Hæstiréttur íslands
Mál nr. 489/2006
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Verksamningur
- Galli
- Skaðabætur
- Fjöleignarhús
- Aðild
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 15. nóvember 2007 |
|
Nr. 489/2006. |
Ístak hf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Þorragötu 5, 7 og 9, húsfélagi (Karl Axelsson hrl.) og gagnsök
|
Fasteignakaup. Verksamningur. Galli. Skaðabætur. Fjöleignarhús. Aðild. Fyrning.
Árið 1993 gerðu Í og S með sér samkomulag um að Í tæki að sér að byggja fjöleignarhús, en S var einkahlutafélag sem stofnað hafði verið til að standa að því að reisa slíkt hús, sem sérstaklega tæki mið af þörfum aldraðra, á lóðinni Þorragötu 5-9. Skyldi verkið byggt á teikningum A. Í samkomulaginu var vísað til gagna frá A er skyldu lögð til grundvallar. Í þeim kom fram að sérstaklega skyldi vandað til verksins og var í því efni meðal annars fjallað um utanhúsklæðningu. Þar kom og fram að verkið væri ekki fullhannað. Í og S gerðu síðar á árinu samning þar sem nánar var kveðið á um verkið. Þar kom meðal annars fram að það skyldi unnið í samræmi við byggingarreglugerð og ákvæði viðeigandi staðla og annarra reglna sem gilda um framkvæmdir sem þessar og að Í væri ábyrgt fyrir að eftir þeim yrði farið. Í samningum var og kveðið á um að Í skyldi bjóða félögum í S einstakar íbúðir í húsinu til kaups en gæti selt öðrum þær íbúðir sem félagsmenn hefðu ekki keypt innan tiltekins tíma. Í blaðaauglýsingu þar sem íbúðir fjöleignarhússins voru boðnar til sölu var tekið fram að húsið væri mjög vandað að allri gerð og meðal annars yrði það klætt að utan með viðhaldsfríu efni. Á sömu lund voru lýsingar á húsinu í söluyfirlitum frá fasteignasölu sem hafði milligöngu um sölu íbúða þar fyrir Í. Um haustið 2001 kom í ljós að utanhúsklæðning var farin að bila. Að beiðni Þ, sem er húsfélag umrædds fjöleignarhúss, voru dómkvaddir menn til þess að meta nánar tilgreinda ætlaða galla á byggingunni. Matsmenn töldu að skemmdir væru komnar fram í klæðningunni, þar sem kjarninn í plötum hennar hefði víða losnað frá ályfirborði þeirra. Væri endingartími klæðningarinnar ekki í samræmi við það sem við hefði mátt búast. Ekki væri hægt að gera við þessar skemmdir og fælust úrbætur í því að fjarlægja allar plöturnar og klæða húsið að nýju fullnægjandi plötum. Jafnframt bentu þeir á með vísan til bréfs Brunamálastofnunar að óheimilt hefði verið að nota brennanlegan vindpappa undir klæðninguna. Í bréfi Brunamálastofnunar kom jafnframt fram að klæðningin hefði verið notuð á mun stærra hús en óhætt var talið. Í niðurstöðu Hæstaréttar var talið að Þ væri réttur aðili að málinu enda vörðuðu kröfur húsfélagsins ætlaða galla á sameign allra í fjöleignarhúsinu. Í öllum kaupsamningum um einstakar íbúðir í húsinu var vísað til fyrrnefnds samnings milli Í og S og fylgiskjala með honum þar sem fram kom að sérlega skyldi vandað til byggingarinnar og að klæðningin skyldi vera viðhaldsfrí. Þá voru hliðstæð ákvæði í fyrrnefndu söluyfirliti og auglýsingu. Var í ljósi þessa talið að Í hefði við sölu íbúða í húsinu ábyrgst að klæðningin hefði góða endingu. Það hefði hún ekki haft í reynd. Bæri Í bótaábyrgð á að eignin hefði þannig ekki áskilda kosti. Jafnframt var ljóst að klæðningin fullnægði ekki kröfum reglugerðar um brunavarnir og brunamál. Bar Í einnig af þeim sökum skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af hlaust. Ekki var fallist á þá mótbáru Í að samningar Í við S leystu hann undan bótaábyrgð. Fyrir lá að enda þótt ákveðnar forsendur um hönnun hússins hefðu legið fyrir við samningsgerð þeirra hefði lokahönnun þess verið í höndum Í og hann ábyrgst að opinberum reglum yrði fylgt. Þ hafði einnig uppi kröfur um skaðabætur vegna galla við stálstoðir, tæringar í bárujárnsklæðningu neðan á svölum hússins og reykræstingar í stigahúsum þess. Féllst Hæstiréttur á bótaábyrgð Í vegna allra þessara galla. Ekki var fallist á málsástæðu Í um að hluti af kröfu Þ væri fyrndur. Fallist var á að leggja fyrrnefnda matsgerð til grundvallar tölulegri niðurstöðu um kostnað við að bæta úr þeim göllum sem Í væri ábyrgur fyrir að öðru leyti en því að ekki væri sýnt fram á að Í skyldi bera kostnað við nýja vindvörn. Þá var tekið tillit til 60% endurgreiðslu af virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað og þess að nýtt efni kæmi í stað gamals.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. september 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa gagnáfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 9. nóvember 2006. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi greiði sér 58.257.300 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2004 til greiðsludags en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Að því frágengnu krefst hann þess að aðaláfrýjandi greiði sér 15.000.000 krónur með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Reykjavíkurborg mun á sínum tíma hafa úthlutað Bandalagi háskólamanna lóð við Þorragötu nr. 5 til 9 í Reykjavík. Bandalagið mun hafa afhent Skildinganesi ehf. lóðina, en það félag var stofnað til að sjá um byggingu á fjöleignarhúsi fyrir hluthafa, þar sem hönnun skyldi miðast aðallega við þarfir aldraðra. Með bréfi 11. desember 1992, sem sent var aðaláfrýjanda og tveimur öðrum verktökum, var óskað eftir að viðtakendur gerðu áætlun um byggingarkostnað fjöleignarhúss á lóðinni. Skyldi miðað við skjal með fyrirsögninni „verklýsing/nokkrar magntölur“ frá Arkþingi ehf. og teikningu af byggingarsvæðinu með tölum um jarðvegsdýpi. Í bréfinu kom meðal annars fram að Skildinganes ehf. myndi taka að sér að gera rammasamning við verktaka um bygginguna en verktakinn síðan gera samning við hvern íbúðarkaupanda. Var tekið fram að æskilegt væri „að gerð sé sérstök grein fyrir efnisvali ef skýringar þykja óljósar og einnig ef hugsað er um aðrar lausnir en lýsingin gerir grein fyrir.“ Í skjalinu „verklýsing/nokkrar magntölur“ frá Arkþingi ehf., sem til var vitnað í bréfinu, er í inngangskafla meðal annars tekið fram að húsið sé steypt í hólf og gólf „einangrað að utan og klætt með varanlegum og viðhaldsfríum plötum.“ Þá kom þar fram að reynt hafi verið að gera húsið „eins viðhaldsfrítt og tök eru á.“ Í verklýsingarþætti skjalsins er tekið fram að verktaki kosti hönnun verksins. Að því er varðar frágang utanhúss segir meðal annars um klæðningu og einangrun: „Húsið verður einangrað og klætt að utan. Einangrað verður með 100 mm steinull á fúavarða grind. Utan á grind og pappa verður klætt með „Alucobud“ eða Trespa G2 plötum 6 mm. Loftræst verður milli einangrunar og klæðningar. Vindpappi verður notaður sem vindvörn.“ Verktakarnir þrír sendu hver um sig Skildinganesi ehf. umbeðna kostnaðaráætlun á grundvelli verklýsingarinnar og er bréf aðaláfrýjanda þar að lútandi dagsett 17. desember 1992. Í framhaldi af því gengu Skildinganes ehf. og aðaláfrýjandi til samninga um verkið. Gerðu þeir 5. apríl 1993 samkomulag um að aðaláfrýjandi tæki að sér „að hanna og byggja fjölbýlishús fyrir Skildinganes hf. Skal verkið byggt á teikningum Arkþings hf.“ Í samkomulaginu var listi yfir gögn er til grundvallar skyldu lögð og var fyrrgreint skjal Arkþings ehf. „verklýsing/nokkrar magntölur“ þeirra á meðal. Þá var í samkomulaginu svofellt ákvæði: „Verkið er ekki fullhannað og eru aðilar sammála um það að ÍSTAK hf. skuli vinna að því við hönnun að haga vali efnis og aðferða þannig að gæði verði fullnægjandi, en kostnaður innan framangreinds kostnaðarramma. Hönnunin verður unnin í nánu samráði við fulltrúa Skildinganess hf.“ Meðal gagna málsins eru fundargerðir tveggja hönnunarfunda, sem haldnir voru í lok maí og byrjun júní 1993 og fulltrúar Skildinganess ehf., Arkþings ehf. og aðaláfrýjanda sóttu meðal annarra. Á þeim báðum er bókað að teikningar arkitekta „af utanhússklæðningu miðist við „ALUCOBOND eða samsvarandi“ álklæðningu.“ Þann 15. júní 1993 gerðu Skildinganes ehf. og aðaláfrýjandi síðan samning um verkið. Í 1. gr. hans er svofellt ákvæði: „ÍSTAK hf. tekur að sér alla hönnun, byggir og selur félagsmönnum í Skildinganesi hf., 36 íbúðir, með tilheyrandi sameign í sambýlishúsi við Þorragötu 5-9 í Reykjavík auk 24 bílskúra á 1. hæð hússins og 16 stæða í bílskýli á hlaði hússins. ÍSTAK hf. hefur þegar hafið hönnun byggingarinnar og stefnt er að því að framkvæmdir við byggingu hússins hefjist sem fyrst.“ Í 2. gr. voru talin upp í sex liðum þau gögn, sem verkið skyldi unnið í samræmi við og skyldu þau jafnframt teljast hluti af samningnum. Þeirra á meðal voru arkitektateikningar Arkþings ehf., fyrrgreint samkomulag 5. apríl 1993 ásamt fylgiskjölum og 3. útgáfa ÍST-30 staðalsins. Þá sagði í greininni: „Verkið skal unnið í samræmi við byggingarreglugerð og ákvæði viðeigandi staðla og annarra reglna sem gilda um framkvæmdir sem þessar og er ÍSTAK hf. ábyrgt fyrir því að eftir þeim sé farið.“ Í 4. gr. samningsins var kveðið á um að gera skyldi kaupsamning um hverja íbúð milli einstakra félagsmanna í Skildinganesi ehf. sem kaupenda og aðaláfrýjanda sem seljanda og skyldi samningurinn vera hluti af viðkomandi kaupsamningi. Tækist Skildinganesi ehf. ekki að útvega kaupendur að einhverjum íbúðum innan sextán vikna frá undirritun samningsins væri aðaláfrýjanda heimilt að selja þær til annarra. Aðaláfrýjandi og Arkþing ehf. gerðu síðan með sér samning 1. og 2. júlí 2003 um að síðarnefnda félagið tæki að sér „að vinna öll nauðsynleg arkitektastörf“ vegna byggingarinnar.
Í málinu liggja frammi tvö söluyfirlit frá Eignamiðluninni hf. vegna íbúða sem aðaláfrýjandi bauð til sölu í húsinu, annað frá desembermánuði 1993. Í þeim báðum er tekið fram að húsið sé „steypt í hólf og gólf, einangrað að utan og klætt með varanlegum viðhaldsfríum plötum (alucobud).“ Þann 9.október 1994 birtist auglýsing í Morgunblaðinu þar sem íbúðir í húsinu voru boðnar til sölu. Í fyrirsögnum er tekið fram að íbúðirnar séu glæsilegar og húsið vandað. Undir fyrirsögninni „frágangur“ segir: „Húsið er mjög vandað að allri gerð, m.a. verður það klætt að utan með viðhaldsfríu efni.“ Í málinu hafa verið lagðir fram kaupsamningar sem aðaláfrýjandi gerði um einstakar íbúðir. Er sú framlagning nokkuð óskipuleg og allmargir samningar lagðir fram tvisvar sinnum. Alls sýnast kaupsamningar um 32 íbúðir vera meðal gagna málsins. Þeir elstu eru dagsettir 12. ágúst 1993, en í þeim mánuði voru gerðir kaupsamningar um 15 íbúðir. Yngsti samningurinn er frá 15. janúar 1996. Í öllum samningunum er vitnað til verksamnings Skildinganess ehf. og aðaláfrýjanda 15. júní 1993 og hann talinn hluti viðkomandi kaupsamnings. Í 24 samninganna er kveðið á um að viðkomandi íbúð skuli í síðasta lagi afhent 15. desember 1994 en aðrir samningar kveða á um afhendingu síðar. Af þeim samningum sem fyrir liggja bera sjö með sér að vera gerðir fyrir milligöngu Eignamiðlunarinnar hf. og í þremur þeirra er bein yfirlýsing um að húsið sé klætt með varanlegum viðhaldsfríum plötum. Ágreiningslaust er að fyrsta íbúðin í húsinu var afhent í nóvember 1994. Lokaúttekt fór fram 10. ágúst 1995.
Í september 2001 var haldinn fundur hjá gagnáfrýjanda þar sem fram kom að utanhúsklæðning væri farin að bila og í framhaldi þess áttu sér stað viðræður milli aðila þar sem fram komnar skemmdir í klæðningu voru ræddar. Leitað var til framleiðanda „alucobond“ klæðningarinnar, sem taldi handvömm við uppsetningu hennar meginorsök framkominna galla. Er svar hans 21. mars 2002 nánar rakið í héraðsdómi. Með bréfi framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda 1. september 2003 var því hafnað að óvönduð vinnubrögð hefðu verið viðhöfð við klæðninguna. Hinn 30. janúar 2004 voru að beiðni gagnáfrýjanda dómkvaddir tveir menn til að leggja mat á nánar tilgreinda ætlaða galla á byggingunni. Skiluðu þeir matsgerð sinni 14. september 2004. Niðurstöðum hennar eru gerð rækileg skil í hinum áfrýjaða dómi. Stefna í málinu var birt aðaláfrýjanda 29. október 2004. Að beiðni aðaláfrýjanda voru 7. apríl 2005 dómkvaddir menn til að leggja mat á fjögur nánar tilgreind atriði. Skiluðu þeir matsgerð sinni í nóvember 2005. Í héraðsdómi er gerð stuttlega grein fyrir niðurstöðum hennar. Þar er og lýst málsástæðum aðila.
II.
Gagnáfrýjandi reisir kröfu sína aðallega á því að húsið að Þorragötu 5-9 hafi verið haldið nánar tilgreindum göllum, sem aðaláfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á sem seljandi íbúða í húsinu á grundvelli reglna um fasteignakaup, sbr. 42. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Telur hann kröfu sína takmarkaða við þá galla sem fram hafi komið á sameign allra í húsinu. Aðaláfrýjandi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því gagnáfrýjandi sé ekki réttur aðili að málinu sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður þeirri málsástæðu hans hafnað.
Gagnáfrýjandi reisir kröfu sína í einstökum liðum á niðurstöðu fyrrgreindrar matsgerðar 14. september 2004. Krefst hann í fyrsta lagi 42.761.660 króna vegna galla í klæðningu hússins, undirgrind hennar og vindpappa. Niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um þennan þátt er nánar lýst í héraðsdómi. Í stuttu máli er það álit þeirra að telja verði eðlilegt að loftræst klæðning úr áli endist að minnsta kosti í 35 til 40 ár, en eftir að hafa skoðað nokkur hús klædd „alucobond“ klæðningu telja þeir líklegan endingartíma hennar á höfuðborgarsvæðinu 15 til 20 ár. Varðandi notkun á „alucobond“ klæðningu með tilliti til brunamála vísa matsmenn til bréfs yfirverkfræðings Brunamálastofnunar 2. júní 1994 þar sem segir að telja megi víst að klæðningin sé í lagi utan á einbýlishús og samsvarandi byggingar en notkun klæðningarinnar á stærri hús sé háð samþykki Brunamálastofnunar hverju sinni. Á húsinu við Þorragötu hafi álþynnur víða losnað frá kjarna á „alucobond“ plötunum. Í sumum tilvikum sé skemmdin mjög sýnileg en síður í öðrum. Ekki sé með óyggjandi hætti hægt að fullyrða hvað þessu valdi en líklega eigi tæring í álinu hlut að máli. Telja matsmenn verulegan ágalla á samloðun álþynna og kjarna „alucobond“ klæðningarinnar. Ekki sé hægt að gera við þessar skemmdir og muni þær ekki ganga til baka heldur aukast. Telja þeir ekki að vinnubrögð við uppsetningu klæðningarinnar hafi valdið á henni skemmdum ef frá er talið að tæring sé fram komin við skrúfur klæðningarinnar sem líklega hefði ekki komið fram ef gúmmí- eða plastskinna hefði verið notuð undir skrúfuhausana. Leggja þeir til að úrbætur felist í að fjarlægja allar plöturnar og klæða húsið nýjum fullnægjandi plötum. Á undirgrind telja matsmenn þá ágalla að útloftunarbil vanti eða sé ekki nægjanlegt þar sem krossviður sé á veggsúlum, úthornum, súlum milli bílskúrshurða og á útbyggingum á austurhlið. Felist úrbætur í að fjarlægja skemmdan krossvið og trélista og útbúa fullnægjandi loftunarbil á fyrrgreindum svæðum. Að því er vindpappann varðar telja matsmenn, með vísan til bréfs yfirverkfræðings Brunamálastofnunar, að óheimilt hafi verið að nota hann undir útveggjaklæðninguna. Leggja þeir til að úr því verði bætt með því að fjarlægja pappann og setja í hans stað nýja vindvörn úr 9 mm gifsi.
Að umfjöllun í I. kafla hér að framan má vera ljóst að í samningum aðaláfrýjanda og Skildinganess ehf. frá 5. apríl 1993 og 15. júní sama ár og þeim gögnum sem þar er vísað til er við það miðað að sérlega skuli vandað til byggingarinnar og að klæðning útveggja hússins skuli vera „viðhaldsfrí“ og endingargóð. Í öllum kaupsamningum aðaláfrýjanda og einstakra íbúðarkaupenda, sem fram hafa verið lagðir í málinu, er vísað til samningsins frá 15. júní 1993 sem hluta af viðkomandi kaupsamningi. Þá var í söluyfirlitum og auglýsingu Eignamiðlunarinnar hf., eins og að framan var rakið, tekið fram að útveggjaklæðning væri varanleg eða viðhaldsfrí og beint ákvæði þess efnis er í að minnsta kosti þremur kaupsamninganna. Þegar til alls þessa er litið verður að telja að aðaláfrýjandi hafi ábyrgst að útveggjaklæðningin hefði góða endingu. Af niðurstöðum framangreindrar matsgerðar er ljóst að svo var ekki. Ber aðaláfrýjandi því skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af hlaust, nema annað verði talið leiða af lögskiptum hans og Skildinganess ehf., sbr. síðari umfjöllum. Breytir engu í þessum efnum þótt viðkomandi klæðning hafi á byggingartíma hússins almennt verið talin með því besta sem völ var á, sbr. niðurstöðu matsgerðar í nóvember 2005. Þá er í ljós leitt með fyrrgreindri matsgerð að ekki voru fullnægjandi útloftunarbil á þar greindum svæðum á undirgrind klæðningarinnar. Á aðaláfrýjandi sem byggði húsið sök á þeim ágalla og ber skaðabótaábyrgð á tjóni er af hlaust.
Á byggingartíma hússins giltu lög nr 41/1992 um brunavarnir og brunamál og reglugerð nr. 269/1978 um sama efni. Samkvæmt grein 10.2.1 í reglugerðinni skyldi yfirborð útveggja fjölbýlishúsa ekki vera lakara frá „brunateknisku“ sjónarmiði en á klæðningu í flokki 1. Í inngangskafla reglugerðarinnar, sem fjallar um skilgreiningar, segir um klæðningu í flokki 1 að þær eigi að hafa sömu „brunateknisku“ eiginleika og byggingarefni í A-flokki, en það skyldi samkvæmt ákvæðum inngangskaflans vera „nánast óbrennanlegt“. Meðal gagna málsins er sem fyrr greinir tölvubréf yfirverkfræðings Brunamálastofnunar til innflytjanda „alucobond“ klæðningarinnar 2. júní 1994. Þar kemur fram að ekki sé á grundvelli framlagðra gagna hægt að flokka klæðninguna formlega í samræmi við þágildandi ákvæði reglugerðar nr. 269/1978, en þó megi „telja víst að klæðningin sé í lagi utan á einbýlishús (þau geti mest verið tvær hæðir og kjallari) og aðrar samsvarandi byggingar sem veðurkápa yfir óbrennanlega einangrun. Notkun klæðningarinnar á stærri hús sé háð samþykki Brunamálastofnunar ríkisins í hverju tilviki. Ekki er heimilt að nota tjörupappa eða annað brennanlegt efni sem vindþéttingu undir ALUCOBOND klæðninguna, heldur skal nota gifs eða annað óbrennanlegt efni.“ Fram kemur í bréfi Brunamálastofnunar 3. nóvember 2003 að stofnunin hafi að beiðni gagnáfrýjanda gert úttekt á utanhúsklæðningu hússins að Þorragötu 5 til 9. Er á það bent að klæðningin hafi verið notuð á mun stærra hús en óhætt var talið, notuð hafi verið brennanleg vindvörn, sem óheimilt sé og að notaðir hafi verið timburlistar til að mynda loftun klæðningarinnar. Er það niðurstaða stofnunarinnar að klæðningin hafi ekki uppfyllt þær reglur sem gilt hafi á byggingartíma hússins og að hún hafi ekki verið viðurkennd af Brunamálastofnun til þessarar notkunar. Verður fébótaábyrgð aðaláfrýjanda vegna ágalla á utanhúsklæðningunni því einnig á því reist að hún hafi hvergi nærri fullnægt kröfum reglugerðar nr. 269/1978, enda verði ekki talið að lögskipti hans og Skildinganess ehf. leiði til annars.
Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína um sýknu af bótakröfu vegna ágalla á utanhúsklæðningunni meðal annars á þeirri málsástæðu að Skildinganes ehf. hafi gert það að skilyrði við gerð verksamnings að farið yrði að tillögum Arkþings ehf. um byggingu hússins. Hann verði því hvorki gerður ábyrgur fyrir vali á „alucobond“ klæðningunni né vali á tjörupappa sem vindvörn undir hana þar sem gert hafi verið ráð fyrir þessari lausn áður en hann kom að verkinu og þess krafist af verkkaupa að henni yrði fylgt. Vísar hann í þeim efnum meðal annars til greinar 20.8 í ÍST 30:1988 en þar segir að krefjist verkkaupi þess að notað sé nafngreint efni beri verktaki ekki ábyrgð á því að það henti til notanna nema honum hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að efnið hentaði ekki. Að framan eru rakin lögskipti Skildinganess ehf. og aðaláfrýjanda í tengslum við verksamningsgerð. Af þeim er ljóst að í gögnum Arkþings ehf. sem verktökum, þar á meðal aðaláfrýjanda, voru kynnt í árslok 1992 þegar leitað var eftir verðhugmyndum þeirra, var gert ráð fyrir að utan á grind og pappa yrði „klætt með „Alucobud“ eða Trespa G2 plötum 6 mm.“ Af þeim sömu gögnum er þó einnig ljóst að verkið var ekki fullhannað og að gert var ráð fyrir að verktaki kostaði hönnun. Þá var í bréfi til verktakanna 11. desember 1992 gert ráð fyrir að verktakar gerðu sérstaka grein fyrir efnisvali ef skýringar þættu óljósar eða hugsað væri um aðrar lausnir en lýsing gerði ráð fyrir. Með samkomulagi Skildinganess ehf. og aðaáfrýjanda 5. apríl 1993 tók aðaláfrýjandi meðal annars að sér hönnun hússins og þar var sérstaklega tekið fram að verkið væri ekki fullhannað og aðilar væru sammála um að aðaláfrýjandi skyldi vinna að því við hönnun að haga vali efnis og aðferða þannig að gæði yrðu fullnægjandi en kostnaður innan ráðgerðs ramma. Með verksamningnum 15. júní 1993 tók aðaláfrýjandi meðal annars að sér „alla hönnun“ fjöleignarhússins og þar var tekið fram að verkið skyldi unnið í samræmi við byggingarreglugerð og ákvæði viðeigandi staðla og annarra reglna sem gildi um framkvæmdir sem þessar og að aðaláfrýjandi væri ábyrgur fyrir því að eftir þeim yrði farið. Aðaláfrýjandi réði síðan Arkþing ehf. í júlíbyrjun 1993 til að vinna „öll nauðsynleg arkitektastörf“ við bygginguna. Þegar til alls þessa er litið verður ekki talið í ljós leitt að tiltekin útfærsla á útveggjaklæðningu hafi verið gerð að skilyrði af hálfu Skildinganess ehf. Vissulega voru uppi af hálfu félagsins ráðagerðir um að nota „alucobond“ eða hliðstæða klæðningu, en aðaláfrýjandi tók að sér hönnun hússins og af framangreindu verður ráðið að hann gat haft áhrif á val efnis og tók á sig ábyrgð á því að reglum og stöðlum yrði fylgt við byggingu hússins. Verður því ekki fallist á að samningar aðaláfrýjanda við Skildinganes ehf. leysi hann undan bótaábyrgð vegna ágalla á klæðningu hússins.
Gagnáfrýjandi gerir í annan stað kröfu um 403.200 krónur í bætur vegna þess að frágangur við nokkrar stálstoðir undir svölum hússins hafi verið ófullnægjandi. Í matsgerð kemur fram að við frambrún svala sé perlumöl og moldarkenndur jarðvegur við 16 stoðir. Telja matsmenn þennan frágang óheppilegan. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, taldi þennan frágang ófullnægjandi og ekki hefðbundinn. Verður fallist á niðurstöðu hans um að aðaláfrýjandi beri fébótaábyrgð vegna þessa galla.
Í þriðja lagi krefst gagnáfrýjandi 2.524.500 króna í bætur vegna tæringar í bárujárnsklæðningu neðan á svölum hússins. Í matsgerð kemur fram að veruleg tæring sé í sinkhúð bárujárnsins og það sé sums staðar farið að ryðga. Telja matsmenn ekkert komið fram um að plöturnar séu gallaðar, en ending þeirra við þessar aðstæður sé þó ekki lengri en raun beri vitni. Fallist er á það með héraðsdómi að plötur þessar teljist hluti af utanhúsklæðningu hússins og að aðaláfrýjandi beri á því fébótaábyrgð að ending þeirra hafi ekki verið í samræmi við það sem áskilið var við sölu íbúða í húsinu.
Loks hefur aðaláfrýjandi uppi kröfu um 750.000 krónur í bætur vegna þess að reykræsting í stigahúsum fullnægi ekki kröfum byggingarreglugerðar. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að aðaláfrýjandi sé bótaábyrgur vegna þessa.
Í héraði hafði gagnáfrýjandi uppi þá málsástæðu að af 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda leiddi að kröfur vegna fasteignakaupa fyrndust á 10 árum og þar sem upphaf fyrningarfrests kröfu gagnáfrýjanda ætti að miða við gerð einstakra kaupsamninga teldist hluti kröfu hans fyrndur. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti féll gagnáfrýjandi frá þeirri málsástæðu að upphaf fyrningarfrestsins skyldi miðast við kaupsamningsgerð, en taldi að þess í stað skyldi miðað við afhendingu einstakra íbúða. Eins og nánar er rakið í I. kafla hér að framan var fyrsta íbúðin í húsinu afhent í nóvembermánuði 1994. Var 10 ára fyrningarfrestur því ekki liðinn er fyrningu var slitið með höfðun málsins 29. október 2004. Þrátt fyrir framangreint telur aðaláfrýjandi að 10 ára fyrningarfrestur eigi ekki við um kröfur vegna allra ofangreinda galla. Bendir hann á að samkvæmt grein 30.0 í ÍST 30:1988 taki verktaki ábyrgð á verkinu í eitt ár frá því hann skilaði því af sér. Komi í ljós leyndir gallar á verkinu sem ekki hafi verið unnt að sjá fyrir lok ábyrgðartíma skuli verktaki samkvæmt grein 30.6 svara skaðabótum ef gallarnir stafa af ásetningi eða gáleysi hans sjálfs eða starfsmanna hans og fari um fyrningu á þeim skaðabótakröfum eftir ákvæðum laga nr. 14/1905. Þar sem telja verður alla ofangreinda galla leynda og önnur skilyrði greinar 30.6 eru uppfyllt verður þessari málsástæðu hafnað og krafa gagnáfrýjanda talin ófyrnd.
III.
Eins og að framan greinir reisir gagnáfrýjandi kröfu sína tölulega á niðurstöðu matsgerðar 14. september 2004. Héraðsdómur lagði matsgerðina til grundvallar að öðru leyti en því að hann taldi ekki sýnt fram á að kostnaður við nýja vindvörn félli á aðaláfrýjanda. Verður fallist á þá niðurstöðu. Að því gættu er það niðurstaða matsgerðarinnar að kostnaður við að bæta úr þeim göllum sem aðaláfrýjandi er ábyrgur fyrir nemi samtals 53.835.800 krónum. Ekki hefur þá verið tekið tillit til þess að 60% af virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingastað fæst endurgreiddur eða samtals 4.624.069 krónur. Þá þykir mega fallast á það mat héraðsdóms að hæfilegt tillit verði tekið til þess að nýtt efni kemur í stað gamals með því að lækka það sem þá stendur eftir um tæpan þriðjung. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjandi, Ístak hf., greiði gagnáfrýjanda, Þorragötu 5, 7 og 9, húsfélagi, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2006.
Mál þetta var höfðað 29. október 2004 og var dómtekið 11. maí sl.
Stefnandi er Þorragata 5,7 og 9 húsfélag, Þorragötu 7, Reykjavík.
Stefndu eru Ístak hf., Engjateigi 7, Reykjavík og Arkþing ehf., Bolholti 8, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndu greiði stefnanda in solidum 58.257.300 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndu greiði stefnanda in solidum 15.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til greiðsludags.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu auk virðisaukaskatts.
Dómkröfur stefnda Arkþings ehf. eru þessar aðallega:
Að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti að mati dómsins.
Til vara er sú krafa gerð að dómkröfur stefnanda verði verulega lækkaðar og stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til þrautavara er gerð sú krafa að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður verði felldur niður.
Dómkröfur stefnda Ístaks hf. eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Til vara gerir stefndi þá kröfu að kröfur stefnanda verði lækkaðar, og að dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en frá dómsuppsögu.
Í báðum tilvikum er það krafa stefnda að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu í samræmi við framlagt málskostnaðaryfirlit.
Málavextir
Málavextir eru þeir að Skildinganes hf., sem var félag stofnað um byggingu fjölbýlishúss fyrir eldri borgara, leitaði til stefnda Arkþings ehf. um að teikna og gera verklýsingu að fjölbýlishúsi sem reist skyldi við Þorragötu. Eftir að verklýsing Arkþings ehf. lá fyrir, eða 5. apríl 1993, gerði félagið Skildinganes hf. samkomulag við Ístak hf. Þar segir að Ístak hf. taki að sér að hanna og byggja fjölbýlishús fyrir Skildinganes hf. Skuli verkið byggt á teikningum Arkþings. Segir í samkomulaginu að verkið sé ekki fullhannað og séu aðilar sammála um það að Ístak hf. skuli vinna að því við hönnun að haga vali efnis og aðferða þannig að gæði verði fullnægjandi en kostnaður innan kostnaðarramma. Hönnunin verði unnin í nánu samráði við fulltrúa Skildinganess hf.
Hinn 15. júní 1993 gerði Skildinganes hf. annan samning við stefnda, Ístak hf., um byggingu íbúða fyrir aldraða að Þorragötu 5, 7 og 9, Reykjavík. Í 1. grein samningsins segir að Ístak hf. taki að sér alla hönnun, byggi og selji félagsmönnum í Skildinganesi hf. 36 íbúðir með tilheyrandi sameign í sambýlishúsi auk 24 bílskúra og 16 stæða í bílskýli. Segir jafnframt í 1. grein samningsins að Ístak hf. hafi þegar hafið hönnun byggingarinnar. Skyldi húsið afhendast fullbúið og frágengið að utan sem innan í samræmi við teikningar Arkþings ehf. Í 2. gr. samningsins kom fram að verkið skyldi unnið í samræmi við byggingarreglugerð og ákvæði viðeigandi staðla og annarra reglna sem gilda um framkvæmdir sem þessar og að stefndi Ístak hf. væri ábyrgt fyrir því að eftir þeim væri farið.
Á bygginguna var notuð svokölluð Alucoabond-klæðning. Í auglýsingum og tilkynningum um húsið var lögð áhersla á að vönduð, varanleg og viðhaldsfrí utanhússklæðning væri á því og bílskúrshurðir væru úr viðhaldsfríum efnum. Í söluyfirlitum fasteignasölunnar Eignamiðlunar kom m.a. fram að húsið væri klætt með varanlegum viðhaldsfríum plötum.
Afhendingardagur samkvæmt auglýsingum og kaupsamningum var 15. desember 1994. Fyrsta íbúðin var afhent í nóvember 1994. Afhending á öðrum íbúðum fór svo fram og afsöl fyrir hverja og eina íbúð voru gefin út í kjölfarið. Í einstökum kaupsamningum var vísað til samnings Skildinganess og stefnda Ístaks hf. og þar tekið fram að sá samningur væri hluti af kaupsamningum.
Lokaúttekt samkvæmt byggingarreglugerð nr. 177/1992 og reglugerð um brunavarnir og brunamál nr. 269/1978 var gerð 10. ágúst 1995, sbr. bréf, dags. 15. ágúst.
Gallar á klæðningunni komu í ljós í apríl 2001 en á bílskúrshurðum og víðar nokkru síðar. Í fundargerð af húsfundi stefnanda 11. apríl 2001 var m.a. bókað að klæðning hússins væri að bila. Sumstaðar við það að vatn kæmist í samskeyti, sem frost glenni svo út, og það lagist ekki aftur. Ennfremur var bókað að rætt hefði verið um að halda málinu vakandi við stefnda Ístak hf. og hafa arkitektana með í ráðum. Félagsmenn stefnanda litu svo á að endingartími væri engan veginn í samræmi við það sem fullyrt hefði verið af hálfu stefndu.
Fyrirsvarsmenn stefnanda tilkynntu stefnda Ístaki um framkomna galla á klæðningunni og í kjölfarið fóru fram ýmis samskipti milli aðila. Hinn 21. nóvember 2001 var haldinn fundur með félagsmönnum stefnanda og fulltrúum stefnda Ístaks hf. Þar var m.a. lagt fram minnisblað þar sem gallar á klæðningu og svölum hússins voru tilgreindir. Var m.a. bókað á fundinum að Áltak, innflutningsaðili klæðningarinnar, myndi senda myndir af skemmdunum til framleiðsluaðilans, Alcan í Þýskalandi. Sendi hann jafnframt tvær Alucobond-plötur af húsinu.
Skýrsla barst frá Alcan Singen í Þýskalandi, dags. 21. mars 2002. Kom þar m.a. fram að meginskýringu á göllum í klæðningunni væri að rekja til handvammar við uppsetningu hennar. Gerðar voru athugasemdir við frágang klæðningarinnar. Segir í skýrslunni að plötur hafi verið festar á timburgrind með 25-33 cm millibili. Vatnsþétt lag hafi ekki verið sett á milli grindar og steypuveggsins. Ennfremur að göt fyrir skrúfur sýni ekkert bil milli skrúfuleggs og platna. Skrúfur hafi ekki verið með þéttiskinnu sem sé sá frágangur sem notaður sé fyrir klæðningar og þök. Skrúfurnar hafi verið alltof mikið hertar og hafi þannig skemmt plöturnar varanlega. Frágangur hafi ekki leyft neina hreyfingu vegna hitabreytinga sem sé á móti öllum tæknilegum reglum sem og leiðbeiningum Alcan.
Í kjölfar þessa voru fleiri fundir haldnir með aðilum en niðurstaða náðist ekki í málinu.
Hinn 19. september 2003 sendi Loftur Árnason, framkvæmdastjóri stefnda Ístaks hf., stefnanda bréf. Í bréfi framkvæmdastjórans kemur m.a. fram að á þeim tíma sem húsið var byggt hafi Alucobond-plötuklæðning ekki verið notuð mikið á Íslandi. Klæðningin hafi verið álitin sérlega vönduð og endingargóð. Framkvæmdastjóri stefnda vísaði í bréfinu á bug athugasemdum Alcan Singen um óvönduð vinnubrögð við klæðninguna. Í niðurlagi bréfsins kemur fram að Alucobond-klæðing sé byggingarefni með takmarkaða endingu. Ekkert bendi hins vegar til að vinnubrögðum stefnda hafi verið áfátt.
Þórður Eydal, félagi í stefnanda, sendi Guðmundi Gunnarssyni, yfirverkfræðingi Brunamálastofnunar, bréf, dags. 15. október 2003 með beiðni um úttekt á utanhússklæðningu húsanna með tilliti til þess hvort klæðningin uppfyllti kröfur bygginga- og brunareglugerða sem giltu á þeim tíma sem klæðning húsanna átti sér stað.
Í svarbréfi Guðmundar Gunnarssonar, dags. 3. nóvember 2003, kemur fram að skráð byggingarár hússins hafi verið 1994 samkvæmt skrá Fasteignamats ríkisins. Þá hafi verið í gildi reglugerð nr. 268/1978 um brunavarnir og brunamál og byggingarreglugerð nr. 177/1992. Í bréfinu segir m.a. að vikið sé verulega frá því hvar óhætt sé að nota klæðninguna og bent er á eftirfarandi atriði:
1. Klæðningin sé notuð á mun stærra hús en óhætt hafi verið talið, fimm hæða fjölbýlishús í stað einbýlishúsa án þess að afla samþykkis Brunamálastofnunar sem gert hafi verið að skilyrði.
2. Notuð sé brennanleg vindvörn sem sé óheimilt.
3. Notaðir séu timburlistar til að mynda loftun klæðningarinnar.
Með bréfi, dags. 5. desember 2003, fór lögmaður stefnanda fram á dómkvaðningu tveggja matsmanna til að leggja mat á meinta galla. Hinn 30. janúar 2004 dómkvaddi Héraðsdómur Reykjavíkur Jón Viðar Guðjónsson, byggingatæknifræðing og húsasmið, og Magnús Guðjónsson húsasmíðameistara sem matsmenn til að leggja mat á þau atriði sem farið var fram á í matsbeiðni stefnanda. Er matsgerð þeirra dagsett 14. september 2004.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 1. október 2004, gerði stefnandi þá kröfu að stefndi Ístak hf. bætti honum allt það tjón sem stefnandi hefði orðið fyrir eða viðurkenndi skyldu sína að bæta úr öllum göllum byggingarinnar. Hefur stefndi ekki fallist á kröfur stefnanda.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi er félag eigenda fasteignarinnar að Þorragötu 5,7 og 9. Kveður stefnandi aðild sína byggjast á fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994, sbr. einnig eldri lög, venju í sambærilegum málum og fordæmum Hæstaréttar. Félagsmenn, sem og félagið sjálft, hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Félagið hafi tekið lögmæta ákvörðun, á löglega boðuðum húsfundi, að höfða mál þetta. Kröfugerð málsins varði einungis sameign allra eigenda Þorragötu 5, 7 og 9, en ekki séreignir einstakra íbúa. Ráðstafanir vegna sameignar séu á forræði stefnanda en ekki einstakra félagsmanna húsfélagsins, sbr. III. kafla fjöleignarhúsalaga, einkum 36. og 37. gr. laganna, sbr. einnig IV. kafla þeirra. Eingöngu séu í máli þessu hafðar uppi kröfur er varði sameign allra félagsmanna stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að á fasteigninni Þorragötu 5, 7 og 9 séu gallar í skilningi almennra reglna kröfuréttar, þ.á m. verktakaréttar, fasteignakauparéttar og skaðabótaréttar. Vísað er til eldri og ólögfestra reglna fasteignakauparéttar, eftir atvikum með lögjöfnun frá kaupalögum nr. 39/1922 og með vísan til undirstöðuraka laganna. Á göllunum beri stefndu sameiginlega ábyrgð þar sem báðir stefndu hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart stefnanda.
Um galla, sem séu á fasteigninni, sé einkum vísað til matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Helstu gallar samkvæmt matsgerðinni séu eftirfarandi:
1. Endingartími klæðningar hússins er ekki í samræmi við upplýsingar sem veittar voru af hálfu stefndu.
2. Klæðningin fékk ekki vottun frá Brunamálastofnun sem klæðning í 1. flokki eins og krafa var gerð um í brunamálareglugerð nr. 269/1978.
3. Klæðningin er ekki heppilegt byggingarefni á húsið.
4. Verulegur ágalli er á samloðun álþynna og kjarna klæðningarinnar. Ekki er unnt að gera við skemmdirnar og einsýnt að þær muni aukast.
5. Tæring er komin fram við skrúfur klæðningarinnar.
6. Útloftunarbil vantar eða er ekki nægilega mikið á undirgrind.
7. Óheimilt var að nota vindpappa undir klæðninguna þegar húsið var byggt.
8. Leki er í geymslugangi og ástæða hans er vöntun á þéttingu ofan við gluggann.
9. Frágangur við stálstoðir er óheppilegur.
10. Endingartími platna neðan í svölum er ekki í samræmi við það sem kaupendur máttu búast við.
11. Endingartími þéttilista á innkeyrsluhurðum er ekki ásættanlegur og ekki í anda þeirra væntinga sem félagsmenn stefnanda gátu búist við.
12. Reykræsing stigahúsa uppfyllir ekki kröfu byggingarreglugerðar nr. 177/1992.
Um skaðabótaábyrgð stefnda Ístaks hf. sé þess að geta að félagið hafi tekið að sér hönnun, byggingu og sölu fjöleignarhússins Þorragötu 5, 7 og 9. Stefndi Ístak hf. beri ábyrgð á því að húsið sé í samræmi við byggingarlög og byggingarreglugerðir og hefðbundnar byggingarvenjur. Stefnandi byggi á því að áskildir kostir fasteignarinnar hafi ekki staðist. Hinir áskildu kostir leiddu af samningi sem Ístak hf. hafi gert við Skildinganes hf., kaupsamningum sem félagið hafi gert við einstaka kaupendur, auglýsingum og öðrum yfirlýsingum og loforðum sem gefin hafi verið og stefndi Ístak hf. er ábyrgt fyrir sem seljandi fasteignarinnar, byggjandi og verktaki. Þá sé byggt á því að húsið hafi ekki verið í því ástandi sem stefnandi og félagsmenn hans máttu gera ráð fyrir miðað við gæði og endingu. Samkvæmt meginreglu fasteignakauparéttar, sbr. einnig lögjöfnun frá eldri kaupalögum nr. 39/1922 um sölu nýbygginga, ábyrgðist stefndi Ístak árangur verksins gagnvart stefnanda.
Skaðabótakrafa gagnvart stefnda Ístaki hf. sé aðallega reist á þeim sjónarmiðum á grundvelli fasteignakauparéttar, sbr. lögjöfnun frá 2. mgr. 42. gr. kaupalaga nr. 39/1922, og skaðabótaréttar sem rakin séu hér að framan.
Til vara sé skaðabótakrafa gagnvart stefnda Ístak hf. byggð á verktakasamningi milli félagsins og Skildinganess hf.
Til þrautavara sé skaðabótakrafa gegn stefnda Ístak byggð á almennum skaðabótareglum, þ.á m. reglum um sérfræðiábyrgð stefnda Ístaks. Verði ekki talið að um samningssamband sé að ræða milli aðila, þá sé ljóst að stefndi Ístak hf. sé ábyrgt samkvæmt tilgreindri reglu og öðrum meginreglum skaðabótaréttarins. Stefndi hafi sýnt af sér vanrækslu við það verk sem hann tók að sér og verði að bera ábyrgð á þeim göllum sem á því verki voru og því tjóni sem leitt hafi af þeim göllum. Þá beri stefndi Ístak hf. húsbóndaábyrgð á öllum sem komið hafi að verkinu, þ.á m. stefnda Arkþingi ehf.
Skaðabótaábyrgð stefnda Arkþings ehf. sé grundvölluð á meginreglunni um sérfræðiábyrgð og byggi á því að félagið hafi komið að hönnun og teikningu hússins að Þorragötu 5, 7 og 9. Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að verulegir hönnunargallar hafi verið á fasteigninni sem stefndi Arkþing ehf. beri ábyrgð á með vísan til almennu sakarreglunnar og meginreglna skaðabótaréttarins.
Fjárhæð dómkrafna stefnanda byggist á kostnaðarmati dómkvaddra matsmanna sem fram komi í matsgerð þeirra, dags. 14. september 2004, og ekki hafi verið hnekkt. Sé um að ræða kostnaðarmat matsmanna við úrbætur á húsinu, þ.e. efni og vinna, miðað við verðlag í september 2004 að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefnukrafa stefnanda sundurliðist með svofelldum hætti með vísan til matsgerðarinnar:
Klæðning, undirgrind og vindpappi 42.761.600 kr.
Burðarsúlur svala 403.200 kr.
Bárujárn svala 2.524.500 kr.
Reykræsigluggar í stigahúsi 750.000 kr.
Aðstaða, vinnupallar, tækniráðgjöf o.fl. 11.818.000 kr.
Samtals 58.257.300 kr.
Dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, sbr. 6. gr. laganna, sé krafist af allri fjárhæðinni frá 1. nóvember 2004 en þá hafi mánuður verið liðinn frá því að stefnandi gerði kröfu á hendur stefndu vegna hinna veigamiklu galla verksins. Á þeim tímapunkti hafi því mánuður verið liðinn frá því að stefndu hafi verið kunnugt um tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Ekki sé krafist vaxta að öðru leyti þar sem mat hinna dómkvöddu matsmanna geri ráð fyrir kostnaði miðað við verðlag í september 2004.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Vísað er til meginreglna kröfuréttar, einkum fasteignakauparéttar og verksamningaréttar, um vanefndir og vanefndaúrræði. Þá er vísað til kaupalaga nr. 39/1922, eftir atvikum með lögjöfnun eða með vísan til undirstöðuraka. Ennfremur er vísað til ÍST 30 og sjónarmiða sem staðallinn byggist á. Þá er vísað til skaðabótareglna utan samninga. Krafa um dráttarvexti styðst við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa stefnanda styðst við lög um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. laganna.
Málsástæður og lagarök stefnda Arkþings ehf.
Stefnandi byggi kröfu sína gagnvart stefnda á því að um skaðabótaábyrgð sé að ræða á grundvelli meginreglunnar um sérfræðiábyrgð, með tilliti til þess að um hönnunargalla á fasteigninni sé að ræða sem stefndi beri ábyrgð á með vísan til almennu sakarreglunnar og meginreglna skaðabótaréttar.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á eftirfarandi málsástæðum:
Aðildarskortur
Stefndi hafi aldrei gert samning um hönnun fjölbýlishússins að Þorragötu 5, 7 og 9 við stefnanda þessa máls heldur við Skildinganes hf. og síðar Ístak hf.
Stefndi hafi fyrst gert verksamning við Skildinganes hf. árið 1992 um gerð byggingarnefndaruppdrátta og verklýsingar vegna útboðs á byggingu fjölbýlishússins að Þorragötu 5, 7 og 9 fyrir aldraða meðlimi félagsins gegn greiðslu þóknunar samkvæmt tímagjaldi. Ístak hf. hafi síðan gert samning við Skildinganes hf. um hönnun, byggingu og sölu hússins til félagsmanna Skildinganess í júní 1993.
Hinn 2. júlí 1993 hafi stefndi gert samning við Ístak hf. um að annast hönnun fasteignarinnar á grundvelli byggingarnefndarteikninga og verklýsingar sem tilboð Ístaks byggðist á. Kaupsamningar um 28 íbúðir í fjölbýlishúsinu að Þorragötu 5, 7 og 9 voru hafi verið gerðir milli Ístaks hf. og einstakra kaupenda á tímabilinu 12. ágúst 1993 til 7. september 1994. Félagsmenn stefnanda, sem sumir hafi verið upphaflegir kaupendur en aðrir leiði rétt sinn af síðari kaupsamningum, hafi ekki verið aðilar að framangreindum samningum milli stefnda og Skildinganess hf. og síðar Ístaks hf. um hönnun fasteignarinnar. Stefnandi hafi því ekki lögvarða hagsmuni af dómi um réttarsamband stefnda við Skildinganes hf., annars vegar og stefnda við Ístak hf. hins vegar, og geti því ekki byggt kröfu sína á reglum um skaðabætur innan samninga þar sem stefnandi hafi ekki verið aðili að samningum við stefnda.
Þar sem ekkert samningssamband hafi verið milli stefnanda og stefnda geti stefnandi hvorki byggt kröfu gagnvart stefnda á grundvelli fasteignakauparéttar né verktakaréttar. Hins vegar gæti stefnandi ef hann væri aðili að málinu reist kröfu á þeirri málsástæðu að stefnandi hefði orðið fyrir tjóni vegna ætlaðrar saknæmrar háttsemi stefnda, sem byggð væri á reglum um sérfræðiábyrgð ráðgjafa. Sú meinta saknæma háttsemi beinist ekki að húsfélaginu heldur byggingaraðilanum Skildinganesi hf. sem hafi óskað eftir að stefndi útbyggi byggingarnefndarteikningar og verklýsingu vegna byggingar fjölbýlishúsanna að Þorragötu 5, 7 og 9 og síðar Ístaki hf., sem gert hafi hönnunar- og ráðgjafasamning við stefnda. Þau samskipti sem verið hafi á milli Skildinganess hf., Ístaks hf. og stefnda í málinu geti skipt verulegu máli við sakarmat í máli þessu, einkum varðandi samábyrgð aðila við hönnun hússins. Húsfélagið sé því ekki rétti aðilinn til að höfða mál á grundvelli þeirrar málsástæðu sem höfð sé uppi gagnvart stefnda í málinu.
Í öðru lagi komi fram í gögnum málsins, m.a. í fundargerðum hönnunarfunda, að teikningar stefnda að húsinu hafi verið gerðar á tímabilinu júní 1993 til nóvember 1993 og síðustu teikningum skilað í síðari hluta janúar 1994 eins og fram komi í fundargerð hönnunarfundar nr. 13, hinn 26. janúar 1994 og á teikningaskrá frá stefnda á dskj. 47 sé tilgreint að síðustu teikningum hafi verið skilað í nóvember 1993. Meginhluti kaupsamninga félagsmanna stefnanda hafi verið gerðir við Ístak hf. eða á grundvelli síðari kaupsamninga eftir þann tíma þegar hönnunarstarfi því sem stefnda hafi verið falið var þegar lokið. Allir uppdrættir að klæðningu hússins sem meginkrafa stefnanda í málinu sé reist á höfðu þá löngu verið fullgerðir og í reynd ákveðið strax á fyrstu hönnunarfundum í maí og júní 1993 að klæða húsið með Alucobond-klæðningu ásamt undirgrind úr tré með vindpappa sem vindvörn og deiliteikningum lokið vegna útveggjaklæðninga í október 1993. Hönnun hússins hafi því verið lokið að því er kröfugerð stefnanda varðar í máli þessu áður en kaupsamningar voru gerðir við flesta félagsmenn stefnanda. Ljóst sé því að stefnandi geti ekki átt kröfu á hendur stefnda vegna uppdrátta sem lokið var við áður en margir félagsmenn stefnanda urðu eigendur að íbúðum í fasteigninni að Þorragötu 5, 7 og 9, sbr. H 1995.3153.
Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Fyrning.
Stefndi hafi einvörðungu tekið að sér arkitektavinnu vegna fasteignarinnar samkvæmt samningum, fyrst við Skildinganes hf. og síðar við Ístak hf. Vinna stefnda hafi falist í gerð teikninga. Byggingarnefndarteikningar séu dagsettar á tímabilinu 18. mars 1992 til sept. 1992, eins og fram komi í samkomulagi Skildingarness hf. og Ístaks hf. frá 5. apríl 1993. Aðrar teikningar sem gerðar hafi verið vegna hússins hafi verið fullgerðar á tímabilinu júní til nóvember 1993. Samkvæmt 1. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu fyrnist kröfur út af vinnu sem látin sé í té á fjórum árum. Fyrningarfrestur byrji að líða frá þeim tíma þegar verki er skilað. Stefndi hafi skilað af sér verkinu með afhendingu á teikningum í samræmi við framangreind tímamörk og hafi ekki haft með höndum eftirlit með framkvæmdum. Það eftirlit hafi verið í höndum fulltrúa Skildinganess hf. Þegar mál þetta var höfðað með birtingu stefnu hinn 29. október 2004 hafi meira en fjögur ár verið liðin frá því stefndi hafði skilað verkinu af sér og því krafan fyrnd á hendur stefnda.
Sérfræðiábyrgð og sök.
Almennt.
Stefnandi haldi því fram að stefndi sé skaðabótaskyldur á grundvelli meginreglunnar um sérfræðiábyrgð, með vísan til almennu sakarreglunnar og meginreglna skaðabótaréttar. Þær meginreglur byggist á því að stefnandi verði að sýna fram á að stefndi hafi valdið sér skaða með saknæmri eða ólögmætri háttsemi enda tjónið sennileg afleiðing af háttsemi stefnda og stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Stefnanda beri því að sanna: 1) sök, 2) umfang tjóns, 3) orsakasamband milli tjóns og ólögmætrar háttsemi og 4) að tjón sé sennileg afleiðing af ólögmætu háttseminni. Stefnandi haldi því fram að hönnun og teikningar stefnda á húsinu að Þorragötu 5, 7 og 9 hafi verið haldnar göllum sem stefndi beri ábyrgð á með vísan til framangreindra reglna. Þessar staðhæfingar stefnanda séu rangar að því leyti að stefndi hafi ekki sýnt af sér saknæma háttsemi við hönnun hússins, enda ákvarðanataka um hönnun ekki á hans valdi nema að hluta til, þar sem bæði fulltrúar Skildinganess hf. og meðstefnda Ístaks hf. hafi borið ábyrgð á endanlegri hönnun og útfærslu hússins, enda báðir þessir aðilar með tæknimenntaða menn sem höfðu sérþekkingu á þeim sviðum sem hér um ræðir og frekari grein verði gerð fyrir hér á eftir.
Þá hafi engin skylda hvílt á herðum stefnda að hafa umsjón eða eftirlit með framkvæmdum við byggingu hússins, enda hafi þeir ekki fengið greitt fyrir slíkt samkvæmt samningi við Ístak hf. Allir þeir gallar sem tilgreindir séu í matsgerð dómkvaddra matsmanna og rekja megi til handvammar við uppsetningu og frágang Alucobond-klæðningar eða gallar sem rekja megi til verklags við byggingu hússins séu stefnda algjörlega óviðkomandi.
Stefndi fullyrði að allir uppdrættir sem þeir hafi gert vegna fasteignarinnar séu í fullu samræmi við þágildandi byggingarreglugerð og engar athugasemdir hafi verið gerðar við af hálfu byggingarfulltrúa, enda hafi húsið fengið lokaúttekt án athugasemda af hálfu þeirra aðila sem kröfu megi gera til að beri ábyrgð á slíku. Hönnunin hafi verið í fullu samræmi við viðteknar venjur í húsbyggingum og útfærslu utanhússklæðninga á þeim tíma þegar húsið var byggt og vinna stefnda byggð á reynslu af þeim efnum sem þá hafi verið fyrir hendi við hönnun og teikningar og verklýsing stefnda geri tillögu um. Aðrar útfærslur klæðningar sem matsmenn bendi á í matsgerð séu síðar til komnar og ekki sé unnt að taka tillit til þeirra við úrlausn málsins. Hér megi nefna notkun álgrindar undir klæðningu, notkun annarrar vindvarnar en vindpappa undir klæðningu o.fl. Þá megi benda á það sem komi fram í skýrslu rýnihópsins að engar reglur hafi þá verið í gildi um útloftunarþörf útveggjaklæðninga á Íslandi.
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna sé hvergi fullyrt að klæðning hússins eða undirgrind séu haldin göllum, en hins vegar séu gefnar vísbendingar um að efnið sjálft í klæðningunni standist hugsanlega ekki mikið álag af völdum sjávarseltu sem sé við húsið og að líklegur endingartími klæðningarinnar sé ekki í samræmi við upplýsingar frá framleiðanda hennar. Þessir gallar séu stefnda óviðkomandi. Allar þessar niðurstöður matsmanna séu í engu samræmi við þá reynslu sem stefndi, og sömuleiðis meðstefndi Ístak hf., höfðu af Alucobond-klæðningu á öðrum stærri húsum í Reykjavík á þeim tíma, en samkvæmt upplýsingum frá þáverandi innflytjanda klæðningarinnar, Júpiter hf., þá hafði klæðningin verið sett bæði á Perluna og Borgarholtsskóla, sbr. bréfs Lofts Árnasonar, framkvæmdarstjóra Ístaks hf., Útvarpshúsið við Efstaleiti (1982) og hús Íslandsbanka við Kirkjusand (1988). Ekkert bendi til þess að klæðningin væri ekki heppileg fyrir íslenskt veðurfar og umhverfisaðstæður. Alucobond-klæðningin hafi verið talin afar vönduð og því hentugt byggingarefni og hafi þess vegna verið valin á margar byggingar og þess óskað sérstaklega af hálfu Skildinganess hf., sem hafði byggingatæknimenntaðan aðila á sínum snærum, þegar stefndi vann að gerð verklýsingar fyrir félagið, að Alucobond eða samsvarandi klæðning yrði notuð utan á húsið að Þorragötu 5,7 og 9, enda krefðist klæðningin lítils viðhalds.
Þá sé endingartími og gæði klæðningarinnar ekki í samræmi við upplýsingar sem stefndi hafi haft undir höndum frá framleiðanda hennar þegar húsið var byggt og stefndi byggði á við efnisval og rágjöf til Skildinganess hf. og Ístaks. Þær upplýsingar bentu til að klæðningin væri varin gagnvart sjávarseltu og iðnaðarumhverfi í samræmi við yfirborð hennar og að hún stæðist veður og væri auðveld í viðhaldi. Stefndi hafi hins vegar aldrei lofað stefnanda eða félagsmönnum hans að klæðningin væri viðhaldsfrí. Þá hafi upplýsingar frá framleiðanda sýnt að klæðningin hafi verið notuð jafnt á hús á einni hæð sem háhýsi, enda sé staðreyndin sú að klæðningin hafði á þeim tíma verið notuð á hærri hús en tvær hæðir á Íslandi og á þeirri reynslu hafi stefndi byggt þegar ákveðið var að bjóða upp á þann valkost í verklýsingu að klæða húsið með Alucobond-klæðningu. Stefndi hafi því mátt ætla að klæðningin uppfyllti allar kröfur laga og reglugerða hérlendis sem innflytjandinn bar ábyrgð á lögum samkvæmt að staðreyna, þar sem hún hafði verið boðin til sölu og notuð hér um margra ára skeið, og að klæðninguna mætti nota á allar tegundir húsa hérlendis og loks að hún stæðist bæði þágildandi byggingarreglugerð og reglugerð um brunavarnir. Á stefnda hafi ekki hvílt nein skylda að leggja sjálfstætt mat á þessi atriði.
Með hliðsjón af framansögðu verði því að telja að engar sérstakar ástæður hafi legið fyrir á þeim tíma þegar klæðningin var valin sem rekja mætti til vangæslu af hálfu stefndu í efnisvali eða ekki hafi nægjanlega verið gætt af hans hálfu að leita eftir upplýsingum frá framleiðandanum sjálfum, eða verið ástæða til að leita frekari upplýsinga frá framleiðanda klæðingarinnar, enda ekki um nýtt efni að ræða hér á landi og því ekki sérstakt tilefni til varkárni þess vegna þar sem fengin var reynsla á notkun þess á aðrar byggingar. Hins vegar beri niðurstöður dómkvaddra matsmanna með sér að aðrar ástæður kunni að vera fyrir þeim ágöllum sem komið hafi í ljós en sem hönnuðir hússins beri ábyrgð á og greint verði nánar frá hér á eftir.
Ákvarðanataka um efnisval og samvinna aðila
Stefnandi heldur því fram að komið hafi í ljós hönnunargalli á fasteigninni sem stefndi beri ábyrgð á sem sérfræðingar á sviði hönnunar. Mikilsvert sé þó að gera sér grein fyrir að frá upphafi hafi stefndu einungis gert tillögur um tiltekna hönnun og efnisval, en bygging hússins var mjög sérstök, eins og komið hafi fram, þar sem um mikla samvinnu hafi verið að ræða milli hönnuða, verkfræðinga og verktaka um að leita lausna sem hentuðu þeim íbúum sem fasteignin var ætluð. Hér hafi verið um að ræða hóp eldri borgara sem gert hafi kröfur um að búa í vönduðu húsnæði sem ekki krefðist mikils viðhalds.
Í verklýsingu segi hvað frágang utanhúss varðar þá skuli húsið einangrað með 100 mm steinull á fúavarða grind, sem hafi verið hefðbundið á þeim tíma. Utan á grind og vindpappa, sem jafnan hafi verið notaður sem vindvörn á þeim tíma skyldi klætt með Alucobond eða Trespa G2 plötum. Stefndu hafi því gefið bæði Skildinganesi hf. og þeim verktökum sem myndu byggja húsið val um tvær gerðir klæðninga. Þegar meðstefndi Ístak hf. gerði áætlun um verkið þá hafi, í verðskrá, verið gert ráð fyrir að notuð yrði Alucobond-klæðning, sem stefnda hafi verið kunnugt um að Ístak hf. hefði reynslu af uppsetningu og frágangi á við aðrar framkvæmdir þegar fjölbýlishúsið að Þorragötu 5,7 og 9 var byggt, þar sé sérstaklega að geta uppsetningar á Alucobond- klæðningu utan á trégrind á Perlunni. Ístak haf. hafi því í reynd meiri reynslu af þessari klæðningu og uppsetningu hennar og útfærslu á undirgrind en stefndi.
Gögn málsins sýni að ítrekað hafi verið rætt um efnisval og lausnir við efnisnotkun á hönnunarfundum þar sem stefndi, Skildinganes hf. og Ístak hf. áttu fulltrúa. Það sé hins vegar misskilningur í greinargerð meðstefnda að skýrt komi fram á fundi sem var haldinn þann 21. maí 1993 að Ístak hf. hafi ekki á nokkurn hátt komið nálægt efnisvali, því þar hafi verið um innanhússfund hjá stefnda að ræða sem ræddi þóknun við ráðningu Haraldar Helgasonar sem undirverktaka við hönnun hússins, en engar ákvarðanir hafi þar verið teknar um efnisval.
Staðfest sé með gögnum að á hönnunarfundum hafi fulltrúar Ístaks hf., Skildinganess hf. og stefnda rætt að Alucobond-klæðning eða samsvarandi klæðning skyldi notuð utan á húsið og bendi það til þess að um sameiginlega niðurstöðu allra aðila hafi verið að ræða. Allt hafi þetta verið sérfróðir aðilar hver á sínu sviði sem hafi haft tækniþekkingu til að meta alla þætti varðandi val, uppsetningu og frágang á utanhússklæðningu hússins ásamt öðrum þeim atriðum sem matsgerðin nái til og vera sömuleiðis dómbærir um ráðgjöf stefnda í því sambandi. Þá komi fram á fundum vilji stefnda til að nota álvinkla í stað trégrindar undir klæðninguna, en fulltrúi Ístaks hf. bendi á að kostnaðarútreikningar þurfi að liggja fyrir, sem þýði í raun að endanleg ákvörðun um slíkt var tekin af byggingaraðilum, þ.e. Skildinganesi hf. og verktakanum Ístaki hf.. Hér hafi því ekki verið um sjálfstæða ákvörðun stefnda að ræða að nota trégrind, heldur hafi stefndi skýrt boðið upp á annan valkost sem síðar hafi verið hafnað, líklega með tilliti til kostnaðarauka sem því væri samfara fyrir Ístak hf. og Skildinganes hf., enda nýmæli á þeim tíma að nota álgrindur undir útveggjaklæðningu og ekki unnt að fullyrða að um betri kost hefði verið að ræða með tilliti til útloftunar og endingar. Þá hafi stefndu lagt til í verklýsingu að stigahús yrði klætt með múrklæðningu en lokaniðurstaða hönnunarfunda hafi verið lóðrétt báruð málmklæðning.
Ennfremur sé ástæða til að benda á að verklýsing stefnda hafi síður en svo verið endanleg heimild um efnisval og frágang utanhúss, enda mjög stutt og gagnorð og hafi tekið breytingum þegar á byggingaframkvæmdir leið og ítarlegri upplýsingum var bætt við eftir því sem fleiri uppdrættir og deili voru gerð af einstökum hlutum hússins. Lagt hafi verið fram uppkast að annarri verklýsingu, sem gerð hafi verið í apríl 1994, þar sem mun ítarlegri upplýsingar séu um lektur, einangrun, vindpappa og alucobondklæðninguna en upphaflega verklýsingin hafi borið með sér. Hér hafi verið um afrakstur samráðs og samvinnu allra aðila að ræða sem fram hafi farið m.a. á fjölmörgum hönnunarfundum. Af framangreindu megi álykta að sú fullyrðing að stefndi hafi einn haft með hönnun hússins að gera sé röng og villandi.
Alucobond-klæðningin
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna komi fram að líklegur endingartími Alucobond klæðningar á höfuðborgarsvæðinu sé um 15-20 ár og því ekki í samræmi við upplýsingar framleiðanda hennar. Þá fullyrði matsmenn að miðað við núverandi ástand klæðingarinnar teljist Alucobond ekki heppilegt byggingarefni að Þorragötu 5-9. Hins vegar treysti matsmenn sér ekki til að fullyrða að klæðningin sé gölluð. Líklegustu skýringar þeirra á núverandi ástandi klæðningarinnar séu þær að mikið álag vegna sjávarseltu sé við húsið sem hafi í för með sér tæringu sem leiði til lélegar samloðunar milli álþynnu og kjarna.
Stefndi hafi áður greint frá því að þegar klæðningin var sett upp hafi einróma álit sérfræðinga í byggingariðnaði verið, sem endurspeglast m.a. í áliti Jóns Sigurjónssonar hjá RB og bréfi Lofts Árnasonar hjá Ístaki hf., að Alucobond hafi verið vandaðasta utanhússklæðning sem völ var á sökum þess að hún var talin viðhaldslítil eða viðhaldsfrí. Dæmin sanni víðs vegar um höfuðborgina að hús sem klædd voru með Alucobond þá eða fyrr standi enn í dag án þess að nokkurs viðhalds hafi verið þörf á klæðningunni, sum hver standi nálægt sjó, með sama hætti og húsið að Þorragötu 5,7 og 9. Stefnda hafi því ekki mátt vera ljóst, á þeim tíma þegar húsið var hannað, að klæðningin hefði ekki lengri endingartíma en raun ber vitni eða sjá fyrir að hún væri haldin þeim göllum sem fram hafa komið á yfirborði hennar.
Í leiðbeiningarhandbók frá framleiðanda Alucobond-klæðningar, Alusingen, sem stefndi hafi haft undir höndum á þeim tíma þegar húsið var byggt komi fram að klæðningin sé varin gagnvart sjávarseltu og iðnaðarumhverfi í samræmi við yfirborð hennar. Þá komi fram í leiðbeiningunum að klæðningin standist norrænar prófunaraðferðir við brunavarnir og sé vitnað m.a. í norska staðla eða brunaprófun NT Fire 002 (sjá bls. 5). Gögn framleiðanda hafi bent til að um viðhaldslitla eða viðhaldsfría klæðningu væri að ræða sem hentaði við þær aðstæður í veðráttu sem við búum við í Reykjavík. Hins vegar hafi stefnda með engu móti getað verið ljóst að hugsanlega væru aðrir umhverfisþættir, svo sem hugsanleg mengun frá Reykjavíkurflugvelli og álag vegna sjávarseltu, sem valdi tæringu í álinu eða myndi „bólur“ á klæðningunni. Hér hafi því verið um alls ófyrirséð ytri skilyrði að ræða sem ekki sé unnt að gera kröfu til að stefndi hafi átt að sjá fyrir með því að fara eftir upplýsingum frá framleiðanda og með hliðsjón af fyrri reynslu af notkun klæðningarinnar á öðrum húsum í Reykjavík. Á stefnda hvíldi heldur engin skylda að leggja sjálfstætt mat á hversu langan tíma klæðningin myndi endast eða hvar klæðningin væri heppileg sem byggingarefni, heldur hafi orðið að treysta á upplýsingar frá framleiðanda þar að lútandi.
Timburgrind
Stefnandi telur þann ágalla á undirgrind samkvæmt matsgerð að útloftunarbil vanti eða sé ekki nægjanlegt þar sem krossviður sé á veggsúlum, úthornum, súlum milli bílskúrshurðar og á milli bílskúrshurða og á útbyggingum að austanverðu.
Hins vegar telji matsmenn notkun timburgrindar ekki óæskilega en segja að framleiðandi mæli með notkun álgrindar.
Fyrst sé til að taka að þegar húsið var hannað hafi verið hefðbundið að nota timburgrind undir slíka klæðningu, en álgrind hafi ekki komið á markað fyrr en löngu síðar. Timburgrind hafði t.d. verið notuð undir Alucobond-klæðningu á Perluna nokkrum árum áður. Verði því ekki talið að neinn galli hafi verið á hönnun að velja trégrind undir klæðninguna.
Þá segi matsmenn að fjarlægja eigi skemmdan krossvið og útbúa a.m.k 20 mm útloftunarbil á nefndum svæðum svo eðlileg útloftun væri tryggð. Í verklýsingu sé tiltekið að loftræst skuli milli einangrunar og klæðningar. Samkvæmt deiliteikningu stefnda á undirgrind hafi stefndu hannað klæðninguna með þeim hætti að gert var ráð fyrir 22 mm útloftunarbili á milli einangrunar og klæðningar. Hins vegar hafi útloftun verið takmörkuð á súlum og úthornum sökum þess að ómögulegt var að koma fyrir útloftunarbili á nefndum svæðum án þess að skerða breidd hurða og glugga. Við súlur og innkeyrsluhurðir hafi vatnsvarinn krossviður verið settur undir til styrktar, þar sem hætta hafi verið á skemmdum og hnjaski vegna álags sökum umferðar. Stefndi telur að hér sé ekki um hönnunargalla að ræða heldur bestu mögulegu hönnunnarlausn sem unnt hafi verið að bjóða upp á á nefndum svæðum og í samræmi við byggingareglugerð og þágildandi staðla.
Vindpappi
Stefnandi heldur því fram að notkun vindpappa sem vindvarnar undir Alucobond-klæðningar hafi verið ólögmæt og vísar til bréfs Brunamálastofnunar, dags. 3. október 2003. Þá komi fram í stefnu að í bréfinu sé rakin nánar úttekt Brunamálastofnunar á utanhússklæðningu hússins og sú niðurstaða fengin að klæðningin hafi ekki uppfyllt þær reglur byggingar- og brunamálareglugerða sem gilt hafi þegar húsið var byggt og sérstaklega tiltekið að klæðningin hafi ekki fengið vottun frá Brunamálastofnun sem klæðning í 1. flokki samkvæmt brunavarnareglugerð nr. 269 /1978.
Í verklýsingu stefnda frá 1994 sé tiltekið að nota skuli vindpappa með PAM-gildi að hámarki 20. Í grein 7.5.7 í byggingarreglugerð nr. 177/1992 segir að við „hönnun og útfærslu á einangrun húsa skal þess gætt að raka- og vindvarnir séu fullnægjandi svo raki og loft rýri ekki einangrunargildi....Þessum skilyrðum er alla jafna fullnægt í léttum byggingarhlutum, t.d. timburveggjum og þökum, ef gufuflæðimótstaða (z-gildi) vindþéttilags er undir 10 GPa s m2/kg (20PAM)“.
Notkun stefnda á vindpappa með þeim fyrirmælum sem í verklýsingu segi hafi verið í samræmi við þetta ákvæði byggingarreglugerðar. Stefndi hafi hins vegar ekki valið pappann sjálfan, heldur hafi slíkt verið á verksviði verktaka og byggingaraðila sem séð hafi um innkaup. Í verklýsingu sé hvergi tekið fram að um tjörupappa væri að ræða, einungis vindpappa með PAM-gildi að hámarki 20. Ályktun stefnanda í stefnu að ekki hafi verið fullnægt kröfum byggingarreglugerðar við hönnun hússins varðandi notkun vindpappa sé því röng.
Á þeim tíma þegar húsið var byggt hafi verið hefðbundið að nota vindpappa sem vindvarnarlag undir Alucobond eða álíka klæðningu. Ekki hafi verið sérstök ástæða fyrri stefnda að sýna varkárni þar sem vindpappi hafði áður verið notaður undir Alucobond-klæðningu hérlendis og framleiðandinn í gögnum sínum, sem stefndi hafði kynnt sér til hlítar, hafi ekki tiltekið sérstaklega eða varað við notkun vindpappa sem vindvarnar undir Alucobond-klæðningu.
Túlkun Brunamálastofnunar á grein 10.2.1. í rgj. nr. 269/1978 að óheimilt hafi verið að nota vindpappa sem vindvörn undir klæðningu sé ekki í samræmi við orðalag ákvæðisins. Ákvæðið tilgreinir að „Yfirborð útveggja skuli ekki vera lakara frá brunateknisku sjónarmiði en á klæðningu í flokki 1“. Hér sé ekki verið að tala um vindpappa sem sé vindvörn undir óbrennanlega klæðningu, heldur klæðninguna sjálfa sem myndi yfirborð útveggja. Ekki sé því unnt að draga þá ályktun af þágildandi brunamálareglugerð að óheimilt hafi verið að nota vindpappa sem vindvörn undir Alucobond-klæðningu sem framleiðandinn sjálfur tilgreini í leiðbeiningarbók á þeim tíma að sé óbrennanleg og standist viðurkenndar prófanir sem Brunamálastofnun vitni til í bréfi sínu dags. 3. nóvember 2003, þ.e. að klæðningin standist norrænar prófunaraðferðir við brunavarnir og vitni m.a. í norska staðla eða brunaprófun NT Fire 002.
Samkvæmt 17. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál hvíldi sú skylda á innflytjendum og seljendum byggingarefna að afla nauðsynlegrar vottunar frá Brunamálastofnun. Stefndi hafi aldrei verið upplýstur um efni bréfs Brunamálastofnunar til innflytjanda klæðningarinnar, dags. 2. júní 1994, þar sem segi að klæðningin nái flokki sem Class 1 samkvæmt breskum staðli en brunavarnareglugerð miðist við að klæðningin sé brunaprófuð í samræmi við norrænar prófunaraðferðir, m.a. áðurgreindan NT FIRE 002. Þetta bréf hafi aldrei verið kynnt stefnda á sínum tíma, þó innflytjanda gæti ekki dulist að húsið væri þá í smíðum. Þá hafi innflytjandi ekki upplýst stefnda um að ekki mætti nota klæðninguna á stærri hús en tvær hæðir og kjallara nema með samþykki Brunamálastofnunar í hverju tilfelli. Ekki liggi þó fyrir svör innflytjandans við erindi Brunamálastofnunar. Stefndi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að klæðningin hefði fengið viðhlítandi vottun Brunamálastofnunar og heimilt væri að nota hana á fjögurra hæða hús eins og að Þorragötu 5,7 og 9, enda ljósmyndir og teikningar í leiðbeiningar- og upplýsingabók framleiðanda af notkun klæðningarinnar á mun hærri byggingar erlendis. Ef vafi hefði verið samkvæmt framangreindum reglugerðum um notkun klæðningarinnar á fjölbýlishús hefði stefndi aldrei tilgreint notkun Alucobond sem kost í verklýsingu. Innflytjandi hafi aldrei varað stefnda við að slík notkun kynni að brjóta í bága við reglugerð um brunavarnir og brunamál.
Í „Reglum um brunaeiginleika útveggja“, sem gefnar voru út af Brunamálastofnun í júlí 1996, nokkru eftir að byggingu hússins lauk, komi fram að heimil sé notkun vindpappa sem vindvörn sem áfastur er óbrennanlegri einangrun, sem mest sé 0,1 kg/m2. Stefnda sé ekki kunnugt hvort sá tjörupappi sem notaður var við byggingu hússins sé undir eða yfir þessari þyngd, en ljóst sé að við byggingu fjölbýlishúsa þar sem Alucobond, eða svipuð óbrennanleg klæðning, sé notuð þá sé ekki óheimilt með öllu að nota vindpappa sem vindvörn, þó takmörk hafi síðar verið sett af Brunamálastofnun. Það hafi hins vegar ekki verið á verksviði stefnda að velja eða annast kaup á vindpappa til notkunar við byggingu hússins að Þorragötu 5, 7 og 9.
Stefndi byggir á því að sá ágalli sem Brunamálastofnun telji vera á notkun vindpappa sem vindvörn í húsinu megi ekki rekja til mistaka sem stefnda verði metin til sakar, enda hafi stefndi sýnt fyllstu aðgæslu og faglega kostgæfni við val á vindvörn í samræmi við hefðbundið og viðurkennt efnisval á þeim tíma þegar húsið var byggt.
Burðarsúlur svala
Stefnandi haldi fram í stefnu að frágangur stálstoða sé óheppilegur, þar sem í matsgerð segi að ryðskemmdir séu í stálstoðum allsstaðar þar sem perlumöl liggur að þeim. Ekkert í matsgerð segi beinlínis að hönnun hafi verið hér áfátt enda virðist meir vera umhverfisaðstæðum að kenna en efnisvali og því ekki kennt um rangri hönnun.
Bárujárn neðan á svölum
Stefnandi telur að endingartími platna neðan á svölum sé ekki í samræmi við væntingar kaupenda. Í matsgerð sé seltuálagi kennt um og lítilli hreinsun við rigningu. Hér verði heldur ekki háttsemi stefnda kennt um að umræddar bárujárnsplötur séu gallaðar þar sem efnið sjálft virðist ekki hafa staðist væntingar, sennilega vegna umhverfisaðstæðna.
Reykræsigluggar í stigahúsi
Stefnandi haldi því fram í stefnu að reykræsting stigahúsa uppfylli ekki kröfur byggingarreglugerðar nr. 177/1992 og vísar þá til niðurstöðu matsmanna um að engir opnanlegir gluggar séu í útveggjum stigahúsa og þakgluggar séu heldur ekki opnanlegir.
Í verklýsingu stefnda segi að leitast skuli við að halda yfirþrýstingi með innblæstri á upphituðu lofti inn á stigaganga, loftskipti skuli vera minnst 2 sinnum á klukkustund. Stefndi hafi síðan teiknað loftræstingu í samræmi við þessi meginatriði í verklýsingu. Í samræmi við verklýsingu stefnda hafi meðstefndi Ístak hf. gert ráð fyrir þrem reykræsilúgum í verðskrá sinni, dags. 3. mars. 1993, einni fyrir hvert stigahús, en vísað sé til verðskrár Ístaks hf. í samkomulagi Skildinganess hf. og Ístaks hf. Þá komi fram á hönnunarfundi nr. 13, 25. ágúst 1993, að Hauki Magnússyni hjá Raftæknistofunni, sem séð hafi um raflagnateikningar í húsið á vegum stefnda, væri falið að athuga opnunarbúnað á reykræstiglugga. Á raflagnateikningu Hauks af húsinu sé sérstaklega tilgreint að setja skyldi rofa fyrir reyklosunarbúnað í hvert stigahús. Hins vegar virðist ekki hafa verið farið eftir þessum fyrirmælum hönnuða og reykræsibúnað vanti í stigahúsin. Verði að telja að skortur á slíkum reyklosunarbúnaði sé handvömm í frágangi um að kenna sem stefndi beri ekki ábyrgð á og teljist því ekki hönnunargalli.
Stefndi gerir þá varakröfu að verði aðalkrafa hans ekki tekin til greina þá verði dómkröfur stefnanda lækkaðar verulega á grundvelli eftirfarandi sjónarmiða.
Sök stefnda sé óveruleg þar sem meginhluti þeirra atriða sem stefnandi telur ábótavant varðandi fasteignina og metin séu sem gallar samkvæmt matsgerð hafi ekkert með hönnun hússins að gera heldur vinnubrögð og verklag við byggingu þess eða eftirlit og umsjón með framkvæmdum sem hafi verið stefnda algerlega óviðkomandi og annaðhvort á verksviði Skildinganess hf. eða verktakans, Ístaks hf.
Í öðru lagi hafi bæði Ístak hf. og Skildinganes hf. tekið verulegan þátt í efnisvali og hönnun hússins og á þeim hvíli samábyrgð gagnvart stefnanda á þeim tæknilegu atriðum sem rekja megi til háttsemi stefnda við hönnun hússins. Endanleg ákvörðun um val Alucobond-klæðningar hafi verið tekin af Skildinganesi hf. í samráði við Ístak hf., sem hafi valið þá klæðningu í tilboði sínu til Skildinganess hf. Þá komi skýrt fram í upphaflegu samkomulagi Ístaks hf. við félagsmenn stefnda sem hafi verið hluthafar í Skildinganesi að Ístak skuli vinna að hönnun hússins og haga vali á efni og aðferð þannig að gæði verði fullnægjandi en kostnaður innan kostnaðarramma. Þátttaka Ístaks í hönnun komi síðan fram á hinum fjölmörgu hönnunarfundum sem haldnir voru til að taka ákvörðun um val á efni og lausnir varðandi hönnun hússins, og nánar sé rakið hér að framan.
Þá séu kostnaðarliðir matsgerðar of háir og miði við að stefnendur verði betur settir en þeir voru áður þar sem kostnaðarmat matsmanna sé miðað við núverandi verðlag en ekki að um gamalt hús sé að ræða.
Málsástæður og lagarök stefnda Ístaks hf.
Stefndi byggir í öllum atriðum á þeim meginreglum skaðabótaréttar að tjónþola beri að sanna tjónstilvik, bótagrundvöll, umfang tjóns og orsakasamhengi þess við tjónstilvik og bótagrundvöll. Að öðru leyti verði hér á eftir fjallað um einstaka þætti í kröfugerð stefnanda og rökstuðning hans fyrir kröfugerðinni og málsástæður stefnda fyrir sýknu eða lækkunarkröfum sínum.
Aðildarskortur
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn aðallega á samningi stefnda við Skildinganes hf. um byggingu íbúða fyrir aldraða meðlimi félagsins, sem og kaupsamningum stefnda við einstaka kaupendur íbúðanna. Stefndi telur hins vegar að stefnandi geti ekki byggt rétt á viðkomandi samningum þar sem hann hafi ekki verið aðili að þeim. Það sé grundvallarskilyrði þess að aðili geti byggt málatilbúnað sinn á bótareglum innan samninga að hann hafi verið aðili að viðkomandi samningi og það skilyrði sé ekki uppfyllt í málinu.
Jafnframt sé ljóst að félagsmenn stefnanda hafi mismunandi stöðu að því er varðar kröfur á hendur stefnda. Þannig séu sumir upphaflegir kaupendur en aðrir leiði rétt sinn frá þeim, án þess að samningssamband hafi myndast milli síðarnefndu kaupendanna og stefnda. Verði af þessum sökum að telja að stefnandi geti ekki höfðað mál þetta í nafni allra íbúðareigenda, heldur hafi þeim borið að stefna í eigin nafni.
Beri samkvæmt framangreindu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.
Verði talið að samningssamband sé á milli stefnanda og stefnda telur stefndi ljóst að það takmarkist við kaupsamninga þá er stefndi gerði við einstaka félagsmenn stefnda, dómskjöl 34 og 35, enda voru þeir ekki aðilar að öðrum samningum stefnda að því er varðar húsið að Þorragötu 5, 7 og 9. Stefnandi getur því einungis byggt á samningi stefnda við Skildinganes hf., dagsettum 15. júní 1993, dómskjal 4, að því leyti sem vísað var til hans í einstökum kaupsamningum þeirra við stefnda. Ljóst er að kjarni þeirra samninga var yfirfærsla eignarréttar að því er varðaði hinar umræddu íbúðir og lúta þeir því alfarið reglum fasteignakauparéttar. Tilvísanir stefnanda til reglna verktakaréttar hafa því enga þýðingu í málinu.
Þótt stefnandi geti ekki byggt rétt á framangreindum samningi stefnda við Skildinganes hf., dómskjal 4, nema að því leyti sem efni hans telst hluti kaupsamnings stefnda við einstaka íbúðarkaupendur, er ljóst að réttarstaða stefnda í tengslum við hið umdeilda verk markast af þeim samningi sem og einstökum kaupsamningum, að því tilskildu að samningssamband verði talið á milli stefnanda og stefnda. Skyldur stefnda geta því ekki verið ríkari en leiðir af umræddum samningum og getur stefnandi ekki öðlast betri rétt en Skildinganes hf. hafði, að því leyti sem stefnandi byggir rétt sinn til skaðabóta á ákvæðum samnings stefnda við félagið. Getur stefndi því haft uppi sömu mótbárur gegn stefnanda og hann hefði getað haft uppi gagnvart Skildinganesi hf.
Verði niðurstaðan sú að ekki sé talið samningssamband milli stefnda og stefnanda, en stefnandi verði engu að síður talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, sé ljóst að öll sjónarmið er tengjast efni samninga þeirra sem stefndi hafi gert við Skildinganes hf. og einstaka íbúðarkaupendur hafi enga þýðingu við mat á meintri skaðabótaábyrgð stefnda. Verði þá að leggja mat á réttarstöðu stefnda út frá almennum skaðabótareglum, en málsástæður stefnda eigi við eftir því sem við á.
Fyrning
Í 1. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda sé kveðið á um að skuld eða önnur krafa, sem ekki hafi verið viðurkennd eða lögsókn hafin innan þeirra tímatakmarka, er ákveðin séu í umræddum lögum, falli úr gildi fyrir fyrning. Af 2. tölul. 4. gr. sömu laga leiði að kröfur vegna fasteignakaupa fyrnast á 10 árum, sbr. H 1992.1040.
Meginregla fasteignakauparéttar sé sú að fyrningarfrestur krafna vegna fasteignaviðskipta hefjist við kaupsamningsgerð. Kaupsamningar um 28 íbúðir í fjölbýlishúsinu að Þorragötu 5, 7 og 9 hafi verið undirritaðir á tímabilinu frá 12. ágúst 1993 til 7. september 1994. Stefnandi geri engu að síður kröfur vegna þeirra viðskipta, þrátt fyrir að fyrning sé ekki rofin fyrr en með birtingu stefnu þann 29. október 2004. Sameiginleg hlutdeild umræddra íbúða í sameign fjölbýlishússins að Þorragötu 5, 7 og 9 sé 74,41%. Samkvæmt framangreindu sé sá hluti krafna stefnanda fyrndur.
Ábyrgð og sök
Stefnandi haldi því fram að tilhögun ytri klæðningar hússins hafi verið ákveðin með hliðsjón af ráðgjöf hönnuða og framkvæmdaraðila, sem hefðu talið það val reist á nýjustu þekkingu og stefnu í þeim efnum. Sé þessi staðhæfing stefnanda röng að því leyti að stefndi hafi hvergi komið nálægt ákvörðun þess hvort húsið yrði klætt að utan eða hvers eðlis sú klæðning skyldi vera, hvorki með ráðgjöf þar að lútandi né á nokkurn annan hátt.
Grundvallaratriði í máli þessu sé að Skildinganes hf. hafi tekið allar ákvarðanir um efnisval í húsið að Þorragötu 5, 7 og 9 í samráði við meðstefnda Arkþing ehf., sem hannað hafi húsið, en án atbeina stefnda. Hönnuðir og fyrirsvarsmenn Skildinganess hf. hafi ákveðið byggingarlag hússins og tekið allar ákvarðanir um efnisval þar að lútandi. Sé með öllu ósannað að stefndi hafi á nokkurn hátt átt þátt í því vali, sbr. það sem komi skýrt fram á fundi aðila málsins þann 21. maí 1993. Er stefndi samdi við Skildinganes hf. um byggingu hússins hafi þannig þegar verið ákveðið að húsið skyldi klætt með Alucobond eða Trespa G2 klæðningu, sem fest skyldi á timburgrind og með vindpappa sem vindvörn, sbr. það sem fram komi í verklýsingu meðstefnda, Arkþings ehf., sem lögð hafi verið til grundvallar byggingar hússins af hálfu stefnda. Annað efni til byggingarinnar hafi verið valið á svipaðan hátt. Sé því ljóst að stefndi beri ekki ábyrgð á því efnisvali, enda hafi stefndi, með notkun viðkomandi efna, einungis verið að fullnægja skýrum kröfum Skildinganess hf. Ljóst sé að það sé á ábyrgð þeirra sem að efnisvali standi að kynna sér rækilega eiginleika viðkomandi efnis og hvort það dugi til þeirra nota er ráðlögð séu, sbr. H 1998.2155. Vísar stefndi til gr. 20.8 í ÍST 30, 3. útgáfu, sem var hluti samnings stefnda og Skildinganess hf., þar sem segi að ef verkkaupi krefjist þess að notað sé nafngreint efni beri verktaki ekki ábyrgð á því að það henti til notanna nema honum hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að efnið hentaði ekki. Á þeim tíma er hin umrædda utanhússklæðning var sett upp, megi telja að Alucobond hafi verið talið besta klæðningarefni sem völ var á og því hafi stefnda engan veginn getað verið ljóst að efnisvali Skildinganess hf. og hönnuða hússins gæti að þessu leyti verið ábótavant, enda um að ræða sérfróða aðila. Mótmælir stefndi því alfarið að með samningi sínum við Skildinganes hf. hafi hann tekið ábyrgð á gæðum þess efnis sem aðrir höfðu valið. Rétt sé að taka fram að starfsmaður stefnda, Grétar Halldórsson verkfræðingur, hafi lagt til við stjórn Skildinganess hf., að í stað Alucobond yrði notuð álklæðning, eins og síðar hafi tíðkast. Stjórn Skildinganess hf. hafi hafnað þessari tillögu, enda þótt hún væri sennilega eitthvað ódýrari, og vildi eindregið að Alucobond væri notað.
Stefndi byggir á því að á honum hafi ekki hvílt skylda til að leggja sjálfstætt mat á það hvort æskilegt væri að nota annað efni til byggingarinnar en krafist var af verkkaupa, enda hafi stefndi boðið í verkið eftir að ákvarðanir þar að lútandi höfðu verið teknar og hafi stefndi enga ástæðu til að ætla að efnisvali Skildinganess hf. og hönnuða hússins væri ábótavant eða að notkun viðkomandi efnis væri að einhverju leyti athugaverð. Vísar stefndi til gr. 20.8 í ÍST 30, 3. útgáfu, sem var hluti samnings stefnda og Skildinganess hf., þar sem segi að ef verkkaupi krefjist þess að notað sé nafngreint efni ber verktaki ekki ábyrgð á því að það henti til notanna nema honum hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að efnið hentaði ekki. Ljóst sé að hefði stefndi notað annað efni en ráð var fyrir gert í verklýsingu hefði verið um að ræða samningsbrot af hans hálfu, þar sem skýrt hafi verið kveðið á um efnisval í samningi hans við Skildinganes hf. Stefndi hafi skilað af sér húsinu í fullu samræmi við verklýsingu og teikningar meðstefnda Arkþings ehf., svo sem mælt hafi verið fyrir um í samningnum og sem tekið sé fram í einstökum kaupsamningum að kaupandi hafi kynnt sér gaumgæfilega.
Jafnvel þótt talið yrði að stefnda hefði borið að meta sérstaklega hvort Alucobond- klæðningin væri hentug til klæðningar hússins að Þorragötu 5, 7 og 9 verði að telja að miðað við þá þekkingu og reynslu sem menn höfðu af klæðningunni á þeim tíma er hún var sett upp gat stefnda engan veginn hafa verið ljóst að yfirlýsingar framleiðanda klæðningarinnar um endingartíma hennar myndu ekki standast eða að hún myndi á annan hátt ekki standa undir væntingum kaupenda.
Telur stefndi með öllu óhæft ef einstaklingar geti stofnað félag um byggingu húsnæðis og gert í nafni þess kröfur um, og ákveðið, að tiltekin efni séu notuð til verksins, en síðar og að loknum slitum félagsins krafist skaðabóta á þeim grundvelli að efnisval hafi verið rangt og viðkomandi efni hafi verið haldið göllum.
Vilji stefndi gera grein fyrir sjónarmiðum sínum lið fyrir lið, að nokkru leyti í samræmi við kröfugerð stefnanda.
Alucobond-utanhússklæðning
Stefndi ítreki það sem áður hafi komið fram að notkun Alucobond-klæðningar hafi verið í fullu samræmi við kröfur Skildinganess hf. Ástæða þess að umrædd klæðning varð fyrir valinu hafi verið sú að Alucobond var almennt talin afar vönduð klæðning og viðhaldsfrí. Stóðu vonir manna upphaflega til þess að ending klæðningarinnar yrði um 30 ár, í samræmi við yfirlýsingar framleiðanda hennar, og að um varanlega lausn yrði að ræða þannig að viðhald væri óþarft, þótt segja megi að sú von hafi verið óraunhæf. Útlit klæðningarinnar hafi ekki enst jafn vel og vænst hafði verið. Fram til þessa dags hafi klæðningin gegnt því hlutverki sínu að verja steinveggi hússins fyrir utanaðkomandi raka og hafi því ekki komið fram neinir gallar á klæðningunni sjálfri, aðrir en þeir sem lúti að útliti. Í matsgerð sé því haldið fram að endingartími klæðningarinnar sé ekki í samræmi við upplýsingar er veittar voru af stefndu. Stefndi hafi ekki haft uppi neinar yfirlýsingar, hvorki gagnvart forsvarsmönnum Skildinganess hf. né upphaflegu hluthöfum félagsins, varðandi endingartíma eða aðra eiginleika Alucobond-klæðningarinnar, enda hafði verið ákveðið að nota slíka klæðningu er stefndi hóf vinnu við verkið og því engin ástæða til slíkra yfirlýsinga. Einu yfirlýsingarnar sem stefndi hafi gefið og vörðuðu hina umræddu klæðningu hafi komið fram í auglýsingum er birtust í dagblöðum og nefndar eru í stefnu, en þar komi einungis fram að um „viðhaldsfría“ klæðningu væri að ræða. Hafi þeirri yfirlýsingu einungis verið beint að síðari kaupendum, það er kaupendum sem ekki hafi verið meðal upphaflegra hluthafa Skildinganess hf., það er 10 af 26 kaupendum. Hvergi komi hins vegar fram af hálfu stefnda í hve langan tíma klæðningin myndi endast eða vera viðhaldsfrí. Verði að telja eðlilegt að á sínum tíma hafi í auglýsingum varðandi húseignina verið lögð áhersla á vandaða utanhússklæðningu í ljósi þess að Alucobond-plötuklæðning var þá af fjölmörgum hönnuðum og öðrum sérfræðingum álitin sérlega vönduð og endingargóð klæðning, og með því allra besta á markaðnum. Hafi þessi yfirlýsing stefnda því verið gefin í góðri trú um réttmæti yfirlýsinga framleiðanda klæðningarinnar og þess álits sem almennt hafi verið ríkjandi um endingartíma hennar og varanleika. Verði jafnframt að telja yfirlýsinguna almenns eðlis, en ekki fela í sér áskilda kosti að því er klæðninguna varðar. Jafnframt verði að mótmæla því að fyrir matsmenn skyldi vera lagt að meta gildi meintra yfirlýsinga. Hlutverk matsmanna sé að leggja sérfræðilegt mat á matsefni, en ekki að meta sannsleiksgildi yfirlýsinga aðila eða réttmæti væntinga þeirra. Falli slíkt mat undir dómara málsins samkvæmt 44. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verði að telja að mat samkvæmt seinni setningu 1. töluliðar III. kafla matsbeiðni hefði ekki átt fram að fara og dómara beri að hundsa þá niðurstöðu matsmanna sem fram komi varðandi þennan lið og leggja sjálfstætt mat sitt á þennan lið.
Eins og fram komi í matsgerð, lýsa hinir meintu gallar á álklæðningunni sér einkum í lélegri samloðun milli álþynnu og kjarna, sem saman mynda álplöturnar í klæðningunni. Niðurstaða matsmanna sé sú að sennilegast sé að ástæða þessa sé tæring í álinu, sem telja megi að orsakist af miklum seltuáhrifum. Til stuðnings þessari kenningu bendi matsmenn á að einna minnst los sé milli kjarna og álþynna á plötum á suðurgafli hússins þar sem mest rigningarálag sé. Má af þessu ráða að staðsetning hússins með tilheyrandi seltuáhrifum og e.t.v. öðrum mengunaráhrifum vegna nálægðar við Reykjavíkurflugvöll sé meginorsök þeirra skemmda sem orðið hafi á klæðningunni. Húsið standi, sem kunnugt sé, við strönd Skerjafjarðarins og nærri innanlandsflugstöð Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli. Ljóst sé að á þessum slóðum verði áraun frá saltúða og e.t.v. annarri mengun meiri en almennt gerist.
Stefndi hafi engin áhrif haft á staðsetningu hússins að Þorragötu 5, 7 og 9. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar á byggingartíma hússins hafi Alucobond utanhússklæðning verið afar vönduð og því heppilegt byggingarefni, enda hafi yfirlýstir eiginleikar hennar verið helsta ástæða þess að Skildinganes hf. óskaði sérstaklega að hún yrði notuð á húsið. Þótt nú hafi komið í ljós að útlit klæðningarinnar hafi ekki enst jafnvel á umræddu húsi og vænst var, sé ljóst að á sínum tíma hafi stefndi engan veginn getað gert sér grein fyrir því að umhverfisaðstæður væru svo óheppilegar fyrir útlit klæðningarinnar sem raun ber vitni. Það sé alfarið á ábyrgð Skildinganess hf. og meðstefnda Arkþings hf.
Timburgrind
Að því er varðar undirgrind Alucobond-klæðningarinnar ítrekar stefndi sem fyrr að samkvæmt verklýsingu meðstefnda, Arkþings ehf., sem lögð hafi verið til grundvallar við gerð tilboðs stefnda og framkvæmd verksins, hafi undirgrind klæðningarinnar átt að vera úr fúavörðu timbri. Síðar hafi komið fram hugmyndir af hálfu arkitektanna þess efnis að nota frekar undirgrind úr áli, en ekkert hafi orðið úr þeim fyrirætlunum. Notkun timburgrindar hafi verið hefðbundin á þeim tíma er uppsetning klæðningarinnar fór fram og sé það staðfest í matsgerð. Í leiðbeiningum framleiðanda hafi þannig verið sýnd dæmi um hvernig festa skyldi plötur á trégrind, sem og álgrind, sbr. ummæli matsmanna í framlagðri matsgerð. Verði því á engan hátt talið athugavert að notuð var timburgrind undir hina umræddu utanhússklæðningu, enda hefði notkun álgrindar verið nýmæli, eins og áður sé rakið, og með því tekin óþarfa áhætta, þótt álgrind hefði verið ódýrari kostur fyrir verktaka, það er stefnda.
Vindpappi sem vindvörn
Af hálfu stefnda er áhersla lögð á það að hann hafi tekið við hönnuðu verki og að efnisval hafði farið fram. Í verklýsingu þeirri, sem stefndi hafi boðið í, hafði hönnun verið ákveðin og efnisvalið farið fram. Verklýsingin hafi gert ráð fyrir Alucobond á trégrind með vindpappa. Í verklýsingunni sé nokkrum sinnum minnst á byggingarreglugerð og reglugerð um brunavarnir og brunamál og því hafi stefndi með réttu mátt ætla að meðstefndi, Arkþing ehf., hefði útbúið verklýsinguna í fullu samræmi við þær kröfur sem fram hafi komið í reglugerðunum. Hafi stefndi þ.a.l. haft ástæðu til að ætla að vindpappi sem vindvörn væri í fullu samræmi við ákvæði framangreindra reglugerða. Leiðbeiningar frá Brunamálastjóra til innflytjanda hafi ekki komið fyrr en efnisvali hafi löngu verið lokið og byggingu hússins var nærri lokið.
Stefndi telur að þar sem fyrrnefnd yfirlýsing hans um að verkið skyldi fullnægja kröfum gildandi reglna á sviði byggingarmála hafi komið fram í samningi hans við Skildinganes hf., hafi henni einungis verið beint að félaginu og hafi stefndi með henni á engan hátt ábyrgst viðkomandi gæði gagnvart öðrum aðilum, s.s. þeim ótilgreinda hópi aðila sem hugsanlega gætu gerst hluthafar í Skildinganesi hf. í framtíðinni eða keypt íbúð í hinu umrædda húsi. Ef ætlunin hafi verið að framselja hina meintu ábyrgð til einstaklinga eða annarra verði í ljósi meginreglna kröfuréttar að telja að stefndi hefði þurft að samþykkja slíkt framsal sérstaklega. Verði að telja að er Skildinganesi hf. var slitið árið 2002 hafi þessi meinta ábyrgð fallið úr gildi og geti stefnandi ekki byggt nokkurn rétt á henni.
Stefndi byggir á því að jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hefði getað byggt rétt á umræddri yfirlýsingu hafi sá réttur hans fallið niður fyrir fyrningu. Samkvæmt gr. 30.1 ÍST 30, 3. útgáfu, sem hafi verið hluti samnings stefnda við Skildinganes hf., taki verktaki ábyrgð á verkinu í eitt ár frá því að hann skilaði því af sér. Í gr. 30.6 segi síðan að ef í ljós koma á verkinu leyndir gallar sem ekki hafi verið unnt að sjá fyrir lok ábyrgðartímans skuli verktaki svara skaðabótum ef gallarnir stafi sannanlega af ásetningi eða gáleysi hans eða starfsmanna hans. Um fyrningu á þeim skaðabótakröfum fari eftir ákvæðum laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905. Af þessu leiði að ef um galla sé að ræða sem ekki teljist leyndur galli í skilningi gr. 30.6 ÍST beri verktaki einungis ábyrgð á honum í 1 ár frá því að hann skili verki af sér. Samkvæmt upplýsingum frá Grétari Halldórssyni, verkfræðingi hjá stefnda, hafi uppsetningu klæðningarinnar lokið í september eða október 1994. Að því er varðar meintan galla er stefnandi telji að felist í notkun vindpappa sem vindvarnar undir Alucobond-klæðninguna sé ljóst að með bréfi dagsettu 15. ágúst 1995 hafi aðilum málsins verið tilkynnt um að húsið að Þorragötu 5-9 fengi lokaúttekt af hálfu Byggingarfulltrúans í Reykjavík. Hafi bréfið verið undirritað af Byggingarfulltrúanum, en óundirritað af hálfu Eldvarnareftirlits Reykjavíkur. Á þessu stigi máls sé ljóst að Byggingarfulltrúi hafi lokið úttekt án athugasemda og sé ekki vitað hvað hafi valdið því að ekki var ritað undir af hálfu Eldvarnareftirlits, en áskilinn sé réttur til þess að leggja fram gögn um það síðar, eða leiða menn til vitnis um það. Verði að telja að skortur á undirritun fulltrúa Eldvarnareftirlitsins hefði átt að vekja athygli forsvarsmanna Skildinganess hf. á því að brunavörnum í húsinu kynni að einhverju leyti að vera ábótavant og að þeim hafi því borið að grafast fyrir um afstöðu Eldvarnareftirlits Reykjavíkur. Sé því ekki um að ræða leyndan galla, ef um galla sé að ræða á annað borð, heldur galla sem verkkaupi hefði mátt sjá innan þess tíma sem stefndi beri ábyrgð á verkinu samkvæmt gr. 30.1 í 3. útgáfu ÍST 30. Þar sem engar athugasemdir hafi verið gerðar við verkið innan þess tíma verði að telja hugsanlegan rétt verkkaupa sem og þeirra sem rétt leiði frá honum fallinn niður vegna tómlætis.
Niðurstaða Brunamálastofnunar sem getið sé að framan, sbr. bréf stofnunarinnar til stefnanda, dagsett 3. nóvember 2003, hafi alfarið verið byggð á því sem fram kom í bréfi stofnunarinnar til innflytjanda klæðningarinnar, dags. 2. júní 1994. Hafi Brunamálastofnun að lokinni úttekt sinni gert athugasemdir við þrennt. Í fyrsta lagi að klæðningin væri notuð á stærra hús en óhætt væri talið, þ.e. fimm hæða fjölbýlishús í stað einbýlishúss, án þess að samþykkis stofnunarinnar hefði verið leitað. Í öðru lagi hafi verið fundið að því að notuð væri brennanleg vindvörn, sem fram hefði komið í fyrrnefndu bréfi að væri óheimilt. Loks hafi verið gerð athugasemd við að notaðir væri timburlistar til að mynda loftun klæðningarinnar.
Matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að nota vindpappa sem vindvörn undir Alucobond-klæðninguna og byggi þá niðurstöðu alfarið á fyrrnefndu bréfi Brunamálastofnunar til innflytjanda klæðningarinnar.
Stefnandi telji framangreindar niðurstöður Brunamálastofnunar og matsgerðar leiða til skaðabótaskyldu stefnda, þar sem stefndi hafi í 2. gr. samnings síns og Skildinganess hf. tekið á sig ábyrgð á því að verkið væri unnið í samræmi við byggingarreglugerð og ákvæði viðeigandi staðla og annarra reglna sem giltu um slíkar framkvæmdir.
Verði ekki fallist á að hin meinta ábyrgð stefnda sé úr gildi fallin byggir stefndi á því að bréf Brunamálastofnunar til innflytjanda Alucobond-klæðningarinnar, dags. 2. júní 1994, og vísað sé til í stefnu, hafi enga þýðingu í málinu. Bréfið hafi ekki verið skrifað fyrr en allar ákvarðanir um klæðningu hússins höfðu löngu verið teknar og bygging þess langt komin, bréfinu hafi ekki verið beint til stefnda heldur ótengds aðila. Um sé að ræða bréf sem hafi verið sent til innflytjanda klæðningarinnar en hafi ekki komið til vitundar stefnda fyrr en stefnandi hafði fengið það í hendur fyrir tilstilli Brunamálastofnunar. Innflytjandinn hafi ekki upplýst stefnda um efni bréfsins og hafi á engan hátt varað stefnda við því að notkun klæðningarinnar á fjölbýlishús yfir tvær hæðir kynni hugsanlega að orka tvímælis samkvæmt byggingarreglugerð eða reglugerð um brunamál og brunavarnir. Innflytjandanum hafi þó að fullu verið kunnugt um fyrirætluð not klæðningarinnar. Hið minnsta sem krefjast hefði mátt af Brunamálastofnun var að hún gerði kröfu til þess að innflytjandinn upplýsti viðskiptamenn sína um efni bréfsins.
Svo sem fram komi í tölvupósti Guðmundar Gunnarssonar, yfirverkfræðings hjá Brunamálastofnun, til Þórðar Eydal Magnússonar, félaga í stefnanda, dags. 5. júní 2003, leiði af 25. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir og 17. gr. eldri laga um brunavarnir nr. 41/1992 að allar klæðningar skuli vera viðurkenndar af Brunamálastofnun áður en þær séu settar á markað hérlendis. Þar sem Alucobond- klæðningin hafði verið markaðssett hér á landi hafi stefndi mátt treysta því að hún hefði hlotið viðurkenningu Brunamálastofnunar og samræmdist að öllu leyti framangreindum reglugerðum. Vitað sé að á þessum tíma hafi Alucobond verið notað á ýmis hús í Reykjavík og vindpappi á enn fleiri. Ekki sé unnt að gera kröfu um það að stefndi aflaði sér álits framleiðanda klæðningarinnar um stöðu hennar gagnvart íslenskum reglugerðum á sviði bygginga- og brunamála, enda sé um erlendan aðila að ræða sem ekki hafi verið í aðstöðu til að gefa uppi slíkt álit.
Stefndi telur að þótt Alucobond-klæðningin hafi ekki fengið viðurkenningu Brunamálastofnunar á þessum tíma sé ekki þar með sagt að slík viðurkenning hafi ekki fengist síðar, enda þekkt að klæðningarefnið hafi verið notað í nokkrum mæli, þar á meðal á byggingar á vegum Reykjavíkurborgar. Ekkert hafi komið fram sem útiloki það að innflytjandi klæðningarinnar leggi fram nýjar prófanir á plötunum í samræmi við þær norrænu prófunaraðferðir sem yfirverkfræðingur hjá Brunamálastofnun vísi til í fyrrnefndu bréfi sínu og sem virðist vera forsenda slíkrar viðurkenningar. Ljóst sé að ef slíkt gerist sé vandséð hvert tjón stefnanda sé vegna meintra vanefnda stefnda að þessu leyti.
Krossviður utan á einangrunargrind í stað loftunargrindar
Stefnandi haldi því fram að notkun krossviðar utan á einangrunargrind á súlum milli bílskúra og á útbyggingum á austurhlið í stað loftunargrindar valdi því að ekkert útloftunarbil sé fyrir hendi undir klæðningunni.
Stefndi byggir á því að venja sé að nota krossvið undir klæðningu til styrkingar á þeim hlutum húsa þar sem nokkurrar áníðslu sé vænst. Hafi slík vinnubrögð að öllu leyti verið eðlileg á uppsetningartíma klæðningarinnar. Beri stefndi því ekki ábyrgð á þeim skemmdum sem stefnandi telur að hafi orðið vegna þessa.
Burðarsúlur svala
Stefnandi telji stefnda bera ábyrgð á því að ryðskemmdir hafi orðið á 16 stálstoðum undir svölum og að ástæður þeirra séu þær að moldarkenndur jarðvegur og perlumöl hafi legið upp að þeim undir jarðvegsyfirborði í stað steinhellna, sem liggi að öðrum stálstoðum undir svölum hússins. Matsmenn telji þennan frágang við stálstoðir óheppilegan, þrátt fyrir að í matsgerð sé spurt að því hvort frágangur og efnisval stálstoða undir svölum sé forsvaranlegur miðað við aðstæður.
Sinkhúðin á umræddum stálstoðum hafi mælst eðlileg að þykkt. Séu því stálstoðirnar ekki haldnar galla af neinu tagi. Auk þess hafi matsmenn talið að ekki væri galli í veggfestingum eða að útfærslu þeirra væri á nokkurn hátt áfátt.
Í ljósi þess sem að ofan greini, það er að stálstoðirnar séu ekki haldnar neins konar galla, skipti ekki máli af hverju ryð á þeim kunni að stafa. Stefndi telji þó að frágangur á jarðvegi við stálsúlurnar sé ekki meginorsök þess ryðs sem sé á súlunum, heldur að umhverfisaðstæður hafi þar haft úrslitaáhrif. Þannig hafi reynslan sýnt að áhrif seltu séu óvenjulega mikil á Þorragötunni, einkum vegna nálægðar við sjó. Telji stefndi afar ólíklegt að við aðrar aðstæður hefðu slíkar ryðskemmdir orðið á súlunum, þrátt fyrir að sami frágangur hefði verið á jarðvegi, og leggi áherslu á að um hefðbundinn frágang sé að ræða að þessu leyti. Er því ljóst að hér sé um að ræða vankanta sem enginn hafi getað séð fyrir við byggingu hússins og verði því að vera á ábyrgð eigenda þess.
Bárujárn undir svölum
Stefnandi telji sig eiga rétt til skaðabóta á grundvelli niðurstöðu matsgerðar um að endingartími bárujárnsplatna undir svalagólfi hafi ekki verið í samræmi við það sem kaupendur hafi mátt búast við.
Í matsgerð komi skýrt fram að ekkert hafi komið fram í þá átt að umræddar bárujárnsplötur væru gallaðar, en að umhverfisaðstæður, og þá einkum mikil seltuáhrif, valdi tæringu og þær endist því skemur en ella. Stefndi hafi ekki ábyrgst lengri endingu platnanna eða gæði þeirra á annan hátt, heldur sé alfarið um að ræða óvissuþátt sem Skildinganes hf. og þeir sem leiði rétt sinn frá félaginu verði að bera ábyrgð á. Stefndi hafi ekki getað gert sér grein fyrir því að aðstæður á byggingarstað myndu hafa slík áhrif, enda um óvenjulega mikil seltuáhrif að ræða.
Reykræsigluggar í stigahúsi
Í verklýsingu meðstefnda, Arkþings ehf., sem lögð hafi verið til grundvallar byggingu hússins að Þorragötu 5, 7 og 9 af hálfu stefnda, komi fram hvernig loftræstikerfum hússins skuli háttað. Þar sé í upphafi getið byggingarreglugerðar og reglugerðar um brunavarnir og brunamál. Síðan komi m.a. fram að í stigagöngum skuli leitast við að mynda yfirþrýsting með innblæstri á upphituðu lofti inn á stigagangana og að loftskipti skuli vera minnst tvisvar sinnum á klukkustund. Af verklýsingunni sé ljóst að fyrrnefndar reglugerðir hafi legið til grundvallar hönnun arkitektanna á loftræstingu og þ.á m. reykræstingu stigahúsanna. Verði því að telja að skortur á opnanlegum glugga eða reykræstihlera í stigagangi í andstöðu við ákvæði byggingarreglugerðar teljist til hönnunargalla, sem stefndi beri ekki ábyrgð á, heldur sá sem tók að sér hönnun hússins.
Vinnubrögð stefnda
Stefndi telur það alrangt sem stefnandi haldi fram að verklagi við byggingu hússins að Þorragötu 5, 7 og 9 hafi verið ábótavant. Sé þá einkum átt við ásakanir stefnanda að því er varðar uppsetningu Alucobond-klæðningarinnar. Verklag stefnda við uppsetningu Alucobond-klæðningarinnar á húsinu hafi verið í fullu samræmi við þær leiðbeiningar sem stefndi hafi fengið frá innflytjanda hennar, sem og þá þekkingu og venjur sem hafi legið fyrir á þeim tíma er verkið var unnið.
Fjöldi og staðsetning festinga hafi verið í fullu samræmi við fyrirmæli framleiðanda, eins og fram komi í matsgerð. Við uppsetningu klæðningarinnar hafi verið notaðar ryðfríar skrúfur sem hafi fylgt henni frá innflytjanda. Með þeim hafi ekki fylgt sérstakar skinnur, enda megi sjá á skýringarmyndum þeim er fram komi í leiðbeiningabók framleiðanda Alucobond klæðningarinnar í fylgiskjali 3 með matsgerð, dæmi um að klæðningin sé fest með skrúfum án þess að notaðar séu skinnur. Lögun skrúfanna hafi verið ætlað að tryggja lokun skrúfugatsins fyrir vatni og veðrun, en leiði óumflýjanlega til þess að hreyfimöguleiki platnanna verði minni en ella, jafnvel þótt borgötin í plötunum séu víðari en skrúfurnar. Rétt sé að minna á að á öðrum húsum þar sem Alucobond-klæðning hafi verið notuð séu dæmi um að plöturnar hafi enga hreyfimöguleika, en séu eftir sem áður óskemmdar eftir meira en 10 ára notkun, sbr. það sem fram komi í bréfi framkvæmdastjóra stefnda til stefnanda, dags. 1. september 2003. Þar sé jafnframt mótmælt þeim ásökunum stefnanda að álplöturnar lægju óvarðar næst timbri, þ.e. krossviði, þar sem álskinna væri á milli burðargrindar og platnanna.
Þrátt fyrir að borgöt fyrir draghnoðin, er festi laska undir láréttum samskeytum Alucobond-platnanna milli plötu og grindar, séu ekki breiðari en draghnoðin sjálf, hafi matsmenn ekki orðið varir við skemmdir á klæðningunni vegna þessa. Niðurstaða matsmanna hafi jafnframt verið sú að ekki yrði séð að skrúfur væru óeðlilega mikið hertar og engar sýnilegar skemmdir hafi verið á plötunum sem rekja mætti til ofherslu. Sé þetta, ásamt því sem áður hafi komið fram, skýr vísbending um að ásakanir þær er fram komi í skýrslu framleiðanda Alucobond-klæðningarinnar, dags. 21. mars 2002, hafi ekki verið á rökum reistar.
Af matsgerð og aðstæðum öllum verði ráðið að helsta ástæða lélegs ástands Alucobond-klæðningarinnar á fjölbýlishúsinu að Þorragötu 5-9 séu umhverfisaðstæður á svæðinu. Ljóst megi telja að mikil seltuáhrif, og e.t.v. einnig önnur efnamengun sem orsakist af nálægð hússins við Reykjavíkurflugvöll, séu meginorsakir þeirrar tæringar sem orðið hafi vart á klæðningunni. Því sé ljóst að léleg ending Alucobond-klæðningarinnar verði rakin til efnisins sjálfs og umhverfisaðstæðna, en ekki til vinnubragða stefnda.
Af málsatvikum öllum sé jafnframt ljóst að orsök hinna meintu galla að öðru leyti sé hönnun hússins og efnisval. Ekkert hafi hins vegar komið fram um vanrækslu stefnda að því er vinnubrögð varðar.
Hönnun fjölbýlishússins að Þorragötu 5, 7 og 9
Þrátt fyrir að í samningi stefnda og Skildinganess hf. segi að stefndi taki að sér hönnun fjölbýlishússins að Þorragötu 5, 7 og 9 og hafi þegar hafið þá hönnun sé af öllum gögnum málsins, þ.á m. þeim sem séu hluti af samningnum samkvæmt ákvæðum hans sjálfs, ljóst að stefndi hafi ekkert haft með hönnun hússins að gera. Með því að taka að sér hönnun byggingarinnar samkvæmt samningnum hafi stefndi einungis verið að skuldbinda sig til að semja formlega við meðstefnda Arkþing ehf., sem Skildinganes hf. hafði þegar samið við er stefndi tók að sér verkið. Við verkið hafi meðstefndi, Arkþing ehf., á engan hátt lotið skipunarvaldi eða eftirliti stefnda, heldur komið fram sem sjálfstæður verktaki. Beri stefndi því á engan hátt ábyrgð á verkum Arkþings ehf., hvorki á grundvelli húsbóndaábyrgðar né með öðrum hætti.
Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Byggir stefndi þá kröfu sína á því að kostnaðarmat það sem fram komi í matsgerð miðist við kostnað vegna kaupa á nýjum hlutum í stað þeirra sem haldnir séu meintum galla. Meginhluti íbúðanna í húsinu hafi verið seldur á árinu 1993 og snemma árs 1994, en aðrar íbúðir síðar á árinu 1994 og allt til 1996. Jafnvel þótt miðað sé við áætlaðan uppgefinn endingartíma framleiðanda, 30 ár, sé ljóst að eigendur hafi notið eigna sinna án nokkurs hnjasks í rösklega þriðjung áætlaðs endingartíma. Jafnvel þótt fallist væri á kröfur stefnanda í grundvallaratriðum, væri út í hött að dæma þeim nýtt fyrir gamalt, sem þeir hafi haft full not af. Í kostnaðarmati matsgerðar sé ekki tekið tillit til þeirrar staðreyndar að eigendur fasteignarinnar fái nýtt byggingarefni í stað þess sem sé haldið göllum, þrátt fyrir að nú sé gengið mikið á ætlaðan endingartíma efnisins, óháð því hvort meintur galli teljist vera á því eða ekki. Verði að taka tillit til þessa við mat á meintu tjóni stefnanda, enda væri önnur niðurstaða í algeru ósamræmi við þá meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli skuli fá tjón sitt bætt, en ekki hagnast á tjóni.
Verði stefndi ekki algjörlega sýknaður af kröfum stefnanda er þess krafist, að dráttarvextir leggist ekki á fyrr en frá uppsögu endanlegs dóms í málinu. Er í því sambandi lögð áhersla á, að tjónsafleiðingar af meintum göllum séu ekki enn komnar fram og stefnandi hafi því ekki enn þurft að leggja í neinn kostnað vegna þeirra.
Niðurstaða
Stefnandi er félag eigenda fasteignarinnar að Þorragötu 5, 7 og 9, Reykjavík. Þótt stefnandi sé ekki eigandi þeirra krafna sem gerðar eru á hendur stefndu í máli þessu verður að telja að stefnandi geti, án framsals krafna einstakra eigenda, sótt kröfur sem varða sameign fasteignarinnar á grundvelli laga um fjöleignahús nr. 26/1994 og á grundvelli dómafordæma. Telja verður að félagið sjálft svo og einstakir félagsmenn hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Félagið tók lögmæta ákvörðun, á löglega boðuðum húsfundi, að höfða mál þetta. Dómkröfur í málinu varða einungis sameign allra eigenda fasteignarinnar en ekki séreignir einstakra félagsmanna húsfélagsins. Ber því að hafna sýknukröfum stefndu byggðum á aðildarskorti stefnanda.
Stefnandi höfðar mál þetta til greiðslu skaðabóta vegna galla sem hann kveður hafa komið í ljós á fasteigninni Þorragata 5, 7 og 9, Reykjavík. Vísar stefnandi um gallana til matsgerðar dómkvaddra matsmanna, þeirra Jóns Viðars Guðjónssonar, tæknifræðings og húsasmiðs, og Magnúsar Guðjónssonar húsasmíðameistara. Er matsgerð þeirra gerð í september 2004.
Dómkröfur sínar á hendur stefnda Arkþingi ehf. kveðst stefnandi byggja á meginreglunni um sérfræðiábyrgð og byggir á því að félagið hafi komið að hönnun og teikningu hússins. Verulegir hönnunargallar hafi verið á fasteigninni sem stefndi Arkþing ehf. beri ábyrgð á með vísan til almennu sakarreglunnar og meginreglna skaðabótaréttarins. Er ekki í sóknargögnum gerð nánari grein fyrir þeim hönnunargöllum sem stefnandi telur stefnda, Arkþing ehf., ábyrgan fyrir.
Fyrir liggur að Skildinganes hf., sem var félag stofnað um byggingu fjölbýlishúss fyrir eldri borgara, leitaði til stefnda Arkþings ehf. um að teikna og gera verklýsingu að fjölbýlishúsi sem reist skyldi við Þorragötu. Eftir að verklýsing Arkþings ehf. lá fyrir, eða 5. apríl 1993, gerði félagið Skildinganes hf. samkomulag við Ístak hf. Þar segir að Ístak hf. taki að sér að hanna og byggja fjölbýlishús fyrir Skildinganes hf. Skuli verkið byggt á teikningum Arkþings ehf. Segir í samkomulaginu að verkið sé ekki fullhannað og séu aðilar sammála um það að Ístak hf. skuli vinna að því við hönnun að haga vali efnis og aðferða þannig að gæði verði fullnægjandi en kostnaður innan kostnaðarramma. Hönnunin verði unnin í nánu samráði við fulltrúa Skildinganess hf.
Hinn 15. júní 1993 gerði Skildinganes hf. annan samning við stefnda, Ístak hf., um byggingu íbúða fyrir aldraða að Þorragötu 5, 7 og 9, Reykjavík. Í 1. grein samningsins segir að Ístak hf. taki að sér alla hönnun, byggi og selji félagsmönnum í Skildinganesi hf. 36 íbúðir með tilheyrandi sameign í sambýlishúsi auk 24 bílskúra og 16 stæða í bílskýli. Segir jafnframt í 1. grein samningsins að Ístak hf. hafi þegar hafið hönnun byggingarinnar. Skyldi húsið afhendast fullbúið og frágengið að utan sem innan í samræmi við teikningar Arkþings ehf.
Í 2. grein samningsins segir að verkið skuli unnið í samræmi við þar upptalin gögn, m.a. arkitektateikningar Arkþings ehf. Í lok 2. greinar segir: „Verkið skal unnið í samræmi við byggingarreglugerð og ákvæði viðeigandi staðla og annarra reglna sem gilda um framkvæmdir sem þessar og er Ístak hf. ábyrgt fyrir því að eftir þeim sé farið“
Hinn 1. júlí 1993 gerðu Ístak hf. og Arkþing ehf. með sér samning um hönnun og ráðgjöf samkvæmt ÍST 35. Samkvæmt samningnum er verkkaupi Ístak hf. en ráðgjafi Arkþing ehf.
Þegar litið er til framlagðra fundargerða hönnunarfunda þykir ljóst að fulltrúar stefnda Arkþings ehf. hafa tekið þátt í umræðum um efnisval og hönnun og verið ráðgefandi í samræmi við samning sinn við Ístak hf. sem áður er getið. Hins vegar verður að telja, í ljósi framangreindra samninga Skildinganess hf. og Ístaks hf., að stefndi Ístak hf. hafi tekist á hendur fulla ábyrgð á hönnun og byggingu umrædds húss gagnvart eigendum þess. Verður því að telja að kröfum stefnanda vegna meintra galla á fasteigninni sé ekki réttilega beint að stefnda Arkþingi ehf. og ber að sýkna þennan stefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Eins og áður getur tók stefndi Ístak hf. að sér að hanna og byggja fasteignina Þorragata 5, 7 og 9. Skyldi Ístak hf. afhenda kaupendum húsið fullbúið og frágengið utan sem innan. Fram kemur í gögnum málsins að vandað skyldi til byggingarinnar. Þá kemur fram í söluyfirlitum og auglýsingum Eignamiðlunarinnar hf., sem hafði milligöngu um sölu íbúðanna, að húsið sé klætt að utan með viðhaldsfríu efni.
Í fundargerðum stefnanda í september 2001 er bókað að klæðning hússins sé farin að bila og plötugallar hafi komið í ljós. Í framhaldinu voru fundir haldir með stefnda og önnur samskipti áttu sér stað milli aðila vegna þessa máls. Sendar voru 2 plötur af klæðningu hússins til framleiðanda, Alcan í Þýskalandi. Í skýrslu fyrirtækisins er talið að umhverfi við uppsetningarstað platnanna sé mjög mengað og valdi tæringu í plötunum. Þá er talið að allar reglur um uppsetningu hafi verið hundsaðar.
Í ljósi þess að stefnandi taldi að byggingin stæðist ekki áskilda kosti og væri ekki í því ástandi sem búast mátti við miðað við yfirlýsingar húsbyggjanda óskaði hann eftir mati dómkvaddra matsmanna til þess að meta meinta galla. Voru dómkvaddir matsmennirnir Jón Viðar Guðjónsson, tæknifræðingur og húsasmiður og Magnús Guðjónsson húsasmíðameistari. Reisir stefnandi kröfur sínar á matsgerð þeirra og byggir kröfur sínar í málinu á kostnaðarmati matsmanna við úrbætur. Eru kröfur hans sundurliðar með eftirfarandi hætti:
1. Klæðning, undirgrind og vindpappi 42.761.600 krónur
2. Burðarsúlur svala 403.200 krónur
3. Bárujárn svala 2.524.500 krónur
4. Reykræsigluggar í stigahúsi 750.000 krónur
5. Aðstaða, vinnupallar, tækniráðgjöf o.fl. 11.818.000 krónur
Samtals 58.257.300 krónur
Í matsbeiðni eru matsmenn krafðir álits á því hver sé líklegur endingartími Alucobond-utanhússklæðningar á höfuðborgarsvæðinu, hvort Alucobond-klæðning sé óheppilegt byggingarefni við þær aðstæður sem eru á Þorragötunni, hvort timburgrind sé æskileg undir Alucobond-klæðningu og hvort klæðning og undirgrind séu haldnar göllum og þá hverjum, hver sé orsök þeirra og hvað kosti að bæta úr þeim.
Í matsgerð segir m.a. að matsmenn telji að Alucobond-plötur hafi tiltölulega lítið verið notaðar í utanhússklæðningu á höfuðborgarsvæðinu og sé þeim ekki kunnugt um að kerfisbundnar rannsóknir hafi verið gerðar á endingartíma Alucobond-klæðningar hér á landi. Matsmenn hafi skoðað allnokkur hús með slíkri klæðningu sem séu allt að 20-25 ára gömul. Í flestum tilfellum hafi komið í ljós að álþynnan hafi losnað frá plastkjarnanum við brúnir og greinilegt að allnokkur og sumstaðar mikil tæring hafi verið í álþynnunni.
Það er skoðun matsmanna að skilgreining á því hvenær líftíma utanhússklæðningar sé lokið sé að hluta til háð fyrirliggjandi forsendum. Líta verði annars vegar á hvenær hrörnun og niðurbrot klæðningarplötu er orðið það mikið að hún sé hætt að þjóna hlutverki sínu tæknilega, þ.e. verji það sem fyrir innan er fyrir veðri og vindum eins og til er ætlast. Hins vegar verði að líta á hvenær hrörnun og niðurbrot klæðningar er orðin slík að líftíma telst lokið vegna útlits og ásýndar, en það sé háð forsendum í hverju tilviki. Telja verði eðlilegt að miða við að klæðningarplata haldi tæknilegum eiginleikum sínum út líftíma sinn, s.s. samlíming álþynna og kjarna, en útlit og ásýnd geti hafa hrakað allnokkuð, s.s. að málning mattist og flagni að einhverju leyti. Matsmenn telja því, miðað við fyrirliggjandi gögn, að líklegur endingartími Alucobond klæðningar á höfuðborgarsvæðinu geti verið um 15-20 ár sem sé ekki í samræmi við upplýsingar framleiðanda klæðningarinnar.
Varðandi þá spurningu hvort Alucobond-klæðning sé óheppilegt byggingarefni miðað við aðstæður vísa matsmenn til brunamálareglugerðar nr. 269/1978, grein 10.2.1 er segi: „Yfirborð útveggja skal ekki vera lakara frá brunateknísku sjónarmiði en klæðning í flokki 1.“ Þá vísa þeir til bréfs er Guðmundur Gunnarsson, yfirverkfræðingur Brunamálastofnunar, hafi ritað innflytjanda Alucobond-klæðningarinnar 2. júní 1994, eftir að hafa yfirfarið gögn hans um klæðninguna, þar sem fram komi m.a. eftirfarandi: „Á grundvelli framlagðra gagna má þó telja víst að klðningin sé í lagi utan á einbýlishús (þau geta mest verið tvær hðir og kjallari) og aðrar samsvarandi byggingar sem veðurkápa yfir óbrennanlega einangrun. Notkun klðningarinnar á stærri hús er háð samþykki Brunamálastofnunar ríkisins í hverju tilfell.i“
Niðurstaða matsmanna er að telja verði eðlilegt að gera ráð fyrir að loftræst klæðning úr áli endist a.m.k. 35-40 ár. Eins og að framan greini lofi framleiðandi Alucobond-klæðningarinnar samsvarandi endingu. Hvað brunatækni varðar hafi Alucobond-klæðning ekki vottun frá Brunamálastofnun sem klæðning í flokki 1, eins og gerð sé krafa um í brunamálareglugerð 269/1978.
Miðað við núverandi ástand klæðningarinnar á Þorragötu 5, 7 og 9 og það sem fram komi hér að ofan er það álit matsmanna að Alucobond-klæðning geti ekki talist heppilegt byggingarefni á Þorragötu 5, 7 og 9.
Það er álit matsmanna að á þeim tíma sem húsið Þorragata 5, 7 og 9 var byggt, hafi verið hefðbundið að nota trégrind undir plötuklæðningar hér á landi og því komi ekki á óvart að slík grind sé notuð í þessu tilfelli. Um miðjan tíunda áratuginn hafi byggingaraðilar hér á landi farið að nota málmgrindarkerfi undir klæðningar og sé notkun slíkra grinda nú allsráðandi.
Í leiðbeiningum framleiðanda sé í flestum tilfellum sýnd notkun á þar til gerðri álgrind undir klæðningu, en þó sé sýnt dæmi um hvernig festa skuli plötur á trégrind.
Telja matsmenn notkun trégrindar undir Alucobond-klæðningu ekki óæskilega. Framleiðandi Alucobond-klæðningarinnar mæli hins vegar með notkun álgrindar undir hana.
Í umfjöllun matsmanna um klæðningu og meinta galla í henni segir í matsgerð að álþynnur hafi víða losnað frá kjarna á hornum Alucobond-platna sem og við jaðra þeirra en vegna umfangsins sé ógjörningur að kortleggja nákvæmlega hvar álþynnan hefur losnað og hvar ekki, en þó sé greinilegt að einna minnst los sé á suðurgafli. Þar sem mest var hafi losið mælst allt að 30 mm frá horni eða brún. Í sumum tilfella hafi álþynnan orpist frá kjarnanum og sé skemmdin þá mjög sýnileg, en í öðrum tilfellum liggi álþynnan þétt að kjarnanum og sé skemmdin þá síður eða ekki sýnileg. Líklegt sé að ástæða þessa sé að mislangt sé síðan álþynnan losnaði frá kjarnanum. Á milli álþynnu og kjarna sé byrjuð tæring, enda eðlilegt þar sem bakhlið álþynnanna sé ekki varin eins og framhliðin og allmikið álag af völdum sjávarseltu sé við húsið. Matsmenn gátu ekki ráðið með óyggjandi hætti hvað valdi því að álþynnurnar losna frá kjarnanum á jöðrum platnanna, en telja líklegt að tæring í álinu eigi þar hlut að máli. Vísbending sem styðji þetta sé að einna minnst los sé á milli kjarna og álþynna í plötum á suðurgafli, en þar sé mest rigningarálag á húsið, sem skoli seltu betur af plötunum en á öðrum hliðum og megi því ætla að tæringarálag sé minna þar.
Á nokkrum plötum hafi verið sýnilegar lófastórar „bólur“ á klæðningunni og virtist sem álþynnan þrýstist frá kjarnanum. Matsmenn hafi skorið með hnífi í eina bóluna og þegar hnífsblaðið gekk í gegnum ytri plötuna og kjarnann þrýstist út lofti með allmiklum krafti. Við þetta hafi „bólan“ hjaðnað. Matsmenn hafi brett upp brúnir plötunnar við skurðinn og þá komið í ljós að innri álþynnan hafði losnað frá kjarnanum og hafi engar útfellingar eða óhreinindi verið sýnileg í sárinu.
Alucobond plöturnar séu festar við trégrind með ryðfríum skrúfum. Leggur skrúfanna hafi mælst 4 mm í þvermál og lengd þeirra ýmist 30 mm eða 40 mm. Staðsetning þeirra frá kanti plötu mældist um 20 mm. Ekki sé gúmmí- eða plastskinna undir skrúfuhausnum. Í leiðbeiningum framleiðanda sé sýnd skinna undir haus skrúfa, sem ætla megi að sé úr gúmmíi, plasti eða þess háttar efni. Hefðbundið sé að nota skrúfur með gúmmí- eða plastskinnu undir haus við uppsetningu á álklæðningu til að minnka hættu á skemmdum á lakki plötunnar undir skrúfuhaus og til að slíta rafleiðni vegna mismunandi efna í plötu og skrúfu. Ummerki tæringar séu sýnileg við skrúfur í klæðningunni.
Þvermál gata fyrir skrúfurnar mældist 7 mm. Þannig sé 1,5 mm bil á milli skrúfu og plötu en í leiðbeiningum framleiðanda komi fram að bil þetta skuli vera 1 mm að lágmarki til að klæðningarplöturnar geti hreyfst á eðlilegan hátt vegna hitabreytinga. Skrúfurnar séu lítilsháttar kónískar þar sem leggur skrúfunnar komi að hausnum og sé líklegt að þetta hindri að nokkru leyti hreyfimöguleika plötunnar.
Undir láréttum samskeytum Alucobond-platna sé 0,7 mm þykk og um 60 mm breið álþynna (laski) og sé hún fest við Alucobond-plöturnar með u.þ.b. 5 mm ryðfríum draghnoðum, auk þess að klemmast milli platna og grindar. Borgöt í plötum fyrir draghnoðin mældust 5 mm og því sé ekki áðurnefnt 1 mm bil milli Alucobond-plötu og draghnoðsins, sbr. leiðbeiningar framleiðanda.
Um undirgrind segir að á aðalflötum hússins sé einangrunargrind og útloftunargrind úr gagnvarinni furu og sé útloftunarbilið 22 mm. Í leiðbeiningum framleiðanda Alucobond-klæðningarinnar komi fram að útloftunarbil skuli vera a.m.k. 20 mm. Enga galla eða skemmdir hafi verið að sjá í grindinni og mældist rakastig hennar eðlilegt (11-14%).
Á veggsúlum og úthornum sé 18 mm krossviður utan á einangrunargrind í stað loftunargrindar og því ekkert loftbil. Krossviðurinn og trélistar hafi verið mettaðir af raka (>28%) og fúaskemmdir byrjaðar.
Á súlum milli bílskúra og á útbyggingum á austurhlið sé krossviður á einangrunargrind og loftbil myndað með renningum úr Alucobond-klæðningu. Á súlum milli bílskúra hafi krossviðurinn verið mettaður af raka (>28%), en á útbyggingu um 14%-17%. Vindpappinn sem sé utan á krossviðnum hafi sumstaðar bylgjast og þrengi loftbilið verulega. Eins og fram komi hér að ofan, komi fram í leiðbeiningum framleiðanda Alucobond-klæðningarinnar að útloftunarbil skuli vera a.m.k. 20 mm, hefðbundið sé við útfærslu loftræstra plötuklæðninga að útloftunarbil sé haft 25-30 mm.
Niðurstaða matsmanna er sú varðandi klæðningu og undirgrind að þeir telja verulegan ágalla á samloðun álþynna og kjarna Alucobond-klæðningarinnar. Þeir telja að skemmdir þessar muni ekki ganga til baka, að þær sé ekki hægt að gera við og að einsýnt sé að þær muni aukast. Þá telja matsmenn það galla að tæring sé komin fram við skrúfur klæðningarinnar og líklegt að sú væri ekki raunin ef gúmmí eða plastskinna hefði verið notuð undir haus skrúfa. Fyrirmælum framleiðanda um hlaup í festingum laska á láréttum samskeytum sé ekki fylgt. Matsmenn hafi, þrátt fyrir það, ekki orðið varir við skemmdir í klæðningunni vegna þessa. Staðsetning festinga virðist í samræmi við fyrirmæli framleiðanda og fjöldi þeirra nægjanlegur. Ekki hafi verið að sjá eða finna að skrúfurnar væru óeðlilega mikið hertar, né hafi verið sýnilegar skemmdir á plötunum sem rekja mætti til ofherslu.
Matsmenn leggja til að úrbætur felist í því að allar Alucobond-klæðningarplötur verði fjarlægðar af húsinu og það klætt nýjum plötum sem uppfylli kröfur í samningum milli kaupanda, húsbyggjanda og seljanda.
Varðandi undirgrind telja matsmenn þann ágalla vera á undirgrind að útlofunarbil vanti eða sé ekki nægjanlega mikið þar sem krossviður sé á veggsúlum, úthornum, súlum milli bílskúrshurða og á útbyggingum á austurhlið.
Matsmenn leggja til að úrbætur felist í því að skemmdur krossviður og trélistar verði fjarlægðir og a.m.k. 20 mm útloftunarbil verði útbúið á nefndum svæðum og eðlileg útloftun klæðningarinnar tryggð.
Í matsgerðinni er fjallað um notkun vindpappa undir álklæðninguna og hvort það hafi verið í samræmi við byggingarreglugerð sem í gildi var þegar húsið var byggt. Segir það að við vettvangskannanir hafi komið í ljós að tjöruborinn vindpappi sé sem vindvörn alls staðar þar sem klæðningin var opnuð. Vísað er til bréfs Guðmundar Gunnarssonar, yfirverkfræðings Brunamálastofnunar, til innflytjanda Alucobondklæðningarinnar þar sem m.a. komi eftirfarandi fram: „Ekki er heimilt að nota tjörupappa eða annað brennanlegt efni sem vindþéttingu undir ALUCOBOND- klðninguna, heldur skal nota gifs eða annað óbrennanlegt efni.“ Í ljósi þessa telja matsmenn að óheimilt hafi verið að nota vindpappa undir Alucobond-klæðninguna eins og gert var þegar húsið var byggt. Þeir leggja til að úrbætur felist í því að vindpappinn verði fjarlægður og ný vindvörn sett í staðinn úr 9 mm útigifsi.
Auk þess sem að framan er rakið voru matsmenn krafðir álits á því hvort efnisval og frágangur stálstoða undir svölum sé forsvaranlegur, hvort ryðmyndun sé á bárujárni neðan í svölum og ef svo sé hver sé orsökin og loks hvort eldvarnir og ráðstafanir til reyklosunar stigahúsanna séu í samræmi við byggingarreglugerð.
Um stálstoðir segir í matsgerð að á vettvangi séu steyptar undirstöður um 20 cm undir jarðvegsyfirborði og gangi stálstoðirnar niður í jarðveg sem því nemi. Við frambrún svala sé perlumöl og moldarkenndur jarðvegur við stálstoðirnar á 16 stoðum, en við aðrar stoðir séu steinhellur. Ryðskemmd sé í stálstoðunum alls staðar þar sem perlumöl liggi að þeim. Matsmenn telja frágang við stálstoðir með moldarkenndum jarðvegi og perlumöl óheppilegan. Þar sem gengið sé frá við stálstoðir með steinhellum og sandi sé ekki sýnileg ryðgun í stoðum. Matsmenn leggja til að úrbætur felist í því að grafið verði frá stoðunum, stálið sandblásið, grunnað og málað með vönduðu málningarkerfi. Síðan verði límdur asfaltdúkur á stoðirnar, frá plöttum og 3-4 cm upp fyrir ryðgaða svæðið. Jafnframt verði „bronsað“ yfir sýnilega hluta dúksins til að líkja eftir útliti sinkhúðarinnar. Síðan verði fyllt að stoðum með hreinni grús og perlumöl efst.
Í matsgerð segir að bárujárnsklæðning neðan á svalagólfum sé alusinkhúðuð. Veruleg tæring sé í sinkhúðinni og sums staðar sé járnið farið að ryðga. Matsmenn fengu Pétur Sigurðsson verkfræðing til að mæla þykkt sinkhúðar á bárujárnsplötunum og reyndist hún eðlileg. Verulegt seltuálag sé á plötunum, en þær hreinsist lítið sem ekkert þegar rigni þar sem þær séu í skjóli neðan á svalagólfunum. Ekkert hafi komið fram í þá átt að plöturnar séu gallaðar og því verði að telja að ending þeirra við þessar aðstæður sé ekki lengri en raun ber vitni. Matsmenn álíta að bárujárnið neðan í svalagólfum sé það mikið tært að nauðsynlegt sé að endurnýja það. Matsmenn leggja til að úrbætur felist í því að plöturnar verið fjarlægðar og í stað þeirra komi báruálsplötur, svipaðar þeim og eru á útveggjum stigahúsa hússins.
Um eldvarnir og ráðstafanir til reyklosunar stigahúsanna segir í matsgerð að í gr. 8.2.1.16 í byggingarreglugerð 177/1992 um reykræsingu stigahúsanna segi: „Sé stigahús án opnanlegra glugga á vegg, skal á þaki þess vera reykræsihleri, opnunarflatarmál a.m.k. 1 m2. Hægt skal vera að opna hann á auðveldan hátt frá stigahúsi á fyrstu og efstu hæð. Opnunarbúnaður má ekki vera háður rafmagni. Hann skal merkja greinilega á vegg stigahúss með orðinu „Reykræsing“. Búnaður þessi er háður samþykki Brunamálastofnunar.“ Á vettvangi hafi komið í ljós að engir opnanlegir gluggar séu í útveggjum stigahúsanna. Á þaki þeirra sé þakgluggi (plastkúpull) með ljósop 1,2x1,2 m. Þakgluggar þessir séu ekki opnanlegir. Telja matsmenn að reykræsing stigahúsanna uppfylli ekki kröfu byggingarreglugerðar. Varðandi úrbætur leggja þeir til að núverandi þakgluggar verði fjarlægðir og nýir gluggar settir með opnunarbúnaði sem uppfylli kröfu reglugerðarinnar.
Af hálfu stefnda Ístaks hf. voru dómkvaddir matsmennirnir Gunnar Torfason og Pétur Stefánsson ráðgjafarverkfræðingar. Helstu niðurstöður þeirra varðandi þær spurningar sem fyrir þá voru lagðar voru að Alucobond ál, og sinkhúðað stál í ýmsu formi, ásamt með Steni/Stenex hafi almennt verið talin þau efni sem væru best fallin til utanhússklæðningar á byggingartíma hússins með tilliti til verðs og endingar og þá í þeirri röð sem þau eru talin upp.
Telja matsmenn að á byggingartímanum hefði mátt telja að eðlileg ending Alucobond-klæðningar væri ekki undir 35 til 40 árum. Þeir telja að klæðningin á Þorragötu 5, 7 og 9 þjóni enn tilgangi sínum hvað varðar vörn gegn vatni og hvað varðar arkitektóniskt útlit hússins.
Þá telja matsmenn verðmætisrýrnun hússins vegna ástands utanhússklæðningar hæfilega metna á 15.000.000 króna á verðlagi í nóvember 2005.
Eins og fram kemur í matsgerð telja matsmenn verulega ágalla á samloðun álþynna og kjarna Alcuobond-klæðningarinnar. Telja þeir einsýnt að skemmdirnar muni aukast. Þá liggur fyrir að tæring er fram komin við skrúfur. Er ekki sýnt fram á að sú tæring eigi rót að rekja til vinnubragða stefnda við festingar þar sem staðsetning festinga er í samræmi við fyrirmæli framleiðanda og herðing á skrúfum eðlileg samkvæmt framlagðri matsgerð. Notkun trégrindar undir klæðninguna telst eðlileg og ekki í ósamræmi við fyrirmæli framleiðanda. Þykir ekki sýnt fram á að notkun trégrindar hafi leitt til þeirra skemmda sem finnast í klæðningu.
Fram er komið að tjöruborinn vindpappi var notaður undir álklæðninguna. Í ljósi bréfs sem Guðmundur Gunnarsson, yfirverkfræðingur Brunamálastofnunar, ritaði til innflytjanda Alucobond-klæðningarinnar komast matsmenn að þeirri niðurstöðu, sbr. það sem áður er rakið, að óheimilt hafi verið að nota vindpappa undir klæðninguna og að Alucobond-klæðning geti ekki talist heppilegt byggingarefni á Þorragötu 5,7 og 9.
Fyrir liggur að nefndar athugasemdir Guðmundar Gunnarssonar komu fram í bréfi til innflytjanda klæðningarinnar og í bréfi til Þórðar Eydal Magnússonar vegna stefnanda. Hefur ekki verið sýnt fram á að þetta álit Brunamálastofnunar hafi legið fyrir á byggingartíma hússins. Alucobond-klæðning hafði verið notuð á ýmsar byggingar áður en hafist var handa við byggingu Þorragötu 5, 7 og 9 og virðist hafa notið álits fagmanna, sbr. matsgerð Gunnars Torfasonar og Péturs Stefánssonar. Þá liggur ekki annað fyrir en að notkun á tjörupappa undir klæðningar á húsum hafi verið almenn á umræddum tíma. Þegar þetta er virt svo og litið til þess að af hálfu byggingafulltrúans í Reykjavík fór fram lokaúttekt á húsinu hinn 10. ágúst 1995 án þess að athugasemdir væru gerðar, er ekki fallist á að notkun umræddra byggingarefna hafi brotið gegn byggingarreglugerðum eða hefðbundnum byggingarvenjum.
Telja verður að það sé óumdeilanleg staðreynd að talsverðar skemmdir er að finna í klæðningu hússins. Ekki þykir þó sýnt fram á það í málinu með óyggjandi hætti hverjar eru orsakir þessara skemmda, en eins og rakið er hér að framan verður að telja að klæðning hússins hafi farið fram í samræmi við hefðbundnar byggingavenjur á þeim tíma sem húsið var byggt og gallar verði ekki raktir til handvammar stefnda í uppsetningu eða vinnubrögðum.
Eins og rakið er hér að framan var því haldið fram af hálfu stefnda að húseignin Þorragata 5, 7 og 9 væri klædd með efni sem væri viðhaldsfrítt. Þótt fallast megi á skoðun Jóns Sigurjónssonar verkfræðings í skýrslu hans frá 11. september 2003 að ekkert sé til sem teljist viðhaldsfrítt byggingarefni telur dómurinn að húseigendur hafi mátt, í ljósi yfirlýsinga stefnda um viðhaldsfría klæðningu, vænta mun lengri endingar á klæðningu hússins en raun ber vitni. Uppfyllti byggingin ekki áskilda kosti og ber stefndi Ístak hf. því skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda að þessu leyti.
Dómurinn fellst á að frágangur við stálstoðir með moldarkenndum jarðvegi og perlumöl, sé ófullnægjandi og ekki hefðbundinn og hafi orsakað þær ryðskemmdir í stálsúlunum sem lýst er í matsgerð. Telst því vera um galla að ræða sem stefndi ber bótaábyrgð á.
Eins og rakið er hér að framan er bárujárnsklæðning neðan á svalagólfum. Samkvæmt matsgerð er veruleg tæring í klæðningunni og sumstaðar er járnið farið að ryðga. Það er álit dómsins að bárujárn neðan á svölum sé hluti klæðningar hússins. Með sömu rökum og áður er getið varðandi klæðningu ber að fallast á að stefndi beri bótaábyrgð á þessum ágalla.
Fyrir liggur að opnanlegir gluggar eru ekki í stigagöngum hússins. Þá eru ekki til staðar opnanlegir reykræsihlerar. Frágangur í stigagöngum að þessu leyti er því ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Er það á ábyrgð stefnda, sbr. það sem áður er rakið, að bygging hússins sé í samræmi við byggingarlög og reglugerðir. Ber því að fallast á bótakröfu stefnanda hvað þennan þátt varðar.
Samkvæmt framansögðu þykir sýnt fram á bótaskyldu stefnda Ístaks hf. gagnvart stefnanda.
Stefndi Ístak hf. ber fyrir sig að bótakrafa stefnanda sé fyrnd með vísan til 1. gr. og 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905. Fyrir liggur í gögnum málsins að gallar þeir sem um er fjallað í máli þessu komu fyrst í ljós á árinu 2001. Ber að miða upphaf fyrningarfrests bótakröfu stefnanda við það tímamark. Bótakrafa stefnanda er því ófyrnd en samkvæmt 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 fyrnist hún á 10 árum.
Að beiðni stefnanda hafa dómkvaddir matsmenn metið kostnað við úrbætur á þeim atriðum sem stefnandi krefst bóta fyrir og byggir stefnandi kröfur sínar á mati þeirra. Er kostnaðarmat þeirra svofellt:
Efni Vinna Samtals
Klæðning, undirgrind og vindpappi
a Niðurrif útveggjaklæðningar og vindpappa, förgun 0 3.824.000 3.824.000
b Niðurrif gluggaáfella, förgun 0 815.000 815.000
c Niðurrif á vatnsbrettum, förgun 0 280.000 280.000
d Niðurrif áfella af þakköntum, förgun 0 291.600 291.600
Endurbætur á loftunargrind á súlum, hornum og
e útbyggingu á austurhlið (bláklæddir fletir) 200.000 350.000 550.000
f Ný vindvörn, útigifs 1.673.000 2.748.500 4.421.500
g Ný útveggjaklæðning 7.170.000 16.730.000 23.900.000
h Nýjar gluggaáfellur 1.630.000 2.445.000 4.075.000
i Ný vatnsbretti 1.120.000 1.176.000 2.296.000
j Nýjar áfellur á þakkanta 1.093.500 1.215.000 2.308.500
Samtals 42.761.600
Endurbætur á burðarsúlum svala 75.200 328.000 403.200
Bárujárn svala
a Niðurrif bárujárnsklæðningar
undir svalagólfum, förgun 0 396.000 396.000
b Ný báruálsklæðning undir svalagólf 990.000 1.138.500 2.128.500
Samtals 2.524.500
Nýir reykræsigluggar i stigahúsum 450.000 300.000 750.000
Annar kostnaður
Aðstaða og vinnupallar 1.944.000 4.374.000 6.318.000
Tækniráðgjöf, umsjón og eftirlit 5.500.000 5.500.000
Samtals 11.818.000 Alls samtals 58.257.300
Eins og áður greinir leggja matsmenn til að allar Alucobond-klæðningarplötur verði fjarlægðar af húsinu og það klætt nýjum plötum sem uppfylli kröfur í samningum milli aðila. Er þá gert ráð fyrir nýrri vindvörn og útigifsi. Þegar litið er til þeirra aðferða sem beitt er í dag við klæðningar á steinhúsum þykir það ekki sjálfgefið að nota vindvörn undir klæðningarplötur og hefur þróunin á undanförnum árum verið í þá átt að klæða hús einungis með plötum. Þykir ekki nægilega sýnt fram á það í málinu að kostnaður vegna nýrrar vindvarnar muni falla á stefnanda. Að öðru leyti þykir verða að leggja matsgerð dómkvaddra matsmanna, þeirra Jóns Viðars Guðjónssonar og Magnúsar Guðjónssonar, til grundvallar ákvörðun bóta, enda hefur matsgerðinni ekki verið hnekkt.
Telur dómurinn þó að líta verði til þess að við matið er ekki tekið tillit til þess að nýtt efni kemur í stað gamals. Hefur núverandi klæðning nýst stefnanda frá 1994 er húsið var byggt eða í um það bil þriðjung þess tíma sem telja verður að gengið hafi verið út frá í upphafi að klæðningin myndi endast.
Þá ber einnig að líta til þess að í matsgerðinni er virðisaukaskattur innifalinn í öllum tilgreindum fjárhæðum en 60% virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað fæst endurgreiddur samkvæmt núgildandi skattalögum.
Í ljósi þess sem að framan er rakið þykja skaðabætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 33.000.000 króna. Krafa um dráttarvexti er tekin til greina eins og hún er fram sett.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda, Ístaki hf., að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 3.500.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til matskostnaðar. Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Arkþings ehf. fellur niður.
Dóminn kvað upp Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómendunum Ásmundi Ingvarssyni byggingaverkfræðingi og Kristni Eiríkssyni byggingaverkfræðingi.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Arkþing ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Þorragötu 5,7 og 9 húsfélags.
Stefndi, Ístak hf. greiði stefnanda, Þorragötu 5,7 og 9 húsfélagi 33.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til greiðsludags.
Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Arkþings ehf. fellur niður.
Stefndi, Ístak hf., greiði stefnanda Þorragötu 5,7 og 9 húsfélagi 3.500.000 krónur í málskostnað.