verið í sambúð í tilskilinn tíma.
Ágreiningur máls þessa snýr að því hvort aðilar hafi verið í sambúð, þannig að uppfyllt sé skilyrði 100. gr. skiptalaga. Var það einróma framburður þeirra vitna er gáfu skýrslu fyrir dómi að aðilar hefðu verið í sambúð er þau bjuggu í [...], bæði er þau leigðu að A og er þau bjuggu í húsi því er þau hafi byggt í sameiningu að B. Varnaraðili hefur haldið því fram að þau hafi ekki verið í sambúð, enda hafi þau aldrei verið skráð saman til heimilis, auk þess sem sóknaraðili hafi leigt af varnaraðila fasteignina að B og hefur hann lagt fram leigusamning undirritaðan af aðilum þessu til stuðnings. Er það mat dómsins, að það að aðilar hafi ekki verið skráðir saman í heimili, eða haft skráð lögheimili á sama stað, dugi ekki eitt og sér, gegn einróma framburði vitna, til sönnunar þess að aðilar hafi ekki verið í sambúð á umræddum tíma, né heldur leigusamningur sá, er sóknaraðili hefur viðurkennt að hafi verið málamyndagerningur, gerður í þeim tilgangi að svíkja bætur út úr Tryggingastofnun ríkisins. Það að varnaraðili kunni að hafa verið dögum saman frá heimilinu vegna brúarvinnu þykir ekki geta orðið til þess að ekki verði talið að um sambúð hafi verið að ræða, enda alþekkt að vegna ýmissa starfa dvelji menn um lengri eða skemmri tíma fjarri heimili sínu, s.s. sjómenn. Að öllu framansögðu virtu er það mat dómsins að sannað sé að aðilar málsins hafi verið í óvígðri sambúð eins og lýst er í 100. gr. skiptalaga og sé því fullnægt skilyrðum nefnds ákvæðis til þess að sóknaraðili geti krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra.
Varnaraðili hefur vísað til þess að ekki sé unnt að krefjast opinberra skipta til fjárslita milli aðila, enda sé ekki um að ræða neitt sameiginlegt bú. Á þetta fellst dómurinn ekki. Ekki hefur verið sýnt fram á það af hálfu varnaraðila að aðilar málsins hafi haft með öllu aðskilinn fjárhag, heldur liggur þvert á móti fyrir að húsið að B var byggt á sambúðartíma aðilanna og liggur ekkert fyrir um að það hafi verið byggt fyrir fé sem skuli halda utan skipta, s.s fyrir fé úr hinu óskipta búi varnaraðila og látinnar eiginkonu hans. Þykir ákvæði 100. gr. skiptalaga veita löglíkur fyrir því að sameiginleg eignamyndun hafi orðið þegar skilyrði um sambúðartíma er uppfyllt, nema sérstaklega sé sýnt fram á hið gagnstæða. Það hversu mikið sóknaraðili vissi um fjárhag heimilisins getur ekki breytt þessu.
Varnaraðili vísar til þess að vilji aðila hafi aldrei staðið til þess að stofna til formlegrar óvígðrar sambúðar með þeim réttaráhrifum sem henni fylgja, og vísar varnaraðili m.a. til þess að þau hafi ekki talið fram til skatts saman. Á þetta fellst dómurinn ekki. Ljóst er af athöfnum aðilanna að þau vildu stofna til óvígðrar sambúðar, með því að þau gerðu það. Engu breytir í því efni hvort hún var skráð eða ekki, en réttaráhrif óvígðrar sambúðar eru m.a. þau sem fram koma í 100. gr. skiptalaga og breytir vilji sambúðaraðila engu í því efni.
Varnaraðili hefur vísað til þess að ekki hafi orðið eignamyndun á meintum sambúðartíma sem neinu nemi. Dómurinn telur að ekki hafi verið sýnt fram á þetta af hálfu varnaraðila, en fyrir liggur m.a. að á sambúðartímanum var byggt margnefnt hús að B. Í því efni breytir engu að sóknaraðili hafi haft lægri tekjur en varnaraðili, enda ekki verkefni dómsins í þessu máli að skera úr um það hver skuli vera efnisleg niðurstaða skiptanna.
Varnaraðili hefur vísað til þess að sóknaraðili hafi raunverulega leigt af honum húsnæðið að B og hafi verið um að ræða raunverulega leigu. Dómurinn telur ekki hafa verið sýnt fram á þetta, þvert gegn fullyrðingum sóknaraðila um hið gagnstæða. Er til þess að líta að ekki liggur neitt fyrir um að sóknaraðili hafi greitt hina umsömdu leigu. Hefur fullyrðingum sóknaraðila um að leigusamningurinn hafi verið málamyndagerningur ekki verið hnekkt.
Varnaraðili hefur vísað til þess að ekki sé unnt að fallast á kröfu sóknaraðila þar eð hann sitji í óskiptu búi eftir látna eiginkonu sína. Á þetta fellst dómurinn ekki. Ekkert í lögum girðir fyrir það að aðili sem situr í óskiptu búi stofni til nýrrar sambúðar, en í 100. gr. skiptalaga eru slit slíkrar nýrrar sambúðar ekki undanskilin þeirri reglu sem sett er í nefndu ákvæði. Það er mat dómsins að slíkt hefði þurft að taka fram berum orðum ef ætlun löggjafans hefði verið sú að regla 100. gr. skiptalaganna ætti ekki við um mann sem stofnaði til nýrrar sambúðar þó hann sæti í óskiptu búi.
Varnaraðili hefur haldið því fram að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin, enda hafi sambandi aðila lokið vorið 2010. Varnaraðili styður málsástæðu þessa engum lagatilvísunum. Krafa sóknaraðila var móttekin af dóminum í september 2011, en af framburði vitna í málinu telst sannað að samband aðila hafi varað a.m.k. allt til september 2010. Er það mat dómsins að veita verði aðilum nokkurt svigrúm til að ljúka málum af sjálfsdáðum áður en leitað er á náðir dómstóla, en ekki eru í skiptalögum settir ákveðnir tímafrestir til að krefjast skipta eftir að sambúð lýkur. Verður því ekki á það fallist með varnaraðila að krafa sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli aðila sé svo seint fram komin að henni beri að hafna.
Hvað varðar þann hluta kröfugerðar sóknaraðila er snýr að viðurkenningu á rétti hennar til að fá úthlutað helmingi allra eigna og verðmæta sem mynduðust á sambúðartíma aðila, á árunum 2005 til og með janúar 2011, er til þess að líta að mál sitt byggir sóknaraðili á 100. gr. skiptalaga, sem varðar heimild til opinberra skipta en ekki skiptingu eða útlagningu eigna. Krafa sóknaraðila um viðurkenninga á hlutdeild í eignum búsins verður ekki sótt samhliða kröfu um opinber skipti til fjárslita milli sambúðarfólks. Slíkri kröfu verður ekki beint að héraðsdómi, nema skv. 122. gr. skiptalaga, rísi ágreiningur um atriði við opinber skipti. Að þessu virtu er þeim hluta kröfugerðar sóknaraðila er snýr að viðurkenningu á rétti til að fá úthlutað helmingi allra eigna og verðmæta sem mynduðust á sambúðartíma aðila, vísað frá dómi. Þá er ekki ástæða til, á þessu stigi máls, að taka afstöðu til málatilbúnaðar aðila hvað varðar hlutdeild hvors þeirra um sig í mögulegri eignamyndum þeirra á meðan sambúð varði.
Krafa sóknaraðila um að opinber skipti fari fram til fjárslita milli aðila byggir sem áður segir á heimild í 100. gr. skiptalaga, og er það mat dómsins að skilyrði greinarinnar séu uppfyllt. Þá eru og uppfyllt skilyrði 101. gr. sömu laga, en það er mat dómsins að telja megi sýnt af gögnum máls að eignir þær er urðu til á sambúðartíma aðila muni nægja fyrir skiptakostnaði. Opinber skipti skulu því fara fram til fjárslita á milli aðila máls þessa.
Varakröfu varnaraðila, um að sóknaraðila verði gert að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði, að lágmarki 500.000. kr. er vísað frá dómi með vísan til 4. mgr. 101. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda hefur varnaraðili ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af kröfu þeirri, enda segir í 4. mgr. 101. gr. skiptalaga i.f. að sá sem krefst opinberra skipta ábyrgist greiðslu skiptakostnaðar.
Að öllu framansögðu virtu, og þar sem uppfyllt eru skilyrði 100. og 101. gr. skulu opinber skipti fara fram til fjárslita á milli sóknaraðila og varnaraðila.
Að fenginni þessari niðurstöðu ber að ákveða að varnaraðili skuli greiða sóknaraðila málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn kr. 400.000.
Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá dómi kröfu sóknaraðila K, um viðurkenningu á rétti hennar til að fá úthlutað helmingi allra eigna og verðmæta sem mynduðust á sambúðartíma aðila.
Vísað er frá dómi varakröfu varnaraðila M, um að sóknaraðila verði gert að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði, að lágmarki 500.000. kr.
Opinber skipti skulu fara fram til fjárslita á milli sóknaraðila K og varnaraðila M.
Varnaraðili greiði sóknaraðila kr. 400.00 í málskostnað.