Hæstiréttur íslands

Mál nr. 444/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnkrafa
  • Litis pendens áhrif
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. desember 2001.

Nr. 444/2001.

Steintak ehf.

 

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

gegn

 

Fasteignafélaginu Vogum ehf.

 

(enginn)

 

Kærumál. Gagnkrafa. Litis pendens áhrif. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

S og F gerðu þrjá kaupsamninga um tilgreinda eignarhluta í fasteign. Af gögnum málsins varð ráðið að margháttaðar deilur hefðu risið milli aðilanna um efndir kaupsamninga þeirra. S þingfesti mál á hendur F sama dag og þingfest var gagnsök S í máli sem F hafði áður höfðað á hendur honum. Héraðsdómur vísaði máli S á hendur F frá dómi á grundvelli ákvæðis 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 með því að héraðsdómari taldi fjárkröfu S á hendur F vera þá sömu og hann hafði og myndi enn hafa uppi til skuldajafnaðar í fyrrgreindu máli F á hendur honum. Kærði S þann úrskurð. Talið var, að ekki yrði af gögnum málsins séð, að S héldi í þessu máli uppi kröfu sama efnis við þá, sem hann gerði til skuldajafnaðar í máli F á hendur honum, hvorki í heild né að hluta. Þegar af þeirri ástæðu var frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. nóvember 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar, svo og að sér verði dæmdur kærumálskostnaður. Til vara krefst hann þess að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði gerðu aðilarnir þrjá kaupsamninga 7. apríl 2000 um jafn marga nánar tilgreinda eignarhluta í fasteigninni að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði. Var sóknaraðili kaupandi eignarhlutanna, en varnaraðili seljandi. Samkvæmt samningunum átti að afhenda sóknaraðila einn eignarhlutann 1. apríl 2000 að undanskildum tveimur herbergjum, sem hann skyldi fá umráð yfir 1. maí sama árs. Annan eignarhlutann átti að afhenda 15. apríl 2000, en þann þriðja 1. næsta mánaðar. Í öllum tilvikum var sérstaklega samið um að varnaraðila bæri að greiða sóknaraðila nánar tiltekna fjárhæð í húsaleigu ef ekki yrði afhent á umsömdum tíma. Samanlagt kaupverð eignarhlutanna þriggja var 25.000.000 krónur. Af þeirri fjárhæð hafði sóknaraðili þegar greitt varnaraðila 2.000.000 krónur fyrir gerð kaupsamninganna, en sóknaraðila bar síðan að greiða samtals 13.000.000 krónur 7. apríl 2000 og var tekið fram í kaupsamningunum að hann hefði ávísað til varnaraðila þeirri fjárhæð af væntanlegu láni, sem hann fengi hjá Lífeyrissjóðnum Framsýn og tryggt yrði með veðrétti í hinni seldu fasteign á grundvelli veðleyfis frá varnaraðila. Þessu til viðbótar skyldu 6.000.000 krónur teljast greiddar með skuldajöfnuði á viðskiptakröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila, en eftirstöðvar kaupverðsins, 4.000.000 krónur, átti sá fyrrnefndi að greiða með nánar tilgreindu verki við lóð að Hvaleyrarbraut 20. Skuldbatt sóknaraðili sig til að ljúka verkinu fyrir 30. maí 2000, en greiða ella dráttarvexti af umræddum 4.000.000 krónum frá þeim degi þar til því yrði lokið. Við lok verksins skyldi sóknaraðili gefa út reikning fyrir verklaunum þeirrar fjárhæðar og kvitta fyrir fullnaðargreiðslu þeirra.

Af gögnum málsins verður ráðið að margháttaðar deilur hafa risið milli aðilanna um efndir kaupsamninga þeirra. Svo sem getið er í úrskurði héraðsdómara höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila, sem þingfest var fyrir Héraðsdómi Reykjaness 31. janúar 2001, en þar leitar varnaraðili dóms um kröfu að fjárhæð 1.500.000 krónur. Samkvæmt stefnu í því máli mun þessi krafa vera hluti kaupverðs enn eins eignarhluta í fasteigninni að Hvaleyrarbraut 22, sem aðilarnir höfðu einnig gert kaupsamning um 7. apríl 2000. Í greinargerð, sem sóknaraðili lagði fram í því máli á dómþingi 28. febrúar 2001, viðurkenndi hann þessa kröfu, en krafðist sýknu af henni vegna skuldajafnaðar. Um gagnkröfuna, sem höfð var uppi til skuldajafnaðar, vísaði sóknaraðili í greinargerð sinni til gagnsakar, sem hann þingfesti sama dag. Í gagnsökinni krafðist hann þess að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða sér 3.562.997 krónur, en tekið var fram í gagnstefnu að þessi krafa væri höfð uppi til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila í aðalsök og að öðru leyti til sjálfstæðs dóms. Eins og greint er í hinum kærða úrskurði var þessari gagnsök vísað frá dómi 6. júlí 2001.

Sóknaraðili þingfesti mál þetta 28. febrúar 2001, sama dag og áðurnefnd gagnsök var þingfest í máli varnaraðila á hendur honum. Í þessu máli krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða sér 2.009.305 krónur. Með hinum kærða úrskurði var máli þessu vísað frá dómi á grundvelli ákvæðis 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 með því að héraðsdómari taldi kröfuna, sem sóknaraðili gerir í því, vera þá sömu og hann hafði og mun enn hafa uppi til skuldajafnaðar í fyrrgreindu máli varnaraðila gegn honum.

II.

Samkvæmt gögnum málsins sundurliðar sóknaraðili kröfuna, sem hann gerir hér á hendur varnaraðila um greiðslu á 2.009.305 krónum, þannig að samtals 1.473.900 krónur séu vegna húsaleigu, sem fallið hafi til samkvæmt áðurgreindum þremur kaupsamningum aðilanna, enda hafi varnaraðili ekki afhent eignarhlutana í fasteigninni að Hvaleyrarbraut 22, sem þar um ræðir, á umsömdum tíma. Í yfirliti um þessa kröfu kemur fram að sóknaraðili krefjist leigu vegna tveggja nánar tilgreindra eignarhluta fyrir mánuðina apríl og maí 2000, en vegna allra þriggja fyrir júní, júlí og ágúst sama árs. Þessu til viðbótar krefst sóknaraðili greiðslu á 140.000 krónum í bætur vegna viðskilnaðar varnaraðila við fasteignina. Á samtölu þessara fjárhæða, 1.613.900 krónur, leggur sóknaraðili virðisaukaskatt og fær þá út fyrrnefnda heildarfjárhæð dómkröfu sinnar.

Af gögnum, sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt, verður séð að krafan að fjárhæð 3.562.997 krónur, sem hann gerði upphaflega á hendur varnaraðila í áðurgreindri gagnsök í máli þess síðastnefnda á hendur honum en hefur nú væntanlega aðeins uppi þar til skuldajafnaðar, er studd við skjal, sem ber yfirskriftina „Aukaverk: Hvaleyrarbraut 20.“ Í skjali þessu eru í 20 liðum talin upp ýmiss konar verk, auk leigu á vörulyfturum og greiðslu fyrir olíu. Í hverjum lið er sundurliðaður útreikningur á því, sem sóknaraðili krefst að fá greitt. Hvergi er í yfirliti þessu vikið að húsaleigu vegna fasteignarinnar Hvaleyrarbrautar 22. Verður heldur ekki ráðið af yfirlitinu að þar sé greint frá vinnu, sem tengst gæti fyrrnefndri bótakröfu sóknaraðila vegna viðskilnaðar varnaraðila við fasteignina að Hvaleyrarbraut 22.

Samkvæmt framangreindu verður engan veginn séð að sóknaraðili haldi í máli þessu uppi kröfu sama efnis við þá, sem hann gerir til skuldajafnaðar í máli varnaraðila á hendur sér, hvorki í heild né að hluta. Þegar af þeirri ástæðu verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðdóms Reykjaness 20. nóvember 2001.

Í þinghaldi sem dómari boðaði til 31. október 2001, af því tilefni að vegna bilunar á tæknibúnaði reyndist ekki unnt að hlusta á upptöku af aðilaskýrslum og því nauðsynlegt að endurupptaka málið og taka nýjar skýrslur af aðilum, varð hann þess var að allar líkur voru á að málið hefði við þingfestingu átt að sæta frávísun án kröfu vegna fyrirmæla í 94. gr. laga nr. 91/1991.  Eftir að málflytjendur höfðu tjáð sig um fyrirhugaða frávísun var málið tekið til úrskurðar.

Mál þetta var höfðað með stefnu útgefinni 27. febrúar 2001 og dómtekið 11. október sl.  Stefnandi er Steintak ehf., kt. 610199-2759, Mururima 5 í Reykjavík, en  stefndi er Fasteignafélagið Vogar ehf., kt. 480494-2279, Hvaleyrarbraut 20 í Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér  2.009.305 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af  145.200 krónum frá 1. maí 2000 til 1. júní s.á. en af 290.400 krónum frá þeim degi til 1. júlí s.á., af  527.100 krónum frá þeim degi til 1. ágúst s.á., af  763.800 krónum frá þeim degi til 1. september s.á., af 1.473.900 krónum frá þeim degi til 1. október s.á., af 1.613.900 krónum frá þeim degi til 31. desember s.á., en af  2009.305 krónum frá þeim degi til  1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefndi krefst málskostnaðar.

I.

Í málinu liggur fyrir að stefndi seldi stefnanda fjóra eignarhluta í fasteigninni Hvaleyrarbraut 22 í Hafnafirði þann 7. apríl 2000 sem merktir eru 0101, 0102, 0108 og 0109. Samkvæmt kaupsamningi um hluta 0101 var stefnanda afhentur hann þann 1. apríl 2000 með þeim fyirvara að stefndi hafi þar afnot tveggja herbergja til 1. maí 2000 en dragist afhending fram yfir umsamda dagsetningu skuldbatt stefndi sig til þess að greiða bætur sem svöruðu til 300 króna í mánaðarleigu fyrir hvern fermetra. Í yfirliti dagsettu 14. júlí 2000 sem stafar frá stefnanda að hans sögn er tilgreind leiguskuld vegna leigu á skrifstofum frá 1. maí 2000 en óumdeilt er að þar er átt við hluta 0101 en á hinn bóginn miðast stefnukrafa við að leigugreiðslur fyrir þennan hluta nái einnig til aprílmánaðar 2000. Samkvæmt kaupsamningi er stærð þessa hluta 179.1 fermertrar en í skjali því sem vísað er til í stefnu og kallað er afrit af yfirlitum dags. 1. september 2000 er hann sagður 180 fermetrar og upphafstími leigu aprílmánuður 2000.

Í fyrirliggjandi kaupsamningi um eignarhluta 0102 segir að sá hluti verði afhentur stefnanda 1. maí 2000 og dragist afhending fram yfir 1. maí n.k. skuldbindi stefndi sig til þess að greiða stefnanda bætur sem nemi leiguverði fyrir húsnæðið sem skuli nema 300 krónur fyrir hvern fermetra í mánaðaraleigu. Í þessum kaupsamningi segir í b-lið 3. gr. að samkomulag sé um að stefnandi inni 4.000.000 krónu greiðslu af hendi með því að framkvæma tiltekin verk á lóð Hvaleyrarbrautar 20 í Hafnarfirði og skuli því verki lokið fyrir 30. maí 2000. Vanefni stefnandi þá verkskyldu skuli hann greiða stefnda dráttarvexti af  þessum 4.000.000 króna frá 30. maí 2000 þar til verki hefur verið lokið, en við verklok skuli stefnandi gefa út reikning vegna verksins að fjárhæð 4.000.000 króna þ.m.t. vsk. og kvitta fyrir um fullnaðargreiðslu hans. Í yfirliti dagsettu 14. júlí 2000 sem stafar frá stefnanda að hans sögn er tilgreind leiguskuld vegna leigu á hluta 0102 frá 1. júlí 2000 en á hinn bóginn miðast stefnukrafa við að leigugreiðslur fyrir þennan hluta nái einnig til júnímánaðar 2000. Samkvæmt kaupsamningi er stærð þessa hluta 302,8 fermetrar en í skjali því sem vísað er til í stefnu og kallað er afrit af yfirlitum dags. 1. september 2000 er hann sagður 305 fermetrar og upphafstími leigu júnímánuður 2000.

Í fyrirliggjandi kaupsamningi um eignarhluta 0108 segir að sá hluti verði afhentur stefnanda 15. apríl 2000 og dragist afhending fram yfir 15. apríl 2000 skuldbindi stefndi sig til þess að greiða stefnanda bætur sem nemi leiguverði fyrir húsnæðið sem skuli nema 300 krónur fyrir hvern fermetra í mánaðarleigu. Í yfirliti dagsettu 14. júlí 2000 sem stafar frá stefnanda að hans sögn er tilgreind leiguskuld vegna leigu á hluta 0108 frá 1. maí 2000 en á hinn bóginn miðast stefnukrafa við að leigugreiðslur fyrir þennan hluta nái einnig til aprílmánaðar 2000 alls. Samkvæmt kaupsamningi er stærð þessa hluta 300,2 fermetrar en í skjali því sem vísað er til í stefnu og kallað er afrit af yfirlitum dags. 1. september 2000 er hann sagður 304 fermetrar og upphafstími leigu aprílmánuður 2000 þrátt fyrir að ákvæði kaupsamnings verði ekki skýrð á annan veg en að stefnandi hirði arð eignarinnar frá 15. apríl 2000.

Segir stefnandi að vegna þess að verulegur dráttur hafi orðið á því að stefndi rýmdi eignirnar hafi hann tilkynnt stefnda um hækkun leigunnar úr 300 krónum á fermetra upp í 900 krónur þann 15. júlí 2000 og þá jafnframt krafið hann um vangoldna leigu (dskj 10). Ekki verður annað ráðið af gögnum máls en að hér sé um að ræða áðurnefnt yfirlit sem dagsett er 14. júlí 2000 sem stefnandi sagði í munnlegum málflutningi að stafaði frá honum en stefndi lagði fram. Andstætt því sem stefnandi heldur fram kveðst stefndi hafa mótmælt hækkun leigunnar án tafar og hefur lagt fram afrit bréfs frá 2. ágúst 2000 því til staðfestingar. Stefnandi kveður stefnda hafa horfið af eigninni um mánaðarmótin ágúst/september án þess að hafa greitt leigu og skilað eignunum formlega. Stefndi kveðst hins vegar hafa skilað eignarhluta 0101 þann 17. ágúst 2000 og hafi lykill verið afhentur starfsmanni stefnanda, eignarhluta 0101 hafi verið skilað 26. júlí 2000 en um þann eignarhluta hafi verið gengið án þess að lyklar væru notaðir en opnað hafi verið með því að taka úr hurðaspjald og loks hafi eignar-hluta 0108 verið skilað þann 15. ágúst 2000 en sá hluta hafi staðið opinn enda hurðarlaus.  Stefndi kveðst hafa skuldað stefnanda 271.476 krónur í húsaleigu er hann skilaði síðasta eignarhlutanum til stefnanda þann 17. ágúst 2000. Þessa fjárhæð hafi stefndi ekki greitt stefnanda vegna þess að stefnandi skuldi honum mun hærri fjárhæð vegna vanefnda varðandi framkvæmdir á lóð Hvaleyrarbrautar 20 sbr. b. lið 3.gr. kaupsamnings um Hvaleyrarbraut 22, hluta 0102. Samkvæmt samningnum skuldi stefnandi stefnda dráttarvexti af  4.000.000 króna frá 30. maí 2000 og hafi sú fjárhæð verið 801.389 krónur þann 12. apríl 2000. Ekki er að sjá að yfirlýsing eða tilkynning um skuldajöfnuð hafi borist í hendur stefnanda fyrr en stefndi lagði fram greinargerð sína þann 18. apríl 2001

II.

Stefnandi reisir kröfu sína a samningsbundnum ákvæðum í samningi aðila um afnot framangreindra eigna og einhliða tilkynningu sinni frá 15. júlí 2000 um hækkun leigu úr 300 krónum í 900 krónur fyrir hvern femetra frá og með 1. ágúst 2000. Þá hefur hann krafið stefnda um greiðslu virðisaukaskatts af umkröfðu leigugjaldi. Í málinu krefst stefnandi greiðslu á 140.000 krónum vegna þess að viðskilnaður stefnda hafi verið óviðunandi og af þeim sökum hafi hann þurft að ræsta eignirnar og flytja drasl á hauga hjá Sorpu og til Furu hf. Hafi hann af þessu tilefni sent stefnda sundurliðun sem aldrei hafi verið andmælt. Í stefnu segir að stefnandi hafi gert stefnda það sem hann nefnir formlegan reikning þann 31.12 2000 að fjárhæð 2.009.305 krónur sem er stefnukrafan í málinu. Skiptist þessi reikningur að því er virðist  í tvennt, annars vegar er um að ræða leigu auk þess sem í sviga segir bætur samkvæmt kaupsamningi um Hvaleyrarbraut 22 að fjárhæð 1.613.900 krónur og hins vegar virðisaukaskatt að fjárhæð 395.405 krónur. Hefur í málflutningi stefnanda, varðandi sundurliðun kröfu, ýmist verið vísað til samantektar hans á skuld stefnda við stefnanda (dómskjals nr. 5) sem dagsett er 1. september 2000 varðandi leigu eða viðfestrar ódagsettrar sundurliðunar vegna kostnaðar varðandi viðskilnað á eignunum. Í málflutningi stefnanda kom fram að stefnda hafi verið sent frumrit reikningsins sem stefnandi hefur engu að síður lagt fram sjálfur sem dómskjal.

Stefndi kveður ekki uppi neinn ágreining um að hann hafi tekið á leigu hið umrædda húsnæði, en ágreiningur sé hins vegar um leigufjárhæð, leigutíma, bæði upphaf hans og endi auk þess sem hann mótmælir kröfu stefnanda vegna meints kostnaðar við hreinsun húsnæðisins. Þá byggir stefndi á því að lækka beri leiguna vegna þess að hann hafi ekki fengið þau afnot af eignunum sem um var samið. Stefnandi hafi fyllt lóðirnar af vélum og ýmsu drasli sem hindraði umsamin afnot.

III.

Dómari í máli þessu hefur einnig haft til meðferðar mál sem  Fasteignafélagið Vogar ehf höfðaði á hendur Steintaki ehf. og Pétri Jakobssyni með stefnu sem þingfest var þann 31. janúar 2001. Í því máli gagnstefndi Steintak ehf. þann 28. febrúar 2001 og krafðist skuldajafnaðar og sjálfstæðs dóms um afgang kröfu sinnar. Þann 6. júlí 2001 var gagnsökinni, sem sameinuð var aðalsök 28. febrúar 2001, vísað frá dómi með úrskurði vegna annmarka á málatilbúnaði. Hefur úrskurður þessi ekki verið kærður til Hæstaréttar. Eftir því sem næst verður komist byggist gagnkrafa Seintaks ehf. í því máli að hluta til á sömu kröfum og krafist er dóms um í þessu máli en í gagnstefnu segir að stefnufjárhæðin sé 3.562.997 sbr. reikninga á tilvitnuðum dómskjölum nr. 7 og 16. Dómskjal nr. 16 er svo ekki verður um villst ljósrit af reikningi þeim sem liggur til grundvallar þeirri kröfu sem nú er höfð uppi í þessu máli auk þess sem undirgögn sem vísað er til um sundurliðun eru að hluta þau sömu og verða með engu móti skilin annan veg en að um sömu kröfur sé að ræða. Gagnkröfu sína til skuldajafnaðar hafði Steintak ehf. fyrst uppi með greinargerð sinni sem lögð var fram í dómi sama dag og gagnstefnt var 28. febrúar 2001 eða sama dag og mál þetta er höfðað.  Verður því ekki hjá því komist að álykta að krafa Steintaks ehf. í máli þessu hafði þegar verið höfð uppi til skuldajafnaðar í máli nr. 204/2001 sem Fasteignafélagið Vogar ehf. hafði höfðað á hendur Steintaki ehf. þegar þetta mál var þingfest.

Lítur dómari svo á að honum beri, þegar er honum verður ljóst að málatilbúnaður er með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, að vísa máli þessu frá dómi af sjálfsdáðum með vísan til 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991.

Þá þykir rétt að stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.

Stefnandi, Steintak ehf., greiði stefnda, Fasteignafélaginu Vogum ehf. 100.000 krónur í málskostnað.