Hæstiréttur íslands
Mál nr. 615/2013
Lykilorð
- Eignarréttur
- Gjöf
- Þinglýsing
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 27. mars 2014. |
|
Nr. 615/2013.
|
Anna Jónsdóttir Fanney Ágústa Jónsdóttir Hrafnhildur Jónsdóttir Hörður Jónsson Jón Jónsson Kristín Guðrún Jónsdóttir Margrét Jónsdóttir Ólína Elísabet Jónsdóttir og Sólveig Stefanía Jónsdóttir (Skúli Bjarnason hrl.) gegn Benedikt Jóni Guðmundssyni Daníel Ísak Maríusyni Guðmundi Þóri Hafsteinssyni Hafdísi Rán Sævarsdóttur og Ingibjörgu B. Guðmundsdóttur (Guðmundur Kristjánsson hrl.) |
Eignarréttur. Gjöf. Þinglýsing. Tómlæti.
A o.fl. höfðuðu mál gegn B o.fl. og kröfðust þess að staðfestur yrði eignarréttur hvers þeirra um sig að tilteknum eignarhluta í jörð sem B o.fl. höfðu erft eftir G sem var bróður A o.fl. Í málinu var deilt um það hvort A o.fl. hefðu gefið G umræddan eignarhlut með gjafabréfi sem A o.fl. vefengdu að þau hefðu undirritað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A o.fl. hefðu um árabil vitað af gjafabréfinu áður en G lést. Hafði G veðsett jörðina og gert aðra löggerninga sem sum úr hópi A o.fl. höfðu vottað. Þóttu A o.fl. hafa sýnt af sér verulegt tómlæti við gæslu réttar síns með því að aðhafast ekkert gagnvart G. Mátti helst vænta þess að hann sem gjafþegi gæti framvísað frumriti gjafabréfsins sem gera varð ráð fyrir að lagt hefði verið inn hjá sýslumanni til þinglýsingar og síðan afhent þinglýsingarbeiðanda í kjölfar hennar. Þóttu A o.fl. því ekki hafa hnekkt gjafabréfinu til G sem B o.fl. leiddu rétt sinn af. Voru B o.fl. því sýknuð af kröfum A o.fl.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. september 2013. Þau krefjast þess að staðfestur verði eignarréttur hvers þeirra um sig að 1/30 hluta af 50% óskiptum eignarhluta í jörðinni Stóru-Ávík í Árneshreppi, Strandasýslu. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt yfirlýsingu 5. apríl 1971 fengu systkinin Jón Guðmundsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir jörðina Stóru-Ávík í arf að jöfnu eftir foreldra sína, sem höfðu búið á jörðinni. Hafði Jón þá fyrir löngu tekið við búskap á jörðinni en systir hans var búsett í Reykjavík. Jón var kvæntur Unni Aðalheiði Jónsdóttur og áttu þau tíu börn. Áfrýjendur eru níu þeirra en eitt þeirra, Guðmundur Jónsson, er látinn og eru stefndu niðjar hans.
Jón Guðmundsson lést 25. janúar 1975 og tók Guðmundur sonur hans þá við búskapnum á jörðinni, en þeir feðgar munu áður um nokkurt skeið hafa stundað þar saman búskap. Eftir andlát Jóns var Unnur, ekkja hans og móðir Guðmundar og áfrýjenda, áfram búsett á jörðinni. Með bréfi 26. ágúst 1975 fengu erfingjar Jóns heimild til að skipta dánarbúinu einkaskiptum. Tóku þeir saman erfðafjárskýrslu 15. desember sama ár og var hún móttekin af sýslumanni Strandasýslu 29. sama mánaðar.
Hinn 28. apríl 1976 var móttekið og þinglýst hjá sýslumanni Strandasýslu svohljóðandi gjafabréf: „Við undirrituð sem erum löglegir erfingjar dánarbús Jóns Guðmundssonar Stóru-Ávík Árneshreppi. Lýsum því hér með yfir, að við gefum Guðmundi Jónssyni Stóru-Ávík, okkar eignarhluta í jörðini Stóru-Ávík. Jafnframt er það ósk okkar, að verði jörðin seld eða losni úr ábúð á annan hátt, þá verði við látin ganga fyrir kaupum eða ábúð.“ Á því eintaki af gjafabréfinu sem er í þinglýsingabók sýslumanns er handritað undir vélrituðu meginmáli „Munaðarnesi, 15.4.1976“, en þar fyrir neðan eru vélrituð nöfn áfrýjenda og Unnar, móður þeirra. Fyrir héraðsdómi gaf skýrslu Guðmundur Gísli Jónsson, eiginmaður áfrýjandans Sólveigar, en hann var á þessum tíma hreppstjóri Árneshrepps. Kom fram hjá honum að hann hefði á sínum tíma sett saman skjalið að beiðni tengdamóður sinnar og afhent henni það. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvort skjalið hefði verið í einu eintaki eða tvíriti.
Í skattframtali Guðmundar Jónssonar vegna ársins 1976 kom fram að hann hefði á árinu eignast helming í jörðinni. Um þetta sagði að hann hefði að hluta fengið jörðina sem arf eftir föður sinn en að mestu sem gjöf frá móður sinni og systkinum. Áfrýjendur munu aftur á móti ekki hafa talið jarðarhlutann fram til skatts.
Eftir að Guðmundur fékk þinglýsta eignarheimild fyrir hálfri jörðinni gaf hann út skuldabréf 10. mars 1977 til Byggðasjóðs með veði í henni. Var sú ráðstöfun samþykkt af Ingibjörgu Guðmundsdóttur, föðursystur hans, sem átti hálfa jörðina svo sem áður greinir. Einnig gaf hann út skuldabréf til sama sjóðs 23. júní 1978 með veði í jörðinni og var sú ráðstöfun samþykkt af Ingibjörgu. Vottar á því skuldabréfi voru móðir hans og áfrýjandinn Kristín. Þá gaf Guðmundur út skuldabréf til sjóðsins 14. febrúar 1979 með veði í jörðinni og var það bréf jafnframt undirritað af Ingibjörgu. Enn fremur gaf Guðmundur út skuldabréf 11. nóvember 1981 til Bjargráðasjóðs með veði í jörðinni, en það bréf var ekki undirritað vegna eignarhlutar Ingibjargar.
Við andlát Ingibjargar Guðmundsdóttur mun Ingibjörg Anna Elíasdóttir hafa fengið að arfi hluta nöfnu sinnar í jörðinni en hún var þá ófjárráða. Ingibjörg Anna er dóttir áfrýjandans Hrafnhildar. Með veðleyfi 27. júlí 1982, sem gefið var út af foreldrum Ingibjargar Önnu fyrir hennar hönd, var Guðmundi veitt heimild til að veðsetja hennar hlut í jörðinni til tryggingar láni frá Búnaðarbanka Íslands vegna vélageymslu. Var sú ráðstöfun samþykkt af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 25. nóvember sama ár. Þá gaf Ingibjörg Anna út veðleyfi til Guðmundar 3. febrúar 1994 til að hann gæti veðsett hennar hluta í jörðinni til tryggingar láni frá Landsbanka Íslands. Þetta veðleyfi var vottað af áfrýjandanum Hrafnhildi.
Með samningi, sem móttekinn var til þinglýsingar 6. maí 1987, ráðstafaði Guðmundur fullvirðisrétti á jörðinni til framleiðslu á kindakjöti. Ritaði hann undir skjalið sem framleiðandi og að auki sem eigandi með Ingibjörgu Önnu um heimild til að samningnum yrði þinglýst sem kvöð á jörðina sem væri bindandi fyrir þau og alla aðra sem síðar kynnu að eignast jörðina eða á annan hátt öðlast rétt yfir henni. Undirritun Guðmundar sem framleiðanda var vottuð að áfrýjandanum Hrafnhildi en undirritun eigenda jarðarinnar af áfrýjandanum Önnu og Unni, móður þeirra. Um það leyti sem fullvirðisréttinum var ráðstafað mun Guðmundur hafa brugðið búi og flutt af jörðinni.
Unnur Aðalheiður Jónsdóttir andaðist 8. september 1991 og var búi hennar skipt einkaskiptum. Samkvæmt erfðafjárskýrslu 24. janúar 1992, sem undirrituð var af öllum erfingjum, var hlutur í jörðinni ekki talinn til eigna hennar.
Hinn 28. febrúar 1994 komu Guðmundur og eiginkona hans fyrir sýslumanninn á Akranesi og kröfðust lögskilnaðar. Í bókun af fyrirtökunni í hjónaskilnaðarbók kom fram að konan afsalaði sér rétti til jarðarinnar ásamt öllu sem henni fylgdi. Leyfisbréf til lögskilnaðar var síðan gefið út 2. mars sama ár. Stefndu Benedikt og Ingibjörg eru börn þeirra hjóna. Einnig áttu hjónin dóttur sem andaðist 16. nóvember 2004 og eru stefndu Guðmundur, Hafdís og Daníel börn hennar.
Guðmundur Jónsson lést 25. apríl 2009 og mun dánarbúi hans hafa verið skipt einkaskiptum. Samkvæmt skiptayfirlýsingu 6. mars 2010 kom hálf jörðin í hlut stefndu eftir arfshlutdeild þeirra. Var yfirlýsingunni þinglýst 15. sama mánaðar.
Með bréfi lögmanns áfrýjenda 24. júní 2009 var óskað eftir afriti af gjafabréfinu til Guðmundar og gögnum um skipti á dánarbúi föður þeirra. Því erindi svaraði sýslumaður með bréfi 10. júlí sama ár og fylgdu bréfinu gögn um eignarhald jarðarinnar og dánarbúskiptin. Áfrýjendur gerðu síðan þá kröfu með bréfi 2. nóvember það ár að sýslumaður leiðrétti þinglýsingabók á grundvelli 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Til stuðnings því var bent á að erfingjar Jóns Guðmundssonar hefðu aldrei undirritað gjafabréfið auk þess sem bréfið bæri ekki með sér að vottar hefðu verið að undirritun þess. Að réttu lagi hefði því aldrei átt að þinglýsa bréfinu. Með bréfi sýslumanns 17. desember 2009 var kröfunni hafnað þar sem hann taldi að engin mistök hefðu orðið við þinglýsingu gjafabréfsins. Í bréfi sýslumanns kom meðal annars fram að á þeim tíma sem bréfinu var þinglýst hefði verið viðurkennd framkvæmd, ef skjal var afhent í einu eintaki, að embætti aðstoðaði við að vélrita á löggiltan skjalapappír eftirrit sem því var ætlað að halda. Á þessum tíma hefði ekki verið unnt að ljósrita frumritið á slíkan pappír.
Með bréfi lögmanns áfrýjenda 26. janúar 2012 var skorað á stefndu að framvísa „lögfullu gjafabréfi eða öðrum gjörningi“ sem eignarhald á jörðinni yrði reist á. Að öðrum kosti yrði rekið mál til að fá eignarhaldinu hnekkt. Þessu erindi mun ekki hafa verið svarað og var mál þetta því höfðað.
II
Áfrýjendur reisa málatilbúnað sinn á því að þau hafi aldrei samþykkt að ráðstafa þeim hluta jarðarinnar Stóru-Ávík sem þau fengu í arf eftir föður sinn til bróður síns, Guðmundar Jónssonar, en stefndu leiða rétt sinn til jarðarinnar frá honum fyrir arf. Með málsókninni vefengja áfrýjendur ekki ráðstöfun á þeim eignarhluta jarðarinnar sem féll til móður þeirra auk þess sem þau taka tillit til þess hluta sem Guðmundur fékk að arfi eftir föður sinn.
Er gjafabréfinu til Guðmundar var þinglýst 28. apríl 1976 voru í gildi lög nr. 30/1928 um þinglýsing skjala og aflýsing, en þá og allt fram til ársins 1992 var þinglýsing dómsathöfn. Samkvæmt 5. gr. laganna bar þeim sem vildi fá skjali þinglýst að afhenda það í tveimur samhljóða frumritum eða í frumriti og eftirriti. Átti að minnsta kosti annað frumritið eða eftirritið að vera ritað á haldgóðan pappír sem dómsmálaráðherra löggilti. Í 6. gr. þeirra sagði síðan að þegar dómara væri afhent skjal til þinglýsingar bæri honum að sannreyna að bæði eintök skjalsins væru samhljóða. Að þessu leyti voru þágildandi þinglýsingareglur í meginatriðum efnislega samhljóða gildandi reglum, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1978.
Með þinglýsingu skjala er þeim réttindum sem háð eru þinglýsingu aflað lögverndar gagnvart þriðja manni. Því til viðbótar hefur þinglýsing þau almennu áhrif að óhætt er að vissu marki að reiða sig á þær eignarheimildir sem þinglýst hefur verið. Af því leiðir að sá sem vefengir þinglýst réttindi verður venjulega að leiða í ljós fullyrðingu sína, ef á mótbáruna getur reynt.
Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 39/1978 gildir sú regla að sá er hlýtur réttindi með samningi við þinglýstan eiganda að eign þarf ekki að sæta þeirri mótbáru að heimildarbréf fyrirrennara hans sé ógilt ef hann er grandlaus um ógildingaratvikið er hann öðlaðist réttindin. Þar sem stefndu öðluðust réttindi sín yfir jörðinni fyrir arf en ekki með samningi glatast ekki mótbárur áfrýjenda gegn þinglýstri heimild Guðmundar samkvæmt gjafabréfinu.
Í málinu hefur komið fram að áfrýjendur vissu um árabil af gjafabréfinu til Guðmundar áður en hann lést. Þrátt fyrir það var sú ráðstöfun ekki vefengd af þeim fyrr en að honum látnum. Fór hann með eignina í krafti þeirrar eignarheimildar sem hann hafði fyrir jarðarhlutanum og veðsetti alla jörðina og gerði aðra löggerninga, en suma þeirra höfðu nokkrir úr hópi áfrýjenda vottað. Áfrýjendur sýndu því af sér verulegt tómlæti við gæslu réttar síns með því að aðhafast ekkert gagnvart Guðmundi, en helst mátti vænta þess að hann sem gjafþegi gæti framvísað því frumriti af gjafabréfinu sem gera verður ráð fyrir að lagt hafi verið inn hjá sýslumanni til þinglýsingar og síðan afhent þinglýsingarbeiðanda í kjölfar hennar. Jafnframt mátti gera ráð fyrir að Guðmundur gæti veitt upplýsingar um afdrif frumritsins ef það var glatað, en stefndu eiga af augljósum ástæðum óhægar um vik í þeim efnum. Að þessu virtu hafa áfrýjendur ekki hnekkt gjafabréfinu til Guðmundar fyrir helmingi jarðarinnar sem þinglýst var 28. apríl 1976 og stefndu leiða rétt sinn af. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjendum verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Anna Jónsdóttir, Fanney Ágústa Jónsdóttir, Hrafnhildur Jónsdóttir, Hörður Jónsson, Jón Jónsson, Kristín Guðrún Jónsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Ólína Elísabet Jónsdóttir og Sólveig Stefanía Jónsdóttir, greiði stefndu, Benedikt Jóni Guðmundssyni, Daníel Ísak Maríusyni, Guðmundi Þóri Hafsteinssyni, Hafdísi Rán Sævarsdóttur og Ingibjörgu B. Guðmundsdóttur, 600.000 krónur óskipt í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 9. júlí 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. maí sl. er höfðað með stefnu birtri 19. júní, 3. júlí, 24. júlí og 7. ágúst 2012.
Stefnendur eru Anna Jónsdóttir, Hjarðarholti 2, Akranesi, Margrét Jónsdóttir, Bergistanga, Norðurfirði, Fanney Ágústa Jónsdóttir, Esjuvöllum 22, Akranesi, Sólveig Stefanía Jónsdóttir, Hlíðarvegi 6, Grundarfirði, Hrafnhildur Jónsdóttir, Hjarðarholti 6, Akranesi, Jón Jónsson, Birtingarkvísl 28, Reykjavík, Kristín Guðrún Jónsdóttir, Jörundarholti 118, Akranesi, Hörður Jónsson, Galtarvík, Akranesi og Ólína Elísabet Jónsdóttir, Uppsalavegi 5, Sandgerði.
Stefndu eru Benedikt Jón Guðmundsson, Burknavöllum 19, Hafnarfirði, Ingibjörg B. Guðmundsdóttir, Hafnargötu 41, Reykjanesbæ, Guðmundur Þór Hafsteinsson, Miðstræti 24, Neskaupstað, Sævar Þór Magnússon, Vesturgötu 10, Akranesi, f.h. Hafdísar Ránar Sævarsdóttur, Vesturgötu 10, Akranesi og á hendur Margréti Gunnlaugsdóttur hrl., Acta lögmannsstofu ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, f.h. skjólstæðings hennar sem skipaður lögráðamaður, Daníels Ísaks Maríusonar, Andrésbrunni 12, Reykjavík.
Stefnendur krefjast þess að staðfestur verði með dómi eignarréttur hvers þeirra um sig að 1/30 hluta af 50% óskiptum sameignarhluta í jörðinni Stóru-Ávík, Árneshreppi, Strandasýslu með fastanúmer 141716.
Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda og greiðslu málskostnaðar með álagi úr þeirra hendi að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
MÁLSATVIK OG MÁLSÁSTÆÐUR
Stefnendur málsins, þau Anna Jónsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Fanney Ágústa Jónsdóttir, Sólveig Stefanía Jónsdóttir, Hrafnhildur Jónsdóttir, Jón Jónsson, Kristín Guðrún Jónsdóttir, Hörður Jónsson og Ólína Elísabet Jónsdóttir, sem eru alsystkin, eru börn hjónanna Jóns Guðmundssonar, sem lést 25. janúar 1975 og Unnar Aðalheiðar Jónsdóttur, sem lést 8. september 1991. Þau hjónin voru eigendur að helmingi jarðarinnar StóraÁvík, á móti Ingibjörgu Guðmundsdóttur, systur Jóns og bjuggu þau þar með sinn stóra barnahóp alla sína búskapartíð. Í máli þessu gera þau kröfu um að staðfestur verði eignarréttur þeirra hluta af 50% jarðarinnar Stóru-Ávík, Árneshreppi, Strandasýslu, með fastanúmerið 141716 í fasteignaskrá og gildi meints gjafabréfs. Auk stefnenda málsins, áttu hjónin tíunda barnið, soninn Guðmund Jónsson. Hvorugt hjónanna átti aðra erfingja. Tók Guðmundur við búskapnum eftir foreldra sína. Hélst það fyrirkomulag meðan hann lifði. Stefnendur kveðast hafa verið í góðri trú allan tímann sem Guðmundur sat jörðina að vera hans þar helgaðist einungis af umlíðan þeirra þar um sem og móður þeirra meðan hún lifði. Stefndu í málinu eru öll afkomendur Guðmundar þessa sem lést á árinu 2008 og leiða þau hinn meinta rétt sinn til jarðarinnar til hans. Stefndu Benedikt Jón Guðmundsson og Ingibjörg B. Guðmundsdóttir eru börn hans, en stefndu Guðmundur Þórir Hafsteinsson, Hafdís Rán Sævarsdóttir og Daníel Ísak Maríuson, eru öll börn Jónu Guðmundsdóttur, dóttur hans, sem lést 16. nóvember 2004.
Eftir fráfall Guðmundar heitins á árinu 2008 kom í ljós að þinglýst hafði verið gjafabréfi á jörðina hinn 27. apríl 1976. Á bréfið er handritað undir meginmálið: „Munaðarnesi 15.4.1976“. Telja stefnendur að ekki verði betur séð en að útgáfudagurinn og útgáfustaðurinn séu handrituð af þáverandi sýslumanni sjálfum, rithöndin virðist í öllu falli sú sama og á sjálfri þinglýsingarárituninni á bakhlið blaðsins. Skjalið er merkt litra U með nr. 481 og er áritað um móttöku til þinglýsingar hinn 27. apríl 1976. Í skjalinu er frá því greint að stefnendur, ásamt móður sinni, gefi bróður sínum, Guðmundi Jónssyni, eignarhluta sína í jörðinni. Í skjalinu, sem sagt er gefið út 15. 4. 1976, eru útgefendur sagðir löglegir erfingjar dánarbús Jóns Guðmundsonar, en skiptum eftir hann lauk 15. 12. 1975 samkvæmt erfðafjárskýrslu. Af þeirri erfðafjárskýrslu verður ráðið að börnin hafa eignast lögbundinn erfðahlut eftir föður sinn í búinu, þar með talið 1/3 hluta af helmingi jarðarinnar Stóra-Ávík. Engri erfðayfirlýsingu hafi þó verið þinglýst á jörðina í framhaldinu, hvorki að því er börnin varðaði eða móður þeirra. Út frá því sé gengið í gjafagerningi að þau séu eigendur.
Enginn stefnenda kannast við að hafa undirritað neinn gjafagerning um jörðina, hvorki þetta tiltekna eintak, enda er það óundirritað, né heldur neitt annað samhljóða bréf eða skjal. Hið þinglýsta skjal er eins og áður segir bæði óundirritað og óvottfest og því telja stefnendur ekki hægt að tala um skjal í lagalegum skilningi. Skjalið sé markleysa (nullitet) að mati stefnenda og er á því byggt. Þá kannast stefnendur heldur ekki við að hafa nokkru sinni undirritað nokkurt annað plagg, pappír eða viljayfirlýsingu sama eða svipaðs efnis eða gefið munnlega ádrátt í þessa veru, þ.e. að gefa bróður sínum jörðina. Það muni enda aldrei hafa verið ætlunin, þó ekki hafi verið amast við veru Guðmundar heitins á jarðarpartinum.
Stefnendur kveðast fljótlega hafa hafist handa um að leita skýringa á gjafabréfinu sem við þeim hafi blasað eftir fráfall Guðmundar heitins Jónssonar. Þau hafi m.a. í því skyni leitað ásjár Lögmanna Suðurlandi sem hafi haft málið til skoðunar um eitthvert skeið. Stefnendur kveða lögmenn stofunnar hafa einblínt um of á þinglýsingarþátt málsins og hafi málið dagað þar uppi. Stefnendur telji á hinn bóginn að lögmennirnir hafi þar elt villuljós þar sem nær hefði verið að láta reyna á eignarrétt jarðarinnar í almennu einkamáli, enda hefði aldrei fengist endanlegur úrskurður um eignarrétt að jörðinni í þinglýsingarmáli. Alltaf hefði þurft til almennt einkamál.
Mál þetta sé höfðað í kjölfarið á árangurslausum tilraunum til þess að fá stefndu til þess að framvísa lögfullri eignarheimild fyrir jörðinni.
Í samræmi við grunnreglur réttarfarsins, sem og eignar- og samningaréttar, hvíli sönnunarbyrðin að mati stefnenda alfarið á herðum stefndu þannig að þau þurfi að sanna lögmæti eignarhalds síns á jörðinni með framvísun óslitinna og lögmætra aðilaskiptagjörninga sem þau geti leitt rétt sinn af. Þeirri staðreynd verði ekki haggað að stefnendur hafi við erfðaskipin eftir föður sinn orðið eigendur hvert þeirra um sig að 1/30 hluta af 50% jarðarinnar Stóru-Ávík. Sá eignarréttur verði ekki af þeim tekinn gegn þeirra vilja í samræmi við grunnreglur eignarréttarins. Þinglýsing óundirritaðra skjala breyti engu í því sambandi og ekki heldur hugsanlegt grandleysi þeirra sem leiði rétt sinn fyrir erfð til hins löglausa gjafabréfs.
Eftir því sem næst verði komist sé tilurð hins meinta gjafabréfs sú að Guðmundur Gísli Jónsson, fyrrverandi hreppstjóri í Munaðarnesi, muni hafa útbúið það að beiðni tengdamóður sinnar, Unnar Jónsdóttur frá Stóru- Ávík. Hann hafi aldrei séð bréfið eftir að hann hafði lokið uppkastsgerðinni og hann raunar aldrei vitað hvað gert var við það.
Þess hafi verið farið á leit við sýslumanninn á Hólmavík að hann leiðrétti færslu í þinglýsingabók vegna þinglýsingar á gjafabréfinu, en stefnendur telja að aldrei hefði átt að þinglýsa því. Sýslumaðurinn hafnaði að leiðrétta færsluna í þinglýsingabók hinn 17. desember 2009 með rökstuddri ákvörðun. Sú ákvörðun hafi aðallega byggst á því, að undirrituðu frumriti hljóti hafa að verið framvísað. Sýslumaðurinn hafi ekki gert neinn reka að því að kanna hvort undirritað frumrit væri til með því að kalla eftir því hjá skráðum eigendum. Meðferð málsins hafi þannig verið ábótavant í ýmsum efnum að mati stefnenda. Þar eð ljóst hafi þótt að úrslit máls þessa mundu aldrei ráðast í þinglýsingarmáli hafi verið ákveðið að kæra ekki ákvörðunina en höfða þess í stað almennt einkamál til staðfestingar á eignarétti ef stefndu létu sér ekki segjast eða framvísuðu lögfullri eignarheimild. Þinglýsing sé fyrst og fremst tryggingarráðstöfun en ekki staðfesting á efni skjals sem heimildarbréfs. Það blasi þó við í þessu tilviki að þinglýsingin hafi veirð ranglega framkvæmd þar sem ekki hafi verið til staðar löglegt frumrit skjalsins.
Stefnendur telja að yfirfærsla eignarréttinda að fasteignum sé formbundinn gerningur að íslenskum rétti og geti slíkt ekki gerst nema fyrir erfð eða með lögmætum skriflegum löggerningi, undirrituðum af aðilum og að öðrum skilyrðum uppfylltum, enda búi að baki óslitin röð lögmætra eignarheimilda. Löggjafinn hafi alla tíð lagt á það þunga áherslu að festa ríkti þegar komi að eignarhaldi á fasteignum, enda fari það saman við almannahagsmuni. Ekki liggi fyrir neinn afsals- eða gjafagjörningur í þessu tilviki sem hefði getað stofnað lögmætan eignarrétt Guðmundi Jónssyni til handa með þeim hætti að hann hefði verið framseljanlegur áfram eða getað flust fyrir erfð. Stefnendur krefjast þess að réttur þeirra hvers um sig til 1/30 hluta af 50% eignarhlut í umþrættri fasteign verði staðfestur, enda leiði þau eignarrétt sinn til föður síns skv. 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Eignarréttur stefnenda sé sérstaklega verndaður og friðhelgur skv. 72. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þinglýsing tilhæfulausra skjala nái ekki að svipta þau þeirri eign sinni.
Stefnendur krefjast þess að eignarhaldi stefndu verði hnekkt, enda hafi þau ekki framvísað lögmætri eignarheimild að jörðinni þrátt fyrir áskorun. Slíka heimild sé a.m.k. ekki að finna í þinglýsingabókum. Þá sé ekki heldur þar að finna neina vísbendingu um að slíkt undirritað skjal hafi heldur verið til við þinglýsingu skjalsins, enda þess hvergi getið með áletruninni „sign.“ eða sambærilegri áletrun, að undirritað skjal hafi verið fyrirmynd eða hliðstæða skjalsins við þinglýsingu þess.
Stefnandi vísar til meginreglna; eignarréttarins, samningaréttarins og kröfuréttarins um stofnun og yfirfærslu eignarréttar. Þá er vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um friðhelgi eignarréttarins, til erfðalaga nr. 8/1962, einkum 1. og 19. gr. laganna, þinglýsingalaga nr. 39/1978, einkum 25. gr. laganna og til lögræðislaga nr. 71/1997, einkum 69. gr. laganna. Um varnarþing vísast til 32. og 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um málskostnað vísast til 129. og 130. gr. sömu laga.
Af hálfu stefndu er til þess vísað að með hinu þinglýstu gjafabréfi frá 15. apríl 1976 hafi Guðmundur Jónsson orðið einn eigandi hálfrar Stóru-Ávíkur jarðarinnar. Hafi hann þar með öðlast öll þau sömu eignarréttindi og fasteignaeigendur hafi almennt og sé þessi réttur hans stjórnarskrárvarinn. Þó að frumrit gjafabréfsins finnist ekki nú veiti það stefnendum ekki eignarrétt í jörðinni Stóru-Ávík. Hér taki þinglýsing gjafabréfsins sem fram hafi farið 28. apríl 1996 af skarið um nefndan rétt Guðmundar. Sé sá réttur hans friðhelgur og verði ekki af honum, og nú erfingjum hans, tekinn. Eins og atvikum sé háttað sé sönnunarbyrðin stefnenda fyrir því, að þeir hafi aldrei undirritað það. Að því gefnu að sú sönnun takist ekki hljóti stefndu að vera sýkn saka þegar af þessari ástæðu.
Jafnframt er á því byggt, að í bréfi sínu frá 17. desember 2009 geri sýslumaðurinn á Hólmavík nákvæma grein fyrir viðeigandi þágildandi reglum þinglýsingalaga og verklagsreglum við þinglýsingar. Í niðurlagi þess greini hann síðan frá því mati sínu að engin þau mistök hafi átt sér stað við þinglýsingu gjafabréfsins að 27. gr. núgildandi laga eigi hér við. Hafni hann þess vegna kröfu stefnenda um leiðréttingu þinglýsingar á því. Stefnendur hafi ekki borið úrlausn þessa undir héraðsdóm.
Þá sé þess hér að gæta, að enginn stefnenda hafi þinglýst, hvorki fyrr né síðar, þeim eignarrétti sínum í jörðinni sem hver þeirra hafi fengið í arf eftir föður sinn í desember 1975. Þessi réttur þeirra þoki óhjákvæmilega fyrir fyrir þinglýsta gjafabréfinu áðurnefnda og valdi þannig varanlegum missi þessara réttinda þó að annað komi ekki til.
Nefndur Guðmundur hafi einn haft eignarhald á umræddum helmingi jarðarinnar frá apríl 1976 og allt til dánardægurs í apríl 2009. Hafi hann einn nýtt jarðarhelminginn sem slíkur. Stefnendur hafi aldrei komið þar við sögu. Hafi hann því, hvað sem öðru líður, unnið til eignarréttar á honum fyrir hefð.
Stefnendur hafi aldrei fundið að eða haft uppi athugasemdir við Guðmund út af nýnefndum staðreyndum, þ.e. eignarhaldi hans á jarðarhelmingnum og nýtingu hans. Þeir hefðu ekkert aðhafst til að viðhalda þeim rétti, sem þeir nú krefjist staðfestingar á, og ekki fundið að þessu eignarhaldi hans fyrr en eftir andlát hans. Stefndu hafi því unnið til eignarréttar yfir eigninni fyrir traustfang.
Hafi stefnendur átt einhvern eignarrétt í umræddri fasteign eftir 15. apríl 1976, sem þeir geri nú kröfu til að verði staðfestur sé sá réttur þeirra fyrir löngu fallinn niður vegna tómlætis þeirra.
Stefndu hafi verið grandlaus um, að stefnendur teldu sig eiga í jörðinni. Þau hafi ekki vitað betur en að faðir þeirra og afi væri þarna einn eigandi að helmingnum. Hafi þau skipt dánarbúi hans einkaskiptum í samræmi við það og hafi það engum athugasemdum eða andmælum sætt af hálfu stefnenda. Hafi þó verið lag að koma þá, og reyndar miklu fyrr, á framfæri þeirri kröfu, sem hér sé til meðferðar með viðeigandi hætti, því að samkvæmt stefnunni komust þeir fyrst að þinglýsingu gjafabréfsins „í tengslum við fráfall Guðmundar heitins“. Það hafi hins vegar ekki gert það og valdi þetta tómlæti réttindamissi (hafi hann einhver verið) þeirra gagnvart stefndu.
Lagarök sín fyrir sýknu sækja stefndu til reglna eigna- og samningaréttar um stofnun eignarréttar með gjafagerningi, til 1. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905 og til reglna um traustfang. Þá vísar hann til reglna um gildi og réttaráhrif þinglýsingar og þinglýsingarathöfnina sjálfa samanber nú lög nr. 39/1978, einkum IV. kafli þeirra, og áður lög nr. 30/1928, og til reglna fjármunaréttarins um réttaráhrif tómlætis. Jafnframt byggja þau á 72. gr. laga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Málskostnaðarkrafa þeirra byggist á 129. gr. - 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafan um virðisaukaskatt á kostnaðinn á lögum nr. 50/1988.
NIÐURSTAÐA
Jón Guðmundsson sem bjó að Stóru Ávík lést 25. janúar 1975. Samkvæmt bréfi dagsettu í ágúst 1975 óskuðu ekkja hans og 10 börn eftir heimild til þess að skipta dánarbúi hans einkaskiptum og var sú heimild veitt hinn 26. ágúst 1975. Með bréfi dagsettu 17. desember 1975 sendi hreppstjórinn í Árneshreppi erfðafjárskýrslu ásamt erfðafjárskatti til sýslumanns. Í erfðafjárskýrslu er tilgreint að fasteign komi til skipta og erfingjar eru taldir upp þ.e. ekkja Jóns og 10 börn þeirra. Hinn 28. apríl 1976 móttók sýslumaðurinn í Strandasýslu skjal sem ber yfirskriftina gjafabréf og segir í því að undirrituð sem séu erfingjar dánarbús Jóns Guðmundssonar lýsi því yfir að þau gefi Guðmundi Jónssyni Stóru Ávík eignarhluta sinn í jörðinni Stóru Árvík. Jafnframt sé það ósk þeirra að verði jörðin seld eða losni úr ábúð á annan hátt verði þau látin ganga fyrir kaupum eða ábúð. Handritað er á skjalið „Munaðarnesi, 15.4 1976“ og nöfn ekkju Jóns og nöfn stefnenda eru vélrituð á skjalið. Þau hafa ekki ritað nöfn sín á eintak það sem þinglýsingardómari hélt við embættið og bundið er inn í veðmálabækur. Sýslumaður þinglýsti skjalinu og byggja stefndu á því að þar sé eignarheimild föður þeirra að þeim helmingi jarðarinnar sem mál þetta snýst um.
Á skattframtali Guðmundar Jónssonar árið 1977 dagsettu 14. mars 1977 segir m.a: „Á árinu eignaðist ég helminginn í jörðinni Stóru Ávík. Að hluta sem arf eftir föður minn, en að mestu leiti sem gjöf frá móður minni og systkinum.“ Fram kom í aðilaskýrslum þeirra stefnenda sem komu fyrir dóm að þau hefðu ekki talið hlut sinn í jörðinni fram til eignar á skattframtölum sínum. Móðir stefnenda og Guðmundar, Unnur Aðalheiður Jónsdóttir lést 8. september 1991. Börn hennar óskuðu eftir leyfi til einkaskipta á dánarbúi hennar hinn 2. október 1991. Í beiðninni er þess ekki getið að dánarbúið eigi hlut í fasteign og ekki heldur í erfðafjárskýrslu frá 24. janúar 1992. Í málinu liggur frammi endurrit úr hjónaskilnaðarbók sýslumannsins á Akranesi frá 8. febrúar 1994 þar sem segir að við fjárskipti milli Guðmundar Jónssonar og konu hans vegna skilnaðar þeirra afsali hún sér tilkalli til jarðarinnar Stóru Ávíkur ásamt öllu meðfylgjandi. Fram kom í skýrslu vitnisins Guðmundar G. Jónssonar sem var hreppstjóri í Árneshreppi að hann hefði sett saman og vélritað gjafabréf það sem þinglýst var 28. apríl 1976 á eignina Stóru Ávík. Þetta hefði hann gert að beiðni tengdamóður sinnar Unnar Aðalheiðar Jónsdóttur en Guðmundur er kvæntur stefnandanum Sólveigu Stefaníu Jónsdóttur.
Stefnendur bera á móti því að þau hafi nokkru sinni undirritað gjafabréf til Guðmundar. Hins vegar liggur fyrir að sýslumaður tók við og færði inn á eignina margnefnt gjafabréf hinn 28. apríl 1976 og að stefndu byggja á því að bréf þetta sé sú eignarheimild sem þau reisi sýknukröfu sína við. Stefndu þurfa ekki að hlíta þeirri mótbáru stefnenda að heimildarbréf Guðmundar sé ógilt með því að telja verður að þau hafi verið grandlaus um ætlað ógildisatvik er þau öðluðust réttindin við lát föður þeirra, Guðmundar Jónssonar, en fram kemur í málinu að stefnendur segjast ekki hafa vitað um tilvist gjafabréfsins fyrr en eftir lát hans og ekkert styður það að stefndu hafi vitað af ágreiningi um þetta er Guðmundur Jónsson lést. Athugast og í þessu samhengi að ekki er sýnt fram á það hér að frumrit skjals þess er þinglýst var hinn 28. apríl 1976 hafi verið falsað. Leiðir þannig þegar af reglu 33. gr. þinglýsingarlaga að stefndu verða sýknuð af öllum kröfum stefnenda. Ekki þykja efni til að verða við þeirri kröfu stefndu að stefnendum verði gert að greiða þeim málskostnað með álagi skv. 131. gr. laga nr. 91/1991 en eftir úrslitum málsins verða þau dæmd til að greiða stefndu málskostnað sem ákveðst 1.050.000 krónur þ.m.t. virðisaukaskattur.
Allan Vagn Magnússon dómstjóri kvað upp þennan dóm.
Við uppkvaðningu dóms er gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Benedikt Jón Guðmundsson, Ingibjörg B. Guðmundsdóttir, Guðmundur Þórir Hafsteinsson, Sævar Þór Magnússon f.h. Hafdísar Ránar Sævarsdóttur og Margrét Gunnlaugsdóttir lögráðamaður f.h. Daníels Í. Maríusonar, skulu sýkn af öllum kröfum stefnenda, Önnu Jónsdóttur, Margrétar Jónsdóttur, Fanneyjar Ágústu Jónsdóttur, Sólveigar Jónsdóttur, Hrafnhildar Jónsdóttur, Jóns Jónssonar, Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur, Harðar Jónssonar og Ólínu Elísabetar Jónsdóttur.
Stefnendur greiði stefndu 1.050.000 krónur í málskostnað.