Hæstiréttur íslands
Mál nr. 449/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Börn
- Meðlag
- Kröfugerð
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 449/2014.
|
A (sjálfur) gegn Innheimtustofnun sveitarfélaga (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Börn. Meðlag. Kröfugerð.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu G um að ógilt yrði fjárnám sem sýslumaðurinn í Kópavogi gerði hjá honum að kröfu I vegna vangoldinna meðlagsgreiðslna.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám sem sýslumaðurinn í Kópavogi gerði hjá honum 28. janúar 2014 fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð samtals 11.779.150 krónur og lokið var án árangurs. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, svo og að „öll gögn varnaraðila og sóknaraðila, skjöl 4 til 12 til héraðsdómarans, verði úrskurðuð ólögmæt að formi og efni til í þessu fjár og kröfuréttarmáli“.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins beindi varnaraðili 25. nóvember 2013 beiðni til sýslumannsins í Kópavogi um fjárnám hjá sóknaraðila fyrir skuld vegna barnsmeðlaga að höfuðstól samtals 10.354.592 krónur auk 1.402.758 króna í dráttarvexti fyrir tímabilið frá 25. nóvember 2009 til 1. desember 2012 og 21.800 króna vegna kostnaðar. Ekki var gerð nánari grein fyrir skuld sóknaraðila í beiðni varnaraðila, en svo virðist sem henni hafi fylgt yfirlit um hluta skuldarinnar, sem náði aðeins til tímabilsins frá 5. mars 2010 til 6. nóvember 2013, svo og ýmis gögn til stuðnings því að sóknaraðili bæri skyldu til að greiða meðlög með sex börnum sínum, sem fædd eru á árunum [...] til [...]. Sóknaraðili sem mun ekki vera lögfræðingur að mennt mætti sjálfur þegar sýslumaður tók beiðni varnaraðila fyrir og var fært í gerðabók að sóknaraðila hafi verið veittar leiðbeiningar um réttarstöðu sína og kröfu varnaraðila. Einnig var fært til bókar að sóknaraðili hafi hvorki samþykkt kröfu varnaraðila né orðið við áskorun um að greiða hana, hann hafi neitað að upplýsa um eignir sínar og hafi varnaraðili krafist að gerðinni yrði lokið án árangurs, enda væri honum ekki kunnugt um eignir sóknaraðila. Sýslumaður varð við þeirri kröfu varnaraðila.
Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að skuld sóknaraðila, sem fjárnám var gert fyrir, hafi myndast vegna barnsmeðlaga, sem hafi fallið til fram á árið 2002, en upp frá því hafi breytingar á fjárhæð hennar eingöngu stafað af áfalli dráttarvaxta sem að nokkru hafi verið bakfærðir síðar vegna fyrningar. Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvort varnaraðili hafi áður en hann lagði fyrrgreinda aðfararbeiðni fyrir sýslumann aðhafst eitthvað, sem valdið gæti slitum á fyrningu kröfunnar á hendur sóknaraðila, en samkvæmt 10. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga fyrnist krafa um endurgreiðslu barnsmeðlaga á tíu árum. Í endurriti úr gerðabók sýslumanns kemur ekkert fram um að sóknaraðili hafi lýst því yfir við framkvæmd fjárnámsins að hann bæri ekki fyrir sig fyrningu, sbr. 9. gr. laga nr. 90/1989. Án tillits til þessa verður ekki fram hjá því horft að í máli þessu hefur sóknaraðili hvorki borið fyrir sig að annmarki hafi verið á fjárnámsgerðinni að þessu leyti né að krafa varnaraðila á hendur sér sé fallin niður fyrir fyrningu. Að því gættu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að hafna kröfu sóknaraðila um ógildingu gerðarinnar.
Krafa sóknaraðila um að tiltekin gögn málsins verði úrskurðuð ólögmæt er ekki með þeim hætti að dómur verði felldur á hana.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2014.
Með bréfi, sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness 28. febrúar 2014, óskaði sóknaraðili með skírskotun til 15. kafla laga nr. 90/1989 eftir úrlausn héraðsdóms um gildi fjárnámsgerðar sem fram fór hjá sýslumanninum í Kópavogi 28. janúar 2014. Málið var þingfest 26. mars 2014 og tekið til úrskurðar 15. maí sl. Sóknaraðili er A, [...], [...], og flutti hann málið sjálfur. Varnaraðili er Innheimtustofnun sveitarfélaga, Lágmúla 9, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að ógilt verði framangreind aðfarargerð nr. [...], sem fram fór hjá sýslumanninum í Kópavogi 28. janúar sl., „og að öll sýnileg sönnunargögn skv. Lið 3 í endurriti úr Gerðabók Sýslumanns Kópavogs, verði úrskurðuð ólögmæt að bæði efni og formi til.“
Varnaraðili krefst þess að framangreind aðfarargerð verði staðfest og að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað.
I
Þann 28. janúar 2014 var að kröfu varnaraðila krafist fjárnáms hjá sóknaraðila vegna meðlagsskuldar sóknaraðila að fjárhæð 11.779.150 krónur sem sundurliðast þannig:
Innlendar kröfur ............. 3.235.926 krónur
Erlendar kröfur ............. 7.118.666 krónur
Dráttarvextir frá 25. nóvember 2009
til 1. desember 2012 .............. 1.402.758 krónur
Birtingarkostnaður .............. 2.700 krónur
Fjárnámsgjald .............. 19.100 krónur.
Sóknaraðili var sjálfur mættur við fjárnámið. Hann sagðist ekki samþykkja kröfu varnaraðila og neitaði að upplýsa um hvort hann ætti eignir. Varnaraðila var ekki kunnugt um neinar eignir sóknaraðila og krafðist þess að fjárnámi yrði lokið án árangurs og var svo gert. Fyrir liggur að greiðsluáskorun var birt sóknaraðila 24. október 2013.
Varnaraðili heldur því fram að krafa hans sé tilkomin vegna vangoldinna meðlaga sem sóknaraðila sé skylt að endurgreiða varnaraðila, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 um innheimtustofnun sveitarfélaga. Meðlagsskyldan grundvallist á lögmætum meðlagsúrskurðum íslenskra og [...] yfirvalda og nái til eftirtalinna barna sóknaraðila: B, kt. [...], C, kt. [...], D, kt. [...], E, kt. [...], F, kt. [...] og G, kt. [...]. Meðlag með E, F og G sé innheimt á Íslandi að beiðni [...] yfirvalda á grundvelli laga nr. 93/1962.
Sóknaraðili byggir kröfu sína í málinu á því að hann standi ekki í skuld við varnaraðila. Varðandi barnið D hafi sóknaraðili og móðir barnsins samið svo um að hún fengi hús á [...] í sinn hlut við fjárslit þeirra og að meðlag með barninu félli niður. Varðandi barnið C heldur sóknaraðili því fram að móðir hennar hafi ekki tekið við meðlagi frá Tryggingastofnun ríkisins og hafi barnið verið ættleitt. Varðandi barnið B heldur sóknaraðili því fram að sú krafa sé löngu greidd. Það eigi einnig við erlendu kröfurnar vegna barnanna E, F og G.
Það er einnig málsástæða af hálfu sóknaraðila að framlögð skjöl málsins af hálfu varnaraðila njóti friðhelgi einkalífs og að varnaraðila hafi verið óheimilt að leggja þau fram og byggja mál sitt á þeim. Vísar sóknaraðili til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 í þessu sambandi og tilgreinir sérstaklega framlagðan meðlagsúrskurð og leyfisbréf til skilnaðar.
II
Dómkröfur sóknaraðila eru annars vegar að framangreind fjárnámsgerð sýslumannsins í Kópavogi verið ógilt og hins vegar að „öll sýnileg sönnunargögn skv. Lið 3 í endurriti úr Gerðarbók Sýslumanns Kópavogs verið úrskurðuð ólögmæt að bæði efni og formi til.“ Er hér átt við skilnaðarleyfi, meðlagsúrskurði og samkomulag.
Fyrri krafa sóknaraðila, um að aðfarargerðin verði úr gildi felld, er í fyrsta lagi byggð á því að engin skuld sé fyrir hendi, í öðru lagi á því að krafa varnaraðila sé byggð á gögnum sem séu vernduð af friðhelgi einkalífs og sé því ólögmæt og í þriðja lagi á því að tvær barnsmæður sóknaraðila hafi ekki fengið greitt meðlag frá Tryggingastofnun ríkisins og því sé ekki skuld vegna þeirra barna fyrir að fara. Þá gerir sóknaraðili athugasemdir við útreikning dráttarvaxta.
Varnaraðili hefur lagt fram í málinu meðlagsúrskurði íslenskra og [...] yfirvalda varðandi sex börn sóknaraðila. Samkvæmt þeim úrskurðum hefur sóknaraðili gengist við þeim börnum og verið úrskurðaður til þess að greiða meðlag með þeim. Í málinu hafa verið lögð fram fjölmörg gögn og yfirlit um útreikning á kröfunni, bæði erlenda og innlenda hluta hennar. Í málflutningi skýrði lögmaður varnaraðila á fullnægjandi hátt út höfuðstól kröfunnar og hvernig hann er fundinn. Þá tók hann fram að kröfunni hefði verið haldið við með árangurslausu fjárnámi. Lagt verður til grundvallar að Tryggingastofnun ríkisins sendi ekki kröfu til varnaraðila, Innheimtustofnunar sveitarfélaga, nema vegna útgreidds framfærslueyris til barna og að því gefnu að meðlagsgreiðandi hafi komist í vanskil. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að hann hafi samið við tvær barnsmæður sínar um að meðlagsskylda hans félli niður vegna tveggja barna. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á með greiðslukvittunum eða með öðrum hætti að hann hafi greitt skuld sína við varnaraðila en því er haldið fram af sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að notfæra sér tiltekin gögn í málatilbúnaði sínum og vísar í því sambandi til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema með samþykki þess sem í hlut á. Ekki verður fallist á með sóknaraðila að varnaraðili hafi við innheimtu kröfunnar veitt almenningi upplýsingar um fjárhag sóknaraðila en auk þess er að gæta að samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hefur varnaraðili heimild til vinnslu persónuupplýsinga vegna lögbundinnar innheimtuskyldu sinnar.
Athugasemdir sóknaraðila vegna kröfu varnaraðila um greiðslu dráttarvaxta hefur ekki verið rökstudd en fram er komið í málinu að þeir reiknast frá 25. nóvember 2009 til 25. nóvember 2013 eða síðustu fjögur ár frá dagsetningu aðfararbeiðni. Þá hefur varnaraðili einnig lagt fram yfirlit um útreikning á dráttarvöxtum en dráttarvextir eldri en fjögurra ára eru fyrndir og er ekki gerð krafa í málinu um greiðslu þeirra.
Seinni krafa sóknaraðila er um að tiltekin gögn málsins verði úrskurðuð ólögmæt. Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 geta málsaðilar haft uppi kröfur um að aðfarargerð verði felld niður eða staðfest eða henni breytt á tiltekinn veg. Ekki er heimilt í slíku máli að gera viðurkenningarkröfu um að tiltekin skjöl málsins verði úrskurðuð ólögmæt. Verður því þessari kröfu sóknaraðila vísað frá dómi.
Samkvæmt framansögðu eru öll almenn skilyrði aðfarar uppfyllt í málinu og verður því ekki fallist á kröfu sóknaraðila um að aðfarargerðin verði ógilt.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Staðfest er aðfarargerð sýslumannsins í Kópavogi nr. [...] sem fram fór án árangurs þann 28. janúar 2014 hjá sóknaraðila, A.
Vísað er frá dómi kröfu sóknaraðila um að öll sýnileg sönnunargögn samkvæmt 3. lið í endurriti úr gerðabók sýslumannsins í Kópavogi verði úrskurðuð ólögmæt að efni og formi til.
Málskostnaður fellur niður.