Hæstiréttur íslands

Mál nr. 628/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


Þriðjudaginn 7. október 2014.

Nr. 628/2014.

Laufey Stefánsdóttir

(Tómas Jónsson hrl.)

gegn

SPRON Factoring hf.

(Friðbjörn E. Garðarsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem bú L var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu S hf. á grundvelli 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. september 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2014 þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra er kröfulýsing varnaraðila 19. desember 2012 í þrotabú Brandis ehf., þar sem höfuðstóll lýstrar kröfu var 7.279.068 krónur, og hins vegar kröfulýsing varnaraðila sama dag í þrotabú HLC Moda ehf., þar sem höfuðstóll lýstrar kröfu var 43.036.248 krónur. Hvað seinni kröfuna varðar mun hluti kröfulýsingarinnar, 28.883.937 krónur, vera vegna veltuláns sem er máli þessu óviðkomandi. Við skipti á þrotabúum síðastgreindra einkahlutafélaga mun varnaraðili ekkert hafa fengið greitt upp í kröfur sínar. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Laufey Stefánsdóttir, greiði varnaraðila, SPRON Factoring hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2014.

Með beiðni, 5. september 2013, sem barst dóminum 10. sama mánaðar krafðist sóknaraðili, SPRON Factoring hf., kt. [...], Lágmúla 6, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Laufeyjar Stefánsdóttur, kt. [...], Reykási 1, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta með vísan til 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Við fyrirtöku beiðninnar 30. október sama ár var sótt þing af hálfu beggja aðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991. Málinu var frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu sóknaraðila og var hún lögð fram af hans hálfu í þinghaldi 19. febrúar sl. Munnlegum málflutningi var frestað í fjórgang utan réttar, m.a. vegna sáttaumleitana. Málið var að lokum tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. ágúst sl.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann máls­kostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

I

Málavextir

Með yfirlýsingu 12. desember 2009 tókst varnaraðili á hendur sjálfskuldarábyrgð, sameiginlega (in solidum) með Hilmari Finni Binder, kt. 071068-5879, gagnvart sóknaraðila vegna veltulána sem sóknaraðili hafði veitt félaginu Brandis ehf., kt. 600809-0670. Skyldi sjálfskuldarábyrgðin að hámarki nema 8.000.000 króna og ná til allra skuldbindinga áðurnefnds félags gagnvart sóknaraðila eins og þær væru á hverjum tíma, samkvæmt samningi þess við sóknaraðila um veltulán. Þá sagði að krafa sóknaraðila héldist þótt hann léti hjá líða að lýsa kröfu í þrotabú Brandis ehf. Krafa sóknaraðila á hendur félaginu nam 7.279.068 krónum 10. desember 2012. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2012 mun bú Brandis ehf. hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Með yfirlýsingu 21. janúar 2010 tókst varnaraðili jafnframt á hendur sjálfskuldarábyrgð, sameiginlega (in solidum) með áðurnefndum Hilmari Finni Binder, gagnvart sóknaraðila vegna veltulána sem sóknaraðili hafði veitt félaginu HLC Moda ehf., kt. 631009-0690. Skyldi sjálfskuldarábyrgðin að hámarki nema 50.000.000 króna og ná til allra skuldbindinga áðurnefnds félags gagnvart sóknaraðila eins og þær væru á hverjum tíma, samkvæmt samningi þess við sóknaraðila um veltulán. Þá sagði að krafa sóknaraðila héldist þótt hann léti hjá líða að lýsa kröfu í þrotabú HLC Moda ehf. Krafa sóknaraðila á hendur félaginu nam 14.152.311 krónum 10. desember 2012. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2012 mun bú HLC Moda ehf. hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Samtals nemur krafa sóknaraðila 23.637.356 krónum og sundurliðar hann hana með eftirfarandi hætti:

Höfuðstóll

21.431.379 krónur

Dráttarvextir til 05.09.2013

2.407.478 krónur

Innheimtuþóknun

770.869 krónur

Birting greiðsluáskorunar

2.500 krónur

Gjaldþrotaskiptabeiðni

25.000 krónur

Vextir af kostnaði

130 krónur

Innborgun fyrir innheimtu

-1.000.000 krónur

Samtals

23.637.356 krónur

Varnaraðila var 11. apríl 2013 birt áskorun sóknaraðila samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, þar sem skorað var á hana að greiða nú þegar skuld við sóknaraðila að fjárhæð samtals 22.301.033 krónur, eða lýsa því yfir skriflega að hún væri fær um að greiða umrædda skuld innan skamms tíma. Jafnframt var óskað eftir að tiltekið yrði hvenær og hvernig varnaraðili yrði fær um að greiða skuldina. Þá sagði þar að yfirlýsing þyrfti að berast innan þriggja vikna frá móttöku áskorunarinnar. Áskorunin er dagsett 12. mars 2013. Einnig sagði að hefði yfirlýsing ekki borist frá varnaraðila innan þriggja vikna frá birtingu áskorunarinnar yrði gerð krafa um að bú hennar yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli áðurnefnds ákvæðis laga nr. 21/1991. Sóknaraðili kveður kröfuna ekki hafa verið greidda og honum hafi ekki borist skrifleg yfirlýsing frá varnaraðila. Beiðni sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta var móttekin í héraðsdómi 10. september 2013.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili krefst gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli 5 töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili kveður greiðsluáskorun á grundvelli ákvæðisins hafi verið birta fyrir varnaraðila 11. apríl 2013. Krafan hafi ekki verið greidd og honum hafi ekki borist skrifleg yfirlýsing frá varnaraðila sem uppfylli skilyrði ákvæðisins. Þá sé ekkert sem gefi til kynna að varnaraðili sé fær um að standa í skilum við sóknaraðila nú þegar eða innan skamms. Tölvupóstur sem lögmaður varnaraðila sendi sóknaraðila 26. mars 2013, geti ekki talist uppfylla skilyrði ákvæðisins um yfirlýsingu af hálfu varnaraðila þar sem hann hafi verið sendur áður en greiðsluáskorunin var birt varnaraðila. Jafnvel þó litið væri svo á að viðbrögð varnaraðila sem fram koma í tölvupóstinum uppfylli skilyrði laganna um yfirlýsingu af hálfu skuldara verður efni hennar ekki talið samræmast ákvæði laganna. Vísar hann þar um til ummæla í athugasemdum við 17. gr. laga nr. 95/2010 sem breytti 65. gr. laga nr. 21/1991 að skuldari þurfi að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottin þegar hún falli í gjalddaga eða innan skamms tíma sé hún þegar gjaldfallin og í því felist að skuldari þarf að lýsa því skriflega yfir að efnahag hans sé ekki þannig komið að hann sé ógreiðslufær.

Óumdeilt sé að varnaraðili tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldum félaganna Brandis ehf. og HLC Moda ehf. við sóknaraðila vegna veltulána samkvæmt samningum 12. desember 2009 og 21. janúar 2010. Veltulán sóknaraðila séu kröfufjármögnun sem fari þannig fram að við útgáfu reiknings af hálfu viðskiptamanns láni sóknaraðili tiltekið hlutfall reikningsins til viðskiptamanns sem í þessum tilvikum hafi verið 80%. Þegar reikningurinn greiðist þá gangi það til lækkunar á skuldinni. Þegar reikningurinn greiðist ekki safnist upp skuld viðskiptamanns við sóknaraðila. Þannig séu skuldir áðurnefndra fyrirtækja til komnar eins og fram komi í yfirliti sóknaraðila sem liggi fyrir í málinu. Bæði félögin hafi verið úrskurðuð gjaldþrota. Heildarskuld félaganna nemi samtals 21.431.379 krónum og sé varnaraðili í sjálfskuldarábyrgð vegna skulda félaganna. Þá viðurkenni varnaraðili í tölvupósti til sóknaraðila 23. október 2013 að vera í skuld við hann. Skipti engu um þá staðreynd þótt lagðir hafi verið fram tveir víxlar, samtals að fjárhæð 5.200.000 krónur. Í fyrsta lagi séu víxlarnir ógreiddir ef frá sé talin innborgun að fjárhæð 1.000.000 króna sem tekið hafi verið tillit til við útreikning kröfu sóknaraðila og í öðru lagi dugi víxlarnir ekki til greiðslu skulda varnaraðila við sóknaraðila.

Í málinu liggi fyrir áskorun á hendur varnaraðila um að lýsa því yfir að hún sé fær um að greiða skuld sína við sóknaraðila í samræmi við 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Áskorunin hafi verið birt varnaraðila 11. apríl 2013. Varnaraðili hafi ekki sinnt áskoruninni og geti sóknaraðili því krafist gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila í samræmi við 2. mgr. 65. gr. laganna.

Sóknaraðili hafnar því að sýna þurfi fram á í málum sem þessum hver krafa hans sé nákvæmlega í krónutölu heldur nægi að sýna fram á að hann eigi fjárkröfu á hendur skuldara. Vísar sóknaraðili um þetta til dóms Hæstaréttar frá 13. febrúar 2014 í máli nr. 15/2014. Þá hafnar sóknaraðili því einnig að greiðsluáskorun sú sem liggur til grundvallar kröfu hans í málinu sé of gömul. Vísar hann þar um til dóms Hæstaréttar frá 18. nóvember 2011 í máli nr. 601/2011 þar sem sex mánuðir liðu frá því greiðsluáskorun var birt skuldara og þar til beiðni um gjaldþrotaskipti á búi hans barst héraðsdómi. Í málinu nú sé um enn skemmri tíma að ræða eða fimm mánuði.

Sóknaraðili telur því ljóst að skilyrði til gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila sem áskilin séu í lögum nr. 21/1991 séu uppfyllt, bæði hvað varðar þá kröfu að skuld sé til staðar og sönnun um ógjaldfærni varnaraðila. Gögn málsins styðji að varnaraðili hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldum varnaraðila sem sannarlega séu til staðar samkvæmt þeim yfirlitum sem fyrir liggi í málinu. Þá hafi á engan hátt verið sýnt fram á gjaldfærni varnaraðila.

Þá mótmælir sóknaraðili sérstaklega málskostnaðarkröfu varnaraðila. Málskostnaður sé ekki virðisaukaskattskyldur og því engar forsendur til að krefjast virðisaukaskatts á dæmdan málskostnað.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir á því að skilyrðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, til þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, sé ekki fullnægt og krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Vísar varnaraðili til þess að svo mögulegt sé að ná fram gjaldþrotaskiptum á búi aðila gegn vilja hans verði annars vegar að vera til staðar raunveruleg skuld, þ.e. að fyrir liggi með óyggjandi hætti að hann skuldi þeim er skiptanna krefst fjármuni sem ekki hafi fengist greiddir, hins vegar óræk sönnun um ógjaldfærni aðilans. Um sé að ræða ófrávíkjanleg grunnskilyrði fyrir töku bús til gjaldþrotaskipta. Hvorugt þessara skilyrða séu uppfyllt í þessu máli.

Varnaraðili hafnar því að vera í skuld við sóknaraðila. Sóknaraðili byggi kröfu sína á ábyrgð varnaraðila á skuldum fyrirtækjanna Brandis ehf. og HLC Moda ehf. við sóknaraðila. Mótmælir varnaraðili því að félögin standi í skuld við sóknaraðila enda hafi ekki verið lögð fram nein sönnunargögn um slíkar skuldir.

Félögin hafi bæði verið úrskurðuð gjaldþrota en sóknaraðili leggi ekki fram neina kröfulýsingu til sönnunar á skuldum þeirra við sig, sem varnaraðili geti borið ábyrgð á. Hann leggi eingöngu fram illskiljanleg og óstaðfest yfirlit á erlendu tungumáli og sé sönnunargildi þeirra harðlega mótmælt. Framlagning yfirlitanna samræmist ekki 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Enginn dómur hafi gengið um kröfu sóknaraðila og ekki dugi að vísa til þess að félögin hafi á einhverjum tímapunkti staðið í skuld við sóknaraðila. Fyrir utan það að yfirlitin hafi ekki sönnunargildi þá séu þau augljóslega röng. Raunveruleg lánsfjárhæð til félaganna tveggja komi ekki fram á yfirlitunum heldur eingöngu þeir reikningar sem sóknaaðili gaf út til félaganna. Ósannað sé að sóknaraðili sé kröfuhafi og ósannað að varnaraðili sé skuldari. Sóknaraðili verði að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að skuld sé fyrir hendi. En jafnvel þó talið væri að skuld væri fyrir hendi séu fjárhæðir mjög á reiki. Telur varnaraðili að hafna beri gjaldþrotaskiptum af þessum sökum og vísar þar um til dóms Hæstaréttar frá 15. júní 2012 í máli nr. 389/2012.

Rétt sé að félögin hafi gert samninga um veltulán við sóknaraðila sem gengu þannig fyrir sig að þau lögðu reikninga til innheimtu hjá sóknaraðila og fengu lánað tiltekið hlutfall þeirra sem hafi verið með veð í reikningunum. Lánsfjárhæðin hafi verið þannig fundin að sóknaraðili hafi fyrst fundið út hvað hann vildi lána að hámarki út á reikningana. Væntanlega hafi hann miðað við áhættu og áætlaða greiðslugetu hvers greiðanda. Þetta hlutfall af reikningunum hafi verið nefnt „lánahámark“. Síðan hafi sóknaraðili lánað félögunum 80% af þeirri upphæð. Sóknaraðili hafi síðan annast innheimtu reikninganna og hafi andvirði þeirra runnið fyrst inn á skuldir félaganna við sóknaraðila. Þrátt fyrir að það geti einungis verið raunveruleg lánsupphæð til félaganna sem varnaraðili geti verið í ábyrgð byggi gjaldþrotaskiptabeiðni sóknaraðila á heildarupphæð útistandandi reikninga sem sóknaraðili innheimti fyrir félögin. Á þessum upphæðum sé gríðarlegur munur og hafi sóknaraðila margsinnis verið bent á þennan misskilning, án árangurs.

Í janúar 2013 hafi sóknaraðili sent yfirlit yfir framangreind lánahámörk félaganna. Samkvæmt því hafi skuld HLC Moda ehf. við sóknaraðila á þessum tíma einungis numið 8.520.000 krónum (80% af 10.650.000) og skuld Brandis ehf. 6.000.000 króna (80% af 7.500.000). Skjalið sé óstaðfest og sé sönnunargildi þess mótmælt nema að því leyti sem það er til hagsbóta fyrir varnaraðila. Skjalið sýni að fjárhæð skuldanna geti í mesta lagið numið upphæð sem sé mun lægri en sóknaraðili byggi á í gjaldþrotaskiptabeiðni sinni. Þá sé athyglisvert að raunveruleg lánsfjárhæð til félaganna komi ekki fram með beinum hætt á yfirlitinu heldur sé aðeins nefnt „lánahámark“ o.fl., upplýsingar, þ. á m. „staða greiðanda“ sem sé heildarupphæð reikninga sem séu í innheimtu fyrir félagið. Sóknaraðili leggi ekki fram nein gögn um hvaða upphæðir hann lánaði til félaganna og sé öllum tölulegum upplýsingum sóknaraðila mótmælt sem ósönnuðum. Ekki séu heldur lögð fram nein yfirlit eða upplýsingar um greiðslur á innlögðum reikningum félaganna, og hljóti varnaraðili að bera allan halla af skorti á upplýsingum og sönnunum að þessu leyti. Hann hafi átt að annast innheimtu reikninganna og hafi verið í lófa lagið að upplýsa um árangur innheimtunnar.

Þá nefni sóknaraðili ekki að hann hafi 1. mars 2012 fengið afhenta tvo víxla, samtals að fjáræð 5.200.000 krónur, sem greiðslu upp í skuld félaganna. Víxlarnir séu útefnir af Ingibjörgu Þorvaldsdóttur 2. mars 2012 en samþykktir til greiðslu af I og J ehf. 5. júní og 5. ágúst 2012. Sveinn Alfreð Reynisson hafi tekið við víxlunum fyrir hönd sóknaraðila og liggi afrit þeirra fyrir í málinu.

Til marks um ónákvæmni í málatilbúnaði og gögnum sóknaraðila megi loks nefna að hann geri ekki grein fyrir tryggingarfé sem lagt hafi verið fram í upphafi viðskiptanna, samtals 1.000.000 króna eins og fram komi í samningunum.

Þá andmælir varnaraðili því að fyrir liggi sönnun um eignaleysi hans eða ógjaldfærni, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi ítrekað mótmælt meintri skuld við sóknaraðila. Hún hafi lengi verið til umfjöllunar á milli aðila frá 14. til 26. mars 2013 eins og sjá megi af tölvupóstssamskiptum aðila. Þar hafi borist í tal greiðsluáskorun sú sem sóknaraðili byggi mál sitt á. Áskorunin sé gefin út 12. mars 2013 en birt 11. apríl sama ár. Henni sé þannig svarað í niðurlagi tölvupósts frá 26. mars 2013: „Sem svar við nefndri greiðsluáskorun sem send var, munu umbjóðendur mínir að sjálfsögðu standa skil á öllum þeim kröfum sem gjaldfallnar eru og þeim ber með réttu að greiða.“ Með tölvupósti lögmanns varnaraðila 30. október sama ár, séu framangreind sjónarmið áréttuð.

Varnaraðili telur því að ekki verði séð að skilyrði 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991séu uppfyllt sem grundvöllur gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila. Í öllu falli sé á því byggt að réttur til þess að nota umrædda áskorun sem grundvöll gjaldþrotaskipta sé fallinn niður þar sem sóknaraðili lagði gjaldþrotaskiptabeiðni ekki fram fyrr en liðnir voru nær fimm mánuðir frá birtingu hennar. Sönnunarbyrði hvíli öll á sóknaraðila sem ekki hafi tekist að færa fram sönnun fyrir meintu eignaleysi eða ógjaldfærni varnaraðila.

Varnaraðili vísar til laga nr. 21/1991, einkum til 7. gr., 65. gr. og 66. gr. Einnig vísar varnaraðili til meginreglna laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um sönnun. Krafa varnaraðila um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og er gerð krafa um 25,5% virðisaukaskatt á dæmdan málskostnað.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst sóknaraðili gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kveður hann kröfu sína byggjast á sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingum varnaraðila vegna veltulána tveggja félaga sem varnaraðili hafi verið í forsvari fyrir. Varnaraðila hafi verið birt greiðsluáskorun 11. apríl 2013 á grundvelli áðurnefnds ákvæðis laga nr. 21/1991 en við henni hafi ekki verið brugðist eins og áskilið sé í ákvæðinu. Varnaraðili telur sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á að hann standi í skuld við sóknaraðila auk þess sem hann kveðst hafa brugðist með fullnægjandi hætti við greiðsluáskorun sóknaraðila. Telur varnaraðili skilyrðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti því ekki vera fullnægt.

Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að tilteknum skilyrðum uppfylltum sem nánar er kveðið á um í 1.–5. tölulið málsgreinarinnar. Frumskilyrði er þó að sá sem krefst gjaldþrotaskipta eigi lögvarða kröfu á hendur skuldara.

Meðal gagna málsins eru samningar félaganna Brandis ehf. frá 12. desember 2009 og HLC Moda ehf. frá 21. janúar 2010 um veltulán með veði í reikningum félaganna. Þá liggja fyrir afrit sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsinga varnaraðila frá 12. desember 2009 og 21. janúar 2010. Samkvæmt reikningsyfirlitum sem lögð hafa verið fram í málinu liggur fyrir að félögin tvö voru í skuld við sóknaðila. Ekki verður fallist á þau sjónarmið varnaraðila að framlagning reikningsyfirlitanna sé í andstöðu við 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ljóst má vera af efni þeirra að um er að ræða yfirlit yfir færslur og stöður á reikningum félaganna Brandis ehf. og HLC Moda ehf. og skuldum þeirra við sóknaraðila í samræmi við áðurnefnda samninga um veltulán. Nam skuld fyrrnefnda félagsins 10. október 2012 7.279.067,94 krónum en þess síðarnefnda 14.152.311,44 krónum. Voru skuldir félaganna við sóknaraðila að höfuðstól 21.431.379,38 krónur sem er höfuðstólsfjárhæð þeirrar kröfu er tilgreind er í áskorun sóknaraðila, sem birt var fyrir varnaraðila 11. apríl 2013, og í gjaldþrotabeiðni sóknaraðila. Óumdeilt er að varnaraðili tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð gagnvart sóknaraðila vegna skulda félaganna tveggja á veltulánum. Ekki verður annað séð en að skuldir félaganna rúmist innan þeirrar sjálfskuldarábyrgðar. Samkvæmt framansögðu þykja nægjanleg rök hafa verið færð fram fyrir því að sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila sem hann reisir kröfu sína um gjaldþrotaskipti á og hefur því ekki verið hnekkt af hálfu varnaraðila.

Sóknaraðili beindi áskorun til varnaraðila samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Ákvæðið er sérregla sem tekin var upp í lög nr. 21/1991 til að auðvelda lánardrottni að knýja fram gjaldþrotaskipti á búi skuldara. Kjósi lánardrottinn að neyta þessa úrræðis verður hann í hvívetna að fullnægja þeim skilyrðum sem þar eru sett og einnig hvílir sú skylda á skuldara að bregðast við greiðsluáskorun lánardrottins með fullnægjandi hætti. Umrædd greiðsluáskorun varnaraðila var birt sóknaraðila 11. apríl 2013. Var þar skorað á varnaraðila að greiða nú þegar skuld við sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð 21.431.379 krónur en samtals fjárhæð 22.301.033 krónur með dráttarvöxtum auk innheimtuþóknunar og að teknu tilliti til 1.000.000 króna innborgunar fyrir innheimtu eða lýsa því yfir skriflega að hún væri fær um að greiða umrædda skuld innan skamms tíma. Jafnframt var óskað eftir að tiltekið yrði hvenær og hvernig varnaraðili yrði fær um að greiða skuldina. Þá sagði þar að yfirlýsing þyrfti að berast innan þriggja vikna frá móttöku áskorunarinnar en hefði slík yfirlýsing ekki borist frá varnaraðila innan þriggja vikna frá birtingu áskorunarinnar yrði gerð krafa um að bú hennar yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli áðurnefnds ákvæðis laga nr. 21/1991. Ljóst er af gögnum málsins að skömmu áður, eða á tímabilinu frá 14. til 26. mars, voru aðilar í samskiptum vegna ýmissa skulda félaga sem varnaraðili var í forsvari fyrir og hugsanlegs uppgjörs þeirra. Þrátt fyrir að í tölvusamskiptum frá 26. mars 2013 komi fram af hálfu lögmanns varnaraðila að umbjóðandi hans myndi standi skil á öllum gjaldföllnum kröfum og þeim kröfum sem honum beri með réttu að greiða verður því ekki jafnað til formlegra viðbragða af hálfu skuldara í tilefni af birtingu greiðsluáskorunar lánardrottins lögum samkvæmt. Verður því að líta svo á að varnaraðili hafi ekki brugðist við áskorun sóknaraðila á þann hátt sem kveðið er á um í 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt upphafsákvæði 2. mgr. 65. gr. laganna á skuldari þess kost að verjast kröfu um gjaldþrotaskipti með því að sýna fram á að hann geti, þrátt fyrir röksemdir lánardrottins, staðið í fullum skilum með skuldbindingar sínar þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms. Varnaraðili hefur í málinu enga tilraun gert til að færa sönnur á að hann sé gjaldfær í skilningi ákvæðisins. Verður krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila því tekin til greina.

Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal varnaraðili greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. maí sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Bú varnaraðila, Laufeyjar Stefánsdóttur, kt. [...], Reykási 1, Reykjavík, er tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, SPRON Factoring hf., 200.000 krónur í málskostnað.