Hæstiréttur íslands
Mál nr. 16/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 9. janúar 2012. |
|
Nr. 16/2012. |
Lögreglustjórinn
á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um
að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. janúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 12. janúar 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með héraðsdómi að uppfyllt séu skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem í hinum kærða úrskurði greinir. Verður úrskurðurinn því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. janúar 2012.
Lögreglustjórinn á
Suðurnesjum hefur krafðist þess fyrr í dag, fyrir Héraðsdómi Reykjaness með
vísan til a-lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að [X],
verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 12.
janúar 2012 kl. 16:00.
Krafa er reist á því að
kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940.
Kærði mótmælir kröfunni.
Til vara krefst hann að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð með
kröfunni kemur fram að Tollgæslan hafi haft þann 22. desember 2011 um kl. 02:07
afskipti af [X] í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE)
við komu hans til landsins frá Kaupmannahöfn með flugi HCC-904A.
Við skoðun á ferðatösku kærða hafi komið í ljós að taskan hafi vegið u.þ.b.
6,55 kg. tóm. Í viðræðum við tollverði kvaðst kærði telja að um 750 gr. af
amfetamíni væru í töskunni, þá hafi kærði einnig verið með í töskunni
neysluskammta af kannabisefnum. Efnið í töskunni hafi verið prófað í Itemiser prófunartæki Tollstjórans í Flugstöð Leifs
Eiríkssonar og var niðurstaðan há svörun á kókaíni. Samkvæmt niðurstöðum
tæknideildar lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu innihélt taskan sem kærði
kom með til landsins 1.049,72 gr af meintu kókaíni
auk 4,92 gr. af kannabisefnum.
Þá segir að við
yfirheyrslu yfir kærða þann 22. desember 2011, greindi kærði lögreglu frá því
að hann hefði farið í Danmerkur í þeim tilgangi að sækja tösku fyrir aðila sem
hafi beitt hann miklum þrýstingi. Kærði segir að hann hafi fengið töskuna sem
innihélt hin meintu fíkniefni á lestarstöð í Kaupmannahöfn eftir að aðili sem
að hann kannaðist ekki við hafði haft samband við hann á hóteli sem kærði
dvaldist á í Kaupmannahöfn. Kærði kveðst ekki þekkja þann aðila sem beitti hann
þrýstingi um að fara í ferðina til Danmerkur.
Þá segir að kærði hafi
greint lögreglu frá því að hann hafi talið að um væri að ræða 700-800 g af
amfetamíni og hann hafi átt að fá 500 þúsund krónur fyrir að koma með töskuna
til landsins. Rannsókn lögreglu hafi síðastliðna daga aðallega beinst að því að
reyna að upplýsa hverjir hafi verið samverkamenn kærða og hver eða hverjir það
hafi verið sem fengu hann til að flytja hin meintu fíkniefni til landsins. Í
því skyni hefur lögregla aflað margvíslegra gagna sem unnið er hörðum höndum að
vinna úr. Þá á lögregla einnig eftir að yfirheyra fleiri vitni vegna þessa
máls. Vísast nánar til meðfylgjandi gagna málsins.
Þá segir enn fremur að
rannsókn þessa máls sé á frumstigi. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi
ferðar kærða til landsins og tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi
og eða erlendis auk annarra atriða. Magn hinna meintu fíkniefna, sem þegar hafa
fundist í fórum kærða, þyki eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni
hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og að háttsemi hans kunni
að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða
laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þá var upplýst fyrir dóminum að annar
aðili hafi verið handtekinn vegna þessa máls. Lögregla hafi aflað mikilla gagna
sem eigi eftir að vinna úr og sé rannsóknin viðamikil fyrir utan að um mikið
magn fíkniefna sé að ræða. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að
torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telur
lögregla einnig hættu á að kærði verði beittur þrýstingi og að reynt verði að
hafa áhrif á hann, af hendi samverkamanna kærða, gangi kærði laus, á meðan
rannsókn málsins sé enn í gangi hjá lögreglu.
Með vísan til alls
framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr.
65/1974 um ávana og fíkniefni, telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni
standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til
fimmtudagsins 12. janúar 2012 kl. 16.00.
Kærði mótmælti kröfunni á
þeim forsendum að engir slíkir rannsóknahagsmunir væru enn til staðar sem
réttlætti gæsluvarðhald. Lögregla væri komin með öll gögn frá kærða sem hann
hefði yfir að ráða auk þess sem búið væri að framkvæma húsleit á heimili hans.
Þá kvað kærði að hann hefði átt erfiða ævi og sætt slæmri útreið á fyrri árum í
gæsluvarðhaldi og ætti enn í erfiðleikum vegna þess. Til þess yrði að taka við
ákvörðun um áframhaldandi gæsluvarðhald.
Samkvæmt
rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr.
a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur fangelsi. Með vísan til alvarleika brotsins, og rannsóknargagna þykja skilyrði a-liðar 1.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála vera uppfyllt í málinu.
Þrátt fyrir erfiða ævi kærða eins og tíundað var fyrir dóminum, þá verða
rannsóknarhagsmunir að ganga framar persónulegum þörfum kærða. Vegna
rannsóknarhagsmuna og þess að rannsókn málsins er á frumstigi og með vísan til
gagna málsins, verður krafan um að kærða verði gert að sæta áfram
gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og segir í úrskurðarorði.
Ástríður
Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, [X], skal sæta
áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 12. janúar nk. kl. 16.00.