Hæstiréttur íslands

Mál nr. 73/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísun frá Hæstarétti
  • Aðild


 

Fimmtudaginn 9. febrúar 2012.

Nr. 73/2012.

A

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

B og

C

(enginn)

 

Kærumál. Aðild. Frávísun frá Hæstarétti.

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kveðið var á um að málið yrði ekki rekið nema tveimur nafngreindum aðilum yrði stefnt í því auk B og C. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem heimild brast til að kæra úrskurðinn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2012, þar sem kveðið var á um að málið yrði ekki rekið nema tveimur nafngreindum einstaklingum yrði stefnt í því auk varnaraðila. Um kæruheimild er vísað til j. liðar 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 12. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar „með óbreyttri aðild.“ Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt til að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms um að máli sé vísað frá dómi. Svo var ekki gert með  hinum kærða úrskurði, heldur var þar kveðið á um að málið yrði ekki rekið nema stefnt yrði til viðbótar tveimur nafngreindum lögerfingjum þess manns sem sóknaraðili leitar dóms um að sé faðir sinn og þeim „gefinn kostur á að gæta réttar síns“. Því til stuðnings var vísað til 2. mgr. 10. gr. barnalaga, þar sem mælt er fyrir um að sé maður látinn áður en mál er höfðað megi höfða það á hendur þeim lögerfingja hans sem gengi barninu jafnhliða eða næst að erfðum. Fyrir liggur í málinu að maður sá, er sóknaraðili krefst að verði dæmdur faðir sinn, var látinn áður en það var höfðað.

Með því að í hinum kærða úrskurði var ekki kveðið á um frávísun málsins brestur heimild til að kæra hann. Verður málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Það athugast að héraðsdómara bar að réttu lagi samkvæmt ákvæðum 1. mgr., sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að leysa úr því með rökstuddum úrskurði í samræmi við 3. og 4. mgr. 112. gr. laganna hvort það varðaði frávísun málsins að fyrrgreindum einstaklingum væri ekki stefnt í því.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2012.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 má höfða mál á hendur þeim lögerfingja látins meints föður sem gengi barninu jafnhliða eða næst að erfðum. Verður að skýra greinina svo að sé um fleiri en einn lögerfingja að ræða sem gengur jafnhliða barninu eða næst að erfðum verði að stefna þeim öllum.  Með því að fyrir liggur að hinn látni átti auk stefndu í máli þessu tvær dætur sem búsettar eru í Noregi og myndu því ganga stefnanda og stefndu jafnhliða að erfðum, reynist hinn látni faðir stefnanda, verður mál þetta ekki rekið án þess að þeim verði stefnt og gefinn kostur á að gæta réttar síns í máli þessu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Mál þetta verður ekki rekið nema dætrum hins látna D og E verði stefnt inn í málið og gefinn kostur á að gæta réttar síns.