Hæstiréttur íslands

Mál nr. 313/2004


Lykilorð

  • Hylming
  • Þjófnaður
  • Tilraun
  • Umferðarlög
  • Ítrekun
  • Vanaafbrotamaður
  • Hegningarauki


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. nóvember 2004.

Nr. 313/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Sigurði Hólm Sigurðssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Hylming. Þjófnaður. Tilraun. Umferðarlög. Ítrekun. Vanaafbrotamaður. Hegningarauki.

S, sem var vanaafbrotamaður, var sakfelldur fyrir hylmingu, níu þjófnaðarbrot, eina tilraun til þjófnaðar og umferðarlagabrot. Hafði S hlotið 27 sinnum dóma á árunum 1979 til 2000, en þrír þeirra höfðu ítrekunaráhrif. Var refsing S ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði, sbr. 71. gr., 72. gr., 77. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Var refsingin hegningarauki við sex mánaða fangelsi samkvæmt öðrum héraðsdómi, sem hafði gengið eftir uppkvaðningu héraðsdóms í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að refsing ákærða verði staðfest.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og gæsluvarðhaldsvist hans frá 4. maí 2004 til 27. júlí sama árs og frá 2. október 2004 til uppkvaðningar dóms Hæstaréttar verði dregin frá refsingu.

Með héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir hylmingu, níu þjófnaðarbrot, eina tilraun til þjófnaðar og umferðarlagabrot. Voru þrjú þjófnaðarbrotanna framin í íbúðarhúsnæði, tvö þeirra eftir innbrot. Eftir að héraðsdómur var upp kveðinn var ákærði dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar með dómi Héraðsdóms Suðurlands 8. október 2004 fyrir tvær líkamsárásir, tvö þjófnaðarbrot og fíkniefnalagabrot. Ákærði á að baki langan brotaferil. Hann hlaut 27 sinnum dóma á árunum 1979 til 2000. Samanlögð refsivist ákærða samkvæmt þessum dómum nemur um 19 árum. Þrír þeirra hafa bein ítrekunaráhrif þegar refsing er nú ákveðin. Ákærði er vanaafbrotamaður. Þegar litið er til ákvæða 71. gr, 72. gr., 77. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Er hún ákveðin með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga, en hún telst hegningarauki við refsingu samkvæmt fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Suðurlands 8. október 2004. Ákærði sat í gæsluvarðhaldi frá 4. maí 2004 til 27. júlí sama árs vegna brota, sem hann er dæmdur sekur um í þessu máli. Kemur gæsluvarðhald hans þann tíma til frádráttar refsingu. Gæsluvarðhald ákærða frá 2. október 2004 er ekki til komið vegna þeirra brota, sem ákæra í þessu máli tekur til. Er því ekki fullnægt skilyrðum 76. gr. almennra hegningarlaga til að draga það frá refsingu sem honum er nú dæmd.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Með vísan til 1. mgr. 169 gr. laga  nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 38. gr. laga nr. 36/1999, verður ákærða gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Hólm Sigurðsson, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Frá refsingu hans skal draga gæsluvarðhald hans frá 4. maí 2004 til 27. júlí sama árs.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, en til hans teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2004.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni  27. maí 2004 á hendur:

,,Sigurði Hólm Sigurðssyni, kt. [...], [...], fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2004, nema annað sé tekið fram:

1.      Hylmingu með því að hafa í apríl tekið við úr höndum ótilgreinds manns Pioneer útvarpsgeislaspilara, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að um þýfi væri að ræða og með því haldið spilaranum ólöglega frá eigandanum, en honum hafði verið stolið úr bifreiðinni NK-209 á bifreiðastæði við Reynimel 76 miðvikudaginn 17. mars eða fimmtudaginn 18. mars.

Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

2.      Þjófnaðarbrot og tilraun til þjófnaðar:

2.1

Laugardaginn 21. júní 2003 á gistiheimilinu að Lækjarkinn 2 í Hafnarfirði stolið Sony heyrnartólum, 2 Nokia farsímum, ferðatösku sem innihélt fatnað, veski sem innihélt 200 evrur og greiðslukort og skilríki í eigu A, kt. [...].

M. 036-2003-3829

2.2

Síðar sama dag, á eftirgreindum stöðum stolið samtals kr. 25.000 með því að nota heimildarlaust debetkort A, sem ákærði hafði komist yfir ófrjálsri hendi, sbr. lið 2.1, og heimildarlaust slegið inn leyninúmer fyrir kortið og gjaldfært á reikning A:

1.      Í hraðbanka Landsbanka Íslands, Fjarðargötu í Hafnarfirði stolið kr. 11.000

         í 2 færslum.

2.      Í hraðbanka Íslandsbanka, Garðatorgi í Garðabæ, stolið 14.000 í 3

         færslum.

M. 036-2003-3829

2.3

Laugardaginn 10. janúar í versluninni Nóatúni, Rofabæ, 39, reynt að stela kjöti og brauðvörum, samtals að verðmæti kr. 7.653, með því að stinga þeim inn á sig en komið var að ákærða á vettvangi.

M. 010-2004-627

2.4

Fimmtudaginn 15. apríl í versluninni Bónus að Laugavegi 59 stolið kjötvörum, samtals að verðmæti 4.284.

M. 010-2004-8869

2.5

Sunnudaginn 25. apríl brotis inn í veitingastaðinn Við Tjörnina, Templarasundi 3, með því að sparka upp hurð og stolið 4 vodkaflöskum, að óvissu verðmæti og tösku sem innihélt myndavélabúnað, samtals að verðmæti kr. 60.000.

M. 010-2004-10114

2.6

Sama dag brotist inn í íbúðarhúsnæði að [...] með því að spenna upp glugga og stolið 2 Gelhard hátölurum, samtals að veræmti kr. 23.000.

2.7

Mánudaginnn 26. apríl farið í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæði við [...] og stolið skartgripum og erlendum gjaldeyri, samtals að verðmæti um kr. 160.000.

M. 010-2004-10059

2.8

Þriðjudaginn 27. apríl í Vínbúðinni að Austurstræti 10a, stolið áfengispela að verðmæti kr. 2.140.

M. 010-2004-11248

2.9

Fimmtudaginn 29. apríl á Hótel Nordica, Suðurlandsbraut 2, stolið posavél ásamt straumbreyti, að óvissu verðmæti.

M. 010-2004-10092

2.10

Sunnudaginn 2. maí brotist inn í íbúðarhúsnæði að [...], með því að skrúfa sundur gluggafestingu og stolið hnífaparasetti, AOV rafmagnsmæli, Sony útvarpi, Ericson farsíma, lyklakippu og skartgripum, samtals að verðmæti kr. 410.000.

M. 010-2004-10194

Teljast framangreind brot varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, að því er varðar brotið í lið 2.3.

3.      Umferðarlagabrot með því að hafa mánudaginn 3. maí ekið bifreiðinni SN-434 án þess að hafa öðlast ökuréttindi niður Laugaveg og uns lögregla stöðvaði aksturinn á Tjarnargötu við Skothúsveg.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Verjandi ákærða krefst sýknu vegna þriggja fyrstu kafla ákærunnar, en að öðru leyti vægustu refsingar sem lög leyfa og að dæmd refsing verði skilorðsbundin að hluta eða í heild og að gæsluvarðhald komi til frádráttar refsivistinni. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Ákærði játar sök samkvæmt ákæruliðum 2.4, 2.5, 2.6, 2.7, 2.8, 2,9, 2,10 og 3.

Er sannað með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í öllum þessum ákæruliðum greinir og eru brot hans samkvæmt þeim rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta vegna þessara ákæruliða.

Nú verður vikið að ákæruliðum, þar sem ákærði neitar sök.

Ákæruliður 1.

Ákærði neitar því að hafa vitað um það að tækið, sem lýst er í þessum ákærulið hafi verið þýfi, en ákærði kvaðst hafa keypt tækið af nafngreindum manni og greitt fyrir með 10 töflum af ritalíni. 

Hjá lögreglu var ákærði spurður hvort hann hefði gerst sér grein fyrir því að tækið, sem hér um ræðir var stolið.  Kvaðst ákærði ekki hafa haft ,,samvisku fyrir því hvort það var stolið, þar sem hann hafi ekki stolið því.”

Niðurstaða ákæruliðar 1.

Ákærði var handtekinn vegna rannsóknar þessa sakarefnis og fleiri.  Þá hafði sambýliskona hans í fórum sínum plastpoka með tækinu, sem hér um ræðir ásamt posavélinni, sem lýst er í ákærulið 2.9 og ákærði hefur viðurkennt að hafa stolið.  Ákærði greiddi fyrir tækið með ritalíntöflum og hafði tækið meðferðis ásamt öðru þýfi við handtöku.  Framburður og skýringar ákærða eru út í hött og að engu hafandi. Er samkvæmt því sem rakið hefur verið sannað en gegn neitun ákærða, að honum hafi verið ljóst er hann greiddi fyrir tækið með ritalíni að um þýfi var að ræða. 

Er brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákæruliðir 2.1 og 2.2.

Ákærði neitar sök.  Meðal gagna málsins eru ljósmyndir, sem teknar voru úr eftirlitsmyndavélum á þeim stöðum, þar sem peningar voru teknir út með hinu stolna greiðslukorti.  Ákærði kvaðst ekki vera maðurinn, sem þar sést. 

Hjá lögreglunni játaði ákærði að hafa tekið ferðatöskuna, sem lýst er í ákærulið 2.1 og að hafa tekið út af greiðslukortinu eins og lýst er í ákærulið 2.2.  Ákærði kvaðst þekkja sig á ljósmyndum úr eftirlitsmyndavélum, sem honum voru sýndar við skýrslutökuna hjá lögreglunni. 

Fyrir dómi neitaði ákærði sök. Hann kvaðst hafa játað þessi brot hjá lögreglunni til að sleppa úr haldi lögreglu.

Niðurstaða ákæruliðar 2.1 og 2.2.

Skýringar ákærða á breyttum framburði frá því að hann játaði hjá lögreglunni er út í hött.  Upptökur úr eftirlitsmyndavélum styðja játningu hans hjá lögreglu, en einstaklingurinn, sem sést á ljósmyndum er sláandi líkur ákærða og samkvæmt framburði B, sambýliskonu ákærða, hjá lögreglu klæddist ákærði á þessum tíma grárri hettupeysu með gráum eða hvítum röndum, einskonar íþróttapeysu.  Þessi lýsing kemur fullkomlega heim og saman við klæðnað mannsins sem sést á myndunum úr eftirlitsmyndavélinni.

Að öllu þessu virtu er sannað með játningu hjá lögreglu og með öðrum gögnum málsins, sem rakin hafa verið, en gegn neitun hans fyrir dómi, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í báðum þessum ákæruliðum greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.

Ákæruliður 2.3.

Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa farið í verslun Nóatúns á þessum tíma og er hann var kominn að afgreiðslukassa hafi hann áttað sig á því að hann átti ekki fyrir vörunum, sem hér um ræðir og hafi hann þá skilað þeim.  Hann kvaðst ekki hafa stungið vörunum inn á sig eins og lýst er í ákærunni.

Vitnið X, starfsmaður verslunar Nótatúns í Rofabæ, kvaðst hafa verið látin vita af manni sem hegðaði sér öðruvísi en aðrir kúnnar.  Vitnið hafi þá tekið að fylgjast með manninum og hafi sér verið greint frá því að sést hafi til ákærða stinga inn á sig vörum.  Hann hafi verið látinn afskiptalaus og er hann hafi gengið fram hjá afgreiðslukassa hafi vitnið stöðvað hann og spurt hvort hann ætti ekki eftir að greiða fyrir vörurnar.  Hann hafi þá sagst ekki vera með neinar vörur meðferðis.  Er ákærði var beðinn um að renna niður úlpunni, sem hann klæddist, hafi vörurnar sem hér um ræðir fallið á gólfið. 

Niðurstaða ákæruliðar 2.3.

Meðal gagna málsins eru ljósmyndir úr eftirlitsmyndavélum úr verslun Nóatúns, þar sem ákærði sést koma í verslunina.  Ákærði var þá klæddur fráhnepptri úlpu er hann sést athafna sig inni í versluninni og stinga einhverju inn á sig. Er hann fór út var  úlpan rennd upp.  Þá sést hann ganga fram hjá afgreiðslukassa en hann var stöðvaður eftir það á leiðinni út og vörurnar sem hér um ræðir teknar af honum.

Sannað er með þessum ljósmyndum og með vitnisburði X, en gegn ótrúverðugum farmburði ákærða fyrir dómi, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem hér er ákært fyrir og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákærði hefur frá árinu 1979 hlotið 32 refsidóma, þar af eru 5 dómar Hæstaréttar.  Nemur samanlögð refsivist ákærða samkvæmt þessum dómum rúmum 19 árum.  Af þessu er ljóst að fullreynt er að ákærði lætur ekki skipast við refsingu. Er ekki til annars að líta við refsiákvörðun en hagsmuna almennings að hafa ákærða óskaðlegan. Ákærði er vanaafbrotamaður. Auk framangreindra sjónarmiða við refsiákvörðun er höfð hliðsjón af 71., 72. og 255. gr. almennra hegningarlaga og einnig er höfð hliðsjón af 77. gr. sömu laga. Þykir refsing ákærða þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivistinni óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 4. maí 2004.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 120.000 krónur í málsvarnarlaun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns.

Dagmar Arnardóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Sigurður Hólm Sigurðsson, sæti fangelsi í 3 ár.

Frá refsivistinni skal draga óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 4. maí 2004.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 120.000 krónur í málsvarnarlaun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns.