Hæstiréttur íslands
Mál nr. 432/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Sératkvæði
|
|
Miðvikudaginn 9. ágúst 2006. |
|
Nr. 432/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Herdís Hallmarsdóttir hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sératkvæði.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en gæsluvarðhaldinu var markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til 24. október 2006. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 17. júní 2006, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en frá 23. sama mánaðar á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ákæra var gefin út á hendur honum 31. júlí 2006 þar sem honum er gefin að sök tilraun til manndráps með því að hafa veist að föður sínum og stungið hann með hnífi í hægri síðu þannig að hafi hlotist lífshættulegur áverki. Er brot hans talið varða aðallega við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr 20. gr. laganna, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Fyrir liggur að Hæstiréttur hefur í dómi um gæsluvarðhald yfir varnaraðila 28. júní 2006 í máli nr. 338/2006 talið skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt. Ekki eru efni til að breyta því mati nú. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er skilyrðum 2. mgr. 103. gr. fullnægt til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi, sem verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 27. september 2006 kl. 16.
Sératkvæði
Hjördísar Hákonardóttur
Fyrir liggur að ákæra hefur verið gefin út á hendur varnaraðila þar sem honum er gefin að sök tilraun til manndráps með því að hafa stungið föður sinn með hnífi í hægri síðu þannig að af hlaust lífshættulegur áverki. Af gögnum málsins má ráða að hnífslagið var veitt í geðshræringu eftir að faðir varnaraðila hafði ögrað honum. Þá liggur fyrir að varnaraðili hefur ekki áður orðið uppvís að hegningarlagabrotum en hann er 19 ára gamall.
Eftir að dómur Hæstaréttar gekk 28. júní 2006 í máli nr. 338/2006, þar sem staðfestur var úrskurður um að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væru uppfyllt til að varnaraðili sæti í gæsluvarðhaldi, hefur geðrannsókn farið fram á honum. Samkvæmt skýrslu Tómasar Zoëga, geðlæknis, hefur ekkert komið fram um að varnaraðili sé haldinn neinum þeim einkennum, sem lýst er í 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann hafi að vísu haft þunglyndiseinkenni en þau gætu ekki skýrt hegðun hans í umrætt sinn. Þá hefði ekkert komið fram við geðrannsóknina, sem útilokaði að refsing gæti borið árangur, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga. Auk geðrannsóknarinnar hafa verið lögð fram gögn, sem stafa frá þeim er hafa haft varnaraðila til meðferðar í gæsluvarðhaldsvistinni, Magnúsi Skúlasyni, geðlækni og Óskari Arnórssyni, meðferðarráðgjafa. Telur læknirinn að persónuleiki og sálarástand varnaraðila sé með þeim hætti að honum sé hætta búin af lengri fangavist auk þess sem engin hætta stafi af honum. Meðferðarráðgjafinn kveður ekkert hafa komið fram í samtölum og samskiptum sínum við varnaraðila sem bendi til þess að hann sé afbrota- eða ofbeldishneigður.
Að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga um aðdraganda að umræddri árás, aldurs varnaraðila og nýrra gagna sem lögð hafa verið fyrir réttinn um geðhagi hans, tel ég að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sé ekki uppfyllt og fella eigi hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2006.
Ár 2006, föstudaginn 4. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilsfang], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 24. október 2006 kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru ríkissaksóknara, dags. 31. júlí s.l., sem send hafi verið Héraðsdómi Reykjavíkur til meðferðar, hafi X verið ákærður fyrir tilraun til manndráps, með því að stinga föður sinn, A, með hnífi í hægri síðu með þeim afleiðingum að A hlaut lífshættulega áverka við það að hnífurinn gekk í gegnum lifrarblað og skaddaði hægra nýra hans.
Að mati ákæruvaldsins sé fullnægt skilyrðum fyrir gæsluvarðhaldi ákærða samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. og dómur Hæstaréttar frá 28. júní s.l., í máli nr. 338/2006, en þar taldi Hæstiréttur að skilyrðum tilvitnaðrar lagagreinar væri fullnægt til að A sætti áfram gæsluvarðhaldi. Tímalengd gæslvarðhaldsvistarinnar miðist við það að dómur verði fallin í máli ákærða áður en gæsluvarðhaldstíminn rennur út.
Brot þetta getur varðað við 211. gr., sbr. 20. gr. eða eftir atvikum við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Brot skv. fyrra ákvæðinu getur varðað allt að ævilöngu fangelsi, en skv. því síðara allt að 16 ára fangelsi. Að þessu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði er sakaður um teljast uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður krafa ríkissaksóknara því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærði, A, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 24. október 2006 kl. 16.00.
Pétur Guðgeirsson.