Hæstiréttur íslands

Mál nr. 90/2004


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Samningur
  • Veðsetning


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. september 2004.

Nr. 90/2004.

Tæknival hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Bjarna Þorvarði Ákasyni

og gagnsök.

(Reimar Pétursson hrl.)

 

Hlutafélög. Samningur. Veðsetning.

B var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri A hf., sem síðar hlaut nafnið T hf., þegar félagið keypti tækja- og fagtækjadeild J ehf. í apríl 2000. Í tengslum við lán vegna kaupanna afhenti B viðskiptabanka A hlutabréf sín í félaginu að handveði, án þess að hafa borið þá ráðstöfun áður undir stjórn A. Fór svo að B höfðaði mál gegn félaginu til heimtu sérstakrar greiðslu vegna veðsamningsins. Á stjórnarfundi A í nóvember 2000 var gerð bókun um fjármögnun, þar sem kom fram að B hafi lagt félaginu til veð í eigin hlutabréfum fyrir lántöku og að stjórnarmenn teldu eðlilegt að hann fengi þóknun fyrir. Talið var að bókunin bæri ekki með sér að komist hefði á samningur milli aðila um þóknun til handa B fyrir veðsetningu bréfanna og var félagið því sýknað af kröfu B.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. febrúar 2004 og krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda en til vara lækkunar hennar, svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 11. mars 2004 og krefst þess að dómurinn verði staðfestur um annað en dráttarvexti og málskostnað. Hann krefst dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 og síðan lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum eins og í héraðsdómi greinir frá 18. október 2000 til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti hefur heiti Aco Tæknivals hf. verið breytt í Tæknival hf.

I.

Gagnáfrýjandi var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Aco hf. þegar félagið keypti tækja- og fagtækjadeild Japansk-íslenska verslunarfélagsins ehf. 5. apríl 2000 með fyrirvara um samþykki hluthafafundar, sem var veitt 14. sama mánaðar. Gagnáfrýjandi undirritaði kaupsamninginn fyrir hönd félagsins ásamt stjórnarformanni. Síðan kom í ljós að andstætt ákvæðum samningsins væru yfirteknar viðskiptaskuldir fallnar í gjalddaga, þar á meðal 170.000.000 króna skuld við Sony Denmark, sem annaðist verslun með Sony vörur til seljandans. Gagnáfrýjanda og fjármálastjóra var af stjórnarformanni falið að leita eftir láni til þess að greiða upp þessa skuld hjá viðskiptabanka félagsins, sem var tilbúinn að veita lánið gegn tryggingu. Afhenti gagnáfrýjandi bankanum hlutabréf sín í Aco hf. að handveði í september 2000 án þess að hafa borið þá ráðstöfun áður undir stjórn félagsins. Gagnáfrýjandi kynnti lántökuna og tilefni hennar á stjórnarfundi í félaginu 21. sama mánaðar og var bókað um þetta á fundinum og jafnframt, að gagnáfrýjanda þætti rétt að stjórnin tæki ákvörðun um hvernig þetta yrði fjármagnað til lengri tíma. Var ákveðið að fresta ákvörðun um málið þar til niðurstaða lægi fyrir í uppgjöri við seljandann.

Á næsta stjórnarfundi 3. nóvember 2000 var gerð bókun um fjármögnun, sem rakin er í héraðsdómi og gagnáfrýjandi reisir kröfu sína á. Í bókuninni kemur fram að hann hafi lagt félaginu til veð í eigin hlutabréfum fyrir lántöku og að stjórnarmenn væru sammála um að óeðlilegt væri að framkvæmdastjóri gengist í persónulegar ábyrgðir umfram aðra hluthafa og að eðlilegt væri að hann fengi þóknun fyrir „á meðan þetta ástand varir.” Síðan segir: „Bjarni mun leggja fram hugmyndir um þóknun á næsta stjórnarfundi.” Ekkert liggur fyrir í málinu um hvenær næsti stjórnarfundur var haldinn og skjöl málsins bera ekki með sér að þóknun hafi aftur verið nefnd fyrr en í bréfi gagnáfrýjanda til stjórnar aðaláfrýjanda 19. september 2001. Í því bréfi reifaði hann sögu veðsetningarinnar og tók fram að hann hafi ítrekað óskað eftir því að vera leystur undan ábyrgðinni. Hafi honum verið lofað að svo yrði. Hann ítrekaði þá kröfu að félagið leysti hluti hans úr veðböndum í bankanum fyrir hádegi föstudagsins 21. september. Síðar í bréfinu segir:

„Þá leyfi ég mér einnig að minna á að aldrei hefur verið gengið frá þóknun til mín vegna þessarar ábyrgðar minnar þó um slíkt hafi verið rætt og ég í raun talið frágengið. Ljóst er að ég hefi þegar orðið fyrir verulegu tjóni vegna þess að hlutir mínir í Aco/Tæknival hf. eru bundnir í þágu hins sameinaða félags, sem þeir áttu aldrei að vera. Tjónið sem ég hef orðið fyrir vegna þess að hlutir mínir standa að veði fyrir skuldum félagsins verður félagið að bæta mér að fullu og ganga frá ábyrgðarþóknun, sem nemur 2% af lánsfjárhæð á mánuði eða broti úr mánuði talið frá 19. september 2000 þar til veðbönd verða leyst af hlutunum. Tjónsfjárhæð liggur enn ekki ljós fyrir þar sem endanleg fjárhæð þess kemur ekki í ljós fyrr en ég hef hluti mína til frjálsrar ráðstöfunar.”

Vorið 2001 ákváðu stjórnir Aco hf. og Tæknivals hf. að sameina félögin og var samrunaáætlun gerð 18. júní 2001. Hvorki þar né í öðrum skjölum varðandi samrunann var getið um að gagnáfrýjandi ætti kröfu á Aco hf. um þóknun vegna veðsetningar hlutabréfanna.

II.

Í bókun stjórnarfundar Aco hf. 3. nóvember 2000, sem greind er hér að framan, kemur fram að stjórnarmenn hafi verið sammála um að óeðlilegt væri að framkvæmdastjóri gengist í persónulegar ábyrgðir umfram aðra hluthafa og að eðlilegt væri að hann fengi þóknun fyrir á meðan þetta ástand varði, en jafnframt að hann myndi leggja fram hugmyndir um þóknun á næsta stjórnarfundi. Þegar bókunin er skoðuð í heild verður að fallast á með aðaláfrýjanda að þar hafi ekki verið tekin ákvörðun um að greiða gagnáfrýjanda þóknun fyrir að láta hlutabréf sín að veði í bankanum heldur því lýst að eðlilegt væri að hann fengi slíka þóknun en að um hana yrði samið og að gagnáfrýjanda hefði verið falið að koma með tilboð um hana á næsta stjórnarfundi. Að fram komnu slíku tilboði hefði stjórnin rætt það og tekið afstöðu til þess. Það tilboð kom ekki fyrir stjórnina, en ágreiningslaust er að stjórnarformaður og gagnáfrýjandi ræddu utan stjórnarfunda mismunandi hugmyndir sínar en náðu ekki saman. Vegna þessa verður ekki litið svo á að komist hafi á samningur milli aðila um þóknun til handa gagnáfrýjanda fyrir veðsetningu hlutabréfanna. Hann hefur ekki sýnt fram á fasta venju um greiðslu slíkrar þóknunar sem aðaláfrýjandi væri bundinn af.  Ber því að sýkna aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Tæknival hf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Bjarna Þorvarðar Ákasonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2004.

I

          Mál þetta er höfða 16. júní sl. og dómtekið 17. febrúar sl.

          Stefnandi er  Bjarni Þorvarður Ákason, Úthlíð 7, Reykjavík.

          Stefndi er Aco Tæknival hf., Skeifunni 17, Reykjavík.

          Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 28.000.000 króna með dráttarvöxtum sam­kvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 af 2.000.000 króna frá 18. október 2000 til 18. nóvember s.á., af 4.000.000 króna frá þeim degi  til 18. desember s.á., af 6.000.000 króna frá þeim degi til 18. janúar 2001, af 8.000.000 króna frá þeim degi til 18. febrúar s.á., af 10.000.000 króna frá þeim degi til 18. mars s.á., af 12.000.000 króna frá þeim degi til 18. apríl s.á., af 14.000.000 króna frá þeim degi til 18. maí s.á., af 16.000.000 króna frá þeim degi til 18. júní s.á., af 18.000.000 króna frá þeim degi til 1. júlí s.á., en með drátt­ar­vöxtum samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 18.000.000 króna frá þeim degi til 18. júlí s.á., en af 20.000.000 króna frá þeim degi til 18. ágúst s.á., af 22.000.000 króna frá þeim degi til 18. september s.á., af 24.000.000 króna frá þeim degi til 18. október s.á., af 26.000.000 króna frá þeim degi til 18. nóvember s.á. en með dráttarvöxtum af 28.000.000 króna frá þeim degi til greiðsludags.   Þá er krafist málskostnaðar.

          Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

II

          Stefnandi kveður stefnda, Aco Tæknival hf.,  hafa orðið til við samruna Aco hf. og Tæknivals hf.  Samrunaáætlunin sé dagsett 18. júní 2001 og staðfest á stjórnarfundi 27. júní sama ár.  Uppgjörsdagur hafi verið 1. janúar 2001.   Stefnandi kveðst hafa verið sölu­stjóri hjá Aco hf. frá 1983 til 1997 en framkvæmdastjóri félagsins frá 1997 til sam­einingarinnar.  Eftir hana kveðst stefnandi hafa orðið framkvæmdastjóri stefnda.

          Stefnandi skýrir svo frá að á hluthafafundi 14. apríl 2000 hafi Aco hf. ákveðið að kaupa tækja- og fagtækjadeild Japansk íslenska verslunarfélagsins ehf. (Japis).  Kaup­verð, fyrir annað en vörulager og við­skipta­kröfur, hafi verið rúmar 118 milljónir króna og var það greitt með útgáfu nýrra hluta í Aco hf.  Fyrir vörulager og við­skipta­kröfur hafi Aco hf. greitt með yfirtöku á við­skiptaskuldum.  Samkvæmt 3. gr. samn­ingsins áttu yfirteknar viðskiptaskuldir ekki að vera gjaldfallnar og ábyrgðist Japis að hæfi­legur gjaldfrestur væri á þeim.  Skömmu eftir að skuldirnar voru afhentar hafi hins vegar komið á daginn að þær voru allar í gjald­daga fallnar.  Þar á meðal var skuld við Sony Denmark sem var aðal­birgir Japis á þessum tíma og afar mikilvægur fyrir reksturinn.  Aco hf. reyndist því eftir samninginn við Japis skulda Sony 170 milljónir króna.  Til að tryggja að Sony færi ekki með viðskipti sín annað að öllu leyti þótti Aco hf. nauðsynlegt að taka lán til að greiða skuldina.  Leitað var eftir láni hjá Bún­aðarbankanum og var hann reiðu­búinn að veita það gegn tryggingu.  Aco hf. gat hins vegar ekki lagt fram trygg­ingu og til að leysa málið varð það úr að stefnandi lagði sjálfur fram ábyrgðir í sínum bréf­um hjá Aco hf., gegn láni frá bankanum að fjár­hæð 100 milljónir króna.  Í fram­haldi af því var gerður handveðsamningur milli stefn­anda og bankans 18. september 2000 þar sem bankinn tók að handveði bréf stefn­anda í Aco hf. að nafnvirði 2.601.500 krónur.  Gengi bréfanna var hins vegar 70, ef miðað er við síðasta söluverð þeirra áður en  samn­ingurinn var gerður og sölu­verðið því 182.105.000 krónur.  Veðinu var létt af bréfunum rúmum 14 mánuðum eftir hand­veðsetninguna, eða 21. nóvember 2001, og hafði þá verð þeirra fallið verulega og var gengið komið niður í 2,7.

          Stefnandi kveður að á tveimur stjórnarfundum í Aco hf. haustið 2000 hafi verið fjallað um samning hans við Búnaðarbankann.  Á fundi 21. september hafi komið fram hjá stefnanda að honum þætti rétt að stjórn Aco hf. tæki ákvörðun um hvernig þetta yrði fjármagnað til lengri tíma.  Á fundi 3. nóvember var bókað að stjórnarmenn í Aco hf. væru sammála um að óeðlilegt væri að stefnandi, sem framkvæmdastjóri, geng­ist í persónulegar ábyrgðir umfram aðra hluthafa.  Einnig væri eðlilegt að hann fengi þóknun fyrir meðan hann væri í ábyrgð samkvæmt handveðssamningnum.  Í fram­haldinu kveðst stefnandi ítrekað hafa leitað eftir því að skuld Aco hf. og síðar stefnda við Búnaðarbankann yrði greidd og hann leystur undan ábyrgðinni, sem fólst í því að hlutabréf hans voru í vörslu bankans á grundvelli handveðssamnings.  

          Í bréfi 19. september 2001 til stjórnarformanns stefnda kveðst stefnandi hafa farið fram á að hann leysti hlut hans úr veðböndunum fyrir hádegi 21. september.  Enn fremur krafðist stefnandi þess að stefndi greiddi honum þóknun vegna veð­setn­ing­ar­innar, sem næmi tjóni hans við gengisfellingu bréfa hans í félaginu, eða að stefndi greiddi honum 2% af lánsfjárhæðinni á mánuði.  Það var loks í nóvember 2001 sem veð­inu var létt af hlutabréfum stefnanda og hafði þá verð þeirra lækkað eins og að fram­an var rakið.

          Í málinu krefur stefnandi stefnda um 2% þóknun af lánsfjárhæð Búnaðarbankans, sem var 100.000.000 króna, í þá 14 mánuði sem handveðið stóð og gerir það stefnu­kröf­una, 28.000.000 króna.

 

          Stefndi gerir þær athugasemdir við framangreinda málavaxtalýsingu að stefnandi hafi, auk þess að starfa sem framkvæmdastjóri Aco hf., verið í stjórn félagsins og átt 16,17 % hlutafjár í því.  Stefnandi hafi leitað til Búnaðarbankans um fram­an­greint lán án samráðs við stjórnina svo séð verði.  Hafi hann skrifað undir láns­samn­ing­inn fyrir hönd Aco hf. og undirritað handveðsamning til tryggingar á fram­an­greind­um lána­samningi. 

         

III

          Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt á sérstakri greiðslu frá stefnda vegna veðsamningsins, sem hann gerði persónulega í þágu stefnda við Bún­að­ar­bankann.  Samn­ingurinn hafi verið gerður í þeim tilgangi að vernda hagsmuni stefnda á meðan hann átti í erfiðleikum í rekstri.  Byggir stefnandi á því að komist hafi á bind­andi samn­ingur milli hans og stefnda þess efnis að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða stefn­anda þóknun og sé stefndi við það bundinn.  Vísar stefnandi til þess að stefndi hafi tekið ákvörðun á stjórnarfundi um að stefnandi eigi rétt á greiðslu vegna veð­setningarinnar.

          Stefnandi byggir stefnufjárhæðina á því að stefnda beri að greiða honum þóknun, sem geti talist sanngjörn í þessu tilviki.  Stefnandi vísar til 5. gr. kaupalaga nr. 39/1922 um það að ef ekki hafi verið samið sérstaklega um verð beri að greiða það verð sem seljandi krefjist, verði það ekki talið ósanngjarnt.  Byggir stefnandi á því að beita beri þessari grein eða eftir atvikum 45. gr. kaupalaga nr. 50/2000.  Verði ekki fall­ist á að ákvæðið eigi beint við um samninginn er á því byggt að því verði beitt með lög­jöfnun. 

 

          Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi eigi ekki rétt á þóknun vegna veð­setningarinnar þar sem aðilar hafi ekki samið um hana.  Ekki hafi komist á skuld­bind­andi samningur milli stefnanda og forvera stefnda, Aco hf., um þóknun þá sem stefn­andi krefur stefnda um í málinu.

          Stefndi byggir á því að handveðsetning stefnanda hafi verið gerð í þágu hans, ekki síður en í þágu Aco hf.  Bendir stefndi á að leiða megi líkur að því að stefnanda hafi, í ljósi ábyrgðar hans á áðurnefndum kaupum, verið mikið í mun að við­skipta­sam­bönd við birgja glötuðust ekki vegna vanefnda kaupanda.  Þá telur stefndi aug­ljóst að stöðu sinnar vegna hafi stefnandi verið að tryggja hagsmuni sína sem einn af eig­end­um Aco hf.  með framangreindri lántöku.  Það hafi fyrst verið eftir að stefnandi hafði, að eigin frumkvæði, gengið frá lánasamningnum og hand­veð­setn­ing­unni að hann kynnti samningana fyrir stjórn Aco hf.  Hann hafi þá enga kröfu gert um þóknun eins og eðlilegt hefði verið, ef hann hafi þá talið sig eiga rétt á henni.  Þess í stað hafi hann tjáð öðrum stjórnarmönnum að taka þyrfti ákvörðun um fjármögnun lánsins til lengri tíma.   Það hafi svo verið síðar sem það var rætt í stjórninni að stefn­anda við­stöddum að eðlilegt væri að hann fengi þóknun fyrir veðsetninguna á meðan hún væri í gildi.  Hins vegar hafi verið ákveðið að bíða með ákvörðun um þetta þar til stefn­andi legði fram hugmynd um þóknun, en það átti hann að gera á næsta stjórnar­fundi.  Stefndi hafnar því að með þessu hafi verið tekin ákvörðun um þóknun til handa stefnanda heldur hafi einungis verið ákveðið að hann legði fram tillögur þar að lút­andi.  Á þessu byggir stefndi þá fullyrðingu sína að ekki hafi komist á bindandi samn­ingur milli aðila um þóknun til handa stefnanda.  Stefnandi hafi aldrei lagt fram þessa til­lögu og aldrei áskilið sér rétt til þóknunar eða haft uppi fyrirvara varðandi hana.   Bendir stefndi sérstaklega á að við samruna Aco hf. og Tæknivals hf. vorið 2001 hafi þessi krafa ekki komið fram. Hún hafi fyrst komið fram um haustið, eins og rakið var. 

          Varakröfu sína um lækkun stefnukröfunnar byggir stefndi á því að krafa stefn­anda sé mjög ósanngjörn og í engu samræmi við fjárhæð lánsins og þær kvaðir sem stefn­andi hafi undirgengist að eigin frumkvæði með veðsetningu hlutabréfa sinna.   Bendir stefndi á að stefnandi geri kröfu um greiðslu þóknunar sem nemi tæpum 1/3 af láns­fjárhæðinni auk dráttarvaxta.  Stefnandi hafi engar sönnur fært fyrir því að krafa hans um 2% þóknun af lánsfjárhæð fyrir hvern mánuð sé venjubundin hér á landi.  Þá hafi hann ekki sannað að hann hafi beðið tjón vegna veðsetningarinnar og vegna lækk­andi gengis á hlutabréfum sínum á meðan á veðsetningunni stóð. 

 

IV

          Í gögnum málsins, þar með töldum framburði fyrir dómi, kemur fram að skömmu eftir að Aco hf. hafði keypt framangreinda deild Japis kom í ljós að verulegar skuldir voru gjaldfallnar, sem nauðsynlegt var að greiða til að viðhalda mikilvægum við­skipta­samböndum.  Stefnanda, sem þá var framkvæmdastjóri Aco hf., var falið að annast þessi mál og þar með að útvega fé til að greiða skuldirnar.  Hann samdi við Bún­aðarbankann um að hann lánaði Aco hf. eitt hundrað milljónir króna.  Aco hf. gat hins vegar ekki sett veð til tryggingar láninu og fór því svo að stefnandi setti bank­anum hlutabréf sín að handveði, eins og rakið var.  Stefnandi leitaði ekki formlegs sam­þykkis eða tilkynnti stjórn Aco hf. fyrir fram um þessa lántöku eða veðsetningu, en hafði samráð við einstaka stjórnarmenn.  Á fundi í stjórn Aco hf. 21. september 2000 er bókað um framangreindar skuldir og að félagið hafi þurft að taka lán til að greiða þær og stefnandi að veðsetja eigin hlutabréf.  Enn fremur að stefnandi telji rétt að stjórnin taki ákvörðun um framtíðarfjármögnun lánsins.  Á næsta stjórnarfundi, sem haldinn var 3. nóvember sama ár, var rætt um þetta mál og þá er bókað:  "Eins og fram kom á síðasta stjórnarfundi hefur framkvæmdastjóri lagt félaginu til veð í eigin hluta­bréfum fyrir lántöku.  Stjórnarmenn voru sammála um að óeðlilegt sé að fram­kvæmda­stjóri gangist í persónulegar ábyrgðir umfram aðra hluthafa og eðlilegt sé að hann fái þóknun fyrir á meðan þetta ástand varir.  Bjarni mun leggja fram hugmyndir um þóknun á næsta stjórnarfundi."  Þeir menn, sem á þessum tíma voru í stjórn Aco hf., báru að ætlunin hafi verið að greiða stefnanda þóknun en ekki hafi náðst sam­komu­lag um hversu há hún ætti að vera.

          Samkvæmt því, sem nú hefur verið rakið, er það niðurstaða dómsins að stjórn Aco hf. hafi lofað að greiða stefnanda þóknun fyrir að leggja fram hlutabréf sín sem hand­veð.  Við þetta loforð ber stefnda að standa.  Það er hins vegar til úrlausnar hér á eftir hversu háa þóknun stefnda ber að greiða stefnanda, en um það náðist ekki sam­komu­lag á sínum tíma.

          Þrátt fyrir það sem segir í framangreindri tilvitnun í fundargerð, um að stefnandi myndi leggja fram hugmyndir um þóknun, er það fyrst með bréfi til stefnda 19. september 2001 sem hann setur fram ákveðna kröfu um hana.  Þetta var krafa um sömu þóknun og hann hefur uppi í málinu.  Kröfunni var beint til þáverandi stjórn­ar­for­manns stefnda.  Hann bar að sér hafi fundist krafan of há og hafi þeir stefnandi ekki náð samkomulagi um þóknunina.  Hins vegar hafi ekki verið ágreiningur um að stefnda bar að greiða stefnanda þóknun.  Af hálfu stefnda hefur ekki verið upplýst hvaða þóknun stefnanda var boðin á sínum tíma.  Þá hefur stefndi heldur ekki leitt í ljós hvað venjulegt er í þessum efnum, en það er stefnda að sýna fram á að krafa stefn­anda sé óeðlileg eða ósanngjörn, sbr. undirstöðurök 5. gr. laga nr. 39/1922 um lausa­fjár­kaup, sem giltu þegar stefndi lofaði stefnanda þóknun fyrir  veðsetninguna.  Gögn máls­ins, þar með talið álit lögmanns stefnda frá nóvember 2002 og framburður vitna fyrir dómi, bendir hins vegar til þess að 2% þóknun á mánuði, þann tíma sem ábyrgðin varir, sé ekki óeðlileg.  Þegar litið er til þess að stefnandi léði að handveði hlutabréf, sem ganga kaupum og sölum og eru þar með viðkvæm fyrir verðbreytingum, og batt þau til langs tíma, verður þessi þóknun heldur ekki talin ósanngjörn.    

          Af gögnum málsins verður ekki séð að stefnandi hafi fylgt kröfubréfinu frá 19. september 2001 eftir og hann gat ekki upplýst við aðalmeðferð afhverju hann tók málið ekki upp á stjórnarfundum eftir 3. nóvember 2000.  Lögmaður stefnanda krefur svo stefnda um greiðslu með bréfi 28. febrúar 2003 sem var hafnað með bréfi stefnda 5. mars sama ár.  Með hliðsjón af þessu skal krafan bera dráttarvexti frá 28. mars 2003 til greiðsludags.  Loks verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 800.000 krónur í máls­kostnað.

 

          Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

Dómsorð

          Stefndi, Aco Tæknival hf., greiði stefnanda, Bjarna Þorvarði Ákasyni, 28.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu frá 28. mars 2003 til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað.