Hæstiréttur íslands
Mál nr. 732/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. desember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. desember 2017, kl. 16.00.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að ákærði hafi verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald allt til miðvikudagsins 22. nóvember, kl. 16.00 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-372/2017. En áður hefði hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R- 334/2017 sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar nr. 630/2017.
Þá er þess getið að ákæra hafi verið gefin út á hendur X af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu dagsett 25. október 2017 þar sem ákært var fyrir eftirfarandi brot:
1. “Umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 1. júlí ekið bifreiðinni [...] um Bústaðaveg án þess að hafa öðlast ökuréttindi.
Mál nr. 007-2017-[...]
2. Vopnalagabrot og hótanir, með því að hafa miðvikudaginn 4. júlí á [...] í [...] í Reykjavík haft í vörslum sínum ásamt A, kt. [...], byssu af gerðinni Remington 870 borið hana á almanna færi og skotið af byssunni nokkrum skotum án þess að hafa fengið til þess skotvopnaleyfi og ákærði X hótað B, kt. [...],, og C, kt. [...], með því að miða byssunni á þau og hótað C að skjóta hann, sem var til þess fallið að vekja upp hjá þeim ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.
Mál nr. 007-2017-[...]
3. fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 8. ágúst í bifreiðinni [...] sem lögregla hafði afskipti af á Sæbraut í Reykjavík, haft í vörslum sínum 6,55 g af amfetamín sem lögregla fann við leit.
Mál nr. 007-2017-[...]
4. Vopnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 6. september á bifreiðastæði við [...], haft í vörslum sínum hníf, sem lögregla fann við leit og lagt var hald á.
Mál nr. 007-2017-[...]
5. Hótun, með því að hafa þriðjudaginn 26. september 2017 að [...] í Reykjavík otað hníf að systur sinni D, kt. [...] sem var til þess fallið að vekja upp hjá henni ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.
Mál nr. 007-2017-[...]“
Í greinargerð sækjanda kemur fram að málið hafi nú verið þingfest og fengið málsnúmerið S-609/2017. Þá hafi lögregla einnig til meðferðar eftirfarandi mál.:
„007-2017-[...] Fjárkúgun, með því að hafa í félagi við E og F farið að heimili G, og krafist þess að G greiddi þeim 150.000 kr. og hótað honum líkamlegum ofbeldi, X vopnaður byssu og F kylfu, en brotaþoli lagði 150.000 kr. inn á bankareikning E.
007-2017-[...] Hótun, með því að hafa í maí 2017 sent H skilaboð sem í fólust hótanir sem voru til þess fallnar að vekja hjá G ótta um líf heilbrigði eða velferð sína og sinna, en í skilaboðunum stóð: „Can u get in touch with G for me and tell him im coming to his home and im going to brake his legs“.“
Sækjandi tekur fram að ákærði sæti nálgunarbanni vegna framangreindra mála (nr. 007-2017-[...] og 007-2017-[...]) gagnvart G og móður hans, I, frá 5. júlí sl. til 5. desember nk. samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-[...]2017. Þá sé þess að geta að ákærði hafi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-[...]/2015 verið sakfelldur fyrir meðal annars tilraun til manndráps, með því að hafa stungið mann fimm sinnum með hnífi með 21,3 cm blaði og fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás þegar hann hafi stungið annan mann í kviðinn, að því er talið af ráðnum hug. Hafi ákærða verið gert að sæta fangelsi í fimm ár, en refsingu hans hafi verið frestað og skuli hún falla niður að liðnum fimm árum haldi hann hvort tveggja almennt og sérstakt skilorð. Með hinu sérstaka skilorði hafi verið ákveðið að ákærði sætti á skilorðstímanum umsjá barnaverndar til fullnaðs 18 ára aldurs en eftir það umsjón Fangelsismálastofnunar. Skuli ákærði á skilorðstímanum hlíta fyrirmælum umsjónaraðila um dvalarstaði, sálfræði-, og geðlæknismeðferð, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og notkun tómstunda. Jafnframt skuli hann hvorki neyta áfengis, deyfilyfja né fíkniefna af neinu tagi á skilorðstímanum.
Sækjandi tekur fram að með hliðsjón af þeim málum sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar, og að teknu tilliti til skilorðsrofa ákærða, sé að mati lögreglu hafið yfir vafa að ákærði muni hljóta óskilorðsbundna refsingu fái hann dóm fyrir þau brot sem nú séu til rannsóknar, enda hafi hann rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafi verið sett í skilorðsbundnum dómi í skilningi c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála. Þá sé það mat lögreglu að líkur séu til þess að hann muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna, enda í mikilli neyslu fíkniefna. Nauðsynlegt sé því að ákærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæti dómsmeðferð.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður sakborningur því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Auk þess verða að vera fyrir hendi eitthvert þeirra skilyrða sem þar eru talin upp í fjórum stafliðum. Meðal þeirra er að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi, sbr. c-lið ákvæðisins.
Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan 27. september sl. Eins og að framan er rakið eru til rannsóknar hjá lögreglu ætluð brot ákærða sem varðað geta fangelsisrefsingu, m.a. í ljósi þess að hann hafi rofið skilorð dóms sem honum voru sett í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S[...]/2015 frá [...] 2015 en með þeim dómi var ákærði sakfelldur fyrir m.a. tilraun til manndráps með því að hafa stungið annan mann fimm sinnum með hnífi með 21,3 cm blaði og sérstaklega hættulega líkamsárás þegar hann var talinn af ráðnum hug hafa stungið annan mann í kviðinn. Ákærði var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar en vegna einkum ungs aldurs var sú refsing skilorðsbundin til fimm ára. Þá var 25. október sl. gefin úr ákæra á hendur ákærða vegna fimm ætlaðra brota hans.
Ákærði er undir rökstuddum grun um refsiverð brot eins og rakið hefur verið. Móðir ákærða hefur greint lögreglu frá því að hún telji fullvíst að hann hefði lagt til systur sinnar með hnífi á heimili hennar 26. september sl., ef hún hefði ekki gengið á milli. Fallast verður á með sóknaraðila að líklegt sé að ákærði haldi áfram brotastarfsemi sinni fari hann frjáls ferða sinna, og jafnframt að systur hans og jafnvel öðrum geti stafað ógn af honum. Einnig verður að telja miðað við framlögð gögn að fyrir liggi rökstuddur grunur um að ákærði hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-[...]/2015 frá 30. apríl 2015.
Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna er því fallist á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá er, með vísan til alls framangreinds, fallist á það með ákæruvaldi að skilyrði fyrri hluta c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé uppfyllt, um að ætla megi að ákærði muni halda áfram brotum meðan máli hans er ólokið.
Samkvæmt öllu framanrituðu verður krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Elsa Kjartandóttir héraðsdómari kveður upp þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærði, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. desember 2017, kl. 16.00.