Hæstiréttur íslands
Mál nr. 485/2009
Lykilorð
- Skuldamál
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 3. júní 2010. |
|
Nr. 485/2009. |
Ryn ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Icepharma hf. (Eyvindur Sólnes hrl.) |
Skuldamál. Fyrning.
R krafði I um greiðslu fimm reikninga, en félögin höfðu átt í viðskiptasambandi um árabil. Með dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var fallist á að krafa R samkvæmt fjórum reikningum hafi verið fyrnd. Hvað varðaði þann reikning sem eftir stóð var talið að R hefði ekki sýnt nægjanlega fram á að I hefði tekið á sig þær skuldbindingar sem þar var krafist greiðslu fyrir. Var I því sýknað af kröfu R í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2009. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 868.900 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2005 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi fellir sig við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um kröfu samkvæmt reikningi 11. janúar 2005 að fjárhæð 67.999 krónur. Er krafa hans fyrir Hæstarétti þessari reikningsfjárhæð lægri en var í héraði.
Áfrýjandi hefur lagt fram í Hæstarétti úr bókhaldi Austurbakka hf. útprentun af viðskiptareikningi sínum tímabilið 13. ágúst 2003 til ársloka 2005. Ekki verður séð að reikningar þeir sem hann byggir kröfu sína á séu færðir á yfirlitið.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ryn ehf., greiði stefnda, Icepharma hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2009.
Mál þetta sem höfðað var 17. nóvember 2008 var dómtekið 6. maí 2009.
Stefnandi er Ryn ehf., Vesturgötu 2, Reykjavík. Stefndi er Icepharma hf., Lynghálsi 13, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 936.899 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2005 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og til vara sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Málavextir:
Að því er fram kemur í stefnu byggist krafa stefnanda á sex reikningum vegna úttekta Austurbakka hf. hjá stefnanda á árunum 2004 og 2005. Reikningar hafi verið sendir stefnda, en þeir ekki verið greiddir og ekki gerðar athugasemdir við þá. Austurbakki hf. hafi runnið saman við Icepharma hf., sem hafi yfirtekið réttindi og skyldur Austurbakka hf. og sé kröfum því réttilega beint að hinu stefnda félagi.
Reikningarnir sem byggt er á og liggja frammi í málinu í afriti eru eftirfarandi:
|
Reikningur nr. 115, dags. 19/2 2004 |
kr. 158.700 |
|
Reikningur nr. 254, dags. 7/4 2004 |
kr. 22.400 |
|
Reikningur nr. 788, dags. 25/10 2004 |
kr. 190.800 |
|
Reikningur nr. 817, dags. 5/11 2004 |
kr. 147.000 |
|
Reikningur nr. 936, dags. 11/1 2005 |
kr. 67.999 |
|
Reikningur nr. 1703, dags. 1/11 2005 |
kr. 350.000 |
Ekki eru útlistanir á því í stefnu hvað liggur á bak við reikningana, en í framlögðum reikningum kemur fram textinn „Sala skv. meðfylgjandi afgreiðsluseðli“, nema á síðasttalda reikningnum þar sem textinn er „Önnur sala án vsk“ en viðeigandi afgreiðsluseðlar hafa ekki verið lagðir fram, eða önnur gögn sem gefa til kynna hvað var keypt, utan að stefndi lagði fram handskrifaðan reikning nr. 2219 þar sem Kaffi Reykjavík er að innheimta frá Austurbakka: „Þáttaka í kostnaði á Hljómsveit á menningarnótt 50.000 og Auglýsinga Stuðningur 300.000“, sem gera má ráð fyrir að tengist reikningi nr. 1703.
Fram hefur komið í málinu að stefnandi og Austurbakki hafi átt í viðskiptasambandi um árabil, einkum þeim viðskiptum að stefnandi hefur keypt afengi af Austurbakka og þau viðskipti verið nokkuð stöðug og mikil. Þá var að skilja af málflutningi stefnanda að stefndi, áður Austurbakki hf., hafi í nokkur skipti keypt veitingar hjá stefnanda sem hafi komið til lækkunar á viðskiptaskuld hans. Þá hefur komið fram að aðilar málsins hafa staðið í öðrum málaferlum þar sem stefndi krafði stefnanda um greiðslu reikninga frá nóvember og desember 2005 og voru lok þess máls í Hæstarétti að stefnandi var dæmdur til að greiða stefnda rúmlega 3 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum.
Málsástæður og lagarök stefnanda:
Stefnandi byggir kröfu sína á framangreindum reikningum sem séu vegna úttekta Austurbakka hf. hjá stefnanda. Stefnandi telur framangreinda reikninga alla ófyrnda, enda hafi verið um að ræða stöðug viðskipti á milli aðila í skilningi 1. mgr. 3. gr. þágildandi laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Hann reisir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti reisir hann á III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og kröfur um málskostnað á ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda:
Stefndi byggir á því varðandi fyrstu fjóra reikningana, samtals að fjárhæð 518.900 krónur, að kröfur vegna þeirra séu allar fyrndar í samræmi við 3. gr. laga nr. 14/1905 og beri því að sýkna hann af kröfum vegna þeirra.
Varðandi reikning nr. 936 tekur stefndi fram að honum hafi þegar verið skuldajafnað á viðskiptareikningi stefnanda hjá stefnda, en fyrir liggur útprentað viðskiptayfirlit á nafni stefnanda, þar sem skuldajöfnun að fjárhæð 67.999 krónur kemur fram 26. janúar 2005, sem innlagður reikningur, en skuld stefnanda við stefnda samkvæmt yfirlitinu er 3.831.915 krónur, sem gera má ráð fyrir að sé staðan við útprentun yfirlitsins 25. nóvember 2008. Krafan sé því ekki lengur til staðar, en hún hafi verið greidd með skuldajöfnun og ekki hafi komið athugasemdir frá stefnanda við skuldajöfnunina, sem hafi komið skýrt fram á útsendum reikningsyfirlitum.
Reikningur nr. 1703 sem dagsettur er 1. nóvember 2004 er vegna þátttöku í kostnaði við hljómsveit, 50.000 krónur, og vegna auglýsingastyrks, 300.000 krónur. Stefndi neitar alfarið að hafa samþykkt þennan kostnað. Þarna sé um að ræða kostnað sem stefnandi leggi út í á sínum eigin forsendum og stefnda óviðkomandi. Enginn grundvöllur sé fyrir kröfunni og beri að sýkna stefnda.
Þá byggir stefndi kröfur sínar á tómlæti stefnanda. Tæp fjögur ár séu síðan yngsti reikningurinn var gefinn út og engin tilraun hafi verið gerð til að innheimta þá fyrr en með stefnu í máli þessu. Verði ekki alfarið sýknað á grundvelli ofangreinds, lýsir stefndi yfir skuldajöfnuði, en Héraðsdómur Reykjavíkur hafi dæmt stefnanda til að greiða stefnda hærri fjárhæð en deilt er um í máli þessu 30. apríl 2008. Undir rekstri málsins komu svo fram upplýsingar um að Hæstiréttur hefði fjallað um þann dóm og var niðurstaða réttarins að stefnandi skyldi greiða stefnda yfir þrjár milljónir króna eins og áður er komið fram.
Stefndi vísar til reglna kröfuréttar um grundvöll krafna, tómlæti og skuldajöfnuð og um fyrningu til laga nr. 14/1905. Málskostnaðarkrafa byggist á 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða:
Fyrsttöldu fjórir reikningarnir sem mál þetta er byggt á, voru gefnir út á tímabilinu frá 19. febrúar til 5. nóvember 2004. Voru því liðin meira en fjögur ár frá útgáfu þeirra þegar stefna var birt í málinu, þann 17. nóvember 2008. Eins og fram hefur komið, eru litlar skýringar á því meðal gagna málsins hvað liggur að baki þessum reikningum og því erfitt að meta eða slá því föstu að um viðvarandi viðskipti hafi verið að ræða, eða að kaupandi hafi haldið áfram viðskiptum og fengið árlegt viðskiptayfirlit, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905, en ekkert viðskiptayfirlit hefur verið lagt fram í málinu. Fram hefur komið að mikil og viðvarandi viðskipti hafi verið á milli aðila að því leyti að stefnandi hafi keypt mikið af stefnda og miklu meira en stefndi af stefnanda. Þó að líkur séu til þess að þau viðskipti hafi verið með þeim hætti að samræmdist skilyrðum nefndrar 1. mgr. 3. gr., verður ekki litið svo á að það sama eigi við um kaup stefnda af stefnanda. Verður því að fallast á þá málsástæðu stefnda að krafa samkvæmt þessum fjórum reikningum, samtals að fjárhæð 518.900 krónur, hafi verið fyrnd og sýkna stefnda af þeim hluta kröfu stefnanda.
Reikningur nr. 936 er dagsettur 11. janúar 2005 og er að fjárhæð 67.999 krónur. Ekki eru í málinu útlistanir á því hvað liggur að baki honum, en líta verður svo á að stefndi hafi samþykkt þann reikning með því að færa hann í bókhald sitt og lækka skuld stefnanda við sig sem ofangreindri fjárhæð nemur. Verður litið svo á að þessi reikningur hafi þannig verið greiddur með skuldajöfnun og verður stefndi því einnig sýknaður af þessum hluta kröfu stefnanda.
Síðasttaldi reikningurinn, útgefinn 1. nóvember 2005 að fjárhæð 350.000 krónur, hefur nokkra sérstöðu. Engin gögn voru lögð fram til skýringar á honum af hálfu stefnanda, en stefndi fékk afrit af fylgiskjali með honum frá bókhaldara stefnanda og lagði fram í málinu. Hér virðist vera um að ræða innheimtu á kostnaði við hljómsveit og við auglýsingar, án þess að nánar sé útlistað hvað það felur í sér. Þá er ekki að finna í gögnum málsins nein merki um að stefndi hafi samþykkt að taka þátt í þeim kostnaði, utan að fyrirsvarsmaður stefnanda sem gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins fullyrti að þetta væri hluti stefnda, eða Austurbakka hf., í kostnaði vegna menningarnætur 2005, en stefndi hefur alfarið neitað að hafa samþykkt nokkuð slíkt. Ekki verður talið að stefnandi hafi nægjanlega sýnt fram á, með afriti reiknings og fullyrðingu starfsmanns síns, gegn eindregnum mótmælum stefnda, að stefndi hafi tekið á sig þær skuldbindingar sem þarna er verið að innheimta fyrir. Verður því stefndi sýknaður einnig af þessum hluta kröfu stefnanda.
Með hliðsjón af þessum málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Stefán Karl Kristjánsson hdl. flutti mál þetta af hálfu stefnanda, en Eyvindur Sveinn Sólnes hdl. af hálfu stefnda.
Dóminn kveður upp Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Icepharma hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Ryn ehf.
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.